150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[13:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar svolítið að segja eins og maður segir á sumum fundum, að ég sé kominn til að hlusta. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki velt mjög mikið fyrir mér nákvæmlega þessari útfærslu, að taka fasteignagjöld af landi frekar en byggingum sem hv. þingmaður nefndi áðan. Hins vegar finnst mér segja sig sjálft í skattheimtu almennt að hún þarf að byggja á sem réttustum gögnum. Ef það liggur fyrir að gögn séu ónákvæm eða röng er alveg sjálfstæð ástæða til að doka við í það minnsta. Sömuleiðis myndi ég hafa áhyggjur af þeim vandamálum sem hæstv. ráðherra nefndi í svari sínu. Hins vegar velti ég oft fyrir mér þessari umræðu í sambandi við eignarhald á landi. Mér finnst hún stundum fara aðeins of geyst. Mér finnst fólk oft fara að tala um niðurstöðu sína og skoðun áður en það er búið að færa nokkur rök eða útskýra nákvæmlega hvaða áhyggjur fólk hefur og þá sér í lagi þegar kemur að því að útlendingar kaupi land. Þá verða margir óskaplega skelkaðir af einhverjum ástæðum.

Ég get vel skilið viljann til að hafa takmarkanir á því hversu mikið land ákveðinn aðili má eiga. Við megum samt ekki falla í þá gildru að halda að með því að selja einhverjum land eða að við það að einhver kaupi land hætti lögsaga Íslands að gilda þar. Það er áfram Ísland, hvort sem það er Íslendingur eða útlendingur sem á landið. Það er einhver sem á landið.

Ég segi fyrir sjálfan mig að ég finn ekki sjálfkrafa til meiri vinskapar landeigenda sem eru með íslenskt vegabréf en landeigenda sem eru með erlent vegabréf. Mér finnst það ekki koma málinu við. Þetta er tilfinningamál sem oft hendir fólki út í niðurstöðu áður en það er búið að rökræða málið til enda.

Jafnvel þegar við tölum um takmarkanir á landeign og þess háttar þurfum við líka að útskýra fyrir fram nákvæmlega hvaða markmiðum við erum að reyna að ná. Er það bara til að sefa einhverja óþægindatilfinningu? Það eru ekki góð rök. Er það til að stuðla að jöfnuði? Það eru rök, en þá þarf líka að segja það upphátt, ekki bara fara strax í niðurstöðuna heldur segja hvað það er sem fólk hefur áhyggjur af og hvers vegna það vill leysa vandamál, (Forseti hringir.) ef það er til staðar, með því sem það leggur til.