140. löggjafarþing — 53. fundur
 2. feb. 2012.
niðurstöður ráðherranefndar um atvinnumál.

[10:46]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í aðdraganda kjarasamninga á síðasta ári setti ríkisstjórnin á fót ráðherranefnd í atvinnumálum. Hún átti að fjalla um atvinnu- og vinnumarkaðsmál, en eins og stóð í fréttatilkynningu var gert ráð fyrir að forsætisráðherra og fjármálaráðherra ættu fast sæti í nefndinni.

Jafnframt voru aðrir ráðherrar tilnefndir þarna inn. Settir voru á laggirnar tveir undirvinnuhópar, annar átti að fjalla um mótun atvinnustefnu og sköpun starfa. Þetta var 7. janúar. Tveimur dögum seinna sagði hæstv. forsætisráðherra að það væri afar mikilvægt að okkur tækist að skapa ný og varanleg störf á Íslandi árið 2011.

Allir þekkja hvernig því hefur reitt af, að skapa þessi varanlegu störf. Atvinnuþátttaka á Íslandi hefur aldrei verið minni en á síðasta ári og um þessar mundir og forsendur kjarasamninga brustu. Ég hlýt þá að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvar eru niðurstöður þessarar vinnu? Hvar eru tillögurnar sem komu út úr þessu starfi? Mér þætti vænt um að fá frekari upplýsingar um það því að einu haldbæru tillöguna um fjölgun starfa eða sköpun nýrra starfa sem kom frá ríkisstjórninni á árinu 2011 mátti sjá í fjárlagafrumvarpinu þar sem gert var ráð fyrir fjölgun aðstoðarmanna ríkisstjórnarinnar um að minnsta kosti þrjá. (Gripið fram í.)

Mér þætti vænt um að heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvort nefndarstarfinu sé lokið. Hvar eru tillögurnar? Hvenær megum við eiga von á því að fá þær í hendur?



[10:48]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Það mætti stundum halda að hv. stjórnarandstæðingar fylgdust ekki með því sem er að gerast í samfélaginu. (Gripið fram í: Mjög vel.) Hv. þingmaður segir að það eina sem hafi gerst hér á undanförnum tveimur eða þremur árum í atvinnumálum sé fjölgun aðstoðarmanna. (Gripið fram í.) Hvers lags bull er þetta? [Kliður í þingsal.] Atvinnumálanefndin sem hv. þingmaður nefnir, ráðherranefndin, (Gripið fram í.) hefur starfað síðustu tvö, þrjú árin, nefndarmenn hittast reglulega og fara yfir málin. Síðast hittumst við fyrir örfáum dögum og þá fórum við yfir helstu framkvæmdir hjá opinberum og hálfopinberum aðilum, við fórum yfir það sem fram undan er þar á árunum 2012–2015. Þar eru framkvæmdir upp á 100 milljarða kr. og á næstu árum, 2012–2013, eru það um 50 milljarðar kr.

Við fórum líka yfir allar helstu framkvæmdir sem eru í pípunum hjá hinu opinbera, ýmis fjárfestingarverkefni sem þar eru í gangi. Þar hefur verið gengið frá fjórum fjárfestingarverkefnum. Mikil uppbygging er í augsýn og í undirbúningi fyrir norðan, (Gripið fram í.) í kjördæmi hv. þingmanns, og það eru um 20 fjárfestingarsamningar í undirbúningi eða í gangi. Þar reiknast mönnum til að gangi það allt eftir sé um að ræða um 200 milljarða kr. á næstu missirum og árum og um 1745 ársverk. Það er niðurstaðan af síðasta fundi ráðherranefndar í atvinnumálum, sem hv. þingmaður gerir lítið úr. (Gripið fram í.)

Það er ekki langt síðan fram kom hjá Seðlabankanum að á síðustu 12 mánuðunum hafi störfum fjölgað um 5 þús. Mér finnst að hv. þingmaður eigi ekki að gera lítið úr því. (Forseti hringir.) Þá eru ótalin öll þau verkefni sem við höfum farið í fyrir fólk sem er á atvinnuleysisskrá, sem við höfum komið í nám eða vinnu, það skiptir einhverjum þúsundum. Í guðanna bænum, talaðu nú ekki (Forseti hringir.) eins og þú hafir verið staddur einhvers staðar annars staðar (Forseti hringir.) en á Íslandi síðustu þrjú árin.



[10:50]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti minnir hv. þingmenn og hæstv. ráðherra á að beina máli sínu til forseta þegar rætt er úr ræðustól Alþingis.



[10:51]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég var ekki að spyrja um það sem gerst hefur síðustu tvö, þrjú árin. Spurningin var einföld, ég spurði út í nefndarstarf og starf undirhóps um mótun atvinnustefnu og sköpun starfa sem ekki hefur starfað nema í 13 mánuði. Það virðist vera ofverk hæstv. forsætisráðherra að gera grein fyrir störfum og tillögum þessa hóps, hæstv. forsætisráðherra hrærir hér inn einhverjum fullyrðingum langt aftur í tímann sem hún virðist hafa mikla þörf fyrir að ræða. Ég ætla bara að minna hæstv. forsætisráðherra á að stóryrðaglamur er ekki forusta. Ríkisstjórn á að veita landinu forustu með málefnalegri umræðu og svara þeim fyrirspurnum sem til hennar er beint. Í ræðu minni áðan sagði ég að eina tillagan sem borin hafi verið hér á borð væri í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Það er ástæðulaust að detta í (Forseti hringir.) slíkt skens sem hæstv. forsætisráðherra gerir hér. Hæstv. forsætisráðherra á að vanda sig við að gera þinginu grein fyrir störfum þeirrar ríkisstjórnar sem kjörin hefur verið og situr á ábyrgð meiri hluta hér. (Forseti hringir.) Spurningin er einföld: Hverjar eru tillögur þessa undirhóps hæstv. forsætisráðherra sem skipaður var fyrir ári?

(Forseti (ÁRJ): Enn hvetur forseti þingmenn til að virða tímamörk.)



[10:52]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig gera eins skýrt og skilmerkilega grein fyrir stöðunni í vinnu á vegum ríkisstjórnarinnar að því er varðar atvinnumálin og ég best get. (KÞJ: Undirhópsins?) Er hv. þingmaður að tala um hópinn sem átti að fylgjast með framkvæmdinni í kjarasamningnum og eftirfylgnina í því? (KÞJ: Mótun atvinnustefnu og sköpun starfa.) Já, ég var að gera grein fyrir því. (KÞJ: Nei.) Ég var að gera grein fyrir því (KÞJ: Nei.) hverju þessi nefnd hefur skilað af sér og hvernig við höfum farið yfir þessi mál (Gripið fram í.) í ráðherranefnd um atvinnumál. Síðan hefur verið … (KÞJ: … tillögur?) Ég var að fara yfir þær með hv. þingmanni hér áðan.

(Forseti (ÁRJ): Ekki samtal við þingmann úti í sal.)

Bæði að því er varðar opinberar framkvæmdir og á einkamarkaðnum. Síðan er ákveðin eftirlitsnefnd sem í eiga sæti fulltrúar ríkisstjórnarinnar og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins sem hafa eftirlit með og fylgja eftir því sem er í kjarasamningunum, meðal annars að því er varðar atvinnumálin. Ég tel mig, virðulegi forseti, hafa gert eins skilmerkilega grein fyrir þessu (Forseti hringir.) og mér frekast er auðið.