150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[13:56]
Horfa

Una Hildardóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Við könnumst öll við borðspilið Monopoly, spilið sem snýst um fasteignabrask. Margar fjölskyldur spila það um jólin en aðrar fjölskyldur forðast það eins og heitan eldinn. Má þá nefna t.d. vinsæla flökkusögu um að Elísabet Englandsdrottning hafi bannað konungsfjölskyldunni að spila hið umrædda spil vegna þess að það sauð alltaf upp úr þegar þessi prúða fjölskylda kom saman og fór að keppa í fasteignabraski.

Það var nafna drottningarinnar, Elizabeth Magie, sem fann upp þetta umdeilda borðspil í byrjun 20. aldar og gerði það til að sýna fram á ójöfnuð samfélagsins. Spilinu fylgdu tvö sett af reglum, annars vegar hagsældarreglur þar sem hver einasti leikmaður græddi þegar einhverjum leikmanni áskotnaðist fasteign. Samkvæmt þeim reglum unnu allir leikmenn. Hinar reglurnar þekkjum við vel, hinar venjulegu reglur Monopoly-spilsins þar sem sá sem vinnur getur gert alla hina gjaldþrota.

Lóðagjöld í stað fasteignagjalda tryggja að við spilum eftir hinum réttlátu reglum Elizabethar Magie. Í stað þess að Monopoly-karlinn greiði skatta af fasteignamatinu á hótelinu sem hann byggði greiðir hann skatt af virði lóðarinnar, en slíkt er bæði réttlátara og hagkvæmara frá sjónarhóli hagfræðinnar. Fjárfestir sem byggir jafn dýrt hótel við Hörpu og í Grafarholti greiðir í dag svipuð gjöld af eignunum en það er virði lóðarinnar við Hörpu sem skapar verðmætið. Lóðin við Hörpu er verðmæt vegna þess að samfélagið hefur fjárfest í kringum staðsetningu Hörpu í samgöngum o.s.frv. Með því að nota réttlátu regluna úr Monopoly-spilinu græðir samfélagið allt. Til verður skattlagning á rentu í stað skattlagningar á fjárfestingu.