133. löggjafarþing — 65. fundur
 5. feb. 2007.
stefna í loftslagsmálum.

[15:06]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Að undanförnu hafa farið fram heilmiklar umræður um loftslagsmál í kjölfar niðurstöðu frá loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var í París fyrir helgina. Í þeirri umræðu sem fram hefur farið hefur mjög verið kallað eftir pólitískri forustu í loftslagsmálum, og það verður að segjast eins og er, virðulegur forseti, að manni virðist nokkuð skorta upp á hana í hæstv. ríkisstjórn.

Samfylkingin á í þingskjölum tvær tillögur, tvö mál, sem komu fram strax í haust og lúta að loftslagsmálum. Hvorugt þeirra mála hefur komist á dagskrá þingsins og til umræðu. Annað þeirra lýtur að tillögum okkar um fagra Ísland, en þar er tekið sérstaklega á því að gera þurfi langtímaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og hitt þingmálið er um mikilvægi þess að Alþingi taki ákvörðun um hvernig íslenska ákvæðið samkvæmt Kyoto-bókuninni verði notað.

Eins og ég sagði er kallað eftir pólitískri forustu af hálfu ríkisstjórna heims og mörg ríki Norðurlanda og Evrópusambandið hafa lýst því yfir að stefna eigi að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 30% fram til 2020. Breska ríkisstjórnin segir um 60% til ársins 2050.

Hæstv. forsætisráðherra fer með pólitíska forustu í ríkisstjórninni en hann hefur ekki tjáð sig um þessi mál enn þá svo mér sé kunnugt. Ég hlýt að spyrja hæstv. forseta hver afstaða hans sé. Á hvern hátt hyggst hann beita sér í þessum málum meðan hann er í forustu fyrir ríkisstjórninni? Hvert verður samningsumboð þeirrar samninganefndar sem fer til Balí í haust til að fjalla um þessi mál. Mun það verða samningsmarkmið okkar að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda um 30% fram til 2020 eða mun áfram verða gert út á sérstöðu okkar og reynt að ná í viðbótarkvóta eins og helst hefur mátt skilja, jafnvel á hæstv. umhverfisráðherra, í þeirri fjölmiðlaumræðu sem farið hefur fram?



[15:08]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem hv. þingmaður vitnaði til er að sjálfsögðu mjög merkileg og efni hennar er grafalvarlegt. Skýrslan staðfestir, þó hún sé aðeins fyrsti hluti af nokkrum sem eiga að koma fram á næstunni í verkefni þessarar nefndar Sameinuðu þjóðanna, að hlýnun loftslags er ekki bara staðreynd heldur bendir allt til þess að það sé a.m.k. að hluta til af mannavöldum. Þess vegna er brýnt að þjóðir heims taki sig saman og sporni við fótum.

Hins vegar er jákvætt í skýrslunni að fram kemur að ekki er gert ráð fyrir að breytingar verði á Golfstraumnum eins og sumir höfðu óttast. Þar eru auðvitað miklir hagsmunir Íslands í húfi að ekki verði breyting þar á en sumir höfðu spáð því fyrir nokkru síðan að vegna þessara loftslagsbreytinga yrði Ísland umlukið hafís áður en mjög langt um liði. Sem betur fer er það ekki líklegt.

Stærsti vandinn í þessu er að sjálfsögðu notkun eldsneytis og annarra efna sem kalla fram losun á koldíoxíði en besta lausnin frá sjónarhóli alheimsins er að nýta sem mest og best endurnýjanlega orku eins og við Íslendingar höfum í miklum mæli. Það er rangt að gera því skóna að eitthvað af því sem hér er að gerast sé með einhverjum hætti Íslendingum að kenna. Þvert á móti höfum við lagt okkar af mörkum til að draga úr mengun og auka notkun endurnýjanlegra orkugjafa og það sem við getum jafnframt gert er að flytja út tækni og þekkingu til annarra til að nýta sér þá tækni.



[15:11]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Eitthvað hefur forsætisráðherra tekið þetta skakkt í sig því ég var ekki uppi með neinar ásakanir af einu eða neinu tagi. Ég spurði einfaldlega um hvernig forustu hann ætlaði að veita í þessum málaflokki sem forustumaður í ríkisstjórninni, hvort hann ætlaði að taka undir með Evrópuþjóðum og Norðurlandaþjóðum og þess vegna flokksbræðrum sínum, t.d. Cameron í Bretlandi, norska flokknum og umhverfisráðherra Danmerkur, í þá veru að draga eigi úr þessum 30% fram til 2020 eða hvort Íslendingar ætluðu aftur að fara fram með þeim hætti að gera út á sérstöðu sína og krefjast þess að þeir fái einhverja sérmeðferð í þessum málum. Um þetta spurði ég og ekki annað.

Ég tók líka eftir því í Fréttablaðinu í dag að sagt er að 45 ríki hafi lýst yfir stuðningi við að komið verði á fót alþjóðlegri stofnun sem hafi tæki til að beita refsiúrræðum gagnvart þeim þjóðum sem ekki undirgangast þær kröfur sem alþjóðasamfélagið gerir. Ég sá að Ísland er ekki meðal þeirra þjóða. Hvernig stendur á því að við tökum ekki þátt í slíku starfi?



[15:12]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Slíkri spurningu sem hér var varpað fram af hv. þingmanni verður að sjálfsögðu ekki svarað í óundirbúinni fyrirspurn.

En varðandi málið í heild sinni er Ísland þannig í sveit sett að það mun ekki skerast úr leik þegar kemur að því að ná samstöðu milli þjóða um losun gróðurhúsalofttegunda og það er bara misskilningur ef menn halda að Íslendingar hafi gengið öðrum framar í að menga umhverfi sitt eins og stundum er haldið fram eða skilja mætti á ákveðnum aðilum innan þings og utan. (Gripið fram í.) Það sem skiptir máli er að þjóðir heims taki höndum saman um að taka á þessum vanda og ekki mun standa á íslensku ríkisstjórninni í að vera með í því.



[15:13]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Mér finnst merkilegt að hæstv. forsætisráðherra skuli ekki getað svarað þessu í óundirbúinni fyrirspurn. Þetta er búið að vera í umræðunni, ekki bara undanfarna daga heldur hefur legið fyrir frá 1995 að hverju stefndi í þessu efni. Þjóðarleiðtogar um allan heim hafa verið að tjá sig um þessi mál, Chirac Frakklandsforseti, Blair, forsætisráðherra Breta, Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar, en forsætisráðherra Íslands hefur ekki gert upp hug sinn um hvert hann vilji stefna í þessum málum þar sem alþjóðasamfélagið er núna að taka höndum saman um að stefna að því að draga úr um 30%. Það eru sem sagt Bush og Geir Haarde sem standa eftir eins og saltstólpar í þessu máli og geta ekki tekið afstöðu til málsins meðan allir aðrir geta gert það.



[15:14]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Þessi málflutningur auðvitað dæmir sig sjálfur. Það er leiðinlegt ef þetta var tilgangurinn með því að þjófstarta utandagskrárumræðu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur farið fram á til að ná fram (Gripið fram í: Kaffibandalaginu …) (Gripið fram í.) í kaffibrandaralaginu einhverju skoti á ríkisstjórnina á þessum grundvelli.

Ég endurtek eingöngu það að íslenska ríkisstjórnin og vonandi við öll, Alþingi allt, mun koma fram af fyllstu ábyrgð í þessu máli. Sendinefnd okkar á þeirri ráðstefnu sem þingmaðurinn gat um mun koma þangað upprétt. Við stöndum vel að vígi, við höfum gert okkar til að draga úr mengun í heiminum. Við viljum hjálpa öðrum til að þeir geti líka gert það og ég held að hvorki hv. fyrirspyrjandi né aðrir þingmenn þurfi að hafa einhverjar sérstakar áhyggjur af því að Íslandi standi ekki sína plikt í þessu máli.