135. löggjafarþing — 31. fundur
 27. nóvember 2007.
umræður utan dagskrár.

fíkniefnavandinn.

[13:57]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar stöndum nú frammi fyrir örvandi vímuefnafaraldri. Á síðustu 10 árum höfum við séð nær tvöföldun á fjölda þeirra sem leita sér aðstoðar vegna örvandi vímuefna. Höfum við tapað stríðinu gegn mesta böli íslensku þjóðarinnar, áfengis- og fíkniefnavandanum? Kannski ekki, en við erum í það minnsta í vörn, jafnvel þótt við eigum ýmsa leiki í stöðunni.

Harðari neyslu fylgir ekki bara stóraukin hætta á alvarlegum geð- og heilbrigðisvandamálum, félagslegri eymd, brenglun, dauðsföllum, sjálfsvígum og eyðilögðum fjölskyldum og ástvinum. Þeim fylgir líka grófara ofbeldi og glæpir, vændi og mansal, skipulögð glæpastarfsemi sem nú þegar hefur fest rætur hérlendis. Ungum afbrotamönnum fer fjölgandi.

Síðustu daga höfum við heyrt heilmikið um forvarnir. Við höfum m.a. heyrt að foreldrar eigi að eyða meiri tíma með börnum sínum og að tómstundir hafi forvarnagildi. Gott og vel, en ef við erum heiðarleg við okkur sjálf, hversu tilbúin erum við þá í raun til að ráðast í þær samfélagsbreytingar sem til þarf, styttri og sveigjanlegri vinnutíma, hærri laun, minni neyslu, minna stress, minni hraða, minni hlaup, aukinn jöfnuð — er það á dagskrá í samfélaginu í dag?

Hversu auðvelt eiga sumir með að minnka við sig vinnu? Hvað segjum við við foreldra sem hafa sinnt börnum sínum af alúð og natni en missa þau samt út í óreglu og böl? Hvað segjum við við börn alkóhólista og börn fíkla, einmitt þau börn sem eru í hvað stærstum áhættuhópi, um gæðatíma fjölskyldna og samverustundir?

Virðulegi forseti. Ég tala af heilum hug fyrir almennu gildi tómstundastarfs, íþróttaiðkunar og listgreina, uppbyggjandi áhugamála. En hvað segjum við við þau ungmenni sem fá nýtt og öflugra áhugamál þegar mest á reynir, fíknina, og sökkva sér í hana? Það ætlar sér enginn að verða ósjálfbjarga eiturlyfjafíkill, hvorki sá sem æfir fótbolta né sá sem teflir skák, né heldur hinn sem gerir hvorugt.

Öll skólastig eru mikilvægur vettvangur forvarna — en hvað er góður skóli?

Í mínum huga er góður skóli staður þar sem ungmennum líður vel, staður sem á að hafa það meginhlutverk að efla með þeim sterka sjálfsmynd og sjálfstraust, hlúa að hverjum og einum til eigin framkvæmda í eigin lífi. Það á um leið að vera staður þar sem öflug teymi ólíkra fagaðila leita markvisst að áhættuhópum og halda í höndina á þeim frá upphafi. Eru íslenskir skólar góðir skólar að þessu leyti — eða er álagið á starfsfólk allt of mikið nú þegar og stoðkerfið of veikt?

Og hvernig náum við til þeirra sem erfiðast er að ná til? Brottfall í íslenskum framhaldsskólum er of mikið og það er einmitt þá sem aldurinn er hvað viðkvæmastur.

Það er lífsspursmál í þessum efnum, virðulegur forseti, að beina auknum kröftum að áhættuhópum. Almennar forvarnaprédikanir, lífsgæðakannanir eða auglýsingar í fjölmiðlum duga skammt á þau ungmenni sem eru í mestri hættu. Þessir einstaklingar þurfa aðstoð augliti til auglitis innan menntakerfisins, félagskerfisins, heilsugæslunnar, meðferðarstofnana, dómskerfisins. Það þarf eldra fólkið líka. Í þessu samhengi er rétt að benda á að alþjóðlegar rannsóknir sýna að langáhrifaríkustu forvarnir gegn áfengisneyslu unglinga eru hátt áfengisgjald, hár áfengiskaupaaldur, stíft bann við áfengisauglýsingum og takmarkað aðgengi. Erum við á réttri leið?

Það starf sem faglegar meðferðarstofnanir vinna verður seint fullþakkað. Við búum að stórum og metnaðarfullum hópi fagfólks með sérþekkingu sem vinnur markvisst að forvörnum, úrræðum og rannsóknum. Aðgengi að áfengis- og vímuefnameðferð á Íslandi er með því besta sem gerist og um 7% Íslendinga, eldri en 15 ára, hafa notið góðs af meðferð hjá SÁÁ. Á tímum stóraukinnar áfengisneyslu og notkunar örvandi vímuefna skýtur óneitanlega skökku við ef fjárveitingar til aðgerða gegn áfengis- og fíkniefnaneyslu dragast saman. Slíkt gengur einfaldlega ekki upp. Það þarf að greina með faglegum hætti og rannsóknum hvar og hvernig skilvirkasta, besta og faglegasta starfið er unnið og beina stórauknu fjármagni inn á þær brautir en varast handahófskenndar og eftirlitslausar úthlutanir.

Hvernig búum við að lögreglu og tollyfirvöldum? Ætlum við, virðulegur forseti, að tryggja betri tæki og mannafla til að sporna við innflutningi fíkniefna og skipulagðri glæpastarfsemi? Ætlum við að viðurkenna að fangelsisvist er engin lausn fyrir fársjúka fíkla eða ungt fólk?

Úrlausnarefnin, virðulegi forseti, snerta öll ráðuneyti og alla flokka. Þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra, hafið langt yfir flokkapólitík og þrætur hversdagsins.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra:

Hvaða stefnumörkun og markmið er varðar úrlausnir á vímuefnavandanum liggja fyrir hjá mismunandi ráðuneytum? (Forseti hringir.) Hvar mun þungi samræmdra aðgerða liggja og hvenær hyggst ríkisstjórnin hrinda þeim aðgerðum í framkvæmd?



[14:02]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu alvarlega málefni. Fíkniefni eru einn ömurlegasti vágestur nútímasamfélags og það er skylda okkar sem einstaklinga, foreldra og stjórnmálamanna að gera allt sem í okkar valdi stendur til að börnin okkar og unga fólkið almennt verði þeim ekki að bráð og leiðist ekki út í ógöngur í umgengni við önnur vímuefni.

Hér á landi hefur margt áunnist í þessum efnum og ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera myndarlegt átak í forvörnum sem beinist sérstaklega að framhaldsskólanemum auk þess sem forvarnir eru snar þáttur í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að styrkja stöðu barna og unglinga. Að auki er í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár gert ráð fyrir 100 millj. kr. framlagi til þriggja ráðuneyta, heilbrigðis-, félags- og dómsmálaráðuneyta, til að standa fyrir sameiginlegu átaki til að bregðast við aukinni vímuefnavá með öflugri fræðslu og forvörnum, stuðningi við fjölskyldur í vanda, fjölbreyttum meðferðarúrræðum og hertri löggæslu.

Hið alþjóðlega umhverfi kallar á breytta nálgun í vímuefnavörnum. Ljóst er að samfara heilsueflingu og forvörnum þarf að herða, bæta og beita nýjum áherslum í löggæslu. Forvarnir þurfa að miða að því að ná til áhættuhópa, virkja grasrótina og tvinna saman rannsóknir, stefnumótun og framkvæmd.

Löggæsluyfirvöld hafa gripið til ráðstafana til að bregðast við aukinni hörku í heimi fíkniefna og meðal fíkniefnasala. Sérsveit lögreglunnar hefur verið efld, m.a. til að styrkja lögregluna í að takast á við fíkla sem stundum eru ofbeldisfullir og beita jafnvel vopnum. Hið sama má segja um greiningardeild lögreglunnar. Hún gegnir m.a. því hlutverki að kortleggja fíkniefnaheiminn og auðvelda götueftirlitinu að rata um krákustíga hans með það að markmiði m.a. að forða fólki frá því að lenda í klóm fíkniefnasala.

Við fáum reglulega fréttir af því að lögregla og tollgæsla finni og geri upptæk fíkniefni sem reynt er að smygla til landsins. Oftar en ekki er það árangur af aukinni upplýsingagjöf á milli ýmissa aðila, gjarnan landa á milli. Aukin áhersla hefur verið lögð á slíka samvinnu undanfarin ár og er ástæða til að gera það áfram eins og dæmin sanna.

Góður árangur hefur náðst í vímuefnavörnum í grunnskólum landsins á undanförnum árum en á 10. áratugnum leiddu rannsóknir í ljós stöðuga og verulega aukningu í neyslu vímuefna meðal grunnskólanema. Foreldrum voru send skýr skilaboð um að auka samveru með börnum sínum, leyfa ekki útivist eftir lögboðinn útivistartíma og leyfa ekki eftirlitslaus samkvæmi. Áhersla var lögð á mikilvægi skipulagðrar tómstundaiðkunar. Aukin meðvitund foreldra um þessi atriði hefur án efa átt þátt í þeim árangri sem náðist. Mikill mælanlegur árangur hefur náðst frá árinu 1997 varðandi til að mynda áfengisneyslu grunnskólabarna, reykingar þeirra og sömuleiðis neyslu hass. Tölurnar sýna ágætan árangur hvað þetta varðar á þessu tímabili meðal þessa hóps ungmenna.

Nú þarf að huga að næstu aldurshópum fyrir ofan. Rannsóknir hafa leitt í ljós að meðal framhaldsskólanema er neysla vímuefna mun meiri og brýn þörf að bregðast við. Heilbrigðisráðherra og menntamálaráðherra hafa kynnt verkefni sem beinist að heilsueflingu framhaldsskólanema. Markmiðið er að stuðla að bættri heilsu og líðan og þar með draga úr brottfalli og bæta námsárangur.

Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar til að styrkja stöðu barna og unglinga sem unnið er að á forræði félagsmálaráðherra er lögð áhersla á almennar forvarnaaðgerðir og lagt til að farin verði leið heilsueflingar, stuðlað að reyklausu umhverfi barna og unglinga, forvörnum gegn reykingum áfram sinnt vel, ungmennum veitt viðeigandi fræðsla um áhrif og afleiðingar áfengisneyslu, ekki síður en ólöglegra vímuefna í samræmi við lögbundna fræðslu um tóbaksvarnir í grunnskólum. Sérstök áhersla verði lögð á almennar forvarnir og fræðslu í samfélaginu um andlega og félagslega líðan. Þetta verði gert með því að leggja aukna áherslu á geðrækt, á hollar tómstundir, uppbyggilega nýtingu frítíma og samveru fjölskyldunnar við leik og störf. Allt rímar þetta við heilsustefnu heilbrigðisráðuneytisins.

Virðulegi forseti. Ég hef hér drepið á nokkur atriði í því sem ríkisstjórnin er með á prjónunum og varðar þennan mikilvæga málaflokk og hygg að með því hafi ég svarað spurningum hv. þingmanns um stefnumótun og markmið ríkisstjórnarinnar á þessu sviði.

Ég tek jafnframt undir það sem hv. þingmaður sagði, hér er ekki um að ræða einkamál neins tiltekins stjórnmálaflokks, neins tiltekins stjórnmálamanns eða tiltekins aðila í þjóðfélaginu. Þetta er vandamál sem þjóðfélagið allt glímir við og við verðum öll, bæði í þessum sal og utan hans, að taka höndum saman um að freista þess að ná árangri vegna þess að öflin sem barist er við á þessu sviði svífast einskis eins og við vitum.



[14:07]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við framsóknarmenn leggjum mikla áherslu á forvarnir og teljum að það eigi að aðstoða börn við að styrkja sjálfsmynd þeirra, auka samskiptahæfni þeirra og siðferðiskennd. Það þarf að styðja allt íþróttastarf í landinu og efla sérstaklega skólana í forvarnastarfi. Við teljum að reykingar, áfengi og fíkniefni tengist að verulega miklu leyti þannig að það þarf að vinna á öllum þessum þáttum sameiginlega.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki nógu sannfærandi í málflutningi sínum varðandi forvarnastarf. Ég vil nefna tvö dæmi. Við áttum hér mikla umræðu um reykingar og það var ákveðið, m.a. að frumkvæði Framsóknarflokksins, að koma í veg fyrir að reykt væri á veitinga- og skemmtistöðum. Þá fór í gang talsverð umræða þar sem kröftugir aðilar innan Sjálfstæðisflokksins fundu því allt til foráttu. Þá ályktaði t.d. SUS, Samband ungra sjálfstæðismanna, gegn forræðishyggju og sagði að Alþingi hefði sett ofstækisfull lög sem legðu sekt við því að veitingahúsaeigendur leyfðu gestum sínum að reykja innan dyra. Það kom upp talsverð mótstaða innan Sjálfstæðisflokksins.

Núna er annað mál hér fyrir þinginu sem sjálfstæðismenn hafa lagt áherslu á, nokkrir þingmenn þar sérstaklega, og það er að leyfa sölu á bjór og léttu víni í matvöruverslunum. (Gripið fram í.) Þar fer fremstur í flokki hv. alþingismaður Sigurður Kári Kristjánsson með stuðningi hæstv. heilbrigðisráðherra sem er yfirmaður forvarna á Íslandi.

Virðulegur forseti. Þetta er ekki sannfærandi málflutningur. (Gripið fram í: … á móti þessu.) Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að tala skýrar í forvörnum. Það er mjög mikilvægt að við náum árangri. Við höfum verið á réttri leið og það má ekki glutra niður þeim árangri sem við höfum náð.



[14:09]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna þessari umræðu um vímuefnavandann þó að ég geti ekki tekið undir það sem málshefjandi kallaði vímuefnafaraldur. Þó að ástandið sé hroðalegt og hvert einstakt tilfelli sé mjög alvarlegt held ég að við eigum að viðurkenna að margt hefur þokast í rétta átt í þessum málum undanfarið, sérstaklega þó hvað varðar yngri aldurshópinn, grunnskólaaldurinn. Það réttlætir í sjálfu sér ekki það að við höllum okkur aftur á bak og látum eins og ástandið sé ekki slæmt.

Það er tvennt sem við þurfum ávallt að skoða þegar við ræðum vímuefnavandann, annars vegar forvarnirnar, eins og hér hefur verið komið inn á, og úrræði sem við getum gripið til þegar einstaklingar eru komnir í vandræði, neyslu eða afbrot. Við þekkjum umræðuna um forvarnirnar. Í rauninni vitum við sem til þekkjum að þetta snýst ekki um þekkingu krakka, þetta snýst um það að þau láta vaða eða taka þátt, láta tilleiðast. Það er ekki vegna þess að þau viti ekki um hvað þetta mál snýst. Þess vegna er mjög mikilvægt að samfélagið í heild gefi skýr skilaboð um hvað má og hvað má ekki og þar hefur tekist mjög gott samstarf í grunnskólunum milli foreldra, barna og kennarasamfélagsins.

Það sem er athyglisvert og við þurfum að snúa okkur fyrst og fremst að, og málshefjandi vakti athygli á, er að við þurfum að sjá vandann fyrir, við þurfum að grípa miklu fyrr inn í, við þurfum að hjálpa foreldrum þegar börnin eru komin í vanda. Um það vitum við, oftast í skólanum. Við sjáum börnin sem eru í vandræðum í skólanum, eru með hegðunarfrávik, fjarveru eða skróp, oft komin í minni háttar afbrot. Ein af tillögunum í barnaáætlun ríkisstjórnarinnar er einmitt að innleiða kerfi þar sem fræðsla fyrir starfsfólk uppeldisstofnana en ekki síður til foreldra verður notuð sem leið til að hjálpa fólki til að ungt fólk lendi ekki í þessum vanda.

Ég bind miklar vonir við þá vinnu og treysti á að við stöndum saman um að byggja hana upp. Við höfum dæmi um þetta m.a. í blöðunum í dag þar sem sagt er frá vinnu í Hafnarfirði og við höfum sambærilega (Forseti hringir.) vinnu á Reykjanesi.



[14:11]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Guðfríði Lilju Grétarsdóttur fyrir að taka þetta mál upp. Það er sannarlega ekki vanþörf á. Það vantar auðvitað ekki að í orði kveðnu eru allir jákvæðir, hafa miklar áhyggjur af ástandinu og vilja allt á sig leggja til að kljást við þetta böl sem misnotkun áfengis og vímuefna er og vandamál sem því eru samfara.

En hér er það eins og víðar að það eru ekki bara fögur orð sem gilda, þau draga ein og sér ekki langt. Það sem skiptir máli er hvaða efnislegum tökum samfélagið allt og auðvitað ekki síst stjórnvöld taka þessi mál, hvaða fjármagn er veitt til viðfangsefnisins. Það brennur ekki síst á okkur nú um stundir þegar dæmin æpa á okkur hvaðanæva að um mikinn faraldur, mikinn innflutning fíkniefna og mikil vandamál sem misnotkun þeirra eru samfara.

Forvarnir eru að sjálfsögðu mikilvægar og ég hef áður nefnt hér í umræðum af þessu tagi að það er undarlegt að ekki skuli hafa verið stuðningur við það hér að hækka það hlutfall áfengisgjalds sem rennur til Forvarnasjóðs. Það þýðir heldur ekki að horfa fram hjá þeim sem þegar hafa ánetjast og eru ofurseldir neyslu fíkniefna og áfengis og þurfa á hjálp og stuðningi að halda. Hvernig skyldi vera staðið að málum þá? Er það ekki þannig að sjálft móðurskip meðferðar áfengis- og vímuefnaneytenda í landinu, SÁÁ, býr við mikla rekstrarerfiðleika og hefur missirum saman verið án samninga við stjórnvöld um rekstur sinn? Er það ekki þannig að SÁÁ er að stórum hluta fjármagnað með velvild styrktaraðila og gengur á eigið fé sitt til að halda úti starfsemi sem er þjóðfélaginu ómetanleg en stjórnvöld mættu sannarlega búa betur að?

Það mætti líka gera mun betur en gert er innan t.d. almennu heilsugæslunnar, skólakerfisins og víðar. Ég held að stjórnvöld þurfi að líta í eigin barm og gera meira en hafa um þetta falleg orð. (Forseti hringir.) Það eru hin efnislegu tök samfélagsins sem hérna skipta máli.



[14:14]
Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Fíkniefnavandamál er kannski mesta hættan í samfélagi okkar í dag, fíkniefnavandi og áfengisdrykkja. Við megum heldur ekki gleyma þeim þætti þegar við tölum um fíkniefnavanda að áfengi er oft það fyrsta sem unglingar byrja að neyta, bjór og sterk vín, og svo leiðast þau út í sterkari efni.

Auðvitað eru allir sammála um að auka þurfi forvarnir og meðferðir en við þurfum kannski að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Við erum búin að berjast við fíkniefnavanda í 35 ár eða lengur og okkur hefur ekkert tommað áfram. Við náum engum árangri, vandinn eykst og þess vegna þurfum við að spyrja okkur hvort við þurfum ekki að fara nýjar leiðir, t.d. gagnvart þeim sem eru í sterkustu efnunum, hvort þeir eigi ekki bara hreinlega að vera í heilbrigðisgeiranum. Þurfum við ekki að fara að skaffa þeim efni eða það sem þeir þurfa að fá undir eftirliti?

Við þurfum að skoða varnir landsins. Við tókum upp aðild að Schengen á sínum tíma og bæði lögreglumenn og tollarar uppi á Keflavíkurflugvelli segja mér að þeir telji Schengen-samkomulagið mjög af því slæma upp á passaeftirlit með fólki í flugstöð þegar þar eru 1.200–1.500 manns tvisvar á sólarhring yfir sumartímann. Þeir taka litlar stikkprufur en ná ekki að skoða (Forseti hringir.) eins og ef um passaeftirlit væri að ræða.



[14:16]
Ólöf Nordal (S):

Hæstv. forseti. Ofneysla fíkniefna er vandi sem snertir alla þjóðina og allan heiminn. Því miður hefur enginn eina lausn á því alvarlega máli. Það er mikilvægt að horfa á þetta heildstætt en muna um leið að hvert og eitt okkar ber ábyrgð. Við verðum að trúa því að hægt sé að ná tökum á þessum vágesti og raunar sýna tölur síðustu ára að við höfum náð árangri í elstu bekkjum grunnskóla. En við viljum gera betur og við ætlum að gera miklu betur.

Ekki má gleyma þeim aldurshópi sem er á framhaldsskólastigi. Það er einmitt á þeim aldri sem okkur foreldrunum finnst börnin stundum eldri en þau eru. Í þessu efni langar mig sérstaklega að nefna samkomulag milli hæstv. menntamálaráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra um forvarnir á framhaldsskólastigi. Ég geri athugasemdir við málflutning hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki staðið vaktina í þessum málum. Það er alrangt. Þetta ákveðna mál hefur verið í farveginum í nokkur ár og það var ekki fyrr en sjálfstæðismaður settist í stól heilbrigðisráðherra að hægt var að komast að niðurstöðu í málinu.

Æskulýðslöggjöfin öll er á forræði menntamálaráðuneytisins. Þar hefur verið unnið stórvirki á undanförnum árum. Ég hafna því algerlega að Sjálfstæðisflokkurinn standi til hliðar í þessari mikilvægu umræðu.

Í þessari baráttu kemur kannski skýrast í ljós sérstaða okkar sem búum á Íslandi og hana verðum við að nýta. Við búum sem betur fer í þjóðfélagi þar sem boðleiðirnar eru stuttar og fjölskyldubönd sterk. Með stöðugri fræðslu höfum við náð ákveðnum árangri og höfum möguleika til að ná lengra.

Það er í mínum huga grundvallaratriði að horfa á forvarnir út frá tveimur meginstoðum. Annars vegar út frá sjónarmiði fræðslu og samstarfs milli hagsmunaaðila og hins vegar út frá þeim tækjum sem löggæslan hefur, m.a. með auknum sýnileika lögreglu, hertri tollgæslu og hertum aðgerðum gegn skipulegri glæpastarfsemi, svo eitthvað sé nefnt. Í löggæslunni felst nefnilega líka gríðarlegt forvarnargildi.



[14:18]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að fíkniefnavandinn sé til umræðu í þingsölum. Hann er víðfeðmur og mjög mikilvægt að skýr skilaboð komi frá Alþingi um að tekið verði á vandanum. Mikilvægast tel ég að móta heildræna stefnu um forvarnir og kortleggja forvarnastarf í landinu til að leggja mat á gæði starfsins. Það þarf einfaldlega að leggja meiri fjármuni til virkrar forvarnastefnu og forvarnaaðgerða. Stjórnvöld gætu staðið sig betur í þeim efnum.

Til að mynda er full þörf á að styrkja betur þá aðila og félagasamtök sem vinna að félagslegu forvarnastarfi. Vil ég þá sérstaklega nefna SÁÁ, Samhjálp og Vímulausa æsku. Það er að mínu mati óverjandi að meðan fjárlög hækka um 20% skuli SÁÁ vanta um 242 millj. kr. til að láta enda ná saman í rekstri sínum. Sömu sögu má segja um önnur félagasamtök. Þau sjá fram á erfiðan rekstur. Það þarf einfaldlega að hækka hlutfall áfengisgjalds í Forvarnasjóð og framlög til málaflokksins í heild.

Það þarf líka að efla íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga. Skipuleg ástundun í umsjá ábyrgra aðila dregur verulega úr líkum á lífsstíl sem felur í sér vímuefnanotkun. Þar á ríkið á að koma mun betur að borði. Ég vil nefna sem dæmi að efla mætti ungmennahreyfingu landsins og einnig mætti stórauka framlög í jöfnunarsjóð íþróttafélaga svo hann standi raunverulega undir nafni. Það er einfaldlega þannig að öflugt íþróttastarf dregur úr líkum á vímuefnaneyslu.

Forvarnir fela í sér að beina fólki á rétta braut frá fíkniefnum. Það eru því sláandi tölur að drykkja ungmenna um sumar, milli grunnskóla og framhaldsskóla, skuli aukast um 105%. Það er gott að heyra að taka eigi á þeim vanda í samvinnu við nemendafélög í framhaldsskólum.



[14:21]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ein versta martröð foreldra er að barn þeirra verði fórnarlamb eiturlyfjabölsins. Það heltekur alla, þann sem ánetjast vímuefnunum og fjölskyldu hans. Þegar hafa verið stigin mikilvæg skref til að taka á þessu böli og fleiri eru fram undan. Málið er á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Í félagsmálaráðuneytinu er farið að vinna eftir aðgerðaráætluninni frá í vor um að styrkja stöðu barna og ungmenna. Framhaldsskólaverkefni heilbrigðis- og menntamálaráðherra ásamt Lýðheilsustöð í samstarfi við framhaldsskólanema í átaki í heilsueflingu og forvörnum er farið af stað.

Samfylkingin hefur heildstæða ábyrga stefnu í vímuefnamálum. Hún byggir á því að komið verði á vímuvarnaráði sem hafi yfirsýn yfir alla þætti málaflokksins enda varðar það mörg ráðuneyti. Ég ætla að nefna nokkra þætti þeirrar stefnu.

Í fyrsta lagi ber að nefna forvarnir og meðferðarmál. En það þarf líka að koma á fræðslu- og neyðarhjálp fyrir aðstandendur þegar grunsemdir vakna um neyslu. Það þarf að fylgja eftir lögum sem banna börnum og unglingum að neyta áfengis og fíkniefna og láta foreldra vita þegar slík tilvik koma upp. Það þarf líka að tryggja inngrip strax og vitað er um ólöglega fíkniefnaneyslu ungmennis og aðstoða þarf viðkomandi til að komast aftur til eðlilegs lífs eftir meðferð.

Það þarf að efla löggæsluna og finna fíkniefnasala og auka eftirlit með smygli. Það ber að hætta að dæma helsjúka fíkla í almenn fangelsi fyrir fíkniefnaneyslu og skilgreina neyslu sem heilbrigðisvandamál. Það verður að þyngja refsingar þeirra sem selja og fjármagna eiturlyf en eru ekki háðir þeim sjálfir. Þar eru hinir raunverulegu glæpamenn.



[14:23]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Vímuefnavandinn er ærinn og hefur ekki farið minnkandi á síðustu árum heldur þvert á móti, þrátt fyrir töluverða viðleitni af hálfu opinberra aðila til hins gagnstæða. Þó verður að segjast eins og er að þessi mál eru fyrst og fremst á ábyrgð einstaklingsins sjálfs. Hver og einn ræður sjálfum sér í þeim efnum, er sinnar gæfu smiður. Foreldrar bera fyrst og fremst ábyrgðina á uppeldinu og því að tileinka börnum sínum þau viðhorf að forðast vímuefni hver svo sem þau kunna að vera.

Hið opinbera leikur stórt hlutverk í þessum málum með stefnu sinni og þeim áherslum sem það leggur, löggjöf sem það setur o.s.frv. Því er ekki að neita að borist hafa mjög misvísandi skilaboð frá hinu opinbera, bæði ríki og sveitarfélögum, á undanförnum árum, sem hafa dregið úr gildi þess sem gert hefur verið vel á þessu sviði.

Ríkið stóð myndarlega að herferð til að draga úr reykingum sem hefur tekist mjög vel þótt slaki hafi orðið á því á síðustu árum. En það hefur greinilega náðst mikill árangur í því að draga úr reykingum.

Varðandi áfengi hefur öðru máli gegnt. Þar hafa opinberir aðilar gengið fram fyrir skjöldu í að brjóta niður þær takmarkanir sem skapast hafa vegna aðgengis og verðs á áfengi. Sveitarfélög hafa keppst við að leyfa opnun vínveitingastaða sem lengst og jafnvel allan sólarhringinn og fjölga þeim. Hið opinbera hefur lækkað verðgildi áfengisgjalds um þriðjung á innan við einum áratug á sterkum vínum. Það hefur verið allt of áfengisvinsamleg stefna í gangi af hálfu stjórnmálamanna og opinberra aðila. Við getum breytt miklu í þessum efnum með því að breyta hugarfarinu og breyta stefnu hins opinbera.



[14:25]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég notaði í upphafi orðin „örvandi vímuefnafaraldur“, að við stæðum frammi fyrir því. Það er ekki tekið upp úr hausnum á mér heldur hef ég heyrt okkar fremstu sérfræðinga í þessum málum tala um að við stöndum frammi fyrir þessu núna. Ég held að það sé hið besta sem við stjórnmálamenn gerum, að hlusta á sérfræðinga í þessum málum, á fagfólkið og hvað þarf að gera, hvar fjárveitinga er þörf og hvernig verði best á þessum málum haldið.

Forvarnir eru gríðarlega mikilvægar eins og hér hefur komið fram. En ekki virka allar forvarnir jafn vel. Hvernig greinum við á milli þeirra? Jú, við verðum að greina á milli þeirra með víðtækum rannsóknum, að þetta séu rannsóknartengdar forvarnir þannig að við víkjum af brautum sem við höldum að virki vel en virka ekki vel og förum inn á þær brautir sem rannsóknir og reynsla sýna að raunverulega virka. Það eru ekki endilega ný verkefni heldur þau verkefni sem reynslan sýnir að reynast best.

Það er staðreynd að vistunarúrræði, eftirmeðferð og áfangaheimili bráðvantar fyrir ungmenni á Íslandi í dag. Það er staðreynd. Það er líka staðreynd að þetta er alvarlegur sjúkdómur. Þetta er ekki bara eitthvað sem fólk velur sér eða velur sér ekki. Þetta er alvarlegur sjúkdómur sem hefur gríðarleg áhrif á alla fjölskylduna og snertir hverja einustu fjölskyldu í landinu.

Það er okkar hlutverk að tryggja að nægt fjármagn sé til staðar fyrir þær leiðir sem virka, fyrir þau meðferðarúrræði sem okkar færasta fólk beitir sér fyrir og bjarga þannig lífum, hjálpa fólki til rísa úr rústum lífsins. Þetta eru hinar raunverulegu varnir Íslands sem við þurfum að leggja áherslu á og tryggja fjármagn til.

Ég þakka kærlega fyrir þessa umræðu.



[14:27]
forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Til að ná árangri í þessum málum þarf að hvetja fólk til jákvæðrar breytni og framkomu, ekki síst unga fólkið, og gefa því tækifæri til að breyta hegðun sinni ef því er að skipta og umbuna fyrir jákvæða breytingu á lífsháttum. Þannig getum við náð árangri í að efla heilbrigði þjóðarinnar, með samvinnu og frumkvæði á sviði heilsueflingar. Þess vegna þarf að efla starf grasrótarinnar, hinna frjálsu félagasamtaka og treysta samstarf þeirra við ýmsar opinberar stofnanir auk að treysta samstarf ólíkra fræðigreina eins og hv. málshefjandi nefndi.

Áherslur þær sem þegar hafa verið lagðar í samstarfsverkefni menntamálaráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, Hins hússins, Lýðheilsustöðvar og nemendafélaga framhaldsskólanna um heilsueflingu framhaldsskólanema og forvarnir eru mikilvægar. Þær eru helstar:

Að gera úttekt á stöðu mála í framhaldsskólum með könnun á vegum fagráðs um heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum.

Að aðstoða skólasamfélagið við þróun aðgerða og viðbragðsáætlunar.

Að tryggja stöðu forvarnafulltrúa í öllum framhaldsskólum og starfshlutfall þeirra.

Að efla samstarf milli framhaldsskólanna og heilsugæslunnar.

Að bjóða upp á árlegt námskeið fyrir forvarnafulltrúa, námsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga sem starfa við heilsueflingu og forvarnir í framhaldsskólum.

Að sinna útgáfu á fræðsluefni fyrir forvarnafulltrúa, námsráðgjafa og hjúkrunarfræðinga.

Að auka samstarf við nemendafélög og Samband íslenskra framhaldsskólanema.

Það er ánægjulegt að sjá þessa aðila taka höndum saman um að vinna að þessu mikilvæga verkefni og að þeir skulu nálgast verkefnið á raunsæjan hátt. Því miður hefur stundum verið lagt upp með óraunhæf markmið í baráttunni við fíkniefnavandann og árangurinn ekki orðið eins og væntingar hafa staðið til.

Til að ná árangri í baráttu við þennan vágest þarf að greina vandann, bregðast skynsamlega við og efna til samvinnu allra þeirra sem best þekkja til. Hvetja þarf fólk til heilbrigðra lífshátta og mikillar samveru með börnum sínum og unglingum, sem eru í mestri hættu á að verða fíkniefnum að bráð.