135. löggjafarþing — 31. fundur,  27. nóv. 2007.

fíkniefnavandinn.

[14:21]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ein versta martröð foreldra er að barn þeirra verði fórnarlamb eiturlyfjabölsins. Það heltekur alla, þann sem ánetjast vímuefnunum og fjölskyldu hans. Þegar hafa verið stigin mikilvæg skref til að taka á þessu böli og fleiri eru fram undan. Málið er á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Í félagsmálaráðuneytinu er farið að vinna eftir aðgerðaráætluninni frá í vor um að styrkja stöðu barna og ungmenna. Framhaldsskólaverkefni heilbrigðis- og menntamálaráðherra ásamt Lýðheilsustöð í samstarfi við framhaldsskólanema í átaki í heilsueflingu og forvörnum er farið af stað.

Samfylkingin hefur heildstæða ábyrga stefnu í vímuefnamálum. Hún byggir á því að komið verði á vímuvarnaráði sem hafi yfirsýn yfir alla þætti málaflokksins enda varðar það mörg ráðuneyti. Ég ætla að nefna nokkra þætti þeirrar stefnu.

Í fyrsta lagi ber að nefna forvarnir og meðferðarmál. En það þarf líka að koma á fræðslu- og neyðarhjálp fyrir aðstandendur þegar grunsemdir vakna um neyslu. Það þarf að fylgja eftir lögum sem banna börnum og unglingum að neyta áfengis og fíkniefna og láta foreldra vita þegar slík tilvik koma upp. Það þarf líka að tryggja inngrip strax og vitað er um ólöglega fíkniefnaneyslu ungmennis og aðstoða þarf viðkomandi til að komast aftur til eðlilegs lífs eftir meðferð.

Það þarf að efla löggæsluna og finna fíkniefnasala og auka eftirlit með smygli. Það ber að hætta að dæma helsjúka fíkla í almenn fangelsi fyrir fíkniefnaneyslu og skilgreina neyslu sem heilbrigðisvandamál. Það verður að þyngja refsingar þeirra sem selja og fjármagna eiturlyf en eru ekki háðir þeim sjálfir. Þar eru hinir raunverulegu glæpamenn.