131. löggjafarþing — 54. fundur
 9. desember 2004.
Tekjuskattur og eignarskattur, 2. umræða.
stjfrv., 351. mál (skatthlutfall, afnám eignarskatts o.fl.). — Þskj. 400, nál. 591, 608 og 609, brtt. 598.

[10:02]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta hv. efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og fleiri lögum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Ragnheiði Snorradóttur, Guðmund Thorlacius, Sigurð Guðmundsson, Benedikt Valsson og Fjólu Agnarsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Sigurð Óla Kolbeinsson og Þórð Skúlason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Indriða Þorláksson og Gunnlaug Júlíusson frá ríkisskattstjóra, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Halldóru Friðjónsdóttur frá Bandalagi háskólamanna, Ara Edwald frá Samtökum atvinnulífsins, Benedikt Davíðsson og Helga K. Hjálmsson frá Landssambandi eldri borgara, Ólaf Ólafsson og Stefaníu Björnsdóttur frá Félagi eldri borgara í Reykjavík, Jón Steindór Valdimarsson frá Samtökum iðnaðarins, Eddu Rós Karlsdóttur frá Landsbanka Íslands, Arnór Sighvatsson og Markús Möller frá Seðlabanka Íslands, Elínu Pálsdóttur frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og Guðjón Bragason frá félagsmálaráðuneyti.

Í frumvarpinu eru lagðar til skattalækkanir sem koma til framkvæmda í áföngum á árunum 2005 til 2007. Mestu munar um lækkun á tekjuskattshlutfalli manna um 4% auk afnáms eignarskatts á einstaklinga og lögaðila. Frumvarpið er 144 greinar auk gildistökuákvæðis og skiptist í 52 kafla. Meginefni frumvarpsins er að finna í I. kafla þess sem er lækkun á tekjuskattshlutfalli einstaklinga um 4% í áföngum, hækkun á viðmiðunarfjárhæðum laganna, hækkun á barnabótum, afnám eignarskatts á einstaklinga og lögaðila, og breytingar vaxtabóta, auk breytinga á framkvæmd laganna. Hvað varðar hið síðasttalda ber helst að nefna að þegar fram fer rannsókn við embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins eða hjá ríkislögreglustjóra á skattskilum aðila er lagt til í frumvarpinu að heimild til endurákvörðunar skuli reiknast frá byrjun þess árs þegar rannsókn hófst en nú er miðað við tímann þegar endurákvörðun fer fram.

Í öðrum köflum frumvarpsins er fyrst og fremst að finna ákvæði um lagasamræmingu sem nauðsynleg er vegna niðurfellingar eignarskatts.

Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu er varða brottfellingu tilvísana í eignarskattsákvæði núgildandi laga um tekjuskatt og eignarskatt þar sem annaðhvort hefur ekki verið tekið tillit til breytinganna sem frumvarpið gerir ráð fyrir varðandi eignarskatta eða þær tillögur sem koma fram í frumvarpinu eru ekki fullnægjandi að mati nefndarinnar. Þá er og lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins hvað varðar óþarfa tilvísun og uppsetningu.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í þingskjali 598.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Ásta Möller og Siv Friðleifsdóttir.

Herra forseti. Mig langar til að bæta við nokkrum orðum frá eigin brjósti. (Gripið fram í: Fagnaðarlátum.) Það er í fyrsta lagi að þetta er mikill hamingjudagur (Gripið fram í.) vegna þess að við erum að móta þjóðfélagið til framtíðar. Það er hlutverk þingmanna að setja ramma um þjóðfélagið í nútíð og til framtíðar og þær breytingar sem hér er verið að gera munu hafa áhrif til áratuga til hagsældar fyrir þessa þjóð.

Vil ég þar fyrst og fremst nefna eignarskattinn sem hverfur, herra forseti, hann hverfur hreinlega. Það er vissulega mikil breyting til framtíðar. Þá er gert ráð fyrir því að tekjuskattar fari hratt lækkandi á næstu þremur árum, hratt lækkandi, um 4%. Það er líka stefnumótun til framtíðar. Það er eitthvað sem mun móta þetta þjóðfélag næstu áratugina á þessari öld. Sú breyting mun verða til þess að fólki er ekki lengur refsað fyrir að vinna og sýna dugnað og snilli og mennta sig, heldur er það hvatt til að afla meiri tekna öllum til hagsbóta, fólkinu sjálfu og þjóðfélaginu í heild. Þá er ekki síst að nefna hækkun á barnabótum sem gerir það að verkum að þetta frumvarp er félagslega mjög í lagi. Það bætir stöðu þeirra sem verst eru settir, barnafólks og þeirra sem hafa lágar tekjur sem gerir það að verkum að þetta frumvarp er félagslega mjög réttlátt.

Þær breytingar sem hér er verið að gera til mótunar á íslensku þjóðfélagi til framtíðar eru til þess fallnar að gera það samkeppnishæfara í samkeppni þjóðanna þannig að velferð haldi áfram að vaxa. Þær eru þáttur í röð á breytingum sem gerðar hafa verið. Vil ég þar fyrst og fremst nefna fjármagnstekjuskattinn sem er veruleg einföldun og samræming á öllum fjármagnstekjum og hefur gert það að verkum að atvinnulífið hefur tekið á flug sem aldrei fyrr — er a.m.k. einn þáttur í því — og hefur aflað ríkissjóði stóraukinna tekna þó að í mörgum fjármagnstekjum hafi skatturinn lækkað umtalsvert. Það vill nefnilega oft þannig til að þegar skattáþján er aflétt af klárnum tekur hann á sprett.

Þá má nefna erfðafjárskattinn sem var mjög þungur og mjög flókinn en er núna afskaplega einfaldur og léttur, herra forseti. Hann er svo einfaldur að ég get sagt það bara hér og nú hvernig hann er. Fyrsta milljónin í dánarbúi er skattfrjáls, svo einfalt er það, og restin með 5%, svo einfalt er það. Það er alveg sama hvernig tengsl erfingja og hins látna voru. Þetta eru allir erfiðleikarnir við að muna það.

Svo er hátekjuskatturinn aflagður. Það er búið að leggja hann af og hann deyr út á næstu tveimur árum. Allar þessar aðgerðir eru í þá veru að móta það þjóðfélag sem við búum í til framtíðar. Þetta er mjög vogað skref og framtíðarvísandi af hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er vissulega hamingjudagur.

Í umræðunni undanfarna daga hafa menn verið uppteknir af því að kíkja á fölnuðu laufblöðin í sverðinum í skóginum en þeir sjá ekki trén, hvað þá að þeir sjái skóginn sem blómstrar og er iðjagrænn sem aldrei fyrr. Nei, menn eru að skoða einstök laufblöð og eru uppteknir alveg hreint allan daginn af því, enda get ég vel ímyndað mér að það sé erfitt að vera í stjórnarandstöðu í dag, það sé erfitt að gagnrýna þessar ráðstafanir nema náttúrlega hjá þeim þingmönnum sem vilja meiri skatta, sem hafa það sem stefnumið að jafna tekjur, hvað sem það kostar.

Herra forseti. Þetta er mikill hamingju- og hátíðardagur og nú stefnir allt saman í að þetta verði jafnvel að lögum á morgun og þá verður enn meiri hátíðardagur í þessu þjóðfélagi.



[10:11]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það verður að fagna því að hv. þm. missti sig ekki í sama æsinginn og um daginn. Fögnuðurinn var gífurlegur og hann fór hina mestu skógarferð sem ég hef heyrt lýst hér frá þessum ræðustól.

Það er augljóst mál að þrátt fyrir að það hafi verið reglulega rifjað upp fyrir hv. þingmanni hvernig tekjuaukning ríkissjóðs hefur verið á undanförnum árum, þ.e. með hækkun gjalda og hækkun ýmiss konar skatta, að nú sé verið að hefja dreifingu þess aukaarðs sem borist hefur í ríkissjóð, virðist hv. þm. enn fara villur síns vegar. Það er eiginlega nauðsynlegt að rifja upp fyrir hv. þingmanni þó að ekki sé nema hið merka línurit sem hv. þm. bað sjálfur um og fékk úr fjármálaráðuneytinu sem sýnir þróun persónuafsláttarins, sýnir hvernig ríkissjóður hefur tekið inn stórauknar tekjur, alveg sama hvort miðað er við neysluverðsvísitölu eða launavísitölu. Það sem er merkast við þetta litla línurit — hv. þingmaður hefur trúlega vitað það þegar hann bað um það en hefur áttað sig á því að við höfum ekki nýtt okkur þetta vopn nægjanlega — er að þessi viðskilnaður línanna verður nákvæmlega um mitt ár 1995 þegar ríkisstjórnin sem hann styður tók við völdum.

Það er ekkert skrýtið þó að hv. þingmaður upplifi sig nú í því að vera að mæla fyrir mjög félagslega réttlátum tillögum, þ.e. miðað við þann heim sem hann lifir greinilega í. Hið félagslega réttlæti hv. þingmanns á greinilega við það að það megi sækja fjármunina til allra en dreifa þeim síðan mismunandi. Þá er það augljóslega hópurinn sem hv. þm. ber fyrst og fremst fyrir brjósti sem á að fá fjármunina, enda liggur það alveg ljóst fyrir. Allt sem hv. þm. taldi upp, líka þegar hann var að lýsa framtíðarsýn sinni um allar þær breytingar sem gerðar hafa verið, að það er afskaplega misjafnlega skipt og það er augljóslega meginniðurstaða þess að þeir sem mikið hafa fyrir eiga að fá enn meira.



[10:13]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Niðurlútu mennirnir ganga um skóginn, finna visnuð laufblöð hér og þar og halda þeim á lofti. Þannig er nú það. Hv. þm. nefnir persónuafsláttinn. Hann hefur vissulega ekki hækkað en það er ástæða fyrir því. Þegar tekjuskatturinn var lækkaður úr 42% niður í 38% var persónuafslátturinn lækkaður sömuleiðis til að halda frítekjumarkinu. Það er frítekjumarkið sem skiptir máli, það eru þær tekjur sem menn mega hafa án þess að borga af þeim skatta og þær hafa haldið nokkurn veginn verðgildi sínu, nokkurn veginn. (Gripið fram í: Nei, nei.) Jú, þær hafa gert það, (Gripið fram í: Nei, nei.) vissulega og alveg sérstaklega þegar maður tekur inn í dæmið að iðgjald í lífeyrissjóð hefur með áföngum verið gert skattfrjálst. Það eykur enn frítekjumarkið.

Þegar þetta er tekið saman, lækkun skattprósentunnar og skattfrjálst iðgjald í lífeyrissjóð, hefur frítekjumarkið nokkurn veginn haldið verðgildi sínu miðað við neysluvöru en að sjálfsögðu ekki miðað við laun. Launin hafa hækkað í þessu þjóðfélagi sem í engu öðru þjóðfélagi hér í kring vegna þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gert í því að örva atvinnulífið með breytingum sem ég nefndi áðan.



[10:15]
Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er augljóst mál að hv. þingmaður er svo rammvilltur í skóginum að ég efast um að ég nái að beina honum á rétta leið. Við skulum vona að hann skili sér fyrir jól.

Þannig er, hv. þingmaður, að þrátt fyrir að þú gerir enn einu sinni tilraun til að nefna einhverjar aðrar viðmiðanir hélt ég að ég hefði farið sæmilega yfir þetta fyrir hv. þingmann hér í gær. Það dugar ekki heldur að miða við skattleysismörkin. Það er búið að skoða það líka og það munar engu minnu þar þegar það er skoðað.

Við skulum rifja þetta enn einu sinni upp og við skulum bara taka, a.m.k. fyrst, tímabilið sem ríkisstjórnin hefur setið sem nú er við völd, þ.e. tímabilið 1995–2004. Þá kemur í ljós að ef skattleysismörkin eru miðuð við launavísitölu, við skulum byrja þar, ættu þau að vera 114.015 kr. á mánuði en eru 71.269. Þarna munar á mánuði 42.746 kr.

Ef við miðum hins vegar við neysluverðsvísitölu sem hv. þingmaður í nauðvörn sinni virðist vera að hrekjast til ættu skattleysismörkin að vera við 85.709 en ekki eins og þau eru nú, 71.269, og mismunur upp á 14.440. (Gripið fram í.) Já, það er rétt, hv. þingmaður, að rifja það enn einu sinni upp að allt þetta talnasafn okkar byggir á heimildum frá fjármálaráðuneytinu.

Ef við notum síðan þumalputtaregluna sem menn hafa verið að reyna að nálgast um það hvað þetta þýðir fyrir ríkissjóð þýðir viðmiðunin við launavísitölu að ríkissjóður hefur fengið rúmlega 40 milljörðum meira miðað við þessi viðmið. Ef við notum neysluverðsvísitöluna eru þetta tæpir 15 milljarðar. Hv. þingmaður, er ekki kominn tími til að þú viðurkennir að menn eru bara að dreifa því sem áður hefur verið í náð?

(Forseti (HBl): Ég vil vekja athygli á því að samkvæmt þingsköpum ber að beina máli sínu til forseta eða fundarins en ekki ávarpa einstaka þingmenn.)



[10:17]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu getum við ekki miðað við launavísitölu. Laun hafa hækkað hér á landi sem hvergi annars staðar. Það sem við getum í hæsta lagi miðað við er neysluverðsvísitala og þá verðum við að taka inn í að iðgjöld í lífeyrissjóð hafa á tímabilinu verið gerð skattfrjáls. Það eykur frítekjumarkið, þau laun sem menn mega hafa í tekjur án þess að greiða skatta. Þegar það er skoðað hefur þetta nokkurn veginn haldið í við verðlagið. Það sem mun gerast núna þegar skattprósentan verður lækkuð enn frekar er að þessi mörk munu hækka enn meira.

Það er dálítið merkilegt og kannski eðlilegt — ég mundi mögulega gera það sama, ég vona þó ekki — að gagnrýna svona óskaplega góðar tillögur eins og hér eru lagðar til, svona óskaplega mikið hamingjufrumvarp. Það getur vel verið að ég færi í svona laufblaðatíning hingað og þangað, leitandi að visnum laufum hér og þar í staðinn fyrir að horfa á heildarmyndina sem felst í því að verið er að fella niður eignarskatt, lækka tekjuskattsprósentuna og bæta barnabætur. Hv. þingmaður nefndi það ekki einu orði og það skemmtilega er að einu sinni, ekki fyrir löngu, var þetta akkúrat markmið og stefna Samfylkingarinnar. En það er liðin tíð. Þeir breyttu allt í einu um kúrs eins og oft áður og þeir munu eflaust breyta um kúrs jafnvel áður en árið er liðið.



[10:18]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur margsinnis lýst því yfir að hann telji ekki að skattkerfið eigi að leiða til aukins jöfnuðar. Þess vegna er eðlilegt að hann skuli fagna og ljósta upp höndum í fagnaðarlátum vegna þess að þær breytingar sem hér er verið að gera leiða til gríðarlegs ójöfnuðar. Þær leiða t.d. til þess að stórbankastjórinn fær í krafti þessara skattalækkana sem ríkisstjórnin er að leggja fram 25 sinnum meira í sinn vasa en ræstingakonan sem þrífur skrifstofuna hans. Eðlilega er þetta hamingjufrumvarp heldri mannanna og þess vegna er eðlilegt að hv. þingmaður fagni svona eins og hann gerir.

Það er þó ýmislegt sem hv. þingmaður nefndi ekki. Hann gat náttúrlega ekki um ójöfnuðinn sem af þessu hlýst en hann gat heldur ekki um það hvernig á að fjármagna skattalækkanirnar. Hv. þm. Pétur H. Blöndal gleymdi meðvitað að geta um feluskattana sem hann og stjórnarliðið hefur dag eftir dag verið að troða í gegnum Alþingi. Feluskattarnir sem eru samtals milli 15 og 20 talsins gera það að verkum að þegar hv. þingmaður slær korktappa úr kampavínsflöskunni í lok næsta árs og fagnar því að árið 2005 er liðið í aldanna skaut hefur hann séð til þess að ríkissjóður hefur innheimt meira fjármagn í formi hækkaðra skatta en hann hefur látið frá sér í formi skattalækkana.

Þetta eru sjónhverfingar. Hér er Sjálfstæðisflokkurinn að nota blekkingar til þess að reyna að kaupa sér atkvæði fyrir næstu kosningar. Það er sláandi að allar mestu lækkanirnar koma ekki fyrr en rétt fyrir kosningar. Þetta er ekkert annað en ódýr brella til að kaupa sér atkvæði og það er verið að hækka skatta núna til að fjármagna þessar skattalækkanir.



[10:21]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að stjórnin, sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, er upptekin af því að stækka kökuna en ekki skipta henni. (Gripið fram í.) Málið er að við viljum baka stærri köku. Við viljum að kakan sé svo stór að allir fái væna sneið úr henni, allir fái stækkandi sneið. Það er einmitt það sem hefur gerst. Lægstu laun og bætur hafa hækkað meira en nokkuð annað hér á landi og það miklu meira en í nokkru öðru landi. Þetta höfum við gert með því að stækka kökuna, herra forseti. Við erum ekki upptekin af því að skipta henni heldur af því að stækka hana.

Það má vel vera að ræstingakonan sé ekki með nógu góð laun. Auðvitað eigum við að stefna að því að hún fái há laun og við erum að gera henni kleift að fá hærri laun með því að lækka fátæktargildruna, lækka þrepin sem hún þarf að stíga yfir. Það erum við að gera markvisst. Við viljum nefnilega að ræstingakonan sé með góð laun líka.

Hvernig þetta er fjármagnað — það vill svo til að ríkissjóður hefur á þessu ári með fjárlagafrumvarpi hæstv. fjármálaráðherra 10 milljarða í afgang þrátt fyrir skattalækkunina. (Gripið fram í.)

Síðan þetta með feluskattana, það er bara ein skattahækkun sem er skattahækkun, það er til Fasteignamatsins. Það er það eina og það eru 150 kr., herra forseti, 150 kr. á mánuði á hverja íbúð. (Gripið fram í.) Nei, aðrir skattar eru aðlögun að verðbólgu, þar á meðal t.d. skráning hlutafélaga sem er hækkuð upp í 165 þús. kr. en ætti að vera 210 þús. Er það það sem hv. þm. vill, að skráning hlutafélaga standi í stað í krónutölu áratugum saman?



[10:23]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. bregður sér ýmist í gervi skógarhöggsmannsins eða bakarans og hann talar um hina stóru köku sem hann hafi verið að búa til. Hvar er kakan sem þau 29 þús. hafa fengið sem fyrir nokkrum árum greiddu engan skatt af þeim 100 þús. kr. launum sem þau hafa með ýmsu móti frá ríki eða með öðrum hætti? Þetta fólk greiddi engan skatt þegar við fórum úr ríkisstjórn, nokkur, 1995. Í dag er þessi ríkisstjórn búin að baka köku handa þessu fólki sem felur það í sér að 2 milljarðar eru teknir á hverju ári í beina skatta af þessu fólki. Þetta er kakan sem hv. bakarameistari býr til handa fátæka fólkinu í þessu landi.

Hv. þingmaður talar um að það hafi bara verið ein skattahækkun. Virðulegi forseti. Má ég til upprifjunar benda honum á að búið er að hækka skólagjöld á Akureyri, KHÍ og HÍ samtals um 150 millj. Það er búið að setja aukið gjald á Framkvæmdasjóð aldraðra um 47 millj. Það er búið að samþykkja aukatekjur ríkissjóðs um hækkun upp á 200 millj., umsýslugjald fasteigna 280 millj., áfengisgjald 340 millj., bifreiðagjald 120 millj., vaxtabætur 900 millj., olíugjald 350 millj., viðbótarlífeyrissparnaður — þar sem ívilnunin var tekin — 600 millj., sjúkratryggingar 750 millj., komugjöld á heilsugæslustöðvar 100 millj., vörugjald af bensíni 600 millj., þungaskattur 400 millj. og síðan breytingar á barnabótum til frádráttar 150 millj., samtals á tveimur árum rúmir 8 milljarðar en ríkisstjórnin áformar að skila á þessum tveimur árum tæpum 7,7 milljörðum kr.

Þegar upp er staðið hefur ríkissjóður aukið skattheimtu sína á þessum tveimur árum. Þetta eru sjónhverfingarnar, þetta eru blekkingarnar. Svona er verið að nota þetta til að blekkja kjósendur.



[10:25]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Flestir vita að óbreytt krónutala í verðbólgu rýrnar. Þetta vita flestir og menn vita að þeir geta keypt sífellt minna og minna fyrir sömu krónutöluna þó að verðbólgan sé mjög lítil. Þetta vita sérstaklega þeir sem upplifðu verðbólgu fyrr á árum.

Það sem hefur verið að gerast undanfarið er aðlögun, og þetta ræddum við í gær, aðlögun gjalda að verðbólgu til að þau haldi verðgildi sínu. (Gripið fram í: En skattar?) Vilja menn t.d. að það kosti alltaf það sama í krónutölu að skrá hlutafélag? Vilja menn það virkilega? Þau gjöld sem hafa verið að hækka undanfarið eru til að aðlagast verðbólgu. Þau hafa ekki náð því, langt í frá, og gott dæmi er einmitt áfengisgjaldið sem hv. þm. nefndi. Það hefur verið hækkað á sterkum vínum og tóbaki í takt við verðbólguna þannig að gjaldið heldur verðgildi sínu en gjaldið á léttvín og bjór hefur ekki verið hækkað. Það er meðvitað til að flytja neysluna yfir í þær vörur. Með því að hækka þessi gjöld eru þau í reynd að lækka. Ég veit ekki í hvaða landi þeir hafa búið sem ekki skilja þetta.

Á Íslandi var einu sinni verðbólga og flestir skildu að krónutala sem ekki jókst í takt við verðlag rýrnaði. (Gripið fram í.) Ég er búinn að spyrja hv. þingmann aftur og aftur. Það er ekki skattahækkun þegar skráningargjald fyrir skráningu hlutafélaga er hækkað úr 150 þús. kr. upp í 165 þús. kr. en ætti að vera 210 þús. Það er ekki skattahækkun, það er skattalækkun í mínum huga. (Gripið fram í: … missa tökin …)



[10:27]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka forsetanum fyrir þá umhyggju sem hann sýnir mér en verð jafnframt að segja að ég er þess reiðubúinn að halda ræðu mína jafnvel þótt ekki sé mikið næði af hálfu hv. þingmanna stjórnarliðsins. Eðlilega líður þeim ekkert vel undir umræðum af þessu tagi. Þetta var það sem hæstv. fjármálaráðherra kallaði mestu skattabyltingu lýðveldisins. En þjóðin sem er engir asnar skynjaði þetta nákvæmlega eins og það var, það er verið að hækka skatta til að fjármagna skattalækkanir. Þetta gerði það að verkum að enginn Íslendingur fyrir utan hv. þm. Pétur H. Blöndal stappaði bæði niður fæti og laust saman höndum af fögnuði yfir því hvað hér væri að gerast.

Fólkið í landinu skynjaði einfaldlega að hér er að stórum hluta verið að beita sjónhverfingum til að halda því fram að verið sé að bæta kjör manna stórkostlega á næstu árum með skattalækkunum. Fólkið í landinu sér að á hverjum einasta degi er verið að troða í gegnum Alþingi frumvörpum sem hækka álögur annars staðar. Þess vegna fór hæstv. fjármálaráðherra í flokksmusterið og hélt sérstakan fund … (Gripið fram í: Grand Hótel.) Grand Hótel, ekki í flokksmusterið heldur í Grand Hótel, sem er álíka glæsileg bygging þó, og vældi þar eins og grís undan því að verið væri að þagga niður hina miklu skattabyltingu. Það eina sem gerðist var að fólkið í landinu skoðaði hlutina sem fyrir það var lagt og komst að þeirri niðurstöðu að það sem verið var að segja því var ekki satt.

Það liggur einfaldlega fyrir, herra forseti, að þær skattalækkanir sem til að mynda á að ráðast í á næstu tveimur árum kosta minna en verið er að taka inn með auknum tekjum á þessum sama tíma í formi ýmissa hækkana. Hv. þm. Pétur H. Blöndal getur haldið eins margar ræður og hann vill um að þetta séu ekki skattahækkanir en í gær varð hann þó að fallast á að það frumvarp sem þá var til umræðu, þ.e. um umsýslugjald fasteigna, var ekkert annað en skattahækkun. Þá féllst hann á að það sem hann lofaði árið 2000, að það gjald yrði fellt niður árið 2004, gæti hann ekki efnt. Í gær lagði hv. þingmaður til að enn yrði á þessu kjörtímabili tekinn hálfur milljarður sem hann lofaði árið 2000 að mundi falla niður sí dag, á síðustu dögum þess mánaðar sem eftir lifir af þessu ári.

Herra forseti. Það sem hér stendur upp úr finnst mér vera þrennt: Í fyrsta lagi að það svigrúm sem búið hefur verið til vegna vaxandi umsvifa í samfélaginu og líka vegna annarra skattahækkana hefur ekki verið notað með bestum hætti. Það hefði verið langbest og langsanngjarnast að ráðast fyrst í að lækka matarverð í landinu með því að lækka matarskattinn um helming. Þá skattalækkun hefur Samfylkingin lagt langmesta áherslu á. Hvers vegna? Vegna þess að það er hugmyndafræðilegur ágreiningur á milli okkar og Sjálfstæðisflokksins. Við teljum að skattkerfið eigi ekki bara að vera uppspretta tekna til að standa undir framkvæmdum ríkisvaldsins og rekstri ríkisins heldur flytur áveitukerfið líka til fjármagn sem jafnar kjörin í landinu. Þess vegna höfum við sagt að sú skattalækkun sem er langbest til þess fallin að jafna kjörin er að lækka matarskattinn um helming. Það hefði lækkað matarverð í landinu um 5 milljarða, lækkað matarreikning íslenskra heimila um 5 þús. millj.

Það er sérkennilegt að þegar maður horfir yfir salinn blasir við að í honum ríkir bullandi þverpólitískur stuðningur við að lækka matarskattinn um helming. Samfylkingin hefur ítrekað lagt þetta fram. Sjálfstæðisflokkurinn hefur mörgum sinnum lagt fram stuðning við málið, t.d. í kosningabaráttunni þar sem þetta var eitt af því sem hæstv. fjármálaráðherra barðist hvað harðast fyrir. Hv. talsmenn Vinstri grænna hafa lýst stuðningi við málið og formaður Frjálslynda flokksins hefur ítrekað sagt að hann styðji málið. Það er bara einn flokkur í þessum sal sem leggst gegn því að matarskatturinn verði lækkaður um helming og það er Framsóknarflokkurinn. Það er kominn tími til þess að Framsóknarflokkurinn skýri hvað veldur því að hann leggst þversum gegn því að matarkostnaður íslenskra heimila lækki um 5 milljarða.

Ef menn halda að þetta sé einhver tilbúningur í formanni Samfylkingarinnar varðandi afstöðu Framsóknarflokksins er rétt að rifja upp orð hæstv. fjármálaráðherra í sjónvarpsþætti á dögunum þar sem hann ræddi við formann Samfylkingarinnar, sem hér stendur. Hann sagði hreint út á Stöð 2 að það væri Framsóknarflokkurinn sem legðist gegn því að matarskatturinn væri lækkaður um helming núna. Orð hæstv. fjármálaráðherra eru fyrir því. (Fjmrh.: Þetta er ósatt.) Þetta er ekki ósatt. Hæstv. fjármálaráðherra sagði nákvæmlega þetta í sjónvarpsþætti á Stöð 2. Það kom alveg skýrt fram að þetta væri afstaða hans, og reyndar ekki í fyrsta skipti sem sú afstaða kemur fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að Framsóknarflokkurinn kæmi í veg fyrir þetta.

Það hefur líka komið fram hjá öðrum minni en vaxandi spámönnum Sjálfstæðisflokksins í umræðum hér. Ég man t.d. ekki betur en einn af þeim þingmönnum sem nú þegar er búinn að kveðja sér hljóðs til andsvara við mig, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hafi staðfest þetta í umræðum um daginn. Hann getur þá komið og sagt hvort það er rétt eða rangt.

Þetta skiptir máli. Það skiptir máli að fólkið í landinu sé upplýst um hvers vegna Framsóknarflokkurinn leggst gegn því að lækka matarskattinn. Lækkun matarskattsins er sú jöfnunaraðgerð í gegnum skattkerfið sem kemur öllum til góða og hefur þveröfug áhrif við þær aðferðir sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til vegna þess að hún kemur þeim best sem hafa minnst. Hún kemur þeim hlutfallslega langbest sem hafa lægstu ráðstöfunartekjurnar, vegna þess að lífið er einfaldlega þannig að við þurfum öll að kaupa mat, við þurfum öll að kaupa brýnustu lífsnauðsynjar eins og kjöt, mjólk, grænmeti, mjölvöru og ávexti. Enginn kemst undan því og því minni sem ráðstöfunartekjurnar eru og því fleiri sem munnarnir eru til að metta þeim mun hærra hlutfall ráðstöfunartekna fer í að kaupa þær brýnu nauðsynjavörur. Ef það tekst að lækka verðið á þeim kemur það því fólki mest til góða. Þess vegna er hægt að fullyrða að lækkun matarskattsins er sú skattalækkunargerð sem kemur þeim lægstlaunuðu best. En hún kemur öllum vel. Hún nær líka til þeirra sem eru atvinnulausir á svo lágum bótum, þökk sé Framsóknarflokknum líka því hann fer með þann málaflokk, að þeir borga ekki einu sinni skatta. Hvernig náum við til þeirra sem eru svo illa haldnir í tekjum að þeir eru fyrir neðan skattfrelsismörkin? Hvernig eigum við líka að reyna að bæta kjör þeirra ef við erum á annað borð að lækka skatta? Með því að lækka matarskattinn. Það er aðgerð sem nær til allra.

Sú aðgerð hefur líka annan kost í för með sér sem skiptir máli á tímum eins og okkar þar sem við sjáum að verðbólga er á uppleið, þar sem við sjáum að aukin verðbólga kann að leiða til þess að forsendur kjarasamninga bresti strax á næst haust, eins og fram kom á ársfundi Alþýðusambands Íslands fyrir skömmu. Því ríður á að ríkisvaldið, að við á Alþingi leggjumst öll á eitt um aðgerðir sem draga úr þeim möguleika að óhjákvæmilegt verði að segja upp kjarasamningnum vegna þess að verðbólguþróun er umfram það sem menn gerðu ráð fyrir. Slíkt mundi setja stöðugleikann í uppnám og er þó nóg fyrir.

Sú aðgerð að lækka matarskattinn um helming mun samkvæmt upplýsingum sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fékk hjá Hagstofu Íslands lækka neysluvísitöluna um 0,8%. Miðað við þá útreikninga sem fram komu hjá einum af hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, um að áhrif áfengisgjalds og tóbaksgjalds væru 0,08% af neysluvísitölu sem hefði í för með sér breytingar á skuldabyrði upp á milljarð, þýðir þetta að með einu pennastriki væri ekki bara vísitalan lækkuð heldur mundi skuldabyrði landsmanna minnka um 8 milljarða. Það felast því margir kostir í að ráðast í aðgerðina, einmitt þessa aðgerð, og miðað við þá stöðu sem er í efnahagskerfinu er þetta hin hárrétta aðgerð. Þess vegna leyfi ég mér í lok umræðunnar um matarskattinn að vísa til þess ágæta manns, félaga okkar, sem er einn af efnahagsgúrúum Sjálfstæðisflokksins í þessum sölum, hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem hefur lýst því yfir að þetta sé mjög mikilvæg og nauðsynleg aðgerð, ekki síst með tilliti til kjarasamninga. Ég vona að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins komi hingað í löngum runum upp á eftir til að greina frá því hvernig í ósköpunum standi á því að Framsóknarflokkurinn kemur í veg fyrir að matarreikningur íslenskra heimila lækki um 5 milljarða á ári, að hann skuli koma í veg fyrir að ráðist sé í aðgerð sem er þverpólitískur meiri hluti fyrir á þinginu og sem kemur öllum til góða og best þeim sem hafa það verst.

Ég rakti aðeins í andsvari áðan alla þá feluskatta sem hæstv. ríkisstjórn er að troða í gegnum þingið þessa dagana. Það er alveg með ólíkindum að heyra hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins koma og monta sig af því að þeir séu að ráðast í mestu skattabyltingu sögunnar. Staðreyndin er sú að þær skattalækkanir sem segja má að við höfum í hendi okkar, vegna þess að við getum ráðið þeirri framtíð því hún er ekki það fjarri, þ.e. að þær skattalækkanir sem ráðist er í á þessu ári og hinu næsta munu þegar upp er staðið kosta í kringum 5,6 til 6,5 milljarða. Með öðrum orðum vel innan við 7 milljarða. En skattahækkanirnar sem eru 16 a.m.k. munu færa ríkissjóði tekjur upp á ríflega 8 milljarða. Það er því hugsanlega hægt að lesa það út úr þeim breytingum sem verða á næstu tveimur árum, þ.e. til loka ársins 2005, að ríkissjóður kom út í plús. Svo koma allir riddarar Sjálfstæðisflokksins, sem á sínum tíma skolaði inn á fjörur Alþingis á bylgju skattalækkana, og berja sér á brjóst og segja: Sjáið þið hvað við höfum gert. Við höfum lækkað skattana svo mikið. En þeir gleyma alltaf, þó góðir séu í reikningi, að leggja saman skattahækkanir þeirra og draga þær frá á móti. Ég get upplýst hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson um það, að ef hann færi í svo einfalda reikningskúnst sem meira að segja 10 ára bekkurinn í Melaskóla gæti gert kemst hann að því að hann hefur tekið þátt í því undir lok næsta árs að hirða af landsmönnum skatta upp á 2 milljarða umfram það sem hann hefur tekið þátt í að lækka skattana. Það er auðvitað það sem skiptir öllu máli. Ég ítreka, herra forseti, að hægt er að telja upp alls 16 gjöld sem ég kalla ekkert annað en skattahækkanir, sem ungir sjálfstæðismenn kalla ekkert annað en skattahækkanir, enda hafa þeir ítrekað mótmælt skattahækkunum af slíku tagi í gegnum árin. Ég veit að enginn þekkir það jafn vel og fyrrverandi forustumenn í þeim samtökum, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson.

Við teljum þess vegna að við þær aðstæður sem nú eru uppi, þar sem eru aukin umsvif í samfélaginu sem hafa leitt til vaxandi tekna og skapað ákveðið svigrúm og sömuleiðis þegar svigrúmið hefur verið aukið vegna hækkunar annarra skatta, eigum við að skoða með hvaða hætti er hægt að ráðast í skattalækkanir sem auka jöfnuð. Ég hef þegar farið yfir hugmynd Samfylkingarinnar um lækkun matarskattsins sem Framsóknarflokkurinn kemur í veg fyrir að sé samþykkt, en við munum leggja til að matarskatturinn verði lækkaður um helming strax á næsta ári og komi í stað þeirrar niðurfellingar á 1% í tekjuskatti sem lagður er til. Þetta tvennt stenst á, þ.e. hvor aðgerðin kostar í kringum 4–5 milljarða.

Hins vegar fögnum við því sem gott er í skattabreytingum ríkisstjórnarinnar. Það er sérstaklega gleðiefni að verið er að hækka barnabætur vonum seinna. Frá því að Framsóknarflokkurinn settist í ríkisstjórn árið 1995 hefur honum tekist að plokka af barnafjölskyldum landsins sem svarar 10 milljörðum og (ÍGP: Hvað gerðist frá 1991–1995?) gefur nú til baka fjórðung af því. Hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason spyr: Hvað gerðist í kringum árið 1995? Á verðlagi þess árs voru barnabætur 6,4 milljarðar. Árinu eftir, eða tveimur árum eftir að hv. þingmaður kom á þing og Framsóknarflokkurinn settist í ríkisstjórn, var búið að minnka barnabæturnar um u.þ.b. 1½ milljarð. Þetta ætti hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason að kannast við vegna þess að hann sat þá á þingi og var í félagsmálanefnd á þeim tíma. (ÍGP: Nei.) Það er rangminni er mér bent á að hann hafi verið í félagsmálanefnd á þeim tíma, en ég held að það sé örugglega rétt hjá mér að hann var í Framsóknarflokknum á þeim tíma (ÍGP: Það er rétt.) og ber það tiltölulega vel miðað við aldur og fyrri störf, en hann kemst ekki hjá því að axla sinn hluta ábyrgðarinnar á því að Framsóknarflokkurinn réðst í það hervirki að tína 10 milljarða af barnafjölskyldum landsins frá því tímabili þegar hann settist í ríkisstjórn 1995 og til kosninga árið 2003.

Ég veit að formaður Framsóknarflokksins hirðir lítt um tölur af þessu tagi. Ég hef rifjað það upp fyrir honum og get rifjað það líka upp fyrir hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni að árið 1995 voru barnabætur 1% af vergri landsframleiðslu. Undir stjórn Framsóknarflokksins fór þetta hlutfall niður í 0,55% og hefur síðan risið svolítið síðan. Þetta sýnir hvað hefur gerst, og er nema von að Framsóknarflokkurinn skammist sín aðeins og láti til baka þótt ekki væri nema hluta af þessu?

Það má nota ferðina og spyrja hv. þingmenn Framsóknarflokksins í dag — ekki síst hv. þm. Siv Friðleifsdóttur sem aftur og aftur kom í þennan ræðustól og talaði um barnakort Framsóknarflokksins, veifaði hér ímynduðum barnakortum, og þetta var partur af atkvæðabeitunni sem Framsóknarflokkurinn notaði framan í kjósendur þessa lands og virkaði furðu vel: Hvar eru barnakortin? Hvar er framkvæmd loforðanna um hinar ótekjutengdu barnabætur til allra barna upp til 18 ára aldurs?

Höfum við heyrt þetta áður? Já, við heyrðum þetta mörgum sinnum á dag, vikur og mánuði fyrir síðustu kosningar en við höfum ekki heyrt Framsóknarflokkinn minnast á það síðan. Nú er kominn hingað ærlegur framsóknarmaður í hóp annarra ærlegra, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason, og ég sé á látbragði hans að hann er sammála hverju orði sem ég hef sagt um þetta. Hann kemur hingað væntanlega á eftir og staðfestir það sem ég hef verið að segja.

Ég hóf þessa tölu mína um barnabætur á því að segja að þarna er þó verið að stíga skref í rétta átt og við í Samfylkingunni fögnum því. Við teljum það gott hjá Framsóknarflokknum og gott hjá Sjálfstæðisflokknum að hækka barnabætur. Við teljum hins vegar að forgangsröðunin sé algjörlega galin. Það er út í hött að byrja á því að lækka hátekjuskatt og byrja síðan á því að lækka tekjuskatt með flatri lækkun og fara svo í það að hækka barnabætur. Við segjum þess vegna: Þessa hækkun barnabóta á að ráðast í fyrr, og við munum leggja fram breytingartillögu um það að sú hækkun verði tekin ári fyrr og að hún nái til allra barna upp að 18 ára aldri í takt við þau kosningaloforð sem við gáfum, alveg eins og ýmsir aðrir stjórnmálaflokkar sem virðast hafa gleymt þeim núna.

Eitt athyglisvert mál tel ég að hafi komið upp í umræðunni um þessar skattalækkanir og það varðar einmitt lækkun og afnám eignarskatts. Það hefur verið baráttumál hv. þm. Péturs Blöndals sem gleðst hér mjög yfir því að vera að ná því í gegn að það eigi að afnema eignarskatt bæði á einstaklinga og fyrirtæki. Ég spyr: Þarf að gera betur við fyrirtækin? Ég tók þátt í því í ríkisstjórn að lækka skatta á fyrirtæki úr 50% niður í 30%. Síðan hafa skattar á fyrirtæki verið lækkaðir úr 30% niður í 18%. Fyrirtækin blómstra, það liggur fyrir, að hluta til út af þessum skattalækkunum sem jafnaðarmenn tóku þátt í og áttu reyndar frumkvæði að í upphafi, (Gripið fram í.) að vísu með Sjálfstæðisflokknum. Ég spyr: Þarf að gera betur við fyrirtækin í dag? Er það nauðsynlegt? Þarf að afnema eignarskatta af fyrirtækjum í dag? Er það rétt forgangsröð?

Þarf að afnema eignarskatta af stóreignafólki? Ég held að þess þurfi ekki. Það er hins vegar rétt að það þarf að afnema eignarskatta hjá tekjulágu fólki, t.d. öldruðu, sem býr í tiltölulega stórum eignum og ekki er hægt að réttlæta einhverjar kröfur um að það skipti um eignir og minnki við sig. Við í Samfylkingunni viljum taka skref til þess að hlífa tekjulágu, öldruðu fólki sem er að greiða eignarskatta. Þess vegna vildum við skoða hvort hægt væri að fara þá leið að hækka fríeignamarkið, t.d. þrefalda það, þannig að það yrði 15 millj. fyrir einstaklinga og 30 millj. fyrir hjón. Þetta viljum við skoða og við vildum fá ákveðnar upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu til að geta byggt tillögur á því. Þær upplýsingar höfum við ekki fengið en við áskiljum okkur rétt til að krefjast þessara upplýsinga milli 2. og 3. umr. og leggja fram við 3. umr. tillögur um stórfellda hækkun fríeignamarka. Tilgangurinn er sá að vernda þá sem eru tekjulágir og aldraðir og búa í eignum sínum. Í reynd mundi þetta þýða að eignarskattinum yrði eðlisbreytt frá því að vera almennur eignarskattur yfir í það að vera stóreignaskattur, og við teljum að það sé allt í fína lagi. Með þessu yrði líka eignarskattinum haldið áfram á fyrirtækjum í landinu. Við teljum það ekki forgangsmál að ráðast í að afnema skatt af þeim.

Herra forseti. Ég gæti farið í miklu lengra máli yfir ýmis tæknileg smáatriði sem tengjast einkum tölulegum útreikningum sem sýna fram á það hversu mikill ójöfnuðurinn er vegna þeirra tillagna sem hér er verið að ræða. Það mun þó væntanlega koma fram með öðrum hætti síðar í umræðunni en hins vegar er nauðsynlegt að það komi alveg skýrt fram hér í þessum ræðustól að þær tölur sem komu frá fjármálaráðuneytinu um að það væru einkum tekjulágir aldraðir sem nytu afnáms eignarskatts virðast ekki standast að öllu leyti ýmsa aðra útreikninga á grundvelli gagna sem efnahags- og viðskiptanefnd fékk frá ríkisskattstjóra og reyndar ekki heldur útreikninga sem gerðir eru á grundvelli ýmissa gagna frá fjármálaráðuneytinu. Ég tel alveg nauðsynlegt að áður en við ljúkum þessari umræðu verði komist til botns í því hvorir hafa rétt fyrir sér, fjármálaráðuneytið eða þeir sem hafa reiknað út og komist að annarri niðurstöðu miðað við gögn frá ríkisskattstjóra og reyndar ýmis svör sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur fengið við fyrirspurnum sínum.

Að lokum, herra forseti: Samfylkingin er þeirrar skoðunar að það sé svigrúm til skattalækkana. Hún telur að þetta svigrúm eigi að nota til að lækka matarskattinn um helming, og um það eru allir á þessu þingi sammála nema Framsóknarflokkurinn. Hún telur að þetta svigrúm eigi að nota til að flýta aukningu barnabóta og hún telur vel koma til greina að nota þetta svigrúm líka til að stórhækka fríeignamörk til að vernda tekjulága aldraða sem búa í eigin húsnæði.

Það sem stendur upp úr þessari umræðu eru aumlegar tilraunir Sjálfstæðisflokksins til að fela þá staðreynd að skattalækkanirnar sem þeir nota hér til að berja sér á brjóst eru fjármagnaðar að stórum hluta með skattahækkunum. Allar skattalækkanirnar sem koma til framkvæmda á þessu ári og því næsta eru t.d. fjármagnaðar þannig. Það er ekki fyrr en kemur undir lok kjörtímabilsins, þegar komið verður í kosningabaráttu, sem hillir undir skattalækkanir sem enn er ekki búið að dekka með öðrum skattahækkunum.

En hvað vitum við um það hvernig skattgleði núverandi ríkisstjórnar muni brjótast út á seinni parti kjörtímabilsins? Á þessu augnabliki eru þetta ekkert annað en loforð, við eigum eftir að sjá þetta ganga eftir, við eigum eftir að sjá hvernig efnahagsumhverfið og stöðugleikinn verður á þessum tíma. Það sem við sjáum núna og það sem er búið að ákveða fyrir næsta ár er ekkert annað en sjónhverfingar. Það eru skattalækkanir sem eru fjármagnaðar með skattahækkunum.

Að lokum, herra forseti, verð ég að ítreka spurningu mína til Framsóknarflokksins: Hvernig stendur á því að sá flokkur hamast eins og naut í flagi gegn því að matarkostnaður íslenskra heimila verði lækkaður um 5 milljarða? Hvers vegna er Framsóknarflokkurinn á móti því að lækka matarskattinn um helming þegar hver einasti þingmaður annar í þessum sal er reiðubúinn að ljá því fylgi sitt? Þessu verður Framsóknarflokkurinn að svara.



[10:54]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get verið afskaplega stuttorður. Ég vil eingöngu leiðrétta þau ósannindi sem fram komu í máli þingmannsins hvað varðar þann umræðuþátt í sjónvarpi sem við tókum þátt í nýlega. Ég kallaði hér fram í og sagði að þingmaðurinn færi rangt með. Hann gerði það, ég er með útskrift af viðtalinu.

Stjórnandi segir: „Eru það framsóknarmenn sem stoppa þetta?“ — þ.e. lækkun matarskattsins. Ég svara í þættinum: „Nei, það er ekki hægt að kenna neinum um, það er ekki heiðarlegur málflutningur,“ segir hér í útskriftinni.

Síðar segir: „Eru það þá framsóknarmenn sem í rauninni eru að stoppa þetta?“ Og ég segi: „Nei, ég segi ekki neitt um það. Við erum að leita að heppilegri leið til að komast til botns í málinu.“ — Eins og fram hefur komið liggur það fyrir að við ætlum að setja nefnd á laggirnar til að vinna í þessu máli.

En ég skil ekki hvað þessum hv. þingmanni gengur til þegar hér er verið að ræða stórt og mikið skattafrumvarp að hanga á einhverju svona atriði í málefnaþroti sínu. Hvað á þetta eiginlega að þýða, hv. þingmaður? (Gripið fram í.) Það er ekki heiðarlegur málflutningur (Forseti hringir.) að bera þetta hér fram eins og gert hefur verið í þessu efni.



[10:55]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það sem hæstv. ráðherra las hér upp fól það í sér að stjórnandi þáttarins rekur það að allir flokkar nema einn eru með því að lækka matarskattinn og hann spyr hæstv. ráðherra hvort það sé Framsóknarflokkurinn sem sé á móti. Hann svarar að það sé ekki rétt að orða það þannig, það sé verið að reyna að komast til botns í málinu.

Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af þessu en þá að verið sé að reyna að kanna með hvaða hætti sé hægt að draga Framsóknarflokkinn til réttar í þessu máli, til réttrar niðurstöðu. Það er með engu móti hægt að segja annað en að Framsóknarflokkurinn sé fyrirstaðan í málinu, það er ekki hægt að draga aðra ályktun af máli hæstv. fjármálaráðherra. Þetta er reyndar í annað skipti sem hæstv. ráðherra hefur orðað þetta með þessum hætti. Auðvitað vita allir í þessum sal að eini flokkurinn sem er á móti því að matarskatturinn verði lækkaður um helming er Framsóknarflokkurinn.

Af hverju verður mér svo tíðrætt um þetta? Vegna þess að þetta var eitt aðalkeppikefli Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni.



[10:56]
fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum hér í þessi ómerkilegheit sem hér hefur verið flett ofan af. Ég hélt að þingmaðurinn hefði nóg annað fram að færa af sinni miklu visku og þekkingu um skattamál en að afbaka og snúa út út ummælum sem fallið hafa.

En hver var afstaða Samfylkingarinnar til lækkunar matarskattsins? Ég upplýsti það hér fyrir nokkru og hef síðan gert. Framsóknarflokkurinn var spurður að því og Samfylkingin var spurð að því og allir flokkar voru spurðir að því. Samfylkingin sagði: Nei, við viljum engu breyta.

Ég spurði hv. þingmann að þessu í sjónvarpinu. Hann sagði: Ég held að það hafi verið einhver símastrákur hjá Samfylkingunni sem var spurður að þessu með virðisaukaskattinn. Það kannast enginn við að hafa svarað þessu. Ég man ekki eftir þessu, sagði þingmaðurinn.

Þetta eru nú vinnubrögð í lagi, herra forseti. (Gripið fram í.) Þeir sitja í háum söðli sem telja sig geta skammað aðra með þetta á bakinu. (LB: Er þessi maður að tala um …?)



[10:58]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þeir sitja í háum söðli og þeir detta ekki úr honum eins og sumir.

Mér finnst dálítið merkilegt að Geir H. Haarde, hæstv. fjármálaráðherra, kemur hingað í andsvar og beinlínis að því er virðist til þess að draga athyglina að þeirri staðreynd að það er Framsóknarflokkurinn (Gripið fram í.) sem liggur þver gegn þessu máli. Enn koma sjálfstæðismenn með saltbaukinn og strá í sár framsóknarmanna.

Allir vita að það er sárt fyrir Framsóknarflokkinn að liggja undir því ámæli að hafa einn flokka komið í veg fyrir að hægt sé að lækka matarkostnað íslenskra fjölskyldna um 5 milljarða og hæstv. ráðherra notar andsvar ekki til að verjast neinu af því sem ég hef hér verið að segja, heldur til að draga athygli þingmanna og fjölmiðla að þeirri staðreynd að það er Framsóknarflokkurinn sem er á móti þessu.

Hann er með baukinn á fullu að strá salti í sárin.



[10:59]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er farin að snúast upp í einhverja vitleysu af hálfu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Auðvitað er bráðfyndið að hlusta á formann Samfylkingarinnar hlaupast undan merkjum og geta ekki svarað fyrir skattstefnu Samfylkingarinnar hvað varðar matarskatt, eins og hún var í mars árið 2003, og kenna einhverjum óskilgreindum símastrák um þau svör sem birtust opinberlega.

Hv. þingmaður fjallaði um það að þessar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar nýttust bara ríka liðinu í þjóðfélaginu. Nú er það ekki svo. Þetta eru skattalækkanir fyrir venjulegt fólk. Ef við tökum þau hjón sem líklega yrðu skilgreind sem venjulegasta fólkið í þjóðfélaginu væru það kennarahjón með tvö börn. Hvað ætli þau hagnist í ráðstöfunartekjum á mánuði? Það eru yfir 32 þús. kr., 392 þús. kr. á ári, og af þessu hefur hv. formaður Samfylkingarinnar áhyggjur. Kennarar hafa hins vegar engar áhyggjur af slíkri kaupmáttaraukningu.



[11:00]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skattstefna Sjálfstæðisflokksins breyttist á landsfundi hans í mars fyrir kosningar. Skattstefna Samfylkingarinnar breyttist á vorþingi hennar í apríl fyrir kosningar. Það má vel vera að það svar hafi fengist frá skrifstofu Samfylkingarinnar að menn vildu ekki hreyfa við virðisaukaskatti á matvælum einhvern tíma í fyrri parti kosningabaráttunnar en hitt er alveg klárt að þegar kom á vorþing Samfylkingarinnar var lögð mikil áhersla á þrjú mál. Það var lækkun matarskatts um helming, hækkun barnabóta og hækkun skattfrelsismarka. Það var þetta þrennt sem áhersla var lögð á. Tvennu af þessu erum við núna með atkvæðum okkar síðar í dag að ljá fylgi.

Það er síðan rangt hjá hv. þm. Sigurði K. Kristjánssyni að það séu fyrst og fremst þeir lægstlaunuðu eða láglaunuðu sem njóta þessa eins og mér heyrðist á hv. þingmanni. Staðreyndirnar tala allt öðru máli og það er einfaldlega þannig að ofurforstjórinn sem hefur 1,9 millj. á mánuði — það eru 200 slíkir menn á Íslandi — fær 2,7 millj. kr. skattalækkun á ári. Ræstingakonan fær 7.900 kr. á mánuði.



[11:02]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var bara að varpa ljósi á það að þær skattalækkanir og skattalækkunartillögur sem við erum hér með og ætlum að lögfesta nýtast venjulegu fólki. Þær nýtast kennarahjónum með tvö börn mjög verulega. Ráðstöfunartekjur þeirra aukast um 392 þús. kr. á ári, og á móti þessari breytingu er hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Svo kemur hann hér upp og fer að gagnrýna ríkisstjórnina og okkur stjórnarliða fyrir að vera að hækka skatta.

Af hverju snýr maðurinn sér ekki í átt að Ráðhúsinu þar sem hans fólk ræður nú ríkjum og hefur verið að hækka skatta á Reykvíkinga, þessi 1. þm. Reykv. n.? Flokksmenn hans í Ráðhúsinu standa að því að hækka útgjöld, þ.e. lækka ráðstöfunartekjur Reykvíkinga, t.d. fjölskyldna þar sem annað foreldra er í námi, með tekjur upp á 265 þús. kr. á mánuði og tvö börn í leikskóla. Ráðstöfunartekjur þessa fólks lækka um 164 þús. kr. á ári. Af hverju gagnrýnir hv. þingmaður ekki þessa skattahækkun?



[11:03]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór með tölur sem vörðuðu kennara. Þær tölur gilda ekki um t.d. unga kennara sem eru með 170 þús. kr. á mánuði. (Gripið fram í.) Það sem hv. þm. er að færa þeim jafngildir í lok næsta árs einum góðum Pampers-bleyjupakka og ég er viss um að sá bleyjupakki kemst í góð not á ýmsum heimilum. Það breytir ekki hinu að þetta er um það bil einn tíundi af því sem sumir aðrir fá í skattalækkanir á sama tíma. Þetta er dæmi um ójöfnuðinn. Þetta er dæmi um þann feikilega ójöfnuð sem kemur fram í þessum tillögum og það er aðalsmerki þeirra. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru að ýta undir gliðnunina í samfélaginu með þessum tillögum í staðinn fyrir að reyna að auka jöfnuð.

Útsvarshækkanir Reykjavíkurborgar — ég lýsi allri ábyrgð á þeim á hendur ríkisstjórninni sem hefur sett sveitarstjórnir þessa lands í fjársvelti.



[11:04]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Niðurlútur gengur hv. þingmaður um skógarsvörðinn og sér enn fölnuð laufblöð. Eins og lastarinn. Hann nefnir umsýslanir fasteigna. Það var rætt í gær og ég benti á að umsýslugjald fasteigna á 18 millj. kr. eign verður 150 kr. á mánuði. Þetta er aðalhaldreipi hv. þingmanns gegn þessum stórkostlegu skattalækkunum sem við erum að fara fram með.

Ég spyr hv. þingmann: Er hann á móti þeirri þjóðfélagsbreytingu að fella niður eignarskatt sem er skattur á sparnað og ráðdeild? Er hann á móti því að lækka tekjuskatt þannig að fólk hafi hvata til að vinna meira og afla sér menntunar? Er hann á móti því? Er hann á móti því að hækka barnabætur? Um það fjallar þetta frumvarp, engin fölnuð laufblöð hingað og þangað í skógarsverðinum sem niðurlútur hv. þingmaður sér og notar orðalag eins og að hæstv. fjármálaráðherra hafi vælt eins og grís. Þau orð eru aðalrökin í málinu.



[11:06]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður má þakka fyrir að ég noti ekki orð eins og grístittur um ýmsa þingmenn og hæstv. ráðherra en ég er bara kurteisari en svo að ég geri það.

Staðreyndin er þessi: Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur verið að berjast fyrir miklum skattalækkunum. Nú segir hann: Sjáið þið hverju ég hef náð fram. Það er verið að lækka þennan skatt og það er verið að lækka þennan skatt og samtals eru þetta skattalækkanir upp á x milljarða. En það er hann sjálfur sem verður niðurlútur þegar hann sér hverjar hinar raunverulegu efndir eru. Þá kemst hann að því að hann er að lækka skatta núna fyrir lok ársins 2005 sem nema samtals 5,6–6,6 milljörðum kr. Á sama tíma er hann að hækka ýmsa feluskatta og koma á ýmsum laumusköttum sem nema samtals 8 milljörðum. Hann er að auka skattheimtuna í þjóðfélaginu.

Má ég benda hv. þingmanni t.d. á leiðara Viðskiptablaðsins í síðustu viku þar sem tekið er undir nákvæmlega þetta viðhorf?



[11:07]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er eðlilegt að hv. þingmaður frjósi í ræðustólnum þegar hann þarf að verja andstöðu við frumvarp sem er svona stórkostleg breyting á íslensku þjóðfélagi. Hann nefnir hækkun á krónutölusköttum sem hafa verið hækkaðir. Það er ekki skattahækkun og ég er margbúinn að spyrja hv. þingmenn Samfylkingarinnar hvort það sé skattalækkun eða skattahækkun þegar krónutölugjald sem er búið að vera óbreytt í mörg ár er hækkað í takt við verðbólguna. Ég hef ekki fengið svar við því. Auðvitað er þetta raunlækkun sem við erum að tala um, oft og tíðum.

Nei, hér erum við að byggja upp og rækta stóran grænan skóg, iðjagrænan, og hv. þingmaður gengur um niðurlútur og horfir niður í svörðinn og sér ekkert annað en fölnuð laufblöð.



[11:08]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi villst í skóginum og sé hættur að sjá hann fyrir trjám. Hann er hættur að sjá það sem sennilega er hægt að kalla lítinn skóg frumvarpa sem hér er að spretta upp í þinginu sem öll hafa eitt samkenni. Í þeim er verið að hækka ýmsa skatta, með þeim er verið að koma í gegn laumusköttum, felusköttum, og ég taldi fyrr í dag upp 16 skatta þar sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru að koma í gegn ýmist nýjum sköttum, eins og í gær, eða hækka gamla skatta.

Þegar maður telur saman hve mikið er verið að taka með þessum sköttum kemst maður að því að það eru rífir 8 milljarðar fyrir lok ársins 2005 og það er ívið meira en fólkið fær til baka í skattalækkunum. Ef hv. þingmaður skilur þetta ekki er hann sennilega dottinn með andlitið ofan í hinn græna svörð skógarins.



[11:09]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur þarf ég að koma upp í andsvar og svara hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni sem fer með lygar. Hann heldur því fram að Framsóknarflokkurinn sé að stoppa af lækkun matarskattsins. Þetta er lygi, hann ætti að vita betur. Það er komin af stað vinna og það er einfalt mál að við þurfum að athuga það svigrúm sem við höfum til að fara út í frekari skattalækkanir. Ég held að hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni væri nær að biðjast afsökunar.

Er það forgangur Samfylkingarinnar að t.d. einhleypur einstaklingur fái um 1.300 kr. á mánuði í vasann vegna lækkunar matarskatts? Okkar forgangur er sá að einhleypur einstaklingur fái um 14 þús. kr. í auknar ráðstöfunartekjur á mánuði og ef viðkomandi er að greiða af námslánum koma til viðbótar um 3 þús. kr. Við teljum þetta vera forgangsröðun í lagi.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmenn að gæta háttvísi í orðum sínum og nota ekki orð eins og lygi í ræðum sínum í þinginu.)



[11:10]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta tilraun hans til að ala upp þingmenn Framsóknarflokksins og lýsi því yfir að ég er reiðubúinn til að leggja mitt af mörkum til að það verk megi vel takast, enda heyrðist mér á síðasta hv. ræðumanni að ekki væri vanþörf á.

Hverjar eru staðreyndirnar í málinu? Þær eru þessar: Á næsta ári á að lækka tekjuskatt um 1% og það kostar 4 milljarða. Samfylkingin vill nota þessa 4 milljarða til að lækka matarskattinn um helming. Það þýðir að útgjöld ríkisins munu aukast um nákvæmlega 4 milljarða en matarkostnaður íslenskra heimila mun minnka um 5 milljarða. Á þessu þingi eru allir flokkar með þessu nema einn, Framsóknarflokkurinn. (Gripið fram í: Rangt.) Það hefur komið fram hjá ýmsum þingmönnum og ráðherrum Sjálfstæðisflokksins að það er Framsóknarflokkurinn sem kemur í veg fyrir þetta. Hann er eini flokkurinn sem hefur legið þver gegn lækkun matarskattsins. Ég veit að það er sárt fyrir hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur en veruleikinn er oft grimmur.



[11:11]
Dagný Jónsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki betur en að hæstv. fjármálaráðherra hafi staðið upp áðan og hrakið orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Fólk getur svo sem túlkað þá niðurstöðu.

Varðandi matarskattinn er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn er ekki að stoppa þetta mál af. Eini flokkurinn sem hefur sagst ekki ætla að lækka matarskatt, eins og kom fram í viðtali, var aðili sem svaraði fyrir stefnu Samfylkingarinnar í þessu máli. Ég ítreka forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í skattalækkunum. Hér er styrk efnahagsstjórn og það er ekki nema von að hv. stjórnarandstöðu og hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni líði illa í dag þegar við erum að tala um tekjuskattslækkun upp á 4%, hækkun persónuafsláttar, hækkun skattleysismarka, hækkun barnabóta, minni greiðslubyrði námslána o.s.frv. (Gripið fram í.)



[11:13]
Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ákaflega sjaldgæft að þingmenn segi eitt í einni ræðu og breyti svo afstöðu sinni í ræðu sem haldin er tveimur mínútum síðar. Hv. þm. sagði í seinni ræðu sinni alveg blákalt að það væri ekki Framsóknarflokkurinn sem legðist gegn því að matarskatturinn væri lækkaður. Hvað sagði hún undir lok fyrri ræðu sinnar? Hún sagði það alveg svart á hvítu að lækkun matarskattsins væri ekki forgangsmál hjá Framsóknarflokknum. Einmitt vegna þess að það er ekki forgangsmál hjá Framsóknarflokknum leggst flokkurinn þvert gegn því að matarkostnaður íslenskra heimila lækki um 5 milljarða. Það er ekki hægt að hlaupa frá því.

Svo vil ég óska hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur til hamingju með það að hún er núna að ná til baka fjórðungi þess ránsfengs sem Framsóknarflokkurinn plokkaði af barnafólki á árunum 1995–2003. Það tekur þá sennilega um fjögur kjörtímabil að ná því öllu.



[11:14]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir áliti 2. minni hluta.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal, fyrsti talsmaður þessa máls og talsmaður Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum, kjaramálum og tryggingamálum, sagði að dagurinn í dag væri mikill hamingjudagur. Hann sagði að þetta frumvarp væri að vísu ekki að skapi þeirra sem legðu mest upp úr kjarajöfnun en fyrir hina sem teldu skattalækkanir skipta öllu máli væri komið sumar og sól í heiði. Nú fór þingmaðurinn að sjá laufguð tré og iðjagrænan skóg. Einhvern tíma var þetta kölluð veruleikafirring. Ég held að tími sé kominn til að hv. þm. Pétur H. Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar og talsmaður Sjálfstæðisflokksins í kjaramálum, líti út um gluggann, litist um í íslensku þjóðfélagi og spyrji hvað þar sé að gerast.

Sú aukna misskipting sem hér er að verða blasir hvarvetna við, annars vegar í lífskjörum þeirra sem raka til sín milljónatugum, jafnvel milljörðum króna, og svo hinna hins vegar sem varla geta séð sér og sínum farborða. Þetta er staðreyndin á Íslandi í dag og ég held að það sé afskaplega misráðið að einblína á aðeins aðra hlið þessara mála, einblína á skattana og þær auknu ráðstöfunartekjur sem skattalækkanir gefa.

Við þurfum einnig að skoða útgjöldin og spyrja: Hvernig vegnar þeim í íslensku þjóðfélagi sem minnstar tekjurnar hafa? Hvernig vegnar þeim nú og hvernig vegnaði þeim áður fyrr? Ég er sannfærður um að það er erfiðara að vera fátækur á Íslandi í dag en það var fyrir 20 árum. Það er erfiðara að vera sjúkur og tekjulítill í dag en það var fyrir 20 árum. Það er erfiðara að afla húsnæðis ef maður ert tekjulítill í dag en það var fyrir 20 árum.

Við skulum ekki gleyma því sem breyst hefur í samfélagi okkar á undanförnum áratugum þegar félagslegt húsnæðiskerfi var nánast rústað undir lok aldarinnar. Hvaða afleiðingar hafði það? Við einblínum núna á það sem er að gerast í húsnæðislánakerfinu. Þar er margt gott og gleðilegt að gerast, að sönnu, en hafa menn hugleitt hitt að þeim fjölgar í samfélaginu sem ekki hafa efni á því að kaupa húsnæði yfirleitt og þurfa að leita út á rándýran húsaleigumarkaðinn? Hafa menn hugleitt að það er að fjölga í þessum hópum?

Nú er það svo að kjör þeirra sem sitja í þessum sal hafa batnað talsvert á undanförnum árum. Menn búa hér við allsæmileg og ég mundi segja góð kjör. En eru menn að missa jarðsambandið? Eru menn að missa tengslin við það sem er að gerast úti í samfélaginu? Hér hneyksluðust margir á kjarakröfum kennara og töldu þær vera óábyrgar. Var þetta ekki fólk sem ekki skilur lengur hvernig það er að hafa litlar tekjur og geta ekki framfleytt sér og sínum?

Það er staðreynd að í þjóðfélagi okkar eru stórir hópar fólks sem hafa allt of litlar tekjur, sem hafa í mánaðartekjur á bilinu 100–200 þús. kr. Þegar við skoðum ráðstafanir í skatta- og kjaramálum þurfum við að horfa til þessa fólks. Við verðum að skoða hið stóra samhengi. Hér kom ágætur þingmaður áðan og sagði að ráðstöfunartekjur lágtekju- og millitekjufólks með börn mundu aukast fyrir tilstilli þeirra skattkerfisbreytinga sem hér eru boðaðar. Ef við höldum áfram á þessari leið og höldum áfram að færa fólki kjarabætur með skattalækkunum, hvað gerist þá? Eru menn búnir að gleyma því að ástæðan fyrir því að sveitarfélögin voru treg til að koma til móts við kjarakröfur kennara var sú að sveitarfélögin töldu sig ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að greiða þeim laun sem skyldi? Hvað gerist ef við höldum áfram á þeirri braut að skerða enn tekjur ríkis og sveitarfélaga, þeirra sem fjármagna velferðarþjónustuna og greiða fólkinu laun? Sjá menn ekki samhengið hér á milli? Þetta er hið stóra samhengi sem aldrei má missa sjónar af.

Samkvæmt þessu frumvarpi ríkisstjórnarinnar munu tekjur ríkissjóðs rýrna um 25–30 milljarða á ári þegar skattkerfisbreytingarnar eru að fullu komnar til framkvæmda. Ríkisstjórnin telur að þessi upphæð sé lægri og til eru þeir sem segja að hún sé miklum mun lægri. (PHB: Kakan stækkar.) Kakan stækkar, kallar formaður efnahags- og trygginganefndar fram í. (Gripið fram í.) Hugmyndin er þá sú að vegna skattalækkana muni neysla í samfélaginu aukast, það verði veltuáhrif sem kallað er, aukin veltuáhrif, og fyrir bragðið muni tekjur ríkissjóðs af skattheimtu aukast. Þetta er sú hugsun sem menn byggja á en ég vísa í hagdeildir heildarsamtaka launafólks sem telja þetta vera bábilju og vísa þar í reynsluna. Þessi heildarsamtök, bæði ASÍ og BSRB, telja að tekjutap ríkisins verði á bilinu 25–30 milljarðar kr. á ársgrundvelli þegar þessar skattkerfisbreytingar verða komnar til framkvæmda.

Skattalækkunarstefna ríkisstjórnarinnar gengur algerlega í berhögg við áherslur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. VG er málsvari öflugrar samfélagsþjónustu og vill að hún sé fjármögnuð með sköttum en ekki notendagjöldum, hvort sem það eru skólagjöld, álögur á sjúklinga eða aðra sem þurfa á þessari þjónustu að halda. VG vill hins vegar endurskoða skattkerfið, gera það réttlátara og markvissara. Hefur þingflokkurinn flutt frumvörp í þessu skyni. Ég vil nefna tvö.

Í fyrsta lagi höfum við flutt frumvörp um hækkun fjármagnstekjuskatts úr 10% í 18%. Þetta mundi auka skatttekjur ríkissjóðs um a.m.k. 3 milljarða á ári, færa fjármagnstekjuskattinn upp í um 10 milljarða. (PHB: Stofninn minnkar.) Stofninn minnkar, segir hv. þm. Pétur H. Blöndal sem telur að fjármagnseigendur og fjáraflamenn í þessu þjóðfélagi geti aldrei hugsað á samfélagslega vísu, þeir hljóti að flýja land, reyna að koma eignum sínum undan til skattaparadísa í útlandinu eða svíkja undan skatti á einhvern hátt, finna holur og göt í kerfinu, að þessi hópur geti aldrei hugsað á ábyrgan hátt sem íslenskir þjóðfélagsþegnar. Það er mikil falleinkunn sem hann gefur þessum hluta samfélagsins. Hugsanlega er þetta rétt hjá honum en ég hef hins vegar ekki trú á að niðurstaðan yrði sú að skattstofninn mundi minnka, og ég spyr: Hvert ættu þessir aðilar að fara? Ég vísa mönnum á að lesa greinargerð með frumvarpi okkar um breytingar á fjármagnstekjuskatti því þar rekjum við nákvæmlega hvernig fjármagnstekjuskatti er fyrir komið í löndunum sem við iðulega berum okkur saman við. Þá vísa ég til Bandaríkjanna, Kanada, Norðurlanda, meginlands Evrópu og víðar.

Þetta er að sjálfsögðu líka réttlætismál vegna þess að þeim fjölgar sem hafa miklar tekjur af fjármagni. Það er eðlilegt að þeir greiði skatt af arði sínum, af ávinningi sínum af þessu fjármagni á sambærilegum kjörum og fók sem aflar tekna með launavinnu. Í rauninni væri réttlætismál að þeir greiddu meira, en látum það vera. Tillaga okkar gengur út á það að jafna þessi kjör. Það má ætla að fjármagnstekjur séu meira en helmingur af tekjum þeirra 5% framteljenda sem hæstar hafa tekjur á Íslandi. Það er þetta sem er að gerast, stóreignafólkið og hátekjufólkið, fjármagnseigendurnir, hafa tekjur sínar fyrst og síðast af fjármagni. Þetta er áhersla sem við höfum hamrað á í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og við höfum bent á til hvers við vildum nota þessa peninga.

Við höfum lagt fram tillögur um gjaldfrían leikskóla. Halda menn að slíkt yrði ekki kjarabót fyrir barnafólkið sem … (PHB: En hækkunin hjá Reykjavíkurborg?) Í Reykjavíkurborg hafa verið stigin skref til að gera leikskólann gjaldfrían. Það er staðreynd. (Gripið fram í: … var verið að hækka.) (Gripið fram í: … 2%, er það ekki?) Já, við erum með tillögur um að ríkið komi til aðstoðar sveitarfélögum til að stíga þessi skref. Ef menn telja sig geta hankað mig eða okkur á því að einhvers staðar sé verið að gera hluti sem ganga í öfuga átt, þó að það séu flokksfélagar okkar eða samherjar í pólitík, er sú för ekki farin til fjár vegna þess að við erum að tala um almenna stefnumótun sem við viljum styrkja og stuðla að, hvort sem það er í Reykjavíkurborg eða annars staðar. Við erum með tillögur um hvernig eigi að gera þetta, krefjumst ekki bara úrbótanna heldur erum við með tillögur líka um hvernig eigi að fjármagna þær samfélagsbætur sem við berjumst fyrir. Við lögðum líka fram tillögu um leiðir til að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna sem standa víða í landinu mjög illa, búa við mjög slæma fjárhagsstöðu. Við vildum nota þetta tilefni sem ríkisstjórnin gefur með lækkun tekjuskattsins til þess að færa heimildir til sveitarfélaga til hækkunar útsvars þannig að þar jafnaðist út lækkun tekjuskatts og hækkun útsvars til að styrkja og treysta tekjustofna sveitarfélaganna. Við komum með tillögu þar að lútandi sem hefur verið rædd í þinginu og liggur í nefnd.

Það sem ég er að leggja áherslu á í upphafi míns máls er sú staðreynd að stefna í skattamálum er jafnframt stefna í stjórnmálum. Á undanförnum missirum hefur verið tekist hart á um það í samfélaginu hvernig eigi að fjármagna velferðarþjónustuna. Við munum eftir þeim átökum sem urðu um aðhaldsaðgerðir — sem stundum er kallað svo á fínu máli — sem Landspítali – háskólasjúkrahús var beittur. Þar myndaðist breið samstaka innan hreyfinga launafólks. Alþýðusamband Íslands, BSRB, BHM, Öryrkjabandalag Íslands og ýmis samtök sjúklinga tóku höndum saman um að mótmæla aðhalds- og niðurskurðaráformum á Landspítala – háskólasjúkarhúsi vegna þess að þá hafði komið í ljós hvað raunverulega vakti fyrir stjórnvöldum, það var að svelta þessa stofnun og aðrar ámóta stofnanir til að einkavæða hluta starfseminnar. Og það er að gerast.

Hver er afleiðing slíkrar stefnu? Afleiðingin er sú að þegar starfsemin er komin út á markað verður fjármögnun hennar í ríkari mæli en áður var með notendagjöldum. Hvað þýðir það? Það þýðir að hinir efnameiri, þeir sem hafa meira handa á milli, eiga að sjálfsögðu auðveldara með að nálgast þessa þjónustu sem þeir kaupa á markaði en hinir sem hafa minni efni. Hinir efnameiri eiga auðveldara með að kaupa menntun fyrir börn sín og aðhlynningu ef þeir eru sjúkir eða þurfa á slíku að halda. Við erum að færa íslenskt þjóðfélag að þessu leyti í átt frá Norðurlöndum og Evrópu yfir til Bandaríkjanna, til þess sem tíðkast þar, þar sem samfélagsþjónustan er að verulegu leyti markaðsvædd. Það er að vísu til öryggisnet og þjónusta í heilbrigðisþjónustu en hún er lakari fyrir þá efnaminni og efnaminnstu. Viljum við þetta? Nei. Ég held að hér rími vel saman áherslur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og viðhorfa í samfélaginu almennt.

Fyrir fáeinum árum var gerð könnun á vegum BSRB. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands annaðist hana og þar var spurt hvernig Íslendingar vildu fjármagna velferðarþjónustuna, með notendagjöldum, sjúklingasköttum og skólagjöldum eða í gegnum skatta. Yfirgnæfandi meiri hluti vildi fara skattaleiðina, vildi borga til heilbrigðisþjónustunnar meðan fólkið var heilbrigt og vinnufært, vildi ekki bíða eftir því að það yrði veikt og sjúkt og þá látið borga. Menn sáu nefnilega samhengið á milli almennrar skattheimtu og velferðar og jöfnuðar í samfélaginu. Það sem var athyglisvert við þessa könnun var að sambærileg könnun sem gerð hafði verið fáeinum árum áður, um áratug áður, hafði sýnt talsverðan vilja til að fara notendagjaldaleiðina. Eftir því sem reynslan af notendagjöldum fór vaxandi minnkaði áhuginn á slíku. Það er að gerast í samfélaginu núna að efnalítið eða fátækt fólk á Íslandi veigrar sér við að kaupa lyf og veigrar sér við að leita til læknis vegna þess að það hefur ekki fjárráð til þess. Viljum við halda áfram út á þessa braut? Við erum smám saman að feta okkur í þessa átt.

Við vorum að ræða í gær og í nótt um skólagjöld. Hér er verið að innleiða skólagjöld á háskólastigi. Ætla menn neðar? Ætla menn í skólakerfið almennt með skólagjöld? Ég spyr ekki að tilefnislausu heldur vegna þess að það sem er að gerast núna í samfélaginu hefði verið óhugsandi fyrir 20–30 árum. Það hefði verið óhugsandi fyrir 20–30 árum að rukka veikt fólk í þeim mæli sem gert er inni á sjúkrastofnunum núna. En núna er sú hugsun að ryðja sér til rúms að kjarabæturnar eigi að liggja í skattalækkunum vegna þess að þær gefi okkur auknar ráðstöfunartekjur en síðan eigi að rukka þegar komið er með börnin í skólana, námsmennina í háskólana og sjúklingana inn á spítalana. Þá á að rukka. Þess vegna spyr ég: Hvernig kemur þetta út fyrir hina efnaminnstu, þá sem eiga við sjúkdóma að stríða? Þannig eigum við að spyrja.

Við eigum einnig að spyrja um hitt: Hvernig er skiptingin á milli hinna tekjuhæstu og hinna tekjulægstu? Hverjir hagnast mest? Hvernig skyldi milljón króna manninum reiða af, manninum sem hefur milljón kr. á mánuði í tekjur? Hvernig skyldi honum reiða af í skattumhverfi hv. þm. Péturs H. Blöndals og hæstv. ráðherra Geirs H. Haardes? Þegar upp verður staðið 2007 mun hann hafa hagnast um 1 millj. á ári af skattkerfisbreytingunum. En hvað með aðra? Aukning ráðstöfunartekna þessa aðila er um 12,4%. Hvernig er með þá sem hafa allra minnstu tekjurnar? Skyldi ávinningurinn þar vera milljón? Nei, hann er nánast enginn nema — og ég ætla ekki að taka það af ríkisstjórninni — að aukning í barnabótum fyrir barnafólkið er að sjálfsögðu veruleg bót. En ríkisstjórnin er umhverfisvæn í þeim skilningi að hún endurvinnur góð mál og ég veit ekki hvað Framsóknarflokkurinn er búinn að endurvinna barnabótatrikkið oft. Hann hefur gengið til kosninga núna a.m.k. í tvígang með loforðum um bætur á því sviði.

Barnabætur núna eru í heild sinni um 5,4 milljarðar. Hvað skyldu þær hafa verið um miðjan síðasta áratug? Þær voru 6,5 milljarðar, milljarði hærri en þær eru nú, og þær voru enn hærri ef við förum lengra aftur, til ársins 1991, þá voru þær enn hærri. Þó að ég að sjálfsögðu fagni þeim umbótum sem verið er að gera á þessu sviði er hér fyrst og fremst verið að snúa ofan af öfugþróun sem átt hefur sér stað á síðasta hálfum öðrum áratug. Það er verið að snúa ofan af öfugþróun og áður en ég skil alveg við Framsóknarflokkinn, barnakortin, umbæturnar og loforðin til barnafólksins vil ég minnast einna kosninga um svokölluð barnakort, um ótekjutengdar barnabætur, og svo loksins komu þau til barna upp að 7 ára aldri. Það sem gleymdist að segja er að áður en Framsóknarflokkurinn komst til valda voru þessar bætur til allra barna upp að 16 ára aldri. Hér er geysilega umhverfisvænn stjórnmálaflokkur á ferðinni sem endurvinnur öll sín kosningaloforð og fyrirheit.

Það sem ég var að leggja út af hér er sú fullyrðing að stefna í skattamálum sé jafnframt stefna í stjórnmálum. Hér er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skýr og við teljum okkur vera sjálfum okkur samkvæm að því leyti að við styðjum í verki almenna skattheimtu til fjármögnunar velferðarkerfis landsmanna. Við erum hins vegar með hugmyndir um breyttar áherslur í skattkerfinu og ég tók dæmi um tillögur okkar um fjármagnstekjuskatt hvað það snertir.

Skattalækkanir eiga samkvæmt frumvarpinu að koma til framkvæmda í áföngum á árunum 2005–2007. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að tekjuskattshlutfallið verði lækkað um 4% og að í öðru lagi verði eignarskattur á einstaklinga og lögaðila afnuminn. Viðmiðunarfjárhæðir laganna verða hækkaðar, barnabætur að sama skapi en dregið verður úr stuðningi við húsnæðiskaupendur.

Ríkisstjórnin er söm við sig að því leyti að það sem hún telur ganga í augu skattgreiðenda og barnafólks kemur ekki til framkvæmda fyrr en undir lok kjörtímabilsins. Þannig verður tekjuskattshlutfallið lækkað um 1% fyrstu tvö árin en um 2% kosningaárið 2007. Breytingar á barnabótakerfinu koma til framkvæmda í tveimur áföngum, þ.e. á árunum 2006 og 2007. Eignarskattarnir verða felldir niður frá og með árinu 2005 en koma ekki fram fyrr en með álagningu skatta árið 2006. Nú eru alþingiskosningar á árinu 2007 og það er greinilegt að tillögusmiðum frumvarpsins eru þær kosningar mjög ofarlega í huga. Þá verður hækkun barnabótanna nýtilkomin og niðurskurðaráhrifa skattalækkana ekki farið að gæta að fullu. Hins vegar verður hafist handa um skerðingu vaxtabótanna þegar í stað. Það sem er slæmt er að það er byrjað á því og síðan kemur rúsínan, konfektið undir lokin en þó þannig að neikvæðra áhrifa verður ekki farið að gæta og allt í fínu lagi í auglýsingunum öllum fyrir kosningar þegar Framsóknarflokkurinn fer í smink og fær nýja kosningastofu, kannski þá gömlu. Hún fékk verðlaun fyrir að vinna það ótrúlega afrek að gera Framsóknarflokkinn að nýjum saklausum flokki sem væri að koma fram með ýmis nýmæli og hugmyndir í húsnæðismálum á ýmsum sviðum þar sem flokkurinn hafði farið með völdin í heilt kjörtímabil. Þetta þóttu slík tíðindi að auglýsingastofunni voru veitt sérstök verðlaun fyrir þetta.

Aðeins nokkur orð um viðbrögð umsagnaraðila um áhrif skattkerfisbreytinganna. Þau skiptust mjög í tvö horn. Annars vegar eru það Samtök atvinnurekenda sem eru yfir sig hrifin og Verslunarráðið hælir ríkisstjórninni á hvert reipi, stórkostlegar tillögur. Þetta er á annan vænginn. Á hinn vænginn eru síðan almannasamtökin í landinu, verkalýðshreyfingin, Alþýðusamband Íslands, BSRB og Öryrkjabandalag Íslands eru með þung orð og gagnrýni. Hið sama gildir um Samband íslenskra sveitarfélaga. Þaðan koma einnig varnaðarorð og miklir fyrirvarar við þetta frumvarp. Síðan eru það greiningardeildir bankanna og Seðlabanka Íslands sem vara við þensluvaldandi áhrifum frumvarpsins og minna á að með minni tekjum ríkissjóðs verði að beita aðhaldi í ríkisrekstri og/eða hækkun vaxta.

Það sem vekur athygli mína í viðbrögðum og yfirlýsingum þessara aðila er hve alhæfingagjarnir þeir eru. Þeir tala alhæfingatungu og greina ekki á milli einstakra útgjaldaliða, hvort beita eigi niðurskurði á sjúkrahúsum, í skólum eða í framkvæmdum, heldur tala þeir jafnan um nauðsyn þess að skera niður, beita ríkið og samfélagið aðhaldi. Það er enginn greinarmunur gerður á þessu og mér finnst það óábyrgt. Það er sérstaklega óábyrgt í ljósi þess hverjir halda hér um stjórnvölinn vegna þess að þeim er ekki treystandi með skilaboð af þessu tagi. Við þekkjum dæmin af Landspítala – háskólasjúkrahúsi og sjúkrahúsunum reyndar almennt í landinu. Þessir aðilar eru yfirleitt ekki með sundurgreiningu á þensluvaldandi þáttum. Hvað er það sem veldur þenslu? Er það aukinn kaupmáttur almennings í samfélaginu? Er það hugsanlega aukin lánsfjárþörf opinberra aðila, veldur hún því að fjármagn verði dýrara? Eru það áhrif á vinnumarkaði? Eru það áhrif þá á tilteknum sviðum á vinnumarkaði, í tilteknum geirum? Þetta er yfirleitt ekki sundurgreint og ég held að það sé ein ástæðan fyrir því hvernig er að fara hér af völdum stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, að greiningaraðilarnir hafa ekki axlað þessa ábyrgð. Það er enn hrollur í mér eftir að fulltrúar Seðlabankans og fleiri aðila komu á fund efnahags- og viðskiptanefndar og voru spurðir um áhrifin af Kárahnjúkavirkjun þegar hún var til umræðu í þeirri nefnd. (Gripið fram í: Bara hræddur?) Þeir töluðu þá, fulltrúar Seðlabankans, þessari sömu alhæfingatungu og ég man að það var spurt: Eruð þið einvörðungu að tala um áhrifin án tillits til þess hverju þessi aðgerð skilar inn í þjóðarbúið? Já. Við gætum þess vegna verið að tala um píramída á Sprengisandi. Þannig var umræðan.

Nú erum við hins vegar að súpa seyðið af því að þessi áhrif voru aldrei sundurgreind. Menn fóru aldrei í þá umræðu að spyrja: Hver er virðisaukinn fyrir íslenskt samfélag? Það voru til undantekningar, það voru til hagfræðingar sem töluðu um það að sönnu og voru með miklar efasemdir, og meira en efasemdir, um að staðhæfingar ríkisstjórnarinnar gengju.

Sitthvað er þó mjög ábyrgt hjá þessum greiningaraðilum og ég ætla að vitna í yfirlýsingu frá greiningardeild eins bankans, þ.e. Landsbankans, en hér segir, með leyfi forseta:

„Með því að lækka skatta í jafnmiklum mæli og nú hefur verið ákveðið liggur fyrir að ríkið verður að skapa hagstjórnaraðhald með mjög miklu aðhaldi á útgjaldahlið ríkisfjármálanna. Að öðrum kosti kynda ríkisfjármálin undir eftirspurnina og bjóða þannig heim hættunni á vaxandi þenslu. Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að meginþungi skattalækkananna verður í lok núverandi kjörtímabils, þegar gera má ráð fyrir að efnahagsuppsveiflan verði um garð gengin. Ef koma á í veg fyrir hækkun vaxta og styrkingu krónunnar er nauðsynlegt að trúverðugar áætlanir verði lagðar fram um niðurskurð útgjalda áður en ráðist er í niðurskurð tekna.“

Er þetta ekki mergurinn málsins? Það er verið að segja við ríkisstjórnina og stjórnarmeirihlutann hér: Ef þið ætlið að skerða tekjur hins opinbera verðið þið jafnframt að koma með tillögur um það hvernig þið ætlið að mæta tekjutapinu. Þetta eru greiningardeildir bankanna að segja.

Varðandi vextina erum við þegar farin að sjá áhrifin af stóriðjuframkvæmdunum og varnaðarorðin varðandi skattalækkunina hníga í nákvæmlega sömu átt. Stýrivextir Seðlabankans voru hækkaðir í síðustu viku um eitt prósentustig og í kjölfarið fylgdi almenn vaxtahækkun í landinu. Á hverjum bitnar þetta verst og mest? Á fjölskyldum, skuldugu fólki og fyrirtækjum, einkum smáum og meðalstórum. Hvers vegna? Vegna þess að þau fjármagna lán sín innan lands á meðan aðrir aðilar eru iðulega með sín fjármál í útlandinu.

Síðan er eitt sem við þurfum að hugleiða. Ríkisstjórnin réttlætir skattalækkanir sínar og skattalækkunaráform í ljósi hagsveiflu sem þó er talin vera tímabundin. Menn vísa þar í stóriðjuframkvæmdirnar, í tímabundna uppsveiflu í efnahagslífinu, tímabundinn hagvöxt. Þetta er hins vegar afskaplega varasamur vegvísir tel ég vera vegna þess að þegar við ákveðum skattstigið í þjóðfélaginu verðum við að taka mið af langtímaþróun og láta ekki glepjast af tímabundnum sveiflum í efnahagslífinu. Ef við færum skatthlutfallið niður varanlega og jafnframt dregur úr hagvexti síðar meir því að það skiptast á skin og skúrir í efnahagslífi þjóðanna, það er bara staðreynd, sitjum við uppi með skattstig sem skilar ekki þó því inn í hagkerfið sem ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn gumar af, þ.e. veltuáhrifunum. Þau eru horfin en við sitjum eftir með lægra skattstig og þar af leiðandi skerta samfélagsþjónustu og aukin notendagjöld. Þetta er veruleikinn sem blasir við og þess vegna segi ég: Tímabundin hagsveifla, tímabundinn uppgangur í efnahagskerfinu er varasamur vegvísir. Við þurfum að hugsa þessi mál til mun lengri tíma.

Ég gat um það áðan hver áhrifin af þessum skattkerfisbreytingum væru fyrir fólkið í landinu, annars vegar fyrir hátekjufólkið sem hagnast verulega og hins vegar fyrir lágtekjufólkið og millitekjufólkið sem eykur ráðstöfunartekjur sínar mun minna nema að sönnu þeir sem eru með börn á framfæri og fá hækkun barnabóta. Þar koma til kjarabætur en þar minni ég hins vegar aftur á samhengið á milli skertrar samfélagsþjónustu og aukinnar byrðar af völdum notendagjalda og þessarar aukningar ráðstöfunartekna hins vegar. Það sem skiptir þó kannski meira máli eða er öllu heldur enn meira sláandi er hvernig hinir ríku hagnast á afnámi eignarskattsins. Þar er hópur sem hagnast verulega á honum. Þeir sem eiga skuldlausa fasteign á bilinu 50–100 millj. kr. greiða að meðaltali 385.749 kr. í þennan skatt. Þeir sem eiga skuldlausa eign að verðmæti meira en 100 millj. greiða sem nemur að meðaltali 895.187 kr. í eignarskatt. Þetta er veruleg kjarabót. Mér finnst ekki, okkur finnst ekki ástæða til þess að létta þarna byrðunum. Þess vegna höfum við ákveðið að flytja í sameiningu, stjórnarandstaðan eins og formaður Samfylkingarinnar gat um áðan, tillögu um að lyfta frítekjumörkunum þannig að fleira fólk og lágtekju- og meðaltekjufólkið sleppi við eignarskattinn en stóreignaskattur verði hins vegar ekki afnuminn. Hér kallaði einhver fram í áðan og sagði: Er þetta ekki gott fyrir þá sem eru í eigin húsnæði? (Gripið fram í.) Jú, það er gott fyrir alla í þeim skilningi að losna við skatta, að sjálfsögðu. Allir vildu það ef þeir einblíndu á þetta eitt en það sem um er að tefla er sú spurning hvernig við innheimtum skatta á sem réttlátastan hátt. Við ætlum að ná í skattana áfram, við ætlum að reka hér velferðarsamfélag. Þá er spurningin að finna út hverjir það eru sem eru aflögufærir og hverjir ekki. Þá gagnast ekki að segja um alla skattheimtu: Ja, er ekki gott fyrir þennan að sleppa við skatta? Jú, að sjálfsögðu. Við erum hins vegar í pólitískri umræðu um það hvernig við dreifum sköttunum á sem réttlátastan hátt niður á samfélagið.

Aðeins orð um áhyggjur sveitarfélaganna. Þau benda á að í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga renni visst hlutfall af skatttekjum ríkissjóðs, 2,12% held ég að það sé. Ef dregur úr skatttekjum ríkissjóðs minnkar sú upphæð sem rennur inn í jöfnunarsjóðinn. Samkvæmt áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga nemur þessi upphæð, þessi skerðing, um 400 millj. kr. Ég vek athygli á því að öll þessi mál þarf að skoða í víðu samhengi vegna þess að skattbreyting á einum stað hefur áhrif á skatta að öðru leyti og við tökum undir áhyggjur Sambands íslenskra sveitarfélaga hvað þetta varðar.

Síðan hefur verið bent á það í álitsgerðum verkalýðssambandanna sérstaklega að viðmiðunarupphæðir frumvarpsins, svo sem sjómannaafsláttur, viðmiðunarupphæðir eignarskatts, barnabóta og vaxtabóta eru miðaðar við umsamdar launahækkanir á almennum vinnumarkaði. Ef við hins vegar styðjumst við verðbólguspá fjármálaráðuneytisins má búast við að verðbólgan verði talsvert umfram þessar umsömdu launahækkanir og það veldur því að að öllu óbreyttu munu þessar viðmiðunarupphæðir rýrna á tímabilinu. Hér ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það í sjálfu sér en vitna í greinargerð sem fylgir minnihlutaálitinu en þar eru m.a. greinargerðir frá ASÍ, BSRB, Öryrkjabandalagi Íslands, Samtökum eldri borgara og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Ég vil nefna það í þessu sambandi af því að ég gleymdi að geta um það áðan að eldri borgarar fagna því í sjálfu sér að eignarskatturinn skuli vera afnuminn en benda á að það gerist í áföngum og að jafnframt því sem menn feti sig út á þessa braut hafi fasteignamatið verið hækkað verulega þannig að í rauninni sé ekki um að ræða kjarabót í þeim skilningi af völdum lækkunar eignarskattsins á fyrri stigum vegna þessa samspils. Ég vísa í greinargerð sem fylgir. Ég tel að varðandi barnabæturnar þurfum við að taka það kerfi allt til skoðunar. Hækkunin þar kemur ekki af fullum þunga fram fyrr en undir lok kjörtímabilsins og ég tel að við þurfum að skoða það kerfi heildstætt áður en til kastanna kemur og einnig vaxtabæturnar. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við þurfum að fara inn í nýtt kerfi þar, húsnæðisbótakerfi þar sem við drögum úr þeim mun sem er á milli vaxtabóta annars vegar og húsaleigubóta hins vegar og búum til nýtt húsnæðisbótakerfi.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð mín fleiri. Ég hef rakið helstu þætti sem fram koma í greinargerð minni en áskil mér að sjálfsögðu rétt til að gera síðar frekar grein fyrir sjónarmiðum mínum.



[12:00]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður gerði, að mér fannst, frekar lítið úr breytingum okkar á barnabótum. Hann sagði þó að þær væru verulega til bóta. Ég þakka sérstaklega fyrir það. Það fara 5,4 milljarðar kr. í barnabæturnar í dag. Það á að hækka þessar bætur um 2,4 milljarða kr. Þær munu stórefla stöðu barnafólks í samræmi við þá hugmyndafræði sem við höfum stutt og fleiri stjórnmálaflokkar, þ.e. að gera betur við barnafjölskyldur, hækka bæturnar og minnka áhrif skerðingarmarkanna sem menn hafa lifað við um skeið. Þeir sem hafa tekjur verða fyrir minni skerðingu á barnabótunum og það er geysilega mikilvægt.

Tímasetningar skattalækkananna hafa verið gagnrýndar, þ.e. að þær komi í lok kjörtímabilsins. Það er einmitt mjög brýnt að þær komi þá vegna þess að þá minnkar þenslan af stóriðjuframkvæmdunum fyrir austan, framkvæmdum sem Vinstri grænir eru reyndar á móti. Það er því skynsamlegt að tímasetja skattalækkanirnar eins og við erum að gera.



[12:02]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég gagnrýni skattalækkanirnar almennt. Varðandi tímasetninguna þá er, einmitt vegna þess að við teljum þær vera þensluvaldandi, betra að fá þær undir lok tímabilsins. Ég var hins vegar fyrst og fremst að vekja athygli á því að hugsanlega væri samhengi á milli þess að árið 2007 er kosningaár og tímasetninga á úrbótum varðandi barnabætur og skattalækkana.

Staðreyndin er sú að þegar Framsóknarflokkurinn komst til valda í stjórn með Sjálfstæðisflokknum voru barnabætur að verðgildi krónunnar í dag 6,5 milljarðar kr. Núna eru þær 5,4 milljarðar kr. Þær eru 1,1 milljarði lægri nú en þegar Framsóknarflokkurinn komst til valda. Samt minnist ég þess að Framsóknarflokkurinn hafi lofað og prísað öllum stundum að hann hafi gert stórkostlega hluti á því sviði.



[12:03]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Allir flokkar vilja hækka barnabætur og einmitt það erum við að gera. Það þarf að gera betur við barnafólk. Núverandi stjórnarflokkar hafa einmitt gengið í það verk og við ræðum hér um hvernig eigi að gera þetta. Ég er mjög ánægð með niðurstöðuna. Sú upphæð sem var rætt var um í síðustu kosningabaráttu að færi í að hækka barnabætur skilar sér með þessari breytingu. Það hefði verið hægt að setja aðra upphæð í barnabæturnar en það var ekki gert.

Varðandi það að skattalækkanirnar komi fram að mestu leyti í lok kjörtímabilsins þá er það vegna þessara stóriðjuframkvæmda sem þá verða búnar eða farið að líða að lokum þeirra. Þess vegna er áætlað að skattalækkanirnar komi fram þá. Þá verða reyndar kosningar líka en tímasetningin miðast við að við lendum ekki í niðursveiflu í efnahagslífinu í lok þessa kjörtímabils, þegar stóriðjuframkvæmdum fer að ljúka. Þá koma skattalækkanirnar fram af fullum þunga og viðhalda betra ástandi.



[12:04]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óttast að skattalækkanirnar valdi því að við lendum í sveiflum þegar upp er staðið. Þessar skattalækkanir eru að hluta réttlættar með uppsveiflunni, að veltuáhrif í efnahagskerfinu og valdi því að tekjur ríkissjóðs muni aukast. Þegar dregur hins vegar úr hagvexti, sem hugsanlega getur gerst þótt vonandi gerist það ekki, þá sitjum við uppi með lægra skattstig og eigum erfiðara með að fjármagna samneysluna. Ég hef bent á þetta samhengi auk þess að benda á þær áhyggjur sem mörg okkar hafa af því að ríkisstjórnin hyglar hátekjufólki og stóreignafólki langt umfram það sem gerist gagnvart lágtekju- og millitekjuhópum.



[12:05]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson er þekktur fyrir að berjast fyrir bættum hag launafólks. Hann hefur gert það ágætlega. Hann hefur hins vegar lýst því að hann sé ósammála þeirri leið sem ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis stendur nú fyrir með skattalækkunum, sem sannarlega munu bæta hag almennings og þess launafólks sem hann hefur barist fyrir.

Á síðustu dögum hafa greinar birst í blöðunum um hvernig skattalækkanirnar muni hafa áhrif á hag launafólks. Þar kemur fram að forsvarsmenn aldraðra meta það svo að skattalækkanir muni bæta hag aldraðra þannig að kaupmáttur þeirra aukist um 9–12,5%. Inn í þá tölu er ekki tekinn eignarskatturinn en það hefur verið sýnt fram á að bara eignarskatturinn mun auka ráðstöfunartekjur aldraðra verulega. Einstaklingur eða hjón sem eiga 20 millj. kr. íbúð borguðu 180 þús. kr. í eignarskatt þegar hann var 1,2%. Þetta fer niður í 0 krónur. Það munar um 180 þús. kr. fyrir aldraða á ári.



[12:07]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er skrýtið en ég hef allt aðrar upplýsingar frá Samtökum eldri borgara. Þeir sendu frá sér fréttatilkynningu þegar skattafrumvarpið lá fyrir undir fyrirsögninni „Skattafrumvarp ríkisstjórnarinnar gleymir eldri borgurum og einstaklingum með lágar tekjur“. Þetta var yfirskrift yfirlýsingar sem frá þeim kom.

Hins vegar er það alveg rétt að þegar þessi yfirlýsing er gaumgæfð kemur fram að samtökin, eins og ég gat um áðan, fagna t.d. afnámi eignarskatts. En þau gagnrýna jafnframt að fasteignamatið skuli hafa verið hækkað sem veldur því að byrðarnar verða þyngri, a.m.k. fyrst í stað. En þetta er áherslan hjá þeim.



[12:08]
Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljóst að yfirskriftin á áliti Samtaka eldri borgara er önnur en niðurstaða þess vegna þess að þegar upp er staðið koma aldraðir mjög vel út úr skattbreytingunum.

Ég held að við getum, sem bæði höfum reynslu af því að berjast fyrir bættum kjörum launafólks, verið sammála um að það þýði lítið að berjast fyrir bættum kjörum ef ríkið fer aftur um leið með krumlurnar ofan í vasana. En fyrir því er flokkur hv. þingmanns að berjast í borginni.

Á sama tíma og við lækkum skatta á landsmenn er R-listinn að hækka skatta á borgarbúa. Hv. þingmaður benti m.a. á að lækkun á eignarskatti gagnaðist sumum lítið ef fasteignaskattar hjá sveitarfélögunum hækka á móti. Hver stendur fyrir því? Hver skerðir með því kjör launamanna? Það er R-listinn og Vinstri grænir eru hluti af R-listanum.

Hv. þm. talaði áðan um að skoða hlutina í samhengi. Vissulega verður að gera það. Við verðum að vita hvar við stöndum.



[12:09]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óska eftir og hvet til þess að við skoðum þessi mál heildstætt með tilliti til tekna, tekjustofna sveitarfélaga og ríkisins líka. Ég er ekki sammála orðavalinu hjá hv. þingmanni þegar hún segir að ríkið komist með krumlurnar í vasa skattborgara. Við þurfum að skoða heildstætt og spyrja til hvers þær krónur eru notaðar. Þær eru notaðar til að reka gott heilbrigðiskerfi. Við eigum sem betur fer eitt vandaðasta og besta heilbrigðiskerfi í heiminum. Við höfum aukið gjaldtöku þar. Það hefur verið gagnrýnt en eftir stendur mjög gott og vandað heilbrigðiskerfi. Til þess m.a. eru fjármunirnir notaðir.

Mér finnst það áhyggjuefni að í heilbrigðisstofnunum í landinu öllu eru deildir víða undirmannaðar vegna fjárskorts vegna þess að „krumla ríkisins“ hefur væntanlega ekki komist nægilega djúpt í vasa skattborgarans. Nú erum við að fjalla um frumvarp sem dregur úr möguleikum til að reka þá þjónustu.



[12:10]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson segir, sem er alveg hárrétt, að Vinstri grænir séu sjálfum sér samkvæmir. Við sjálfstæðismenn erum að uppfylla loforð okkar og við erum mjög hreykin af því. Það er hægt vegna þess hve vel hefur verið haldið á efnahagsmálum þessa lands undanfarin ár. Þetta verða stórkostlegar breytingar sem koma munu öllum til góða.

Að meðaltali mun kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna í landinu hækka um 4,5% en hjá barnafólki með lágar eða meðalháar tekjur verður hækkunin mun meiri. Afnám eignarskatts hefur þýðingu fyrir fjölda fólks. Mestur er þó ávinningur þeirra sem eiga skuldlausar eignir. Ég vildi gjarnan óska Þuríði Pálsdóttur til hamingju, sem barðist árum saman fyrir afnámi eignarskattsins. Það má taka dæmi af einstaklingi sem einungis hefur ellilífeyri, um 1 millj. kr. í tekjur á ári og býr í skuldlausri eigin íbúð sem kostar um 20 millj. Eftir þessar breytingar leggst ekki á hann skattur. Árleg aukning ráðstöfunartekna verður 133 þús. kr. eða 16%.



[12:12]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eigum við ekki að óska svolítið fleira fólki til hamingju? Til dæmis hátekjufólkinu, þeim einstaklingi sem er með 1 millj. kr. í mánaðartekjur. Hann fær í gjöf frá ríkisstjórninni 1 millj. kr. á ári, bara vegna tekjuskattslækkunarinnar. Eigum við ekki að óska þessum aðilum til hamingju líka? Eigum við ekki að fara svolítið varlega í að óska samfélaginu til hamingju með hvernig árar í þjóðarbúskapnum?

Staðreyndin er sú að íslenska þjóðarbúið er við það að slá heimsmet í skuldum. Við erum þriðja skuldsettasta þjóðarbú í heimi á eftir Finnlandi og einkavæðingarmönnunum á Nýja-Sjálandi, þá kemur Ísland. Er ekki ástæða áfram til að skoða málið dálítið heildstætt, eins og hv. þm. Ásta Möller lagði til áðan?



[12:13]
Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sannarlega megum við óska íslensku samfélagi til hamingju í dag. Til hamingju með skattalækkanirnar sem við erum að koma í framkvæmd nú um þessar mundir. Þær eru sannarlega ekki gjafir. Við erum að skila aftur til almennings því sem hann á skilið.

Ég vil taka aftur dæmið sem ég var með áðan, af einstaklingi sem einungis hefur ellilífeyri, um 1 millj. kr. á ári, og býr í skuldlausri eigin íbúð sem kostar 20 millj. kr. Fyrir breytingu er tekjuskattur og útsvar 42 þús. kr. og eignarskattur 90 þús. Eftir breytingu, enginn skattur. Árleg aukning ráðstöfunartekna 133 þús. eða 16%. Þessu fólki vil ég sannarlega óska til hamingju með daginn í dag.



[12:14]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er fyrst og fremst verið að skila aftur — svo við notum það orðalag, ef það er yfirleitt rétt — fjármunum til þeirra sem hæstar tekjur hafa á Íslandi, stóreignafólks og hátekjufólks. (DrH: Þetta er rangt, Ögmundur.) Þetta er staðreynd. Ég er bara að vísa í útreikninga sem hér liggja fyrir, að milljón króna maðurinn fær í gjöf frá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1 millj. kr. á ári.

Ég spyr: Þurfum við ekki að horfa til afleiðinganna líka og á hverjum þetta kemur til með að bitna? Þið, hv. þingmenn, setjið alltaf ríkið upp sem einhverja grýlu með krumlur. Við erum að tala um samfélagsþjónustuna. Við erum að tala um Landspítala – háskólasjúkrahús. Við erum að tala um heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni. Við erum að tala um skólana í landinu og hv. þingmenn tala um þetta eins og afl af hinu illa. Við erum að tala um íslenska velferðarkerfið og að einhverju þurfi að skila til baka frá því.



[12:15]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er sennilega aðeins eitt sem ég get tekið undir í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, þ.e. að skattamál snúist um grundvallaratriði í stjórnmálum. Það er ágætt að fá það fram af hálfu Vinstri grænna. Þar greinir þá flokka sem annars vegar mynda ríkisstjórnina og hins vegar þá flokka sem standa saman að stjórnarandstöðunni verulega á. Í tilviki Vinstri grænna er allljóst hvað þeir vilja. Í tilviki sumra annarra stjórnarandstöðuflokka er það alls ekki jafnljóst, enda virðast menn eiga í vandræðum með að finna stefnuna.

Í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar og annarra talsmanna Vinstri grænna við 1. umr. um málið komu fram áhyggjur af efnahagspólitískum og hagstjórnarlegum áhrifum skattalækkana. Það væri gott að fá að heyra nokkuð skýrt frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni hvort hann telji að skattahækkunaraðgerð R-listans í Reykjavík sé efnahagspólitískt skynsamleg aðgerð?



[12:16]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að skattahækkanir geti verið nauðsynlegar og geti átt rétt á sér. Við höfum verið með tillögur um, eins og ég gat um áðan, að styrkja beri tekjustofna sveitarfélaganna ef ríkið telur sig vera aflögufært. Ég tel svo reyndar ekki vera. En ef ríkið telur sig aflögufært þá á hins vegar að færa auknar heimildir til sveitarfélaganna til skattahækkana, m.a. til að geta staðið undir velferðarsamfélaginu.

Ég tel að það sé nokkuð sem við eigum að tala um á mjög raunsæjan hátt, að undirstaða blómlegs efnahagslífs er öflug og góð samfélagsþjónusta. Ég minnist þess að danskir atvinnurekendur voru einhvern tímann spurðir hvað þeir teldu skipta mestu máli fyrir það hvar þeir settu fyrirtæki sín niður. Þeir sögðu: Góð barnaheimili, góðir vegir, góðir skólar, elliheimili, sjúkrahús o.s.frv. Þetta þarf allt að vera til staðar til að við getum rekið okkar fyrirtæki. Þetta kostar peninga.



[12:18]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Það má skilja orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar svo að nú í uppsveiflunni sem við sjáum fram á að standi næstu ár þá sé skynsamlegt að hækka skatta, væntanlega til að draga úr einkaneyslu. Það sem vegur hins vegar svolítið á móti sjónarmiðum hv. þingmanns er að hann virðist jafnframt telja skynsamlegt að auka verulega útgjöld innan samneyslunnar, bæði á vegum ríkis og sveitarfélaga. Einhvern veginn virðist manni að það yrði síst til að draga úr þensluáhrifum, ekki hefur hann tekið undir með orðum greiningardeilda banka eða Seðlabanka um að þörf sé á harðari aðhaldsaðgerðum hjá hinu opinbera.

Varðandi tengslin milli skattheimtu og velferðarþjónustu er nauðsynlegt að fram komi að á sama hátt og velferðarþjónusta og samfélagsþjónusta getur skipt verulegu máli fyrir atvinnulífið þá er traust og öflugt atvinnulíf og verðmætasköpun í samfélaginu nauðsynlegur grunnur þess að yfir höfuð sé hægt að halda uppi einhverri samfélagsþjónustu.



[12:19]
Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Undir það skal sannarlega tekið, að vera þarf eðlilegt samspil þar á milli. En þegar við tölum um verðmætasköpun í samfélaginu þá tel ég að við eigum að setja undir sama hatt það sem er að gerast gott á markaði og í samfélagsþjónustunni, vegna þess að þar eru líka búin til verðmæti.

Við skulum ekki gleyma samspili þessa. Góð samfélagsþjónusta dregur úr nauðsyn þess að hafa launin mjög há. Gott húsnæðiskerfi veldur t.d. því að þar er kominn stuðningur við fólk meðan það er að kaupa sér húsnæði. (Gripið fram í.) Góðar barnabætur eru stuðningur við fólk á meðan það er með börn á framfæri. Hinn kosturinn væri að greiða fólki laun öllum stundum eins og það væri að afla húsnæðis alla ævina, sé með börn á framfæri alla ævina eða með sjúklinga innan fjölskyldunnar alla ævina, alltaf. Í stað þess gerum við þetta sértækt, markvisst, með millifærslukerfinu. Þetta kemur öllum til góða. (Forseti hringir.) Þetta er hagstætt og kemur öllum til góða.



[12:20]Útbýting:

[12:21]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við höfum farið vítt og breitt í skattaumræðunni undanfarna daga. Ég ætla að hefja mál mitt á því, virðulegi forseti, að fara yfir þær áherslur sem við í Frjálslynda flokknum settum fram, þær leiðir sem við værum tilbúnir að fara og vildum vinna að ef svigrúm væri til að standa fyrir skattalækkunum í þjóðfélaginu. Við lögðum til í kosningabaráttunni fyrir síðustu alþingiskosningar að áhersla yrði lögð á að nota það svigrúm sem gæfist til að lækka skatta í þjóðfélaginu til að hækka persónuafslátt, fremur en að fara í prósentulækkun á tekjuskatti eins og lagt er upp með í tillögum ríkisstjórnarinnar.

Í annan stað lögðum við til að horft yrði sérstaklega til vanda barnafjölskyldna í landinu og létta á greiðslubyrði þeirra í gegnum skattkerfið. Það er gert að hluta til í áformum ríkisstjórnarinnar og við í Frjálslynda flokknum höfum lýst því yfir að við mundum styðja þær tillögur sem lúta að barnabótum. Við höfum jafnframt bent á, og fluttum um það tillögu ásamt öðrum stjórnarandstöðuflokkum við afgreiðslu fjárlaganna, að gera þyrfti leiðréttingu á fjárlögum svo hægt væri að gera þær breytingar á barnabótunum þegar á næsta ári, árið 2005. Eins og menn muna var sú tillaga felld við afgreiðslu fjárlaganna en við munum styðja tillögur um að barnabæturnar verði hækkaðar þegar á næsta ári við afgreiðslu frumvarpsins sem hér er til umræðu.

Í þriðja lagi höfum við bent á að eðlilegt væri að skoða eignarskattsformið og grunninn fyrir ákvörðunum um hvenær fólk borgar eignarskatta. Við lýstum því yfir í kosningabaráttunni að við vildum gjarnan útfæra eignarskattsformið þannig að frítekjumörkin yrðu hækkuð verulega gagnvart eignarskatti og sérstaklega yrði horft til þess að einstaklingar borguðu ekki eignarskatta af íbúðarhúsnæði og eðlilegri eign fjölskyldu, ef svo má segja. Ef útfæra ætti tillögur í þessa veru, sem færu nálægt þeirri hugsun sem við í Frjálslynda flokknum settum fram, værum við að tala um eignarskattsfrelsi fyrir einstakling af eignum á bilinu 20–25 millj. kr. á ársgrundvelli. Einstaklingar borguðu ekki eignarskatt af eignum á þessu bili og samsvarandi mörk fyrir fjölskyldu væru yfir 40 millj. kr.

Ég tel að með því að útfæra eignarskattsformið með þeim hætti nái menn til eignarforms allra venjulegra fjölskyldna í landinu og þá væri í raun hægt að segja að eignarskattsformið, eða eignarskattsinnheimtan sem væri umfram þær eignir, sneri frekar að þeim sem ættu miklar eignir, að svokölluðum stóreignamönnum. Ég tel að rétt væri að skoða slíka útfærslu á eignarskattinum og að menn stigu aðeins hægar til jarðar en gert er í tillögum ríkisstjórnarinnar. Þar er lagt er til að eignarskatturinn verði afnuminn í einum áfanga. Reyndar á eftir að koma í ljós hvernig það kemur út en ég og flokkur minn teljum eðlilegt að eignarskattur af eðlilegri eign fólks í landinu verði afnuminn. Ég tel reyndar, hæstv. forseti, að sú stefna hafi einnig verið í þeim flokki sem ég var í áður, Sjálfstæðisflokknum. Þar var á árum áður talað um að eðlilegt væri að afnema eignarskatt af eðlilegri eign fjölskyldu. Ég teldi réttlátara að fara þannig í eignarskattsbreytinguna að þessu sinni, stíga varlega þau skref í stað þess að fara í einu stökki eins og hér er lagt til.

Við í Frjálslynda flokknum erum sem sagt hlynnt því að bæta aðstöðu barnafjölskyldna og munum styðja þær tillögur þótt við vildum gjarnan að þær kæmu til framkvæmda þegar á næsta ári, sérstaklega með tilliti til þess hvernig ríkisstjórnin ætlar í skattbreytingarnar. Miðað við áætlunina í þessu frumvarpi munu, að okkar viti, breytingarnar varðandi tekjuskattinn, ég tala nú ekki um ef einnig er litið niðurfellingar hátekjuskattsins, færa verulegar skattalækkanir til þeirra sem hæstar tekjur hafa en mun minni til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar.

Á blaðsíðu 4 í nefndaráliti 2. minni hluta er birt tafla undir yfirskriftinni, með leyfi forseta: „Tekjuskattar og ráðstöfunartekjur fyrir tiltekin laun miðað við einstakling.“ Þar er aftasti dálkurinn gefinn upp í prósentum og talað um að aukning ráðstöfunartekna þess sem hafi 100 þús. kr. í mánaðarlaun verði 7,7%. Aukningin í krónum kemur ekki fram en ætli hún nemi ekki um 80 þús. kr. á ári? Því næst er tekið dæmi af einstaklingi með 300 þús. kr. tekjur. Aukning ráðstöfunartekna hans verður 7%. Ég held að það séu um 280 þús. kr. á ári fyrir einstakling með 300 þús. kr. á mánuði. Þá er talað um mánaðarlaun upp á 700 þús. kr. Í prósentum hefur sá einstaklingur 11,1% aukningu ráðstöfunartekna. Það er nálægt því að vera um 600 þús. kr. á ári. Síðast er tekið dæmi af milljón króna manninum, sem hefur 1 millj. kr. í mánaðarlaun. Samkvæmt töflunni aukast ráðstöfunartekjur hans um 900 þús. kr. á ári.

Það sem við erum að tala um er að 100 þús. kr. maðurinn fái 80 þús. kr. á ári, 300 þús. kr. maðurinn um 280 þús. á ári, 700 þús. kr. maðurinn 600 þús. kr. á ári og milljón kr. maðurinn 900 þús. kr. á ári í auknar ráðstöfunartekjur.

Þessi framsetning leiðir í ljós að með skattalagabreytingunum fá þeir sem hafa hærri tekjur mörgum sinnum meira í vasann til ráðstöfunar en þeir sem hafa lægstu launin. Þetta er stefnumörkun sem við í Frjálslynda flokknum eigum afar erfitt með að sætta okkur við. Við teljum að í meira mæli hefði átt að horfa til þess að hækka persónuafsláttinn til að jafna krónutölum yfir skattgreiðendur í landinu, hífa hlutfallslega hærra upp þá sem lægstar hafa tekjurnar og færa færri krónur til þeirra sem hæstar hafa tekjurnar. Þetta teljum við að væri eðlilegt að gera og erum þar af leiðandi ósammála framsetningu ríkisstjórnarinnar í útfærslu á skattalækkunum í frumvarpinu að því er varðar breytingarnar á tekjuskattsprósentunni, þar sem við teljum að hún nýtist miklu betur þeim sem hafa hærri tekjur, en mun lakar þeim sem hafa lægri tekjur.

Það er því miður svo að persónuafslátturinn á undanförnum árum hefur hvorki fylgt launavísitölunni né neysluvísitölunni. Það hefur verið dregið fram í umræðunni að ef við notuðum eingöngu neysluvísitöluna, en miðuðum ekki við launavísitöluna, hefðu umtalsverðir fjármunir verið teknir í hærri sköttum en annars hefði verið gert, þar sem persónuafslátturinn hefur ekki fylgt neysluvísitölu. Hér er um að ræða mismun á skattleysismörkum, sem nú eru 71.270 kr. ef ég man rétt, og upp í að skattleysismörkin væru þá um 86 þúsund, ef sú viðmiðun væri að persónuafslátturinn hefði fylgt neysluvísitölunni. Þetta hefur auðvitað leitt til þess að skattbyrðin hefur aukist og tekjur ríkisins hafa aukist.

Skattgreiðendum hefur fjölgað og í umræðunni hefur komið fram að m.a. eru tæp 30 þúsund einstaklingar sem greiða tekjuskatt af launum sem eru undir 100 þús. kr. á mánuði. Í þeim hópi eru einnig þeir sem eru á bótum; atvinnuleysisbótum, örorkubótum, ellilífeyrisgreiðslum og tekjutryggingum, sem eru í almannatryggingakerfinu. Þessir aðilar borga tekjuskatt í dag og mér finnst það algjörlega óásættanlegt, hæstv. forseti, að fólk sem er með undir 100 þús. kr. á mánuði í dag greiði tekjuskatt. Útfærslan sem hér er boðið upp á fellur ekki að stefnu Frjálslynda flokksins og um þetta greinir okkur og ríkisstjórnina verulega á.

Miðað við niðurstöður skattálagningar á árinu 2004 eru148 þúsund einstaklingar sem greiða almennan tekjuskatt af 229 þúsund framteljendum. Úr þeim hópi eru tæplega 30 þúsund sem greiða tekjuskatt af minna en 100 þús. kr. tekjum. Það liggur fyrir, hæstv. forseti, að hefði meiri áhersla verið lögð á að hækka persónuafsláttinn, mundu rauntekjur þeirra sem hafa lægstu tekjurnar aukast hlutfallslega, en að sama skapi hefði sú krónutala sem hátekjufólkið fær samkvæmt núverandi útfærslu ríkisstjórnarinnar lækkað.

Miðað við þær tölur sem ég hef fyrir framan mig og hef verið að skoða undanfarna daga sýnist mér að við séum að tala um að 1% í tekjuskattsprósentu þýði 4 milljarða. Þá væri hægt að hækka persónuafsláttinn einan og sér miðað við þá upphæð og miðað við hvernig skattdreifingin er, m.a. hjá þeim sem lægri hafa tekjurnar og gætu kannski ekki nýtt persónuafsláttinn að fullu — það fer eftir hversu lágan skatt þeir greiða af tekjum undir 100 þúsundum — en mér sýnist að að meðaltali væri hægt að hækka persónuafsláttinn fyrir hverja 4 milljarða um 2.500 kr. á mánuði. Það mundi jafngilda því nokkurn veginn að setja út í skattalagabreytingar þá 4 milljarða sem verið er að setja út með þessu eina prósenti sem gert er í tekjuskattinum. Nú ætla ég ekki að halda því fram að þetta séu nákvæmir útreikningar en mér sýnist þetta ekki vera fjarri lagi.

Ef við hefðum sett okkur að reyna þannig að hækka frádráttinn með persónuafslættinum hlutfallslega meira hjá fólki sem hefur lægstu tekjurnar en hjá þeim sem hafa hærri tekjur, og hækka þar af leiðandi skattleysismörkin, þá tel ég að við hefðum náð ákveðnum jöfnuði í gegnum skattkerfið. Ég held að niðurstaða mín sé nákvæmlega sú sama og fram kemur í úttekt bæði ASÍ og eldri borgara, en í umsögn Alþýðusambands Íslands sem er fylgiskjal í málinu segir um tekjujöfnunarhlutfall skattkerfisins, með leyfi forseta :

„Sú leið sem valin hefur verið að lækka tekjuskatt um 4 prósentustig, afnema hátekjuskattinn og fella niður eignarskatta, leiðir til að það dregur úr tekjujöfnun skattkerfisins. ASÍ hefur ítrekað kallað eftir því að skattkerfið sé notað með markvissari hætti til tekjujöfnunar. Í því sambandi hefur ASÍ lagt áherslu á að virðisaukaskattur af matvælum verði lækkaður og að dregið verði meira úr skattbyrði lág- og millitekjuhópa en þeirra tekjuhærri. Slíkt má gera með sérstakri hækkun skattleysismarka eða sérstöku skattþrepi á lægri tekjur.“

Við erum algerlega sammála því að nota eigi tekjuskattskerfið til tekjujöfnunar, en ég heyrði á hv. framsögumanni efnahags- og viðskiptanefndar að hann teldi að svo ætti ekki að vera, eða ég gat ekki skilið annað á máli hans. Það liggur því algerlega fyrir, hæstv. forseti, að við í Frjálslynda flokknum höfum svipaða afstöðu til málsins og ASÍ, samtök launafólks í landinu og eldri borgarar.

Þeir segja í ályktun sinni m.a., með leyfi forseta:

„Landssamband eldri borgara og Félag eldri borgara í Reykjavík eru sammála um að sú leið sem ríkisstjórnin hefur valið til þess að verja árlega um 22 milljörðum kr. til skattbreytinga þjóni ekki þeim tilgangi að jafna kjör í landinu, eða stuðla að aukinni velferð.“

Mér finnst þeir taka dálítið stíft til orða varðandi velferðina, því ég hygg að sumt í tillögum ríkisstjórnarinnar, t.d. barnabætur, stuðli að aukinni velferð. En ég er sammála eldri borgurum um að þessar útfærslur muni ekki þjóna því hlutverki að jafna rauntekjudreifinguna í landinu og hækka rauntekjur þeirra sem lægri hafa launin.

Hæstv. forseti. Hv. þm. framsögumaður efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur Blöndal, sagði áðan eitthvað á þá leið að það væri hátíðisdagur hjá öllum þingmönnum nema þeim sem vildu nota skatta til tekjujöfnunar, þeim liði illa. Það er sennilega rétt hjá hv. þingmanni að okkur, sem teljum að nú sé tækifæri til og finnst eðlilegt að tekjur þeirra sem lægri hafa launin væru hífðar meira upp en hinna sem hærri hafa launin, okkur líður frekar illa yfir útfærslunni sem ríkisstjórnin leggur upp með.

Ályktun hans er því rétt að þessu leyti. Við erum ekki sátt við hvernig er lagt upp með skattalagabreytingarnar. Í því sambandi vil ég minna á, hæstv. forseti, að á næsta ári á hátekjuskatturinn að lækka um helming frá því sem nú er, og síðan að falla niður.

Ég held að margt væri þarfara gert í þjóðfélaginu nú en að taka sérstaka ákvörðun um það sem gert var með lagasetningu og menn hafa lítið viljað ræða og sagt einfaldlega að búið væri að festa þetta í lög, að fella þetta niður, það hefði verið betra að láta það ógert og láta 4% hátekjuskattinn halda sér en nota frekar það svigrúm sem þar myndaðist til að auka tekjujöfnun fólks í landinu og horfa þá til stöðu barnafjölskyldna. Þar með tel ég að komið hefði grundvöllur til m.a. að taka þegar á næsta ári til við hækkun barnabótanna. Það var jú sú tillaga sem stjórnarandstaðan flutti við afgreiðslu fjárlaganna. Eins og ég hef lýst yfir áður munum við styðja slíka tillögu nú.

Ég vil einnig vekja athygli á því, hæstv. forseti, að ég held að fyllilega sé tímabært hjá stjórnarandstöðunni í heild að koma fram með tillögu um hvernig eigi að taka á eignarskattsbreytingunum. Ég gerði áðan grein fyrir hugmyndum okkar varðandi hvaða viðmiðunarfjárhæða ætti að horfa til varðandi eignarskattsstofn einstaklings, e.t.v. í kringum 20 millj. kr. og um 40 millj. kr. fyrir hjón. Ef slíkt yrði gert kæmi í ljós hvað eftir stæði af eignarskattinum og hverjir greiddu hann. Við værum þá e.t.v. nokkuð nálægt því að horfa til þess að eignarskatturinn væri skattur sem eingöngu legðist á eignir fólks sem hefur verulegra hagsmuna að gæta, væri stóreignafólk ef hægt er að orða það svo. Ég tel eðlilegt að horft væri til þess, hæstv. forseti.

Ég hef áður vikið að skattleysismörkunum. Ég tel að leggja hefði átt meiri áherslu á þau. Ég hef líka nefnt barnabæturnar, að við í Frjálslynda flokknum viljum einnig leggja áherslu á þær. Við erum algjörlega ósammála þeirri útfærslu sem ríkisstjórnin leggur upp með í skattapakkanum og teljum að með henni sé fyrst og fremst hyglað þeim tekjuhærri.

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Pétur H. Blöndal, sagði áðan eitthvað á þá leið að menn ættu frekar að horfa til þess að hækka laun þeirra sem lægstu launin hefðu. Ég held að hann hafi tekið dæmið um skúringakonuna. Hann sagði að það þyrfti að hífa skúringakonuna upp í launum svo að hún fengi að njóta þess að hafa afgang, miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar. Ég verð að beina mjög einfaldri spurningu til hv. þingmanns. Hún er þessi: Hvað telur hv. þingmaður að laun skúringakonunnar þurfi að hækka mikið svo að hún fari að njóta verulegs ábata af þeim tillögum sem hér eru lagðar fram? Það væri fróðlegt að fá það upplýst miðað við orð hv. þm. um að meginmarkmiðið væri að hækka laun, m.a. skúringafólks, svo að menn hafi ábata af breytingunum.

Það hefur mikið verið rætt hér af hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar að menn væru almennt að tína fölnuð laufblöð og sæju ekki skóginn fyrir þeim. Þar átti hann sérstaklega við það er menn hafa nefnt stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi aðrar tekjur. Það hefur eðlilega verið skoðað hvað ríkisstjórnin gerir í þeim efnum. Einnig hefur verið horft til skattalagabreytinganna sem lögfestar voru á þessu ári og breytinga í ýmsum stofnum, þ.e. með því að auka tekjur hér og þar. Menn kalla það sennilega ekki skattalagabreytingar heldur sérstakar tekjur, hækkun á gjöldum, hækkun á ýmsum svokölluðum aukatekjum ríkissjóðs. Þetta hefur allt verið talið upp og ætla ég ekki að fara yfir það. En niðurstaðan af breytingum á gjöldum, þungaskatti, vaxtabótum o.s.frv., sem hér hefur verið talið upp, er sú að á þessu ári hafa komið inn aukatekjur, og verða einnig á næsta ári, sem eru hærri í milljörðum talið en þær skattalækkanir sem boðaðar eru.

Ég sagði við umræðu um fjárlög á síðasta hausti að ríkisstjórnin væri með tillögum sínum um nýja tekjustofna að afla fjár fyrir fyrirhuguðum skattabreytingum, sem þá voru ekki komnar fram. Fyrirheit um þær lágu hins vegar auðvitað í yfirlýsingum stjórnarflokkanna frá kosningabaráttunni og um þær fjöllum við m.a. í dag.

Niðurstaðan af aðgerðum ríkisstjórnarinnar er fyrst og fremst sú að auka rauntekjur hinna tekjuhærri en hækka álögur á þá sem lægri tekjur hafa með alls konar gjöldum. Með því færist skattbyrðin í landinu til að mínu viti. Þetta er stefna sem við í Frjálslynda flokknum erum ósammála. Ef menn telja að við séum að horfa á fölnuð laufblöð í því sambandi þá verður svo að vera. Niðurstaðan er skýr. Hún hefur verið dregin fram og sett fram í tölum á blöðum. Hún er einfaldlega sú að í gengum álögur er meira tekið inn en boðaðar skattalagabreytingarnar munu gefa í lækkun á næsta ári. Það þýðir því miður að ójöfnuður í tekjudreifingunni eykst.



[12:51]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson kom víða við í ræðu sinni. Hann vék m.a. að eignarsköttum og nálgaðist þar einhverja hugmynd um að hægt væri að búa til skilgreiningu á stóreignum sem bæri að skattleggja meðan afnema bæri skatt af því sem hann kallaði eðlilegt íbúðarhúsnæði.

Maður kemst ekki hjá því að velta fyrir sér hvernig hv. þingmanni gengur að finna út hvað er eðlilegt íbúðarhúsnæði. Það getur verið mjög misjafnt eftir aðstæðum og spurning hvort hann treysti sér til að setja þær skilgreiningar, hvað er eðlilegt að fólk búi í stóru húsnæði. Ég verð að játa að mér geðjast ekki alveg að þeirri hugsun.

Ég vildi spyrja hv. þingmann í sambandi við eignarskattana hvort hann meti stöðuna svo að eignir séu eðlilegur skattstofn. Fyrir sjö eða átta árum var gerð sú grundvallarbreyting að tekinn var upp sérstakur skattur á arð, þ.e. af hagnaði eða tekjum sem menn hafa af eignum sínum. Tekjur af eignum eru skattlagðar með fjármagnstekjuskatti. Spurningin er hvort hv. þingmanni finnst eðlilegt að eignirnar sjálfar séu einnig skattlagðar. Hugsunin á bak við breytingu ríkisstjórnarinnar, bæði í lok síðasta kjörtímabils þegar eignarskatturinn var lækkaður og eins þá breytingu sem felst í afnámi hans, gengur út á það að taka burt þennan skattstofn. Það er talið eðlilegra að skattleggja tekjurnar sem menn hafa af eignum sínum en ekki eignirnar sjálfar.



[12:53]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni, að það er ekki auðvelt að finna það sem hann orðaði svo að væri eðlileg eign. Nú er það svo að eignarskatturinn er ekki bara lagður á eignir vegna húsnæðis. Hann er lagður á eignir almennt, þ.e. þann stofn sem einstaklingur eða fjölskylda á sem eign, miðað við skattframtal. Vissulega er ekki hægt að fullyrða nákvæmlega um hvar eigi að draga þessa línu. Ég hygg þó að sú tala sem ég nefndi fyrir fjölskyldu, 40 millj. kr., sé ekki óeðlilegt viðmið. Það kæmi jú í ljós eftir fyrstu álagningu, miðað við slíka niðurstöðu, hvað stæði eftir af eignarskattinum og hverjir greiddu hann.

Hv. þingmaður vék að fjármagnstekjuskattinum, að hann væri samspil af eignum og arði af eignum. Það er algjörlega rétt. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að miða við hvernig tekjuskatturinn okkar hefur verið notaður. Í því samhengi er skattur af fjármagni og arði of lágur. Þetta er auðvitað samspil hugmynda og rökræðu, þegar við erum annars vegar að tala um eignarskatt sem ég vil hafa stóreignaskatt, og hins vegar arð af fjármagni, hvar þessi lína á nákvæmlega að liggja.



[12:55]
Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að ef miðað yrði við þau eignamörk sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi í svari sínu þá yrði harla lítið eftir af eignarskatti sem skattstofni. Ég hef svo sem ekki útreikninga um það en miðað við þær upplýsingar sem borist hafa frá fjármálaráðuneytinu og ríkisskattstjóra þá á þorri þeirra sem greiða eignarskatt eignir undir þessum mörkum.

Annað atriði sem ég vildi nefna varðandi ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar er umfjöllun hans um skattleysismörkin. Það er rétt að geta þess að í skattalagatillögum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir breytingum á persónuafslætti upp á við. Þegar upp er staðið held ég að munurinn á þeim hugmyndum og þeim hugmyndum sem hv. þingmaður nefndi áðan sé ekki verulegur. Í breytingunni sem ríkisstjórnin er að leggja til og við alþingismenn samþykkjum vonandi á næsta sólarhring eða svo felst veruleg hækkun persónuafsláttar sem skilar jafnvel þeim lægra launuðu verulegri kjarabót.

Að lokum verð ég að geta þess að ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns við umræðuna og ein spurning kom mjög sterkt upp í huga minn. Hver er í raun munurinn á skattastefnu Frjálslynda flokksins annars vegar og Samfylkingarinnar hins vegar, að svo miklu leyti sem hægt er að festa hönd á skattstefnu Samfylkingarinnar? Ég væri þakklátur ef hv. þingmaður gæti gert mér grein fyrir þeim mun sem er á skattstefnu Samfylkingarinnar annars vegar og Frjálslynda flokksins hins vegar.



[12:57]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér virðist síðasta spurning hv. þingmanns gefa tilefni til að ég haldi aðra ræðu seinna í dag. Henni verður örugglega ekki svarað í mjög stuttu máli. Ég held að ég verði því miður að láta hana liggja milli hluta að svo komnu máli. (BÁ: Eitthvað svona sem greinir á milli?) Við höfum ekki nákvæmlega sömu áherslur og Samfylkingin varðandi virðisaukaskattinn þótt við teljum vissulega að hann sé til bóta og betri aðferð en að lækka hátekjuskatt og flata skattalækkun.

Hv. þingmaður sagði að það yrði harla lítið eftir af skattstofninum en þá sé ég ekki hvað væri hættulegt við þær hugmyndir sem við erum að leggja fram. Það væri fróðlegt að sjá hverjir greiddu áfram eignarskatt eftir að búið væri að setja slík mörk í skattkerfið. Ef ég man rétt eru skattleysismörkin, að því er varðar eignarskatt núna, u.þ.b. 4 millj. kr. Ég held að ég fari rétt með það. Samkvæmt þessum tillögum hækkuðum við náttúrlega verulega mörkin varðandi eignarskattinn.

Hv. þingmaður vék að persónuafslættinum. Því hefur verið haldið á lofti að persónuafslátturinn verði hækkaður um 8% samkvæmt þessum tillögum. Þá er jú átt við allt tímabilið, á þremur árum. Hins vegar verður hann hækkaður um 3% á næsta ári. Sé hugarreikningur minn ekki of slakur þá hygg ég að 3% ofan á núverandi persónuafslátt, sem ég held að sé 27.260 kr., hljóti að liggja nálægt 800 kr. Þannig förum við með persónuafsláttinn upp fyrir 28 þús. kr. á næsta ári.



[12:59]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði um afstöðu mína til launa skúringakonunnar, hvenær hún færi að hagnast. (GAK: Þú nefndir það sérstaklega) Ég nefndi það, já. Málið er að ég vil að hún geti bætt laun sín og geti orðið verkstjóri, geti farið í nám og orðið verkfræðingur. Ég vil að henni sé það ekki bannað með skattkerfinu og bótakerfinu, þ.e. að skerðingar á húsaleigubótum, á barnabótum, á vaxtabótum og prósentan í staðgreiðslunni komi ekki í veg fyrir það að konan geti bætt sína stöðu, eða karlinn ef þetta er skúringakarl.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann um afstöðuna hans til sjómanna. Nú eru sjómenn, vegna starfs síns, yfirleitt með mjög góðar tekjur. Þeir eru fjarri heimili sínu og eru vel að tekjum sínum komnir. (GAK: 2,7 millj. kr. að meðtaltali.) Já, þeir eru með mjög góðar tekjur og sumir hverjir verulega góðar tekjur, sérstaklega á skuttogurunum. Spurning mín er þessi: Getur verið að hv. þingmaður vilji að sjómenn haldi áfram að borga rífandi háa skatta?

Svo langar mig líka að spyrja hann, varðandi eignarskattinn sem er myndaður með sparnaði á tekjum sem búið er að borga tekjuskatt af: Finnst honum eðlilegt að vinna á móti sparnaði með því að skattleggja eignir? Hv. þingmaður talaði um stóreignaskatt og sagði að fróðlegt yrði að vita hverjir mundu greiða stóreignaskatt, komnir yfir 40 millj. kr. eignamörk. Getur verið að glitti í öfund þarna? Mér sýnist að það mundi ekki gefa ríkissjóði neinar tekjur, ekkert sem munar um. Ég skil ekki þá afstöðu að vilja leggja á skatt bara til að sjá hverjir muni borga, ef hann gefur ríkissjóði nánast engar tekjur. Spurning mín er: Mun hann styðja þetta frumvarp yfirleitt, t.d. lækkun á skattprósentunni, niðurfellingu eignarskatts og hækkun barnabóta?



[13:02]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þarf sennilega tvö andsvör til að komast yfir þessar spurningar allar.

Í fyrsta lagi talaði hv. þingmaður um skúringakonuna og að hún gæti e.t.v. orðið verkstjóri og hækkað í launum. Ég held að það komi skattkerfinu ekkert við, hv. þingmaður, (PHB: Jú …) hvort skúringakona geti orðið verkstjóri í vinnuflokki sínum eða ekki. Ég vona vissulega að þeir sem lægst hafi launin í þessu þjóðfélagi, þar með talin skúringakonan, geti hækkað í launum. Ég sé ekki að skattkerfið eins og það er komi í veg fyrir að fólk hækki í launum. Kem ég þá að sjómönnum.

Ég hef aldrei orðið var við það að sjómenn teldu eftir sér að borga skatta til þjóðfélagsins frekar en aðrir sem hafa laun í þessu þjóðfélagi. Þeir sem hafa talið að þeir væru að greiða of mikla skatta eru fyrst og fremst þeir sem eru með lægstu launin. Hv. þingmaður hlýtur að geta verið sammála um það að þeir sem lægst hafa launin í þessu þjóðfélagi eigi að geta lifað af launum sínum. Það er varla hægt miðað við að fólk greiði tekjuskatta af launum undir 100 þús. kr. á mánuði.

Ég held að ekki þurfi að vera að tala hér um eina stétt, hvorki sjómenn, tryggingastærðfræðinga né neina aðra í þessu sambandi. Menn hafa misjafnlega góð laun. Sumar stéttir hafa góð laun þegar mikið er að gera. Sjómenn njóta aflahlutfalls en taka mikla áhættu við störf sín, eins og varðandi verðmyndun. Hver skyldi staða þeirra verða núna þegar þróun gengisins er eins og hún er og miklar líkur eru á erfiðleikum í útgerð og fiskvinnslu að því er varðar tekjuinnstreymið?

Ég kem að öfundinni á eftir.



[13:04]
Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður fullyrti að skúringakonan gæti orðið verkstjóri og hækkað í launum. Þegar fólk tekur á sig ábyrgð, menntar sig eða eitthvað slíkt er það að leggja eitthvað á sig. Ég hef mjög oft heyrt að fólk segi: Það situr ekkert eftir, bæturnar eru skertar og skattarnir koma til viðbótar. Það situr ekkert eftir, það borgar sig ekki.

Þetta heyri ég mjög oft. Það getur vel verið að hv. þingmaður heyri þetta aldrei en ég heyri þetta oft. Það er þetta sem við erum að minnka. Við erum að minnka þá fátæktargildru sem fólk dettur ofan í og kemst ekki aftur upp úr. Ég vil að þessi títtnefna skúringakona eða skúringakarl geti orðið verkstjóri eða geti farið í nám og hækkað í launum án þess að þeim sé refsað fyrir það. (JÁ: Á enginn að skúra þá?) Það er annað vandamál, þá hækka væntanlega launin í því starfi ef engir fást til að vinna það. Þetta kerfi á að gera fólki kleift að afla sér meiri tekna. Það á að stækka kökuna.

Hv. þingmaður sagði að sjómenn teldu ekki eftir sér að greiða skatta. Hvers vegna í ósköpunum berjast þeir svona fyrir sjómannaafslættinum ef þeir telja ekki eftir sér að borga skatta? Ég veit ekki betur en að þetta hafi nánast stöðvað samninga síðast. Ég held að þeir telji eftir sér að borga skatt eins og allir aðrir. Öllum þykir óljúft að sjá á eftir stórum hluta tekna sinna til ríkissjóðs. Það er bara þannig. Fólk vill nefnilega gjarnan hafa þessar tekjur sjálft og það er miklu betur fært um að ráðstafa þeim en ríkissjóður.



[13:05]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var náttúrlega að vonum að hv. þingmanni dygði vegferðin til að komast yfir í sjómannaafsláttinn. Ég óska honum til hamingju með það, það hlýtur að vera eitt af gleðiefnum þessa dags að hafa komist þangað í þessari umræðu. (Gripið fram í.) Sjómannaafslátturinn, hv. þingmaður, er hluti af kjörum sjómannastéttarinnar, búinn að vera það í yfir 50 ár og hann verður ekki af stéttinni tekinn nema laun þeirra verði bætt með öðrum hætti í staðinn. Það liggur algjörlega fyrir. Það er sambærilegt við það að hv. þingmaður hefur hér ákveðin kjör eins og varðandi ferðakostnað og annað sem að kjörum okkar lýtur, aðgang að ágætu fæði fyrir litla fjármuni o.s.frv. Það er alveg óþarfi, hv. þingmaður, að vera með einhverja öfund hér í garð sjómannastéttarinnar. (PHB: Þeir telja eftir sér að borga …)

Varðandi það hvort ég öfundi einhvern af tekjum hans er það ekki svo. (PHB: Eignum.) Ég öfunda ekkert fólk, hvorki af tekjum þess né eignum. Það mega allir eignast það sem þeir hafa verðskuldað og unnið fyrir á heiðarlegan hátt. Ég hef hins vegar haft athugasemdir við það hvernig eignamyndun hefur átt sér stað í þjóðfélaginu á undanförnum árum undir stjórn núverandi ríkisstjórnarflokka.

Ábyrgð og menntun skilar að jafnaði betri launum til fólks enda væri fólk annars ekki að leggja á sig skólagöngu eða að taka á sig meiri ábyrgð ef það færði því ekki eitthvað í launum. Ég held að skattkerfið okkar valdi því ekki að fólk taki ekki að sér ábyrgð eða mennti sig. Það sýnir best aðsóknin í skólana svo að eitthvað sé nefnt.

Ég held líka að menn verði að horfa til þess að við viljum hafa velferðarkerfi í þessu landi. Þjóðin vill hafa hér aðgang að velferðarkerfi og til þess greiða menn skatta. Ég hef engan Íslending hitt sem vill skera niður velferðarkerfið og þá þurfum við að borga það.