139. löggjafarþing — 159. fundur
 7. september 2011.
umræður utan dagskrár.

matvælaöryggi og tollamál.

[15:01]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég held að það sé erfitt að byrja þessa utandagskrárumræðu sem ég ætla að eiga við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nema hann sé í salnum. Ég geri ráð fyrir að (Gripið fram í: Hann er …) við ættum að gera hlé á umræðunni þar til hann birtist. Þarna kemur hann á harðahlaupum. Veri hæstv. ráðherra velkominn í salinn.

Ég geri ráð fyrir að þessu verði þá bætt við tíma minn.

Ég óskaði eftir því að fá að ræða matvælaöryggi og tolla við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Eftir að álit umboðsmanns Alþingis lá fyrir um að tollkvótar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vegna innflutnings á landbúnaðarafurðum stönguðust á við stjórnarskrána spratt eðlilega upp mikil umræða um tolla og fæðuöryggi í landinu. Við skulum muna að þegar innflutningsbann á búvörum var afnumið vegna aðildar okkar Íslendinga að GATT árið 1995, þ.e. innflutningsbannið var tekið af, skuldbatt landið sig til að hleypa inn erlendum búvörum sem næmu um 3% af innanlandsneyslu, m.a. til að auka samkeppni og fjölbreytni en ekki síst til að lækka verð til neytenda. Úrvalið jókst vissulega eitthvað en verðið til neytenda hefur lítt lækkað. Frá því að innflutningsbannið var afnumið hefur neysla á búvörum aukist margfalt, sem er jákvætt, og breyst en enn miðast tollumhverfið við neysluna eins og hún var fyrir 20 árum, þ.e. tollumhverfið og viðmiðanirnar eru enn þá eins og var fyrir 20 árum og ekkert tillit er tekið til breyttra lífs- og neysluhátta Íslendinga.

Þvert á móti hefur hæstv. landbúnaðarráðherra slegið um sig í nafni fæðuöryggis, hækkað múra og aukið hindranir þannig að allt í einu blossar upp gamaldagsumræða um kjötskort í landinu.

Allir gera sér grein fyrir mikilvægi fæðuöryggis en eins og ráðherrann og fylgisveinar hans hafa beitt því er það ekkert annað en fyrirsláttur að mínu mati til að viðhalda gamaldagshaftakerfi sem ekki þorir að nýta sér kosti fjölbreytni og samkeppni, hvað þá að horfast í augu við breyttar neysluvenjur og auknar kröfur af hálfu neytenda. Það er verið að slá ryki í augu fólks með því að ala á óþarfaótta í sambandi við fæðu- og matvælaöryggi. Ef menn vilja í alvöru ræða matvælaöryggi lands eins og okkar sem er háðara en flest önnur lönd viðskiptum við erlend ríki felst fæðuöryggi frekar í frjálsum viðskiptum í opnu hagkerfi við aðrar þjóðir og nánu alþjóðlegu samstarfi en að loka landinu fyrir fjárfestingum og innflutningi á búvörum. Það er í raun það sem landbúnaðarráðherra er að gera með geðþóttaákvörðun sinni.

Ég spyr: Af hverju er til dæmis ekki hægt að leyfa Íslendingum að njóta ávaxtanna af árstíðabundinni uppskeru, jafnvel þótt hún sé erlend? Hversu fáránlegt er það að þegar verðið fellur úti hækkar það hér þegar íslensk uppskera kemur á markað?

Íslenskar afurðir verða að vinna þennan slag á öðrum forsendum en verði einu og sér. Af hverju tölum við ekki um íslenska framleiðslu, umhverfisvænan lífsstíl sem felst í því að borða mat úr eigin umhverfi í stað þess að flytja hann heimshorna á milli? Leggjum frekar áherslu á uppruna og ýtum þannig enn undir þróun sem er hafin í sölu á matvælum beint frá býli og reynum að verða meðvitaðri um hvað við setjum ofan í okkur.

Við þurfum að auka neyslu á grænmeti og ávöxtum. Flestir hafa væntanlega þá skoðun að betra sé að vita hvaðan kjötið kemur og hvernig meðferðin á því hefur verið. Landbúnaðarvörur okkar eru stórkostlegar og eiga ekki að þurfa að óttast breytingar.

Við sjáum víða vaxtarsprotann í íslenskum landbúnaði. Margir hafa að undanförnu bent á Vallanesbúið eða ýmsa aðra nýsköpun og vöruþróun víða um land. En landbúnaðarráðherra hefur mikið vald með eins manns þingmeirihluta ríkisstjórnarinnar og getur að mínu mati misbeitt valdi sínu freklega eins og hann gerði vorið 2009 þegar hann breytti innflutningstollum í verðtolla í stað magntolla sem þeir höfðu verið áður. Hversu fáránlegt er að það er dýrara að flytja inn tollkvótann en vörur með almennum ofurtollum eins og það er í dag? Skítt með neytendur. Og það sem verra er, hæstv. ráðherra er með þessu brölti sínu búinn að eyðileggja fyrir íslenskum landbúnaði. Það er algjörlega óviðunandi að hann skipi með hegðun sinni neytendum og bændum í andstæð lið — óþolandi — þ.e. andstæð lið sem eiga þá í hatrammri deilu. Bændur hafa ekki beðið um og eiga ekki skilið að vera settir í þessa aðstöðu, hvað þá neytendur. Landbúnaðurinn er að óþörfu kominn í varnarstöðu í stað þess að njóta þeirra sóknarfæra sem fylgja opnara og gegnsærra kerfi, kerfi sem er ekki háð duttlungum ráðherra.

Ég spyr hæstv. ráðherrann að þrennu:

1. Ætlar hann ekki að hafa frumkvæði að því við fjármálaráðherra sem yfirmann tollamála að tollalögum verði breytt og að farið verði að áliti umboðsmanns Alþingis? Annars er minnsta mál fyrir mig að koma með lagabreytingartillögu sem uppfyllir skilyrði stjórnarskrár í þessu efni.

2. Ætlar ráðherra að beita sér fyrir breytingum á landbúnaðarkerfinu, þar með talið tollum sem taka tillit til breyttra neysluhátta okkar Íslendinga? Eða vill ráðherra algjörlega óbreytt kerfi?

3. Ætlar ráðherra að auka frelsi innflutnings á búvörum?

Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti svarað þessum spurningum mínum skýrt og skorinort.



[15:07]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Til að gera grein fyrir stöðu þeirra mála sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir reifar hér vil ég fyrst nefna að aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni var staðfest með lögum 1995. Með þeim var breytt tollalögum, lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og lögum um dýrasjúkdóma í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland gekkst þá undir. Afnumdar voru viðskiptatakmarkanir með landbúnaðarvörur og þær umreiknaðar í tollabindingar sem skyldu takmarka hámark tolla af viðkomandi afurðum, enn fremur skuldbindingar um að leyfa svokallaðan lágmarksaðgang fyrir tilteknar landbúnaðarafurðir sem er tilgreindur sem magn tiltekinnar afurðar á hverju ári. Ísland samþykkti að binda grunntaxta tolla fyrir einstakar landbúnaðarafurðir við tiltekna prósentu að hámarki eða fasta upphæð á kíló, magntoll, sem tilgreindur er í SDR vegna þess sjónarmiðs að verðbólga á Íslandi var og hefur verið mun meiri en í viðskiptalöndum okkar.

Í texta laganna frá 1995 segir:

„Tollur á vörur frá aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar má eigi vera hærri en þær tollabindingar sem tilgreindar eru í viðaukum IIA og IIB [sem eru skrár um tollabindingar fyrir einstakar afurðir] […]. Miðist tollabinding bæði við verð og magn skal hámarkstollur miðast við þá bindingu sem hærri álagningu leyfir.“

Þá bauð Ísland lágmarksaðgang fyrir tilteknar afurðir sem var um 3% af innanlandsneyslu við upphaf samningsins en hækkaði í 5% á fimm árum. Ísland skuldbatt sig við að á þann innflutning skyldu tollar vera 32% af grunntaxta tollabindingar samkvæmt viðaukum IIA og IIB eins og ég nefndi áðan. Ég legg áherslu á að þetta eru samningsskilyrði.

Í samningi Íslands við Alþjóðaviðskiptastofnunina er flokkun á afurðum húsdýra mjög fábrotin og mun fábrotnari en er í gildandi tollskrá. Þetta leiðir til að verulegs mismunar gætir milli tollálaga á lágmarksinnflutning sömu dýraafurðar séu magntollar og verðtollar bornir saman. Þetta kemur skýrt fram ef tollur af nautakjöti er skoðaður. Allt beinlaust nautakjöt fer undir sama gjaldflokk sem er kr. 935 kr./kg, þ.e. 114%. Sé beitt magntolli sem felur í sér krónutöluálagningu verður að greiða 935 kr. við innflutning á kíló af ódýrustu tegund, svo sem hakki, þ.e. sama og lagt væri á úrvalslundir. Sé hins vegar lagður á verðtollur skal hann vera 114% og endurspeglar því fullkomlega verðmæti innflutningsins.

Þetta segir okkur að magntollar hvetja til innflutnings á svokallaðri lúxusvöru en verðtollar hvetja til innflutnings á afurðum á lágu verði, auk þess sem hagkvæmni við innflutning skilar sér þá betur. Staðreyndin er sú að ef tollverð fyrir beinlaust nautakjöt sem ég hef tekið hér dæmi um er lægra en 820 kr./kg borgar sig fyrir neytandann að innflutningurinn fari fram á verðtollum, en magntollum sé það hærra.

Ákvörðun mín um að taka frekar upp verðtolla en magntoll vorið 2010 byggði á þessum forsendum meðal annars, auk þess sem vitað var að ekki var tilgengilegur gjaldeyrir í landinu fyrir lúxusvarningi sem magntollaleiðin gefur forskot.

Það er vitaskuld óvanalega dýr matvara sem kostar í heildsölu 2.000 kr./kg sem er það dæmi sem vikið var að í fjölmiðlum fyrir skemmstu. Ef við tökum aftur á móti mið af því hvað gerist með nautakjöt sem kostar 400 kr./kg í heildsölu erlendis snýst dæmið algjörlega við.

Frú forseti. Ég kem betur að spurningum hv. þingmanns. Ég vil þó minna hv. þingmann á að í lok hrunsins, hrunsins sem hv. þingmaður átti ekki hvað síst aðild að í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum í bullandi frjálsræði, (Forseti hringir.) var fyrsta spurningin hvort þjóðin hefði mat, (Forseti hringir.) hvort fólkið í landinu hefði aðgang að ódýrum mat. Fæðuöryggi er hluti af sjálfstæði þjóðar.



[15:13]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur í yfirlýsingu heitið því í tengslum við gerð kjarasamninga að beita sér fyrir lækkun vöruverðs, ekki síst matvæla, m.a. með lækkun tolla og vörugjalda. Tilgangur tolla á matvæli er sá að tryggja stöðu innlendra framleiðenda og matvælaöryggi til lengri tíma. Þessi stefnumótun birtist meðal annars hjá alþjóðanefnd um framtíð matvæla og landbúnaðar sem hefur einmitt lagt áherslu á að þjóðir heims eigi að vernda sína innlendu framleiðslu gegn þeirri hnattvæðingu sem sumir telja, m.a. Vandana Shiva sem hélt hér fyrirlestur fyrir fullu Háskólabíói á dögunum, að hafi markvisst grafið undan þeim aðferðum sem þjóðir beita til að auka efnahagslegt sjálfstæði sitt, t.d. tollvernd og innflutningskvóta.

Þegar þjóðir ákveða að beita tollvernd ber að sjálfsögðu að líta til þess hvaða framleiðslugreinar það eru sem þarfnast verndar. Innflutning og tollálögur matvæla á að takmarka af þeim vörum sem ekki er hægt að framleiða innan lands. Spurningin er hins vegar hvenær of langt sé gengið í því að vernda innlenda framleiðendur á kostnað neytenda sem eiga þeirra hagsmuna að gæta að geta keypt matvæli á viðráðanlegu verði.

Fáar þjóðir verja hlutfallslega meira fé til landbúnaðar en við Íslendingar og óvíða er rekin harðari verndarstefna með tilheyrandi tollum, kvótum og höftum. Heildarframlög ríkisins til landbúnaðar voru nálægt 11 milljörðum kr. á síðasta ári og við getum spurt okkur hvernig tollvernd og niðurgreiðslur hafi komið íslenskum neytendum til góða eða tryggt matvælaöryggi þjóðarinnar til lengri tíma. Það er ekki ýkja langt síðan í ljós kom að kjötbirgðir væru takmarkaðar í landinu, m.a. vegna þess að menn hafa flutt út íslenskt niðurgreitt lambakjöt í stað þess að setja það á innanlandsmarkað og láta neytendur njóta góðs af birgðastöðu (Forseti hringir.) með lægra vöruverði.

Frú forseti. Niðurgreiðslur (Forseti hringir.) og tollvernd eru mikill frumskógur sem tímabært er að (Forseti hringir.) einfalda, enda er þetta áhyggjuefni.



[15:15]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti áréttar við hv. þingmenn að virða tímamörk í svo stuttum ræðutíma (ÓÞ: Ég gerði það.) sem er í utandagskrárumræðum.



[15:15]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta er sérkennileg umræða og mörgu snúið á haus. Hvað matvælaöryggi varðar þá er lægsta tíðni matarsýkinga hér í heiminum, eftir því sem ég best veit, og í okkar litla og vel upplýsta landi eru miklar upplýsingar um uppruna vöru, vistvænt umhverfi og atvinnuhætti. Varðandi fæðuöryggi hins vegar framleiðum við aðeins um 50% af þeim hitaeiningum sem við þurfum. Önnur samanburðarlönd segja að það sé allt of lágt hlutfall. Við þurfum því að framleiða meira, auka og styrkja innlenda framleiðslu á öllum sviðum, ekki síst matvælaframleiðslu. Þannig verða til fleiri störf, útflutningur verður meiri og gjaldeyrir og einnig er um gjaldeyrissparnað að ræða.

Tollar og önnur höft eru notuð af öllum þjóðum, öllum ríkjum, til að vernda framleiðslu sína og störf. Ég vil spyrja fyrirspyrjanda sem og aðra fulltrúa þingflokka sem hér hafa talað hvort við viljum ekki vernda og styrkja innlenda framleiðslu okkar, fjölga störfum, spara gjaldeyri, auka útflutning og skapa gjaldeyri.

Hér hefur líka verið rætt um verð til neytenda og matvælaverð. Það hefur komið fram á síðastliðnum þremur árum hafa innflutt matvæli hækkað á bilinu 50–75% og hægt er nú reyndar að taka dæmi um einhverja banana upp á 162%. Á meðan hefur innlend framleiðsla aðeins hækkað um 7–35% og reyndar er hægt að benda á vörur sem hafa lækkað um 8%.

Því má spyrja hvort hér sé of langt gengið í tollum. Auðvitað þarf að ganga varlega um þær dyr en það hlýtur að vera frumskilyrði okkar að vernda þá framleiðslu sem við höfum, það hlýtur að vera leiðin fram á við, ekki bara á matvælasviðinu heldur á öllum öðrum sviðum atvinnulífsins. Það er leiðin fram á við. Þannig styrkjum við Ísland og framleiðum meiri gjaldeyri og sköpum (Forseti hringir.) fleiri störf. Á því er ekki vanþörf.



[15:18]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu og skeleggum spurningum hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og legg til að ómetanleg svör hæstv. landbúnaðarráðherra verði færð á spjöld sögunnar sem fyrst.

Hér er verið að ræða tolla og innflutning og ýmislegt hvað varðar matvæli og fæðuöryggi á Íslandi. Ég lýsi eftir einhvers konar millileið sem er náttúrlega heppilegust fyrir Íslendinga, þar sem íslenskir bændur geta haldið áfram að framleiða þær vörur sem ekki er hægt að flytja inn með góðu móti, eins og t.d. lambakjöt og jafnvel hluta af nautakjöti, en að leyfður verði tollalaus innflutningur á þeim vörum sem ekki er hægt að framleiða hér. Þar á ég ekki síst við ýmsar tegundir af grænmeti sem eru mjög dýrar á Íslandi og osta og þess háttar.

Það er eðlismunur að labba inn í matvöruverslun í nágrannalöndunum og á Íslandi hvað varðar vöruúrval. Sú bábilja sem alltaf er haldið á lofti um að matur í nágrannalöndunum sé skemmdur og eitraður miðað við íslensk matvæli er náttúrlega bara hlægileg. Fólk borðar mat í öllum nágrannalöndunum og kemst ágætlega af. Það sem þarf að gera hér er að losa um þessi sérhagsmunatök á íslenskum landbúnaði. Tryggja þarf að það séu bændurnir sem fái það verð sem þeir þurfa fyrir vöruna en að það fari ekki allt í milliliðina. Það þarf að gera skelegga þjóðhagsáætlun til að nýta þann jarðvarma sem við höfum til matvælaframleiðslu. Það skapast miklu fleiri störf í matvælaframleiðslu við nýtingu jarðhita en t.d. í stóriðju. Hér er búið að snúa öllu þessu kerfi á haus og það er orðið óhagkvæmt, það er orðið dýrt fyrir neytendur, dýrt fyrir ríkið og skattgreiðendur, vegna þess að sérhagsmunir hafa ráðið ferðinni allan tímann. Þetta er bara enn eitt af þeim kerfum sem Íslendingar hafa búið sér til sem er komið út í horn og komið í ógöngur og virðist vera ómögulegt að losna úr.

Ég krefst þess einfaldlega að hæstv. ráðherra svari þeim spurningum sem beint hefur verið til hans en tali ekki hér (Forseti hringir.) eins og blaðsíða í verðlista.



[15:20]
Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Mig langar að nota þessar tvær mínútur til að segja stutta sögu af tómötum og gúrkum. Tollar á tómötum og gúrkum og nokkrum öðrum tegundum grænmetis voru felldir niður á Íslandi 2002. Það er dálítið fróðlegt að skoða hvað gerðist við það. Framleiðsla á innlendum tómötum jókst um um það bil 60% eftir að tollarnir voru lagðir niður, úr tæpum 1.000 tonnum í 1.600 tonn. Framleiðsla á innlendum gúrkum jókst um 40% við afnám tolla. Tekið var upp annars konar styrkjakerfi við grænmetisbændur við sama tilefni, en sagan sýnir auðvitað að það er engan veginn öruggt að tollar verndi innlenda framleiðslu á einhlítan hátt. Þegar afnám tollanna varð tóku grænmetisbændur sig náttúrlega saman, þeir bjuggu til slagorð sem heitir „Veljum íslenskt“ og bjuggu til hóp sem heitir íslenskir garðyrkjubændur og styrktu samkeppnisstöðu sína. Markaðshlutdeild innlendrar gúrku jókst úr 80% í 90% við afnám tolla.

Þessi litla saga af tómötum og gúrkum sýnir okkur auðvitað að við eigum óhrædd að nálgast uppstokkun í landbúnaði og spurningar varðandi matvælaöryggi með það að markmiði að nútímavæða allt þetta umhverfi. Ég held að eitt það besta sem gæti komið fyrir íslenskan landbúnað í heild sinni, vegna þess að gæði hans eru mikil, væri afnám tolla og breytt, skynsamlegra, nútímalegra styrkjakerfi í landbúnaði. Ég held að það væri það langbesta sem gæti komið fyrir.



[15:22]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og flestir vita hefur íslenskur landbúnaður búið við tollvernd um áratugaskeið. Hins vegar gerðum við samninga á grundvelli WTO og reyndar líka tvíhliða samninga við ESB um afnám tolla á tilteknu magni af búfjárafurðum. Menn buðu síðan í þann innflutning, buðu tiltekna greiðslu til ríkisins fyrir að fá að flytja inn þetta magn. Því miður var ákveðinn misbrestur á framkvæmdinni. Menn tíðkuðu það að bjóða í þetta magn, flytja það síðan ekki inn og þurftu þar af leiðandi ekki að borga tollana. Ég breytti þessu í minni tíð sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Uppboðið á tilteknu magni fór fram þannig að þeir sem buðu í urðu skilyrðislaust að greiða tollana fyrir það sem þeir höfðu boðið í eða leggja fram viðhlítandi tryggingar. Þetta fyrirkomulag reyndist vel. Að sönnu var nokkur innflutningur á þessum afurðum en það ógnaði ekki matvælaöryggi Íslendinga né stöðu íslensks landbúnaðar.

Ég tel að sú aðferð sem hæstv. núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tók upp, að taka upp verðtolla í stað magntolla, hafi ekki verið til bóta fyrir íslenskan landbúnað. Hún á m.a. sinn þátt í því að magna neikvæða umræðu gegn íslenskum landbúnaði og sú neikvæðni hefur tröllriðið umræðunni í sumar. Það er mjög að ósekju en miklu veldur meðal annars sá sem upphafinu veldur.

Við hrunið 2008 féll auðvitað gengi íslensku krónunnar og samkeppnisstaða íslensks landbúnaðar styrktist. Þess vegna var að mínu mati ekkert tilefni til að gera þær breytingar sem hæstv. ráðherra gerði. Fyrir utan það að sem betur fer skapaði þessi gengisfelling nýja samkeppnisstöðu fyrir íslenskan landbúnað á erlendri grundu. Það er fagnaðarefni.

Ég vil segja þó þetta að lokum. Að mínu mati á ekki að gera einhliða breytingar á tollumhverfi landbúnaðarins. Slíkar breytingar á ekki að gera nema með gagnkvæmum hætti til þess að opna aukið aðgengi fyrir landbúnað okkar inn á erlenda markaði. Það þjónar hagsmunum okkar. Áratugum saman hefur stefna íslenskra stjórnvalda verið sú að framkvæma þetta þannig. Sú stefna er sanngjörn og þjónar íslenskum hagsmunum. Við eigum að halda henni áfram.



[15:24]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér matvælaöryggi og tollamál. Matvælaöryggið er hverri þjóð gífurlega mikilvægt. Það sýndi sig vel þegar bankahrunið dundi yfir Ísland, þá kölluðu stjórnvöld strax eftir upplýsingum um hve miklar birgðir af innlendri matvælaframleiðslu væri til í landinu. Þegar gjaldeyrir er takmarkaður verðum við að geta treyst því að fæðuöryggi sé tryggt með öruggum hætti fram í tímann. Stjórnvöldum ber því að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu, svo einfalt og sjálfsagt er það.

Mikil umfjöllun hefur verið undanfarið um tolla á innfluttum landbúnaðarvörum og blásið upp að skortur hafi ríkt í innlendri kjötframleiðslu í sumar. Það var fullyrðing sem hefur ekki staðist nánari skoðun. Tollar eru ekki séríslenskt fyrirbæri. Flest lönd standa vörð um landbúnað sinn og hafa tolla. ESB leggur líka tolla á innflutt lambakjöt frá Íslandi sem er flutt til ESB umfram gagnkvæma tollfrjálsa samninga við Ísland. Evrópuríkin leggja einnig talsvert háa tolla á búvörur sem fluttar eru inn frá ríkjum utan Evrópusambandsins. Þar má nefna tolla á matvæli frá Asíulöndum, svo sem hrísgrjón og fleira.

Landbúnaðarframleiðsla er hverri þjóð mjög mikilvæg. Í 19. gr. EES-samningsins skuldbundu samningsaðilar sig til þess að halda áfram viðleitni sinni til að auka frjálsræði með landbúnaðarafurðir. Ísland og ESB gerðu með sér gagnkvæmt samkomulag á grundvelli þessa ákvæðis sem tók gildi 2007. Þar er kveðið á um tollalækkun, tollkvóta eða afnám tolla á tilteknum búvörum.

Álit umboðsmanns Alþingis á skattlagningarheimildum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er í skoðun hjá þeim ráðuneytum sem í hlut eiga en unnið hefur verið út frá núgildandi lögum. Ég tek undir það álit umboðsmanns Alþingis að brýnt sé að skattheimildir framkvæmdarvaldsins séu skýrar í lagatexta.



[15:27]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að ég er hjartanlega ósammála þeirri röksemd sem hér hefur farið á loft um matvælaöryggi. Við skulum hafa það algjörlega á hreinu að lokist landið mun öll matvælaframleiðsla í landinu væntanlega stöðvast á tveimur vikum enda byggir sú framleiðsla á aðföngum erlendis frá.

Mér sýnist umræðan heilt yfir sýna vel í hversu mikil vandræði við erum komin með hið íslenska landbúnaðarkerfi. Ráðherra er kominn í ógöngur með reglugerðir sínar. Bændur er læstir í fátæktargildru. Ríkisstuðningur við greinina er margfaldur við það sem gerist erlendis. Samt greiða neytendur hátt verð fyrir afurðir. En samt standa menn hér og lofa og prísa þetta kerfi.

Að mínu viti þarf að ráðast í heildarendurskoðun á íslensku landbúnaðarkerfi. Þar ber að viðurkenna fyrst og fremst að styðja þarf við og styrkja íslenskan landbúnað rétt eins og Evrópusambandið hefur nú viðurkennt með áliti sínu frá því í gær. Þeir sem kalla eftir endurskoðun gera það vegna þess að þeir vilja styrkja íslenskan landbúnað. En við þurfum að opna kerfið og losa bændur undan ánauðinni. Það á að stuðla að nýsköpun og aukinni arðsemi í greininni til hagsbóta fyrir bændur og neytendur.

Dæmi um það sem vel hefur tekist til má sjá í sögu bændanna á Vallanesi. Þar eiga bændur gott samband við neytendur enda vilja neytendur gæðavöru sem þeir vita hvaðan kemur og hvernig er búin til. Það hafa nánast verið viðtekin sannindi í íslenskum landbúnaði að ekki sé hægt að framleiða búvöru án ríkisstyrkja. Þess vegna vekur það athygli að bygg og útiræktað grænmeti er framleitt í Vallanesi án styrkja. Vallanesfólkið hugsar augljóslega út fyrir rammann. Að mínu viti á ráðherra landbúnaðarmála að gera það sömuleiðis. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)



[15:28]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eru alþingismenn í alvörunni að tala um að afnema tolla á innflutningi á hráu kjöti eða öðrum búvörum? Hafa þeir sem tala fyrir því úr ræðustól Alþingis reiknað hversu mörg störf tapast, hversu margir verða atvinnulausir? Það væri gaman að fá það frá hæstv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sem ég þakka þó fyrir að hafa tekið upp þessa umræðu.

Hversu mikill gjaldeyrir skyldi nú glatast ef við færum að flytja inn matvörur í gríð og erg? Getur verið að það sé betra fyrir hagkerfið í heild sinni að við eyðum þeim krónum sem hér verða til í innlenda framleiðslu, á hvaða stigi sem hún er? Getur verið að þannig spörum við gjaldeyri sem svo leiðir til þess að við getum haldið uppi öflugu velferðarkerfi í landinu? Er þetta ekki lykilatriði í þessu öllu saman?

Af hverju skyldi það vera að ríki um allan heim verndi og styðji matvælaframleiðslu sína? Evrópusambandið sjálft er með tolla. Þeir vilja ekki hleypa búvörum frá Afríku tollalaust inn til sinna landa. Af hverju skyldi það nú vera? Ég gæti trúað því að Afríka gæti framleitt þessar vörur á margfalt ódýrari hátt en ríki Evrópusambandsins.

Það hlýtur að vera þannig, virðulegi forseti, að mikilvægara er og verður að tryggja að matvælaframleiðsla sé fyrir hendi á Íslandi og í öðrum löndum. Sú staða má alls ekki koma upp að við fórnum matvælaframleiðslunni fyrir skammtímagróða og þegar eitthvað bjátar á. Fæðuöryggið er það sem við verðum að hafa á Íslandi og ég tel það mikilvægara okkur sem búum hér (Forseti hringir.) úti í miðju Atlantshafi en öðrum þjóðum.



[15:31]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Það verður ekki þannig, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson heldur fram, að öll matvælaframleiðsla leggist af ef innflutningur verður leyfður. Það er ekki á þeim nótum sem þessi umræða ætti að fara fram. Ég fagna því sem hv. þm. Magnús Orri Schram sagði um að kerfið væri komið í ógöngur, það er komið út í horn og það þarf að stokka það upp, en það þarf að sjálfsögðu að stokka það upp með það í huga að hér verði áfram innlend matvælaframleiðsla en á öðrum forsendum en í dag.

Með innflutningi á matvælum, hvort sem um er að ræða kjöt, grænmeti eða annað, á að sjálfsögðu að fylgja upprunavottorð. Íslenskir neytendur eiga að geta séð það í kjötborðum þeirra verslana þar sem þeir versla hvaðan kjötið kemur. Ég spyr: Hvers vegna í ósköpunum er það ekki í dag? Menn kaupa nautakjöt úti í búð og hafa ekki hugmynd um hvaðan það er. Það er vegna þess að landbúnaðarráðherra hefur ekki beitt sér fyrir reglugerð þannig að það yrði merkt og Íslendingar gætu þá keypt sér íslenskt nautakjöt ef þeir vildu.

Það þarf að vera rekjanleiki fyrir neytendur. Ég hef engar efasemdir um að Íslendingar mundu í langflestum tilfellum kaupa íslenskar vörur svo fremi þeir hefðu möguleika á að greina á milli þeirra og annarra. Því er hægt að koma á með einfaldri reglugerðarbreytingu.

Þetta þarf líka að komast í gagnið hvað varðar erfðabreytt matvæli og merkingar á þeim, en enn einu sinni hefur hæstv. landbúnaðarráðherra gengið á hagsmuni neytenda í því máli með því að fresta reglugerð um merkingar á erfðabreyttum matvælum til áramóta. Þetta er ótrúleg framganga hjá manni sem þykist bera hag neytenda fyrir brjósti.

Fæðuöryggi er byggðamál og líka hagsmunamál almennings. Möguleikar á innlendri framleiðslu verða að vera fyrir hendi, en fæðuöryggi byggist að stórum hluta á því að viðskipti við útlönd eigi sér áfram stað. Þar verðum við að tryggja jafnvægi og við verðum að koma á betra jafnvægi en því ójafnvægi sem er til staðar í dag í kerfinu.



[15:33]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Umræðan hér er merkileg, en einna merkilegast þykir mér þó að hæstv. ráðherra hafi ekki á sínum fimm mínútum getað svarað einföldum spurningum mínum til hans. Ég ítreka þær hér með.

Hún er líka merkileg, umræðan sem hefur átt sér stað í þessum ræðustól af hálfu þingmanna. Fæðuöryggi. Ekkert land í heiminum er jafnháð samskiptum við útlönd og Ísland. (Gripið fram í.) Það er ekki hægt að einangra okkur þannig og segja að við verðum algjörlega sjálfbjarga. Það er ekki hægt að tala þannig. Það er enginn heldur að tala um að ekki eigi að styðja við landbúnaðinn. Meira að segja hið ógurlega ESB veit að Ísland þarf á sérlausnum að halda í þeim samningaviðræðum sem standa nú vonandi yfir.

Það sem ég vil líka [Hlátur í þingsal.] segja um þetta er að hæstv. ráðherra rökstuddi fáránlegar breytingar sínar á tollkvótum með því að vísa í störfin. Já, það er rétt, það þarf að passa upp á störfin í landbúnaði en er þetta þá algild stefna hjá ríkisstjórninni og þeim þingmönnum, m.a. Framsóknarflokksins, varðandi allar atvinnugreinar? Eða gildir þetta bara um landbúnaðinn? Ég spyr: Á til dæmis hæstv. menntamálaráðherra að setja reglugerð um það að banna allar erlendar kvikmyndir nema þær verði talsettar? Það er atvinnuleysi núna meðal leikara. Hvers konar vitleysa er þetta? (Gripið fram í: Ómálefnalegt.)

Við þurfum að horfast í augu við það að við erum með hátt verð á búvörum hér. Samkeppni hefur ekki aukist. Fjölbreytni hefur ekki aukist út af þeim fáránlegu breytingum sem hæstv. landbúnaðarráðherra hefur beitt sér fyrir. Það þarf að skoða kerfið. Verum ekki feimin við að horfast í augu við það. Hagsmunir neytenda, hagsmunir bænda og hagsmunir samfélagsins alls fara saman í því að endurskoða kerfið með það í huga að auka fjölbreytni og samkeppni.



[15:35]
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég verð eiginlega að hryggja hv. þingmann með því að segja að hann fer með eintómar rangfærslur. Hv. þingmaður ætti að gera sér grein fyrir því. Matvælaverð hér, sérstaklega á matvælum sem framleidd eru hér á landi, er með því lægsta sem gerist í heiminum með tilsvarandi vörur, a.m.k. í Norður-Evrópu. Verð á þessum vörum hefur hækkað minna en á öðrum matvörum. (Gripið fram í.) Úrval hér í kjötborðum og mjólkurvörur er síst minna en í öðrum löndum. Fer hv. þingmaður ekki út í búð? (Gripið fram í.)

Af því að hv. þingmaður (Gripið fram í.) er greinilega mikill aðdáandi Evrópusambandsins (Gripið fram í: Svaraðu spurningunum.) eru vörur sem við flytjum inn frá Bandaríkjunum með mun lægri tolla þegar þær koma hingað en til Evrópusambandsins. Tökum sykurinn — þó að hann sé óhollur. (Gripið fram í.) Fólk verður að halda sig við rétt mál.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um viðbrögð mín við því áliti umboðsmanns Alþingis hvort heimild sé til þess að víkja frá hámarkstollum og breyta þeim eins og hefur verið gert samkvæmt lögum, líklega frá 2005, er það mál í skoðun. Skipaður hefur verið starfshópur viðkomandi ráðuneyta, míns ráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, og reyndar á forsætisráðuneytið þar líka aðild að, þannig að farið verður í gegnum þau mál.

Einhver minntist hér á gúrkur og tómata, það er alveg hárrétt að framleiðsla á þeim hefur aukist en það var fyrst og fremst fyrir það að menn tóku upp raflýsinguna með miklu markvissari hætti en áður. Það var mjög gott.

Já, fæðuöryggi þjóðar er hluti af sjálfstæði hennar. Vissulega erum við háð erlendum aðföngum í þeim efnum en rúmlega 50% af orkuneyslu landsmanna eru innlend framleiðsla. Hún er að vísu sérhæfð, en þeim mun mikilvægara er að standa vörð um hana og þar með um fæðuöryggið. Eins og við vitum er greiðsluafkoma landsins ekki slík að við getum sett íslenska landbúnaðarframleiðslu og matvælaframleiðslu í hættu bara til að opna fyrir takmarkalausan innflutning. (Forseti hringir.)