Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 229. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1116  —  229. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um vátryggingastarfsemi.

Frá 2. minni hluta viðskiptanefndar.



    Með frumvarpinu er lögð til ný heildarlöggjöf um vátryggingastarfsemi. Lagt er til að svokölluð endurtryggingatilskipun verði innleidd í íslenskan rétt. Aðrar breytingar sem felast í frumvarpinu eru þær helstar að lagt er til að íslensk vátryggingafélög skuli reka sem hlutafélög. Þá er afmarkað betur en í gildandi lögum hvenær Fjármálaeftirlitið getur gripið til aðgerða og viðurlaga séu hagsmunir neytenda ekki hafðir til hliðsjónar. Gert er ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitið veiti vátryggingafélögum starfsleyfi en samkvæmt gildandi lögum er það viðskiptaráðherra sem veitir starfsleyfi. Þá er mælt fyrir um að aðili sem hyggst eignast virkan eignarhlut í vátryggingafélagi skuli tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um slík áform og skulu tilkynningu fylgja nánar tilgreindar upplýsingar. Einnig er lagt til það nýmæli að vátryggingafélagi verði óheimilt að veita lán með veði í eigin hlutabréfum eða skuldabréfum.
    Lagt er til að Fjármálaeftirlitið fái auknar valdheimildir og meira svigrúm til að meta rekstur vátryggingafyrirtækja. Verkefnið að byggja upp traustan fjármálamarkað á Íslandi eftir bankahrunið er stórt og viðfangsmikið. Það er augljóst að á vátryggingamarkaði var ekki sami kerfislægi vandi og hjá fjármálafyrirtækjum en samt sem áður er mikilvægt að hafa heildarsýn á það hvernig vátryggingamarkað við viljum hafa í framtíðinni og það skortir á að nægjanleg pólitísk stefnumótun hafi farið fram á vettvangi þingsins. Frumvarpið ber þess merki og þannig hefur til dæmis ekki verið tekin afstaða til eftirfarandi atriða:
          Hvort skynsamlegt sé að viðskiptabankar megi eiga vátryggingafélag og öfugt.
          Ekki hefur verið ráðist í endurbætur á lögum um endurskoðendur.
          Ekki er tekið á ábyrgð svokallaðra skuggastjórnenda, þ.e. aðila sem beita valdi sínu til að hafa áhrif innan fjármálafyrirtækis jafnvel þannig að stjórnir lúti boðvaldi þeirra. Í því fælist réttarbót að kveða á um skaðabótaábyrgð slíkra aðila ef ákvarðanir þeirra valda félaginu tjóni.
          Ekki var farið yfir ástæður þess með fullnægjandi hætti af hverju ekki er hægt að fara á svipaðan hátt með endurtryggingar og frumtryggingar.
    Annar minni hluti telur afskipti löggjafans af starfslokasamningum of miklar. Allir eru sammála um að ýmsir slíkir samningar sem hafa verið gerðir á undangengnum árum voru ekki í samræmi við efni og aðstæður, en hafa ber í huga að starfslokasamningar eru ýmist gerðir til að fullnægja ráðningarsamningum eða til að koma til móts við starfsmenn sem hafa starfað lengi á sama stað og sinnt sínu starfi vel. Í frumvarpinu er bæði gert ráð fyrir því að verði það að lögum eigi ákvæði þess við um samninga sem gerðir voru fyrir gildistöku þess og einnig þar sem það er gert að skilyrði að hagnaður hafi verið af rekstri fyrirtækis undanfarin þrjú ár.
    Ekki verður séð þörf á því að banna gagnkvæm tryggingafélög líkt og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. 2. minni hluti leggst gegn því að vátryggingafélög megi eingöngu reka í formi hlutafélags.
    Óljóst er hvort Fjármálaeftirlitið hafi burði til að sinna af krafti þessum auknu verkefnum en með þessu er m.a. vísað til möguleika eftirlitsins til að ráða og halda í hæft fólk enda hefur verið mörkuð sú stefna að engin laun verði hærri en laun forsætisráðherra.

Alþingi, 17. maí 2010.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


frsm.


Sigurður Kári Kristjánsson.