138. löggjafarþing — 35. fundur
 30. nóvember 2009.
um fundarstjórn.

dagskrá fundarins.

[15:05]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil beina því til forseta að skoða dagskrána sem liggur fyrir þessum fundi og líta til þess að samkomulag náist um það hér að við ræðum Icesave-málið svokallaða fram til klukkan átta í kvöld, tökum þá til við að ræða fjáraukalög sem liggja fyrir og afgreiðum þau. Forseti hefur heimild til þess að breyta dagskrá.

Jafnframt legg ég til og tel það alveg nauðsynlegt að við sammælumst um að klukkan 12.30 á miðvikudaginn verði tekin á dagskrá skattafrumvörp þau sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fyrir þingið og þau rædd og afgreidd frá 1. umr. til nefndar fyrir klukkan fjögur á miðvikudeginum áður en kemur að þingflokksfundum. Síðan verði haldið áfram með Icesave-umræðuna, standi hún enn yfir þegar þar er komið sögu. Þetta leggjum við stjórnarandstöðuliðar fram til þess að tryggja að fjárlög íslenska ríkisins fái vandaða málsmeðferð í þinginu. Það er hægt að gera það og koma þessum hlutum saman. Það er alveg nauðsynlegt að stjórnarliðar (Forseti hringir.) sýni ábyrgð og samstarfsvilja til þess að koma þessum málum saman, frú forseti.



[15:06]
Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Ég vil taka undir og lýsa yfir stuðningi við allt það sem kom fram hjá hv. þingmanni og ítreka að okkur finnst brýnt að koma því á dagskrá sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram varðandi skattamál og fjáraukalög. Það er ekkert sem hastar með Icesave. Þó að við gerum stutt hlé á því máli til þess að taka þessi mál til umræðu held ég að það geri alls ekki lítið úr hæstv. ríkisstjórn, það sýnir aftur á móti styrk hennar að taka þessu góða tilboði og þessu ábyrga tilboði frá minni hlutanum. Ég skora á ríkisstjórnina að verða við þessu tilboði frá okkur.



[15:07]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni og hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, að við viljum gjarnan að málum verði þannig háttað að við munum ræða þetta Icesave-mál fram til u.þ.b. klukkan 20 og þá verði fjáraukalagafrumvarpið tekið fyrir og það klárað í kvöld. Á miðvikudag förum við síðan í skattamálin og höldum svo áfram með þetta Icesave-mál. Þetta er nákvæmari útfærsla á öðru tilboði sem við höfum gert ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum. Ég held að það sé mikilvægt, frú forseti, að stjórnarflokkarnir og hæstv. fjármálaráðherra taki þetta til alvarlegrar athugunar þannig að við getum komið þessum málum áfram og í þann farveg sem þau þurfa að vera. Þetta er hugmynd sem við vörpum fram til þess að greiða fyrir þingstörfum.



[15:08]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa verið sögð. Ég held að þetta sé sanngjarnt tilboð og skynsamlegt. Mig langar líka að benda á að það er í rauninni ekkert sem kallar á að Icesave-málið verði klárað. Ég vil í því sambandi benda á að allur hræðsluáróðurinn sem haldið hefur verið á lofti í málinu, t.d. varðandi 23. október, um að einhver gæti höfðað mál út af neyðarlögunum þegar búið var að höfða mál, reyndist vera blekking með það eitt að markmiði að keyra þetta mál í gegn.

Ég vonast því til þess, virðulegi forseti, að tilboð minni hlutans verði tekið til skoðunar og vonandi sýnir ríkisstjórnin þá skynsemi að samþykkja tilboðið.



[15:10]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Getur frú forseti upplýst mig um hvort aðrir hafi kvatt sér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta á eftir mér? Eru fleiri á mælendaskrá undir liðnum fundarstjórn forseta?

(Forseti (SF): Forseti getur upplýst að það eru ekki fleiri sem hafa kvatt sér hljóðs um fundarstjórn forseta en sú er stendur í pontunni í augnablikinu.)

Það finnst mér miður því að þingflokksformenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa komið hingað upp með gott tilboð til ríkisstjórnarinnar — og viti menn, nú er hæstv. fjármálaráðherra loksins búinn að kveðja sér hljóðs. Við erum aldrei þessu vant með þrjá ráðherra hér í salnum en hér eru líka þingflokksformenn stjórnarflokkanna, annar starfandi og hinn viðvarandi, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson og Björgvin G. Sigurðsson. Þess vegna hljótum við að fara fram á að ítrekuðum tilboðum stjórnarandstöðunnar um að liðka fyrir málum ríkisstjórnarinnar, fyrir störfum hér, verði svarað þegar við höfum loksins þessa menn í þingsalnum.



[15:11]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ekki þannig að dagskrá Alþingis sé af tilefnislausu eins og hún hefur verið upp sett núna líklega í tíu daga. Hún er sett fram af gildum ástæðum og það gerir forseti í fullu samráði við mig sem á flest ef ekki öll þau mál undir sem eru á dagskránni. Jafntilfinnanlegt og það er að Alþingi skuli ekki komast til þeirra brýnu verka sem þess bíður verður svo að vera. Ég hef útskýrt mjög rækilega fyrir forustumönnum stjórnarandstöðunnar hvaða ástæður liggja þar að baki sem eru sumar þess eðlis að það er hæpið að fara með þær hér í ræðustól á Alþingi. Forustumenn stjórnarandstöðunnar vita vel hvað í húfi er.

Dagskráin verður að vera eins og hún er og stjórnarandstaðan verður þá að bjóða þjóðinni upp á þá mynd af Alþingi sem hún hefur fengið undanfarna daga áfram, beri svo undir.



[15:12]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er orðið verulega brýnt fyrir fyrirtækin í landinu að fá að vita hvað tekur við um áramót. Í gær hafði við mig samband verslunareigandi sem hefur af því miklar áhyggjur hvernig hann eigi að innheimta virðisaukaskatt um áramót vegna þess að kerfið hans ræður ekki við það. Gamla kerfið sem er búið að ganga í tíu, tólf ár ræður ekki við þetta nýja kerfi. Þetta er eitt af þeim dæmum sem við ræðum og ég skil ekkert í þvermóðsku hæstv. ríkisstjórnar að hleypa ekki þeim málum fram fyrir sem svo brýnt er að ræða, eins og skattamálum og öðrum slíkum sem ríkisstjórnin ætlar að breyta. Atvinnulífið í landinu stendur á öndinni yfir því hvað á að gerast 1. janúar.

Svo vil ég benda á að nú í morgun bárust fréttir af uppsögnum úti um allt land vegna þess að ríkisstjórnin ætlar að fara að skattleggja fyrirtækin. Það er verið að breyta vinnandi fólki sem borgar skatta yfir í atvinnuleysingja sem þiggja bætur, en það vinnur gegn fjárlagafrumvarpinu, frú forseti.



[15:13]
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég styð vitanlega þær tillögur sem komið hafa um hvernig halda megi áfram umræðu um brýn mál í þinginu. En ég kem aðallega upp til að gera athugasemdir við orð hæstv. fjármálaráðherra þess efnis að útskýrt hafi verið fyrir forustumönnum flokkanna hvernig á því standi að ljúka þurfi 2. umr. um Icesave áður en hægt sé að ræða önnur mál. Ég hafna því að fengist hafi skýringar á því.

Það liggur nefnilega ekkert á því að klára þetta mál. Það er búið að staðfesta að þetta hefur ekkert með lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að gera, enda væri náttúrlega fáránlegt ef menn ætluðu að sætta sig við það. Og jafnframt að öll þau atriði sem nefnd hafa verið til sögunnar sem ástæða þess að klára þurfi Icesave eru komin í þann farveg að þessu máli þarf ekki að ljúka fyrr en á næsta ári þess vegna. Það er því fráleitt að tefja önnur og brýnni mál á meðan.



[15:15]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Fyrst varðandi ummæli hæstv. ráðherra um hvað biði okkar ef ekki yrði gengið strax að Icesave-samkomulaginu. Því hefur verið haldið fram að ekki væri hægt að ráðast í endurreisn íslensku bankanna nema búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu, ekki væri hægt að fara í fjármál heimilanna til að hjálpa þeim nema búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu, ekki stæðu nein lán til boða frá Norðurlöndunum nema búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu, ekki væri hægt að tala við og vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nema búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu. Allt þetta hefur reynst rangt. (Gripið fram í: Þráhyggja.)

Það mætti benda hæstv. fjármálaráðherra á örlög drengsins sem hrópaði úlfur, úlfur endalaust. Við skulum ræða þetta mál af skynsemi og ábyrgð. Stjórnarandstaðan hefur enn á ný gert tilboð til stjórnarliða um það hvernig megi haga þingstörfum þannig að tryggt sé að hægt væri að ganga frá fjárlögum á þann hátt að sómi sé að fyrir Alþingi. Við leggjum til að við tökum fjáraukann í kvöld, göngum frá honum og á miðvikudaginn hefjum við störf við þau skattafrumvörp sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram, þau verði afgreidd frá (Forseti hringir.) 1. umr. fyrir klukkan fjögur, gangi til nefndar og svo getum við haldið áfram að ræða Icesave ef það mál er enn þá á dagskrá.



[15:16]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseti minnir á að búið er að ganga frá dagskránni í dag og er þess freistað að komast í 4. lið en fyrst hafa nokkrir þingmenn beðið um að ræða fundarstjórn forseta. (Gripið fram í.)



[15:16]
Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á því að hafa ekki komið strax, ég hafði að vísu ekki beðið um að fá að koma upp undir liðnum fundarstjórn forseta, en finnst það alveg sjálfsagt miðað við það sem hefur komið fram hjá fyrri hv. þingmönnum um fundarstjórn forseta og ábendingar þess efnis að það er á valdi forseta að breyta dagskránni ef forseti telur ástæðu til. Við höfum komið með margvísleg rök fyrir því af hverju ástæða er til að breyta dagskránni núna. Við viljum ítreka það að forseti endurskoði nú hug sinn og færi þessi mál fram fyrir og við frestum umræðunni um Icesave og klárum þetta þannig að við getum komið skattamálum, jafnleiðinleg og ömurleg og þau eru, inn í nefnd til að nefndarmenn geti byrjað að vinna í málunum. Og síðan hefjum við þá aftur umræðuna um Icesave. Ég ítreka því fyrri óskir hv. þingmanna.



[15:17]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseti biðst velvirðingar á því að hafa kynnt ræðumann til pontu sem ekki hafði beðið um að fá orðið, en svona getur gerst þegar margir biðja um orðið í einu.



[15:18]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Nú er það svo að stjórnarandstaðan í þinginu hefur komið fram með afar sanngjarnt tilboð til hæstv. ríkisstjórnar, sem greinilega er komin í miklar ógöngur með þetta mál allt saman. Ég vil hvetja hæstv. forseta til þess að beita því valdi sem forseti hefur til að færa mál til á dagskránni. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti það að dagskráin væri í nánu samráði við hann og það er eflaust allt í lagi, en núna eru hér þrír stjórnarandstöðuleiðtogar sem óska eftir jafnnánu samráði við frú forseta. Og þar sem frú forseti er forseti allra þingmanna hvet ég hana til þess að þiggja það boð um samráð.

Viðbrögð hæstv. fjármálaráðherra eru í besta falli þrjóskuleg, mundi ég segja, að ekki er nokkur leið að taka neinu sem kemur frá okkur í stjórnarandstöðunni. Það sem vekur meiri athygli er að með svari sínu hefur hæstv. fjármálaráðherra upplýst að öllu öðru, þar með talið fjárlögunum, skattamálunum, sé fórnandi fyrir Icesave. (Forseti hringir.) Af hverju, frú forseti?



[15:19]
Forseti (Siv Friðleifsdóttir):

Forseti upplýsir að forseti hefur ekki í hyggju að beita valdi sínu til að breyta dagskránni.



[15:19]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Mér þykir miður að forseti ætlar ekki að breyta dagskránni en ítreka beiðni stjórnarandstöðunnar um að meiri hlutinn skoði tilboðið, þetta sanngjarna tilboð.

Mig langar líka til að gagnrýna orð hæstv. fjármálaráðherra sem kom hér enn á ný upp með hræðsluáróðurinn um að rökin fyrir því að menn vildu keyra Icesave áfram væru af gildum ástæðum og að það hefði verið rætt við formenn stjórnarandstöðunnar. Það var upplýst að það var ekki og þá get ég líka upplýst að ég hef ítrekað kallað eftir þeim upplýsingum í fjárlaganefnd. Það hefur enginn komið fyrir nefndina til að staðfesta á hverju sá hræðsluáróður væri byggður, eins og hv. þm. Illugi Gunnarsson rakti áðan.

Vandamálið er hins vegar það að margir fjölmiðlamenn og ýmsir í þjóðfélaginu hafa gleypt við þessum hræðsluáróðri um að eitthvað liggi á, (Forseti hringir.) um að það verði að klára Icesave svo hægt verði að halda áfram með önnur mál. Það er ekki þannig, hæstv. forseti.



[15:21]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir að hafa upplýst okkur um að enn sem komið er í það minnsta standi ekki til að breyta dagskránni. Ég vil hvetja hæstv. forseta til að beita sér fyrir því að stjórnarliðar skoði þær hugmyndir sem við höfum rætt. Ég vil einnig biðja hæstv. fjármálaráðherra að setjast nú niður og velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt að leysa þetta mál, frú forseti, með þeim hætti að við tökum Icesave-umræðuna til klukkan átta í kvöld, klárum fjáraukalagafrumvarpið, fjáraukann, förum svo í skattamálin á miðvikudag fram að þingflokksfundum og höldum síðan áfram með Icesave. Með því erum við að koma af stað og koma þeim málum áfram sem þurfa mjög brýnt að fara til nefnda. Ég held að það væri í rauninni mjög gott fyrir þingið og þinghaldið allt ef við gætum sammælst um að hafa þann háttinn á.



[15:22]
Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við í stjórnarandstöðunni höfum sett fram gott og sanngjarnt tilboð sem felst í því að við gerum hlé á þessari Icesave-umræðu í þrjá klukkutíma í kvöld og kannski þrjá til fjóra klukkutíma á miðvikudaginn til að skattalagafrumvörpin megi fara til nefndar svo hægt verði að vinna að þeim.

Það flokkast ekki undir annað en þvermóðsku að þiggja þetta ekki og minnir mig á það sem er kallað í leikjafræði leikinn „Chicken“ þar sem menn keyra hvor á móti öðrum og athuga hvor beygir fyrr. Við höfum beygt núna, stjórnarandstaðan, með því að bjóða upp á þetta þannig að við séum ekki að stefna þessum málum í einhverja hættu. Hæstv. fjármálaráðherra lætur ekki segjast og þrjóskast við og hótar því að úlfurinn stóri og vondi sé að koma og gleypa okkur, enn eitt skiptið.



[15:23]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þau vinnubrögð sem stjórnarmeirihlutinn beitir fyrir sig í þessu máli eru skammarleg að mínu mati. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti áðan að hann hefði haft náið samstarf við forseta þingsins um það hvernig málið yrði unnið og hvernig lyktir þess yrðu, enda er verklagið þannig að stjórnarandstöðunni var meinað að fá gesti á fund efnahags- og skattanefndar, að fá gesti á fund fjárlaganefndar til að fara yfir þetta gjörbreytta mál. Ef ráðherraræðið er ekki lýsandi í þessu hvernig forustumenn stjórnarinnar hafa sett undir sig hausinn og ætla að koma því í gegn án umræðu í þinginu, þ.e. án umræðu stjórnarmeirihlutans og án þess að okkar helstu sérfræðingar í samfélaginu fái að kommentera á málið, þá eru þetta vinnubrögð sem eru þinginu ekki sæmandi.

Ég hélt við hefðum ætlað að hefja Alþingi til vegs og virðingar og að það ætlaði að afnema það ráðherraræði sem virðist ríkja í þessari ríkisstjórn en hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra virðast stýra stjórnarmeirihlutanum algjörlega í þessu máli.



[15:24]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég vil enn einu sinni skora á forsætisnefnd þingsins og hæstv. ríkisstjórn að hverfa frá því sem sumir hér kalla þvermóðsku en ég vil kalla kannski eindrægni eða ég veit ekki hvað á að kalla þetta.

Fréttir eru að berast af uppsögnum bæði á Vestfjörðum og í Reykjavík þar sem menn vísa til væntanlegra skatta á fyrirtæki, enda er tryggingagjaldið ekkert annað en skattur á atvinnu. Það er verið að breyta vinnandi skattgreiðendum í atvinnuleysingja sem þiggja bætur. Það er verið að auka útgjöld ríkissjóðs og minnka tekjurnar. Þetta er mjög alvarlegt.

Á sama tíma, frú forseti, er á þingskjali 230 frá Sjálfstæðisflokknum tillaga um að skattleggja séreignarsparnað sem gerði allar þessar skattaálögur óþarfar, allar. Það mundi þýða að þau fyrirtæki gætu þá ráðið þetta fólk aftur.