138. löggjafarþing — 100. fundur
 25. mars 2010.
ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009 um breytingu á X. og XI. viðauka við EES-samningi, síðari umræða.
stjtill., 396. mál (þjónustuviðskipti). — Þskj. 705, nál. 862.

[16:54]
Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um þingsályktunartillögu um staðfestingu ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009, um breytingu á X. viðauka, svokölluðum hljóð- og myndmiðlun og XI. viðauka, um fjarskiptaþjónustu við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fengið til sín fulltrúa, bæði úr utanríkisráðuneytinu og frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti til að ræða efnislega um þessa tillögu. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 9. júní 2009, um breytingu á X. viðauka og XI. viðauka við EES-samninginn, og einnig til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 2006/123/EB frá 12. desember 2006, um þjónustu á innri markaðnum, svokallaða þjónustutilskipun.

Það er kannski rétt að geta þess að það sem helst hefur vakið umræðu í tengslum við þessar breytingar eða þessar heimildir, er hin svokallaða þjónustutilskipun.

Tilskipun Evrópuþingsins frá 2006, 12. desember 2006, sem kölluð hefur verið þjónustutilskipunin, var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 9. júní 2009. Tillaga að þjónustutilskipun var fyrst lögð fram á vettvangi Evrópusambandsins í janúar 2004. Markmiðið var að greiða fyrir og auka þjónustuviðskipti milli landa, en þrátt fyrir ákvæði um innri markað voru töluverðar hindranir á frjálsu flæði þjónustu enn til staðar sem komu niður á bæði þjónustuveitendum og neytendum. Tillagan fékk mikla athygli og var pólitískt afar umdeild, svo ekki sé meira sagt, sér í lagi vegna ákvæða um heilbrigðisþjónustu og vinnurétt sem voru upphaflega inni í þessari svokölluðu þjónustutilskipun. Hin svonefnda upprunalandsregla var einnig afar umdeild þar sem óttast var að hún fæli í sér félagsleg undirboð, en samkvæmt henni giltu um þjónustuveitanda reglur þess lands þar sem hann var með staðfestu en ekki þar sem þjónustan var veitt.

Í ljósi þeirrar miklu gagnrýni sem tillagan hlaut lagði framkvæmdastjórnin fram nýja tillögu þar sem tekin voru út ákvæði um heilbrigðisþjónustu og vinnurétt og verulegar breytingar gerðar á upprunalandsreglunni. Sú tillaga var síðan samþykkt í desember 2006. Þessi tilskipunin fékk einnig talsverða athygli í Noregi þegar hún var þar til umfjöllunar vegna aðildar Noregs að Evrópska efnahagssvæðinu og Norðmenn gerðu m.a. ítarlegar úttektir á hinum ýmsu afleiðingum tilskipunarinnar. Að lokum náðist þó samstaða um hana þar og hún tekin upp í EES-samninginn eins og áður segir 9. júní 2009.

Þegar málið var til umfjöllunar hér í ríkisstjórn var samþykkt sérstök yfirlýsing í ríkisstjórninni vegna þjónustutilskipunarinnar, en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við upptöku þjónustutilskipunarinnar (2006/123/EB) í EES-samninginn er minnt á af hálfu Íslands að tilskipunin hefur m.a. ekki áhrif á ráðningarskilmála og -skilyrði, samskipti milli aðila vinnumarkaðarins, réttinn til þess að semja um og ganga frá kjarasamningum og grundvallarréttindi, svo sem verkfallsréttinn og réttinn til að grípa til aðgerða á vinnustað. Þjónustutilskipunin hefur ekki áhrif á vinnulöggjöf eða þríhliða samvinnu verkalýðsfélaga, vinnuveitenda og stjórnvalda. Af Íslands hálfu er lögð áhersla á að hin víðtæka samstaða meðal Íslendinga um að gera áætlanir um aðgerðir, svo og viðeigandi ráðstafanir, sem miða að því að standa vörð um réttindi innlendra og útlendra starfsmanna og góðan aðbúnað á vinnustöðum, stríði ekki gegn þjónustutilskipuninni. Þær ráðstafanir geta m.a. náð yfir skilvirkt kerfi um almenna beitingu kjarasamninga og innleiðingu sameiginlegrar ábyrgðar verktaka og undirverktaka til þess að tryggja að réttindi vinnandi fólks séu virt. Af Íslands hálfu er lögð áhersla á að það verði áfram á valdsviði innlendra yfirvalda — á öllum stigum stjórnsýslunnar, ríkisvalds og sveitarstjórna — að ákvarða í hvaða mæli hið opinbera skuli veita þjónustu, hvernig hún skuli skipulögð og fjármögnuð og hvaða sérstöku kvaðir skuli gilda um slíka opinbera þjónustu.“

Þessi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá því í maí 2009 er forsenda þess að íslensk stjórnvöld fallast á innleiðingu þjónustutilskipunarinnar hér á landi. Utanríkismálanefnd telur mikilvægt og rétt að vísa til þessarar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tillögugreininni og gerir þess vegna breytingartillögu þar um.

Þá telur nefndin æskilegt að í heiti tillögunnar komi fram að um er að ræða heimild til staðfestingar á ákvörðun um að fella þjónustutilskipunina inn í EES-samninginn, en það kemur ekki skýrt fram í heiti tillögunnar eins og hún var lögð fram hér á Alþingi. Utanríkismálanefnd gerir því tillögu til breytingu á heiti þingsályktunartillögunnar.

Til að innleiða ákvæði tilskipunarinnar var ákveðið að semja rammafrumvarp þar sem helstu efnisákvæði tilskipunarinnar eru tekin upp, en það nefnist frumvarp til laga um þjónustuviðskipti á innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins. Frumvarpið var lagt fram á yfirstandandi þing og í kjölfar 1. umr. var því vísað til viðskiptanefndar þar sem það er nú til umfjöllunar.

Utanríkismálanefnd leggur til að sú tillaga sem hér er til umræðu verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

1. Að tillögugreinin orðist svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar með vísan í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um þjónustutilskipun Evrópusambandsins, sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi 26. maí 2009, að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009, frá 9. júní 2009, um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum (Þjónustutilskipun), og breytingu á X. viðauka (Hljóð- og myndmiðlun) og XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við samninginn.“

2. Heiti tillögunnar orðist svo:

„Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009, um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum (Þjónustutilskipun), og um breytingu á X. viðauka (Hljóð- og myndmiðlun) og XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við samninginn.“

Undir þetta nefndarálit og breytingartillögurnar rita Árni Þór Sigurðsson, formaður og framsögumaður, Gunnar Bragi Sveinsson, Helgi Hjörvar, Valgerður Bjarnadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Ögmundur Jónasson.



[17:01]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þessa þingsályktunartillögu. Ég vil þó árétta það vegna þess að þetta mál snýr að þjónustutilskipuninni sem hv. framsögumaður gerði ágæt skil, að megnið af atvinnustarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu fellur undir þjónustu. Ef það er þannig að ESB er full alvara í því að láta innri markað sinn virka með eðlilegum hætti, mun það alltaf stefna í það að öll viðskipti með þjónustu verði gefin frjáls. Vandi ESB er sá að það hefur verið lítil framleiðniaukning á undanförnum árum og áratugum, mun minni framleiðniaukning en verið hefur í þeim ríkjum sem við Evrópubúar berum okkur saman við, Bandaríkjunum. Og eins þegar við veltum fyrir okkur hvað er að gerast í Asíuríkjunum þar sem framleiðniaukningin hefur orðið mjög mikil, skiptir auðvitað máli að við drögumst ekki aftur úr. Ef framleiðnin vex ekki hjá okkur eins og annars staðar — þegar ég segi „okkur“ á ég við okkur Evrópubúum — munu lífskjör í Evrópu dragast saman. Þau munu dragast aftur úr því sem aðrar þjóðir geta boðið og það mun gerast býsna hratt.

Þegar við bætist sú staðreynd að aldurssamsetning Evrópu er óhagstæð, er meiri og meiri krafa á að við náum að nýta alla framleiðsluþætti með sem skynsamlegustum hætti og að framleiðniaukningin verði sem mest. Vandinn er sá að það er ákveðin tilhneiging innan ESB til að vernda framleiðslu álfunnar gegn samkeppni að utan með tollum, sem aftur dregur úr framleiðniþróuninni, því að það er ekkert sem keyrir framleiðni og framleiðniaukningu betur áfram en samkeppni.

Í þessari þingsályktun er um að ræða tvo viðauka, annars vegar um hljóð- og myndmiðlun og hins vegar fjarskiptaþjónustu. Það skiptir auðvitað miklu máli allt það sem gerist á þessu sviði, sérstaklega fjarskiptaþjónustunni, sem er orðin ein af meginstoðum allrar atvinnustarfsemi. Eins er hljóð- og myndbandsmiðlun alveg gríðarlega umfangsmikil atvinnustarfsemi í nútímahagkerfum.

Þetta vil ég segja hér, af því ég hlýddi á ágæta yfirferð hjá háttvirtum framsögumanni nefndar í ágætri ræðu hans hér áðan. Ég vil bara benda á þetta. Þetta er það sem mun gerast. Þeir fyrirvarar sem íslensk stjórnvöld hafa sett, þeir fyrirvarar sem t.d. norsk stjórnvöld og fleiri hafa sett munu smám saman gefa eftir, það er mín spá. Smám saman mun þetta þróast í þá átt að það verða minni og minni fyrirvarar, þjónustustarfsemin mun verða með sama hætti og önnur starfsemi ef innri markaðurinn á að ganga upp því að ef ekki verður full samkeppni á þjónustusviðinu sem megnið af atvinnustarfsemi innan ríkja ESB hvílir á og ef ekki verður full samkeppni innan ESB-ríkjanna í þjónustu, mun framleiðnin ekki aukast. Lífskjör munu óumflýjanlega dragast aftur úr þeim lífskjörum sem við viljum keppa við, sérstaklega í Bandaríkjum Norður-Ameríku hvað varðar tekjur og ráðstöfunartekjur borgaranna.

Þess vegna vil ég beina því til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar, að þó að ég viti að hann er ánægður með hvaða girðingar menn vilja setja, og ég get svo sem tekið undir ýmislegt þar varðandi það, skil ég vel að menn hafi áhyggjur. Ég vil bara beina þeim orðum til hv. þingmanns að þetta muni ekki halda nema í ákveðinn tíma því að ef það heldur of lengi mun framleiðnin ekki aukast. Þannig mun það verða.



[17:06]
Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir hans innlegg í þessu efni og jafnframt stuðning hans við það hvernig breytingartillögur utanríkismálanefndar eru settar fram. Ég skildi hann þannig að hann væri sáttur við það, enda tóku flokksfélagar hans í Sjálfstæðisflokknum í utanríkismálanefnd undir þessar breytingartillögur og skrifuðu undir nefndarálitið og breytingartillögurnar.

Vangaveltur hans eru góðar og gildar en það er hins vegar erfitt að spá, einkum og sér í lagi um framtíðina. Hvað nákvæmlega mun gerast í þessu efni vitum við auðvitað ekki. Það er margt sem getur breyst á næstu árum. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni urðu mikil átök á vettvangi Evrópusambandsins um þjónustutilskipunina eins og hún leit út í upphafi, einkum og sér í lagi vegna þess sem ég gat um, að henni var ætlað að ná einnig til heilbrigðisþjónustu, vinnuréttar og slíkra þátta. Það var pólitísk niðurstaða, á vettvangi Evrópusambandsins að gera breytingar á henni til þess að koma til móts við þessi sjónarmið.

Vitaskuld er mikilvægt fyrir okkur í okkar heimshluta að huga að því að hér sé hagvöxtur til þess að byggja undir til framtíðar, en hagvöxtur og hagvöxtur eru nú ekki endilega það sama. Það er auðvitað mikilvægt frá mínum bæjardyrum séð að hagvöxturinn byggi á sjálfbærum grunni, hann sé sjálfbær til framtíðar litið. Við vitum alveg að það er hægt að mæla hagvöxt og hagvaxtaraukningu á margvíslegan hátt. Það er margs konar starfsemi sem eykur hagvöxt í samfélaginu, starfsemi sem við viljum kannski ekki endilega að eigi sér stað, þannig að það er hægt að finna út með tölulegum útreikningum alls konar hluti sem auka hagvöxtinn í sjálfu sér. Í mínum huga er mikilvægt að við horfum á það með gleraugum sjálfbærrar þróunar að hagvöxturinn sé sjálfbær í öllu tilliti, hvort sem við erum að líta á efnahagslega þætti, félagslega þætti, eða umhverfislega þætti. Ég vildi bara segja það.

Ég hygg að þeim sjónarmiðum eigi eftir að vaxa fiskur um hrygg, ekki bara í þeirri heimsálfu sem við lifum í heldur víðar um heim á komandi árum. Eins og ég segi er mjög erfitt að spá fyrir um hvað framtíðin ber í skauti sér í þessu efni en allar vangaveltur eru prýðileg innlegg í umræðuna og ég þakka hv. þingmanni fyrir hans innlegg.



[17:09]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Þetta var áhugavert innlegg. Ég er sammála hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um að það er erfitt að spá um framtíðina og reyndar hefur mönnum einnig gengið erfiðlega að spá fyrir um fortíðina, þ.e. að reyna að skýra hana. Það sem ég vildi sagt hafa er þetta: Það er alveg rétt að það skiptir máli hvernig við mælum hagvöxt, það skiptir máli hvernig við leysum það verkefni að búa þegnum þjóða sem best lífsskilyrði. Það er nefnilega ekki allt fengið með gamaldagsmælingum á hagvexti. Sérstaklega þarf hagvöxtur að vera sjálfbær. Hann má ekki ganga um of á auðlindir náttúrunnar o.s.frv. Um þetta eru ég og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sammála.

Það sem ég sagði hér er boðskapur minn vegna þessarar þjónustutilskipunar: Hagvöxtur eða lífskjarabati hvíla á því að okkur takist að nýta náttúruauðlindir, hugvit og mannvit með betri hætti en áður. Þannig verður til lífskjarabati. Það þarf að sjálfsögðu að gerast með þeim hætti að um sé að ræða sjálfbæra nýtingu á náttúruauðlindum, svo ég endurtaki það nú. Það verður ekki þessi lífskjarabati nema það gerist sem ég sagði hér áðan, að tækniframfarir eigi sér stað, að framleiðniaukning verði, að við náum að gera meira úr því sem við höfum milli handanna eða að skapa eitthvað nýtt.

Vandi Evrópu er sá að framleiðniaukningin á undanförnum árum og sennilega rúmlega síðasta áratuginn, hefur verið allt of lítil. Menn bæta því við að álfan stendur frammi fyrir þeim vanda að það eru allt of margir komnir á efri ár miðað við þá sem eru á vinnumarkaði, þá stöndum við frammi fyrir vanda. Eina leiðin til að leysa þann vanda — eina leiðin, og þetta snýr ekkert að því hvort maður sér inn í framtíðina — er að samkeppnin laði fram meiri framleiðni. Það er grundvallaratriði. Það er ekki sama hvernig sú samkeppni á sér stað. Og enn og aftur, það þarf að vera með sjálfbærum hætti sem við nýtum okkur auðlindir, en undan þessu verður ekki vikist.

Þegar ég segi: Það er nauðsynlegt fyrir ríkisstjórnina sem nú er á Íslandi og fyrir þær sem á eftir henni koma, að átta sig á því að þeir fyrirvarar sem við höfum sett um þjónustutilskipunina, munu þegar fram líða stundir gefa eftir. Ég er algjörlega sannfærður um það, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.