138. löggjafarþing — 65. fundur.
ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, frh. 3. umræðu.
stjfrv., 76. mál (Icesave-reikningar). — Þskj. 76, frhnál. 599, 600, 601 og 602, brtt. 609 og 610.

[20:08]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Samkomulag er milli þingflokka um hvernig hagað verður lokum þessarar umræðu. Forustumenn flokkanna hafa 15 mínútur hver og þingmaður utan flokka sex mínútur. Röð flokkanna fer eftir stærð þeirra. Útvarpað og sjónvarpað er frá umræðunni.



[20:08]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Icesave-málið hefur verið ítarlega rætt á Alþingi og fengið vandaða málsmeðferð. Fyrirliggjandi frumvarp að ríkisábyrgð og lánasamningar hafa að geyma lagalega og efnislega fyrirvara sem að mínum dómi lágmarka hættuna á því að Íslendingar fái ekki staðið undir skuldbindingu sinni vegna Icesave-reikninganna. Þeir fyrirvarar tryggja að afborganir höfuðstóls þurfa aldrei að fara yfir ákveðið hlutfall af vexti þjóðarframleiðslu. Þannig er tryggt að afborganir muni aldrei sliga þjóðarbúið. Auk þess er tryggt að breytist forsendur Íslendinga til þess að standa undir skuldbindingum vegna Icesave-reikninganna mjög til hins verra mun samþætting endurskoðunarákvæðis og Brussel-viðmiða leiða til þess að ekki verður gengið nærri greiðslugetu þjóðarbúsins. Þar höfum við bakstuðning Evrópusambandsins til tryggingar á sanngirni í samskiptum við Breta og Hollendinga.

Þá er rétt að hafa í huga að vextir lánsins eru einhverjir þeir lægstu langtímavextir sem veittir hafa verið í Evrópu í sögulegu samhengi. Auk þess getum við greitt lánið upp og endurfjármagnað það hvenær sem er bjóðist Íslendingum betri lánakjör með öðrum hætti. Við höldum í frumvarpinu til haga lagalegri óvissu um túlkun innstæðutilskipunar ESB. Við höldum því fram að hún eigi ekki við þegar um kerfishrun er að ræða og að ríkinu beri heldur ekki ótvíræð skylda við slíkar aðstæður til að hlaupa mundir bagga með Tryggingarsjóði innstæðueigenda.

Enda þótt Icesave-skuldbindingin sé hvorki okkar bráðasti skuldavandi né sá sem íþyngir okkur mest hefur samningaþófið um Icesave staðið í rúmt ár. Það er mitt mat að ekki verði lengra komist í samningum. 2. umr. um þetta mál lauk með því að samkomulag tókst um að tiltekin atriði yrðu skoðuð nánar af hálfu fjárlaganefndar. Þeirri skoðun lauk fyrir jólin og er greinargott yfirlit yfir þá athugun að finna í framhaldsnefndaráliti meiri hlutans.

Ég vil stuttlega draga fram markverð atriði í þeirri umfjöllun.

Í fyrsta lagi staðfestu Björg Thorarensen og Eiríkur Tómasson prófessor að frumvarp fjármálaráðherra samrýmist stjórnarskránni.

Í öðru lagi voru tvær breskar lögmannsstofur fengnar til að gefa álit, m.a. á texta samninganna og áhættu af því að fella þá. Þegar um viðamikla, sérstaka og flókna lánasamninga er að ræða er auðvitað alltaf hægt að benda á atriði sem eru óvenjuleg og hefði mátt orða öðruvísi. En hætt er við að þeir sem sökkvi sér niður í lestur á lögfræðiálitum sjái ekki skóginn fyrir trjánum. Það hefði einnig orðið til þess að greiða fyrir málum ef lögfræðistofan Mishcon de Reya hefði í 86 síðna áliti sínu, sem barst fyrir jólin, látið vita af gögnum sem hún vildi koma til Alþingis þar sem fjárlaganefnd kallaði eftir því sem skipti máli vegna Icesave-málsins. Að því er séð verður eru gögnin sem hún leggur nú fram og ollu uppnámi stjórnarandstöðunnar úr ýmsum áttum og sum hafa meira að segja þegar birst á island.is. Ég hafna því afdráttarlaust að vísvitandi sé verið að halda gögnum frá Alþingi eins og ítrekað hefur verið haldið fram.

Þegar ég tók við sem forsætisráðherra í febrúar 2009 erfði ríkisstjórnin þetta mál óleyst. Hluti af þeirri arfleifð var samningsdrög sem orðið höfðu til í samskiptum ríkja mánuðina þar á undan. Þar var sem sagt tiltekin staða uppi í viðræðunum sem viðsemjendur okkar hafa ekki hvikað frá að neinu verulegu leyti. Það sem hefur þó einkum áunnist er lækkun vaxta úr 6,7% í 5,55%, lenging lánstíma úr 10 í 15 ár, og lengur ef þörf krefur, lengra afborgunarleysistímabil, úr þremur í sjö ár, svokallað Ragnars H. Halls-ákvæði sem getur falið í sér verulegan sparnað fyrir íslenska ríkið verði aukinn forgangur íslenska tryggingarsjóðsins viðurkenndur fyrir dómi, upphafsdagur vaxta 1. janúar 2009 í stað haustsins 2008, þegar Landsbankinn féll og innstæður voru greiddar út, og loks ákvæði um þak á árlegar greiðslur.

Virðulegi forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst framganga Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem bera ábyrgð á einkavæðingu bankanna og hvernig að henni var staðið, sem í raun er upphaf þess vanda sem Icesave hefur steypt þjóðinni í, hafa verið æ torskildari eftir því sem lengra hefur liðið á Icesave-þrætuna á þingi. Í sumar greiddu flestir stjórnarandstæðingar atkvæði gegn Icesave-frumvarpinu sem varð að lögum, en nú vilja a.m.k. sumir þeirra efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kosið yrði á milli fyrirvaranna frá í sumar og þeirra fyrirvara sem eru í endurskoðuðu frumvarpi sem hér er að koma til atkvæðagreiðslu. Það sem var ekki nógu gott í sumar er þá orðið allt í einu fullgott fyrir þjóðina. Það er erfitt, virðulegi forseti, að botna í þessum málflutningi.

Það er fleira sem er torskilið í framgöngu stjórnarandstæðinga. Ég vek sérstaka athygli á umfjöllun í lögfræðiálitum um áhættuna af því að fella samningana. Hér er fyrst og fremst um pólitískt mat að ræða. Þar verða menn m.a. að meta líkurnar á að við högnumst á því að taka þann pólitíska og lagalega slag sem fylgir því að hafna samningunum.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og þáverandi formaður utanríkismálanefndar, var ekki í vafa um hvað gera skyldi í desember 2008. Í framsögu fyrir nefndaráliti mælti hann með því að hin pólitíska samningaleið yrði farin vegna þess að dómstólaleiðin, hvort sem væri fyrir íslenskum eða erlendum dómstólum, gæti leitt okkur út í ófæru. Ef menn ætla að taka þann slag verða menn líka að vera tilbúnir að tapa því máli ef á mundi reyna, sagði hv. þingmaður fyrir rúmu ári. Hann var þá sem ábyrgur stjórnarliði ekki tilbúinn til að tapa máli sem gæti endað með því að við þyrftum að borga allar innstæður erlendra aðila á Icesave-reikningum en ekki aðeins lágmarkstryggingu. Í stað þess að taka ábyrgð á 700 milljarða kr. láni, sem að stórum hluta greiddist af endurheimtum á útlánum Landsbankans erlendis, gætum við orðið dæmd til þess að greiða helmingi hærri upphæð. Slíka áhættu var hv. þingmaður ekki reiðubúinn að taka enda ábyrgur fyrir stjórn landsins á þeim tíma.

Nú í stjórnarandstöðu er komið annað hljóð í strokkinn. Hv. þingmaður hefur heldur betur snúið við blaðinu og virðist nú reiðubúinn að taka áhættuna, tilbúinn að tapa máli sem Bretar og Hollendingar mundu höfða gegn Íslandi ef Alþingi hafnaði gerðum samningum. Einhvern tímann hefði Sjálfstæðisflokkurinn axlað ábyrgð sína í milliríkjadeilu af þessu tagi, gengist við sögu sinni og stuðlað að farsælum lyktum málsins eins og burðarflokki í íslenskum stjórnmálum sæmir að gera. En það virðist liðin tíð.

Í þessu samhengi má einnig benda á mjög athyglisverða kafla í áliti Mishcon de Reya um ábyrgð ríkja samkvæmt tilskipun ESB um innstæðutryggingar. Þar kemur skýrt fram hversu miklum vafa það er undirorpið að ríki geti fríað sig ábyrgð með því að vísa til kerfishruns. Ég spyr: Er það líklegt til að hljóta skilning fyrir dómstólum eða öðrum hlutlausum aðilum að hafna því að axla ábyrgð með lánasamningum sem eru þannig úr garði gerðir að þeir gera Íslandi kleift að standa við bakið á tryggingarsjóðnum með lánskjörum sem eru óvenjuhagstæð og þannig úr garði gerð að endurgreiðslur fari aldrei yfir tiltekið hlutfall af hagvexti?

IFS Greining hefur fundið út að það sé 10% hætta á greiðsluþroti Íslands í þeim erfiðleikum sem við er að etja. Ég spyr: Hvers vegna hefur ekki verið spurt að því hverjar séu líkurnar á greiðslufalli Íslands verði Icesave-frumvarpinu hafnað á Alþingi? Mér er nær að halda að þá muni líkurnar margfaldast. Viðsemjendur okkar, alþjóðlegar fjármálastofnanir og matsfyrirtæki mundu nánast örugglega líta þannig á að þá þegar væri um greiðslufall að ræða og meðhöndla Íslendinga í samræmi við það.

Það er sem sagt mikið hættuspil að hafna Icesave-frumvarpinu. Það er sömuleiðis ekki kostur að draga samþykkt þess og fresta málinu enn um vikur eða mánuði. Slíkt er einnig hættuspil. Líklegt má telja miðað við fyrri reynslu að önnur endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins mundi frestast um óákveðinn tíma, þar með mundi full afgreiðsla lána frá sjóðnum tefjast og hið sama mundi sennilega einnig gilda um lánveitingar Norðurlanda. Afleiðingin yrði sú að ekki yrði hægt að styrkja gjaldeyrisforðann, sem er nauðsynleg forsenda afnáms gjaldeyrishafta. Slík töf mundi einnig draga úr tiltrú á efnahagsstefnu stjórnvalda bæði innan lands og utan og lánshæfismat ríkissjóðs mundi að öllum líkindum lækka.

Eins og allir vita verður greiðslubyrði ríkissjóðs þung næstu ár og má þar ekkert út af bera. Við eigum mikið undir því að geta endurfjármagnað stór lán ríkisins, sveitarfélaga og orkufyrirtækja sem eru á gjalddaga á næstu árum. Hætta er á að endurfjármögnunin verði erfiðari og dýrari, einkum með tilliti til þess að án góðs gjaldeyrisforða verður vaxtaálag ríkissjóðs hærra en ella. Minnkandi trúverðugleiki og tafir á afnámi gjaldeyrishafta munu auka þrýsting á gengi krónunnar til lækkunar sem aftur leiðir til vaxandi verðbólgu og veldur því að Seðlabankinn hefur minna svigrúm til vaxtalækkana og gæti jafnvel þurft að hækka vexti sem lækkað hafa úr 18% í 10% á árinu. Vextir hafa ekki verið lægri í fjögur ár. Hætta er einnig á því að skuldatryggingarálag ríkisins, sem lækkað hefur um helming síðan í sumar, muni rjúka upp á ný.

Það er þessi mynd sem menn þurfa að hafa fyrir augum. Ég vil ekki taka áhættu af því að hún verði að veruleika. Í sama streng hafa Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands tekið af augljósum ástæðum enda telja þau nauðsynlegt fyrir framhaldið að Icesave verði afgreitt. Þetta eru allt samverkandi þættir sem torvelda endurreisn atvinnulífs og viðnám gegn kjararýrnun og atvinnuleysi. Endurreisn atvinnulífsins snýst að stórum hluta um það að endurskipuleggja efnahagsreikninga heimila og fyrirtækja sem hafa skaddast af völdum fjármálakreppunnar og falls krónunnar. Gengi, vextir og verðbólga ráða þar úrslitum og við hljótum að haga málum þannig að þróun þessara mikilvægu þátta í afkomu fyrirtækja og heimila verði sem hagstæðust. Forsenda endurreisnar og meginmarkmið efnahagsáætlunar okkar er að endurheimta traust á efnahagslífið og gjaldmiðil þjóðarinnar. Nauðsynlegt er því að draga úr allri óvissu til þess að hægt sé að ljúka endurreisn fjármálakerfisins og bæta efnahag heimila og fyrirtækja, þar með talið óvissunni um afdrif Icesave-frumvarpsins og óvissunni um vilja Íslendinga til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar.

Af framansögðu er ljóst að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar virðast reiðubúnir til að hætta miklu til þess að Icesave-skuldbindingin nái ekki fram að ganga. Samt er Icesave-skuldbindingin einungis þriðja veigamesta ástæðan fyrir skuldaaukningu ríkisins í kjölfar gengishruns og falls bankanna. Hinar tvær eru stærri í sniðum og þungann af þeim þurfum við að bera nú þegar á næstu árum. Það er þekkt fyrirbæri að fall fjármálakerfisins framkallar ríkissjóðshalla sem hjá okkur er áætlaður uppsafnaður á þrem til fjórum árum 30–40% af landsframleiðslu. Næststærsta áfallið sem við verðum að bera er kostnaðurinn vegna tæknilegs gjaldþrots Seðlabankans í bankahruninu en hann er talinn verða um 20% af landsframleiðslu. Það er sláandi að á næsta ári munu vextir og verðbætur af þeirri skuld nema sambærilegri upphæð og hækkaðar skattálögur nú á einstaklinga. Það hafa ekki orðið langar umræður um þetta atriði á Alþingi. Icesave-skuldin er talin munu kosta okkur 10–15% af landsframleiðslu miðað við 88% endurheimtur af eignum Landsbankans. Það er nógu slæmt en þó allt að helmingi minni kostnaður en sá sem hlýst af fyrirhyggjuleysi Seðlabankans í bankahruninu.

Glíman við ríkisfjármálin verður erfið næstu ár. Það er m.a. vegna hennar sem nauðsynlegt er að afgreiða Icesave-málið svo við getum einbeitt okkur að því að bæta lánshæfismat ríkisins, tryggja hagstæða endurfjármögnun lána ríkis, sveitarfélaga og orkufyrirtækja, sjá til þess að gengið styrkist, kjörin batni og atvinna aukist, gjaldeyrishöft verði afnumin og skuldastaða heimila verði viðráðanleg. Það er af þessum ástæðum sem við þurfum að ljúka afgreiðslu Icesave á þessu ári. Það er vegna brýnna hagsmuna þjóðarinnar á næstu árum.



[20:23]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Senn göngum við til atkvæðagreiðslu um hið dapurlega Icesave-mál. Þetta mál varðar gríðarlega þjóðarhagsmuni. Þetta er væntanlega eitt stærsta mál sem við höfum tekið til atkvæðagreiðslu á Alþingi í sögu þingsins. Það felur í sér skuldbindingar upp á hundruð milljarða sem e.t.v. munu fylgja, ekki bara þeirri kynslóð sem nú býr í landinu, heldur líka framtíðarkynslóðum þessa lands. Það segir sína sögu um fjárhagslegt umfang þeirra skuldbindinga sem við viljum hér, eða öllu heldur ríkisstjórnin leggur til að við veitum ábyrgð fyrir, að vextirnir einir geta kostað okkur 100 millj. kr. á dag. Samþykkt Icesave-frumvarpsins sem í engu tekur tillit til íslenskra hagsmuna, en í öllum meginatriðum krafna viðsemjenda okkar, felur þess vegna í sér aðför að efnahagslegu sjálfstæði og fullveldi íslensku þjóðarinnar.

Með þessu frumvarpi vill ríkisstjórn Íslands, ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, gera skuldir einkabanka að skuldum almennings þessa lands. Það vill ríkisstjórnin gera án dóms og laga. Fyrir slíkri ákvörðun hlýtur að þurfa afar skýra réttlætingu, rök sem standast skoðun til langs tíma. Réttlæting fyrir þeim samningi sem hér er óskað ríkisábyrgðar á hefur ekki verið lögð fyrir þingið. Er til staðar lagaleg skuldbinding fyrir okkur Íslendinga til að takast á herðar þessar miklu kröfur? Er hún til staðar? Ég heyri það ekki í þessum þingsal. Ég hef engan þingmann heyrt halda því hér fram að á grundvelli lagalegrar skuldbindingar þurfum við að taka á okkur þessar byrðar. Reyndar er það þannig að ríkisstjórnin sjálf segir í frumvarpinu að hún mótmæli því, og nú síðast mótmælir hæstv. forsætisráðherra því að skuldbindingin byggi á lagalegum rökum. Hins vegar hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar oftlega komið hingað upp og bent á að viðsemjendur okkar séu þeirrar skoðunar og að ýmsir lögfræðingar í útlöndum séu þeirrar skoðunar að við höfum lagalega skuldbindingu til þess að taka þetta á okkur. En enginn í þessum þingsal er þeirrar skoðunar. Það er skýrt að réttlæting um að færa þessar byrðar yfir á íslenskan almenning byggir ekki á lagalegri skuldbindingu.

Kann að vera að þessa ákvörðun megi réttlæta með einhverri siðferðilegri skuldbindingu, eins og sumir þingmenn stjórnarflokkanna halda hér gjarnan fram? Kann að vera að við Íslendingar höfum siðferðilega skuldbindingu til að taka á okkur ríkisábyrgð vegna fjárhæðar sem nemur hálfri þjóðarframleiðslu? Að sjálfsögðu ekki. Á engu þjóðþingi mundu menn halda slíkum rökum fram. Okkar siðferðilega skuldbinding er gagnvart þeim sem búa í þessu landi og munu gera um ókomna tíð. Þar liggur okkar siðferðilega skuldbinding í þessu máli, að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar.

Skemmst er að minnast þess að fyrrverandi utanríkisráðherra sendi þinginu skýrslu þar sem hún tók fram að ekkert í verkum fyrri ríkisstjórnar mætti túlka svo að af því leiddi skuldbindingu fyrir Ísland eða ríkisstjórnina sem nú er við störf til þess að fallast á kröfur viðmælenda okkar. Það er þá líka skýrt. Hingað kemur upp á eftir hæstv. fjármálaráðherra og hann mun án vafa halda því fram að fyrri ríkisstjórn hafi bundið okkur Íslendinga til að takast á herðar þessar miklu kröfur. Það stenst enga skoðun. Fyrir því höfum við líka lögfræðiálit.

Þrátt fyrir að hafa ekki lagalegar skuldbindingar til þess og ekki siðferðilegar og að ekkert hafi gerst á fyrri stigum þessa máls sem knýi okkur til þessarar niðurstöðu kemur að spurningunni: Kann að vera að við höfum engu að síður pólitíska hagsmuni af því eða að í heildarhagsmunamati þjóðarinnar sé augljóst að við þurfum að takast á herðar þessa skuldbindingu? Mín afstaða til þess er algerlega skýr, við höfum enga pólitíska hagsmuni af því að sæta afarkostum annarra þjóða, sitja undir hótunum og þvingunum eins og ríkisstjórnin hefur látið fara með okkur í þessu máli.

Allt er það rétt sem hæstv. forsætisráðherra tók fram rétt í þessu. Ég var þeirrar skoðunar að við ættum að leita lausnar á þessu máli, að við hefðum hagsmuni af því að láta reyna á samkomulag við þá sem beindu að okkur kröfum í þessu máli. Heildarhagsmunamat á síðasta ári leiddi til þeirrar niðurstöðu og þannig studdu stjórnarflokkarnir á þeim tíma umboð til ríkisstjórnarinnar til að leiða málið til lykta. En staðreynd málsins er sú að við höfum fyrir löngu boðið miklu meira en hægt er að ætlast til af íslensku þjóðinni til að leysa þetta ógæfumál sem byggir á gallaðri löggjöf frá Evrópusambandinu. Með því að leita samninga, með því að vera talsmaður þess að við leiðum fram pólitíska lausn í málinu er maður ekki um leið talsmaður þess að við föllumst á allar kröfur og alla þá þvingunarskilmála sem viðsemjendur okkar hafa hótað okkur þó að ríkisstjórnin sé þeirrar skoðunar. Það dugar ekki fyrir hæstv. forsætisráðherra að koma hingað og gera mig að talsmanni slíkrar niðurstöðu í þessu máli þó að ég hafi talað þannig á sínum tíma að það væri réttara að leita lausnar. Það stenst enga skoðun að koma hingað upp með slíkan málflutning.

Til að bæta gráu ofan á svart fóru viðsemjendur okkar með okkur þannig í þessu máli að ekki einungis höfnuðu þeir öllum málatilbúnaði ríkisstjórnarinnar og samninganefndar hennar og þvinguðu fram niðurstöðu sem var auðvitað kolómöguleg heldur höfnuðu þeir líka þeirri niðurstöðu sem Alþingi Íslendinga bauð í haust. Það er einfaldlega rangt og stenst enga skoðun frekar en margt annað í þessu máli að það frumvarp sem ríkisstjórnin er hér að reyna að þvinga í gegnum þingið sé sambærilegt við málið eins og þingið afgreiddi það í sumar. Það stenst enga skoðun. Sumarþingið setti öryggisnet í þetta mál, tryggði að við mundum aldrei verja nema tilteknu hlutfalli af hagvextinum til að standa undir þessum skuldbindingum og að þingið gæti að ákveðnum tíma liðnum fellt ábyrgðina niður. Þessi tvö grundvallaratriði eru ekki lengur til staðar í málinu vegna þess að vaxtagreiðslurnar þurfum við alltaf að reiða fram á hverju ári, algerlega óháð hagvexti og hagþróun í landinu. Sömuleiðis er búið að fella úr málinu heimild fyrir þingið til að fella ábyrgðina niður í framtíðinni.

Á þessu máli eru fjölmargir lagalegir ágallar fyrir utan það sem ég hef þegar nefnt. Og það leikur vafi á því hvort málið standist stjórnarskrá. Við höfum fengið misvísandi álit í því efni. Hvers vegna leikur vafi á þessu? Jú, vegna þess að hér er verið að leggja fyrir þingið ákvörðun sem felur í sér fjárskuldbindingar sem gríðarleg óvissa ríkir um hvernig muni þróast í framtíðinni. Menn eru að leggja til að þingið taki ákvörðun sem skuldbindur það til mjög margra ára þannig að á hverju ári muni menn þurfa að taka ákvörðun um framlög á fjárlögum sem fullkomin óvissa ríkir um í dag hver verða. Þetta atriði málsins hlýtur að koma til skoðunar gagnvart stjórnarskránni vegna þess að óvissan um fjárhagslegu skuldbindingarnar sem hér er verið að taka ákvörðun um er gríðarleg.

Fleira mætti tína til varðandi lagalega ágalla. Auðvitað er það hörmuleg niðurstaða í þessum viðræðum að við skulum gelda íslenska dómstóla í málinu. Íslenskir dómstólar eru réttir dómstólar í þessari deilu. Úr kröfum erlendra aðila gegn íslenskum útibúum banka sem starfa á Íslandi á að leysa á Íslandi, en ríkisstjórnin er búin að snúa öllu á hvolf. Nú sitjum við uppi með þá stöðu að meira að segja úrlausn íslenskra dómstóla í málinu er ógild ef hún er ekki samhljóma áliti frá Evrópu í málinu. Að öðru leyti gilda um samningana — lög hvaða lands? Jú, Bretlands, Bretanna sem beittu okkur hryðjuverkalögunum. Þeirra dómstólar eiga að fjalla um málið. Og hefur ríkisstjórnin gert eitthvað til að fá bættan okkar hlut vegna þess mikla tjóns sem Bretarnir ollu okkur með því að fella með ósanngjörnum hætti íslenska banka? Nei, ekkert. Hvergi í þessum samningum sér þess stað að menn hafi fengið réttlætingu eða einhvers konar málsbætur og að okkar hlutur hafi verið réttur vegna þess ósanngjarna tjóns sem þannig var yfir okkur fært. Allt þetta hefur íslenska ríkisstjórnin látið yfir sig ganga og leggur til við þingið að við samþykkjum og veitum ríkisábyrgð fyrir. Þetta er hörmuleg niðurstaða.

Því er haldið fram að samningarnir eins og þeir eru bornir upp á þinginu standist hin sameiginlegu viðmið, Brussel-viðmiðin. Höfum eitt í huga, með þeim var viðræðuferlið núllstillt. Það þýðir ekkert fyrir menn að koma hingað og vísa til minnisblaða sem gerð voru fyrir þann tíma. Nei, þá veitti þingið umboð á ákveðnum forsendum. Þessi samningur tekur sannarlega ekki tillit til þess viðræðugrundvallar sem skapaður var með Brussel-viðmiðunum. Ég ætla að leyfa mér að vísa til fyrrverandi utanríkisráðherra um þetta atriði. Það vefst ekki fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að ríkisstjórnin fór ekki fram til viðræðna með þessi viðmið í huga heldur, svo notuð séu hennar eigin orð, samdi um þetta mál eins og sakamaður.

Ég vil segja undir lok umræðunnar um þetta mál að við í Sjálfstæðisflokknum höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að koma vitinu fyrir menn í þessu máli. Því er gjarnan haldið fram að við eigum engan annan kost en þennan, að við leiddum yfir okkur hörmulegri niðurstöðu en þessi vondi samningur býður upp á. Því mótmæli ég. Ég mótmæli því alveg sérstaklega að við Íslendingar værum í verri stöðu með því að fella þennan samning en með því að samþykkja hann. Með því að hafna þessum afarkostum stæðum við í lappirnar og létum ekki beita okkur þvingunum. Það hafa þessar þjóðir gert gagnvart okkur, t.d. hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, og mörg önnur ríki í Evrópu hafa á bak við tjöldin beitt okkur þvingunum í þessu máli og þannig erum við beitt órétti sem engin önnur þjóð mundi láta yfir sig ganga. Við eigum ekki að sætta okkur við það. Í hvert sinn sem við höfum mótmælt þessu og látið reyna á þessar hótanir hafa viðkomandi aðilar hörfað.

Hafa ekki íslensku bankarnir verið endurreistir? Höfum við ekki fengið fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum? Er það ekki þannig að framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins vill ekki kannast við að afgreiðsla þaðan sé háð lausn á þessu máli? Jú, þannig er það nefnilega þrátt fyrir allt það sem sagt hefur verið. Og nú hafa allir forustumenn ríkisstjórna á Norðurlöndunum líka tjáð sig um það að þeir geri ekki lausn á þessu máli að skilyrði fyrir fyrirgreiðslu gagnvart okkur Íslendingum.

Hver sér ekki hversu sanngjörn krafa það er að úr málinu verði leyst fyrir dómstólum? Hver sér það ekki? Ef upp kemur ágreiningur á milli tveggja þjóða, hvað er ósanngjarnt við það að menn fari fram á að málið verði lagt fyrir hlutlausan dómstól? Við höfum nefnilega boðið hlutlausan dómstól þrátt fyrir að réttir dómstólar séu hér á Íslandi. Þetta undirstrikar það sem ég sagði rétt í þessu, við höfum fyrir löngu síðan boðið sanngjarna lausn á þessu máli, pólitíska kosti sem ættu að hafa leitt til niðurstöðu í málinu fyrir löngu.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar sjálfstæðismanna á þinginu sýnist mér að stjórnarmeirihlutinn sé mjög einbeittur í ákvörðun sinni að koma málinu í gegnum þingið. Allt skal gert fyrir líf vinstri stjórnarinnar á Íslandi. Það er ekki í fyrsta sinn á þessu ári sem menn fórna sannfæringu sinni til að halda lífi í ríkisstjórninni.

En komi Sjálfstæðisflokkurinn til áhrifa í landinu, hvort sem er á þessu kjörtímabili eða því næsta, heiti ég því að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að vinda ofan af vitleysu þessarar ríkisstjórnar í málinu og leiða þjóðina út úr því kviksyndi sem ríkisstjórnin er að koma okkur í með samþykkt þessa máls. Við munum láta einskis ófreistað til að fá endursamið um þau kjör sem hér er verið að leiða þjóðina í, leiða mönnum það fyrir sjónir að við Íslendingar eigum ekki það skilið sem er verið að þvinga okkur til að samþykkja á Alþingi Íslendinga í dag. Þessa skuldbindingu höfum við gagnvart íslensku þjóðinni, gagnvart kjósendum, gagnvart þeim sem treysta okkur fyrir því að koma hingað og taka réttar ákvarðanir. Við í Sjálfstæðisflokknum munum a.m.k. ekki bregðast því trausti, því umboði, þegar að því kemur.

Þeirra skömm er mikil sem ætla að taka þá ákvörðun hér í kvöld að styðja ríkisstjórnina í þessu ógæfumáli, með þessa ömurlegu niðurstöðu í farteskinu. Og skömmin mun fylgja þeim um langa framtíð.



[20:39]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Landsbankinn gamli, hinn einkavæddi Landsbanki, var íslenskur banki. Hann starfaði á íslenskri kennitölu, var að uppistöðu til í eigu Íslendinga og var undir íslenskum lögum og reglum. Hann heyrði undir íslenskt eftirlit, íslenskt Fjármálaeftirlit og Seðlabanka og hann var á ábyrgð íslenska innlánstryggingarkerfisins hvað varðaði innlán í öllum útibúum bankans.

Hann hafði starfsemi víða um byggðir Íslands, útibú þar sem fólk lagði inn peninga en því miður stofnaði hann einnig, með fullu leyfi íslenskra stjórnvalda, útibú í Bretlandi og síðar í Hollandi. Inn í þau útibú safnaði hann óhemjufjárhæðum með því að yfirbjóða aðra banka með háum vöxtum og auglýsa að innstæðurnar væru tryggar vegna þess að íslenska innlánstryggingarkerfið stæði á bak við starfsemi bankans. Um 350.000 aðilar, fleiri en við Íslendingar erum, lögðu sparifé sitt inn á þessa reikninga í góðri trú, einstaklingar, sveitarfélög, líknarfélög, lífeyrissjóðir, eftirlaunasjóðir o.s.frv.

Þegar þessi banki hrundi, varð gjaldþrota og gat ekki greitt fólkinu út þessar innstæður gat aldrei farið öðruvísi en svo, hvað sem lagalegum álitamálum líður, en að niðurstaðan yrði skelfilegt tjón, ógæfa og dýr harmsaga fyrir Ísland. Og svo varð. Sem betur fer áttu hinir föllnu bankar fyrir öllum innstæðum, þar reyndi ekki á innlánstryggingarsjóðinn þannig að í þeim skilningi varð ekki það algera kerfishrun hvað innlán varðar sem oft er látið í veðri vaka í þessu máli. Það voru aðeins innlán Landsbankans í Bretlandi og Hollandi sem íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn þurfti að takast á við en þau voru skelfilega stór og mikil.

Veruleikinn er sá að Ísland einangraðist á örskömmum tíma með þá afstöðu sína að óvissa ríkti um hvort ríkinu bæri við þessar aðstæður að standa á bak við innlánstryggingarsjóðinn og tryggja honum fullnægjandi fé. Strax í október fóru íslensk stjórnvöld undir miklum þrýstingi að lýsa því yfir að það yrði gert, að íslenska innlánstryggingarsjóðnum yrði tryggt nægjanlegt fé til að fólk brynni ekki inni með innstæður sínar.

Ég hygg að þáverandi hæstv. forsætisráðherra hafi á hreinskilinn og mjög réttan hátt lýst því hvernig mál stóðu í nóvembermánuði þegar íslensk stjórnvöld höfðu í áföngum hrakist undan og fallist á að greiða lágmarksinnstæðurnar að fullu, 20.887 evrur. 13. nóvember 2008 lýsir Geir H. Haarde því hvernig komið sé, hver staðan sé orðin og talar um að meira að segja Norðurlöndin leggist nú á sveif með Evrópusambandsríkjunum sem segi að leysa verði Icesave-deiluna áður en Íslandi verði lofað nokkrum stuðningi, áður en við fáum afgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum o.s.frv.

Fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sagði 13. nóvember í viðtali við kvöldfréttir sjónvarpsins, með leyfi forseta:

„Það er alveg ljóst að það er verið að beita okkur miklum þrýstingi og það er enginn góður kostur til dæmis varðandi þessa Icesave-reikninga, það er enginn góður kostur í þessari stöðu þannig að við þurfum að velja leið sem að lágmarkar tjónið fyrir okkur og gerir okkur kleift að ná þeim markmiðum sem við þurfum að ná svona í öðrum málum.“

Þannig var staðan og er enn. Við verðum að velja þá leið sem lágmarkar skaðann sem þetta mál, eins og mörg önnur sem tengjast hinu sársaukafulla efnahagshruni, hefur valdið okkur. Sú leið sem hér hefur verið farin gengur út á það að hámarka eftir föngum eignir gamla bankans til að greiða inn á tjónið, að gefa íslenska hagkerfinu langan tíma til að jafna sig eftir efnahagsáföllin, ná styrk sínum á nýjan leik og verja það fyrir greiðslum á meðan.

Þetta hefur tekist í samningunum, þeir eru til muna hagstæðari en upprunalegar hugmyndir um að leysa málið frá haustinu og fyrri hluta vetrar 2008. Á þeim grundvelli til lausnar sem nú liggur fyrir hafa fyrirvarar Alþingis frá því í sumar allir verið færðir inn í viðaukasamningana, settir í lögin eða að þeirra sér stað í sameiginlegum yfirlýsingum fjármálaráðherra landanna þriggja. Náttúruauðlindirnar eru tryggðar, Brussel-viðmiðin svokölluðu eru tekin inn, áskilnaði um að Ísland geti leitað réttar síns varðandi lagaóvissu um greiðsluskylduna er til haga haldið í frumvarpinu og öðrum þeim atriðum sem mest var rætt um í þessum efnum. Efnahagslegu fyrirvararnir eru inni hvað greiðslu varðar, óbreyttir að öðru leyti en því að að lágmarki skulu alltaf greiddir vextir. Greiðslurnar eru tengdar við hagvöxt og þannig er landinu búið aukið öryggi ef við lendum í erfiðleikum á komandi árum.

Margt stórt hefur verið sagt gegn þessum samningum um þetta mál og hversu vont það sé. Það hefur minna farið fyrir öðrum uppbyggilegum hugmyndum um hvað menn ætla að gera í staðinn ef þeir ætla að hafna þessu. (Gripið fram í.) Við heyrðum gott dæmi um það áðan þegar formaður Sjálfstæðisflokksins talaði í 15 mínútur sléttar um það hvað málið væri vont, ríkisstjórnin ömurleg, hve illa hefði verið að þessu staðið, hvað þetta væri allt saman slæmt. Ekki ein sekúnda í það hvað annað ætti þá að gera. Þetta var formaður Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) með ekki eitt einasta iðrunarorð fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, engin afsökunarbeiðni kom frá formanni flokksins sem ber pólitískt meiri ábyrgð á þessum ósköpum en nokkur annar íslenskur stjórnmálaflokkur. Það er óhrekjanlegt að Sjálfstæðisflokkurinn er í miðpunkti þeirra pólitísku ákvarðana og aðgerða allt frá innleiðingu nýfrjálshyggjunnar, allt frá einkavæðingu bankanna og því sem á eftir fylgdi og leiddi til þessa hruns að lokum.

Það hefði verið stórmannlegt ef formaður Sjálfstæðisflokksins hefði komið hér seint og um síðir loksins og beðið þjóðina afsökunar fyrir hönd síns flokks. (Gripið fram í.) Það hefði verið rismeira, það hefði verið til bóta ef hann hefði verið jafnraunsær og -heiðarlegur og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sem talaði með raunsönnum hætti um þá erfiðu kosti sem þáverandi ríkisstjórn taldi sig verða að sæta. Ekkert slíkt kom fram hjá núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, því miður, forherðing ein, gagnrýni á allt og alla sem hefðu átt að standa sig einhvern veginn allt öðruvísi og miklu betur. Það er hægara um að tala en í að komast, Bjarni Benediktsson. (Gripið fram í.) Þetta vissu þínir menn í fyrrahaust og fyrravetur, þetta vissir þú sjálfur, Bjarni Benediktsson, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) þegar þú varst að rökstyðja það hér í fyrra að dómstólaleiðin væri ófær og það væri engin —

(Forseti (RR): Hæstv. fjármálaráðherra er vinsamlega beðinn að beina máli sínu til forseta.)

Ég leiðrétti mál mitt, frú forseti, og sagði hv. þingmaður, ég er að tala við virðulegan forseta.

Svona var þetta og svona er þetta vaxið. Ég tel að öllum helstu ábendingum og gagnrýnisatriðum stjórnarandstöðunnar hafi verið svarað rækilega og málefnalega. Það hefur hins vegar enginn haldið því fram og mun aldrei gera að þetta sé annað en vont og erfitt mál sem er okkur öllum sársaukafullt að þurfa að takast á við. En það er líka ljóst að það verður að gera það, það er líka ljóst að það yfirgefur okkur ekki, það gleymist ekki, það gufar ekki upp. Það er þarna og mun verða þarna og mun verða hindrun í vegi allrar okkar þróunar og framvindu takist ekki að koma því einhvern veginn út úr heiminum.

Stjórnvöld hafa verið sökuð um leynd og pukur í þessu máli. Ekkert er fjær sanni. (Gripið fram í.) Ég hef setið lengur í utanríkismálanefnd Alþingis en nokkur annar maður hér sem enn er á þingi og ég veit fyrir víst að aldrei nokkurn tímann í nokkru máli hefur trúnaði verið létt af skjölum og önnur eins ókjör gagna reidd fram og í þessu tilviki. Aldrei hefur það verið gert.

Nú er það svo, virðulegi þingheimur, að það dregur að lokum umræðu um þetta Icesave-mál. Eins og við höfum lært af reynslunni og vitrir menn hafa kennt okkur er alltaf óvissa um framtíðina. Það á að sjálfsögðu við um Icesave, það á að sjálfsögðu við um Ísland, það á við um það hvernig okkur reiðir af í gegnum öll þau áföll sem hér hafa orðið. Ég tel að við séum á góðri leið. Og hvaða veganesti ætlum við að hafa með okkur í glímunni framvegis við viðfangsefnin? Er það ekki trú á framtíðina, er það ekki það að við ætlum Íslandi í gegnum þessa erfiðleika? Eða hvað? Með hvaða hugarfari viljum við takast á við hinn dagsdaglega veruleika?

Það er ljóst að alþjóðasamfélagið lítur svo á að Ísland eigi að standa við lágmarksinnstæðutrygginguna. (Gripið fram í: Nei.) Að hverfa frá því núna, sem hefur verið margheitið, -skrifað, -lofað og -yfirlýst yrði talið íslenskum stjórnvöldum til vansa, það mundi stórskaða trúverðugleika landsins og má það þó ekki við því. Það mundi rýja íslensk stjórnvöld trausti og það mundi stöðva framgang allra okkar mála.

Mikill tími hefur farið í umræðu um þetta mál. Það er stórt, það er erfitt, það hefur enginn haft ánægju af því að glíma við það. Það er athyglisverð staðreynd og kemur e.t.v. einhverjum áhorfendum á óvart þegar það er upplýst að samt er áætlað að í lok næsta árs verði Icesave-skuldbindingin aðeins rétt rúmlega 10% af heildarskuldum og -skuldbindingum ríkisins, (Gripið fram í.) 10%-11% stendur í nýjasta matinu þar um. Það eru önnur og stærri og nærtækari vandamál sem við höfum við að glíma, sem menn reyna hins vegar að þegja um, af því að þar geta þeir síður svarið faðernið af sér þar sem er gjaldþrot Seðlabankans og fleiri slíkir hlutir. Það er nú þannig.

Það er auðvitað hægt að kenna sendiboðanum um og það er hægt að reyna að kenna þeim um sem taka við vondu búi og eru að reyna að rífa það upp, eru að reyta arfann úr túninu og sá á nýjan leik. En það er ekki stórmannlegt, það vita allir hvernig þetta mál er vaxið.

Það sem við Íslendingar þurfum að gera er að koma þessum hlutum sem flestum frá og snúa okkur að framtíðinni, að uppbyggingunni. Þar hefur okkur sem betur fer miðað vel í gegnum þetta ár. Staðan er víða erfið en því miður fer hún versnandi í mörgum löndum sem eru í hliðstæðum erfiðleikum og við. Hér fer hún batnandi og er betri en við héldum að hún yrði fyrir hálfu ári, fyrir níu mánuðum, fyrir ári síðan. Það er minna atvinnuleysi, samdráttur landsframleiðslu var minni og nú fer verðbólga lækkandi, vextir lækkandi og kannski var hvað mest sláandi fyrirsögn á mbl.is, held ég að það hafi verið, hérna upp úr jólum: Kaupmenn hæstánægðir með jólaverslunina. Ástandið er þó ekki verra en það á Íslandi þar sem ýmsir spáðu, þeir hinir sömu og spá nú öllu svörtu í sambandi við þetta mál, að hér yrði allt hrunið og í kaldakoli. Það hjálpar okkur ekki að takast á við hlutina með því hugarfari.

Það að ljúka Icesave-málinu er bara einn hluti af því að koma Íslandi áfram í gegnum erfiðleikana og út úr þeim. Öllum hugsandi mönnum má vera ljóst að það verður að takast á við þetta mál og leiða það til lykta. Þannig er það.

Ég vil að lokum, frú forseti, þakka öllum þeim sem hafa lagt fram krafta sína í þágu þess að Ísland glímdi við þetta mál allt frá haustdögum 2008 og til dagsins í dag. Ég þakka sérstaklega þeim embættismönnum, samninganefndarmönnum, lögfræðingum og þeim öðrum sem hafa aðstoðað íslensk stjórnvöld á þessum tíma og hafa gert sitt besta, um það beðnir eða í þágu þeirra sem þeir starfa fyrir. Ég tek það mjög nærri mér að ýmsir slíkir hafa mátt sæta mjög óvæginni gagnrýni og að að þeim hefur verið veist án þess að þeir geti svarað fyrir sig eða borið hönd fyrir höfuð sér. Ég tek það mjög nærri mér, en ég segi: Það er miklu meir til vansa þeim sem þannig standa að málum en þeim sem fyrir verða. Þeirra er skömmin sem veitast að fólki sem ekkert hefur gert annað en reynt að vinna þá vinnu sem það hefur verið beðið um.

Ísland mun sigrast á erfiðleikum sínum, það er bjargföst trú mín og sannfæring og að í hönd fari ár þar sem batinn hefst. Ef ég tryði þessu ekki, frú forseti, stæði ég ekki hér.



[20:54]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra stóð hér í korter og barmaði sér og virtist kenna öllum öðrum en sjálfum sér um hvernig komið er í þessu máli. Það er undarlegt í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra er nýbúinn að lofa því að hann mundi taka alla ábyrgð á þessari niðurstöðu. Það varði ekki lengi, en er kannski í samræmi við annað sem komið hefur úr þeirri átt í þessu máli. Það er búið að fara margoft yfir þann hræðsluáróður sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra fóru með í ræðum sínum að það er óþarfi að eyða meiri tíma í hann. Þó vil ég sérstaklega nefna tvö atriði sem sætir mikilli furðu að menn skuli enn þá leyfa sér af einstakri ósvífni að hengja sig í. Það eru fullyrðingar í þá veru að það að ganga frá þessu muni á einhvern hátt ryðja úr vegi hindrunum með því að þá styrkist gengi íslensku krónunnar og við losnum fyrr við gjaldeyrishöft. Það liggur fyrir, meira að segja frá Seðlabankanum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem stjórnvöld vísa hvað oftast til í þessu máli, að m.a. vegna samþykkis Icesave-samninganna verði gengi krónunnar hér veikt í a.m.k. 10 ár, líklega einhverja áratugi, og verði að haldast veikt til að menn geti staðið undir þessum skuldbindingum og gjaldeyrishöft verði að vara hér lengur en menn gerðu ráð fyrir, en ekki skemur. Og svo leyfðu bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra sér að fara í bókhaldsbrellurnar um að þetta væri svo hlutfallslega lítill hluti vandans og bera saman þessi lán, Icesave-lánin, upphæðir sem við fáum aldrei afhentar, koma aldrei hingað, við hugsanlegar heildarupphæðir annarra lána, lána þar sem við mundum þó a.m.k. veita peningunum viðtöku.

En það er óþarfi að verja meiri tíma í rök stjórnarliða í þessu máli því að þau eru öll löngu fallin. En við eigum á þessum tímapunkti að velta því fyrir okkur hvað þetta mál segi okkur um þróun íslenskra stjórnmála. Hér var almennt ríkjandi sú skoðun í íslensku samfélagi þegar hrun varð haustið 2008 að við yrðum að nota tækifærið til að gera breytingar, ekki aðeins á því hvernig við rekum okkar efnahagslíf, heldur hvernig við rekum íslenska pólitík og þar þyrfti margt að breytast. Eitt af því sem var þó oftast nefnt var staða löggjafans, staða Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, það yrði að styrkjast. Í þessu máli höfum við ekki aðeins séð framkvæmdarvaldið traðka aftur og aftur á löggjafarvaldinu, heldur beinlínis flytja löggjafarvaldið út til Bretlands og Hollands — og ekki nóg með það, flytja líka út dómsvaldið og vega þannig um leið að þrískiptingu ríkisvaldsins, íslenskum dómstólum. Hér hafa þingmenn stjórnarliðsins flutt ræður þegar þeir hafa treyst sér í ræðustól og farið aftur og aftur með sömu frasana, frasa sem sendir eru út í rauða þræðinum, talpunktum Samfylkingarinnar, eingöngu til þess fallnir að afvegaleiða umræðuna, engin rök og engu svarað í málflutningi stjórnarandstöðunnar.

Flokksræðið, átti ekki að verða einhver breyting þar? Hafa menn einhvern tímann séð annað eins flokksræði og í þessu máli? Endalausar hótanir um að ef þingmennirnir gera ekki allir nákvæmlega eins og forustan í stjórnarflokkunum ætlast til verði stjórnin hreinlega fallin, þá yrði hún sprengd. Er hægt að tala um meira flokksræði en það?

Og trúir því einhver að hæstv. fjármálaráðherra sé svo sannfærður um það sem hann sagði hér áðan að ef hann væri í stjórnarandstöðu hefði hann flutt sams konar ræðu? Trúir því einhver að hæstv. fjármálaráðherra eða nokkur einasti þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs mundi greiða atkvæði með þessu máli ef þeir væru í stjórnarandstöðu? Ég held ekki að nokkrum manni detti það í hug.

Og hvað með flokkspólitíska hagsmuni og að þeir mættu ekki verða ofar hagsmunum heildarinnar? Hér hafa ráðherrar í þessari ríkisstjórn verið ófeimnir við að lýsa því yfir í viðtölum að það sé svo mikilvægt að þeir haldi völdum og að aðrir komist ekki til valda að annað verði að víkja af þeim sökum einum. Þeir hafa meira að segja verið tilbúnir til að leggja sjálfa sig undir persónulega, hótað eigin afsögn, sagt að það yrði að fallast á þetta mál vegna þess að annars væru þeir farnir. Er þetta ekki flokksræði, er þetta ekki beinlínis ræði flokksforustunnar sem ætlast til þess að hópurinn fylgir allur og fórni þar með hagsmunum heildarinnar?

Hvað með stöðuveitingarnar? Hvernig hafa stöðuveitingar verið í þessu máli? Hafa menn treyst sér til að leita utanaðkomandi hjálpar? Hafa menn treyst sér til að fela erlendum sérfræðingum eins og var svo mikið talað um fyrir kosningar að ættu að leysa öll mál? Hafa þeir treyst sér til þess að leita til þeirra í þessu? Nei, það hefur verið leitað til hinna nánustu bandamanna, pólitískra samherja, manna sem mundu örugglega ekki gagnrýna eða koma með nokkuð sem yrði stjórnvöldum óþægilegt.

Hvað með alla umræðuna um innherjamálin, krosseignatengslin, hvernig hefur það verið í þessu máli? Á hverja hefur verið hlustað? Það hefur verið hlustað á aðila sem ýmist eru nátengdir ríkisstjórninni eða Seðlabankann sem hefur beinlínis það hlutverk að svara því til að íslenska ríkið geti staðið í skilum.

Og hvað með þegar efasemdir hafa kviknað, til hverra hefur þá verið leitað til að skera úr um þær efasemdir? Þegar lögmenn bentu á það, líklega helstu sérfræðingar Íslands í lögfræði á því sviði, að frumvarpið sem hér er til umræðu kynni að stangast á við stjórnarskrá, til hverra var leitað? Það var leitað til þeirra sem sömdu frumvarpið. Og til hverra var leitað þegar bent var á galla þessa samnings og okkur í stjórnarandstöðunni tókst að knýja það í gegn að talað yrði við erlenda lögmannastofu? Jú, það var látið eftir okkur að ræða við lögmannastofu sem ríkisstjórnin hafði haft samband við á sínum tíma, en það var líka leitað eftir áliti frá lögmannastofunni sem kom að gerð samningsins vegna þess að menn vissu að sú stofa væri ekki í aðstöðu til annars en að halda því fram að auðvitað væri þetta í lagi.

Hvað með fagmennskuna, fagmennskuna sem við töldum öll svo mikilvæga? Jú, það hefur verið leitað til ágætisfólks í þessu máli, en alltaf einhvers úr innsta hring eða sem allra næst innsta hring, fólks sem er ekki í aðstöðu til að gefa einungis fagleg sjónarmið.

Hvað þá þegar einhverjir sem eru í þeirri aðstöðu, til að mynda útlendingar sem hafa hér enga pólitíska hagsmuni, koma fram og gefa faglegt, óháð mat, hvernig er þá brugðist við? Hversu oft ætli við höfum heyrt ráðherra í þessari ríkisstjórn halda því fram að menn hafi misskilið, hinir og þessir gagnrýnendur, innlendir og erlendir, sem koma með óháð mat, þeir bara misskilji, þeir skilji þetta ekki? Er þetta ekki kunnugleg umræða?

Erum við ekki komin aftur á sama stað og hér rétt fyrir hrunið þegar viðvaranirnar komu úr öllum áttum frá þeim sem voru óháðir og gátu tjáð sig óhikað — en þeir voru alltaf að misskilja. Þá voru fengnir einhverjir í staðinn, einhverjir tengdir og þeir gátu leiðrétt misskilninginn.

Líklega er mesta kaldhæðnin í þessu öllu saman sú að hér erum við í rauninni, ef þetta fer í gegn sem ég vona svo sannarlega að verði ekki, að fara nákvæmlega sömu leið og Landsbanki Íslands fór þegar þeir voru lentir í vandræðum vegna ógurlegrar skuldsetningar sem þeir áttu erfitt með að endurfjármagna. Þá stofnuðu þeir Icesave-reikningana og hugsuðu sem svo að ef þeir bara gætu orðið sér úti um pening, þrátt fyrir að borga fyrir hann allt of háa vexti og sjá ekki fyrir sér hvernig hægt væri að borga til baka, bara ef þeir gætu orðið sér úti um pening í einhvern tíma hlyti þetta að reddast, verðmæti eigna bankans hlytu að hækka og þeir gætu einhvern veginn endurfjármagnað sig. Þetta er stóra kaldhæðnin í þessu máli. Við erum í rauninni að endurtaka þau mistök sem settu okkur í þessa stöðu.

Og hæstv. fjármálaráðherra nefndi leyndarhyggjuna. Það var furðulegt að heyra hann lýsa því að hann teldi að í þessu máli hefði ekki ríkt leyndarhyggja. Ég held að utanaðkomandi menn hljóti að vera sammála um að leyndarhyggja hafi líklega aldrei verið jafnmikil og hjá þessari ríkisstjórn, byrjaði með leyniklefanum í fjármálaráðuneytinu, svo með fullyrðingunum um Icesave-málið sem reyndust hreinlega ósannar í upphafi, um stöðu ríkisfjármála höfum við fengið mjög misvísandi skilaboð. Svo náði þessi leyndarhyggja hámarki nú í kvöld þegar forseti þingsins stöðvaði streymi upplýsinga til þingsins, upplýsinga sem þingið hafði sjálft beðið um.

Og hvað með að ræða málin í alvöru, taka á þeim í stað þess að segja að hlutirnir reddist, hverfa frá kæruleysinu? Nei, þegar menn benda hér á vankantana eru þeir sakaðir um neikvæðni og að þeir verði að fara að sýna dálitla jákvæðni og tala ástandið upp, það má ekki tala markaðinn niður.

Hvað með skammtímahugsunina sem við ætluðum að segja skilið við? Hver eru meginrök ríkisstjórnarinnar fyrir því að samþykkja þetta frumvarp? Jú, það þarf ekki að byrja að borga fyrr en eftir sjö ár og þá verða væntanlega þeir sem eru í forustu fyrir þessa ríkisstjórn hættir í stjórnmálum. Þetta er öll framtíðarhugsunin hjá þessari nýju ríkisstjórn.

Lýðræðið átti að vera í hávegum haft. Hér hafa stjórnarliðar lokað augum og eyrum fyrir umræðunni nánast alla 2. umr. þessa máls og koma svo til 3. umr. og halda fram rökum sem fyrir löngu er búið að slá út af borðinu. En lýðræðisástin birtist kannski einna helst í afstöðu þessa fólks til hugmynda um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Hún kemur ekki til greina að mati þessa fólks. Þá er vísað í það að í Danmörku gæti svona mál líklega ekki farið fyrir þjóðaratkvæði þó að í flestum Evrópuríkjum væri ekkert því til fyrirstöðu. Nú sjá menn alla vankanta á þjóðaratkvæðagreiðslum vegna þess að þeir vita að þetta mál fengist ekki samþykkt.

En hvað stóð upp úr, hvað vildu menn sjá umfram allt sem breytinguna sem væri afleiðing þeirra ófara sem við lentum í? Það var heiðarleiki. Og í þessu máli hefur því miður oft ekki verið haldið heiðarlega á málum.

Það eru heiðarlegir menn í öllum flokkum. Ég ætla að nefna hér sérstaklega tvo hv. þingmenn, hvorugur þeirra er miðjumaður eins og við framsóknarmenn, raunar hvor af sínum kantinum í stjórnmálunum, það eru hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Ég tel að þó að þessir menn séu ósammála mér um marga hluti og svo sannarlega ósammála hvor öðrum séu þeir heiðarlegir og að sá heiðarleiki hafi náð í gegn í umræðu um þetta mál. En því miður hafa allt of margir fallið í þá gryfju að verja einfaldlega sitt lið vegna þess að þeir líta á það sem hlutverk sitt að verja eitthvert tiltekið lið og fylgja þá talpunktum eins og talpunktum Samfylkingarinnar sem ég nefndi áðan.

Það er gengið býsna langt í því að verja sitt lið í þessu máli. Meira að segja leyfa menn sér að koma aftur og aftur í ræðustól, ekki hvað síst hæstv. ráðherrar, og gera lítið úr málstað Íslands en prísa á allan hátt og lofa málstað Breta og Hollendinga. Það kann að vera að með því telji menn sig vera að gæta einhverra stærri hagsmuna. Og hvaða hagsmunir eru það? Það eru þá þeir hagsmunir að þetta sama fólk haldi völdum, en þá eru menn líka að verja völdin valdanna vegna af því að þeir telja sjálfa sig betur til þess fallna en aðra að stýra og að öllu sé til þess fórnandi.

Það eru líklega fá mál ef nokkur betur til þess fallin að prófa þingið eftir þær breytingar sem við höfum gengið í gegnum en þetta mál. Það er ekki hægt að tala um að hér séu hagsmunirnir litlir, þeir eru yfirgnæfandi. Það er ekki hægt að tala um að hér séu staðreyndirnar ekki á hreinu, það er búið að fara rækilega yfir staðreyndir málsins og rökræða og útskýra gallana í málflutningi stjórnarinnar. Og það verður aldrei hægt að halda því fram að menn hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað þeir væru að gera þegar þeir greiða atkvæði hérna í dag. Þetta mál snýst ekki bara um upphæðir, snýst ekki um yfir 100 millj. kr. á dag bara í vexti, það snýst líka um stjórnmálin á Íslandi, hvernig stjórnmál við ætlum að hafa hér og hvort þetta nýja þing er raunverulega þess umkomið að breyta starfsháttum. Kannski var til of mikils ætlast að menn breyttu strax í fyrstu tilraun öllu sem aflaga hefur farið í íslensku efnahagslífi og íslenskri pólitík, en í atkvæðagreiðslunni á eftir getum við a.m.k. gefið fyrirheit um breytingar. Og Alþingi Íslendinga getur í atkvæðagreiðslunni á eftir a.m.k. veitt þjóðinni von.



[21:07]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

(Gripið fram í: Skammarlegt að ráðherra skuli ekki sitja í salnum.) Frú forseti. Ég óska eftir að forsætisráðherra sé í salnum. (Gripið fram í: Er samkomulag eða ekki?) Ég óska eftir, áður en ég hef ræðuna, að forsætisráðherra sé í salnum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti mun gera ráðstafanir til þess að forsætisráðherra komi í salinn.)

(Gripið fram í: … erfitt með að …) Takk fyrir.

Frú forseti. Ég velti fyrir mér tilgangi þess sjónarspils sem Icesave hefur verið á þingi. Strax í upphafi umræðu um þetta frumvarp spurði ég hæstv. fjármálaráðherra beinskeyttrar spurningar, ég spurði hvort þingið hefði svigrúm til að laga og bæta frumvarpið sem við erum að fara að greiða lokaatkvæði um á eftir. Af svörum hans var ekki annað að skilja en að ekkert svigrúm hefði verið til staðar. Við þingmenn verðum því miður að horfast í augu við þann ömurlega veruleika að þingið ræður litlu sem engu og hefur ef til vill ekkert annað hlutverk en að miðla upplýsingum um mál sem þó eins og í þessu tilfelli er ekki til neins því að fyrir fram var búið að ákveða hvernig niðurstaðan yrði.

Við vildum reyna til þrautar að tryggja að fyrirvarar á þessari ríkisábyrgð á einkaskuld yrðu skilyrtir en ekki óskilyrtir eins og Bretar og Hollendingar krefjast. Það er því óendanlega hryggilegt að ekki tókst að endurheimta hina sögulegu fyrirvara sem hefðu tryggt að við borgum ekki vexti ef hér yrði enginn hagvöxtur. Nú er búið að rífa í sundur öryggisnetið en okkur þingmönnum ber skylda til að tryggja að hér verði ekki samþykkt neitt sem gæti stefnt þjóðinni í voða um langa hríð. En það var aldrei gefið svigrúm til þess, það var búið að ákveða fyrir fram hvernig þessi saga hæstv. fjármálaráðherra mundi enda. Við vildum reyna til þrautar að benda á að óbreytt er þetta frumvarp skaðlegt þjóðinni og við komum með skynsamlegar tillögur að úrbótum sem öllum var hafnað.

Það er ekki réttlátt að væna minni hlutann um að hafa ekki komið með hugmyndir að úrlausnum því að margar prýðilegar hugmyndir hafa verið lagðar fram til að bæta þessi lög, en allar þær hugmyndir voru slegnar út af borðinu án þess að gefa þeim almennilegan gaum. Fyrir fram var búið að ákveða hvernig þetta spil mundi enda og Icesave er með sanni svartipétur ríkisstjórnarinnar sem hún ætlar sér að velta á axlir þjóðarinnar.

Hið sjö ára skjól sem ríkisstjórnin talar fjálglega um er blekking. Það er blekking á blekkingu ofan. Finnst hv. stjórnarþingmönnum allt í lagi að nota tekjuskatt 80.000 skattborgara þessa lands ár hvert til að borga vexti af Icesave, bara vextina, á meðan vafi leikur á því hvort okkur beri yfir höfuð að standa undir þessari skuldbindingu? Ég spyr hv. þingmenn sem hafa sýnt vilja fyrir kosningar til að hlúa að og standa vörð um velferðina hvort þeir geri sér grein fyrir því að grunnstoðir þessa kerfis munu bresta, þær munu bresta undan þeirri greiðslubyrði sem þeir ætla sér að samþykkja á eftir.

Ég spyr hv. stjórnarþingmenn hvort þeim þyki eðlilegt að samþykkja þennan myllustein á komandi kynslóðir, jafnvel þvert á samviskuna, vegna þess að annars gæti þessi stjórn verið felld af hæstvirtri sjálfri sér? Er virkilega svona mikilvægt að halda í völdin að öllu skuli fórnað fyrir þau? Ef einhverju sinni hefur verið tími fyrir þjóðstjórn eða utanþingsstjórn er það einmitt núna. Það er augljóst að hefðbundin pólitík veldur ekki þessu stóra verkefni og þeim stóru verkefnum sem við eigum eftir að standa frammi fyrir.

Varla vilja hv. þingmenn jásins verða til þess að þetta land og þessi þjóð lendi á sama stað í alþjóðasamfélaginu og þróunarríki. Er mögulegt að þingmenn Samfylkingarinnar haldi að Icesave-skuldbindingunni verði hreinlega sópað undir ESB-teppið ef ætlunarverkið um að koma Íslandi þangað inn verður að veruleika?

Frú forseti. Ég skil ekki hvað liggur að baki þeirri ógæfu að vilja samþykkja Icesave í núverandi mynd án þess að reyna til þrautar að gera forsendur ríkisábyrgðar skaplegri. Og hvað er að því að láta reyna á dómstólaleiðina? Hvað er það versta sem gæti hugsanlega mögulega gerst ef við látum reyna á hana? Hver sagði að þetta væri lokatilboð? Ber okkur að hlíta því? Í engu hefur þessum spurningum sem ég bar þó upp fyrir nokkru síðan í annarri ræðu verið svarað af stjórnarliðum.

En það er alveg ljóst að fagmennsku og dug vantaði í samningagerðina. Embættismennirnir vældu á bernskan hátt um erfitt ástand hér heima fyrir við embættismenn frá þjóðum sem hafa litla samúð með okkar fjárhagslegu erfiðleikum og mótmælum við gáttir þingsins. Gleymum því ekki að til dæmis tóku nokkrar Evrópuþjóðir upp á því nýverið, þar með taldir Bretar, að losa sig við eitraðan úrgang við Fílabeinsströndina sem varð til þess að fjöldi fólks dó eða veiktist alvarlega. Bretar sögu aldrei afsakið. Gleymum því ekki að þetta eru þjóðir sem senda unga fólkið sitt hiklaust í árásarstríð og það er þess vegna arfavitlaus samningatækni að barma sér, það sýndi bara veikleika og gaf mótherjum okkar strax yfirhöndina. En það er kannski ekki við embættismennina að sakast, þeir höfðu aldrei tekist á við breskt lagaumhverfi og voru kannski eins og stóreygð börn í framandi landslagi.

Það er líka einsýnt í upphafi að við ætluðum að massa þetta sjálf, of dýrt að sækja aðstoð frá einhverjum útlendingum með reynslu af slíkri samningagerð, nei, við reddum þessu sjálf og núna sitjum við uppi með svartapétur og það er ekki nokkur leið fyrir stjórnarliða að sjá öll trompin sem leynast í spilabunkanum ef við bara þorum að stokka og gefa upp á nýtt. En það er ekki hægt því að hæstv. fjármálaráðherra hefur aldrei viljað neina aðra niðurstöðu en Svavars-niðurstöðuna, hann lagði jú sjálfan sig að veði en gleymdi að þetta er ekki hans veð heldur þjóðarinnar. Vanhæfni á vanhæfni ofan einkennir þetta mál frá upphafi til enda, hvort heldur hrunstjórnina eða þá sem nú situr við völd.

Hæstv. fjármálaráðherra veit til dæmis mætavel að við getum varla staðið undir því að tekjuskattur tæplega 80.000 skattborgara þessa lands fari í það eitt að borga vexti af Icesave ár hvert. Það hefur komið í ljós að hægt er að teygja lánið um ókomna tíð og það þýðir að vextirnir halda áfram að hlaða utan á sig eins og væru þeir snjóbolti.

Þær eignir sem vísað er til sem skilanefnd Landsbankans lúrir á og segir að við getum fengið nánast allar upp í þessa skuld eru huldueignir sem enginn hefur fengið að sjá hverjar eru — nema skilanefndarmenn. Ekki einu sinni hæstv. fjármálaráðherra hefur fengið að sjá eignasafnið. (Gripið fram í: Ekki neitt?) Svo segir hann. Því er ljóst að ekki nokkur maður, nema þeir sem eru í skilanefnd Landsbankans, veit hvað liggur að baki stærstu skuldbindingu þjóðarinnar.

Ég óttast að grunnstoðir samfélags okkar bresti ef þetta verður samþykkt. Ég óttast að almenningur gefist upp og flýi land. Ég óttast að við getum ekki staðið við þessar skuldbindingar og þess vegna væri langheiðarlegast að horfast í augu við þá staðreynd að tæknilega séð getum við alls ekki staðið við allt sem við erum að lofa að gera, getum ekki borgað skuldir okkar án þess að skerða kjör næstu kynslóða og vega að því samfélagi sem við búum í og forfeður okkar lögðu blóð sitt og svita í að gera að betra samfélagi en flestir jarðbúar eiga kost á.

Allt frá því að Icesave-málið kom inn á borð þingsins hefur það verið sveipað dulúð, og strangheiðarlegt fólk veigrar sér ekki við að ljúga að samstarfsfólki sínu eða dansa á hinu gráa svæði hvítu lyganna. Stundum veltir maður fyrir sér hver tilgangurinn með þessum óheiðarleika sé. Allt átti að vera uppi á borðinu þegar ríkisstjórnin tók við, en með hverjum deginum verða lygarnar í kringum Icesave umfangsmeiri. Það er nú oft þannig að þegar mikið er logið missir fólk þræðina út í einhverja vitleysu og þannig upplifi ég þá umræðu sem stjórnarliðar hafa boðið almenningi upp á undanfarið.

Þau hafa verið fögur, hljóðin úr fagurgalanum varðandi ágæti Icesave-samninganna. Dísæt tilhugsun um að geta velt skuldabyrði frá okkur í ein sjö ár hefur oft verið endurtekin sem einn af hornsteinum snilldarinnar. En hvað er þetta skjól þeirra annað en fullkomin blekking? Það er ekki neitt sjö ára skjól, kæru landsmenn, það er ekki neitt skjól fyrir Icesave nema að hafna þessum voðalega samningi í þeirri mynd sem hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, færir okkur núna. Það er ekki merki um styrk þingsins að leyfa að þetta frumvarp fari óbreytt í gegn.

Hæstv. ráðherrar kepptust við að hæla fyrirvörunum í sumar og allir voru á eitt sáttir við þá völundarsmíð þegar óskað var eftir stuðningi minni hlutans við fyrirvarana sem allir þingmenn sem einn studdu. En við erum bara eins og hver önnur nýlenduþjóð sem ráðamenn þessara landa sem við höfum verið að reyna að semja við bera ákaflega litla virðingu fyrir. Kannski má um kenna að ekki hefur tekist að fá meiri hlutann til að koma á þingmannanefnd sem færi til þessara landa og hitti breska og hollenska þingmenn formlega til að ræða saman um stöðuna og útskýra hvað þessar kröfur sem embættismenn þeirra settu saman þýða fyrir landið okkar og sameiginlega framtíð og hagsmuni í alþjóðasamfélaginu.

Á NATO-þinginu sem ég var á nýverið gaf sig á tal við mig breskur þingmaður, sem er formaður efnahagsnefndar NATO-þingsins, en hann er jafnframt þingmaður Verkamannaflokksins. Hann bauðst til að setja af stað ferli þar sem íslensk þingmannanefnd mundi hitta formlega breska þingmenn til að útskýra stöðu landsins sem og Icesave. Ég fór ítrekað á leit við forseta, forsætisnefnd, þingflokksformenn og utanríkismálanefnd að skipuð yrði þingnefnd til að kynna stöðu landsins meðal breskra og hollenskra þingmanna. Því miður var sú formlega beiðni svæfð í nefnd og mér sagt að ekki væri ráðlegt að senda þingmannanefnd út til Bretlands á meðan verið væri að vinna í Icesave-málinu. [Hlátur í þingsal.] Ég fékk enga almennilega skýringu á því af hverju það þætti ekki heppilegt að kynna stöðu landsins meðal kollega okkar.

Okkur í Hreyfingunni finnst ekki réttlætanlegt að samþykkja að fyrst verði gengið að sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar áður en reynt verði til þrautar að endurheimta peningana frá þeim sem stálu þeim úr Icesave-bankanum því að varla hafa peningarnir bara gufað upp. Við ættum núna að kalla eftir Stiglitz, kalla eftir að Stiglitz verði samstundis fenginn eða einhver annar af hans kalíberi til ráðgjafar sem og til að fara yfir heildarskuldastöðu okkar, en það er alveg ótækt að samþykkja að tekjuskattur 150.000 skattborgara landsins renni í að borga vexti af erlendum lánum á næstu árum.

Frú forseti. Að samþykkja Icesave-frumvarp hæstv. fjármálaráðherra er ógæfuspor fyrir land og þjóð. Ég bið hv. samþingmenn mína um að grandskoða hug sinn og hjarta og rifja upp Icesave-söguna og öll þau vafasömu atriði sem hafa komið upp. Ég bið þingheim um að gleyma því ekki að með því að samþykkja þetta frumvarp í óbreyttri mynd erum við að senda skýr skilaboð til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um að lög Alþingis eru okkur ekki heilagri en svo að við breytum þeim til að þóknast erlendum embættismönnum. (VigH: Rétt.) Fullveldið er að veði, sjálfstæðið er að veði, höfnum þessum afarkostum, höfum hugrekki til að sýna að við látum ekki umbreyta þjóð sem fyrir ári var talin fimmta ríkasta þjóð í heimi í nýlendu erlends ríkis á ný. Stöndum saman gegn þessari kúgun. Sýnum ábyrga hegðun með því að taka ekki meira á okkur en við getum valdið.

Frú forseti. Við erum í efnahagsstríði. Heimsbyggðin er að sigla inn í aðra kreppu. Við ættum að einbeita okkur að því að slá alvöruskjaldborg um fjölskyldur landsins. Sýnum þeim að við ætlum ekki bara að óska fórna frá henni, heldur tryggja réttlæti. Notum það svigrúm sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lagði til og leiðréttum skuldir heimilanna. Drögum þetta frumvarp til baka og fylgjum þeim lögum sem við þó sjálf sömdum á þinginu í sumar og förum saman í þá vegferð sem endurreisn Íslands kallar eftir. Nóg er komið og legg ég svo til og mæli með að hæstv. ríkisstjórn taki nú þetta frumvarp heim til föðurhúsa og virði þau lög um ríkisábyrgð sem samþykkt voru í sumar ellegar leyfi það sem auðvitað sjálfsagt er og rétt, að þjóðin kjósi um Icesave.



[21:22]
Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Það gladdi mig nú eftir bölmóð og botnlausa svartsýni undanfarinna daga og vikna að heyra að þrátt fyrir allt metur hinn alvitri formaður Framsóknarflokksins stöðuna á þinginu sem heldur betri en var í Sódómu og Gómorru á fyrri tíð með því að nú þegar meðal okkar 63 sem hér erum hefur hann fundið tvo réttláta.

Í hreppsnefnd í afskekktri sveit norður við ysta haf urðu langar umræður um að eitthvað þyrfti að aðhafast vegna bújarðar sem hafði verið yfirgefin haustið áður og var viðskilnaðurinn slæmur. Þessi jörð hafði verið í eigu hreppsins og notuð sem upprekstrarland fjár uns nýr og atkvæðamikill hreppstjóri komst til valda í hreppsnefndinni og vildi selja eigur hreppsfélagsins, þar á meðal þessa jörð sem hentaði vel til fjárbúskapar.

Hreppstjórinn hafði sitt fram í þessu sem öðru og kaupandinn var sérvalinn úr vinahópi hreppstjórans. Hann hét Stórólfur. Nokkur kurr kom upp þegar það spurðist út að ætlunin væri að selja Stórólfi jörðina því að búskaparhættir hans voru umdeildir og hann hafði áður verið dreginn fyrir dóm fyrir óhefðbundna meðferð sína á fé og sérkennilega afstöðu til búreikninga. Hreppstjórinn og fylgismenn hans höfðu sitt fram, Stórólfur tók við búi og gerði einkavin hreppstjórans að ráðsmanni sínum — en láðist með öllu að greiða það lága verð sem upp var sett fyrir jörðina.

Líður svo fram um hríð og verður mönnum tíðrætt um ríkidæmi Stórólfs sem barst mjög á og skorti aldrei skotsilfur, enda gat hann sótt lausafé að vild í skiptum fyrir ástarbréf til hreppstjórans sem nú hafði flutt sig um set og var orðinn sparisjóðsstjóri í sveitinni.

Nú harðnar í ári og menn hafa orð á því að ekki séu lengur tvö höfuð á hverri skepnu á búi Stórólfs. Það sem verra er er að nú fara að berast kvartanir úr öðrum sýslum yfir því að fé Stórólfs sé haldið þar til beitar í leyfisleysi og húskarlar hans taki í sína umsjá sauðfjáreign bændafólks í fjarlægum byggðarlögum og setji engar tryggingar fyrir því að þeir geti skilað fénu til baka loðnu og lembdu. (Gripið fram í: Finnst þér þetta fyndið mál?)

Til að gera langa sögu stutta brestur nú á með harðan vetur og fjárfelli sem kemur harðast niður á þeim bændum sem höfðu trúað því að með mikilli stóriðju og tilheyrandi loftslagshlýnun hefðu búskaparhættir á Íslandi gjörbreyst til hins betra, fé gæti gengið sjálfala árið um kring og þyrfti ekki aðra umhirðu en rúningu og slátrun.

Milli jóla og nýárs þagnar loksins hreppsnefndin málglaða og tekst ferð á hendur að kanna viðskilnað Stórólfs. Það er áliðið kvölds þegar nefndarmenn paufast heim að bænum við daufa týru frá þrettánda tungli þessa óhappaárs. Þegar þeir koma heim að bæjarhúsunum rekur sá sem fyrstur gengur upp skaðræðisóp því að út úr myrkrinu kemur flyksa og vefur hann ísköldum örmum. Á bæjarhlaðinu er háð tvísýn glíma og angistaróp bergmála í klettum út yfir hjarnbreiðuna.

Hluti hreppsnefndarmanna telur þann kost vænstan að leggja hæla á bak og flýja undan draugnum. Þeir skunda til byggða og flytja þau tíðindi að magnaður draugur gangi nú ljósum logum í sveitinni og muni engu eira, og eyða allri byggð. Fólk sem heyrir þessar tröllasögur verður eðlilega felmtri slegið og uggandi um framtíðina þegar sveitin sér forustumenn sína og trúnaðarmenn froðufella af æsingi og skjálfa á beinunum af ótta.

Þá víkur sögu aftur heim á hlað. Nýi hreppstjórinn og oddvitinn ákveða að reyna að koma til bjargar. Eftir harðan aðgang kemur í ljós að draugur sá sem hefur vafið örmum sínum að hálsi hreppsnefndarmannsins er engin afturganga, heldur er þarna á ferðinni svonefnt föðurland, ullarnærbuxur síðar sem Stórólfur bóndi hefur skilið eftir hangandi á snúru og hafa nú fokið og skálmarnar vafist að hálsi hreppsnefndarmannsins sem er viti sínu fjær af ótta.

Við skulum skiljast hér við þessa þjóðsögu sem við þekkjum öll í einni eða annarri mynd úr þúsund ára sögu okkar. En fyrst er þó ekki úr vegi að draga nokkurn lærdóm af sögunni.

Til dæmis á maður ekki að selja einkavinum sínum eignir almennings. Í annan stað á maður að vanda val á vinum sínum. Til dæmis skulum við hafa að nýjar hreppsnefndir geta ekki kjaftað sig frá því að takast á við vandamál úr fortíðinni — jafnvel þótt þær eigi ekki sök á þeim vanda. Og til dæmis eiga hreppsnefndir að leysa erfiðleika en ekki magna þá upp og allra síst að hræða saklaust fólk með því að breyta skítugum nærbuxum eftir uppflosnaðan búskussa í mannskæðan draug.

Hvað svo sem líður sagnahefð okkar Íslendinga er kominn tími til að slá botn í þetta Icesave-mál að sinni og ganga óttalaus að því að slá marglofaðri skjaldborg um fjölskyldur og heimili í landinu.