135. löggjafarþing — 58. fundur
 4. feb. 2008.
útvarp frá Alþingi, fyrri umræða.
þáltill. KolH o.fl., 345. mál. — Þskj. 581.

[18:41]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um útvarp frá Alþingi sem ég með stolti segi að er flutt af þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi Íslendinga. Þeir eru auk mín hv. þingmenn Arnbjörg Sveinsdóttir, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, Birkir Jón Jónsson, Jón Magnússon, Kjartan Ólafsson, Kristinn H. Gunnarsson, Mörður Árnason, Siv Friðleifsdóttir og Þuríður Backman.

Tillagan gengur út á það að Alþingi álykti að fela forseta Alþingis að hefja undirbúning þess að útvarpa þingfundum beint um allt land á sérstakri útvarpsrás og stefnt verði að því að útvarp frá Alþingi hefjist eigi síðar en þegar þing kemur saman haustið 2008.

Þingsályktunartillagan er raunar ekki ný af nálinni. Hún var fyrst flutt á 131. löggjafarþingi og er flutt sáralítið breytt. Mér liggur við að segja, hæstv. forseti, að trúlega sé óþarfi fyrir mig að mæla fyrir tillögunni því að á síðustu dögum hefur verið haft eftir hæstv. forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssyni, að málið sé þegar í skoðun hjá æðstu stjórn Alþingis. Þannig segir í Fréttablaðinu þann 29. janúar sl. að Sturlu Böðvarssyni þingforseta lítist ágætlega á tillöguna og eftir honum er haft, með leyfi forseta: „Við eigum láta að skoða þetta og meta kostnaðinn.“ Ég lít svo á að þessi stuðningsyfirlýsing sem við flutningsmenn tillögunnar fáum frá hæstv. forseta segi í sjálfu sér að þess verði skammt að bíða að hún verði að veruleika.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að með nýrri tækni hefur fólki gefist betri kostur á að fylgjast með fundum Alþingis. Samkvæmt 57. gr. stjórnarskrár lýðveldisins ber að halda fundi Alþingis í heyranda hljóði og með tölvutækninni höfum við sannarlega getað tryggt það að þingfundir nái eyrum fjölmargra Íslendinga, bæði innan lands og eins Íslendinga sem staddir eru erlendis. Þannig hefur aðgengi að þingfundunum breyst gríðarlega mikið á síðustu árum en jafnframt hefur orðið ákveðin skipting milli hópa hvað þetta varðar. Segja má að þeir sem sitja við tölvur meira og minna alla daga séu ákveðin forréttindastétt að þessu leyti því að þeir geta fylgst með beinum útsendingum frá þingfundum í tölvum sínum en á sama tíma er fólk að vinna þar sem er kannski útvarpstæki, starfsfólk í frystihúsum, strætisvagnabílstjórar, leigubílstjórar og fleiri hópar sem ekki eiga þess kost að sitja við tölvur, og það getur ekki á sama hátt og tölvufólkið fylgst með því sem er að gerast. Ég tel að með þessu séum við að jafna aðgengi fólks, burt séð frá því hvar það vinnur eða hvers konar störf það stundar, að því sem hér gerist og ég tel fullkomlega eðlilegt að það sé gert.

Auðvitað mun talsverður kostnaður fylgja því að fara út í aðgerð af þessu tagi. Ein sjálfstæð rás á öldum ljósvakans gæti kostað einhver hundruð milljóna. Ég þori ekki að skjóta á það en mér skilst að Ríkisútvarpið hafi haft þá viðmiðunarreglu að ef slík rás ætti að ná til alls landsins gæti kostnaðurinn farið upp í 700 millj. Ég er að tala um stofnkostnaðinn, þ.e. að við það að koma upp sendum um allt land geti kostnaðurinn farið upp í 700 millj. Þetta segi ég algerlega án ábyrgðar en þessi tala hefur heyrst. Að sjálfsögðu er miklu minni kostnaður fólginn í því að koma á dreifikerfi á höfuðborgarsvæðinu þar sem netið er þéttast og flestir búa en við sem flytjum tillöguna miðum auðvitað við að það komi til með að ná til allra landsmanna.

Hæstv. forseti. Ég legg þessa tillögu fram í trausti þess að búið sé að vinna jarðveginn og menn séu sammála um þetta og í ljósi þess mikla stuðnings sem ég sem 1. flutningsmaður tillögunnar fékk hjá meðflutningsmönnum mínum, treysti ég mér að líta svo á að stutt sé í að tillagan komi til atkvæðagreiðslu og verði samþykkt á Alþingi, vonandi í vor, þannig að að hausti geti þeir sem starfa þar sem er útvarpstæki fylgst með þingfundum á sama hátt og þeir sem starfa við tölvur.



[18:46]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hér til að taka undir tillöguna. Hún er í sjálfu sér ágætlega rökstudd en ég vil samt halda því til haga að auðvitað verðum við að íhuga mjög vel hversu mikinn kostnað við mundum leggja í þetta. Ég held samt sem áður að þrátt fyrir nokkurn kostnað sé mjög mikilvægt að hægt verði að útvarpa frá Alþingi með sem bestum hætti. Eins og kemur fram í greinargerðinni er það svo nú að mjög margir hafa aðgang að Alþingi í gegnum netið og eiga hægt með að komast inn í þær umræður sem hér fara fram með þeim hætti, en eins og hér er sagt eru ekki allir netvæddir og margt eldra fólk, sem gjarnan hefur mikinn áhuga á þeim málefnum sem við ræðum hér, yrði þakklátt fyrir að fá aðgang að umræðum í gegnum sín útvarpstæki.

Ég vildi einnig nefna þá sem eru á ferð um landið. Sjálf ferðast ég töluvert mikið í bíl um landið og hlusta mikið á útvarp þegar svo stendur á. Ríkisútvarpið næst nú á allflestum stöðum þó að við getum ekki alveg sagt að það sé alls staðar á þjóðvegakerfinu. Ég held að það væri ekki síst skemmtilegt fyrir þá sem eru að ferðast um í bílum að hafa möguleika á að hlusta á þessar umræður þó að við getum kannski verið sammála um að þær séu ekki allar jafnskemmtilegar en þó flestar mjög áhugaverðar. Ég ítreka að ég held að rétt sé að athuga hversu mikill kostnaður fylgir þessu. Þegar þetta var kannað fyrir nokkrum árum þótti okkur fylgja því ansi mikill kostnaður og menn töldu að ekki væri rétt að leggja í hann á þeim tíma. En með tæknibreytingum og öðru sem við erum nú að upplifa er hugsanlegt að þetta sé orðið ódýrara.



[18:49]
Árni Johnsen (S):

Herra forseti. Ég held að sú tillaga sem hér er til umræðu sé mjög af hinu góða og ætti í rauninni fyrir margt löngu að vera komin í framkvæmd. Framgangur slíkrar tillögu mundi væntanlega verða til þess að málflutningur fjölmiðla af Alþingi yrði minna afbakaður og yrði minna háður geðþóttauppsetningu ýmissa fjölmiðlamanna og ugglaust yrði meira jafnræði í málum og kynningu þeirra sem er mjög æskilegt fyrir okkar litla þjóðfélag.

Ég vil þó vekja athygli á því að ég tel að tillagan gangi í rauninni ekki nógu langt. Ég held að það sé líka tímabært að Alþingi Íslendinga komi á legg ákveðinni sjónvarpsgerð með fréttapistlum með viðræðum þingmanna allra flokka þar sem tryggt væri að menn kæmust að alveg eins og þeir komast að í ræðustóli á hv. Alþingi og fjölluðu um nánast öll mál sem kæmu upp á Alþingi. Hvort sem það eru 10 mál á dag eða 15 mál mundu slíkir fréttapistlar eða samtalsþættir, hvort sem það er kallað í stíl Kastljóss, Silfurs Egils eða Íslands í dag, skila út í þjóðfélagið miklu eðlilegri kynningu á störfum frá Alþingi en gerist í dag.

Þetta þarf ekki að vera mjög flókið mál. Það þarf auðvitað ritstjórn yfir slíkum þætti, hvort sem það væru tveir eða þrír menn, sem ættu að sjá um útsendingar, sem stæðu til að mynda klukkutíma í senn tvisvar til þrisvar á dag eftir atvikum. Með því móti værum við að ríma við nútímamöguleika og auka hlutdeild Alþingis, auka hlutdeild þingmanna á Alþingi í kynningu gagnvart þjóðinni allri beint og milliliðalaust. Útvarpstillagan er því hálfa leið að mínu mati en það hlýtur að koma að því fyrr en seinna að þessi leið verði valin því að auðvitað getur hv. Alþingi ekki setið undir því til lengdar að láta misvitra túlkunarmenn velja og hafna því sem kjörnir þingmenn þjóðarinnar eru að fjalla um á hv. Alþingi og vilja koma inn í umræðu, vilja koma til áhrifa, vilja koma til framkvæmda og gera það í nafni og umboði kjósenda.

Með þessu móti yrði Ísland fyrsta landið í heiminum sem mundi setja upp slíka þætti frá löggjafarsamkundunni og það fer ekkert illa á því. Ísland er hvort eð er með elsta þing í heimi, tilbúið að ríða á vaðið og brjóta nýjar leiðir og vera alltaf með opinn huga til þess. Það munar auðvitað miklu hvort mál geta gengið þannig beint fram eða eins og tíðkast hjá mörgum fjölmiðlum á Íslandi hvað varðar málflutning á Alþingi: Alþingismaður nefnir þrjú atriði í ræðu sinni sem grundvallaratriði. Fjölmiðlamaðurinn tekur eitt atriði, hringir í næsta mann og segir: Hann sagði þetta eða hún sagði þetta. Viðmælandinn svarar: Nú, þetta, já. Hann svarar því með þremur atriðum. Fjölmiðlamaðurinn heldur áfram næsta dag og velur eitt atriðið af því sem viðmælandinn svaraði síðast þegar rætt var um og sleppir alltaf úr því sem honum sýnist. Þetta er gangur málsins í túlkun margra fjölmiðla og hefur verið um árabil. Þetta skekkir ekki bara málflutning og kynningu frá Alþingi, þetta skekkir líka dómgreind og ruglar fólk í ríminu af því að menn fá ekki tækifæri til þess að standa fyrir máli sínu. Til þess á Alþingi Íslendinga að vera að menn standi fyrir máli sínu og komist síðan að niðurstöðu í þinginu sem menn þurfa að geta staðið sáttir um eða ósáttir en alla vega stendur það sem samþykkt er.

Ég held að það væri mjög spennandi að hugsa þessa leið og taka svolítið völdin af sjálfskipuðum pistlahöfundum sem leika sér með fjöreggið á margan hátt í meðferð mála eins og þeim sýnist en ekki á forsendum þeirra sem leggja þau fram og kynna þau á þeim stað þar sem á að vera virðing fyrir málflutningi og metnaður, á Alþingi Íslendinga.



[18:56]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég er ekki viss um að ég geti tekið undir óskir hv. þm. Árna Johnsens um eins konar fjölmiðil sem Alþingi reki og reikna ekki með að mikið samkomulag yrði um dagskrárgerð eða fréttaflutning í slíkum fjölmiðli og kannski bara betra að láta fjölmiðlana okkar aðra um þann þátt málsins.

Á hinn bóginn kviknar hjá manni hugsun við þessa ræðu og þennan flutning máls sem ég þakka 1. flutningsmanni, hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur, fyrir, en ég er einn af flutningsmönnum málsins, nefnilega sú að hér fyrr á tímum á upphafsdögum Alþingis má kannski segja að það hafi verið eins konar beinn flutningur frá Alþingi. Fátt var um fjölmiðla, lítið um beinar fréttir, ekkert útvarp og sjónvarp auðvitað til um miðja 19. öld og tímarit voru ekki tíð, útgáfa þeirra dræm og slæleg þannig að Alþingistíðindin, sem prentuð voru eftir hvert þing og dreift um landið, voru í raun og veru þessi beini miðill. Kannski hafa menn á þeim tíma, glöggir bændur og búalið og sjómenn og embættismenn og kaupmenn og tómthúsmenn í kaupstöðum, sem í þetta glugguðu, notið ákveðins beins fréttaflutnings af þinginu betur en þegar fjölmiðlaöldin tók við, sú þegar allir hlutir voru hér túlkaðir, að einhverju leyti með þeim hætti sem hv. þingmaður tiltók. Ég man eftir fréttaflutningnum þegar ég byrjaði að fylgjast með atburðum frá þinginu, ég segi nú ekki í frumbernsku en a.m.k. sem stálpað barn og unglingur. Túlkunin var auðvitað pólitísk og fór fram í hverju blaði fyrir sig þannig að vel var gert við þá sem fylgdu þeim málstað sem blaðið tók undir en ekki við hina.

Hvers vegna er ég að þessu? Vegna þess að við höfum ákveðna tæknilega möguleika á okkar tímum til þess að endurreisa þennan beina fréttaflutning frá þinginu. Hann er auðvitað á netinu og á eftir að eflast þar en hann getur líka eflst með þeirri hugmynd sem færð er fram í þessari tillögu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur o.fl. að það standi hér yfir beint útvarp allan tímann sem menn eru að ræða hlutina í þessum sal og fari ekki eftir því hvort Leiðarljós, íþróttir eða annað dagskrárefni er að hefjast í Ríkisútvarpi allra landsmanna á hverri stundu.



[18:59]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem orðið hefur um þessa tillögu, ég tel hana sýna að tillagan nýtur mikils stuðnings. Veigamikil rök eru fyrir því að það eigi að láta til skarar skríða með þetta. Auðvitað er eðlilegt að kostnaður sé kannaður til hlítar. Það er líka eðlilegt að ætla að hann fari lækkandi eftir því sem tækninni fleygir fram. Við erum hér með gervihnetti sveimandi yfir höfðum okkar og GPS-tækin úti um holt og móa og ég held að tæknin vinni með okkur hvað þetta varðar þannig að þetta fari nú að verða ódýrara eftir því sem tímar líða.

Varðandi hugmyndina frá hv. þm. Árna Johnsen skil ég það alveg að við þingmenn höfum það oft á tilfinningunni að hlutir sem gerast hér inni séu annaðhvort affluttir eða fluttir í svo miklum stikkorðastíl að það skili sér ekki á þann hátt sem við helst kysum yfir til almennings. Ég held nú engu að síður, get tekið undir með hv. þm. Merði Árnasyni hvað það varðar, að það gæti reynst erfitt að koma saman ritstjórn á slíkum fjölmiðli. Það er nú eins og annað hér í þingsölum og samstarf meðal þingmanna að það er skapandi og skemmtilegt og stundum hvín í tálknum og það er bara hluti af starfinu. En þessi tillaga sem slík gerir ráð fyrir því að sem flestir hafi beinan aðgang að þingfundum okkar, að þingfundir séu haldnir í heyranda hljóði eins vítt og breitt og mögulegt er. Ég tel að sem slík sé tillagan þess eðlis að hún ætti að samþykkjast á þessu þingi.

Að svo mæltu legg ég til, hæstv. forseti, að tillögunni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og síðari umr.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til allshn.