141. löggjafarþing — 84. fundur.
bókhald, 3. umræða.
stjfrv., 93. mál (texti bókhaldsbóka og ársreikninga, skoðunarmenn, endurskoðendur, EES-reglur). — Þskj. 932, nál. 1011, brtt. 1012.

[17:12]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er á ferðinni tiltölulega tæknilegt mál sem þegar var gerð grein fyrir við 2. umr. málsins og ég vísa til nefndarálits á þskj. 1011. Nefndin mælir með því að málið verði samþykkt með þeim breytingum sem fram eru lagðar við það.



[17:13]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér við 3. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókhald, með síðari breytingum. Það sem kannski liggur fyrst fyrir er hvort menn vilji leyfa önnur tungumál í bókhaldi og reikningum en nú er leyft. Nú er leyft að hafa sama tungumál á reikningunum og fylgir þeirri mynt sem valin er, þ.e. ef valinn er dollar er enska, ef valin er evra getur maður valið dönsku eða eitthvað annað.

Vegna málverndarsjónarmiða hafa komið athugasemdir um að ekki sé rétt að heimila að bókhaldið sé á erlendu tungumáli. Breytingartillaga um að alltaf skyldi nota íslensku í bókhaldi var felld. Síðan var rætt nokkuð mikið í nefndinni um heimild til að varðveita gögn allt að sex ár og flytja til útlanda.

Meiri hlutinn gerir þá tillögu varðandi tungumálið að ekki sé rétt að gera athugasemd við 5. gr. frumvarpsins, um að nota megi dönsku eða ensku. Mér skilst reyndar að danska sé mjög lítið notuð í framsetningu bókhalds, það sé aðallega enska, þannig að kannski hefði verið einfaldara að taka bara það fram.

Síðan var rætt nokkuð mikið um gagnsæi eignarhalds. Nefndin samþykkti við 2. umr. að listi yfir alla hluthafa í nafnaröð ætti að fylgja ársreikningi. Það er að mínu mati ekki góð lausn vegna þess að nafnaröð segir voðalega lítið. Jón Jónsson getur komið fyrir tíu sinnum og enginn veit hver það er en síðan kemur kannski sjaldgæft nafn einu sinni og þá vita allir um hvern er að ræða. Spurningin um persónuvernd kemur þar inn í líka.

Meiri hlutinn breytir fyrri hugmynd um að hafa nöfnin ein saman og kemur fram með skilyrði um bæði nöfn og kennitölur. Það er strax til bóta, þ.e. ef menn vilja upplýsa um alla hluthafa alls staðar.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar leggur fram svohljóðandi breytingartillögu við frumvarp til laga um ársreikninga, með leyfi frú forseta:

„Þá skal fylgja með skýrslu stjórnar skrá yfir nöfn og kennitölur allra hluthafa í stafrófsröð ásamt upplýsingum um hlutafjáreign hvers þeirra og hundraðshluta hlutafjár í árslok. Ársreikningaskrá skal gera félögum kleift, við rafræn skil á ársreikningum, að nota áður innsendar upplýsingar til ríkisskattstjóra um hluthafa í félaginu til að útbúa þann lista.“

Í byrjun eða um miðjan febrúar þurfa menn að senda inn hlutafjármiða, hann er á rafrænu formi og þar með hefur ársreikningaskrá slíkan lista. Menn geta notað þann lista til að birta þennan hluthafalista með ársreikningum.

Það sem ekki hefur verið rætt nægilega er hvaða upplýsingar menn gefa þarna um einstaklinga sem hugsanlega kæra sig ekkert um að ættingjar og sérstaklega vinir viti að þeir eigi hlutafé í einhverju fyrirtæki sem hugsanlega mætti veðsetja til að losa fé. Mér finnst þetta skipta svipuðu máli og með innstæður, það á ekki að birta upplýsingar um kennitölur innstæðueigenda og hvað þeir eiga í banka. Hins vegar finnst mér skipta verulegu máli að fyrir liggi upplýsingar um kennitölur hlutafélaga sem eiga í hlutafélagi og allra aðila sem eru með takmarkaða ábyrgð. Það byggi ég á því sem ég hef margoft rætt, að fyrir hrun stunduðu menn mikið að fara með fjármagn í hringi og juku þannig eigið fé hlutafélaga í stórum stíl. Mér finnst að einhver þurfi að geta haft eftirlit með því að það sé ekki gert og hefði viljað að Fjármálaeftirlitið fylgdist með því að ekki væri verið að misnota þessa hringferla, hlutafélagaformið, til að sýna fram á aukningu eigin fjár í hlutafélögum.

Þetta var sem sagt nefnt ansi mikið en í dag er enginn sem fylgist með þessu í grunninn. Það er ekki þannig að einhver fylgist með því að svona hringferlar myndist ekki. Mér sýnist á niðurstöðum sérstaks saksóknara í þeim málum sem komu upp eftir hrun að þetta verði látið óátalið. Þetta brýtur ekki lög, enda vantar um þetta lög, frú forseti, og þess vegna finnst mér að einhvers staðar ætti að koma fram skýring um að þetta verði gert, þ.e. að einhver fylgist með þessu, t.d. Fjármálaeftirlitið. Svo þarf að banna einhvern veginn að slíkt gerist, en þá lendir maður strax í þeim vanda að þetta er alþjóðlegt vandamál og Íslendingur sem stofnar hlutafélag á Tortólu eða annars staðar getur notað það félag til þess að auka eigið fé í hlutafélagi á Íslandi.

Mér sýnist sem menn grípi dálítið í tómt með því að upplýsa um hluthafa hér á landi. Ef það stendur allt í einu eitthvert hlutafélag í Lúxemborg eða á Tortólu eru menn dálítið í lausu lofti með það hvað þeir ætla að gera við það. Við lendum alltaf í því að þetta er alþjóðlegur vandi og bundinn við hlutafélagaformið sem slíkt sem ekki gerir ráð fyrir því að hlutafélög eigi í öðrum hlutafélögum og jafnvel myndi hring sem geti aukið eigið fé fyrirtækjanna.

Það er mikill vilji til þess að reyna að átta sig á því hverjir eiga nýju bankana. Það tengist þessu þó að það séu sérlög um fjármálastofnanir sem er líka verið að ræða í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Það getur vel verið að mönnum takist að koma þar á upplýsingum um það hverjir eiga bankana, en það er erfiðara að finna út úr því hver hinn raunverulegi eigandi er, þ.e. hvaða persóna á í viðkomandi banka og alveg sérstaklega hver fer fyrir hönd kannski milljón hluthafa einhvers staðar úti í heimi sem kröfuhafi og verðandi eigandi íslensku bankanna. Meira að segja skipta þessar kröfur um hendur oft á dag. Það getur verið erfitt um vik að komast að því hver hinn raunverulegi eigandi er og hver stýrir bönkunum á endanum.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um það sem kom fram í nefndaráliti meiri hlutans sem ég gat ekki skrifað undir vegna þess að mér finnst að það sem menn eru að gera þarna með gagnsæi eignarhalds bara ekki ná markmiði sínu. Þá er spurningin hvort menn eiga að vera að þessu á annað borð.



[17:23]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 3. umr. frumvarp um bókhald. Það sýnir eiginlega nauðsyn þess að við höfum þrjár umræður í þinginu. Málið hefur batnað verulega í hv. efnahags- og viðskiptanefnd milli 2. og 3. umr. Við umræðu í nefndinni kom fram að í rauninni væri hægt að ná fram markmiði frumvarpsins um að krefjast þess að fyrirtæki leggi fram eigendalista án þess að íþyngja þeim sérstaklega með þeirri kröfu. Það væri hægt að gera það með því að gefa ríkisskattstjóra leyfi til að keyra saman rafræna ársreikninga fyrirtækja og upplýsingar sem fyrirtæki leggja fram á svokölluðum hlutabréfamiðum. Fyrirtæki þurfa að upplýsa um hluthafana og hversu stóran hlut þeir eiga í viðkomandi fyrirtæki. Það má segja að þær upplýsingar sem frumvarpið var hannað til að tryggja að kæmu fyrir almenningssjónir hafi legið í ýmsum gagnagrunnum hjá ríkinu en það vantaði bara lagaheimild til að ríkisskattstjóri gæti sett þessar upplýsingar saman í einn gagnagrunn og gert aðgengilegar þeim sem þess óska.

Ástæðan fyrir því að nauðsynlegt þykir að upplýsa um eignarhald fyrirtækja er sú að um er að ræða fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð. Slík fyrirtæki eru þannig uppbyggð að ef og þegar þau lenda í gjaldþroti falla skuldir umfram eignir á aðra aðila en þann sem stofnaði til þeirra, þ.e. viðskiptavini lögaðilans, birgja eða jafnvel skattgreiðendur. Það þykir þar af leiðandi nauðsynlegt að upplýsa fólk um eignarhald á fyrirtækjum til að það geti metið hvort það vilji eiga viðskipti við viðkomandi fyrirtæki sem viðskiptavinir eða birgjar.

Jafnframt er talað um að það sé nauðsynlegt fyrir fyrirtæki að þau viti ekki bara hvaða lögaðili eigi hlut í fyrirtækinu heldur hvaða einstaklingar standi á bak við eignarhlutinn. Núna er umræða í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um hvort ekki sé tímabært að skrifa nýja tilskipun sem skyldar fyrirtæki til þess að afla sér upplýsinga um raunverulega eigendur fyrirtækja. Það er þá til dæmis gert til að koma í veg fyrir óeðlileg tengsl eigenda fyrirtækja við samkeppnisaðila.

Krafan um gagnsætt eignarhald hefur líka komið fram vegna fjölgunar fyrirtækja með aðsetur á aflandseyjum, svokallaðra aflandsfyrirtækja. Þessi fyrirtæki eru fyrst og fremst sett upp til að sniðganga skattgreiðslur og skattalög. Staðan er orðin þannig í mörgum löndum að mörg stærstu fyrirtækin borga enga skatta til viðkomandi ríkis þó að þau hafi alla sína starfsemi í því ríki. Þetta er auðvitað óviðunandi, sérstaklega á tímum niðurskurðar eins og við búum við í dag.

Það er ekki nóg að upplýsa hverjir eru eigendur þegar um er að ræða lögaðila vegna þess að þá fáum við bara upplýsingar um það að 365 er að mestu leyti í eigu fyrirtækis eða lögaðila sem heitir Moon Capital. Það að Moon Capital eigi 43% í 365 segir okkur afskaplega lítið um eignarhaldið á 365. Þannig hefur komið fram krafa um að í lögum sé tryggt að fyrirtæki þurfi að gefa upp hverjir séu raunverulegir eigendur og að við slíka kröfu sé litið til laga um peningaþvætti en í þeim lögum eru lögaðilar sem eiga hlut í lögaðila skyldugir til að gefa upp hverjir eru raunverulegir eigendur, þ.e. einstaklingar, á bak við eignarhlut umfram 25%.

Eins og ég minntist fyrr á er verið að ræða það hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvort ekki ætti að skylda, ekki bara fjármálafyrirtæki, heldur líka fyrirtæki, til að vera með slíkar upplýsingar á hreinu, a.m.k. innan húss, og jafnvel hvort ekki sé nauðsynlegt að skylda fyrirtækin til að birta upplýsingar um raunverulega eigendur.

Sem viðbrögð við þessari umræðu og kröfu hef ég lagt fram breytingartillögu við frumvarp um ársreikninga þar sem þess er krafist að upplýst sé um raunverulega eigendur og þá í samræmi við lög um peningaþvætti. Það er ekki nóg að skila upplýsingum sem hluthafamiða um hvaða lögaðili á í fyrirtækinu og hversu stóran hlut, heldur þarf líka að segja hvaða einstaklingar eru á bak við hlutinn.

Þetta er auðvitað gert til að tryggja gagnsætt eignarhald. Að mínu mati er nauðsynlegt að taka þetta skref og við ættum að setja fordæmi í að upplýsa um eignarhald fyrirtækja vegna þess að fyrst og fremst vogunarsjóðir vilja leyna eignarhaldinu. Það voru vogunarsjóðir sem felldu Ísland. Það eru vogunarsjóðir sem eiga flestar kröfur á fallin fyrirtæki í landinu þannig að umsvif þeirra hér á landi eru mun víðtækari en til dæmis innan Evrópusambandsins. Með því að gera kröfu um að öll fyrirtæki, ekki bara fjármálafyrirtæki, upplýsi um raunverulega eigendur mun það væntanlega hafa fælingarmátt á slík fyrirtæki. Þessir vogunarsjóðir, sérstaklega hrægammasjóðir, vilja leyna eignarhaldinu vegna þess að starfsemin byggir á því að skjóta sér undan skattgreiðslum og alls konar upplýsingaskyldu með því að stofna eignarhaldsfélög sem eiga í eignarhaldsfélögum. Síðan er eignarhaldsfélagið sem á eignarhaldsfélag sem á í eignarhaldsfélagi með aðsetur á aflandseyju. Þetta gerir það að verkum að enginn einn aðili hefur yfirsýn yfir það í hversu mörgum fyrirtækjum viðkomandi einstaklingur á, hversu víðtækt eignarhald hans er í viðkomandi landi, og skattyfirvöld hafa ekki heldur yfirsýn yfir það hvort viðkomandi einstaklingur hafi greitt skatt af ölum þeim arðgreiðslum sem hann hefur fengið í gegnum eignarhald sitt á mörgum eignarhaldsfélögum.

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að við sýnum þjóðinni hvernig við lærum af þeim mistökum sem voru gerð hér fyrir hrun og tökum á eignarhaldi vogunarsjóða, ekki bara á fjármálafyrirtækjum heldur líka mörgum atvinnufyrirtækjum, með því að þvinga þá til að gefa upp upplýsingar um raunverulega eigendur eða einstaklinga á bak við einstaka eignarhluta. Með því að gera þessa kröfu ætti ávinningur sjóðanna af því að vera hér í hagkerfinu að verða minni, en ávinningur samfélagsins af því að ýta slíkum fjárfestum út úr samfélaginu er meiri stöðugleiki.

Vogunarsjóðir og hrægammasjóðir eru skammtímafjárfestar sem fyrst og fremst meta áhættu sína og arðsemi út frá eigendum sínum en ekki almannahagsmunum. Það er mjög mikilvægt fyrir almenning á Íslandi að tekið verði á þessu vandamáli og það eru að vissu leyti mikil vonbrigði að meiri hlutinn skuli ekki hafa áhuga á að gera það núna þegar við erum að ljúka umfjöllun um upplýsingaskyldu fyrirtækja sem hafa starfsemi hér á landi.



[17:34]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður sagði að menn færu til aflandseyja og annað til að sniðganga skattgreiðslur. Ég vil spyrja hann hvort það sé ekki oft miklu mikilvægara fyrir aðila sem vinna hratt að auka heldur eigið fé fyrirtækja með því að láta peninga ganga í hring til aflandseyja. Eins og ég hef margoft nefnt þarf þrjú fyrirtæki til þess að auka eigið fé. Ef eitt þeirra er staðsett á aflandseyju veit enginn að um hring sé að ræða. Eitt fyrirtæki á Íslandi eignast ef til vill hlut í fyrirtæki í Þýskalandi með því að dæla peningum þangað, það á svo aftur fyrirtæki á Cayman-eyjum eða einhvers staðar og eykur eigið fé fyrirtækisins þar, síðan kaupir það félag hlut í fyrirtæki á Íslandi og eykur eigið fé hér á landi. Slíkri aukningu á eigin fé með hringferli peninga er ekki nokkur leið að komast að.

Ég held að það sé ekki rétt hjá hv. þingmanni að menn séu aðallega að hugsa um sniðgöngu skattgreiðslna þó að það geti eflaust verið til langs tíma. Ef við hugsum um tvö, þrjú eða fjögur ár hugsa ég að margir sem voru í þessu á sínum tíma hafi ekkert verið að hugsa til margra ára, þeir voru kannski að hugsa um nokkra mánuði og létu peningana ganga í kring til þess að auka eigið féð hratt og vel og fá þannig betra lánshæfismat o.s.frv.

Svo varðandi að málið hafi batnað í meðförum þingsins, þá á hv. þingmaður væntanlega við breytingartillögu um ársreikninga þar sem nefndin flytur breytingartillögu sem er til bóta, en spurning mín til hv. þingmanns er: Hver á að fylgja þessu eftir? Hver fær upplýsingarnar? Hvar er þessi skrá geymd? Það er alla vega ekki gert ráð fyrir því í frumvarpinu eða tillögum meiri hlutans að þessi skrá verði neitt aðgengileg.



[17:37]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er með hér fyrir framan mig fréttabréf þar sem fjallað er um umræðuna innan framkvæmdastjórnar ESB og fyrirsögnin á því fréttabréfi er að í Brussel sé verið að hugsa um leiðir til þess að taka á skattsvindli og spillingu, en ógagnsætt eignarhald er einmitt talið fóstra spillingu og þess vegna þarf að tryggja gagnsætt eignarhald.

Hér á landi er mikilvægast að tryggja gagnsætt eignarhald til þess að koma einmitt í veg fyrir það sem gerðist fyrir hrun, eins og hv. þingmaður benti á, að fyrirtæki noti aflandsfélög sín til að auka eigið fé í fyrirtækjum án þess að nokkur átti sig á því að um er að ræða sama aðila og jafnvel með láni frá viðkomandi fyrirtæki.

Varðandi aðgengi að þessum upplýsingum, sem við erum í raun og veru að tryggja að ríkisskattstjóri hafi á einum stað með breytingartillögu hv. efnahags- og viðskiptanefndar, þá verður hægt að biðja um þær hjá ríkisskattstjóra og fá aðgang að þeim. Það er mjög algengt meðal starfsmanna í viðskiptafræðideildum, ekki bara hér á landi heldur um allan heim, að skoða ársreikninga og upplýsingar um eignarhald fyrirtækja sem menn fá annaðhvort í gegnum gagnagrunna þar sem gögnin hafa verið keypt af viðkomandi skattyfirvöldum eða öðrum sambærilegum yfirvöldum og seld viðskiptadeildum eða háskólum.



[17:39]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það vill svo til að ég skrifaði einmitt Evrópusambandinu út af þessu og í svari frá þeim kom fram að þeir eru ekki að velta fyrir sér þeirri aukningu á eigin fé sem hægt er að sýna fram að geti orðið með því að hlutafélög kaupi hvert í öðru. Það þarf minnst þrjú til. Þeir hafa hreinlega ekki velt fyrir sér þeim möguleika. Hins vegar veit ég að þeir hafa mikinn áhuga á því að hvernig menn geti skotið undan sköttum. Það er hægt að láta fyrirtæki sem er á Tortólu eða annars staðar mynda hagnað einmitt þar og koma þannig hagnaði undan skatti. Þetta er vissulega skattavandamál líka. Svo er þetta ekki hvað síst spillingavandamál vegna þess að menn geta bæði dulið eignarhald, falið það, aukið eigið fé og komið fram sem mismunandi aðilar í hluthafaskrá, t.d. banka, þannig að menn sjá ekki hinn raunverulega eiganda. Þetta er vandamál sem ég held að þurfi að leysa alþjóðlega og verður væntanlega leyst alþjóðlega þannig að menn muni upplýsa um alla eigendur á netinu svo að hægt verði að rekja það strax.

Eins og þetta er sett upp hérna óttast ég að eignarhald verði ekki rekjanlegt. Menn tala um að halda utan um þessa skrá, hún verði geymd og svo verði hún bara gleymd. Það er ekkert voðalega auðvelt að finna svona hringi ef menn þurfa alltaf að spyrja um eitt og eitt fyrirtæki í senn. Það getur orðið ansi langsótt, sérstaklega af því að hugmyndaauðgin í því að stofna fyrirtæki og hafa þau nægilega lítil til að fara undir alla grunsamlega þröskulda er endalaus. Þegar hagsmunir eru miklir skiptir kostnaðurinn við að stofna eitt lítið einkahlutafélag ekki miklu máli.



[17:41]
Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef mjög mikla trú á einkaframtakið. Ég geri ráð fyrir að Creditinfo muni nýta sér þær upplýsingar sem við erum að gera aðgengilegar í gegnum þessa lagasetningu (Gripið fram í.) til þess að búa til gagnagrunn og selja viðskiptadeildum landsins. Það var reyndar þannig hér upp úr 2000 að Creditinfo var í samstarfi við mig og nemendur mína við viðskiptafræðideild HR um hvaða upplýsingar við vildum meðal annars nýta úr ársreikningum vegna þess að þeir höfðu hug á að búa til gagnagrunn sem nýttist við rannsóknir. Ég geri því ráð fyrir því að þau einkafyrirtæki sem bjóða upp á alls konar upplýsingagjöf muni nýta sér þessa lagasetningu til að bæta þjónustu sína við núverandi og væntanlega kúnna.

Ég vil taka undir með hv. þm. Pétri Blöndal að það vekur furðu að menn í Brussel skuli ekki hafa áhyggjur af þessum krosseignatengslum og ekki minnast á það sem mikilvæga ástæðu fyrir því að upplýsa þurfi um raunverulegt eignarhald fyrirtækja. Þeir hafa mestan áhuga á skattsvindli og umræðan snýst um það, ekki bara í Brussel heldur líka í London, þ.e. um þau fyrirtæki sem eru með skráð aðsetur á aflandseyjum en starfsemi í til dæmis Bretlandi og greiða þar af leiðandi litla sem enga skatta til breska ríkisins. Það er auðvitað mjög mikilvægt að vera með gagnsætt eignarhald til að koma í veg fyrir krosseignatengsl og tryggja það einmitt að viðskiptafræðideildirnar geti kortlagt þessi krosseignatengsl en ekki bara þær heldur líka Fjármálaeftirlitið sem á reyndar að gera það samkvæmt lögum.



[17:43]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er búið að fara ágætlega yfir málið. Rætt hefur verið um heimild sem var í frumvarpinu til að hafa ársreikninga á öðrum tungumálum en það er búið að draga hana til baka með þeim rökum að annars séum við að fara gegn íslenskri málstefnu frá árinu 2009. Mér sýnist samt sem áður, miðað við núverandi lög, að við séum að fara gegn þeirri málstefnu sem er í lögum. Það er kannski spurning hvort við breytum þessu annaðhvort í takt við málstefnuna eða breytum lögunum um málstefnuna því að ég held að í besta falli sé mikill ósiður að hafa lög sem ekki stendur til að fara eftir.

Farið hefur fram nokkur umræða um gagnsæissjónarmiðin og þar vegast á nokkur sjónarmið eins og hér hefur komið fram. Eitt er að það að eiga í hlutafélögum er hugsað sem ákveðið sparnaðarform fyrir marga og er eitthvað sem við ættum að ýta undir. Menn hljóta þá að spyrja af hverju eigi að upplýsa um eitt ákveðið sparnaðarform en ekki annað. Eins og komið hefur fram í umræðunni þurfa ekki endilega að liggja einhverjar slæmar ástæður að baki ef fólk vill ekki að þær upplýsingar liggi á lausu í hvaða hlutafélögum það eigi eða hvar sparnaður þess yfir höfuð liggi. Hvort sem okkur líkar betur eða verr þá er það svo að fólk hefur tilhneigingu til að reyna að sækja í það, jafnvel nánustu ættingjar. Það er auðvitað ekki almenn regla og er vonandi undantekning en samt sem áður bera allir þeir sem hafa starfað í kringum slíkt vitni um það.

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst vera stóra málið í þessu er að ef við teljum hættulegt að hafa ákveðið eignarhald á félögum þurfum við að ræða það í samhengi við lög um fjármálafyrirtæki. Ef við höfum áhyggjur af því að aðilar sem hafa beint og óbeint og með allra handa klækjabrögðum komist yfir félög séu að koma sér í markaðsráðandi stöðu eða einhverja slíka stöðu án þess að vitneskja sé um það, hlýtur það stóra eftirlit sem við erum með að eiga að hafa eftirlit með því. Þá er ég að vísa í Fjármálaeftirlitið því að hér er auðvitað að stærstum hluta um að ræða fjármálafyrirtæki, þar er stærsta einstaka hættan. Við verðum að ganga úr skugga um að fylgst sé með því og komið í veg fyrir að hér geti myndast hringferlar eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur margsinnis minnst á. Sömuleiðis að fylgst sé með því að þessum kerfislega mikilvægu fyrirtækjum sem fjármálafyrirtækin eru, sem eru því miður beint og óbeint ansi mikið í fangi skattgreiðenda, stafi ekki hætta af eignarhaldinu.

Menn hafa talað mikið um að eignarhaldið fyrir bankahrun hafi ekki verið nægjanlega gott eða ekki uppfyllt þau skilyrði sem þyrfti að hafa um fjármálastofnanir. Menn geta haft ýmsar skoðanir á því en eitt er alveg öruggt að það eignarhald sem hefur myndast eftir bankahrun er ekki æskilegt. Af hverju ekki? Það er ekki æskilegt að aðilar sem hafa skammtímahagsmuni að leiðarljósi og hafa ekki áhuga á því að eignast íslenskar fjármálastofnanir eigi fjármálastofnanir okkar. Hér hefur verið bent á að ef og þegar, vonandi, við fellum niður gjaldeyrishöftin og lausn finnst á því — og þetta tengist þrotabúum gömlu bankanna, hugsanlega nauðasamningum eða gjaldþroti — geti myndast sú hætta að þeir sem sitji þá uppi með eignirnar, þ.e. tvo af þremur stærstu íslensku bönkunum, hafi hag af því og áhuga á að reyna að ná eins miklum eignum út úr þeim fyrirtækjum og mögulegt er. Þeir geri það vegna þess að þeir hafa skammtímahagsmuni að leiðarljósi.

Á þetta hefur verið bent og skrifaðar um það greinar og ég held að þetta séu varnaðarorð sem full ástæða sé til að taka alvarlega. Mér finnst stærsta einstaka málið vera það, með fullri virðingu fyrir öðrum sjónarmiðum, að við fylgjumst með því að fjármálastofnanir okkar beri ekki skaða eða hættu út af eignarhaldi þeirra. Menn hafa bent á að ef gjaldeyrishöftin verða áfram, sem vonandi verður ekki en ýmislegt bendir þó til, gefist aukin tækifæri fyrir eigendur banka, eigendur sem hugsa ekki um hagsmuni þessara bankastofnana til lengri tíma heldur vilja hagnast á skömmum tíma, að fara á svig við gjaldeyrishöftin og taka eignir út úr viðkomandi fjármálastofnunum.

Virðulegi forseti. Þetta finnst mér vera stærsta einstaka málið. Eignarhald er mjög kvikt og það er mjög erfitt að fylgjast með því frá mínútu til mínútu í hlutafélögum á Íslandi og kannski engin sérstök ástæða til þess. Það hefur að minnsta kosti ekki verið bent á hætturnar sem þar geta legið. Við skulum heldur ekki gleyma því að þrátt fyrir að hér sé um að ræða upplýsingar sem geta verið aðgengilegar er heljarinnar mikið verk að vinna úr þeim. Það eru örugglega til dæmi þess að menn fari í að vinna úr slíkum upplýsingum með það í huga að gera einstaklinga sem eiga það ekki skilið tortryggilega. Það er eitthvað sem við komumst aldrei hjá en það er engin sérstök ástæða til að ýta undir slíka hegðun eða gera hana auðveldari.

Við höfum ekki tekið hér á þætti sem hv. þm. Pétur Blöndal minntist á, þ.e. persónuverndina og hvort eðlilegt sé að hafa öðruvísi reglur um eignarhald hjá einstaklingum og hlutafélögum með takmarkaða ábyrgð. Þá er vísað til þess að þegar eignarhald í ákveðnum félögum er skoðað gildi sérregla um hlutafélögin, það eigi að upplýsa um þau, en önnur regla gildi um einstaklingana. Að vísu hlýtur þetta svolítið að skarast við það sem við erum að reyna að ná fram varðandi eignarhald bankanna. Við erum að reyna að fara í gegnum þann frumskóg sem eru hin ýmsu eignarhaldsfélög og hlutafélög og finna hina raunverulegu eigendur. Ég vísa aftur til þess, virðulegi forseti, að ég tel skynsamlegt að fara yfir þessi mál saman, þ.e. þetta mál og lög um fjármálafyrirtæki. Ég veit að við erum á endasprettinum en sem betur fer hefur vinnan í nefndinni verið góð og hv. þm. Helgi Hjörvar hefur borið gæfu til að gæta sanngirni í umfjöllun í nefndinni og taka tillit til sjónarmiða allra, ekki bara stjórnarliða.

Virðulegi forseti. Það má því velta því fyrir sér, vegna þess að við tökum þessi mál ekki oft upp, hvort við ættum að klára þetta mál endanlega í samhengi við lög um fjármálafyrirtæki því að við munum ekki fá mörg tækifæri á þessu vori til að ganga frá þeim málum. Vinnan hefur verið ágæt og búið er að upplýsa margt í tengslum við þetta en ég veit ekki enn þá hvernig eftirlitinu er fyrir komið. Ég veit að fjármálaeftirlit hlýtur að teljast mjög öflugt á Íslandi, sú stofnun hér er hlutfallslega stærst í heimi eftir því sem ég best veit. Ég veit að Fjármálaeftirlitið hefur heimild til að skoða hverjir eru eigendur bankanna og hvernig breytingar á því eru í tíma, ekki bara árlega heldur innan árs. En það er til lítils að reyna að koma í veg fyrir eitthvað sem gerðist árið 2008 eða fyrr. Við hljótum í lagasetningu um eftirlit með fjármálastofnunum og öðru slíku að horfa til framtíðar og í þessu tilfelli erum við að tala um nánustu framtíð.

Virðulegi forseti. Ég tel skynsamlegt að skoða þessi mál saman því að þótt hér sé ekki verið að ræða um fjármálafyrirtæki erum við samt sem áður að tala um eigendur fjármálafyrirtækja. Ég tel því eðlilegt að fara yfir þetta mál í tengslum við lög um fjármálafyrirtæki, en það mál er nokkuð langt komið í nefndinni og ég á von á að við getum klárað það í vor.