141. löggjafarþing — 68. fundur.
sveitarstjórnarlög, 1. umræða.
stjfrv., 449. mál (rafrænar íbúakosningar og rafrænar kjörskrár). — Þskj. 563.

[15:37]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, með síðari breytingum. Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra geti heimilað sveitarfélögum, að beiðni þeirra, að íbúakosning samkvæmt X. kafla sveitarstjórnarlaga fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn.

Verði frumvarpið að lögum munu sveitarstjórnir hafa um það val hvort íbúakosningar á grundvelli laganna fari fram á hefðbundinn hátt eða eingöngu með rafrænum hætti. Markmið frumvarpsins er tvíþætt, þ.e. annars vegar að efla rafrænt lýðræði og hins vegar að auka lýðræðisþátttöku íbúa. Með frumvarpinu er m.a. komið til móts við tillögu nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins um aukna möguleika á rafrænni framkvæmd í íbúakosningum og stuðning við þróun rafræns lýðræðis í sveitarfélögum, en með aukinni tækni hefur krafan um rafrænar kosningar orðið sífellt háværari í samfélaginu. Með þeim væri hægt að ná fram sparnaði og hagræðingu bæði fyrir hið opinbera sem og kjósendur, og erum við þar að tala um hagræðinguna og kjósendur sem skattgreiðendur.

Í X. kafla sveitarstjórnarlaga, sem ber heitið Samráð við íbúa, eru settar eru fram leiðbeinandi reglur um samráð en sveitarstjórnum eftirlátið að meta hvaða leiðir þær vilja fara til þess að virkja þátttöku íbúanna varðandi samráð.

Verði frumvarpið að lögum er sveitarstjórnum skapað svigrúm til þess að meta hvaða leið þeir telja besta til að virkja samráð sitt við íbúa, þ.e. hvort þær vilja halda sig við þá hefðbundnu framkvæmd sem kveðið er á um í X. kafla sveitarstjórnarlaga eða nýta sér heimild frumvarpsins til að íbúakosningar fari eingöngu fram með rafrænum hætti.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðuneytið skuli í reglugerð mæla nánar fyrir um undirbúning, framkvæmd og fyrirkomulag rafrænna kosninga og gerð rafrænnar kjörskrár. Gert er ráð fyrir að í slíkri reglugerð sé m.a. fjallað um öryggi við framkvæmd sem tryggir leynd kosninga, gerð kosningakerfa, dulkóðun og framkvæmd öryggisúttektar. Jafnframt er gert ráð fyrir að í reglugerðinni sé mælt fyrir um hlutverk Þjóðskrár Íslands í innleiðingunni, þar á meðal um gerð og umsjón vefsvæðis, auðkenningu, uppflettingu í þjóðskrá og talningu. Þá er sveitarstjórn heimilt að beita ákvæðum reglugerðarinnar við framkvæmd rafrænna íbúakannana eftir því sem við á.

Um tímabundið þróunarverkefni er að ræða sem ætlað er að ná yfir rúmlega fimm ára tímabil, þ.e. frá 1. janúar 2013 til 31. maí 2018. Sveitarstjórnarkosningar fara fram vorið 2014 og mun verkefnið því taka til að minnsta kosti eins heils kjörtímabils. Ráðgert er að á þeim tíma verði byggð upp þekking opinberra aðila á rafrænu lýðræði í sveitarfélögum sem unnt er að nýta til frekari þróunar rafræns samráðs og lýðræðis bæði við stjórnun og ákvarðanatöku í sveitarfélögum sem og á landsvísu. Þá mun verkefnið jafnframt efla traust almennings á rafrænu lýðræði og vera skref í þá átt að greiða fyrir innleiðingu þess hér á landi.

Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. janúar 2013 en ljóst er að rafrænar íbúakosningar munu ekki geta hafist fyrr en reglugerð þar að lútandi hefur verið samin og fundin lausn á tæknilegum framkvæmdaatriðum. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að ráðherra skipi þegar ráðgjafarnefnd sem muni vinna að innleiðingu og undirbúningi verkefnisins og leita eftir sveitarfélögum til að taka þátt í því þróunarverkefni á sviði rafræns lýðræðis í sveitarfélögum sem í frumvarpinu felst.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins. Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til umhverfis- og samgöngunefndar.



[15:41]
Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna og fagna því að málið sé lagt fram. Ég held að þetta sé afar mikilvæg tilraun og byrjun á því að nota rafrænt lýðræði og rafrænar kosningar í meira mæli en er nú þegar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort í þessu skrefi sé fyrst og fremst hugsað um rafræna kosningu á kjörstað eða hvort hugsað sé um rafræna kosningu með þeim hætti að menn gætu t.d. með rafrænum skilríkjum greitt atkvæði á öðrum stöðum en kjörstað, til að mynda við sínar eigin tölvur eða á einhverjum tilteknum öðrum opinberum stöðum sem væntanlega þá yrði ákveðið í reglugerð eða öðrum umbúnaði um málið.



[15:42]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Markmiðið er að kosning geti farið fram með þeim hætti sem hv. þingmaður nefnir, að menn geti kosið við tölvur sínar. Hins vegar er þetta þróunarverkefni og við erum að leggja drög að undirbúningi að reglugerð um framkvæmd þessarar kosningar. Hér er sem sagt um tilraunaverkefni að ræða sem við eigum eftir að þróa.



[15:43]
Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna því að hér er komið fram frumvarp varðandi rafrænar kosningar og rafrænar kjörskrár. Þetta er mál sem lengi hefur verið í umræðu og á döfinni og óhætt er að segja að ákveðið hik hefur verið á stjórnvöldum að fara fram með þetta mál. Ótti við að kerfið og skipulagið sem slík kosning byggi á sé ekki og hafi ekki verið á nægjanlega traustum fótum til þess að fara fram með jafnáhrifamikla breytingu og felur í sér að fara úr því hefðbundna formi sem við höfum haft í kjörskrám yfir í rafræn kjör.

Það er hins vegar mjög eðlilegt að þetta verkefni sé unnið í nánu og góðu samstarfi við sveitarfélögin vegna þess að þau hafa víða verið að þróa mál í þessar áttir. Við höfum reynslu af því að menn hafa nýtt rafrænar kosningar og rafrænar kjörskrár þar sem íbúakosningar hafa farið fram. Við höfum líka reynslu af því að einstakir stjórnmálaflokkar, til að mynda Samfylkingin, hafa nýtt sér þetta fyrirkomulag mjög, bæði í prófkjörum og í formannskosningu sem nú stendur yfir hjá flokknum.

Reynslan er auðvitað til staðar. Hún hefur í flestum og öllum tilvikum sýnt að þetta hefur gengið vel fyrir sig. Ég minnist þess að stærsta kosning í þessa veru, með þátttöku upp á yfir 90% íbúa, átti sér stað árið 2007 í Hafnarfirði þegar íbúar þar fengu að kjósa um skipulagsmál varðandi fyrirhugaða mögulega stækkun álversins í Straumsvík. Það er alveg ljóst að kostirnir sem felast í því að hafa rafræna kosningu og rafræna kjörskrá eru mjög margir. Það er ekki bara hagræðing og sparnaður, heldur er einfaldari aðkoma og leið fyrir íbúa til þess að kjósa. Það er alveg klárt mál að ef þessi mál fá að þróast í góðri sátt til næstu framtíðar mun það frekar ýta undir heldur en hitt að sveitarfélög nýti sér tækifæri til að fara fram með íbúakosningar um ýmis þau álitamál sem koma upp út af skipulagi, umhverfi og öðrum stærri framkvæmdamálum heima í héraði. Ekki þarf að setja fyrir sig kostnað eða fyrirhöfn eða aðra slíka þætti sem hafa jafnvel talið kjark úr mönnum í því að fara fram með þessa hluti.

Annað atriði finnst mér líka skipta máli í þessu. Á þeim tíma sem hér er horft til sem tilraunatíma, 2013–2018, þ.e. inn á nýtt kjörtímabil sveitarstjórna, er innanríkisráðuneytið og hæstv. ráðherra innanríkismála að kynna fyrir þinginu áhugaverðar og athyglisverðar tillögur sem lúta að persónukjöri. Við fáum vonandi tækifæri til þess að hafa umræðu um það hér í þinginu og umfjöllun í þingnefndum. Þar er verið að stíga mjög stór og áhugaverð skref sem í mínum huga haldast mjög í hendur við þetta fyrirkomulag. Það er grundvöllur og forsendur fyrir því að útfæra það með þessu rafræna formi. Í þeim tillögum sem ég vil gera að umtalsefni er auðvitað gengið út frá því að kjörseðlar og kosningafyrirkomulag sé með allt öðrum hætti en við þekkjum í dag. Tækifæri til að merkja við lista sem menn kjósa og jafnvel aðra lista líka, kjósa fulltrúa af sínum lista og öðrum listum persónukjöri. Í þeirri venjubundnu framkvæmd sem við þekkjum í kosningum og talningu væri um mjög flókið, viðamikið og tímafrekt verkefni að ræða, að ætla að vinna það allt í höndum.

Með því að vera með samhliða tengingu á því að fara fram með rafræna kjörskrár og kosningar og þær útfærslur og hugmyndir sem eru núna uppi á borðum um persónukjör, sem við fáum vonandi að ræða nánar á næstunni, mun það auðvelda mjög og ýta frekar undir það heldur en hitt að menn séu tilbúnir að fara fram með þær áhugaverðu leiðir sem ég tel að sé orðið löngu tímabært að við þróum. Það er fagnaðarefni að ráðuneytið sé tilbúið og hafi unnið góða heimavinnu í þessum efnum, bæði hvað snýr að þessum rafræna þætti og þeim persónukjörsútfærslum sem hafa verið lagðar fram sem þingskjöl í dag.

Ég vil ítreka enn og aftur að það er fagnaðarefni að þessar tillögur og þessi frumvörp eru komin hér fram og að við fáum tækifæri til þess að fara yfir þetta. Ég vænti þess að menn fái umræðu, umsagnir og samstöðu um þetta mál þannig að hægt verði að afgreiða það annaðhvort núna á vorþingi eða ekki seinna en í byrjun komandi hausts, þannig að menn hafi þann tíma og svigrúm sem þarf til að hrinda þessum málum í framkvæmd.



[15:49]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði raunar að koma í andsvar við hæstv. innanríkisráðherra en ég er svolítill grænjaxl í þessum skeytasendingum þannig að mér mistókst eitthvað. Ég beini orðum til hv. þm. Lúðvíks Geirssonar í staðinn.

Rafrænar kosningar eru ekki einungis framtíðin, þær eru nútíminn. Við sjáum að í þessari viku á sér stað stór rafræn kosning um formannskjör í Samfylkingunni. Það er mjög mikilvægt að þróa og greiða fyrir farvegi þessara mála. Við munum með þessum hætti stórauka aðkomu og áhuga íbúa á þátttöku í sínu samfélagi og ekki síst gerum við ýmsum hópum, öldruðum og hreyfihömluðum, býsna mikið auðveldara að tjá sig og skipta sér af málefnum.

Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu hérna á Íslandi. 95% Íslendinga hafa aðgang að neti og geta greitt atkvæði gegnum símana sína. Sem sveitarstjórnarmaður fagna ég þessu. Hins vegar velti ég fyrir mér hvort við stígum nógu stórt skref. Ég þekki nú illa mitt heimafólk ef það verður fljótt að hringja í innanríkisráðherra og sækja um heimild til þess að fá leyfi til að breyta um vinnuaðferðir. Hefðum við ekki bara átt að ýta mönnum út í þetta óbeðnum? Ég spyr fyrrverandi bæjarstjórann að því.



[15:50]
Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég get alveg tekið undir með honum í þeim vangaveltum hvort við séum að stíga nógu stór skref. Hvort menn eigi að sætta sig við að þetta sé sett fram sem tilraunaverkefni eða hvort menn hefðu ekki bara átt að setja þetta fram með fullum þunga og stíga skrefið alla leið. Ég hefði gjarnan viljað sjá það þannig, en ég held að meira máli skipti að við fáum tækifæri til að láta á það reyna í alvöru til þess að reynslan sýni okkur og þeim sem hafa haft efasemdir í málinu að það er ekkert að óttast, miðað við að rík fyrirstaða hefur verið í þessum málum fram til þessa.

Það hjálpar mjög til að þau sveitarfélög mörg hver sem hafa verið framsækin í þessum efnum vítt og breitt um landið hafa viljað fara fram með þetta verkefni. Þau hafa gert það sem þau hafa haft tækifæri til inni á heimaslóðum og viljað útfæra málið í almennum kosningum líka, vegna þess að drjúgur kostnaðarþáttur og útgjöld eru fyrir sveitarfélög að standa fyrir kosningum samhliða því að það er verið að sækja á með auknar kröfur um þátttöku íbúa í ákvarðanatöku og ýmsum hlutum. Það er auðvitað allt af hinu jákvæða, að sá vilji að setja málið í þennan farveg endurspeglist og komi fram af hálfu hins opinbera, ráðuneytisins og stjórnvalda. Það að menn séu tilbúnir að fara samstiga inn í þetta verkefni þó skrefið sé ekki nema eitt og til ákveðins tíma leiðir til þess að ég er sannfærður um að niðurstaðan verður sú að menn munu halda þessu verkefni áfram.



[15:52]
Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég er auðvitað sammála að betra er að stíga lítil skref en engin. Ég ætla ekki að virka neitt ósanngjarn í því og fagna þessu auðvitað, en ég þekki það bara af sjálfum mér að það er ótrúlega margt sem hefur orðið mér til auðnu sem ég hefði aldrei gert ef mér hefði ekki verið ýtt út í það. Ég jafnvel hræddur um að lítil og dreifð sveitarfélög, þar sem þetta er ekki hvað síst hagsmunamál út frá aðgengi kjósenda að kjörborði, komi kannski hugsanlega til að veigra sér við að stíga þetta skref. Þá er það bara að hvetja þau til þess. En ég fagna þessu auðvitað.



[15:53]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Því ég sit nú í ríkisstjórn með hæstv. innanríkisráðherra get ég vitnað um það að mér gefast oft tækifæri til þess að dást að framtaki hans. Ég kem hingað til þess að hrósa honum fyrir þetta þingmál sem hér liggur fyrir og hefur almennt hlotið góðan hljómgrunn meðal þeirra hv. þingmanna sem hafa tekið þátt í umræðunni. Ég tel mikið framfaraspor sé stigið þarna. Ég tek að vísu undir með hv. þingmönnum sem hér hafa talað í þá veru að það hefði ekki verið síðra ef mönnum hefði verið hrundið út í djúpu laugina og þetta hefði verið gert að lögum. Hugsanlega með valkvæðum ákvæðum fyrir sveitarfélög, en að allir ættu kost á þessu.

Ég vil rifja upp að hér fyrr á árum var Samfylkingin í fararbroddi þeirra sem vildu taka upp íbúalýðræði. Ég ásamt hv. þáverandi þingmanni Margréti Frímannsdóttur lögðum fram frumvörp og þingsályktunartillögur um íbúalýðræði, íbúakosningar og íbúaþing, sem eru aðferðir sem síðan hafa verið nýttar töluvert vel af mörgum og í vaxandi mæli. Ég var sömuleiðis einn af þeim sem flutti hér ár eftir ár þingsályktunartillögur um milliliðalaust lýðræði sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hafði frumkvæði að. Þá var akkúrat verið að benda á þá möguleika sem framþróun í fjarskiptum opnaði til þess að hægt væri að taka upp þróaðra og virkara lýðræði með því að kjósa um mál sem væru í umræðu eða umdeild. Ekki bara á grundvelli sveitarfélaga, heldur líka til þess að útkljá erfið deilumál í samfélaginu.

Þess vegna segi ég að hæstv. ráðherra er með sínu ágæta framtaki í reynd að vinna upp sleifarlag síðari ára. Við töluðum um þetta árum saman, lögðum fram tillögur um fjárveitingar til að fara í þróun á búnaði til þess að geta tekið upp rafrænt lýðræði. Sömuleiðis voru menn með tillögur og hugmyndir um að fara í ýmiss konar tilraunir á því sviði. Þess vegna ber að fagna þessu.

Það má rifja það upp að kerfi af þessu tagi hefur verið við lýði í sumum stórum héruðum í löndum Evrópu eins og Bretlandi og sums staðar í Frakklandi. Ég held að Þjóðverjar séu líka að fikra sig í áttina að þessari tækni. Hvarvetna hefur það gengið mjög vel. Reynslan af þessu er mjög góð.

Ég er þeirrar skoðunar að við séum núna að fara inn í skeið þar sem líklegt er að þjóðin muni fá tækifæri til þess að útkljá erfiðar deilur með þjóðaratkvæðagreiðslu í mun ríkari mæli en áður. Við erum að fara inn í mikla umræðu í þinginu um stjórnarskrá. Sýnist nú sitt hverjum um þá ágætu skrá, en þó virðist vera meðal þeirra atriða sem allir eru sammála um að gera eigi þjóðinni kleift að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu með bærilegri hætti heldur en verið hefur og sömuleiðis að láta til hennar kasta koma margvísleg erfið úrlausnarefni.

Því auðveldara sem hægt er að koma því við með nýrri tækni, því mun tíðara og kostnaðarminna er líklegt að slíkar þjóðaratkvæðagreiðslur verði. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að þau orð sem hæstv. ráðherra ritaði í þingmálið og talaði í framsögu sinni áðan séu í tíma töluð. Ég tel að þetta sé kall tímans og hann sé í reynd boðberi nýrra vinnubragða. Ég tel að þetta frumvarp ryðji brautina að því sem koma skal, sem er rafrænt lýðræði þar sem þjóðin á þess kost að taka þátt í að útkljá margvísleg deiluefni sem velkjast hér á fjörum okkar alþingismanna án þess að við höfum getað leyst úr þeim.

Ég nefni sem dæmi að ekkert er að því að taka fyrir mál sem hafa verið heiftarlegar deilur um áratugum saman eins og t.d. stjórnkerfi fiskveiða. Það er hægt að útkljá þau með þessum hætti. Það getur vel verið að menn séu hræddir við að þjóðarviljinn komi fram og við að svo auðvelt sé að ná honum fram, en ég held að það sé lýðræðislegt og ég held að það sé þarft.

Frú forseti, þegar menn eru að ræða þetta finnst mér líka rétt að geta þeirra sem ruddu þessa braut. Ég tel að enginn maður hafi opnað augu samfélagsins fyrir þessu eins og einn af fyrrverandi kollegum mínum úr ritstjórastétt, Styrmir Gunnarsson þáverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sem lét árið 1987 að ég held gefa út sérstakt aukablað um möguleika milliliðalauss lýðræðis. Þar sá hann fyrir, fyrstur af þeim sem tóku til máls um það hér af einhverjum krafti innan lands, þá möguleika sem felast akkúrat í fjarskiptabyltingunni.

Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta framtak hans og tek undir með þeim sem hér hafa tekið þátt í umræðunni. Hugsanlega hefði hann mátt stíga stærra skref, en ég get auðvitað kennt sjálfum mér um að hafa ekki hrundið honum til þess þegar við ræddum þetta í ríkisstjórninni.



[15:59]
innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framlag hans til umræðunnar og hans jákvæðu viðbrögð. Ég er sammála honum um að við erum að svara hér kalli tímans. Það er tímabært að þetta komi fram.

Ég vil einnig þakka hv. þingmönnum Ólafi Þór Gunnarssyni, Lúðvík Geirssyni og Loga Má Einarssyni fyrir framlag þeirra til þessarar umræðu og jákvæð viðbrögð. Ég legg áherslu á að við munum að vinna þetta í mjög nánu samstarfi við sveitarfélögin og Samband íslenskra sveitarfélaga, enda er málið sprottið upp úr þeim sameiginlega jarðvegi. Það var ein af þeim tillögum sem fram komu í sameiginlegri nefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins undir formennsku Þorleifs Gunnlaugssonar. Þar var þetta ein áherslan sem þessir aðilar lögðu til sameiginlega og sameiginlega erum við að leggja úr vör með þetta. Við hefðum aldrei hreyft okkur án þess að það væri gert í mjög nánu samráði við sveitarfélögin og samtök sveitarfélaganna.

Ég er sammála þeim áherslum sem hér komu fram að þetta er það fyrirkomulag sem mun ryðja sér til rúms mjög hratt á komandi árum. Það var vísað í kosningar innan stjórnmálaflokka. Hér erum við að taka á íbúakosningum. Síðan munum við færa okkur upp á skaftið, þá verða sveitarstjórnarkosningar og síðan verða kosningar á landsvísu. Það er gott að framkvæma þetta sem tilraunaverkefni þannig að við lærum á kerfið, þær ögranir sem þar eru og líka þær hættur sem eru í þessu fólgnar.

Ég er hjartanlega sammála því sem fram hefur komið hjá öllum sem hafa tekið til máls í umræðunni. Þetta mun verða til hagræðis og hagsbóta fyrir kjósendur, fyrir samfélagið, fyrir skattgreiðendur og fyrir lýðræðið.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til um.- og samgn.