145. löggjafarþing — 147. fundur
 6. september 2016.
störf þingsins.

[13:31]
Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að auglýsa eftir verðlækkunum á innfluttum vörum vegna styrkingar krónunnar og lækkunar á sköttum og gjöldum sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir. Hvar eru þessar lækkanir? Ég hef ekki séð þær nema að litlu leyti. Þannig bendir Alþýðusamband Íslands á að afnám vörugjalda á byggingarvörur, lægri virðisaukaskattur og styrking krónunnar, hafi ekki skilað sér til neytenda. Þvert á móti hefur vísitala byggingarvara hækkað þrátt fyrir að ætla mætti að vörurnar hefðu lækkað umtalsvert. Það er ekki langt síðan ein evra var skráð á um 145 krónur. Í morgun var hún skráð á 129 krónur. Það er ekki langt síðan dollarinn stóð í rúmum 130 krónum. Í morgun var hann í um 116 krónum. Pundið hefur síðan hrunið í kjölfar Brexit. En hvar eru verðlækkanir til neytenda?

Staðreyndin er sú að skatta- og gjaldahækkanir skila sér yfirleitt fljótt og vel út í verðlagið með hækkun vöruverðs, skattalækkanir og styrking krónunnar seint og illa. Aðgerðir sem ekki síst eru ætlaðar til að styðja við heimilin í landinu gagnast fyrst og fremst þeim sem stunda innflutning og smásölu. Þannig sýndu kannanir að verðlækkanir á heimilistækjum vegna afnáms vörugjalda og lækkunar virðisaukaskatts á sínum tíma voru mun minni en gera mátti ráð fyrir. Skilaði afnám tolla á fatnað og skóm sér til neytenda? Nei, ekki nema að litlu leyti. Oft lækkar vöruverð tímabundið í kjölfar skattalækkana en leitar fljótt í sama horf aftur. Þetta er ekki bara spurning um viðhorf þeirra sem reka fyrirtæki, þetta er líka dæmi um lítinn og óþroskaðan markað þar sem samkeppni er lítil. Í guðs bænum höfum það hugfast að þó að excel-skjalið segi okkur að verð á vöru og þjónustu eigi að lækka er raunveruleikinn oftar en ekki allt annar.



[13:34]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Taprekstur og niðurskurður er veruleikinn á íslenskum fjölmiðlum. Við höfum fylgst með erfiðleikum RÚV á undanförnum missirum. Nú sjáum við einkarekna ljósvakamiðla stíga fram og sömuleiðis eiga vaxtarsprotarnir í fjölmiðlunum, ýmsir netmiðlar, í taprekstri og erfiðum rekstrarskilyrðum. Þetta á að vera okkur öllum mikið áhyggjuefni. Þetta verður ekki leyst með því að rýra hlut Ríkisútvarpsins. Við þurfum að bæta rekstrarskilyrði allra fjölmiðla á Íslandi vegna þess að þau hafa farið hratt versnandi. Auglýsingamarkaður þeirra dregst saman, alþjóðleg samkeppni fer harðnandi og neytendur vilja síður greiða fyrir innihald en áður.

Ef við ætlum að halda uppi sterkum og öflugum fjölmiðlum þá þurfum við að gera breytingar í skattumhverfi þessara miðla, í stuðningi við þessa miðla. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að menn þvert á flokka tali sig saman um heildstæðar tillögur sem komi til móts við þarfir smárra netmiðla, gamalla gróinna dagblaða, einkarekinna ljósvakamiðla og Ríkisútvarpsins vegna þess að veikir fjölmiðlar eru veikt lýðræði. Ef það er eitthvað sem Alþingi Íslendinga á að standa vörð um og koma í veg fyrir þá er það að lýðræðið á Íslandi veikist.



[13:35]
Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að vekja athygli á grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær eftir dr. Eric Stubbs. Hún heitir, með leyfi forseta: „Ísland myndi hagnast á öðruvísi vaxtastefnu“. Sá ágæti maður er fjármálaráðgjafi hjá Royal Bank of Canada í New York. Hann hefur oft verið hér á undanförnum árum og fylgst með íslensku efnahagslífi. Hann segir að það sé út af fyrir sig gamaldags aðferð að reyna að hafa áhrif á neyslu með vöxtum og mælir í staðinn með því að reynt sé að halda ákveðnu gengisstigi með vaxtaákvörðunum. Hann nefnir m.a. hvað Ísland sé útsett fyrir flæði fjármagns og alþjóðaviðskiptum. Það eru hlutir sem ég er búinn að margvara við á undanförnum missirum, þ.e. sú hávaxtastefna sem Seðlabanki Íslands rekur hefur orðið til þess að hingað inn hefur flætt kvikt fjármagn sem getur þegar minnst varir leitað út aftur, og þá á tímum sem koma eigendum þessa fjár vel en okkur mögulega illa.

Þessi ágæti maður bendir á að þau líkön sem nú eru notuð af stjórnendum Seðlabankans séu út af fyrir sig gamaldags, þau hafi verið notuð í 25 ár og að kominn sé tími til að fara nýjar leiðir. Ég held að það væri vel þess virði fyrir stjórnendur Seðlabanka Íslands að gaumgæfa orð þessa ágæta manns ásamt gagnrýni fleiri málsmetandi hagfræðinga sem komið hafa fram á undanförnum vikum og mánuðum og haldið fram nákvæmlega sama hlut, þ.e. að stýrivextir á Íslandi séu einfaldlega allt of háir.



[13:38]
Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Yfirvöld hafa stefnt að því að hverfa frá brennslu jarðefnaeldsneytis í samgöngum á Íslandi og lögð hefur verið áhersla á eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu. Sú uppbygging er komin nokkuð á veg og er töluverð eftirspurn eftir að hraða henni því áhugi manna og meðvitund um nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa hefur vissulega vaxið. En til að þetta sé raunhæfur möguleiki fyrir alla landsmenn þarf bæði að veita rafmagni til hleðslustöðvanna sem reisa á víða um land og leggja línur í vinnslustöðvar útgerðanna sem vilja geta veitt rafmagni úr landi um borð í skip sem liggja við bryggju. Fjölgun hefur orðið á rafknúnum bílum í landinu en það liggur fyrir að einhverjar breytingar þarf að gera á regluverki og umgjörð, t.d. þarf að ákveða hvort tilskipun EES um innviði fyrir vistvænar samgöngur á að gilda hér og hvaða staðla á að innleiða varðandi hraðhleðslustöðvar. Þá þarf að taka af öll tvímæli um að rekstraraðilum hraðhleðslustöðva sé heimilt að afhenda raforku gegn gjaldi án þess að teljast orkusölufyrirtæki í skilningi laganna. Einnig þurfa dreifiveitur að huga að aðferðum við álagsstýringu þegar rafbílavæðing hefur átt sér stað. Þessu fylgir því líka að huga þarf að byggingarreglugerðum þannig að gert verði ráð fyrir hleðslustöðvum á bílaplönum fjölbýlishúsa og á bílastæðum svo dæmi séu tekin.

Það eru vissulega ýmis úrlausnarefni sem tengjast orkuskiptum í samgöngum og þau eru síst minni þegar kemur að skipaflotanum. Landtengingar hafa lengi verið í boði. Um tíma var rafmagn til skipa sérstakur gjaldskrárliður, en síðan árið 2005 má ekki mismuna eftir því í hvað orkan er notuð. Eitthvað þarf að skoða þetta svo liðka megi fyrir framgangi þessa máls. En kannski er það til lítils ef horft er til þess að ekki hafa verið reistar loftlínur á landinu síðan 2006 og fréttir berast af því að hótel sem verið er að reisa séu keyrð á dísil. Við þurfum að geta flutt rafmagnið sem við framleiðum til notenda.



[13:40]
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hvers vegna ættu skattaívilnanir bara að nýtast stórfyrirtækjum á Íslandi? Hvað með venjulegt fólk sem býr við íþyngjandi aðstæður? Alcoa hefur t.d. aldrei greitt fyrirtækjaskatt á Íslandi. Veiðileyfagjöld hafa verið lækkuð og skattar á auðmenn en ríkisstjórnin hefur bandað frá sér öllum hugmyndum sem hafa komið fram um skattaívilnanir til venjulegs fólks eins og t.d. vegna búsetu á landsbyggðinni. Ráðherrar segja að það flæki skattkerfið því að þeir vilja einfalt skattkerfi eins og klifað er á. En fyrir hvern er einfalt skattkerfi? Við hönnum flókin áhöld til þess að einfalda líf fólks. Snjallsíminn er t.d. flókið áhald sem einfaldar mjög líf fólks og kemur að góðum notum. Skattkerfið er í raun bara verkfæri og því mætti beita til að jafna aðstöðu fólks, einfalda líf þess og gera það betra því að við erum eitt samfélag og ætlum og viljum vera eitt samfélag.

Aðstöðumunur landshlutanna er staðreynd. Húshitunarkostnaður, flutningskostnaður aðfanga, ferðakostnaður vegna atvinnu og þjónustu, erfiðar samgöngur, allt eru þetta dæmi um íþyngjandi aðstæður sem við sem samfélag ættum að geta létt af fólki með grænum greiðslum, skattafslætti eða öðrum jöfnunaraðgerðum í gegnum skattkerfið til að jafna aðstöðu milli landshluta og stuðla að búsetufrelsi.

Ef það er hægt að ívilna stórfyrirtækjum og auðmönnum þá er hægt að ívilna venjulegu fólki sem lifir í þessu landi og í rauninni meiri ástæða til.



[13:42]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það hefur verið þokkalega friðsælt á vinnumarkaði undanfarna mánuði en það eru samt aðgerðir eða kjaraviðræður í gangi hjá ýmsum hópum eins og grunnskólakennurum. Þeir felldu nýjan samning og við komum til með að sjá hvert framhaldið verður og hvort náist fram betri kjör eða hvað verður hjá þeirri stétt. Sjómenn kolfelldu samning sem gerður var á milli Sjómannasambandsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi með rúmum 66% atkvæða. Nú eru menn á þeim bænum að reyna að ná einhverri niðurstöðu aftur. Við vitum ekkert hvað verður í framhaldinu ef ekki næst niðurstaða og verkfallsátök blasa hugsanlega við. Fyrir þinginu liggur tillaga sem ég tel að væri gott innlegg inn í þær deilur, þingmannatillaga um að kjarasamningsbundnir fæðispeningar sjómanna séu frádráttarbærir frá skatti eins og hjá stéttum sem vinna fjarri heimilum. Má þar nefna flugmenn og flugþjóna. Ég veit að þetta hefur komið til tals og tel ég rétt að þetta mál sem er í efnahags- og viðskiptanefnd fáist rætt. Ég tel það vera mikilvægt.

En svo er það ein stétt sem hefur kannski ekki viðsemjanda til þess að ræða um sín kjör, það eru íslenskir sauðfjárbændur sem víða hafa flaggað í hálfa stöng í dag vegna þess að verð til sauðfjárbænda frá afurðastöðvum heldur áfram að lækka. KS í Skagafirði boðaði lækkun til sinna bænda og mönnum er brugðið. Þetta er gífurleg kjaraskerðing fyrir sauðfjárbændur sem hafa það ekki (Forseti hringir.) heilt yfir gott fyrir. Svo við ættum að hugsa um þann tollasamning sem er hér til umræðu þar sem er verið að sturta inn í landið mörg hundruð tonnum af kjöti þegar þessi staða er hjá bændum okkar í landinu.



[13:45]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í gær kom fram í fréttum að tæplega 500 börn 18 ára og yngri voru kærð fyrir brot á hegningarlögum á síðasta ári. Af þeim börnum eru 169 14 ára og yngri og því ósakhæf. 11 börn fengu skilorðsbundinn dóm á síðasta ári og lögreglan kemur árlega að 20–40 sáttamiðlunum vegna brota ungmenna. Mikilvægi þess að börn og ungmenni fái tækifæri til að læra af mistökum sem þau gera, bæta sig og taka ábyrgð á gerðum sínum verður seint ofmetið, enda hefur umboðsmaður barna ítrekað bent á nauðsyn þess að efla sáttamiðlun sem úrræði fyrir börn sem brotið hafa af sér. Ég get því ekki annað en hrifist af því viðhorfi sem birtist í viðtali við Hörð Jóhannesson lögreglumann sem birtist í Fréttablaðinu 3. september. Þar kemur skýrt fram að mannlegur skilningur, stuðningur, virðing og manneskjuleg nálgun á brot barna og ungmenna getur skilað miklu meiri árangri en refsingar. Sem betur fer höfum við fólk eins og Hörð um allt samfélagið sem beitir þessum aðferðum dagsdaglega. Viðfangsefni okkar hér er hins vegar að velta fyrir okkur hvernig við getum byggt samfélagið þannig að þetta viðhorf endurspeglist í gegnum öll okkar kerfi sem vinna með börnum og ungmennum. Ein leið til þess er víðtækari innleiðing sáttamiðlunar ásamt viðeigandi stuðningi.

Á vorþingi samþykkti Alþingi að beina frumvarpi hv. þm. Helga Hjörvars um breytingu á almennum hegningarlögum til ríkisstjórnar og fela þar með refsiréttarnefnd að skoða samfélagsþjónustu ungra brotamanna ásamt viðeigandi stuðningi og meðferðarúrræðum til betrunar. Ég vænti þess að sú vinna muni skila okkur skrefum í rétta átt.



[13:47]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Nú standa yfir prófkjör hjá flestum flokkum og við eigum mikið undir því að fólk treysti stjórnmálaflokkunum og þeim aðferðum sem þeir nota við val á frambjóðendum. Ég verð að segja að mér er brugðið yfir fréttaflutningi af því gerræði og því virðingarleysi fyrir réttum leikreglum lýðræðisins sem hefur birst í prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi. Talsmaður flokksins kemur fram í útvarpsviðtali og segir að listinn sem valinn var hafi verið felldur í staðfestingarkosningu því að oddviti listans hafi orðið uppvís að hegðun sem við teljum ekki ásættanlega. Glæpnum er svo lýst í viðtalinu, hann er sá að oddvitinn fékk 20–30 manns til að ganga í flokkinn til að kjósa sig. Það eru nú býsna margir glæpamenn í íslenskum stjórnmálum ef þetta er höfuðsynd. Ég hlýt að spyrja hvort þingmenn Pírata hafi aldrei fengið neinn til að ganga í flokkinn. Eru þeir ekki í framboði til að afla fylgis?

Talsmaður flokksins, sem vel að merkja er svo líka í framboði í kjördæminu og tapaði í nefndu prófkjöri, bítur svo höfuðið af skömminni þegar hann segir orðrétt: „… samkvæmt þeim tölfræðigögnum sem voru birt um kosninguna, þá kusu 18 af þessum eingöngu hann og engan annan í prófkjörinu …“

Virðulegi forseti. Hér eru hrikaleg ummæli viðhöfð. Annaðhvort hafa píratar brotið gegn grundvallarreglum lýðræðisins um frjálsar kosningar og gegn skýrum ákvæðum laga um persónuvernd með því að hafa atkvæði fólks rekjanleg eða þá að talsmaður flokksins er að bera út róg um einstaka þátttakendur í lýðræðislegri kosningu. Hvor skýringin sem er ætti að duga til að dæma þessa stjórnmálahreyfingu úr leik.

Og enn og aftur: Hver er glæpurinn? Því að nú þegar seint og um síðir er upplýst um tölfræðilegar forsendur prófkjörs Pírata á höfuðborgarsvæðinu þá kemur í ljós að fjöldi manns gekk til liðs við flokkinn fyrir prófkjörið og 7,8% þátttakenda kusu bara einn frambjóðanda. Það var satt að segja algengasta samsetningin á kjörseðlinum. Af hverju er ekki búið að ógilda það prófkjör? Er það af því að þar var rétta fólkið kosið?

Virðulegi forseti. Þessi vinnubrögð grafa með réttu undan (Forseti hringir.) tiltrú á stjórnmálin og flokkur sem gengur svona fram getur ekki lesið öðrum lexíur um persónuvernd, gagnsæi, upplýsingaöryggi og réttar leikreglur lýðræðisins.



[13:49]
Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég má til með að svara þessum ásökunum enda eru þær grafalvarlegar. Við í Pírötum höfum ávallt haldið því til haga að rafrænar kosningar geta aldrei eðlis síns vegna verið leynilegar. Þess vegna höfum við ítrekað talað gegn rafrænum kosningum þegar við erum með atkvæðagreiðslur, þjóðaratkvæðagreiðslur eða kosningar til Alþingis til að mynda, að þær verði aldrei hafðar rafrænar. Þetta er ein af grundvallarforsendum lýðræðisins.

Hins vegar erum við lýðræðisafl, við erum að reyna að gera hlutina öðruvísi og hluti af því er að við erum að reyna að þróa kosningakerfi. Lýðræði okkar kann að vera öðruvísi en varðandi það ferli að staðfestingarkosning yrði á landsvísu þá var lagt upp með það til að byrja með. Þetta var hluti af ferlinu frá upphafi þannig að það er ekki eins og við höfum ákveðið það eftir á. Kjördæmisráð ákvað að það skyldi vera staðfestingarkosning á landsvísu þegar kæmi að því hvort heildin öll treysti þessum lista. Er það ekki bara öðruvísi lýðræði? Ég spyr. Þurfum við ekki öll að treysta okkar pólitísku listum, fólki sem gengur til kosninga fyrir Pírata? Megum við ekki stundum reyna að vera með aðeins aðra nálgun á það hvernig við stundum lýðræði? Minna lýðræðislegt, meira lýðræðislegt en við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því að rafrænar kosningar geta aldrei verið fullkomlega leynilegar.

Þegar þessi gögn voru greind var búið að aftengja þau persónum. Það var búið að sjá til þess að ekki væri hægt að greina bak við kennitöluna hver hefði kosið hvern. Það var hægt að sjá hvernig fólk kaus, þetta er eins og að athuga hversu margar konur eða hversu margir karlar ganga til kosninga.

Ég vísa þessum ásökunum til föðurhúsanna. Mér þykir þetta alveg einstaklega lágkúrulegt af hv. þingmanni og hann hefði getað bara spurt okkur eða reynt að koma þessu aðeins skikkanlegar frá sér, enda berjast Píratar fyrir lýðræðisumbótum og það þýðir stundum að við rekumst á ákveðna (Forseti hringir.) steina í götu okkar en þetta er ekki einn af þeim.



[13:51]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Þann 23. ágúst sl. mælti hv. þm. Óttarr Proppé fyrir tillögu til þingsályktunar frá mér og öðrum þingmönnum Bjartrar framtíðar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu samhliða næstu alþingiskosningum. Það liggur líka frammi frumvarp frá mér um breytingu á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, um undanþágu frá tímafresti. Ég velti fyrir mér af hverju í ósköpunum þetta fær ekki meiri hljómgrunn á Alþingi meðal þingmanna, ekki síst hjá stjórnarflokkunum sem lofuðu Íslendingum og kjósendum því að kosið yrði um þetta á kjörtímabilinu. Að mínum dómi eru þetta einhver mestu svik sem hafa verið framin í þessum sal og hafa þau verið nokkur, ekki síst frá þessum flokkum.

Ég er ekkert endilega sérstakur áhugamaður um Evrópusambandið eða fylgjandi því. Það er ekki gallalaust frekar en nokkuð annað í heiminum en um síðustu helgi fór fram Fundur fólksins og þar var m.a. rætt við Björn Karlsson, forstjóra Mannvirkjastofnunar, þar sem hann var að tala um húsnæðiskaup hér og í nágrannalöndum okkar. Þar tók hann dæmi um það að ef tekið væri 30 millj. kr. óverðtryggt lán hér þá borguðum við af því 191 þús. kr. á mánuði, talandi um að það sé erfitt fyrir ungt fólk að eignast húsnæði. Á sama tíma er verið að borga af sams konar láni í Noregi 47 þús. kr., 37 þús. kr. í Svíþjóð, 37 þús. kr. í Finnlandi og 30 þús. kr. í Danmörku. Við erum búin að eyða ómældum tíma á síðasta ári og þessu í að ræða húsnæðisfrumvörp til að reyna að koma til móts við lægra launaðar stéttir landsins til að þær geti eignast þak yfir höfuðið en við erum ekki tilbúin að leyfa fólki að velja hvort það vill fara inn í Evrópusambandið og búa við eðlileg vaxtakjör, lága verðbólgu og stöðugan gjaldmiðil. Nei, við erum ekki tilbúin í það.

Þetta eru ótrúleg svik og ég skil ekki að allir þingmenn hér í salnum, en allir flokkar (Forseti hringir.) hafa lofað því að það eigi að klára þessar aðildarviðræður, alla vega kjósa um það, skuli ekki standa með okkur í þessu máli. Það mundi leysa gríðarlegan vanda hér á landi.



[13:54]
Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er mér ljúft að svara hv. 4. þm. Suðvest., Árna Páli Árnasyni, þegar hann fjallar um rafrænt prófkjör Pírata. Hann virðist rugla saman, eins og reyndar annar hv. þingmaður, tölfræðiupplýsingum annars vegar og persónugreinanlegum gögnum hins vegar. Þetta er tvennt ólíkt, eins og við hljótum öll að vita. Það eru þekktir gallar við rafrænar kosningar sem enginn hefur verið jafn duglegur að tala um og píratar, þar á meðal í fjölmiðlum og kannski sérstaklega sá sem hér stendur. Þetta eru gallar sem er vel vitað að gera þær óæskilegar fyrir t.d. alþingiskosningar eða þjóðaratkvæðagreiðslur um til að mynda ESB. Hins vegar er rafrænt lýðræði þess eðlis að það þarf að gera tilraunir. Það þarf að halda áfram þróuninni til að ná betri áföngum í því og þess vegna er fullkomlega við hæfi, eins og ég hef margoft sagt í fjölmiðlum, að félagasamtök eða t.d. sveitarfélög eða minni einingar nýti sér rafrænt lýðræði með þeim göllum og mótvægisaðgerðum gegn þeim göllum sem í boði eru hverju sinni og haldi áfram að þróast. Ein af þeim félagasamtökum sem taka þátt í þessari tilraun með okkur eru Samfylkingin sem notar líka rafræn prófkjör, sem er gott og blessað. En það væri gleðilegt ef það væri jafn mikil opinber umræða um þau kerfi sem Samfylkingin notar og er hjá okkur. Það er vegna þess að við forðumst ekki þessa umræðu, þvert á móti fögnum við henni. Þess vegna er það mér ljúft að koma hingað og tala um þetta, því að það er mikilvægt málefni.

Þegar kemur að prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi er ágætt að hafa það á hreinu að það var Norðvesturkjördæmi sjálft sem setti sér þær reglur sem var farið eftir, ekki þingmenn Pírata, ekki neinn í Reykjavík. Það var fólkið í Norðvesturkjördæmi sem ákvað hvernig þessar reglur skyldu vera, fyrir fram að sjálfsögðu. Þess má geta líka á lokasekúndunum að Herbert Snorrason, en hv. þingmaður fór inn á ummæli hans, er ekki lengur í framboði. Hann fór úr framboði, tilkynnti fyrir fram að hann mundi ekki bjóða sig fram ef listinn yrði felldur, einmitt af þeirri ástæðu að hann vildi ekki að hans eigið framboð væri að þvælast fyrir. Ég vísa gagnrýni hv. þingmanns á bug en fagna því að við tökum þessa umræðu. Hún er mikilvæg.



[13:56]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Mér finnst félagar mínir hafa svarað hv. þm. Árna Páli Árnasyni ágætlega. Hann beindi þeirri spurningu til þingmanna Pírata hvort við hefðum ekki einhvern tímann beðið fólk að ganga í Pírata til að kjósa okkur. Mér er ljúft að segja hv. þingmanni frá því að ég hef aldrei beðið nokkurn mann um að ganga í Pírata til að kjósa mig. Aldrei. Ég tók ekki einu sinni upp símann — aldrei — í þessu prófkjöri og bað fólk um að kjósa mig. Ég tók þá afstöðu að annaðhvort treystir fólk mér eða ekki. Það er bara þannig. Mér er ánægja að svara því á þann hátt.

Ég ætlaði að tala um eitthvað allt annað. Ég ætla aðeins að rifja upp frábæran fund sem var í morgun. Ég hvet þingmenn til þess að kynna sér það sem fór fram á þeim fundi, en það var opinn fundur með umboðsmanni Alþingis hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Mér fannst þetta með bestu fundum sem nefndin hefur átt með umboðsmanni Alþingis. Þar komu fram mjög mikilvæg atriði sem ég tel brýnt að allir þeir þingmenn sem ætla að gefa kost á sér aftur kynni sér.

Umboðsmanni Alþingis er falið mjög stórt hlutverk. Það er mjög mikilvægt að það sé sett sem fastur liður á fjárlög að umboðsmaður Alþingis geti jafnframt því að sinna skyldu sinni gagnvart borgurum landsins, þegar þeir finna tilefni til þess að benda á ágalla í kerfinu sem snýr að þeim, fengið fastan lið á fjárlögum þannig að hann geti stundað nauðsynlegar frumkvæðisrannsóknir.

Það sem mér fannst áhugavert á þessum fundi voru ábendingar hans varðandi stjórnsýsluna. Fundurinn var svo efnisríkur að ég beini þeirri einlægu ósk til annarra þingmanna að þeir kynni sér það sem þar fór fram og taki það til sín.



[13:58]
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hér höfum við umboðslausa ríkisstjórn á lokametrunum, ríkisstjórn sem er ekki að skilja við innviðina í nógu góðu ástandi hreint út sagt. Heilbrigðismálin, samgöngumálin, menntamálin, löggæslumálin, fjárvana háskólar, framhaldsskólar, kjör eldri borgara og öryrkja — allir eru einhvern veginn ósáttir en samt gumar þessi ríkisstjórn af afar góðu búi. Hún hælir sér af því að greiða niður skuldir en er í raun bara að fresta inn í framtíðina og láta komandi kynslóðir borga. Í staðinn fyrir að nýta skattstofna ríkisins hefur hún veikt þá á kjörtímabilinu og hefur stólað á einskiptisaðgerðir sem við þekkjum og voru m.a. ræddar hér í gær, stöðugleikaframlögin. Hún er rekin til baka með ýmis mál, m.a. verðtryggingarmálin, haftamálin, hún var rassskellt af hálfu Seðlabankans, í gær held ég, varðandi verðtryggingarmálin og sama gildir í rauninni með haftamálin. Það er svolítið mikið á sömu bókina lært. Afkoman sem hefur verið að batna hefur ekki skilað sér til þeirra sem þurfa mest á því að halda. Það er auðvitað miður og þótt það sé gott að greiða niður skuldir þarf stundum að gera hlutina samhliða. Það er ekki nóg að setja eggin í eina körfu og láta allt hitt bíða á meðan. Það hefur orðið niðurstaðan og raunin hér, því miður.

Ég segi að við þurfum nýja nálgun og til þess gefst tækifæri í komandi kosningum sem eru sem betur fer innan örskamms tíma og verða núna í lok október. Ég hvet (Forseti hringir.) fólk til þess að mæta á kjörstað og sjá til þess að það verði breytingar.



[14:00]
Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Samkvæmt ársreikningi Alcoa fyrir árið 2015 greiddi fyrirtækið ekki tekjuskatt á Íslandi í fyrra þrátt fyrir það að velta rúmlega 90 milljörðum kr. Það er vegna þess að skuldir fyrirtækisins eru metnar hærri en eignir þess hér á landi. Raunar hefur fyrirtækið aldrei greitt fyrirtækjaskatt á Íslandi enda ekki skilað hagnaði hér. Alcoa á Íslandi hefur hins vegar greitt móðurfélagi sínu í Lúxemborg tæplega 57 milljarða kr. í vexti frá byggingu álversins í Reyðarfirði. Á sama tíma hefur bókfært tap numið rúmlega 52 milljörðum kr. Rúmlega 4,5 milljarða kr. munur er á greiðslum Alcoa á Íslandi til móðurfélagsins í Lúxemborg og taprekstri fyrirtækisins frá árinu 2013. Skýringuna á bókfærðu tapi má því rekja að öllu leyti og rúmlega það til greiðslnanna til móðurfélagsins í Lúxemborg.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að Indriði Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, telur miklar líkur á að Alcoa beiti þessari aðferð til að koma fjármunum frá starfsemi álversins án þess að þurfa að greiða skatta af rekstrarhagnaði fyrirtækisins á Íslandi. Indriði segir í viðtali við Stundina í júní 2015: „Þetta er bara tilbúið tap.“

Fjármálaráðherra fór í mikla vörn í umræðunum í þinginu í gær um þessa sjálfsögðu skattlagningu á risastór iðnfyrirtæki og gat ekki neitað sér um það að hnýta auk þess í fréttaflutning RÚV um málið. En ef fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins er svo áfram um að láta þessi stórfyrirtæki borga viðunandi tekjuskatt, af hverju hefur hann þá ekki lagt fram frumvarp um það? Af hverju stafar þetta aðgerðaleysi? Hvað hefur það kostað? Hver ber ábyrgð á því? Fyrir hverja eru ráðherrar ríkisstjórnarinnar að vinna, almenning í landinu eða alþjóðleg álfyrirtæki?

Við búum við afleita raforkusamninga sem tryggja álverum rafmagn langt undir markaðsvirði. Þau njóta umtalsverðra ívilnana á grundvelli sérstakra samninga. Við það bætist svo að þau leita allra leiða til að komast undan því að greiða eðlilega skatta til samfélagsins, rétt eins og þeir einstaklingar og fólk sem opinberað var hér með Panama-skjölunum.

Hvers vegna hefur þetta ekki verið gert? Hvers vegna hefur ekkert verið gert til að koma í veg fyrir þetta? Hér hefur legið fyrir frumvarp frá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur um að settar verði reglur um þunna eiginfjármögnun (Forseti hringir.) allt frá þinginu 2013. Nú ætlar fjármálaráðherra (Forseti hringir.) að gera eitthvað. Nú fyrst segist hann ætla að gera eitthvað. Er það sannfærandi, virðulegur forseti?



[14:03]
Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað til að ræða þá grafalvarlegu stöðu sem er uppi við verkefni PCC SE á Bakka við Húsavík og hvaða afleiðingar það getur haft fyrir Norðurþing, sveitarfélögin í kring og ríkissjóð. Gerður hefur verið fjárfestingarsamningur við PCC SE sem felur í sér að ríkisstjórnin skuldbatt sig til að koma í veg fyrir að nokkuð það gæti komið upp sem gæti haft þær afleiðingar að þetta verkefni stöðvaðist með þeim afleiðingum sem það hefði í för með sér. Þær afleiðingar eru m.a. þær að sveitarfélagið Norðurþing gæti orðið gjaldþrota. Ef þessar framkvæmdir yrðu stöðvaðar gæti það líka haft það í för með sér að ríkissjóður yrði að greiða milljarða í skaðabætur. Við megum ekkert við því. Þar fyrir utan er þessi staða til þess fallin að eyðileggja orðspor okkar Íslendinga sem lands sem vænlegt er að stofna til atvinnustarfsemi í. Allt þetta er í deiglunni núna ef ekkert verður að gert. Hins vegar hafa sveitarstjórnarmenn fundað með aðilum sem þetta varðar og ég hef þau orð hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að unnið sé að því hörðum höndum að koma í veg fyrir þennan skaða.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að samningsaðilar okkar, Þjóðverjar í þessu tilfelli, hafa enga þolinmæði til lengri tíma. Þeir skilja ekki svona vinnubrögð.