145. löggjafarþing — 170. fundur.
námslán og námsstyrkir, 2. umræða.
stjfrv., 794. mál (heildarlög). — Þskj. 1373, nál. 1723 og 1725, brtt. 1724.

[19:15]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um námslán og námsstyrki. Nefndarálitið liggur fyrir á þingskjali 1723 og breytingartillaga liggur fyrir á þingskjali 1724. Málið er hér til 2. umr.

Ég vil byrja á því að fagna því sérstaklega að málið skuli komið á dagskrá því að ég tel það afar mikilvægt eftir alla þá vinnu sem lögð hefur verið í málið í þinginu og hjá allsherjar- og menntamálanefnd að tækifæri gefist til að ræða það í þingsal.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund mikinn fjölda gesta. Alls bárust 45 umsagnir og erindi varðandi málið. Það var til umræðu á 13 fundum allsherjar- og menntamálanefndar. Á flestum þeim fundum fór megnið af tíma nefndarinnar í þetta eina mál. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim gestum sem að málinu hafa komið, sem og nefndarmönnum fyrir vinnuna. Þá tel ég rétt að geta þess hér að frumvarp til laga um námslán og námsstyrki var lagt fram 30. maí en mælt var fyrir því hér í þingsal 16. ágúst þannig að umræðan um frumvarpið eins og það var lagt fyrir þingið hefur nú staðið í hátt í hálft ár í þjóðfélaginu.

Nefndarálitið er allítarlegt og mun ég í umfjöllun minni leggja áherslu á að draga sýn meiri hlutans á heildarbreytinguna sem í frumvarpinu felst og forsendur breytingartillagna meiri hlutans.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Markmiðum frumvarpsins má skipta í nokkra þætti. Í fyrsta lagi er brugðist við þeim breytingum sem orðið hafa á íslensku menntakerfi síðan lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna voru síðast tekin til heildarendurskoðunar, en það var 1992. Í öðru lagi er brugðist við athugasemdum sem fram hafa komið í skýrslum Ríkisendurskoðunar á undanförnum árum. Í þriðja lagi er komið til móts við gagnrýni samtaka námsmanna, hagsmunaaðila og Ríkisendurskoðunar hvað varðar það misræmi sem útdeiling ríkisstyrks til námsmanna í formi vaxtaniðurgreiðslu og afskrifta felur í sér og til að bregðast við því er námsstyrkurinn gerður sýnilegri og jafnari. Í fjórða lagi er brugðist við þeim áhættugreiningum sem gerðar hafa verið á Lánasjóði íslenskra námsmanna og þeirri þróun sem þar kemur fram. Í fimmta lagi er verið að hvetja til bættrar námsframvindu nemenda og auka um leið gagnsæi í nýtingu ríkisfjár og í sjötta lagi er fyrirkomulag námsaðstoðar fært nær því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum.

Nefndarálitið skiptist í nokkra kafla. Fyrst er kafli um háskóla og vísindi á Íslandi, þróun og stöðu.

Í október 2015 gaf mennta- og menningarmálaráðuneytið út skýrslu um háskóla- og vísindakerfið á Íslandi, en mennta- og menningarmálaráðherra ákvað haustið 2014 að hafin yrði vinna við gerð heildstæðrar stefnu til fimm ára fyrir málefnasviðið „háskólar og vísindastarfsemi“ sem tæki til æðri menntunar, rannsókna, nýsköpunar og helstu stoðaðila málaflokksins. Stefnan á að ná til háskóla, rannsóknarstofnana og þekkingarsetra, Rannsóknamiðstöðvar Íslands, Lánasjóðs íslenskra námsmanna og Vísinda- og tækniráðs. Skýrslan er afrakstur fyrsta áfanga stefnumótunarinnar og lýsir stöðu háskóla- og vísindakerfisins hér á landi með tilvísun í nýjar tölulegar upplýsingar um málaflokkinn. Þessi skýrsla er því ein af þeim grunnstoðum sem frumvarpið byggir á.

Háskólanemum hér á landi hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum og var fjölgunin sérstaklega mikil upp úr aldamótum. Árið 2000 voru háskólanemar rúmlega 10 þúsund talsins en á allra síðustu árum hafa þeir verið um 20 þúsund. Hlutfall kvenna hefur verið á bilinu 62–64% frá aldamótum. Í skýrslunni kemur fram að meðalaldur nýnema var árið 2012 hæstur á Íslandi í samanburði við OECD-ríkin eða 25,6 ár. Háskólanemar hér á landi eru eldri en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Hvergi er jafn lágt hlutfall í yngsta aldurshópnum, þ.e. 24 ára og yngri, og að sama skapi er hvergi jafn hátt hlutfall nema í elstu aldurshópunum, þ.e. 30 ára og eldri. Hlutfall tvítugra í háskóla hér á landi var með því lægsta í löndum OECD en hvergi var jafnhátt hlutfall tvítugra í framhaldsskóla. Gera má ráð fyrir að hlutfall tvítugra í framhaldsskólum lækki á næstu árum í kjölfar styttingar náms til stúdentsprófs. Meðalaldur stúdenta sem ljúka fyrstu háskólagráðu hér á landi var tæpt 31 ár árið 2012 og var það hæsta meðaltal í OECD-ríkjunum. Að jafnaði eru nemendur í OECD-ríkjunum 31 og hálfs árs þegar þeir ljúka meistaragráðu en hér á landi er meðalaldurinn rúmlega 35 ár.

Á grunni þess sem hér var rakið er með frumvarpinu lögð áhersla á að hvetja til bættrar námsframvindu nemenda, m.a. með námsstyrkjum sem háðir eru kröfum um námsframvindu. Það er mikilvægt fyrir nemendur, háskólana og þjóðfélagið að nemendur stundi samfellt nám eftir því sem kostur er.

Þá eru það nokkur atriði varðandi fyrirkomulag námsaðstoðar. Í 9. gr. frumvarpsins er fjallað um hámark námsaðstoðar, áhrif aldurs og takmörkun vegna launaðs starfs. Við meðferð málsins komu fram nokkrar athugasemdir varðandi það að námsaðstoð verði einungis veitt til sjö ára náms eða sem samsvarar 420 ECTS-einingum. Meiri hlutinn áréttar að það fimm ára styrkjafyrirkomulag sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu sé í samræmi við kröfur sem settar eru fram í Bologna-yfirlýsingunni sem undirrituð var árið 1999 og íslensk menntastefna hefur tekið mið af síðan. Þá ber að hafa í huga að með því að undanskilja ákveðnar námsgreinar frá fimm ára styrkveitingartímabili skapast ójafnræði á milli námsmanna eftir því hvaða nám þeir kjósa að leggja stund á, sem er í andstöðu við þá meginhugmynd að styrkveitingar í gegnum námsaðstoðarkerfi skuli vera jafnar. Nokkur umræða skapaðist í nefndinni um að hámark námsaðstoðar mundi draga verulega úr möguleikum nemenda til að ljúka doktorsprófi. Fram kom á fundi nefndarinnar að tiltölulega lítill hluti doktorsnema þiggur námsaðstoð. Einnig var bent á að möguleikar doktorsnema til þess að afla sér styrkja hafa verið auknir á undanförnum árum með auknum fjárframlögum hins opinbera. Meiri hlutinn bendir á að samkvæmt Bologna-yfirlýsingunni, sem Ísland er aðili að, er fullt háskólanám á öllum námsstigum 480 ECTS-einingar, þ.e. 180 einingar fyrir bakkalárgráðu, 120 einingar fyrir meistaragráðu og 180 einingar fyrir doktorsgráðu, eða átta ár. Með hliðsjón af framangreindu telur meiri hlutinn rétt að bregðast við þeim athugasemdum sem fram komu við meðferð frumvarpsins og leggur til þá breytingu að hafi námsmaður fullnýtt rétt sinn til námsaðstoðar geti hann sótt um undanþágu til LÍN fyrir allt að 60 ECTS-einingum til viðbótar vegna doktorsnáms. Þannig verði námsaðstoðin bundin við sama fjölda eininga og mest gerist á hinum Norðurlöndunum.

Í 11. gr. frumvarpsins er fjallað um námsstyrk. Þar segir að námsstyrkur til framfærslu á skólaári sé 65 þús. kr. á mánuði miðað við fulla námsframvindu. Nokkrar athugasemdir komu frá umsagnaraðilum um að æskilegra væri að námsstyrkurinn væri bundinn við félagslega stöðu lántaka og að jafn styrkur óháð búsetu eða félagslegum eða efnahagslegum aðstæðum muni auka ójöfnuð meðal námsmanna. Nefndin ræddi þetta nokkuð. Mat meiri hlutans er að markmiði frumvarpsins, að tryggja námsmönnum framfærslu meðan á námi stendur óháð efnahag, sé náð, annars vegar með greiðslu styrkja og hins vegar með lánum þar sem mögulegt verður að fá lán allt að fullri framfærslu. Þannig verði tryggt að námsmenn geti stundað nám óháð efnahag. Þá er jafnframt tryggt að tekið sé mið af fjölskylduaðstæðum námsmanna við útreikning á framfærsluviðmiði. Meiri hlutinn bendir á að námsmenn eiga eftir atvikum rétt á bótagreiðslum, svo sem barnabótum og húsnæðisstuðningi, miðað við félagslegar aðstæður.

Í 12. gr. frumvarpsins er fjallað um almenn skilyrði og hámark námslána. Fram kemur í 2. mgr. að samanlögð heildarfjárhæð námslána sem sjóðurinn lánar hverjum einstaklingi til framfærslu og skólagjalda megi að hámarki vera 15 millj. kr. Þessi hámarksupphæð var nokkuð rædd og meiri hlutinn áréttar að 15 millj. kr. þak á námslán sem jafngildir tæplega 18 millj. kr. þegar tekið hefur verið tillit til styrkgreiðslnanna til námsmanns sé hæfilegt viðmið. Bendir meiri hlutinn á að nú taka rúmlega 99% námsmanna námslán sem eru undir þessum viðmiðunarmörkum og er því ljóst að mati meiri hlutans að þetta þak á hámarki lánsfjárhæðar muni hafa takmörkuð áhrif á námsmenn. Þá er rétt í þessu sambandi að árétta að 85% námslána einstaklinga eru nú undir 7,5 millj. kr.

Nokkuð var rætt um upplýsingagjöf LÍN til lántaka um stöðu námslána. Mikilvægt er að mati meiri hlutans að upplýsingagjöf til námsmanna verði bætt frá því sem nú er og þannig stuðlað að auknu gagnsæi og stutt við fjármálalæsi. Í því skyni er mikilvægt að lántaki geti gert sér grein fyrir rétti til lántöku, væntanlegri greiðslubyrði þeirra lána sem hann hyggst taka og/eða hefur tekið. Nauðsynlegt er að ákvarðanir námsmanns um hvort og hve hátt lán hann tekur byggist á traustum upplýsingum í samræmi við fyrirkomulag fyrirhugaðs náms og fjölskylduaðstæður. Meiri hlutinn leggur til að við 12. gr. frumvarpsins bætist við tvær nýjar málsgreinar sem kveði á um upplýsingaskyldu, þar á meðal að LÍN skuli gera einstaklingum kleift að áætla greiðslubyrði mögulegra lána með einföldum hætti. Þá skyldu mætti uppfylla með því að gera reiknilíkan aðgengilegt á vef.

Þá er það fyrirkomulag útborgunar námsaðstoðar.

Samkvæmt frumvarpinu fá nemendur almennt greidda út námsstyrki og framfærslu- og skólagjaldalán við lok missira þegar fyrir liggur að þeir hafi staðist kröfur um námsframvindu. Námsmaður getur samkvæmt frumvarpinu fengið greiddan vaxtastyrk sem ætlaður er til að bæta honum fjármagnskostnað vegna námsaðstoðar til framfærslu í samræmi við veitta námsaðstoð. Ábendingar bárust um að hagræði væri af því að breyta því fyrirkomulagi í þá átt að námsstyrkir og námslán yrðu greidd nemendum samhliða námi þeirra. Bent var á að þar sem námsaðstoð er greidd út eftir á er óhjákvæmilegt að hluti af fjárveitingum til LÍN renni beint til lánastofnana í gegnum vaxtastyrki en ekki til námsmanna. Til að bæta úr því leggur meiri hlutinn til að námsmönnum verði gert kleift að þiggja námsaðstoð með mánaðarlegum fyrirframgreiðslum á meðan nám stendur, hafi þeir lokið a.m.k. einu missiri af námi sínu. Meiri hlutinn bendir á að þessi breytingartillaga kalli á tilfærslu fjárveitinga til lánasjóðsins milli ára sem hefur einskiptiskostnað í för með sér. Verði frumvarpið lögfest þarf að taka tillit til þess við gerð fjáraukalaga. Þessi breyting sem meiri hlutinn leggur til hefur mikla þýðingu fyrir námsmenn og hefur verið baráttumál námsmanna alveg síðan síðasta heildarendurskoðun á lögum um námslán fór fram 1992. Verði þessi breyting að lögum eru það tímamót bæði fyrir námsmenn sjálfa og eins fyrir ríkissjóð þar sem fjármunir sem eytt er til námsaðstoðar nýtast betur og nýtast námsmönnum en ekki fjármálastofnunum.

Lánakjör og endurgreiðslur námslána.

Í 16. gr. frumvarpsins er fjallað um lánakjör. Nokkuð var rætt um þá grein og leggur meiri hlutinn til þá breytingu að vaxtaálag vegna væntra affalla verði fest í 0,5%. Þá leggur meiri hlutinn til að kveðið verði á um að vextir skuli að hámarki vera 2,5% og að þeir skuli ákvarðaðir í úthlutunarreglum hvers árs með hliðsjón af meðaltalslánakjörum sjóðsins. Með þeim hætti gefst tækifæri til að lækka vaxtaprósentuna ef lánasjóðurinn og ríkissjóður njóta betri lánakjara en staðreyndin er í dag.

Í 17. gr. er fjallað um endurgreiðslur. Með hliðsjón af upplýsingaskyldu lánveitanda leggur meiri hlutinn til að við upphaf endurgreiðslu námslána skuli LÍN gefa út greiðsluáætlun til lánþega sem tekur mið af árlegri meðalverðbólgu síðustu 12 mánaða.

Í 18. gr. frumvarpsins er fjallað um frestun endurgreiðslu. Þar kemur fram að LÍN er heimilt að veita frest á endurgreiðslum námslána í allt að 12 mánuði í senn vegna verulegra fjárhagserfiðleika af völdum náms, atvinnuleysis, veikinda, slyss, þungunar, umönnunar barna eða maka eða annarra sambærilegra aðstæðna sem koma skyndilega upp. Lántaki getur að hámarki fengið frestun á endurgreiðslum í 36 mánuði samanlagt. Meiri hlutinn bendir á að frumvarpið felur í sér veigamikla breytingu með takmörkunum á því hversu lengi er hægt að fá slíka frestun. Jafnframt er í 18. gr. frumvarpsins veitt heimild til að fresta allt að helmingi hverrar endurgreiðslu námslána sem veitt eru í allt að 60 mánuði vegna fyrstu kaupa lántaka á íbúðarhúsnæði. Það er mat meiri hlutans að takmörkun á reglum sem þessum geti bitnað á þeim sem eiga í verulegum fjárhagsörðugleikum vegna skyndilegra eða óvæntra atvika en takmörkunin eins og hún er sett fram geti orðið til hindrunar. Mikilvægt er að líta til aðstæðna einstaklinga hverju sinni í þessu tilfelli og því leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði sem kveði á um heimild til að fella niður afborganir af námsláni meðan lántaki á í fjárhagserfiðleikum sökum þess að hann er óvinnufær vegna slyss, sjúkdóms eða annarra sambærilegra orsaka, enda hafi lánið verið veitt áður en lántaki varð óvinnufær. Aðeins verði heimilt að fella niður afborganir sem eru á gjalddaga meðan lántaki á í fjárhagsörðugleikum af framangreindum orsökum.

Í 25. gr. frumvarpsins er fjallað um upplýsingagjöf til LÍN. Í umsögn Persónuverndar kom fram að það væri mat Persónuverndar að ákvæðið fæli í sér of víðtæka heimild til vinnslu persónuupplýsinga um lántaka, maka hans og fjölskyldu. Nauðsynlegt sé að afmarka með skýrum hætti hvaða upplýsingar séu nauðsynlegar fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna þegar lagt er mat á hvort lántaki eigi rétt á námsaðstoð eða ef hann óskar eftir undanþágu af einhverjum ástæðum. Einnig þarf að afmarka nánar hvenær, í hvaða tilvikum og frá hverjum LÍN er nauðsynlegt að afla upplýsinga um lántaka, og eftir atvikum maka hans, sem og veita fræðslu um þá vinnslu. Í ljósi þessa leggur meiri hlutinn til breytingar á ákvæðinu þannig að 25. gr. frumvarpsins verði skipt í tvær greinar þannig að skýrt sé skilið á milli upplýsingaskyldu umsækjanda annars vegar og upplýsingaskyldu stjórnvalda hins vegar.

Í 26. gr. frumvarpsins er kveðið á um þagnarskyldu. Meiri hlutinn leggur til ákvæði í samræmi við athugasemdir frá Persónuvernd.

Í 27. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ákvæði laga um staðgreiðslu opinberra gjalda eigi ekki við um greiðslur námsaðstoðar. Ríkisskattstjóri benti á að þegar gera eigi undanþágu frá skilum á staðgreiðslu beri að gæta vel að afmörkun undanþágunnar. Í því skyni væri hugtakið „námsaðstoð“ rýmra en tilefni væri til. Meiri hlutinn fellst á þessa ábendingu og leggur til að í stað orðsins „námsaðstoð“ komi „námsstyrkur“. Meiri hlutinn leggur að auki til þá viðbót við ákvæðið að LÍN skuli reglulega veita ríkisskattstjóra upplýsingar um fjárhæðir veittra námsstyrkja, enda styrkirnir eftir sem áður tekjuskattsskyldir. Mun sú framkvæmd auðvelda þeim námsmönnum sem afla tekna umfram skattleysismörk að upplýsa launagreiðendur um stöðu persónuafsláttar í gegnum rafrænt skattkort. Meiri hlutinn beinir því jafnframt til ráðuneytisins að kannað verði hvort lagabreyting þessi kalli á endurskoðun reglugerðar nr. 561/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu. Til að skýra þetta aðeins nánar þá snýst þetta í raun um það að lánasjóðurinn skilar ekki staðgreiðslu af greiddum námsstyrkjum en kemur upplýsingunum til skila þannig að þær fari inn á rafrænt skattkort einstaklinga sem þiggja námsstyrk. Ætti það að mestu að koma í veg fyrir að nemendur sem njóta styrkja skuldi skatt í árslok.

Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á gildistöku frumvarpsins því að þegar frumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir að það tæki gildi 1. ágúst. Meiri hlutinn telur ljóst að frumvarpið feli í sér kerfisbreytingar sem þarfnist undirbúnings og leggur því til að frumvarpið taki gildi 1. ágúst 2017.

Þá eru nokkrar breytingar á bráðabirgðaákvæðum; þar sem meiri hlutinn leggur til breytingu á gildistöku frumvarpsins eru gerðar breytingar á ákvæðum til bráðabirgða til samræmis við það.

Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var nokkuð rætt um möguleika á að nota endurgreiðslukjör námslána sem hvata fyrir fólk til þess að setjast að og starfa á dreifbýlum svæðum sem eiga í vök að verjast. Meiri hlutinn bendir á að í gildandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017 er tillaga um sértækar aðgerðir á svæðum þar sem fólksfækkun er talin líkleg. Þar segir að kanna eigi möguleika á því að námslán íbúa tiltekins svæðis verði afskrifuð um ákveðið hlutfall á hverju ári. Rökin fyrir þessari tillögu eru að þetta var talin heppileg aðgerð til að auka fjölbreytni atvinnulífs á svæðum sem eiga undir högg að sækja og til að auka líkur á að fá sérfræðimenntað fólk til starfa. Þá var einnig litið til þess að þessar aðgerðir gætu verið hvati fyrir fólk sem vill búa á landsbyggðinni að námi loknu að hasla sér þar völl. Meiri hlutinn bendir á að hliðstætt fyrirkomulag gildir í Noregi þar sem hægt er að sækja um niðurfellingu á allt að 10% námslána á ári ef viðkomandi býr og starfar í nyrstu héruðum landsins. Þá stuðla Norðmenn einnig að búsetu tiltekinna starfsstétta, t.d. lækna og kennara, í dreifbýlustu héruðum landsins með sérstökum reglum um endurgreiðslu námslána.

Meiri hlutinn leggur til að við frumvarpið bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að ráðherra skuli skipa fimm manna starfshóp sem hafi það hlutverk að útfæra tillögu um leiðir til að koma á hvatakerfi í gegnum skattkerfið við endurgreiðslu námslána, til stuðnings byggðastefnu. Meiri hlutinn leggur annars vegar til að hópurinn útfæri hvatakerfi fyrir háskólamenntað fólk til að setjast að á þeim svæðum sem eiga helst undir högg að sækja og hins vegar skoði hvort nýta megi sambærilegt kerfi til að hvetja námsmenn til að afla sér menntunar sem fyrirsjáanlegur skortur er á í samfélaginu.

Mat meiri hlutans er að þegar ný lög um námslán og námsstyrki koma til framkvæmda gætu komið upp vafaatriði varðandi rétt nemenda sem njóta námsstyrkja frá LÍN og gætu jafnframt átt rétt á jöfnunarstyrk samkvæmt lögum um námsstyrki. Meiri hlutinn leggur til nýtt ákvæði til bráðabirgða sem kveður á um að ráðherra skuli skipa fimm manna starfshóp sem hafi það hlutverk að skoða samspil laga um námsstyrki, nr. 79/2003, og laga um námslán og námsstyrki. Hópurinn skal hafa það að markmiði að allir framhaldsskólanemendur og nemendur í grunnnámi á háskólastigi sem ekki geta stundað sambærilegt nám frá lögheimili hér á landi eða öðrum jafngildum dvalarstað, njóti ferðastyrkja óháð því hvort þeir nýta sér dvalarstyrki samkvæmt lögum um námsstyrki eða námsaðstoð LÍN.

Meiri hlutinn leggur til að tillögum verði skilað til ráðherra eigi síðar en 1. mars 2017 eða með góðum fyrirvara fyrir gildistöku laganna.

Þá hefur verið farið yfir helstu breytingartillögur meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Mig langar í lokin að draga saman helstu atriði sem mér finnast mikilvæg varðandi frumvarpið.

Mat meiri hlutans er að sú kerfisbreyting sem frumvarpið felur í sér muni hvetja til bættrar námsframvindu, auka gagnsæi og samræmi við hin Norðurlöndin. Þá leggur meiri hlutinn áherslu á að þessar kerfisbreytingar fela í sér aukið gagnsæi þar sem námsaðstoð skiptist í námslán og námsstyrk og auðveldara verði að bregðast við þörfum mismunandi hópa í samfélaginu, þ.e. breytingin skapar ný tækifæri til að bregðast við þörfum þessara hópa. Í ljósi þessa er til dæmis lagt til að sérstök skoðun fari fram um hvernig mæta mætti byggðasjónarmiðum.

Meiri hlutinn telur að það nýmæli að nemendum sem stunda starfsnám á framhaldsskólastigi bjóðist námsstyrkur geti orðið mikill lyftistöng fyrir iðn- og starfsnám á Íslandi. Framfærslulán verða hækkuð í 100%, sem er mikið framfaraskref, en þessar breytingar auka líkur á að nemendur þurfi ekki að vinna með námi og þar með er meiri möguleiki á að auka skilvirkni í náminu. Meiri hlutinn áréttar að námsmenn geta átt rétt á greiðslum úr ýmsum bótakerfum meðan á námi stendur og geta þær einnig haft áhrif á lántökuþörf námsmanna þegar kemur að námsaðstoð ríkisins. Meiri hlutinn bendir sérstaklega á nýsamþykkt lög um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, en sú löggjöf felur í sér að grunnfjárhæðir bóta hækka og bótafjárhæðir og frítekjumörk ráðast af fjölda heimilismanna óháð aldri. Meiri hlutinn leggur áherslu á rétt lántaka til að fá haldgóðar upplýsingar um rétt til lántöku og væntanlega greiðslubyrði og að námsmenn geti þannig tekið upplýstar, meðvitaðar ákvarðanir í fjármálum til lengri og skemmri tíma. Mikilvægt er að möguleiki gefist á láni fyrir fullri framfærslu en að sama skapi er mikilvægt að námsmenn geti valið að taka bara hlutalán í samræmi við þarfir og áætlaða endurgreiðslugetu að námi loknu.

Virðulegi forseti. Þá telur meiri hlutinn að með þeirri breytingu sem hann leggur til, að námsmönnum verði gert kleift að þiggja námsaðstoð samhliða námi en ekki einungis eftir á, sé brugðist við einu helsta baráttumáli hagsmunasamtaka námsmanna á síðustu árum og einum helsta galla á kerfinu síðustu árin, námsmönnum til mikilla hagsbóta.

Þá vill meiri hlutinn árétta að frumvarpið felur ekki í sér íþyngjandi breytingar á námslánakerfi íslenskra námsmanna enda mun greiðslubyrði mikils meiri hluta námsmanna lækka og heildarskuldsetning einstakra námsmanna lækka sömuleiðis.

Þá bendir meiri hlutinn á að ríkissjóður mun leggja til allt að 2,3 milljarða króna árlega til viðbótar við núverandi fjárframlag til lánasjóðsins í því skyni að bæta kjör námsmanna. Þetta er eins og frumvarpið var lagt fram. Því til viðbótar felur breytingartillaga meiri hlutans um að námslán skuli greidd út samhliða námi í sér tilfærslu á kostnaði á milli ára upp að 4,5 milljörðum. Því er fráleitt að halda fram að námsmönnum sé ætlað að borga aukinn kostnað sem hlýst af kerfisbreytingunni.

Auk þeirra breytinga sem gerð er grein fyrir að framan leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar lagatæknilegs eðlis sem ekki þarfnast útskýringa. Að öllu framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali og gerð hefur verið grein fyrir hér.

Undir álitið rita hv. þingmenn Haraldur Einarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Unnur Brá Konráðsdóttir formaður, og Líneik Anna Sævarsdóttir, framsögumaður málsins.



[19:42]Útbýting:

[19:43]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég er framsögumaður að áliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar í þessu stóra og umdeilda og viðamikla máli. Nefndarálitinu fylgir frávísunartillaga. Við leggjum til í lok álitsins að frumvarpinu verði vísað aftur til ráðherra og honum falið að efna til þverpólitísks samráðs um nýtt námslánakerfi og nýtt námsstyrkjakerfi. Ég vil taka skýrt fram í upphafi að við sem stöndum að þessu áliti og leggjumst gegn frumvarpinu styðjum að það verði komið á blönduðu kerfi námsstyrkja og námslána. Ég held að það sé samhljómur meðal allra flokka, meðal allra þingmanna hér á þingi, að það sé skynsamlegt að gera það.

Því er það með vissri sorg í hjarta, ákveðnum trega, sem maður stendur hér og verður einfaldlega eftir að hafa kynnt sér þetta mál, eftir efnislega yfirferð yfir það, að lýsa því yfir að þetta frumvarp er alveg ómögulegt. Það er alveg meingallað. Það gengur á svig við svo margar grundvallarhugsjónir, að mínu mati og okkar í minni hlutanum, þegar kemur að uppbyggingu menntakerfisins á Íslandi að ekki er nokkur leið að samþykkja það. Þetta er sorglegt. Eins og ég segi held ég að það sé algerlega þverpólitískur stuðningur við að koma á blönduðu kerfi námslána og námsstyrkja. Ég held að það sé algerlega þverpólitískur stuðningur við það líka að koma loksins til móts við það áratugagamla baráttumál stúdenta að afnema t.d. eftirágreiðslur. Það er samhljómur um eitt og annað og mjög stóra hluti varðandi námslánakerfið í þessum sal. Þess vegna skil ég ekki af hverju hæstv. menntamálaráðherra gerði ekki eins og við höfum gert á þessu kjörtímabili í stórum, veigamiklum málum eins og t.d. endurskoðun laga um útlendinga, útlendingafrumvarpið, og efndi til þverpólitísks samráðs allra flokka hér á Alþingi um nýtt námslánakerfi. Við gætum þá setið hér og greitt atkvæði um nýtt framsækið námslánakerfi, sambland námsstyrkja og námslána, sem virti grundvallaratriði eins og jafnrétti fólks til náms óháð efnahag. Það hefði verið æðislegt. Vonandi lærir hæstv. ráðherra og aðrir í stjórnarmeirihlutanum það af þessu að það er alltaf betra að efna til samráðs. Sérstaklega þegar það eru vísbendingar um að það sé sterk þverpólitísk samstaða um ákveðin grundvallaratriði.

Hvað er að þessu frumvarpi? Stóra, veigamikla atriðið er að hér er verið að höggva að því grundvallaratriði að hér ríki jafnrétti til náms óháð efnahag. Það eru engir nýir, meiri peningar settir inn í námslánakerfið samkvæmt frumvarpinu. Það er ekki grundvallarhugsunin hér. Hér á að spila með þá peninga sem fyrir hendi eru. En þeir eru færðir til. Nú á að veita öllum námsstyrki, þar á meðal námsmönnum sem hingað til hafa ekki þurft aðstoð. Um helmingur stúdenta þiggur ekki námsaðstoð einhverra hluta vegna. Stór hluti þeirra væntanlega vegna þess að hann þarf hana ekki. Nú á að veita öllum þessum stúdentum námsstyrk að upphæð 65 þús. kr. á mánuði fyrir skatt. Gott og vel. Hverjir greiða fyrir þetta? Það eru þeir stúdentar sem þurfa námslán. Vextir á námslánum verða hækkaðir um 200%. Úr 1% í 3%. Þannig á að fjármagna styrkjakerfið. Þarna liggur hið bersýnilega óréttlæti í frumvarpinu. Þeir sem eru í slæmri félagslegri stöðu, eins og t.d. einstæðir foreldrar, svo ég tali nú ekki um einstæða foreldra sem vilja fara í langt nám, jafnvel doktorsnám, og þurfa þess vegna að taka mikið lán, munu þurfa að borga. Borga meira. Til þess að kosta það að allir geti fengið námsstyrki.

Það hefði verið svo miklu nær að hanna kerfið þannig að öllum byðust hagstæð lán. Jafnrétti til náms væri tryggt þannig að öllum sem hyggja á nám á Íslandi byðust hagstæð lán á góðum kjörum. Síðan mundum við nota styrkina sem við mundum innleiða í þetta kerfi til þess að jafna félagslega stöðu, til þess að styrkja metnaðarfulla stúdenta til árangurs. En það er ekki gert í frumvarpinu. Bara út af þessu grundvallaratriði, sem vitaskuld var ekki hægt að breyta við umfjöllun nefndarinnar því að það liggur til grundvallar frumvarpinu, er ekki hægt að samþykkja þetta.

Síðan er það ákveðin stúdía sem maður fer með út í lífið, ákveðinn lærdómur, hvernig maður uppgötvaði það smám saman í vinnu nefndarinnar að það var verið að blekkja með tölum þegar frumvarpið var lagt fram. Hér var trommað fram með frumvarpið og sagt að þetta væri svo æðislegt kerfi að 90% stúdenta mundu greiða minna í afborganir í framtíðinni. Þrátt fyrir að verið væri að afnema algerlega tekjutengingar á afborgunum af námslánum mundu 90% stúdenta greiða minna. Það tók smá tíma fyrir okkur í minni hlutanum að átta okkur á hvað lá til grundvallar þessari fullyrðingu. Það var alveg ótrúlegt þegar það kom í ljós að upplifa hversu óskammfeilinn blekkingaleikurinn var. Forsenda þessarar fullyrðingar er sú að stúdentar muni í nýja kerfinu einhverra hluta vegna ekki nýta sér fullan lánsrétt. Þeir muni í nýja kerfinu ákveða að bætur sem þeir eiga rétt á, eins og barnabætur og húsaleigubætur og mögulega aðrar bætur, meðlag, muni koma til frádráttar námsláninu krónu fyrir krónu. Þetta liggur til grundvallar. Að skyndilega muni stúdentar ákveða að gera þetta, þrátt fyrir að einungis 18% stúdenta í könnunum hingað til lýsi því yfir að námslán séu nægjanleg. Stúdentar eru nú þegar, þegar við á, að þiggja styrki og bætur. Það er algerlega órökstutt af hverju þeir ættu í nýju kerfi að taka lægri lán vegna þess að þeir þiggja bætur. Þeir gera það ekki núna.

Hvernig lítur þá dæmið út ef við skoðum tilvik námsmanna í þröngri, félagslegri stöðu sem vilja taka full námslán í nýja kerfinu eins og þeir hafa verið að gera í gamla kerfinu? Dæmið lítur þá þannig út að einstætt foreldri með tvö börn sem tekur fullt námslán núna í því kerfi sem við búum við núna og þiggur bætur mun þurfa, samkvæmt þeim forsendum sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar og ráðuneytið leggja upp með, þurfa að sætta sig við u.þ.b. 200 þús. kr. minna ráðstöfunarfé á mánuði. 200 þús. kr. minna á mánuði í námi til þess að forsendur fullyrðinga meiri hlutans um minni greiðslubyrði gangi upp. Það er sem sagt gert ráð fyrir því, algerlega órökstutt, að stúdentar jafnvel í mjög þröngri stöðu eins og einstætt foreldri með tvö börn séu reiðubúnir allt í einu að taka 200 þús. kr. minna á mánuði til að framfleyta sér.

Auðvitað ef menn leggja upp með svona forsendu, að fólk verði allt í einu reiðubúið til að gera þetta, fá þeir út að viðkomandi muni borga minna í afborganir af námslánum í framtíðinni. Það er vegna þess að gert er ráð fyrir að viðkomandi taki miklu lægri námslán. En það er ekki rökstutt. Þessu er bara kastað fram. Þegar maður skoðar frumvarpið með þeim augum og gerir ráð fyrir að þorri stúdenta muni nýta lántökurétt sinn til fulls, nógu naumt er nú skammtað samt, kemur auðvitað í ljós að það má leiða að því mjög sterkar líkur að meginþorri stúdenta muni borga miklu meira í afborganir af námslánum í framtíðinni. Það var nú svolítið til að hleypa kergju í þó umdeilt mál að uppgötva í miðjum klíðum að þetta voru forsendur útreikninganna. Þær voru svona lélegar. Og ekkert gert af hálfu meiri hlutans til að reyna einhvern veginn að útskýra þetta, af hverju var lagt upp með svona blekkingaleik.

Auðvitað blasti það við öllum í upphafi að það hlýtur að bitna á meginhugsun um jafnrétti til náms óháð efnahag að ætla að færa öllum námsstyrki en hækka vextina á þeim sem þurfa lán. Það liggur ljóst fyrir að þeir sem þurfa hæstu lánin eru þeir sem eru í erfiðri félagslegri stöðu, þeir sem hafa lítið á milli handanna. Líka þeir sem ætla í langt, metnaðarfullt nám. Það eru líka þeir sem þurfa að borga skólagjöld og fá lán fyrir þeim sem verða takmörkuð, reyndar samkvæmt frumvarpinu. Þeir munu þurfa að borga hærri vexti, þeir munu þurfa að greiða fyrir þetta ævintýri. Þar sem þetta er uppleggið er augljóst að ekki er hægt að styðja frumvarpið ef maður aðhyllist einhverjar hugmyndir um jöfnuð og lágmarksréttlæti í námslánakerfinu. Þar að auki gef ég mér í þessari afhjúpun á þeim blekkingaleik sem liggur til grundvallar frumvarpinu að við séum að tala um einstætt foreldri með tvö börn sem útskrifast, segjum 27 ára. Ef viðkomandi útskrifast hins vegar 37 ára eftir fimm ára nám og á kannski ekki von á háum framtíðartekjum, hefur kannski menntað sig til starfa hjá stórum stéttum á vegum hins opinbera sem njóta ekki allt of mikilla tekna, þá verður þetta nánast ókleifur múr því að á sama tíma og verið er að afnema tekjutengingu afborgana er verið að innleiða aldurstengingu afborgana. Lagt er upp með það í frumvarpinu að allir eigi að vera búnir að borga sín námslán fyrir 67 ára aldur. Það þýðir að sá sem útskrifast 37 ára en ekki 27 ára þarf að greiða lánið sitt á 30 árum en ekki 40. Auðvitað hækkar þá afborgunin sem því nemur. Hér er verið að gera fólki alveg rosalega erfitt fyrir að fara í nám síðar á lífsleiðinni, gera því sérstaklega erfitt fyrir ef það er í erfiðri félagslegri stöðu, gera því einstaklega erfitt fyrir ef það skyldi nú vera í erfiðri félagslegri stöðu og ætla að fara í metnaðarfullt langt nám. Áherslurnar eru allar gegn því grundvallarprinsippi að varðveita jafnrétti til náms óháð efnahag.

Það er ekki nokkur leið að styðja frumvarp af þessu tagi og það er ágætt að fá tækifæri til að lýsa í hverju andstaðan felst. Það er ekkert gaman að fá yfir sig yfirlýsingar utan úr bæ, í þessu tilviki frá vissu forustufólki stúdentahreyfinganna, með ásökunum um að við í minni hlutanum séum að reyna að stöðva þetta mál út af einhverri pólitískri refskák í þinglok. Þetta er ekki þannig. Línurnar í þessu máli varða algjörlega grundvallarágreining í pólitík. Ég greini þetta þannig að ríkisstjórnin skilji ekki hvað felst í hugtakinu jöfnuður. Hún fattar ekki hvernig á að reyna að jafna stöðu fólks. Hún heldur að það sé jöfnuður að láta alla hafa námsstyrk upp á 65 þúsund kall. Hún heldur að það sé jöfnuður. En það er auðvitað ekki jöfnuður ef námsstyrkurinn er greiddur því verði að fólk í vondri félagslegri stöðu þurfi að greiða fyrir það. Og þetta er allt á sömu bókina lært hjá ríkisstjórninni. Menn leggja lykkju á leið sína til að reyna á einhvern hátt að hjálpa þeim sem má halda fram með sterkum rökum að þurfi enga sérstaka hjálp, eru bara að gera góða hluti, á kostnað þeirra sem í raun og veru þurfa hjálp.

Ef við lítum á dæmið þannig að fólk muni fullnýta rétt sinn til námslána og taka full námslán ásamt námsstyrknum á námsferlinum eins og er alveg eðlilegt að gera ráð fyrir, hvaða hópur kemur þá vel út úr þessu frumvarpi? Hvaða hópur mun njóta þess að borga minna á mánuði í afborganir af námslánum í framtíðinni? Einstæðingar sem búa í foreldrahúsum. Þeir koma vel út úr þessu. Það er áherslan. Af hverju? Af hverju er það áherslan? Af hverju erum við ekki að reyna að hjálpa þeim sem búa við kröpp kjör, þrönga stöðu? Af hverju leggjum við ekki upp með frumvarp þar sem við reynum t.d. að hjálpa þeim sem koma utan af landi og eiga erfiðara með að finna húsnæði í borginni og þurfa jafnvel að borga miklu meira því að þeir koma utan af landi til að sækja sér menntun í höfuðborginni? Af hverju reynum við ekki að hjálpa fólki sérstaklega sem er með börn í námi? Af hverju reynum við ekki að hjálpa fólki sem ákveður kannski síðar á lífsleiðinni en eðlilegt er miðað við meðaltal að sækja sér menntun? Ákveður jafnvel að endurmennta sig eftir eitthvert mikið áfall á lífsleiðinni? Af hverju erum við ekki með þannig frumvarp? Frumvarp sem hjálpar þeim sem vilja virkilega leita sér langtímamenntunar, doktorsnáms í góðum háskólum erlendis, og þurfa aðstoð til þess? Af hverju erum við að setja öllu þessu fólki slíkar skorður? Hver er pælingin með því? Ég fatta þetta ekki alveg.

Þessar skorður eru allar reistar svo allir geti fengið þennan námsstyrk upp á 65 þúsund kall. Það er æðislega fínt að dreifa peningum með þeim hætti. En hann er bara greiddur þessu verði, þessi styrkur. Við þurfum að greiða fyrir þennan styrk með alls konar fáránlegum takmörkunum sem eiga ekkert erindi inn í eðlilegt og metnaðarfullt námslánakerfi þar sem reynt er að tryggja jafnrétti til náms og að hjálpa stúdentum að leita sér metnaðarfullrar menntunar. Bara það að afnema tekjutengingu á afborgunum námslána hlýtur að leiða til þess að við reynum að beina fólki í nám sem telst samkvæmt einhverjum skammtímamælikvörðum vera arðbærara en annað. Það hlýtur bara að vera. Ég get ekki séð annað. Og meira segja komu umsagnir frá fulltrúum úr atvinnulífinu sem fögnuðu því að stúdentum væri beint í nám sem væri arðbært. Þessi hugsun gengur líka algerlega gegn því sem ég tel að eigi að einkenna gott og réttlátt námslánakerfi. Námslánakerfið á að stuðla að fjölbreytni. Það á að hvetja fólk til að leita sér menntunar samkvæmt áhugasviði sínu, samkvæmt eigin metnaði. Það á að hvetja og aðstoða fólk til að elta sína drauma, virkja hæfileika sína, algerlega óháð því hvort viðkomandi einstaklingar sjái fyrir sér að þeir verði eitthvað rosalega ríkir á að fara í þetta nám.

Hvaða hópur er það t.d. sem kemur einstaklega illa út úr þessu frumvarpi? Listnemar. Listnemar ríða nú ekki oft feitum hesti frá mánaðarlegum launaseðli og listamenn í samfélaginu þó að þeir skapi mikil verðmæti. Þeir þurfa að borga skólagjöld, oft himinhá. Okkar færustu listamenn sem komast inn í frábæra listaháskóla erlendis þurfa að standa straum af miklum kostnaði við skólagjöld og hér heima líka, í Listaháskóla Íslands. Nú á að takmarka lán til skólagjalda. Þetta er augljóslega hópur sem mun þurfa lán til skólagjalda en mun þurfa að borga meira því að vextirnir verða hærri.

Hér er bara verið að miða á þá sem eru í slæmri fjárhagslegri stöðu. Gagngert, markvisst, er með frumvarpinu verið að reyna að hafa meira fé af fólki sem er í slæmri stöðu fjárhagslega.

Svo er annað. Frumvarpið er svo augljóslega samið af aðilum innan Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Það eitt og sér er gagnrýnisvert. Lánasjóðurinn sjálfur, LÍN, á ekkert að vera að semja frumvarp um LÍN. Frumvarp um LÍN á að vera samið af okkur sem sitjum hérna í þingsal, okkur sem höfum hugsjónir í þessu máli, sjáum fyrir okkur námslánakerfi sem grundvallarfjárfestingu í menntun. En þetta frumvarp ber þess svo rosalega vitni að það er samið af LÍN til að verja sína þröngu hagsmuni. Ég ætla að rekja það aðeins.

Hvarvetna í frumvarpinu eru LÍN faldar allt of miklar heimildir til að útfæra reglur í úthlutunarreglum, útfæra veigamikil atriði sem kunna að vera umdeilanleg í úthlutunarreglum. Allt of mikið vald er fært stjórn LÍN. Svo er það líka þannig að LÍN fær nánast skotleyfi á þá sem munu skulda LÍN í framtíðinni. Kröfur LÍN njóta alveg ótrúlegrar stöðu í kröfuumhverfinu á Íslandi. LÍN getur án sátta og án dóms gert aðför að skuldurum í vanskilum. LÍN getur enn þá krafist ábyrgðarmanna, sem er ótrúlegt, ef ástæða þykir til. Meiri hlutinn hafnaði því algerlega að setja í lög að ábyrgðir á námslánum, sem eru þó nokkrar enn þá í kerfinu þó svo að Alþingi hafi ákveðið að ábyrgðir á námslánum skyldu afnumdar að meginreglu, eigi ekki að erfast. Sem er ótrúlegt. Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur á undanförnum árum gefið í í innheimtu gagnvart erfingjum ábyrgðarmanna, jafnvel án þess að láta þá vita. Lánasjóður íslenskra námsmanna er uppvís að því að fara ekki eftir lögum um ábyrgðarmenn, beita einstaklega ómanneskjulegum og harðneskjulegum aðferðum í innheimtu, neita að fara eftir samkomulagi fjármálastofnana um eðlilega viðskiptahætti þegar kemur að ábyrgðarmönnum. Og ákvað svo sem sagt að ábyrgðir skyldu erfast og nýta sér þar með glufu í lögunum. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar ætlar ekkert að taka á þessu. Hann ætlar að leyfa lánasjóðnum að halda áfram á þessari braut þrátt fyrir að námslán séu þannig að þau erfast ekki frá lántaka til erfingja. En ábyrgðin á að erfast frá ábyrgðarmanni til erfingja. Þetta er stórkostlegt óréttlæti. Umboðsmaður skuldara kom líka á fund nefndarinnar og rakti það að hátt í þriðjungur þeirra sem leitar til umboðsmanns skuldara er í vandræðum vegna námslánaskila. Og það er enn gefið í, það á ekki að leyfa neinar afskriftir af námslánum gagnvart þeim sem eru í erfiðri stöðu heldur gefa í og kröfur vegna námslána eiga ekki að fyrnast þótt það komi til gjaldþrotaskipta. Það á bara að elta fólk með þessar skuldir. Meira að segja var lagt upp með það í frumvarpinu að jafnvel þó að fólk yrði fyrir verulegum áföllum í lífinu sem gersamlega breyta öllum forsendum til lífsafkomu átti það bara að fá að fresta afborgunum í þrjú ár. Svo átti fólk að borga. Jafnvel þótt það gæti ekkert borgað. Blessunarlega ákvað ráðuneytið og meiri hlutinn þó að breyta þessu. Það má í þeim tilvikum þar sem greinilega blasir við að viðkomandi hefur orðið fyrir rosalegu áfalli að fella námslán niður. En að öðrum kosti hefur lántakinn og ábyrgðarmenn og jafnvel erfingjar þeirra alltaf minni og minni rétt gagnvart þessari stofnun.

Við í minni hlutanum áréttum það að við viljum setja inn ákvæði þar sem LÍN er gert skylt að þurfa að semja, leita sátta, við lántakendur áður en kemur til aðfarar, áður en lán er gjaldfellt. Er það ekki bara eðlilegt? Við viljum líka að LÍN sé gert óheimilt að selja þessa innheimtuþjónustu til utanaðkomandi aðila, setja í lögfræðiinnheimtu. Þessar kröfur njóta það sterkrar stöðu að það ætti að vera óheimilt fyrir lánasjóðinn að útselja innheimtu á þessum kröfum. Um það getur ekki orðið sátt. Og sérstaklega getur ekki orðið sátt um þessar harðneskjulegu innheimtuaðferðir lánasjóðsins núna þegar við blasir og það er algerlega innprentað í frumvarpið að þeir sem munu verða í mestum vandræðum með að borga í framtíðinni eru þeir sem eru í þröngri félagslegri stöðu. Þeir sem þurfa að taka há lán. Þessi boðaða innspýting í harðneskju í innheimtuaðgerðum lánasjóðsins rímar alveg ótrúlega ömurlega við þessa áherslu að gera þeim sem eru í erfiðri félagslegri stöðu sérstaklega erfitt fyrir. Það leggst einhvern veginn allt á eitt í ómanneskjulegheitum. Það er eins og það sé alveg sérstakt markmið að gera þetta að ómanneskjulegu kerfi.

Svo er ótrúlegt að eina félagslega ívilnunin sem er þó skrifuð inn í frumvarpið er sú að afborganir af námslánum falla niður í ákveðinn tíma þegar fólk er að kaupa sína fyrstu íbúð. Það er eina ívilnunin. Það hefur verið rakið í öðrum málum hér að þeir sem geta keypt sína fyrstu íbúð fljótlega eftir nám eru fyrst og fremst þeir sem hafa mjög mikið milli handanna, eiga pening og eiga fyrir fyrstu útborgun. Eru einfaldlega í álnum þannig að þeir geti keypt sér íbúð. Af hverju þarf að ívilna þeim sérstaklega í námslánakerfinu? Sérstaklega í frumvarpi þar sem þeim sem augljóslega ætti að ívilna á einhvern hátt, fólki utan af landi, fólki í löngu námi, fólki í erfiðri félagslegri stöðu, er ekki ívilnað. Þá er þetta eini hópurinn sem á að njóta einhverrar ívilnunar. Stundum finnst manni bara eins og það sé verið að grínast með þessu frumvarpi. Það er ótrúlega sorglegt að klúðra þessu verkefni sem er að koma á réttlátu, sanngjörnu, framsýnu námslánakerfi á Íslandi. Það er sérstaklega sorglegt í ljósi þess að það eru, eins og ég rakti í upphafi máls míns, vægast sagt mjög sterkar vísbendingar um að það sé þverpólitísk samstaða hérna inni um að innleiða kerfi sem er sambland námslána og styrkja. Það hefði verið svo innilega hægt í þessu máli með þverpólitísku samtali eins og við gerum í öðrum málum að koma inn í þingið með námslánafrumvarp sem sátt væri um.

En því miður er það ekki. Og ég vona að ég hafi rakið það að ástæðurnar fyrir því að við í minni hlutanum getum á engan hátt fellt okkur við þetta frumvarp eru ekki byggðar á pólitískri refskák, þær eru byggðar á algeru grundvallaratriði í pólitík, grundvallarmun á flokkunum í því hvernig eigi að skilja hugtakið jöfnuð, skilja hugtakið félagslegt réttlæti, hverjum á að hjálpa, hverjum á ekki endilega að hjálpa og þar fram eftir götunum. Gallarnir á frumvarpinu liggja algerlega í grundvallaratriðunum. Því er ekki hægt að samþykkja það og því fer það ekkert lengra. En ég vona að ný ríkisstjórn muni efna til samráðs um nýtt námslánakerfi sem þörf er á og við reynum þá að horfa jákvætt á hlutina og nota það sem veganesti sem hefur farið fram í allsherjar- og menntamálanefnd á undanförnum vikum því að vissulega hefur það verið gagnlegt og upplýsandi.



[20:12]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni fyrir yfirferð um álit minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar. Það vekur þó nokkra furðu að ekki skuli koma fram í álitinu hugmyndir um með hvaða hætti mætti bæta frumvarpið öðruvísi en bara að efna til frekara samráðs.

Mig langar að byrja á að spyrja þingmanninn út í það sem rakið er á bls. 47–49 í greinargerð með frumvarpinu, eða athugasemdum, um kostnaðaráhrifin. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Mesta óvissan við mat á auknum útgjöldum úr ríkissjóði snýr að styrkveitingum til þeirra sem eiga rétt á námsaðstoð. […] Gera verður ráð fyrir að fjölgun námsmanna sem mundu nýta sér styrki í nýju kerfi verði nokkuð meiri og er í frumvarpinu miðað við að 50–60% námsmanna sem ekki njóta fyrirgreiðslu sjóðsins í dag mundu nýta sér námsstyrk. Er þá tekið mið af því að talsverður hluti þessa hóps er í hlutanámi eða uppfyllir ekki kröfur um lágmarksnámsframvindu. Þannig er gert ráð fyrir að allt að tvöfalt fleiri námsmenn njóti fyrirgreiðslu sjóðsins en í núverandi fyrirkomulagi.“

Síðan kemur fram á bls. 48 að miðað sé við að útgjöld ríkissjóðs geti aukist um 1,3–2 milljarða og allt að 2,3 milljörðum verði það 60% námsmanna sem ekki eru á lánum í dag sem muni nýta sér styrkinn. Vil ég einfaldlega spyrja þingmanninn, því að mér heyrðist á máli hans að hann áliti að ekki væri verið að bæta fjármagni inn í stuðninginn, hvort hann sé ekki sammála að gert sé ráð fyrir því í frumvarpinu að það gætu orðið 2,3 milljarðar.



[20:14]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Í fyrsta lagi með að við höfum ekki talað um hvernig megi bæta frumvarpið. Gagnrýni okkar snýr algerlega að grundvallaratriðum, sem ég hef svo sem skilning á að meiri hlutinn vilji ekki breyta. Það er m.a. þetta, að verið sé að hækka vexti á námslánum og þar með auka kostnað þeirra sem þurfa þau til að reyna að fjármagna námsstyrkjakerfið. Því þarf að breyta. Við spurðum líka fyrir nefndinni: Var t.d. hugleitt að afnema ekki tekjutenginguna af afborgununum? Breyta henni hugsanlega eitthvað, en reyna að hafa hana ofan á styrkjakerfið? Það hefði kannski verið hægt að koma til móts við okkur í minni hlutanum með því. Líka að lækka vextina á þessum námslánum og setja þar með inn meiri pening. En ekki var orðið við því. Það var eitt og annað sem varðar grundvallaratriði í þessu máli sem hefði mögulega verið hægt að breyta en var ekki vilji til.

Varðandi spurninguna: Er verið að setja 2 milljarða þarna inn ef allir nýta sér námsstyrkinn? Það verður að setja fyrirvara við þá fullyrðingu að 2 milljarðar verði settir inn, vegna þess að í forsendum frumvarpsins, eins og ég rakti held ég nokkuð skilmerkilega í ræðu minni, er gert ráð fyrir að fólk muni ekki taka full námslán. Að veigamiklir hópar í námslánakerfinu, hérna eru hópar sem þurfa mikið til að framfleyta sér eins og einstæðir foreldrar, muni ekki taka full námslán. Gert er ráð fyrir því í forsendum frumvarpsins að stúdentar almennt muni ekki taka full námslán af því að þeir fá þennan styrk og vegna þess að þeir verði skyndilega reiðubúnir að láta bætur koma til frádráttar námslánum. Krónu fyrir krónu. Þetta er órökstutt. Ekki var farið yfir það af hverju þetta ætti að gerast. Því er ekki hægt að fullyrða á nokkurn hátt hver heildarkostnaðurinn við þetta kerfi allt saman verður.



[20:16]
Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Álit mitt er að það muni klárlega koma til viðbótarfjármagn inn í kerfið til þess að mæta styrkjunum. Gerð er mjög vel grein fyrir því á bls. 47–49.

Þá langar mig að beina einni spurningu til þingmannsins. Hvernig telur framsögumaður minni hluta mögulegt að greina á milli þeirra sem sanngjarnt er að njóti styrksins og þeirra sem ekki ættu að njóta hans? Eru það einhver tekjuviðmið? Er það hvar menn búa? Eitthvað slíkt?

Síðan langar mig að spyrja þingmanninn út í þær staðreyndir sem eru raktar í athugasemd með frumvarpinu um upphæðir námslána þeirra sem nú hafa tekið námslán. Það eru í raun þær upplýsingar sem koma fram á þessum blaðsíðum og í töflu 4 sem segja okkur mest um að það er ekki nema lítill hluti námsmanna á hverjum tíma sem fullnýtir það þak sem nú er verið að setja á námslánin. Dæmin sem reiknað var með í þeim dæmum sem við skoðuðum á fundum nefndarinnar og rakin eru í greinargerð með frumvarpinu eru dæmi sem byggja á upplýsingum úr lánasafni sjóðsins eins og það er núna og byggja þess vegna á raunveruleikanum. Telur framsögumaður minni hluta það ekki vera rétt?



[20:19]
Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei. Ég tel þessa útreikninga villandi. Við verðum einfaldlega að skoða dæmin. Það var mjög lærdómsríkt í nefndinni að skoða dæmi um manneskju sem er með tvö börn, hvað hún tekur núna, hvað hún borgar í afborganir miðað við tilteknar forsendur um tekjur því að núna eru tekjutengdar afborganir. Og miðað við það að útskrifast 27 ára og taka full námslán eins og fólk gerir núna í viðkvæmum hópum, og síðan hvernig slíkri manneskju mundi reiða af í nýja kerfinu. Niðurstaðan er óvefengjanleg. Slíkri manneskju, í erfiðri, þröngri stöðu félagslega, með lítið á milli handanna, reiðir verr af. Þannig er það bara. Menn geta reynt að glíma við þetta með einhverjum meðaltalsreikningi eða einhverju svoleiðis, en þetta er staðreyndin. Það er vont að fólk sem er í þröngri stöðu hafi það verra, fólk sem hefur lægri laun en meðaltalið hafi það verra. Það er vont. Það er galli á þessu frumvarpi.

Hvernig mundi ég vilja útdeila styrknum, var spurt líka. Hvernig á að meta það hver á að fá styrk og hver ekki? Þetta eru þær spurningar sem við glímum alltaf við þegar við veitum fé úr hinu opinbera til styrkja eða bóta. Ein leiðin sem farin er og sú leið sem ég aðhyllist að ef við ætlum að útdeila styrkjum eða bótum eigum við að horfa á það að reyna að jafna félagslega stöðu fólks. Mér finnst að námslánin eigi að bjóðast öllum eins og þau munu auðvitað alltaf gera. Þar með sé alveg tryggt að allir geti framfleytt sér í námi. Námslánin eigi að vera hagstæð, ódýr og niðurgreidd af hinu opinbera. Vegna þess að menntun er fjárfesting. En styrkina, vegna þess að fjármunir eru af skornum skammti, finnst mér að eigi síðan að nota til að jafna félagslega stöðu, (Forseti hringir.) jafna stöðu þeirra sem koma utan af landi til móts við þá sem eru í höfuðborginni og þar fram eftir götunum. Og til hvatningar varðandi námsframvindu.