143. löggjafarþing — 64. fundur,  18. feb. 2014.

afsökunarbeiðni og greiðsla skaðabóta til iðkenda Falun Gong.

292. mál
[14:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um afsökunarbeiðni og greiðslu skaðabóta til iðkenda Falun Gong. Tildrög hennar eru, eins og hér hefur verið rakið, ofríki íslenskra stjórnvalda gagnvart þessum hópi sumarið 2002, ofríki sem einungis er hægt að skýra með undirlægjuhætti íslenskra ráðamanna gagnvart erlendu stórveldi.

Áður en lengra er haldið vil ég taka það skýrt fram að ég er fullkomlega sammála efni tillögunnar. Framferði íslenskra yfirvalda í þessu efni var svo vægt sé til orða tekið óásættanlegt. Auk þess vona ég að skaðabótagreiðslur eins og hér er lagt til að verði greiddar geti orðið til þess þó ekki væri nema að lögregluyfirvöld hugsi sig frekar um í framtíðinni áður en viðlíka aðferðum er beitt.

Ég verð þó að gera athugasemd við staðhæfingar sem fram koma í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Þar er sérstaklega vikið að öðrum atburðum sem áttu sér einnig stað árið 2002 og þeir teknir sem dæmi um hófstillt viðbrögð lögreglu og því jafnvel velt upp hvort ástæða hefði verið mögulega til meiri hörku.

Í greinargerðinni segir að NATO-fundur hafi verið haldinn í Háskólabíói fyrr á árinu, með leyfi forseta: „Þar átti íslensk lögregla ekki í vandræðum með að taka á móti tugum ráðherra og ráðamanna frá helstu NATO-ríkjum, auk nokkur hundruð mótmælenda.“

Eins og kom fram í máli hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar í framsögu hans um málið var allsherjarreglu ekki beitt í því máli, en það er ekki hægt að segja að lögreglan hafi ekki verið í vandræðum vegna NATO-ráðstefnunnar vorið 2002. Það get ég vottað sem ein af þessum nokkur hundruð mótmælendum sem þarna er vísað í, sem raunar voru allt íslenskir friðarsinnar. Auk þess var ég ein af skipuleggjendum mótmælaaðgerðanna þar sem við hernaðarandstæðingar létum í ljós andúð okkar á stærsta hernaðarbandalagi heims, hernaðarbandalagi sem hefur yfir að búa meiri hluta allra gjöreyðingarvopna veraldar og sem stóð um þær mundir, eins og raunar enn í dag, fyrir stórfelldum manndrápum í Afganistan. Því fer nefnilega fjarri að viðbrögð og viðbúnaður íslenskra stjórnvalda og lögregluyfirvalda vegna NATO-ráðstefnunnar hafi verið hófstilltur. Þvert á móti einkenndust viðbrögðin af taugaveiklun, vænisýki og ráðaleysi eins og ég upplifði sjálf á fundum með fulltrúum lögreglunnar sem virtust miða viðbúnað sinn vegna ráðstefnunnar við tilhæfulausa tortryggni og heimtufrekju ráðstefnugestanna. Þetta held ég að sé í rauninni ekkert alls ólíkt því sem svo gerðist aftur nokkrum vikum seinna í tengslum við heimsókn Jiang Zemin.

Ef við rifjum upp viðbúnaðinn í Reykjavík í kringum Hótel Sögu og Háskólabíó þar sem NATO-ráðstefnan var haldin var heilu götunum lokað, flugumferð var bönnuð við Reykjavíkurflugvöll og leyniskyttum var komið fyrir á þökum bygginga og þeim var beint að friðsömum mótmælendum, sem stóðu við Hagatorg réttum megin við þar til gerða girðingu sem lögreglan hafði sett upp. Foreldrar barna í nærliggjandi barnaskólum mótmæltu auðvitað hástöfum að þessar leyniskyttur væru þarna uppi á þaki í hverfinu þar sem börnin þeirra væru í skóla.

Af þessu má sjá að NATO-fundurinn vorið 2002 er, að því er mér finnst alla vega, illa til fundið dæmi um skynsamleg og yfirveguð viðbrögð íslenskra stjórnvalda og því galli á annars ágætri og vel rökstuddri greinargerð þingsályktunartillögunnar. Þvert á móti sýnir framganga íslensku lögreglunnar í tengslum við NATO-fundinn hversu auðveldlega hún lét undan kröfum erlends valds þegar kom að því að hindra friðsama mótmælendur, hvaða nöfnum svo sem þeir nefndust, í að koma skoðunum sínum á framfæri við útlenda valdsmenn. Við skulum heldur ekki gleyma því að það var einmitt í aðdraganda mótmælanna vegna NATO-fundarins sem íslenska lögreglan fékk auknar fjárveitingar til þess að festa kaup á drjúgum hluta af þeim óeirðastjórnunarbúningi sem síðar var notaður í búsáhaldabyltingunni, eins og okkur mörgum hér inni ætti að vera í fersku minni.

NATO-fundurinn 2002 er því sorglegt dæmi um þjónkun íslenskra stjórnvalda við erlend stórveldi ekki síður en málið sem við ræðum hér í dag. Falun Gong-málið er mikilvægt en ekki vegna þess að það sé einstakt, margt í því er einstakt en annað ekki. Það er mikilvægt vegna þess að það er dæmi um tilraunir til þess að brjóta niður mótmæli almennings, hvort heldur sem er með þátttöku íslenskra eða erlendra aðila gegn skoðanakúgun, gegn vígvæðingu. Og svo annað dæmi sé tekið sem kemur úr sama ranni er þegar unnið er gegn því að fólk geti tjáð andúð sína með friðsamlegum mótmælum, t.d. gegn náttúruspjöllum.

Einn alvarlegasti þáttur Falun Gong-málsins tengist, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson kom inn á áðan, meðferð og notkun íslenskra stjórnvalda á lista yfir meinta Falun Gong-meðlimi, lista sem augljóslega var unninn með víðtækum njósnum kínverskra yfirvalda. Mikilvægi þessa atriðis er þeim mun meira í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur að undanförnu um njósnir bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar og samstarfs hennar við borgaralegar stofnanir víða um lönd. Hvað vitum við nema við förum að dúkka upp á einhverjum listum vegna einhverra mótmæla sem við höfum tekið þátt í þegar við ætlum svo að fara til útlanda eins og Kínverjarnir lentu í sem komu til Íslands árið 2002?

Þetta mál snýst því ekki bara um sagnfræði heldur kallast á við ótal raunverulegar hættur í samtíð okkar. Það er von mín að Alþingi samþykki þessa þingsályktunartillögu um afsökunarbeiðni til iðkenda Falun Gong, sem svo sannarlega voru órétti beittir á Íslandi árið 2002, og að sú ósk sem fram kemur í greinargerðinni rætist þar sem segir að afsökunarbeiðnin verði vonandi til þess að slíkir atburðir endurtaki sig ekki. Og það vona ég að gerist ekki í neinu pólitísku samhengi.