140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

niðurstöður ráðherranefndar um atvinnumál.

[10:46]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Í aðdraganda kjarasamninga á síðasta ári setti ríkisstjórnin á fót ráðherranefnd í atvinnumálum. Hún átti að fjalla um atvinnu- og vinnumarkaðsmál, en eins og stóð í fréttatilkynningu var gert ráð fyrir að forsætisráðherra og fjármálaráðherra ættu fast sæti í nefndinni.

Jafnframt voru aðrir ráðherrar tilnefndir þarna inn. Settir voru á laggirnar tveir undirvinnuhópar, annar átti að fjalla um mótun atvinnustefnu og sköpun starfa. Þetta var 7. janúar. Tveimur dögum seinna sagði hæstv. forsætisráðherra að það væri afar mikilvægt að okkur tækist að skapa ný og varanleg störf á Íslandi árið 2011.

Allir þekkja hvernig því hefur reitt af, að skapa þessi varanlegu störf. Atvinnuþátttaka á Íslandi hefur aldrei verið minni en á síðasta ári og um þessar mundir og forsendur kjarasamninga brustu. Ég hlýt þá að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvar eru niðurstöður þessarar vinnu? Hvar eru tillögurnar sem komu út úr þessu starfi? Mér þætti vænt um að fá frekari upplýsingar um það því að einu haldbæru tillöguna um fjölgun starfa eða sköpun nýrra starfa sem kom frá ríkisstjórninni á árinu 2011 mátti sjá í fjárlagafrumvarpinu þar sem gert var ráð fyrir fjölgun aðstoðarmanna ríkisstjórnarinnar um að minnsta kosti þrjá. (Gripið fram í.)

Mér þætti vænt um að heyra frá hæstv. forsætisráðherra hvort nefndarstarfinu sé lokið. Hvar eru tillögurnar? Hvenær megum við eiga von á því að fá þær í hendur?