131. löggjafarþing — 30. fundur
 15. nóvember 2004.
athugasemdir um störf þingsins.

Afleiðingar verkfalls kennara.

[15:03]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eftir átta vikna verkfall er starfsemin í grunnskólum landsins í uppnámi. Áhrif deilunnar verða langvarandi á allt innra starf skólanna, áhrif sem geta varað um langt árabil og verða seint upp unnin að fullu, áhrif sem bitna á börnunum og skólagöngu þeirra tíu árganga sem nú verma bekki grunnskólans. Kennararnir ganga kúskaðir og svínbeygðir til starfa, samningsrétturinn tekinn af þeim með lagasetningu sem í 3. gr. skipar gerðardómi fyrir um að ekki megi jafna kjör grunnskólakennaranna til jafns við kjör framhaldsskólakennara. Skilaboðin eru reiðarslag fyrir kennarastéttina. Stéttin finnur sig niðurlægða eftir langa deilu sem lauk með lagasetningu, og hljóta áhrifin á það viðkvæma og mikilvæga starf sem stéttin vinnur að verða veruleg auk þess gríðarlega taps sem orðið hefur á skóladögum. Um 1,5 milljónir skóladaga hefur nú glatast í íslenskum grunnskólum á þessu eina hausti. Atgervisflótti getur blasað við í stéttinni með verulega alvarlegum afleiðingum fyrir menntunina í landinu.

Hvernig á að mæta afleiðingum verkfallsins var ekki hluti af lagasetningu en hæstv. forsætisráðherra gaf til kynna í umræðum í síðustu viku að málið hefði verið rætt í ríkisstjórn og að hæstv. menntamálaráðherra mundi síðar greina frá því. Vandséð er hvernig börnunum verður bættur skaðinn en þeim skaða verður að mæta með öllum tiltækum ráðum. Það er á ábyrgð hæstv. menntamálaráðherra að leggja til samræmdar tillögur til að mæta þeim afleiðingum og skaða verkfallsins á skólagöngu barnanna í landinu.

Því spyr ég hæstv. menntamálaráðherra hvort hún hyggist beina til sveitarfélaganna tillögum að samræmdum aðgerðum til að bæta börnunum skaðann sem orðið hefur á námi þeirra og skólagöngu vegna hinna langvarandi kjaradeilu. Mun hæstv. ráðherra ræða afleiðingar verkfallsins fyrir menntun barnanna í ríkisstjórn og mun ráðherrann leggja til samræmdar aðgerðir við sveitarfélögin í landinu til að mæta afleiðingum verkfallsins á skólagöngu barnanna?

Þessum spurningum verður að svara mjög skýrt um leið og menn hljóta að leggjast á þær árar að koma skólastarfi landsins í samt lag aftur.



[15:05]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir það síðasta sem kom fram hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, þ.e. að við eigum að einhenda okkur í það að reyna að koma skólastarfi landsins í samt horf. En það er rétt sem hefur komið fram, m.a. í máli hæstv. forsætisráðherra, að ég hef tekið upp það mál innan ríkisstjórnar hvernig eigi að koma til móts við þá lagagrein sem kveður á um að börnin okkar eigi rétt á 170 dögum í skóla.

Ég hef þegar sett mig í samband við Samband íslenskra sveitarfélaga og það er ekki þannig að ráðuneytið muni koma með einhliða aðgerðir eða boðvald heldur munum við að sjálfsögðu vinna að málinu í mikilli samvinnu við sveitarfélögin og fræðsluyfirvöld hvar sem er á landinu, og auðvitað með að meginmarkmiði að börnin fái það sem lögin okkar kveða á um, að reyna að mæta því eins og kostur er.

Verkfallið hefur verið langt og þess vegna er afar erfitt að ná þessum 170 dögum saman. Það kann líka að vera, eins og hefur tíðkast þegar samningar nást, að ef deiluaðilar ná saman síðar í vikunni verði hægt að taka þetta upp innan samninga eins og hefur oft verið. Þetta allt munum við að sjálfsögðu líta á en vinnan er hafin til þess að fara vel yfir það hvernig við ætlum að bæta börnunum okkar þetta verkfall og þann tíma sem þau hafa glatað úr skólanum. Um leið vil ég geta þess að ég hef frestað samræmdum prófum, könnunarprófunum sem eru haldin fyrir 4. og 7. bekk og áttu að vera haldin 14. og 15. október.



[15:07]
Pétur Bjarnason (Fl):

Virðulegi forseti. Enn er ástandið nánast óbærilegt og það er komið á daginn sem varað var við í umræðunum fyrir helgi að sú lausn sem gripið var til dygði ekki til að skapa vinnufrið í skólunum. Enn er málið óleyst og enn er það í hnút.

Ítrekað hefur verið leitað til tveggja ráðherra út af málinu og lausnirnar hafa ekki verið — eins og við í stjórnarandstöðu vöruðum við — nægilega góðar til þess að hægt væri að búast við því að menn sem voru búnir að vera í verkfalli svo lengi mættu til starfa án þess að fá uppbætur. Nú bendi ég á að þetta mál er að sjálfsögðu í höndum viðsemjenda kennara, þ.e. sveitarfélaganna, og ég beini þeim eindregnu áskorunum til þingmanna, hvar í flokki sem þeir standa, að beita sér gagnvart þeim sem starfa í umboði þeirra, umboði stjórnmálaflokkanna í sveitarstjórnum, til þess að þetta mál verði leyst. Það er óþolandi að skólastarf sé lengur í uppnámi. Ég vil benda á að þrátt fyrir góðan vilja hæstv. menntamálaráðherra til að bæta upp það sem tapast hefur, og sem ég þakka fyrir, verðum við að hafa í huga að vinnuþol nemenda er takmarkað. Nemendur eru ekki eitthvert ílát sem hægt er að troða í þangað til út úr flæðir. Það verður að gæta þess að því lengri sem tíminn verður, þeim mun erfiðara verður að bæta þeim hann upp. Kannski er orðið of langt um liðið til að skaðinn verður bættur, a.m.k. ekki á einum vetri. Þetta þarf að hafa í huga.

Ég vil ítreka það og beina til allra flokka hér að menn beiti áhrifum sínum í sveitarstjórnum landsins til að þetta verði leyst hið allra fyrsta þar sem lagasetning sú sem gerð var nú fyrir helgi dugði ekki til, og það sýndi sig.



[15:10]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ljóst er að aðgerðir ríkisstjórnarflokkanna hafa ekki skapað þann frið og þá lausn sem menn væntu í þessari erfiðu kjaradeilu sem var. Kennurum finnst þessi lagasetning ekkert annað en óvirðing við sig sem hún og er. Hæstv. ráðherra menntamála hefur ekki tekið upp hanskann fyrir kennara og frekar talað niður til þeirra ef eitthvað er.

Aðgerðirnar í dag finnast mér vera táknræn mótmæli kennara sem hafa skapast í samræðum óánægðra kennara, vonsvikinna kennara sem eru í sjokki eftir átta vikna verkfall og lagasetninguna á laugardaginn. Þar að auki, virðulegi forseti, virðast mér — og það er kannski alvarlegast — kennarar vera nokkurs konar leiksoppar í kjaradeilu ríkis og sveitarfélaga þar sem forsvarsmenn sveitarfélaganna í landinu hafa ekki staðið sig í kjarabaráttu sveitarfélaga við ríkisvaldið. Það er kannski vegna pólitískra tengsla forustumannanna við ríkisstjórn sem það hefur ekki tekist. (Gripið fram í: ... borgarstjórnin í Reykjavík ...)

Það kemur stundum upp í huga minn, virðulegi forseti, að þetta verkfall hafi hálfpartinn verið notað í þeirri baráttu. Ég á þá ósk heitasta að eðlilegt, jafngott og öflugt skólastarf hefjist aftur á morgun. Ég er líka þess fullviss að fjölmargir foreldrar hafa skilning á því hvernig málið snýr við kennurum í dag eftir þá lagasetningu sem gerð var, með ágætum markmiðum um viðmið við framhaldsskólakennara en með hand- og fótjárnum. Það er skiljanlegt að þeir sem hafa verið í átta vikna verkfalli í kjarabaráttu séu í hálfgerðu sjokki eftir það sem hér gerðist á laugardaginn.



[15:12]
forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég vænti þess að allir hv. þm. geti sammælst um að þetta mál verði best leyst með því að fara að lögum, í þessu máli sem öðrum. Það liggur fyrir að Alþingi Íslendinga hefur sett ramma um málið. Það kann að vera að ekki líki öllum þau lög en það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að allir virði lög í landinu. Enginn hefur tekið umboð af samningsnefndunum. Þær halda því. Þær eru að ræða saman. Í gærkvöldi kom fram tilboð hjá ríkissáttasemjara um að greiða bæði eingreiðslu og byrjunarhækkun. Þetta mál verður ekki leyst nema á grundvelli laga og ég vænti þess að allir hv. þm. geti hvatt deiluaðila til þess að starfið í skólunum hefjist og að farið verði að þeim lögum sem hafa verið sett í landinu.



[15:13]
Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Lög á kjaradeilur eru algert neyðarúrræði. Því neyðarúrræði var beitt hér sl. laugardag með þó þeim hætti að aðilar geta talað saman. Frekar góðar fréttir komu úr Karphúsinu í gærkvöldi þannig að við skulum gefa þessu séns.

Hvað kemur svo stjórnarandstaðan með, vinstri flokkarnir? Jú, oddvitar þeirra koma með það að þeir vilja láta ríkið setja meiri fjármuni til sveitarfélaganna. Það er af hinu góða, og ég er sammála því. (Gripið fram í.) En þeir vilja það eingöngu vegna þessarar deilu. Hækka laun kennara nógu mikið þannig að þeir séu ánægðir, og hvað svo með leikskólakennarana? Og hvað síðan með hv. þm. Ögmund Jónasson? Hann er hér með uppglennt augu núna. Hvað svo með það? Á að koma sérfjárveiting vegna þess? Hvað á svo að gera þegar búið verður að hækka launin upp úr öllu valdi, umfram aðra í þjóðfélaginu? Þá kemur víxlverkun verðlags og launa, og verðbólga. Launin hækka rétt til að byrja með og síðan minnkar kaupmátturinn. Það verður kjararýrnun. Er þetta eitthvert vit?

Ég hef ekki heyrt neina lausn frá stjórnarandstöðunni í þessu máli á neinum vitrænum nótum. Þetta er hið eina, að ríkið eigi að koma með meiri fjármuni til að greiða hærri laun. Ekki bara kennurunum, væntanlega öllum opinberum starfsmönnum. Hvað svo með aðra sem þegar eru búnir að semja? Þetta er óábyrgt tal. En við skulum vona að í vikunni geti þessi deila leyst, sem er orðin mjög alvarlegt mál og aðallega fyrir börnin. Hvað með foreldrana sem greiða skatt til sveitarfélaganna, eiga þeir rétt á að fá endurgreitt, eða hvað, af því að þeir fá ekki þjónustu fyrir börnin sín?



[15:15]
Sigurlín Margrét Sigurðardóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Í morgun fór ég með börnin mín tvö í skólann og þau hlökkuðu óskaplega til eftir langt hlé og stopult nám á þessari önn. Sú tilhlökkun varði þó ekki lengi því að innan hálftíma var annað barnið komið heim og með því þrír vinir þess vegna þess að foreldrar þeirra voru ekki heima. Maður fylltist auðvitað réttlátri reiði eins og sennilega meginþorri foreldra í sömu aðstæðum og ég. Þetta gengur engan veginn, það verður að eyða allri óvissu núna.

Ég leyfi mér að vísa í fréttatilkynningu frá samtökunum Heimili og skóli þar sem samtökin harma að kennarar hafi ekki mætt til vinnu. Við verðum að virða landslög, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Það er stórlega traðkað á lögbundnum rétti barnanna í landinu. Það er á engan hátt forsvaranlegt að fjölmenn starfsstétt mæti ekki til vinnu. Við í stjórnarandstöðu gerðum allt sem í okkar valdi stóð en það dugði ekki til. Yfirgangur stjórnarliða við að koma lögunum á var slíkur og um hann ríkir engin þjóðarsátt, það sýnir sig vel núna. Nú er svo komið að þingheimur verður enn einu sinni að reyna að leysa þetta í eitt skipti fyrir öll svo að allir megi sáttir við una, þannig að lögbundnum rétti barnanna verði gert hátt undir höfði í þessu máli.



[15:17]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Á góðri stundu hefur hv. þm. Gunnar Birgisson, formaður menntamálanefndar og forseti bæjarstjórnar Kópavogs, oft sagt að nauðsynlegt sé að stórbæta kjör kennara. Ríkisstjórnin hefur stundum lýst þessu yfir líka. Stjórnarmeirihlutinn hefur stundum lýst þessu yfir, einkum þegar alþingiskosningar eru í nánd.

Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því að leysa þennan vanda, og það er vandi. Vandinn er sá að sum sveitarfélaganna — ég legg áherslu á að það eru sum — eiga í miklum fjárhagserfiðleikum. Allir sanngjarnir menn, allir þeir sem vilja leysa þetta erfiða mál, hljóta að verða að horfast í augu við það.

Þess vegna lögðum við til í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að ráðist yrði í skattkerfisbreytingar sem væru til þess fallnar að styrkja fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Við lögðum fram þingmál þess efnis. Við höfum með öðrum orðum komið fram með uppbyggilegar tillögur til að leysa þetta mál, til þess að unnt sé að verða við sanngjörnum kröfum kennara og annarra starfsmanna sveitarfélaganna um verulegar kjarabætur.



[15:19]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég var algjörlega ósamþykkur þeim lögum sem Alþingi setti hér sl. laugardag. En lög eru lög og jafnvel þó að við séum á móti einhverjum lögum verðum við að fara eftir þeim.

Hið íslenska samfélag er hins vegar umburðarlynt og sáttfúst og Íslendingar hafa fullan skilning á því að það var erfitt fyrir kennara að taka þessari niðurstöðu. Ég sem foreldri sem, eins og hv. þingmaður sem talaði hérna áðan, fór með mínar tvær dætur í skóla í morgun og þurfti að fara aftur með þær heim hef fullan skilning á því að það sé erfitt fyrir kennara að sætta sig við þetta. Auðvitað munu kennarar eins og aðrir sem þurfa að sæta ólögum hlíta þeim þegar upp er staðið, auðvitað verður það þannig.

Ég veit líka að ríkisstjórnin gekk að þessu verki ekki ánægð og ég veit að hæstv. forsætisráðherra hefur auðvitað skilning á því að menn eru lítt glaðir yfir þessari niðurstöðu.

Ég vil koma að því sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tók til máls um, sem er: Með hvaða hætti ætlar hæstv. menntamálaráðherra að bæta börnum landsins verkfallið, hvernig ætlar hún að standa við lögin sem tilgreina ákveðna lágmarkskennslu gagnvart börnunum?

Hæstv. forsætisráðherra greindi okkur frá því í síðustu viku að þetta hefði verið rætt í ríkisstjórn og hann sagði að hæstv. menntamálaráðherra mundi sjálf greina frá því með hvaða hætti ætti að gera þetta.

Heyrði ég rétt, herra forseti? Er hæstv. menntamálaráðherra svo sofandi á verði sínum að það eina sem hún hefur gert er að tala við formann Sambands íslenskra sveitarfélaga? Var það það sem hún sagði ríkisstjórninni frá? Er það þannig að hundrað manna ráðuneytið tekur ekki fastar á þessu en svo að hæstv. menntamálaráðherra er enn sofandi, er enn í þyrnirósarsvefninum og hefur ekkert gert nema hringja í flokksbróður sinn, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson? Þetta er með öllu ótæk frammistaða af hálfu hæstv. menntamálaráðherra.



[15:21]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þau voru mikil, vonbrigðin með svör hæstv. menntamálaráðherra. Fyrir réttri viku gaf hæstv. forsætisráðherra það skýrt til kynna í fyrirspurnatíma á hinu háa Alþingi að þetta mál hefði fyrir töluverðu síðan verið rætt í ríkisstjórn, línur lagðar og innan skamms mundi hæstv. menntamálaráðherra skýra frá því hverjar hennar samræmdu tillögur yrðu til að mæta þeim grafalvarlegu afleiðingum sem verkfallið hefur á skólagöngu barnanna í landinu.

Svör hæstv. menntamálaráðherra voru í besta falli óskýr og þokukennd og skora ég á hana að skýra mál sitt hérna með afdráttarlausum hætti, taka frumkvæði í málinu og leiða það til lykta hvernig við bætum börnunum í landinu þann skaða sem orðið hefur á skólagöngu þeirra. Skólaganga tíu árganga Íslendinga hefur beðið skaða og hæstv. menntamálaráðherra ber ábyrgð á því, og ber ábyrgð á því hvernig við mætum þeim skaða.

Þá gat ég ekki annað en túlkað orð forsætisráðherra þannig að hann ásakaði kennara um lögbrot. Því vildi ég spyrja hvað hann hefði fyrir sér í því, hvort hann væri að saka þá um samræmdar aðgerðir og hvaða vitneskju hann hefði um það.

Hæstv. menntamálaráðherra verður að skýra það mjög afdráttarlaust hvernig hún ætlar að bæta börnunum skaðann.



[15:23]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það síðasta sem við þurfum á að halda nú er að menn komi upp í þessa pontu og reyni að slá pólitískar keilur, innihaldslausar með öllu.

Að sjálfsögðu hefur það fyrir löngu komið fram í máli mínu að við erum þegar byrjað að vinna að því hvernig við ætlum með markvissum hætti að bæta börnum þessa lands upp þann tíma sem þau hafa glatað í skólanum vegna þess verkfalls sem hefur verið í samfélaginu. Að sjálfsögðu er sú vinna löngu hafin, en hún verður unnin og er unnin í samvinnu við sveitarfélögin. Þannig eru líka lögin í landinu svo menn hafi það á hreinu. Sú vinna á sér stað og hún er á fullu um þessar mundir.

Ég vil sérstaklega geta þess að stjórnarandstaðan hefur sagt, og kom það m.a. fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að enn og aftur væri eina lausnin, til þess að koma til móts við kennara, að bæta sveitarfélögunum upp fjárhagstjónið. (Gripið fram í.)

Ég hef lengi spurt að því og velt fyrir mér hvers vegna hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar með alla sína félaga í sveitarstjórnum landsins hafa ekki talað við þá og spurt þá af hverju þeir samþykktu ekki tillögur KHÍ til skammtímasamnings á sínum tíma svo að sveitarfélögunum gæfist tóm til að ræða við ríkið og gera upp sín á milli. Nei, það spyr enginn í dag af hverju sveitarfélögin samþykktu ekki skammtímasamninginn á sínum tíma til þess að þeim gæfist tóm til að gera upp á milli ríkis og sveitarfélaga.

Ég vil ítreka það sem hefur komið hér fram, að sjálfsögðu ganga allir út frá því að kennarar sem aðrir borgarar landsins fari að lögum. Ég bið þess engu að síður, í ljósi þess ástands sem hefur verið í samfélaginu að undanförnu, í ljósi þeirrar lagasetningar sem var ekki skásti kosturinn í stöðunni, að menn sýni stillingu og ákveðinn skilning á því ástandi sem kom upp í samfélaginu í dag. (ÖJ: Það er nú erfitt þegar hallað er réttu máli.)