143. löggjafarþing — 64. fundur
 18. feb. 2014.
afsökunarbeiðni og greiðsla skaðabóta til iðkenda Falun Gong, fyrri umræða.
þáltill. GStein o.fl., 292. mál. — Þskj. 564.

[14:37]
Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að fagna því að loksins skuli þessi þingsályktunartillaga koma til umræðu í þingsal. Ég hef lagt hana fram tvisvar sinnum áður ásamt öðrum þingmönnum og hefur hún ekki fengist rædd fyrir en núna.

Núna leggjum við fram þessa tillögu, m.a. formenn allra minnihlutaflokka á Alþingi, sem sagt formenn allra flokka nema Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, sem er miður, en við erum 15 þingmenn sem stöndum að tillögunni, þar á meðal allir þingmenn Bjartar framtíðar og Pírata og þó nokkrir þingmenn úr Vinstri hreyfingunni — grænu framboði og úr Samfylkingu.

Tillagan er í grundvallaratriðum ákaflega einföld. Þetta er einfaldlega tillaga um að biðjast afsökunar og greiða fólki bætur sem varð fyrir tjóni vegna brota á réttindum þess sem gerð voru 2002. Þetta er sem sagt tillaga um að Alþingi biðji afsökunar þá iðkendur Falun Gong sem meinuð var landganga og meinað var að nýta tjáningarfrelsi sitt á Íslandi í júní 2002 í tengslum við opinbera heimsókn Jiang Zemin, þáverandi leiðtoga Alþýðulýðveldisins Kína. Verður ríkisstjórninni falið að koma afsökunarbeiðninni formlega á framfæri.

Þá felur tillagan einnig í sér að Alþingi muni fela ríkisstjórninni að sjá til þess að þeir einstaklingar sem vistaðir voru gegn vilja sínum í Njarðvíkurskóla, var vísað var frá landinu eða meinað að nota gilda flugmiða í flugvélar Icelandair víða um heim umrædda daga, fái viðhlítandi bætur.

Þetta er því í sjálfu sér einföld tillaga. Ég velti því stundum fyrir mér af hverju tillagan ætti ekki að vera auðsamþykkjanleg, hvað sé flókið við að samþykkja þessa tillögu. Fyrir liggur að hér áttu sér stað brot á réttindum einstaklinga í tengslum við heimsókn Jiang Zemin hingað til lands í júní 2002. Það hefur Persónuvernd staðfest, það hefur umboðsmaður Alþingis staðfest. Það hefur verið rakið ágætlega í nýlegum bókum, hvernig þessi mannréttindabrot fóru fram. Þessi tillaga snýst einfaldlega um að við horfumst í augu við að mannréttindabrotin áttu sér stað, að við í þessu lýðræðissamfélagi, í samfélagi sem við teljum að grundvallist á mannréttindum og opnu lýðræði, horfumst í augu við að þarna varð okkur á í messunni, þarna fórum við út af sporinu. Og með því að biðjast afsökunar lýsum við því yfir að svona aðgerðir af hálfu stjórnvalda líðum við ekki og við viljum aldrei að þær eigi sér stað aftur. Þessi tillaga er því ekki bara um uppgjör við fortíðina, hún fjallar líka um að við sendum skýr skilaboð út í samfélagið og út í heim um að við stundum ekki mannréttindabrot.

Mér finnst full ástæða til þess að við samþykkjum þessa tillögu núna þótt svo að langt sé um liðið frá því að þessi mannréttindabrot áttu sér stað vegna þess að fyrr á þingvetrinum samþykktum við fríverslunarsamning við Kína. Þar voru höfð uppi stór orð um að við ætluðum að standa fast á mannréttindasjónarmiðum okkar og lýðræðislegum gildum okkar og mannréttindagildum í samskiptum við Kína, þó svo að við höfum samþykkt þarna viðskiptasamning breytti það engu um afstöðu okkar í mannréttindamálum. Þau orð lét hæstv. utanríkisráðherra falla og þær áherslur fengu mig enn á ný til að hugsa: Af hverju í ósköpunum ætti það þá ekki að vera einfalt mál að biðjast afsökunar á þeim mannréttindabrotum sem við beittum iðkendur Falun Gong í tilefni af heimsókn forseta Kína í júní 2002? Við skulum sjá til hvort þetta verði samþykkt, ég vonast náttúrlega til þess.

Ég ætla aðeins að fara yfir hvað átti sér stað hér í júní 2002, hverjir voru málavextir. Það er nú rakið í greinargerð með þingsályktuninni en ég ætla aðeins að rekja það hér.

Í júní 2002 kom forseti Kína, Jiang Zemin, í opinbera heimsókn til Íslands. Skömmu fyrir heimsóknina tóku ráðherrar í þáverandi ríkisstjórn Íslands þá ákvörðun að banna fólki, sem átti það sameiginlegt að iðka sjálfsræktarkerfið Falun Gong, að koma frjálst ferða sinna til landsins sömu daga og heimsókn forsetans stæði yfir. Iðkendur Falun Gong höfðu áður og hafa líka síðar mótmælt mannréttindabrotum Kínverja á iðkendum Falun Gong við ýmis tilefni. Til stóð, og það var ekkert launungarmál, að iðkendur Falun Gong mótmæltu mannréttindabrotum Kínverja í sinn garð hér á landi í tilefni af heimsókn forsetans.

Það er skemmst frá því að segja að það var greinilega einlægur vilji stjórnvalda á þessum tíma að koma í veg fyrir þessi mótmæli og fór þá í hönd alveg ótrúleg atburðarás. Banninu var framfylgt af lögreglu í Reykjavík og Keflavík með aðstoð Icelandair og fjölmargra íslenskra sendiráða víða um heim. Það var gert á þeim lagalegu forsendum að sagt var að tryggja þyrfti hér allsherjarreglu og öryggi þjóðarinnar.

Fljótlega kom í ljós að íslensk stjórnvöld notuðu nafnalista við að vinsa úr grunaða Falun Gong-iðkendur. Persónuvernd úrskurðaði ári síðar að það eitt og sér hefði brotið gegn íslenskum lögum. Listinn var sem sagt sendur ásamt fyrirskipun dómsmálaráðherra til Icelandair og sendiráða víða um heim með eftirfarandi orðum undirrituðum af ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins, með leyfi forseta:

„Dómsmálaráðuneytið hefur heimildir til að gefa Flugleiðum ströng fyrirmæli um að neita þekktum eða grunuðum meðlimum Falun Gong-hreyfingarinnar landgöngu til Íslands á ákveðnu tímabili í samræmi við lista sem þér hafið þegar fengið.“

Þessi listi var síðan kallaður „svarti listinn“. Það er í rauninni með algjörum ólíkindum að listi með þekktum eða grunuðum iðkendum Falun Gong skyldi vera látinn ganga og einkafyrirtæki beðið um að meina þessum einstaklingum að fara um borð í flugvél og koma til Íslands. Það er algjört einsdæmi. Persónuvernd hefur úrskurðað um að þetta hafi fullkomlega verið án stoðar í lögum og hefur umboðsmaður Alþingis einnig úrskurðað í þá veru.

Talað er um að um 200 iðkendur hafi orðið fyrir þessu banni á einn eða annan hátt. Sumir komust til landsins en þeir voru þá vistaðir í Njarðvíkurskóla, þeir fengu ekki að fara lengra. Á meðan á heimsókninni stóð voru um 75 einstaklingar vistaðir í Njarðvíkurskóla, í rauninni hnepptir í varðhald á þeim grundvelli að þeir stunduðu eða voru grunaðir um að vera iðkendur Falun Gong.

Þessir einstaklingar voru beðnir um að undirrita yfirlýsingu til íslensku lögreglunnar sem var efnislega sú að þeir mundu ekki haga sér neitt ófriðlega á meðan þeir væru í Njarðvíkurskóla, en þeim var hins vegar ekki sleppt úr haldi fyrr en nokkrum dögum eftir að Jiang Zemin var farinn af landinu.

Þessi listi yfir grunaða eða staðfesta iðkendur á Falun Gong-sjálfsræktarkerfinu fékk nafngiftina „svarti listinn“ og var þrætt fyrir að hann væri til. En það kom fljótlega í ljós að hann var til vegna þess að það höfðu einfaldlega það margir fengið hann í hendur og hófust strax vangaveltur um hvaðan listinn væri kominn. Ekki er til nein félagaskrá yfir Falun Gong-iðkendur og vekur það eitt og sér mjög mikla athygli. Falun Gong er ekki félagsskapur, þetta er lífsskoðun eða heimspeki eða aðferð til að rækta sjálfan sig, þannig að það var alltaf ljóst að listinn hlyti að vera grundvallaður á mjög víðfeðmum persónunjósnum, bara búið að skrá niður fólk sem þótti líklegt eða var staðfest að aðhylltist þessa lífsskoðun, þessa heimspeki, þessa sjálfsrækt. Og á grundvelli þessa lista, sem allt bendir til að hafi verið afsprengi persónunjósna, fóru íslensk stjórnvöld í það verkefni að senda einkafyrirtækjum og sendiráðum úti um allan heim skipanir um að meina þessu fólki að koma til Íslands, og ef það kom til Íslands var það sett í varðhald í Njarðvíkurskóla.

Bara það að safna listanum er mannréttindabrot í sjálfu sér. Það er ágætlega rakið í bók sem kom út fyrir nokkrum árum og heitir Arctic Host, Icy Visit, þar sem mannréttindalögfræðingurinn dr. Herman Salton hefur greint ítarlega ýmsar lagalegar hliðar atburðanna á Íslandi 2002. Niðurstöður þeirrar greiningar hefur hann í framhaldinu fengið birtar í mannréttindatímaritum á liðnum árum. Meðal annars hefur þessi vinna Hermans Saltons fengið okkur sem leggjum fram þessa tillögu til að hugsa aftur um þetta mál og er full ástæða — enn ríkari ástæða til að samþykkja þessa þingsályktunartillögu í ljósi allra þeirra upplýsinga og allra þeirra rannsókna sem hann hefur unnið að.

Íslensk stjórnvöld reyndu að þræta fyrir að þessi listi væri til. Þegar spurt var hvaðan listinn kæmi var bent á þýsk stjórnvöld, bent var á Interpol. Það reyndist rangt. Flest bendir til að listinn hafi komið frá kínverskum stjórnvöldum, grundvallaður á persónunjósnum þeirra og að Íslendingar hafi tekið þátt í kúgun kínverskra stjórnvalda á þegnum sínum. Við verðum að biðjast afsökunar á því, sérstaklega ef við ætlum að eiga opin og frjáls viðskipti við Kínverja. Nú, þegar við höfum samþykkt fríverslunarsamning við Kínverja, þá verðum við að hafa þetta á hreinu. Svona gerum við aldrei aftur. Við tökum aldrei þátt í því að kúga þegna Kína eða aðra þegna að fyrirskipun erlendra ríkja.

En hvað með rökin sem notuð voru, að hindra þyrfti að þetta fólk kæmi til Íslands? Rökin voru allsherjarregla og öryggi þjóðarinnar. Umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu að þau rök haldi ekki vatni. Veigamestu rökin gegn þeim málflutningi voru og eru alltaf að iðkendur Falun Gong hafa aldrei gerst sekir um ofbeldi. Mótmæli þeirra fara einfaldlega þannig fram, að mér skilst, að þeir iðka sína sjálfsrækt frammi fyrir þeim sem þeir vilja mótmæla.

Sama ár taldi ríkisstjórnin ekki ástæðu til þess að beita allsherjarreglu eða sjónarmiðum um öryggi þjóðarinnar þegar haldið var NATO-þing á Íslandi og hundruð mótmælenda komu hingað til lands. Ekki var talin ástæða til að beita neinni allsherjarreglu eða sjónarmiðum um öryggi þjóðarinnar af því tilefni. Auðvitað ekki. Íslendingar leyfa almennt friðsamleg mótmæli. Hells Angels-félagsskapurinn kom hingað til lands líka á þessu ári, engum sjónarmiðum um allsherjarreglu eða öryggi þjóðarinnar var beitt af því tilefni, þannig að hér var greinilega eitthvað mjög sérstakt á ferðinni út frá sjónarhóli stjórnvalda gagnvart hóp sem aldrei hefur beitt ofbeldi í mótmælum sínum.

Ein ástæða þess að við ættum að samþykkja þessa þingsályktunartillögu núna er sú að ofsóknirnar gagnvart iðkendum Falun Gong hafa haldið áfram í Kína og þær eiga sér stað í dag. Þær eru á allan hátt viðbjóðslegar og hefur verið fjallað um þær í ótal skýrslum og mannréttindalögfræðingar og ríkisstjórnir víða um heim hafa vakið athygli á þeirri staðreynd að fólk sem iðkar Falun Gong í Kína hefur tugþúsundum saman verið fangelsað, sett í þrælkunarbúðir án dóms og laga og margt pyntað til dauða. Sameinuðu þjóðirnar, varaforseti Evrópuþingsins, fulltrúaþing Bandaríkjanna, Amnesty International, Human Rights Watch og fleiri hafa fordæmt aðför Kínastjórnar að Falun Gong-iðkendum þar í landi.

Með því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu værum við líka, að mínu mati, að lýsa yfir samstöðu með iðkendum Falun Gong og í sömu andrá, mundi ég gera ráð fyrir, að fordæma framferði kínverskra stjórnvalda gagnvart iðkendum Falun Gong. En í öllu falli, og það er það mikilvægasta hvað okkur varðar, værum við að lýsa því yfir að við tökum aldrei aftur þátt í svoleiðis mannréttindabrotum gagnvart friðsömu fólki eða nokkru fólki yfir höfuð.



[14:52]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka 1. flutningsmanni, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, fyrir frumkvæðið og fyrir að flytja málið hér í þinginu. Ég hef sjálfur fyrir einhverjum árum sem einstaklingur beðist afsökunar á þessari framgöngu. Í síðustu ríkisstjórn baðst þáverandi utanríkisráðherra afsökunar á málinu fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Ég held að það sé ákaflega vel til fundið hjá flutningsmanni að flytja málið einmitt núna á þinginu vegna þess að það er örstutt síðan við á Alþingi samþykktum að auka frelsi í verslun og viðskiptum við Kína. Það er mín trú að við eigum almennt að nota menningarsamskipti, frjálsa verslun og viðskipti til að stuðla að framförum og bættum mannréttindum í heiminum og að við eigum ekki bara að þróa þau samskipti okkar við lýðræðisríki sem uppfylla öll mannréttindi heldur við sem flest ríki. Þá er auðvitað ákaflega mikilvægt um leið að undirstrika þau atriði sem okkur greinir á um við viðkomandi ríki, þær kröfur um breytingar sem við gerum til viðkomandi ríkja og þá sérstöðu sem við í samskiptum við þau ríki viljum halda til haga. Það er vissulega gert með óbeinum hætti í þessari tillögu og samþykkt hennar yrði klárlega býsna skýr skilaboð um það hvar Ísland stendur í mannréttindamálum, hver viðhorf okkar til Falun Gong-fólksins, sem við kynntumst hér að góðu einu í Reykjavík um árið, eru og um almenna fordæmingu okkar á framgöngu kínverskra stjórnvalda gagnvart stjórnarandstöðu og jafnvel hinni minnstu andstöðu við ríkjandi öfl þar.

Í sjálfu sér er ekki eftir neinu að bíða. Þetta er mál sem við þekkjum öll. Öll held ég að við fyrirverðum okkur fyrir framgöngu stjórnvalda á þessum tíma. Það er ævarandi blettur á ferli þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, með hvaða eindæmum hann gekk fram í þessu máli. Það er langhreinlegast og best að setja með skýrum hætti punktinn aftan við þá sögu með því að þjóðþingið sjálft, við öll, 63:0, segjum bara okkar skoðun á því og hörmum að til þessa hafi yfir höfuð nokkru sinni þurft að koma í okkar ágæta landi sem hefur á svo mörgum sviðum tekist að þróa mannréttindi farsællega og virðingu fyrir sjónarmiðum annars fólks.



[14:56]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um afsökunarbeiðni og greiðslu skaðabóta til iðkenda Falun Gong. Tildrög hennar eru, eins og hér hefur verið rakið, ofríki íslenskra stjórnvalda gagnvart þessum hópi sumarið 2002, ofríki sem einungis er hægt að skýra með undirlægjuhætti íslenskra ráðamanna gagnvart erlendu stórveldi.

Áður en lengra er haldið vil ég taka það skýrt fram að ég er fullkomlega sammála efni tillögunnar. Framferði íslenskra yfirvalda í þessu efni var svo vægt sé til orða tekið óásættanlegt. Auk þess vona ég að skaðabótagreiðslur eins og hér er lagt til að verði greiddar geti orðið til þess þó ekki væri nema að lögregluyfirvöld hugsi sig frekar um í framtíðinni áður en viðlíka aðferðum er beitt.

Ég verð þó að gera athugasemd við staðhæfingar sem fram koma í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Þar er sérstaklega vikið að öðrum atburðum sem áttu sér einnig stað árið 2002 og þeir teknir sem dæmi um hófstillt viðbrögð lögreglu og því jafnvel velt upp hvort ástæða hefði verið mögulega til meiri hörku.

Í greinargerðinni segir að NATO-fundur hafi verið haldinn í Háskólabíói fyrr á árinu, með leyfi forseta: „Þar átti íslensk lögregla ekki í vandræðum með að taka á móti tugum ráðherra og ráðamanna frá helstu NATO-ríkjum, auk nokkur hundruð mótmælenda.“

Eins og kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar í framsögu hans um málið var allsherjarreglu ekki beitt í því máli, en það er ekki hægt að segja að lögreglan hafi ekki verið í vandræðum vegna NATO-ráðstefnunnar vorið 2002. Það get ég vottað sem ein af þessum nokkur hundruð mótmælendum sem þarna er vísað í, sem raunar voru allt íslenskir friðarsinnar. Auk þess var ég ein af skipuleggjendum mótmælaaðgerðanna þar sem við hernaðarandstæðingar létum í ljós andúð okkar á stærsta hernaðarbandalagi heims, hernaðarbandalagi sem hefur yfir að búa meiri hluta allra gjöreyðingarvopna veraldar og sem stóð um þær mundir, eins og raunar enn í dag, fyrir stórfelldum manndrápum í Afganistan. Því fer nefnilega fjarri að viðbrögð og viðbúnaður íslenskra stjórnvalda og lögregluyfirvalda vegna NATO-ráðstefnunnar hafi verið hófstilltur. Þvert á móti einkenndust viðbrögðin af taugaveiklun, vænisýki og ráðaleysi eins og ég upplifði sjálf á fundum með fulltrúum lögreglunnar sem virtust miða viðbúnað sinn vegna ráðstefnunnar við tilhæfulausa tortryggni og heimtufrekju ráðstefnugestanna. Þetta held ég að sé í rauninni ekkert alls ólíkt því sem svo gerðist aftur nokkrum vikum seinna í tengslum við heimsókn Jiang Zemin.

Ef við rifjum upp viðbúnaðinn í Reykjavík í kringum Hótel Sögu og Háskólabíó þar sem NATO-ráðstefnan var haldin var heilu götunum lokað, flugumferð var bönnuð við Reykjavíkurflugvöll og leyniskyttum var komið fyrir á þökum bygginga og þeim var beint að friðsömum mótmælendum, sem stóðu við Hagatorg réttum megin við þar til gerða girðingu sem lögreglan hafði sett upp. Foreldrar barna í nærliggjandi barnaskólum mótmæltu auðvitað hástöfum að þessar leyniskyttur væru þarna uppi á þaki í hverfinu þar sem börnin þeirra væru í skóla.

Af þessu má sjá að NATO-fundurinn vorið 2002 er, að því er mér finnst alla vega, illa til fundið dæmi um skynsamleg og yfirveguð viðbrögð íslenskra stjórnvalda og því galli á annars ágætri og vel rökstuddri greinargerð þingsályktunartillögunnar. Þvert á móti sýnir framganga íslensku lögreglunnar í tengslum við NATO-fundinn hversu auðveldlega hún lét undan kröfum erlends valds þegar kom að því að hindra friðsama mótmælendur, hvaða nöfnum svo sem þeir nefndust, í að koma skoðunum sínum á framfæri við útlenda valdsmenn. Við skulum heldur ekki gleyma því að það var einmitt í aðdraganda mótmælanna vegna NATO-fundarins sem íslenska lögreglan fékk auknar fjárveitingar til þess að festa kaup á drjúgum hluta af þeim óeirðastjórnunarbúningi sem síðar var notaður í búsáhaldabyltingunni, eins og okkur mörgum hér inni ætti að vera í fersku minni.

NATO-fundurinn 2002 er því sorglegt dæmi um þjónkun íslenskra stjórnvalda við erlend stórveldi ekki síður en málið sem við ræðum hér í dag. Falun Gong-málið er mikilvægt en ekki vegna þess að það sé einstakt, margt í því er einstakt en annað ekki. Það er mikilvægt vegna þess að það er dæmi um tilraunir til þess að brjóta niður mótmæli almennings, hvort heldur sem er með þátttöku íslenskra eða erlendra aðila gegn skoðanakúgun, gegn vígvæðingu. Og svo annað dæmi sé tekið sem kemur úr sama ranni er þegar unnið er gegn því að fólk geti tjáð andúð sína með friðsamlegum mótmælum, t.d. gegn náttúruspjöllum.

Einn alvarlegasti þáttur Falun Gong-málsins tengist, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á áðan, meðferð og notkun íslenskra stjórnvalda á lista yfir meinta Falun Gong-meðlimi, lista sem augljóslega var unninn með víðtækum njósnum kínverskra yfirvalda. Mikilvægi þessa atriðis er þeim mun meira í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur að undanförnu um njósnir bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar og samstarfs hennar við borgaralegar stofnanir víða um lönd. Hvað vitum við nema við förum að dúkka upp á einhverjum listum vegna einhverra mótmæla sem við höfum tekið þátt í þegar við ætlum svo að fara til útlanda eins og Kínverjarnir lentu í sem komu til Íslands árið 2002?

Þetta mál snýst því ekki bara um sagnfræði heldur kallast á við ótal raunverulegar hættur í samtíð okkar. Það er von mín að Alþingi samþykki þessa þingsályktunartillögu um afsökunarbeiðni til iðkenda Falun Gong, sem svo sannarlega voru órétti beittir á Íslandi árið 2002, og að sú ósk sem fram kemur í greinargerðinni rætist þar sem segir að afsökunarbeiðnin verði vonandi til þess að slíkir atburðir endurtaki sig ekki. Og það vona ég að gerist ekki í neinu pólitísku samhengi.



[15:04]
Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna og ágætisábendingu varðandi samanburðinn við NATO-þingið sem fór fram 2002. Ég vil koma upp og árétta að í greinargerðinni var það ekki ætlunin og ég get ekki alveg skilið það þannig sjálfur heldur að felldur sé sá dómur um aðgerðir lögreglu af því tilefni að þær hafi verið yfirvegaðar og skynsamlegar. Þetta er í kaflanum um hvort það haldi vatni að segja að beita hefði mátt allsherjarreglu og sjónarmiðum um öryggi ríkisins til að banna iðkendum Falun Gong að koma til landsins.

Það er dr. Salton, sem ég minntist á í ræðu minni, sem hefur rakið þessi sjónarmið og kannað hvort rök séu fyrir þeim. Hann tiltekur meðal annars að ef íslenskum stjórnvöldum var umhugað um að nota allsherjarreglu og sjónarmið um öryggi þjóðarinnar, sem vissulega eru lagaleg sjónarmið, grundvallast á aðgerðum eins og gagnvart Falun Gong, var ekki samkvæmni í þeirri pólitík hjá íslenskum stjórnvöldum. Ef íslensk stjórnvöld höfðu áhyggjur af Falun Gong nefnir þessi mannréttindalögfræðingur önnur dæmi þar sem íslensk stjórnvöld hefðu þá líka átt að hafa áhyggjur í þágu samkvæmni í stjórnvaldsaðgerðum, ef þeim var svona umhugað um allsherjarreglu og öryggi þjóðarinnar. En þeim sjónarmiðum var ekki beitt varðandi mótmælin við Nato og ekki heldur við komu Hells Angels sem eru dæmi sem er hægt að taka frá árinu 2002.

Þetta er hugmyndin með samanburðinum en í honum felst hins vegar enginn dómur um það hvort aðgerðir lögreglu hafi verið yfirvegaðar eða skynsamlegar í tilviki NATO-þingsins (Forseti hringir.) Ég held að mjög mikilvægt sé að ræða yfirleitt hvernig tekið er á mótmælum á Íslandi. Það er mjög þörf umræða.



[15:07]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þm. Guðmundur Steingrímsson séum í öllum hinum veigamiklu málum algjörlega sammála hérna. Ég hef ekki lesið bók dr. Saltons þannig að ég hef hreinlega ekki þekkingu á samanburði hans eða því sem hann segir í þessari bók. Það eru auðvitað allir sammála um að allsherjarreglu var ekki beitt í sambandi við NATO-fundinn eða komu Hells Angels.

Það sem ég hnaut hins vegar um er þetta sem segir í greinargerðinni: „Þar átti íslensk lögregla ekki í vandræðum með að taka á móti tugum ráðherra og ráðamanna …“

Það er í rauninni þessi setning sem ég er ósammála. Ég tel að þeir hafi bara átt í talsverðum vandræðum með það eins og sést á því að við eigum ekki að venjast því að það séu vopnaðar leyniskyttur uppi á þökum húsanna okkar. Og auðvitað viljum við ekki, eða ég ætla rétt að vona það, þannig samfélag. Það er þetta atriði sem ég hnaut um.



[15:09]
Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fellst á þá ábendingu að þessi setning er óheppilega orðuð og ég mundi gjarnan hafa viljað orða hana öðruvísi, sérstaklega eftir þann vitnisburð sem hv. þingmaður hefur gefið okkur um mótmælin við NATO-þingið 2002. En það sem ég hafði í huga var að allsherjarreglunni og sjónarmiðum um öryggi þjóðarinnar var ekki beitt í því tilviki.

En ég vil árétta að mér finnst mjög mikilvægt að ræða hvernig ætlum við að nálgast mótmælin, það er hluti af því að vera opið lýðræðislegt samfélag sem leggur áherslu á mannréttindi. Við eigum auðvitað að vera þjóð sem leyfir friðsamleg mótmæli og það hefur verið mjög mikil umræða um þetta hér á landi eftir búsáhaldabyltinguna, en þar fór ýmislegt úrskeiðis, þar tókst ekki almennilega að virða friðsamleg mótmæli.

En um leið og ég segi að þessi umræða sé mjög mikilvæg vil ég leggja áherslu á sérstöðu Falun Gong-málsins og hversu stórbrotin mannréttindabrot það voru t.d. þegar dómsmálaráðuneytið sendi lista til einkafyrirtækis, Icelandair, og gaf út fyrirskipun um að Icelandair ætti á grundvelli nafnalista að meina fólki að koma um borð í flugvélar sínar. Bara það er algert einsdæmi og það er ótrúlegt að fólki skyldi hafa dottið það í hug. Umboðsmaður Alþingis hefur t.d. fjallað um þetta. Þetta má auðvitað ekki.

Og líka að við skulum taka við svona lista og byggja stjórnvaldsaðgerðir okkar á því. Þessi listi er augljóslega byggður á persónunjósnum og að við skulum síðan halda fólki í fangelsi í Njarðvíkurskóla eru líka stórbrotin mannréttindabrot. En ég vil benda á að Íslendingar sem voru handsamaðir við Geysi af þessu tilefni unnu mál gegn íslenska ríkinu og fengu greiddar skaðabætur.



[15:11]
Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér sýnist ég og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson vera búin að tala okkur saman um að við séum ansi mikið sammála þó svo einhverjir núningar hafi verið hér í byrjun eins og ég vakti máls á. Já, það er alveg gríðarlega mikilvægt að við sem þjóð, við sem samfélag stöndum vörð um það og séum jákvæð fyrir því að fólk tjái hug sinn og mótmæli því sem því misbýður. Og aftur já, viðbrögð og ofríki íslenskra stjórnvalda í garð Falun Gong voru gersamlega yfirgengileg. Þess vegna vona ég svo sannarlega að þótt ég verði mögulega ekki stödd í þessum sal þá verði þingsályktunartillagan samþykkt.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til utanrmn.