150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[14:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og þeim þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni. Það er rétt að hún hefur farið svolítið út um víðan völl og sá augljósi misskilningur hefur verið hér á ferð að lagt sé til að auka álögur á bændur, bara svo það sé sagt strax í upphafi. Ég sagði í ræðu minni að það væri augljóst að það yrði að ráðast í greiningu á áhrifum, hvernig dreifingin yrði og hvernig hún kæmi út. Ég talaði líka um að gagnagrunnar væru ekki til staðar og í lagi, eins og hæstv. ráðherra kom svo inn á, og það er eitt af því sem við þurfum að drífa í að gera, enda upprunnið frá landnámi eins og ráðherra sagði. Það þarf að gera lagabreytingu vegna þessa.

Ég sagði að það yrði gert þannig að sveitarfélögunum yrði færð heimild til að leggja lægri lóðagjöld á jarðir sem eru skilgreint landbúnaðarland í deiliskipulagi sveitarfélaga fremur en að létta álögum af þeim sem kaupa upp jarðir en nýta þær ekki til landbúnaðar. Ég ítreka þetta sjónarmið vegna þess misskilnings sem mér hefur fundist vera hér.

Er hægt að mismuna í kerfinu? Það er víða gert, bæði á Íslandi og svo höfum við oft talað um að í Norður-Noregi eru aðrir hvatar en í Ósló eða þéttari byggðum þannig að það er alveg hægt að útfæra kerfið.

Núverandi fyrirkomulag fasteignaskatts er mjög flókið en hann er mikilvægur tekjustofn fyrir sveitarfélög. Hann er með þremur álagsprósentum og sveitarfélög geta hækkað hana um allt að 25% þannig að það er svolítið undir sveitarfélögunum komið á hverjum tíma. Ég hef þá trú að með réttri útfærslu dragi þessi leið úr hvötum til að safna jörðum þannig að þær jarðir sem eru í ábúð, þar sem er búskapur, komi til með að bera lægri skattprósentu (Forseti hringir.) frekar en þær sem standa auðar með sumarhúsum auðmanna eða eru t.d. leigðar í gegnum Airbnb. Ég vona að menn hafi áttað sig á því um hvað þessi umræða snýst.