138. löggjafarþing — 124. fundur.
vátryggingastarfsemi, frh. 2. umræðu.
stjfrv., 229. mál (heildarlög, EES-reglur). — Þskj. 254, nál. 1053, 1075 og 1116, brtt. 1054 og 1076.

[19:29]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi. Þar er um að ræða algerlega nýjan lagabálk sem byggir á tilskipun Evrópusambandsins. Það ætti að gefa hinu háa Alþingi Íslendinga tilefni til að vera sérstaklega varkárt því að við höfum séð ýmislegt frá Evrópuþinginu og Evrópuráðinu sem er meingallað. Sem dæmi má taka innlánstryggingarkerfið sem reyndist vera mjög gallað og eins það sem kom frá EFTA um að heimila ætti hlutafélögum almennt, öllum hlutafélögum, stórum og smáum, að veita starfsmönnum lán til kaupa á hlutabréfunum sjálfum. Það var sett í lög 1997 og ég fór sérstaklega í gegnum það fyrir stuttu. Ég fór líka í gegnum það ekki fyrir löngu að það hefði farið hraðferð í gegnum Alþingi af því að það er frá EFTA. Ég baðst afsökunar fyrir mína hönd á því frumvarpi vegna þess að nefndarálitið var örstutt, einungis sjö línur, og ekki var minnst á það ákvæði að lána mætti starfsmönnum og jafnvel tengdum aðilum til kaupa á hlut í hlutafélagi. Þetta var kannski ekki stærsti þátturinn en þó einn af stærri þáttunum í því að fela tap bankanna sem hrundu. Þegar þeir fóru út í slíkar aðgerðir í milljarðavís jókst eigið fé bankanna um skuldabréfið sem þeir fengu sem greiðslu en skuldirnar jukust ekki vegna hlutafjárins þannig að eigið féð óx sem þessu nam. Þetta er náttúrlega veila í þessu kerfi sem ég hef bent á og þarna hefði Alþingi átt að setja hámark á það hve mikið mætti lána, t.d. 5 millj. kr. eða eitthvað slíkt, sem hljómar allt að því eins og brandari í ljósi sögunnar.

Frumvarpið er samið fyrir hrunið, það er ekki afleiðing af hruninu. Samt var það svo að alla vega eitt vátryggingafélag, Sjóvá, fór mjög illa út úr hruninu og varð gjaldþrota og ætti það að gefa okkur merki um að fara varlega. Það er ekki bara þannig að fólk borgi iðgjald inn í tryggingafélag til að fá tryggingar sjálft og að það iðgjald sé í hættu, yfirleitt er það bara í eitt ár eða hálft ár að meðaltali í svokölluðum bótasjóðum, og er ekki um stóráhættu að ræða. En ef um er að ræða líftryggingar, sem eru ekkert mjög algengar hér á landi, getur verið um að ræða gífurlega sjóðssöfnun. Líftryggingar í Þýskalandi eru t.d. ein mesta uppspretta sparnaðar í því landi. Hvað varðar vátryggingafélög eru það aðallega hinir tryggðu eða þeir sem verða fyrir tjóni sem við verðum að gæta að. Það getur bæði verið maðurinn sem borgaði iðgjaldið sjálfur en það getur líka verið þriðji aðilinn, t.d. í bílatryggingum. Þar er oft um að ræða umtalsverðar fjárhæðir. Ef ekið er á mann sem er á virkum aldri með góða menntun getur tjónið auðveldlega hlaupið á 50–100 millj. kr. því að það er verið að bæta honum upp tekjutap út ævina ef hann verður mikill öryrki. Það eru gífurlegir hagsmunir fyrir það fólk að bótasjóðirnir séu í lagi því að það er þá spurning hvort það fái bætur eða ekki. Þess vegna lít ég þannig á að það sé aðallega fyrir þá sem lenda í tjóni, hvort sem það eru brunatjón, lífstjón eða eitthvað slíkt, sem við þurfum að gæta vel að vátryggingafélögum og til þess höfum við Fjármálaeftirlitið.

Hér hafa spunnist miklar umræður um vátryggingastarfsemi og ég ætla að byrja á því að ræða um það að menn ætla að taka út gagnkvæm vátryggingafélög. Ég hef ekki fengið neinar skýringar á því, engar skýringar. Það að einhver félög hafi ekki verið rekin sem gagnkvæm vátryggingafélög þó að þau hafi verið það á ekki að verða til þess að menn hætti við formið. Þetta er mjög mikið notað. Ég þekki það í Þýskalandi, þar er þetta mjög almennt. Ég spyr, frú forseti, hvað gerist ef þýskt gagnkvæmt vátryggingafélag vill starfa á Íslandi? Ég er hræddur um að það brjóti einhverjar reglur Evrópusambandsins að banna þetta alveg því að þar þykja gagnkvæm vátryggingafélög góður pappír. Ég skil ekki og ég hef ekki fengið neinn rökstuðning fyrir því í umræðunni eða í gögnum málsins að þau séu einhvern veginn slæm og þurfi að forðast þau.

Það sem gerðist var t.d. það að Brunabótafélagið, sem var gagnkvæmt vátryggingafélag, tryggði aðallega fasteignir og tók við iðgjöldum. Síðan reyndist tjónið vera minna en menn ætluðu eða iðgjaldið gaf tilefni til og þá átti, frú forseti, að endurgreiða iðgjaldið. Á hverju einasta ári átti, þegar tjón lá fyrir, að endurgreiða iðgjaldið en það var ekki gert. Þó að félagið hafi að forminu til verið gagnkvæmt tryggingafélag þá var það í reynd ekki þannig, ekki í praxís, menn unnu ekki þannig með félagið. Mér finnst alveg fráleitt að ætla sér að hætta við formið bara út af þessu.

Varðandi þann samanburð sem hér hefur komið fram um hlutafélög og gagnkvæm vátryggingarfélög, hvort það sé í hlutafélagaformi eða á því formi að vera gagnkvæmt — ég held að hvort tveggja sé jafnmikið eða jafnlítið smitað af gróðahyggju. Menn eru að reyna að ná fram einhverjum ákveðnum markmiðum, þ.e. að tryggja ákveðin óhöpp sem þeir geta orðið fyrir, hvort sem það eru bifreiðaslys, brunatjón eða hvað það er. Menn ætla að tryggja þetta áfall með einhverjum hætti og það er svo spurning hvernig það er gert ódýrast, hvort það er gert með því að hafa gagnkvæm vátryggingafélög eða á hlutafélagaformið. Ég er ekki viss um að það sé neitt ódýrara í gagnkvæmu vátryggingarfélagi en í hlutafélagi og það reynir bara á samkeppni á markaðnum. Hún hefur kannski ekki verið nægileg, ég veit það ekki, ég legg ekki dóm á það.

Töluvert mikið er rætt um virkan eignarhlut, væntanlega í ljósi hrunsins, og menn eru að vandræðast með að reyna að laga það sem ég sýndi fram á í frumvarpi um gagnkvæm hlutafélög, sem ég og fleiri hv. þingmenn fluttu, að það er veila í hlutafélagaforminu. Menn segja að Fjármálaeftirlitið eigi að meta það hvort virkur eignarhlutur sé í höndum góðra aðila í einhverjum skilningi. Þá er átt við að menn eigi meira en 9,99%. Ef þeir eiga 10% eða meira þá telst það virkur eignarhluti og þá fara menn að skoða hlutina. Og ég get nákvæmlega sagt hv. þingheimi hvað sniðugi karlinn gerir. Hann stofnar slatta af félögum sem öll eiga 9% og ekki meira, eða 9,5%. Með þeim hætti getur hann náð þeim ítökum eða þeim völdum sem hann vill og (Gripið fram í.) — tengdra aðila, það er málið, hann passar sig á að vera ekki tengdur því að það eru 20%. Hann telst tengdur ef hann á 20% í einhverjum öðrum. Menn eiga auðvelt með að komast hjá því með því að stofna nógu mörg hlutafélög sem eiga þarna hluti. Svo er það spurningin hvað gerist (Gripið fram í.) — það er veila í hlutafélagaforminu, frú forseti, í tilefni af þessu frammíkalli, og menn þurfa að horfast í augu við hana, átta sig á henni, skilja hana og laga hana. Ég tel að hægt sé að laga hana, eins og ég gerði í gagnsæjum hlutafélögum, með því að upplýsa um allan eigendastrúktúrinn eða eigendatréð upp úr og ræturnar niður úr þannig að það liggi fyrir hverjir eigi hvern, öll ættin ef svo má segja — ef maður lítur á þetta sem móðurfélög og ömmufélög o.s.frv., að það liggi fyrir hver ættin er og aldrei megi lána eða kaupa í eiganda sínum upp á við og allt sé gagnsætt. Þá fellur allt um sjálft sig sem menn eru að reyna að tala um og reyna að verjast. Þá hverfur það allt saman eða ég hef þá trú.

Í frumvarpinu er einnig rætt um að kjósa endurskoðanda og ég er mjög hlynntur því. Ég tel reyndar að frumvarpið sem við ræðum sé jákvætt. Ég held að það sé jákvætt og að það sé skref í rétta átt, það nær bara alls ekki markmiðum sínum vegna þeirrar veilu sem ég nefndi í hlutafélagalögunum. Eitt af því sem ég er ánægður með er að kjósa eigi endurskoðendur oftar en gert hefur verið og að skipta þurfi um endurskoðendur. Það er nefnilega þannig að þegar sama endurskoðunarfélagið hefur starfað mjög lengi fer það að bera ábyrgð á rekstrinum í þeim skilningi að ef upp kemur einhver villa einhvers staðar eða einhver svik eða eitthvað slíkt og þeir hafa skrifað upp á það áður þá er erfitt fyrir þá að segja allt í einu: Ja, það hefur komið í ljós ágalli í rekstrinum og hann á sér rætur í því sem ég endurskoðaði. Menn eru tregir til að gera það og viðurkenna þannig sekt. En með því að skipta um endurskoðendur kemur nýr aðili að sem getur bent á þetta fyrir utan að það veitir ákveðinn aga að menn viti að eftir nokkur ár verður skipt um endurskoðendur. En endurskoðandi starfar nefnilega alltaf fyrir hluthafa. Það er kannski meinið að endurskoðendur starfa svo mikið með stjórninni að það fer að líta út eins og þeir starfi fyrir stjórnina en þeir starfa fyrir hluthafann til að passa upp á stjórnina, það er hlutverk endurskoðanda.

Hér hefur verið rætt um ýmislegt og ég held að ég geti stutt það mestallt. Ég tel bara að þetta gangi alls ekki nægilega langt. Það er ekkert sem hindrar það að nákvæmlega það sama og gerðist í hruninu gerist aftur, því miður. Ég tel því að menn þurfi að skoða miklu nánar dulið eignarhald og því um líkt og tengda aðila. Hvað eru tengdir aðilar, frú forseti? Hjón sem eru að skilja eru talin tengdir aðilar en sennilega eru fáir aðilar í heiminum jafnótengdir. Félagar sem spila golf á hverju kvöldi eða hittast í pottinum eru ekki tengdir en þeir geta verið nátengdir í viðskiptum. Aðilar sem hafa unnið saman, verið fóstbræður í viðskiptum, teljast ekki tengdir aðilar, einhver sem þú hefur átt viðskipti með en ekki við í fjölda ára. Ég hef því alltaf haft töluverðar efasemdir um þetta hugtak „tengdur aðili“ og ég hef alltaf haft efasemdir um að menn geti sett einhver mörk á það hvað telst „virkur eignarhlutur“.

Hlutafélag með mjög miklu og dreifðu eignarhaldi, eins og Eimskip var í gamla daga, þar sem voru 12 þúsund hluthafar, og svo einn stór aðili sem var háskólasjóðurinn — háskólasjóðurinn réði stjórninni. Og svo gerðist það merkilega. Þegar Vestur-Íslendingar gáfu háskólasjóðinn til Íslands, hvað gerðu þeir? Þeir gerðu mikil mistök. Þeir gáfu háskólanum háskólasjóðinn, hann fékk arðinn og allt það, en atkvæðismagnið fór til stjórnar Eimskips. Eftir að menn gerðu það fór stjórn félagsins með atkvæðamagnið fyrir 10% í Eimskip og það þýddi í því félagi, vegna þess hve eignarhaldið var dreift, að þeir réðu öllu. Eftir þessa gjöf má segja að stjórn Eimskips hafi átt félagið, hún stjórnaði því alla vega. Það var engin hætta á því að einhver mundi blanda sér í þann leik.

Það er því ekki sama hver dreifing á hlutafé er, hvort 9,99% telst virkur hlutur eða ekki. Ef eigendur eru þrír og einn á 9,99%, og þó að það væru 15%, þá ræður hann engu. Hann er sem sagt alls ekki virkur. Ef annar á 50% þá ræður hann öllu. Dreifing á eignarhaldi breytir þessum hlutföllum mjög mikið og mér finnst menn vera að klóra í bakkann, finna eitthvað til að halda sér í, á meðan menn þurfa að átta sig á þessari veilu sem ég nefndi í hlutafélagaforminu og reyna að útrýma henni. Ef það tekst þá held ég að mjög margt verði auðveldara og gagnsærra í því umhverfi sem við erum í. En því miður er það þannig að hlutafélagaformið er alþjóðlegt og mjög erfitt er að breyta því út um allan heim út frá Íslandi. Mér finnst hins vegar að útlendingar ættu að læra töluvert á þessari kreppu okkar. Hún var mjög lærdómsrík. Skýrsluna góðu ættu menn að skoða um allan heim vegna þess að þetta hrun var afskaplega dýr lærdómur, alla vega fyrir Íslendinga.



[19:44]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi. Frumvarpið felur í sér ný heildarlög um vátryggingastarfsemi. Gildandi lög eru frá 1994 og hefur verið breytt alloft síðan. Frumvarpið er samið af nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði 18. september 2007 með það að markmiði að innleiða tilskipun Evrópusambandsins frá 2005 um endurtryggingar. Þegar vinna hófst við innleiðinguna kom í ljós að ekki yrði hjá því komist að endurskoða lögin í heild svo oft hafði verið farið í smábreytingar og einnig þurfti að leiðrétta hluta innleiðinga sem ekki höfðu komist rétt til skila.

Frumvarpið á bæði við um frum- og endurtryggingarstarfsemi eins og gildandi lög. Einungis má frumtryggja hjá vátryggingafélögum sem hafa starfsleyfi hér á landi en endurtryggingar má stunda á grundvelli starfsleyfis í heimaríki annars staðar í Evrópusambandinu. Ef um er að ræða endurtryggingavernd á frumtryggingaráhættu skal liggja fyrir samstarfssamningur milli Fjármálaeftirlitsins og eftirlitsstjórnvalds í heimaríki endurtryggingarfélags.

Þá er í frumvarpinu lagt til að íslensk vátryggingafélög skuli rekin sem hlutafélög og að heimildaákvæði um gagnkvæm tryggingafélög verði afnumin í bili a.m.k. á meðan félagaforminu verða settar skýrari reglur um fjárhag og slit. Félagasamtök eða aðrir sem taka sig saman geta eftir sem áður staðið að stofnun vátryggingafélags. Frumvarpið skýrir betur en áður hefur verið gert hlutverk og skyldur eftirlitsaðilans sem hér er Fjármálaeftirlitið sem fær nú vopn til að beita ef hagsmunir neytenda eru ekki hafðir að leiðarljósi og viðskiptahættir eftirlitsskyldra aðila teljast ekki vera í samræmi við heilbrigða og góða viðskiptahætti. Þá er gert ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið veiti vátryggingafélagi starfsleyfi og aðili sem hyggst eignast virkan eignarhlut í vátryggingafyrirtæki þarf að tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins. Tekið er fyrir það að vátryggingafélag geti veitt lán með veði í eigin hlutabréfum eða skuldabréfum.

Talsverðar breytingar eru lagðar til á ákvæði um stjórn vátryggingafélaga. Lagt er til að stjórn setji sér reglur um innra eftirlit, innri endurskoðun, fjárfestingarstarfsemi, lánveitendur og viðskipti við tengda aðila. Þessar reglur þarf Fjármálaeftirlitið síðan að staðfesta. Gerðar eru auknar kröfur til stjórnarmanna og framkvæmdastjóra um mannorð, menntun, starfsreynslu og fjárhagsstöðu. Fjármálaeftirlitið mun setja nánari reglur um hvernig skuli staðið að hæfismati þessara aðila.

Fram kom í störfum nefndarinnar að að einhverju leyti eru skilin á milli hlutverka Neytendastofu og Fjármálaeftirlitsins óskýr og var um það rætt að nauðsynlegt væri að fara í þá vinnu sem þarf á vegum ráðuneytisins til að skýra þessi skil svo neytendur viti hvert þeir eiga að leita með úrlausnarmál sín svo og hvers það er að skilgreina heilbrigða og góða viðskiptahætti og fylgja þeirri skilgreiningu eftir.

Talsvert var rætt um kaupaukakerfi og starfslokasamninga starfsmanna vátryggingafyrirtækja á svipuðum nótum og rætt hefur verið í tengslum við frumvarp um fjármálafyrirtæki. Hefðir tryggingafélaganna í tryggingasölu hafa verið þannig að sölulaun hafa myndað stærstan hluta launa og hæpið að kalla það kaupaukakerfi. Í ljósi niðurstöðu rannsóknarskýrslunnar góðu er vart hægt annað en minnast á slíkt kerfi og krefjast þess að það sé alls staðar gegnsætt og opið og fyrir fram skilgreint svo ekki fari að gæta tortryggni. Starfslokasamningar skulu miðaðir við afkomu fyrirtækisins síðustu þrjú ár. Kaupaukakerfi mega á engan hátt miðast við skammtímasjónarmið og auka hættu á óheilbrigðri áhættusækni. Evrópusambandið hefur gefið út tilmæli um svona kerfi og gert er ráð fyrir að ákveðnar tillögur liggi fyrir innan skamms.

Nefndin telur eðlilegt að Fjármálaeftirlitið setji reglur um kaupaukakerfi og taki í þeim mið af því sem önnur ríki eru að gera í því sambandi. Starfskjarastefna í fjármálageiranum verður að vera í samræmi við trausta og skilvirka áhættustjórnun og jafnvægi milli bónusgreiðslna og fastra launa verður að vera eðlilegt og þak sé sett á bónusgreiðslur. Fjármálageirinn þarf að endurvinna traust almennings og eyða tortryggni og því er afar mikilvægt að hann standist skoðun í eðlilegri launasamsetningu. Eðlileg sölulaun eiga auðveldlega að vera innan þeirra ramma sem allir fella sig við. Ég mun þó aldrei fara ofan af þeirri skoðun minni að það er sérstakt mat að það þurfi og sé eðlilegt að þeir sem vinna með peninga og peningatengd mál þurfi og eigi rétt á sérstöku hvatakerfi á meðan allar þær stéttir sem vinna með fólk eiga að sætta sig við sín lágu taxtalaun og engum dettur í hug að bjóða bónus fyrir vönduð eða mikil störf. Þannig verð ég að viðurkenna að ég vildi gjarnan sjá samfélag þar sem það að vinna að mannlegum málefnum sé metið a.m.k. jafnmikilvægt og það að vinna með pappír og peninga og því eðlilegt að allir þessir aðilar eigi rétt á gagnsæju fyrir fram ákveðnu framgangskerfi launa.



[19:50]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Eitt mikilvægasta verkefni íslenskra stjórnmálamanna þessi dægrin er að læra af því sem aflaga hefur farið í tengslum við hrun efnahagskerfisins. Gefin hefur verið út skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fram koma veigamiklar upplýsingar um það sem fram fór á íslenskum fjármálamarkaði og þeim mörkuðum sem störfuðu í tengslum við hann. Það er okkar verkefni og ekki síst verkefni hæstv. ríkisstjórnar að læra af reynslunni og reyna að bæta löggjöf á öllum þeim sviðum þar sem fyrirtækin og stjórnendur þeirra fóru út af og sömuleiðis þar sem stjórnvöld, hvort sem það er ríkisstjórn, Alþingi eða stjórnsýslan, brugðust.

Á þinginu hafa á síðustu dögum og í opinberri umræðu verið á dagskrá ýmis mál sem tekin eru til umfjöllunar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og það er mjög miður að fylgjast með framgöngu hæstv. ráðherra þegar þeir eru spurðir út í það hvernig þeir ætla að bregðast við þeim ábendingum sem fram koma í rannsóknarskýrslunni varðandi einstök mál. Ég rifja upp orðaskipti hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, frá umræðunni fyrr í dag þar sem hann átti orðastað við hæstv. utanríkisráðherra og spurði hann hvernig ríkisstjórnin og hæstv. utanríkisráðherra ætlaði að ganga fram í Icesave-málinu í framhaldi af orðum sem ráðherra lét falla í fréttaviðtali fyrir síðustu helgi. Það var ekki að sjá á hæstv. utanríkisráðherra að það skipti hann nokkru einasta máli eða hæstv. ríkisstjórn það sem fram kemur í rannsóknarskýrslunni um Icesave-málið og málefni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og ábyrgð ríkisins á innlánum almennt. Ekki var hægt að lesa annað út úr orðum hæstv. utanríkisráðherra en að ríkisstjórnin hygðist jafnvel halda áfram í Icesave-málinu eins og ekkert hefði í skorist, eins og rannsóknarskýrslan hefði aldrei verið skrifuð og þjóðaratkvæðagreiðsla um það mál hefði aldrei farið fram. Ég tek þessi orðaskipti hv. þm. Bjarna Benediktssonar og hæstv. utanríkisráðherra sem dæmi um það hvernig ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir eru að bregðast við því efnahagshruni sem hér varð.

Við erum með til umfjöllunar í þinginu á eftir frumvarp um fjármálafyrirtæki sem er svona bútasaumur á löggjöf sem þarfnast endurskoðunar við en endurspeglar ekki það sem frumvarpið ætti í raun að endurspegla, þ.e. að ríkisstjórnin hafi dregið lærdóm af þeirri reynslu sem við urðum fyrir í bankahruninu. Sama má segja um annað frumvarp frá ríkisstjórninni, sem er til umfjöllunar í hv. viðskiptanefnd, sem varðar nýja löggjöf um innstæðutryggingar. Þar ætla menn að hjakka í sama farinu og virðist vera fyrirmunað að læra af þeirri reynslu sem var svo bitur og við urðum fyrir. Ég hef það mikla trú á hv. þingmanni viðskiptanefndar að hann hafi skilning á þeim sjónarmiðum sem ég er að setja fram. Af hverju geri ég það? Það er vegna þess að það frumvarp sem við ræðum hér, frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi, er einmitt af þessum meiði.

Það er alveg hárrétt sem fram hefur komið í umræðunni að þetta frumvarp á sér töluverðan aðdraganda. Vinna við samningu þess hófst á árinu 2007 og það er margt ágætt í frumvarpinu, ýmis efnisatriði sem óhætt er að taka undir og gætu verið til bóta. En það sem rannsóknarskýrslan á að kenna okkur og það sem hún á kannski fyrst og fremst að kenna stjórnarliðum og ríkisstjórninni er að það eru ekki ásættanleg vinnubrögð að ríkisstjórnin leggi fram frumvörp í mikilvægum málaflokkum áður en skýrsla rannsóknarnefndarinnar kemur fram og neiti síðan að draga málin til baka í ljósi þeirra miklu og mikilsverðu upplýsinga sem fram koma í rannsóknarskýrslunni og reyni þá að samræma þau sjónarmið sem þar koma fram við þá stefnumörkun sem sjá má í þeim frumvörpum sem við ræðum hér. Hvorki þetta frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi né önnur þau frumvarp sem ég hef nefnt taka tillit til þess sem fram kemur í skýrslunni sjálfri enda er það ekkert skrýtið. Eins og ég sagði áðan voru frumvörpin lögð fram áður en skýrslan var birt og frumvörpin bera þess augljós merki. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fór í nokkuð ítarlegu máli yfir nokkur þeirra atriða sem við sjálfstæðismenn teljum að betur megi fara varðandi vátryggingastarfsemi og vátryggingamarkaði. Það er sammerkt með þeim málum sem ég hef nefnt að í þeim öllum er Fjármálaeftirlitinu ætlað mun stærra og veigameira hlutverk en því hefur verið ætlað fram til þessa. Fjármálaeftirlitið mun fá auknar valdheimildir og miklu meira svigrúm til að meta rekstur vátryggingafélaga en það hafði áður. Ég hefði talið að í ljósi þessa væri ástæða til að við tækjum öll þessi frumvörp til gagngerrar skoðunar og þá í sameiningu og þar með lögin sem gilda um Fjármálaeftirlitið. Ég á mjög erfitt með að skilja af hverju þetta er ekki gert í heildarsamhengi og í tengslum við það sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.

Ég tel eins og fleiri hv. þingmenn að það sé mjög mikilvægt að þetta frumvarp gangi aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. vegna þess að í frumvarpinu eru veigamikil atriði sem ekki er tekin afstaða til eins og t.d. það hvort skynsamlegt sé að viðskiptabankar megi eiga vátryggingafélag og öfugt. Þetta er grundvallarspurning sem menn verða að gera upp við sig hvernig þeir vilja svara, ekki bara ríkisstjórnarflokkarnir á Íslandi heldur eru menn að taka þessi atriði til gagngerrar skoðunar í löndunum í kringum okkur þar sem áföll hafa orðið. Ég tek sem dæmi málefni bandaríska tryggingafélagsins AIG. Þar í landi eru menn mjög mikið að velta fyrir sér samskiptum viðskiptabanka og vátryggingafélaga.

Hér hefur verið nefnt að í þessu frumvarpi sé ekki ráðist í endurbætur á lögum um endurskoðendur. Það er auðvitað heildarlöggjöf sem þarf að fara yfir í ljósi þess sem m.a. kemur fram í rannsóknarskýrslunni og ekki síður í ljósi þeirra atburða sem eiga sér stað núna síðustu daga. Verið er að stefna endurskoðendum fyrir störf þeirra og þátt þeirra í ýmsu því sem átt hefur sér stað á íslenskum fjármálamarkaði. Og það er mjög mikilvægt að taka málefni og ábyrgð svokallaðra skuggastjórnenda til athugunar. Við hljótum í ljósi reynslunnar að velta því fyrir okkur hvort ekki sé ástæða til að lögfesta mjög skýr ákvæði um ábyrgð manna sem stjórna félögum, hvort sem það eru vátryggingafélög eða fjármálafyrirtæki, þrátt fyrir að sitja ekki í stjórnum félaga eða hafa þar formlega stöðu lögum samkvæmt. Það er auðvitað hárrétt að rekin hafa verið dómsmál sem varða ábyrgð skuggastjórnenda eins og mál þrotabús TL-rúllna, ef ég man rétt, gegn Húsasmiðjunni sem rekið var í Hæstarétti á sínum tíma. Auðvitað er það mál að sínu leyti fordæmisgefandi en það breytir því ekki að í ljósi þeirrar reynslu sem hér hefur orðið hefði ég talið að það væri ákaflega mikilvægt að um þetta giltu skýrar reglur.

Ég tek undir með hv. þingmanni og félaga mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að erfitt er að sjá hver þörfin er fyrir það að banna gagnkvæm tryggingafélög líkt og gert er í frumvarpinu. Ég fæ ekki séð að það séu neinar ríkar ástæður sem réttlæta þá stefnumörkun. En eitt það athyglisverðasta sem fram kemur í frumvarpinu er það að lagt er til að vátryggingafélög megi eingöngu reka í formi hlutafélags. Hvað á það að þýða hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna að leggja það til að vátryggingafélög megi einungis reka í formi hlutafélags? Getur hv. þm. Lilja Mósesdóttir upplýst mig um hvað býr þar að baki? (LMós: Búin að því.) Ég hef staðið í þessum ræðustól klukkustundum saman og setið hér í þingsal svo dögum skiptir og hlustað á þingmenn Vinstri grænna, eins og hv. þm. Ögmund Jónasson, hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon og fleiri hv. þingmenn, halda því fram að hlutafélagaformið sé rót alls ills í íslensku viðskiptalífi og það megi alls ekki undir nokkrum kringumstæðum, sérstaklega þegar um er að ræða rekstur sem varðar almannahag, reka slík fyrirtæki í hlutafélagaformi. Ég minnist t.d. umræðunnar um Ríkisútvarpið ohf., fyrst um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. en síðan um Ríkisútvarpið ohf. Þá voru haldnar fimm eða sex klukkutíma ræður ræðu eftir ræðu gegn hlutafélagaformi og svo koma þessir hv. þingmenn núna og leggja það til að vátryggingafélög megi einungis reka í formi hlutafélags. Er nema furða að maður reki upp stór augu þegar maður les frumvarpið og áttar sig á þessu. Hvað gengur mönnum til? Ef eitthvert fólk í þjóðfélaginu hefur áhuga á að reka vátryggingafélag og telur að það þjóni hagsmunum sínum betur að gera það t.d. á sameignarfélagsformi, af hverju í ósköpunum er þeim það ekki heimilt? Gerir hv. þm. Lilja Mósesdóttir sér grein fyrir því að hlutafélög eru félög með takmarkaðri ábyrgð sem þýðir það að eigendur félagsins bera takmarkaða ábyrgð? Í sameignarfélögum gildir ábyrgð einn fyrir alla og allir fyrir einn, þ.e. ríkari ábyrgð á hendi eigenda félagsins en gildir í hlutafélögum. Auðvitað er ég þeirrar skoðunar að hlutafélagaformið sé langbesta rekstrarformið, hvort sem er á vátryggingamarkaði eða annars staðar, en ég er þó þeirrar skoðunar að leyfa eigi þeim sem standa í slíkum rekstri að ákveða það fyrir sjálfa sig og þann rekstur og það fjármagn sem þeir setja í reksturinn á hvaða félagaformi þeir reka sín fyrirtæki. Bæði af þeim ástæðum og ekki síður í ljósi sögunnar er mér algerlega fyrirmunað að skilja hvers vegna ríkisstjórnin ákveður að fara þá leið sem ég hef rakið hér.

Ég vil vekja athygli á einu atriði til viðbótar. Í 54. gr. frumvarpsins er fjallað um stjórn vátryggingafélaga og í 4. mgr. 54. gr. segir, með leyfi forseta :

„Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar skulu vera fjárhagslega sjálfstæðir og hafa lokið háskólaprófi sem nýtist í starfi. Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá menntunarkröfum skv. 1. málsl. á grundvelli reynslu og þekkingar viðkomandi.“

Eðlilegt er að gerðar séu kröfur til stjórnenda vátryggingafélaga og þær eru býsna miklar í öðrum ákvæðum þessarar greinar, t.d. er talað um að þeir sem sitji í stjórn megi ekki hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, samkeppnislögum, lögum um hlutafélög, lögum um bókhald og ársreikninga o.s.frv. Allt er þetta mjög eðlilegt vegna þess að þeir sem hafa með stjórn vátryggingafélags að gera fara með mikla hagsmuni. Þetta er allt saman eðlilegt og í fullkomnu samræmi við aðra löggjöf sem gildir um aðrar stéttir eins og t.d. lögmenn og endurskoðendur. Báðar þessar stéttir, lögmenn og endurskoðendur, verða auðvitað að hafa forræði á eigin búi vegna þess að annars geta þeir ekki farið með fjárhagshagsmuni fyrir aðra. Þetta eru auðvitað sjónarmið sem eiga við í vátryggingabransanum en ég skil ekki hvers vegna talað er um og það gert að skilyrði að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar í vátryggingafélögum skuli hafa lokið háskólaprófi sem nýtist vel í starfi. Ef við förum aðeins yfir bankahrunið sem varð hér á landi held ég að ég megi leyfa mér að segja að langflestir helstu gerendur í bankahruninu fyrir utan kannski einn voru með mjög fínar prófgráður upp á vasann, mjög fínar prófgráður frá bestu háskólum. Það leiddi hins vegar ekki til þess að þeir gerðu engin mistök og sumir þeirra hafa hugsanlega farið á svig við lög eða ekki sýnt af sér siðlega framgöngu á þeim markaði sem þeir störfuðu á. Þetta á allt saman eftir að koma í ljós, ég ætla ekki að slá neinu föstu. En til hvers er það að vera að draga menn í dilka eftir því hvort þeir eru með háskólapróf eða ekki? Ég er með háskólapróf og allt í góðu lagi með það en það er líka til fólk sem getur ýmislegt í samfélaginu sem ekki hefur lokið háskólaprófi. Það hefur kannski starfað í vátryggingastarfsemi svo árum eða áratugum skiptir og hefur alla þá hæfileika til brunns að bera sem eru nauðsynlegir til að sitja í stjórn eða verða framkvæmdastjórar í vátryggingafélagi. Hvers vegna ættum við að leiða það í lög að þetta fólk þurfi að fara á biðilsbuxunum til Fjármálaeftirlitsins til að fá undanþágu frá menntunarkröfunum? Af hverju getum við ekki treyst eigendum vátryggingafélaganna í framtíðinni til að velja það fólk sem það treystir best til að stýra félögum sínum? Það er ekkert samasemmerki milli þess að vera með háskólapróf og að kunna alla skapaða hluti. Þó svo að menn séu með háskólapróf er ekki þar með sagt að þeim verði ekki á nein mistök og að siðleysi þekkist ekki í þeirra orðabók. Ég hefði talið eðlilegt að fólk fengi að njóta sannmælis vegna reynslu sinnar og þekkingar og að löggjafinn væri ekki með puttana í þessum málum með þeim hætti sem lagt er til í þessu frumvarpi. Ég tel alveg einboðið að þeirri hæfisreglu sem fram kemur í 4. mgr. 54. gr. verði breytt, enda finnst mér ekkert sérstaklega smekklegt að draga fólk í dilka eftir því hvort það er með þessa eða hina prófgráðuna eða ekki.

Virðulegi forseti. Auðvitað eru fjölmörg önnur atriði sem ástæða væri til að fara yfir í þessu frumvarp en ég segi eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan, hér er fyrst og fremst verið að setja plástra á ýmis sár. Þetta frumvarp mun hins vegar, þó að margt í því sé ágætt, ekki koma í veg fyrir það að sú saga sem við höfum upplifað endurtaki sig, það þarf miklu meiri (Forseti hringir.) og heildstæðari vinnu til að tryggja að svo verði.



[20:10]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi, mál sem hægt er að hafa mörg orð um. Þetta mál hefur komið til umræðu mörg þing í röð og hefur ekki náð að klárast vegna þess að það hefur alltaf þótt svo viðamikið að það hefur verið látið bíða. En núna á að klára þetta. Það er ekki síst vegna þess að þarna erum við að innleiða Evróputilskipun.

Ég ætla ekki að fara ítarlega í efnisatriði málsins en mig langar að drepa á nokkur atriði í beinu framhaldi af því sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson ræddi um. Ég get tekið undir þær áhyggjur sem hann hafði af því að við drögum ekki lærdóm af því sem hér gerðist í þessu frumvarpi. Ég hef haft um það langt mál í hv. viðskiptanefnd og spurt velflesta umsagnaraðila sem komið hafa á fund nefndarinnar hvort við séum í rauninni að lagfæra hluti þannig að við getum andað rólega og verið viss um að hér séum við búin að girða fyrir öll vandkvæði í framtíðinni eða hvort við séum kannski með þessu að skapa okkur falskt öryggi. Ég verð að segja alveg eins og er að fjölmargir umsagnaraðilar tóku undir þær áhyggjur mínar að hugsanlega værum við þarna að skapa falskt öryggi.

Ég minnist þess að forsvarsmaður eins tryggingafélags sagði á fundi nefndarinnar að mikið af ákvæðum þarna væru til þess fallin eingöngu að auka skriffinnsku mjög mikið en þau hefðu engu breytt um hrunið. Mig langar að taka dæmi sem ég hef nefnt áður úr þessum ræðustól en ekki í umræðu um þetta mál, ég hef einnig rætt það í nefndinni, það er ákvæði sem kveður á um að endurskoðendum sé skylt að skipta um fyrirtæki reglulega og megi ekki vera endurskoðendur hjá hverju fyrirtæki lengur en í fimm ár.

Í alþjóðlegum reglum hefur tíðkast að endurskoðendur skipti um fyrirtæki á sjö ára fresti. Við settum það í lög um endurskoðendur árið 2008 og það ákvæði gekk í gildi einhvern tíma um mitt ár 2008. Síðan varð eins og allir vita bankahrun haustið 2008 þannig að það er ekki hægt að halda því fram með neinni sanngirni að það hafi verið vegna ákvæðisins um sjö árin að þetta blessaða hrun varð. En það er tillaga meiri hluta nefndarinnar að herða skuli þetta ákvæði. Nú skulu endurskoðendur ekki fara eftir þessum alþjóðareglum sem nota bene er verið að endurskoða víða úti í heimi. Það er að sjálfsögðu víðar en á Íslandi sem verið er að fara yfir lög og reglur hvað varðar fjármálafyrirtæki og tryggingafélög og önnur slík félög. Við erum ekki tilbúin til að bíða eftir því. Nei, hér skal pressa það niður í fimm ár. Þrátt fyrir að ég hafi spurt þessara spurninga margoft hef ég eiginlega bara fengið svarið „af því bara, af því að hér var bankahrun, af því að við ætlum að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur, af því að endurskoðendur brugðust, eins og kannski fleiri í aðdraganda bankahrunsins, ætlum við að herða þetta og hafa þetta harðara.“

Ég verð að segja alveg eins og er að það lætur mér ekki líða neitt betur eða segir eitthvað mér um hvort við eigum á hættu að verða fyrir öðru slíku hruni. Ég held að við séum í þessu máli dálítið föst í því að breyta litlum reglum sem við náum kannski að horfa á en við sjáum ekki stóra samhengið. Og alveg eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði áðan drögum við alls ekki lærdóm af rannsóknarskýrslunni.

Þegar við höfum rætt þetta í nefndinni hef ég fengið þau svör að við verðum að gera eitthvað. Það er algerlega nauðsynlegt. Við getum ekki beðið eftir öllu, það er ákveðið sjónarmið en við megum þó ekki gera neitt annað en að líta á þetta sem eitthvert skref í málinu vegna þess að annars eigum við það á hættu að við sköpum falskt öryggi. Ég get alveg ímyndað mér að þegar ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir fara að lesa upp afrekaskrána og telja upp allt það sem hér hafi gerst eftir bankahrun, verði sagt: Við erum búin að breyta lögunum um vátryggingafyrirtæki þannig að hér komi ekki til að reglurnar og eftirlitið bregðist eins og gerðist áður. En ég er bara alls ekki sannfærð um það. Ég gat ekki betur heyrt á starfsmönnum Fjármálaeftirlitsins en að þeir tækju undir þessar áhyggjur. Fjármálaeftirlitið fær hér mjög víðtækar heimildir. Fjármálaeftirlitið fær hér mjög veigamikið hlutverk og það má alveg til sanns vegar færa að það hafi ekki haft nægilegar heimildir í einhverjum tilvikum sem hefðu getað komið í veg fyrir ákveðna hluti. En ég held að við hefðum þá þurft að skoða alla þætti, nákvæmlega eins og kemur fram í minnihlutaáliti okkar sjálfstæðismanna, það hefur ekki verið tekið á verkaskiptingunni milli Seðlabanka og Fjármálaeftirlits. Það hefur ekki verið tekið á því að efla Fjármálaeftirlitið þannig að það geti sinnt þessum skyldum. Það er í nákvæmlega sömu vandræðum og önnur ríkisfyrirtæki og í sömu vandræðum og það var þegar mesta bólan var hér. Það getur ekki keppt um starfsfólk og sagði það beint út að það væri farið að keppa um starfsfólk, við skilanefndirnar, bankana, lögfræðistofur og aðra þá sem geta boðið hærri laun. En af því að vinstri stjórnin vildi setja lög í þessu landi þar sem mönnum er bannað að hafa tekjur yfir ákveðnum mörkum fullyrtu aðilar hjá Fjármálaeftirlitinu að þeir gætu átt í erfiðleikum með að keppa um starfsfólk. Það finnst mér vera vont. Mér finnst það vera ábyrgðarleysi og við hefðum þurft að fara miklu betur yfir þetta.

Í umsögnum fjölmargra aðila eru tínd til mörg svona atriði þar sem við hnykkjum á reglum hingað og þangað sem láta okkur halda að við séum að leysa vandann en gera það ekki. Ég held að það sé verra vegna þess að nú erum við öll meðvituð um að það þarf að endurskoða þessa reglu. Við erum öll meðvituð um að það er lærdómur sem við þurfum að draga af rannsóknarskýrslunni, það er lærdómur sem við þurfum að draga af því sem gerðist ekki bara hér heldur líka úti um allan heim. Okkur liggur svo mikið á að við ætlum ekki að taka mið af því sem er að gerast úti í heimi.

Ætlum við að taka lög fjármálafyrirtækja aftur upp á næsta þingi? Miðað við reynsluna, miðað við að þetta frumvarp kom inn í þingið 2007 fyrst eða jafnvel fyrr … (LMós: Það er ykkur að kenna.) Það er okkur að kenna, kallaði hv. þm. Lilja Mósesdóttir fram í. Ég beið eftir því að fá þessa athugasemd vegna þess að þetta hefur oft verið viðlíka málefnalegt af hálfu stjórnarliða í umræðum í nefndinni. Ef það tók þetta langan tíma að fara yfir þessi lög með heildarendurskoðun í huga, hvernig getum við verið viss þegar við erum búin að reka okkur á að það skiptir kannski ekki öllu máli þótt endurskoðandinn hafi bara verið hjá ákveðnu fyrirtæki í fimm ár? Það var eitthvað annað sem brást, eitthvað annað sem við hefðum kannski átt að sjá fyrir ef við hefðum gefið okkur betri tíma. Þetta eru hlutir sem mér finnst vera mikil synd að við lærum ekki af.

Ég ætla ekki að fara yfir einstök efnisatriði. Það hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem töluðu á undan mér gert og það vel. Ég tek undir nefndarálit 2. minni hluta en ég vil hvetja hv. viðskiptanefnd við meðferð málsins að fara betur yfir þetta atriði á milli 2. og 3. umr., athuga hvort það sé eitthvað sem hægt er að gera betur og jafnvel að leggja þetta til hliðar, taka nokkra fundi í að ræða rannsóknarskýrsluna og sérstaklega þá kafla sem nefndir voru hér og snerta vátryggingafyrirtæki í þessu tilfelli. Síðan munum við ræða þetta á svipuðum nótum þegar við förum í umræðu um fjármálafyrirtæki á eftir.



[20:21]
Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við höfum mikið rætt það í þessari umræðu að það skipti máli að læra af reynslunni og læra af skýrslunni. Það tengist enda beint þeirri rannsóknarskýrslu sem við höfum rætt. Umræðan í kvöld hefur ekki borið þess merki, hún hefur því miður þróast út í eintal stjórnarandstöðunnar en stjórnarliðar hafa ekki séð ástæðu til að taka þátt í umræðunni og er það mjög slæmt. Ég held að það væri mjög mikilvægt ef hv. stjórnarliðar mundu fara aðeins yfir það af hverju ekki á að taka þetta í heildarsamhengi eins og við höfum vísað til. Ég held að enginn geti haldið því fram að það séu ekki málefnaleg rök. Menn hafa hvað eftir annað vitnað í rannsóknarskýrsluna máli sínu til stuðnings og sagt að það skipti máli að það sé mjög skýr stefnumörkun, pólitísk sýn af hálfu löggjafans þegar menn fara í svona vegferð, hvort sem það er varðandi vátryggingafrumvarpið eða fjármálafrumvarpið. Það er alveg augljóst að því er ekki fyrir að fara og þessi pólitíska stefnumótun hefur ekki farið fram. Ég vek athygli á því að hér eru mál sem eru gríðarlega stór í þessu samhengi eins og t.d. varðandi eignaraðild viðskiptabanka að tryggingafélögum og öfugt, það er ekkert rætt. Við ræddum það ekki í nefndinni og við ætlum ekki að ræða það í þingsalnum. Það eru ekki mörg einstök mál sem eru miklu stærri. Það eru mjög skiptar skoðanir á því hvort það hafi verið til góðs, hvort það sé æskilegt að viðskiptabankar og vátryggingafélög séu jafnvel sama samsteypan. Við höfum séð þetta á undanförnum árum, Íslendingar, þetta hefur verið þróunin. Við höfum t.d. séð þá þróun verða að það hafa verið blokkir, oft með skýr eignatengsl þar sem lagt er upp með að viðskiptavinir bankanna séu hjá ákveðnum tryggingafélögum, bæði persónutryggingafélögum og vátryggingafélögum. Ég ætla að það mundi vera einnar messu virði ástæða til að fara yfir þau mál. Er það þróun sem við viljum sjá og af hverju þá? Hún er til staðar núna og er komin til að vera nema eitthvað verði að gert. Er það eitthvað sem við teljum að sé æskilegt og viljum sjá að verði? Við höfum ekki rætt þetta. Við höfum ekki rætt endurskoðendurna eða lögin um þá. Við höfum ekki rætt skuggastjórnendurna, það er fyrst og fremst stjórnarandstaðan sem hefur rætt gagnkvæmu tryggingafélögin. Ég tek undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að á dauða mínum átti ég von en ekki því að flokkur hv. þm. Ögmundar Jónassonar og hæstv. ráðherra Steingríms J. Sigfússonar mundi leggja fram frumvarp þar sem ákveðin fyrirtæki í landinu mættu eingöngu vera hlutafélög, en þannig er þetta nú samt.

Ég er ansi hræddur um að við séum komin að þeirri niðurstöðu sem við vildum alls ekki fá, þ.e. að við höfum ekki lært mikið af rannsóknarskýrslu Alþingis. Það er ekki gott. Ég vek athygli þeirra sem eru að fylgjast með þessari umræðu á því að það sem hver einasti hv. stjórnarandstæðingur hefur rætt varðandi Fjármálaeftirlitið hefur verið áhyggjuefni að ég tel hjá öllum nefndarmönnum í hv. viðskiptanefnd. Það er alveg ljóst að við erum ekki búin að fá nein fullnægjandi svör og höfum kannski ekki heldur spurt spurninganna um það hvernig Fjármálaeftirlitið á að sinna því aukna hlutverki sem stofnuninni hefur verið falið eftir að lögin um vátryggingarnar og fjármálastofnanirnar voru samþykkt. Það er ekki lítið mál. Það er algert grundvallarmál.

Í örstuttu máli er það þannig að við erum að færa aukin verkefni og aukin völd til Fjármálaeftirlitsins og við vitum ekki hvernig þeim mun reiða af í því umhverfi. Við höfum ekki farið í skoðun á lögunum um Fjármálaeftirlitið. Við vitum að stofnunin er í erfiðleikum við að keppa um starfsfólk, það liggur alveg hreint og klárt fyrir. Alveg sama hvaða skoðanir menn hafa á því er það bara staðreynd sem liggur fyrir og við vitum að það var eitt af meinunum sem menn bentu á í kjölfar bankahrunsins.

Þetta er staðan sem er uppi í dag þegar er einn dagur fram að þinghléi og nefndadögum og ég velti því fyrir mér hvaða ráð við höfum varðandi það að taka þessa umræðu. Ég vonast til þess að við förum vel yfir þetta í nefndinni á milli umræðna og það væri gott að heyra það hjá hv. formanni viðskiptanefndar hvernig hún sér þá vinnu fara fram á vettvangi nefndarinnar. Hvernig sér stjórnarmeirihlutinn þetta fyrir sér á milli umræðna? Það er útilokað annað í þessu samhengi þegar við erum að endurskipuleggja, hvort sem er vátryggingamarkaðinn eða fjármálamarkaðinn, en að taka lögin um fjármálaeftirlitið fyrir, reyndar líka lögin um endurskoðendur og regluverkið í kringum innstæðutryggingarnar og kannski má nefna ýmislegt fleira. Það eru ekki bara við sem erum að fara í þetta verkefni, þetta er verkefni sem öll þau lönd sem við berum okkur saman við eru að fara í. Við megum ekki eyða tíma okkar og týna okkur í málum sem skipta ekki jafnmiklu máli. Þegar við ræðum einstök atriði, hvort sem það er í nefndinni eða hér, er sjálfsagt að við tökum góðan tíma í það en við erum við komin í þá stöðu að ræða um einstök tré, við sjáum ekki skóginn fyrir trjánum.

Mér er mjög minnisstætt þegar hv. seðlabankastjóri kom í viðskiptanefnd og útskýrði fyrir okkur að við værum í sömu stöðu og þær þjóðir sem við berum okkur saman við, að menn væru núna að reyna að finna leiðir að því að taka á þeim kerfislæga vanda sem var undirliggjandi og mældist ekki. Hann orðaði þetta eitthvað á þá leið að við hefðu verið að líta á einstaka stofnanir, þær hefðu staðist öll próf, kennitölur þeirra hefðu verið í lagi en síðan hefði kerfið allt í einu brugðist og hrunið varð. Mér þótti að mörgu leyti mjög áhugavert að heyra þetta frá þessum manni sem hafði verið að skoða þessa hluti fyrir hrunið í þeirri alþjóðastofnun sem hann var að vinna í áður. Hann fór mjög málefnalega yfir þetta og hefur bæði skrifað greinar og haldið ræður þar sem hann tæklar þetta mál eins og svo margir aðrir víðs vegar um heiminn.

Það var einmitt þetta atriði sem kom fram hjá seðlabankastjóra, að við byggjum á alþjóðlegu fjármálakerfi sem er byggt á Bretton Woods-stofnunum upp úr seinna stríði. Það var auðvitað í allt öðru umhverfi en við erum í núna. Við komumst allt í einu í þá stöðu að flækjustigið í kerfinu var orðið mjög mikið og það er ekki þróun sem varð á eini nóttu heldur smátt og smátt. Þær vörur sem fjármálafyrirtækin voru með, en fjármálafyrirtækin litu á þessa hluti sem vörur, urðu sífellt flóknari og ef marka má skýrsluna átti Fjármálaeftirlitið erfitt með að fylgja því eftir. Síðan var kerfisvandi undirliggjandi, þ.e. að menn litu á einstakar stofnanir, kennitölur þeirra voru í lagi en menn sáu ekki þennan undirliggjandi vanda sem ágerðist og var eitt af því sem olli hruninu. Svo sannarlega var það mjög mikið sem við Íslendingar áttum að ráða við og áttum að sjá fyrir en það eru líka mein í kerfinu. Það kemur fram í mörgu. Við sjáum þessar evrópsku tilskipanir eins og innstæðutryggingarsjóðinn, Icesave, það er hreint og klárt að þar er evrópsk tilskipun sem er meingölluð. Við þurftum að taka hana upp og það hafði skelfilegar afleiðingar í för með sér. Við erum ekki enn þá búin að sjá hvernig við ætlum að byggja upp traust á kerfinu aftur án þess að vera með beina ríkisábyrgð eins og við erum með núna. Það frumvarp sem komið er í hv. viðskiptanefnd vekur miklu fleiri spurningar en nokkurn tíma svör. Það er mjög skýrt að ef menn fara bókstaflega eftir því sem þar er verðum við einhverja áratugi eða í rauninni 96 ár að ná sjóðasöfnun sem mundi dekka tjón sem yrði þá hjá stærsta viðskiptabankanum eins og markaðshlutdeildin er núna ef ekkert annað kæmi til — 96 ár.

Auðvitað er þetta ákveðin einföldun, virðulegi forseti, en það sem ég er að segja er einfaldlega að það verða að koma skýr skilaboð frá stjórnarliðum af hverju ekki er tekið á þessu máli heildstætt, af hverju farið er þvert á niðurstöður rannsóknarskýrslunnar sem segir skýrt að við verðum að koma með pólitíska stefnumótun þar sem ljóst er hvaða markmiðum er hægt að ná með löggjöf. Af hverju ætla menn ekki að gera það? Það er ekki um það deilt að við förum ekki þá leið hér. Það heldur því enginn fram að pólitísk stefnumótun hafi legið til grundvallar þegar þetta frumvarp var samið. Það heldur því enginn fram að við hefðum klárað þá vinnu, ekki einu sinni hafið hana í hv. viðskiptanefnd. Við förum bara ekki þá leið sem er sérstaklega mælt með í rannsóknarskýrslunni.

Gott og vel. Meiri hlutinn ætlar að fara þvert á niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar hvað þetta varðar og þá er mjög mikilvægt að stjórnarliðar segi skýrt af hverju það er. Það hljóta að vera málefnaleg rök fyrir því að menn ætla ekki að læra af reynslunni því að þetta eru grundvallarspurningar eins og svo oft er vísað í í rannsóknarskýrslunni, að mönnum hafi orðið á í messunni þegar grundvallarspurningum var ekki svarað. Við eigum að mínu áliti að læra af því sem miður fór. Ég held að það sé það eina góða sem getur komið út úr bankahruni að maður getur lært af því og við getum byggt þannig upp að við gerum ekki sömu mistökin aftur. Ef við gerum það er það gæfa fyrir íslenska þjóð. Ef menn ætla ekki að gera það þurfa menn í það minnsta að koma með mjög skýr rök fyrir því af hverju menn fara ekki þá leið.



[20:36]
Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég er komin hér í ræðustól til þess að þakka þeim fulltrúum viðskiptanefndar sem hafa setið hér fyrir góðar umræður. Þessi umræða hefur að vísu verið svolítið ómarkviss. Fjallað var um mörg önnur frumvörp sem viðskiptanefnd hefur verið að vinna í eins og frumvarp um innstæðutryggingar og frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki, og umræðan hefur líka verið svolítið í pólitískum hjólförum. Sem dæmi um það má nefna að það er eins og margir hafi ekki lesið almennilega nefndarálit meiri hluta viðskiptanefndar þar sem m.a. er fjallað um hvers vegna ákvæði um gagnkvæm vátryggingafélög er tekið út, og ítrekað að með afnámi heimilda til að stofnsetja gagnkvæm vátryggingafélög er ekki verið að skerða réttindi t.d. félagasamtaka til þess að gefa félagsmönnum sínum kost á að standa að stofnun vátryggingafélags. Meiri hlutinn gengur lengra og telur jafnframt brýnt að löggjöf um vátryggingastarfsemi verði endurskoðuð komi í ljós að áhugi sé fyrir því að koma á fót gagnkvæmum vátryggingafélögum. Mér finnst því ansi djúpt í árinni tekið þegar talað er um að verið sé að banna gagnkvæm vátryggingafélög.

Hvað varðar þær breytingartillögur sem 1. og 2. minni hluti viðskiptanefndar leggja til, er ég sammála 1. minni hluta um nauðsyn þess að það þurfi að koma markmiðslýsing í upphafi laga um vátryggingastarfsemi til þess að tryggja að einstaka lagagreinar séu ekki túlkaðar þröngt eða úr samhengi við aðrar greinar laga um vátryggingastarfsemi.

Önnur breytingartillaga 1. minni hluta er við 56. gr. og varðar rétt endurskoðenda til þess að sitja stjórnar- og félagsfundi. Þessi grein er í raun ekki viðbót við 56. gr. því að þar stendur að endurskoðendur félags eigi rétt á að sitja stjórnar- og félagsfundi í vátryggingafélagi. Þetta er bara spurning um skýrara orðalag í breytingartillögu 1. minni hluta en ekki nýja grein eða viðbót.

Varðandi síðan ákvæði til bráðabirgða sem 1. minni hluti leggur til, að efnahags- og viðskiptaráðherra verði falið að skipa nefnd til að marka pólitíska stefnu og tillögur um löggjöf vegna vátryggingamarkaðarins, er alveg ljóst að sú tillaga er sprottin úr ábendingum sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Alþingi hefur einmitt falið þingmannanefnd, þar sem sæti eiga þingmenn úr öllum flokkum, að vinna tillögur upp úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis m.a. um það hvernig breyta þurfi lögum um fjármálamarkaðinn. Ég er því mjög hissa á fullyrðingum þingmanna Sjálfstæðisflokksins um að ekki sé hægt að endurskoða lög um vátryggingastarfsemi nema að taka þar með þann lærdóm sem hægt er að draga af rannsóknarskýrslunni. Við þurfum að bíða eftir og leyfa þingmannanefndinni að vinna sína vinnu og ég treysti henni vel til þess að koma með tillögur sem hv. viðskiptanefnd mun síðan vinna úr í haust. Það er því alveg ljóst að þetta frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi er bara eitt skref af mörgum sem löggjafinn þarf að stíga til þess að bæta hér regluverkið sem má segja að hafi verið brotið niður á mjög löngum tíma.

Varðandi breytingartillögur 2. minni hluta er þar fyrst og fremst verið að kvarta yfir því sem ekki er í breytingartillögum meiri hlutans. Það er m.a. kvartað undan skorti á pólitískri stefnumótun varðandi hvort skynsamlegt sé að viðskiptabankar hafi leyfi til að eiga vátryggingafélag. Þetta er ágæt ábending en sú pólitíska ákvörðun um að leyfa viðskiptabönkum að eiga vátryggingafélög var tekin á tíunda áratug síðustu aldar þannig að það er búið að taka þessa pólitísku ákvörðun. En það er náttúrlega góð ábending fyrir vinstri flokkana sem eru loksins komnir til valda, að endurskoða þetta fyrirkomulag eða alla vega að skoða afstöðu okkar til þess að viðskiptabankar hafi leyfi til að eiga vátryggingafélög.

Síðan er talað um að ekki sé tekið á ábyrgð skuggastjórnenda í frumvarpinu og breytingartillögunum. Það er rétt en ástæðan fyrir því er kannski sú að það eru a.m.k. tveir dómar fallnir þar sem tekið er á þessari ábyrgð þannig að það er dómaframkvæmd sem hægt er að nota varðandi þessa ábyrgð. Þar af leiðandi er ekki mjög brýnt að setja ákvæði um ábyrgð skuggastjórnenda inn í lög.

Það er jafnframt kvartað yfir því að ekki hafi verið ráðist í endurbætur á lögum um endurskoðendur en það hefur margoft komið fram á fundum viðskiptanefndar að slík endurskoðun er á döfinni.

Varðandi athugasemd 2. minni hluta um að ekki sé farið nógu vel yfir ástæður þess af hverju ekki er hægt að fara á svipaðan hátt með endurtryggingar og frumtryggingar, er ég ekki alveg með á hreinu hvað átt er við með því. Það eru auðvitað tilskipanir ESB sem setja okkur takmörk gagnvart því hvað er leyfilegt og hvað er ekki leyfilegt varðandi endurtryggingar og frumtryggingar. Það frumvarp sem við ræðum núna er m.a. til þess að innleiða tilskipun Evrópusambandsins um endurtryggingar.

Ég vil að lokum þakka enn og aftur fyrir þessar umræður hér í þingsal um frumvarpið og jafnframt geta þess að umræður um frumvarpið innan viðskiptanefndar voru mjög gagnlegar. Það komu góðar ábendingar frá minni hlutanum sem bættu mjög svo þær breytingartillögur sem meiri hlutinn endaði síðan á að gera. Þó svo að hér liggi fyrir þinginu tvö nefndarálit tel ég að það sé í raun mun meiri samstaða um þær breytingar sem verið er að leggja til á lögum um vátryggingastarfsemi en birtist í nefndarálitunum. Ég vil að lokum ítreka að það er rétt sem komið hefur hérna fram að sú heildarlöggjöf sem við ræðum hér er örugglega ekki nógu pottþétt til þess að koma í veg fyrir að bótasjóðir eða vátryggingafélög verði á einhvern hátt misnotuð. Meiri hlutinn gerir sér grein fyrir að þetta frumvarp er aðeins eitt af mörgum skrefum sem stíga þarf á næstunni til þess að bæta það lagaumhverfi sem fjármálamarkaðurinn býr við.

Aðeins eitt að lokum, ég vil geta þess að aðgerðaleysi einkennir oft þá sem eiga draum um fullkominn heim eða fullkomið regluverk og það var einmitt aðgerðaleysi sem rannsóknarnefnd Alþingis gagnrýndi varðandi aðdraganda bankahrunsins. Ég er þeirrar skoðunar að þegar maður ætlar að draga lærdóma af mörgum mistökum eigi maður að byrja strax að breyta þótt breytingarnar séu bara smávægilegar.



[20:46]
Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu en það fer ekki vel á því að hv. þingmaður væni aðra hv. þingmenn um að lesa ekki þann texta sem hér liggur fyrir, sérstaklega í ljósi þess að það er eins og að hv. þingmaður hafi ekki lesið eigið nefndarálit. Hv. þingmaður talaði um að gagnkvæmu tryggingafélögin yrðu ekki bönnuð en hér segir skýrt, með leyfi forseta:

„Verði frumvarpið að lögum fellur því brott heimild gildandi laga til að reka vátryggingafélag sem gagnkvæmt félag.“

Skýrara getur það ekki orðið.

Ég frábið mér allar ávirðingar um aðgerðaleysi. Þeir sem sitja í hv. viðskiptanefnd fyrir hönd stjórnarandstöðunnar hafa þvert á móti haft frumkvæði að mjög mörgum málum, m.a. breytingum hér. Þeir hafa svo sannarlega verið tilbúnir til að funda kvölds og morgna, og um miðjan dag þegar svo ber undir. Það er hreinn og klár útúrsnúningur að halda því fram að það þurfi að bíða eftir þingmannanefnd sem verður sett til að skoða rannsóknarskýrsluna og aðgerðir í framhaldi af því til að geta tekið mið af þeirri skýru niðurstöðu að þegar við förum í vinnu eins og þessa eigum við að fara í pólitíska stefnumótun. Það er hreinn og klár útúrsnúningur að halda því fram.

Það er alveg ljóst að það hefur verið brotalöm hvað það varðar og það þrætir enginn fyrir það að ýmislegt vantar í þetta. Hv. þingmaður veit að þeir sem sitja í hv. viðskiptanefnd eru svo sannarlega tilbúnir til að fara í þá vinnu sem er nauðsynleg til að endurvekja traust á fjármálamarkaðnum og við verðum að fara í og á ekki að halda neinu öðru fram úr (Forseti hringir.) ræðustól þingsins.