132. löggjafarþing — 108. fundur
 25. apríl 2006.
atvinnuleysistryggingar, 1. umræða.
stjfrv., 742. mál (heildarlög). — Þskj. 1078.

og 

vinnumarkaðsaðgerðir, 1. umræða.
stjfrv., 788. mál (heildarlög). — Þskj. 1194.

[14:11]
félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar …

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð í salnum.)

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar og frumvarpi til laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Ef ég vík fyrst að frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar byggist efni þess í meginatriðum á skýrslu nefndar sem m.a. var falið að endurskoða efni gildandi laga um atvinnuleysistryggingar og samkomulag ríkisstjórnarinnar við Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins frá 15. nóvember sl.

Til grundvallar frumvarpinu liggur mikil vinna, en nefndin sem aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar stjórnvalda áttu sæti í vann alls í 14 mánuði að því að útfæra þær tillögur sem nú eru komnar í frumvarpsform. Það má því segja að óvenjumikil og -ítarleg vinna liggi til grundvallar í málinu og hefur skýrsla nefndarinnar sem frumvarpið byggist á verið kynnt opinberlega og legið fyrir á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins frá 16. nóvember sl. Jafnframt var vinna við smíði frumvarpsins á grundvelli tillagnanna kynnt félagsmálanefnd Alþingis á fundi ráðherra með nefndinni síðasta haust ásamt öðrum þingmálum.

Vinna við smíði frumvarpsins var hins vegar nokkuð tímafrek og á lokasprettinum farið mjög ítarlega yfir málið með þeim sem það varðar, þ.e. fulltrúum aðila vinnumarkaðarins. Þau vinnubrögð eru ávallt viðhöfð þegar um er að ræða mál á þessu sviði og það mál sem við ræðum hér nú er þar engin undantekning. Er það vel.

Ég treysti því jafnframt að hv. félagsmálanefnd kalli fulltrúa aðila vinnumarkaðarins á sinn fund þannig að ekki leiki vafi á því að þingmenn heyri sjónarmið þeirra allt til loka.

Lítum nú á meginefni frumvarpsins. Ein helsta breytingin á atvinnuleysistryggingakerfinu sem frumvarp þetta felur í sér er tekjutrygging atvinnuleysisbóta. Lagt er til að atvinnuleitendur sem teljast tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins eigi rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum í allt að þrjá mánuði sem nema 70% af meðaltali heildarlauna. Það tímabil getur hafist þegar grunnatvinnuleysisbætur sem atvinnuleitandi á rétt á hafa verið greiddar í samtals 10 daga.

Tekjutengdar atvinnuleysisbætur geta að hámarki numið 180 þús. kr. á mánuði miðað við óskerta atvinnuleysistryggingu, en hámarksfjárhæð miðast við tryggingarhlutfall hins tryggða. Við útreikninga á tekjutengdum atvinnuleysisbótum launamanns er lagt til að miðað verði við sex mánaða tekjuviðmiðunartímabil sem hefst tveimur mánuðum áður en hann missti starf sitt. Þegar um er að ræða sjálfstætt starfandi einstakling er gert ráð fyrir að miðað verði við meðaltal tekna á síðasta tekjuári áður en hann varð án atvinnu.

Ég undirstrika mikilvægi þessara breytinga á atvinnuleysistryggingabótakerfinu, þ.e. að ná fram tekjutengdum atvinnuleysisbótum sem ég tel gríðarlega mikilvægar. Með frumvarpi þessu eru lagðar til ákveðnar breytingar á skipulagi atvinnuleysistryggingakerfisins. Meginskipulagsbreytingin er sú að gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun annist framkvæmd kerfisins í stað sérstakra úthlutunarnefnda. Stofnunin ákvarðar um réttindi og skyldur launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklinga, þar á meðal um rétt þeirra til atvinnuleysisbóta og um missi þeirra.

Samhliða er lagt til að úthlutunarnefndirnar verði felldar niður í núverandi mynd utan einnar nefndar sem stjórn Vinnumálastofnunar skipar að fengnum tilnefningum. Úthlutunarnefndinni er ætlað að starfa í umboði Vinnumálastofnunar en hlutverk hennar er að gæta samræmis við ákvarðanir um rétt fólks innan atvinnuleysistryggingakerfisins þannig að jafnræðis verði gætt við framkvæmdina. Enn fremur er nefndinni ætlað að setja verklagsreglur um afgreiðslu mála en miðað við að nefndin annist afgreiðslu þeirra umsókna sem krefjast sérstaks mats. Markmið þessarar breytingar er einkum að gera stjórnsýslu atvinnuleysistryggingakerfisins skilvirkari og tryggja réttaröryggi, þar á meðal jafnræði þeirra sem missa vinnu sína tímabundið og sækja um atvinnuleysisbætur.

Sú gagnrýni hefur heyrst í fjölmiðlum frá einstökum stéttarfélögum að þarna sé verið að slíta atvinnuleysistryggingakerfið úr sambandi við verkalýðshreyfinguna. Ég er ekki alls kostar sammála þessum fullyrðingum enda þótt einstök stéttarfélög hætti að vera eins konar skráningar- og útgreiðslustofnanir kerfisins. Ég er á þeirri skoðun að stéttarfélögin eigi frekar að beina kröftum sínum að virkum vinnumarkaðsaðgerðum sem eru til þess fallnar að auka líkur félagsmanna þeirra til að verða aftur þátttakendur á vinnumarkaði í stað þess að beita sér að aðgerðum í formi skráningar eða útgreiðslu atvinnuleysisbóta. Ég get vel séð fyrir mér virkari aðkomu verkalýðshreyfingarinnar að skipulagningu vinnumarkaðsúrræða og þá sérstaklega þau félög þar sem atvinnuleysi er nokkurt meðal félagsmanna en atvinnuleysi er að sjálfsögðu oft misjafnt eftir starfsgreinum. Þar vil ég meina að séu hin raunverulegu sóknarfæri stéttarfélaganna til að koma félagsmönnum sínum til aðstoðar í atvinnuleysi.

Í þessu sambandi er mikilvægt að nefna að áfram er gert ráð fyrir að samtök aðila vinnumarkaðarins eigi sæti í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs sem áfram verður sérstakur sjóður, sérgreindur innan ríkissjóðs. Enn fremur er gert ráð fyrir að samtök þessi eigi áfram sæti í stjórn Vinnumálastofnunar. Jafnframt munu samtökin eiga aðild að úthlutunarnefndinni sem ætlað er að annast afgreiðslu þeirra umsókna sem krefjast sérstaks mats. Þá vil ég undirstrika það hér að með framangreindum skipulagsbreytingum verður það áfram markmið okkar að veita öllum landsmönnum góða þjónustu óháð búsetu. Á því verður engin breyting.

Með frumvarpi þessu er leitast við að gera réttindum og skyldum launafólks og sjálfstætt starfandi einstaklingum innan atvinnuleysistryggingakerfisins skýr skil enda mikilvægt að þau geti áttað sig á hvaða skilyrði þau þurfi að uppfylla til að öðlast rétt innan kerfisins. Sjálfstætt starfandi einstaklingar hafa átt rétt til atvinnuleysisbóta frá árinu 1993 en einungis hefur verið kveðið á um skilyrði fyrir rétti þeirra með reglugerðum. Með frumvarpi þessu er hins vegar lagt til að kveðið verði á um rétt þeirra innan atvinnuleysistryggingakerfisins með settum lögum á sama hátt og gildir um rétt launamanna. Áhersla er lögð á að skilyrði fyrir rétti þessara hópa innan kerfisins séu sambærileg en fjallað er aðskilið um þessa hópa þar sem nokkur eðlismunur er á starfstengdum réttindum þeirra.

Gert er ráð fyrir að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar sæki um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar ef þeir verða atvinnulausir á þar til gerðum eyðublöðum. Er sérstaklega tekið fram að umsókn um atvinnuleysisbætur feli jafnframt í sér umsókn um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Er umsækjanda því gert ljóst þegar í upphafi hvað umsókn hans felur í sér. Ekki er um að ræða breytingu á framkvæmd innan atvinnuleysistryggingakerfisins enda þótt það hafi ekki áður komið skýrt fram í lögum hvað umsókn um atvinnuleysisbætur hefur í raun þótt fela í sér.

Fallið er frá þeirri skyldu atvinnuleitanda að skrá sig reglulega til svæðisvinnumiðlana en í stað hennar komi regluleg samskipti við ráðgjafa innan vinnumarkaðskerfisins. Tíðni slíkrar ráðgjafar, þar á meðal þátttaka í vinnumarkaðsaðgerðum, miðast við þarfir hvers og eins. Áfram er gert að skilyrði að hinn tryggði sé í virkri atvinnuleit til að teljast tryggður innan kerfisins en lagt er til að skilgreint verði hvað felst nánar í því skilyrði. Jafnframt eru sérstök undanþágutilvik tilgreind sem geta leitt til þess að hinn tryggði verði talinn í virkri atvinnuleit enda þótt hann uppfylli ekki öll skilyrði frumvarpsins um virka atvinnuleit.

Ekki eru lagðar til breytingar á aldursskilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum en það nýmæli er lagt til að umsóknir umsækjenda um atvinnuleysisbætur sem eru yngri en 18 ára hljóti samþykki foreldra og forráðamanna. Enn fremur er leitast við að skýra reglur um hvernig þátttakendur á vinnumarkaði ávinna sér rétt innan atvinnuleysistryggingakerfisins með starfsframlagi sínu á vissu tímabili. Má segja að um sé að ræða tvenns konar reglur þar sem annars vegar er litið til starfstíma en hins vegar til starfshlutfalls. Með þessari breytingu er verið að leitast við að draga úr áhrifum starfshlutfalla á atvinnuleysistryggingar en áfram gildir að atvinnuleitendur koma ekki til með að öðlast meiri rétt en sem nemur starfshlutfalli á ávinnslutímabili. Hins vegar tekur það þátttakendur á vinnumarkaði jafnlangan tíma að ávinna sér rétt til lágmarksréttinda innan atvinnuleysistryggingakerfisins án tillits til starfshlutfalls.

Virðulegi forseti. Gert er ráð fyrir að sá sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins geti átt rétt á atvinnuleysisbótum samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tekur við umsókn hans um atvinnuleysisbætur, í stað fimm ára áður. Ástæða þessa er að bótatímabil gildandi laga hefur verið talið of langt þar sem töluverðar líkur eru á því að fólk sé ekki í virkri atvinnuleit eftir þriggja ára atvinnuleysi. Þykir ástæða til að aðstæður einstaklingsins verði þá metnar aftur heildstætt til að kanna hvort hann þurfi á annars konar aðstoð að halda. Á móti kemur að það er skýrar tekið fram en áður hvaða tímabil teljast til greiðslutímabilsins og leitast er við að skýra frekar þær reglur sem eiga að gilda um endurnýjun tímabilsins.

Það nýmæli er lagt til að virkur þátttakandi á vinnumarkaði getur áunnið sér rétt til nýs greiðslutímabils án þess þó að hafa lokið að fullu við fyrra tímabil. Er hér verið að mæta þeirri gagnrýni sem gildandi kerfi hefur sætt þess efnis að einstaklingur sem áður hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur fari ávallt inn á sama bótatímabil óháð lengd þess tíma sem hann starfar á vinnumarkaði milli þess sem hann er án atvinnu. Þannig er gert ráð fyrir í frumvarpi þessu að nýtt tímabil hefjist þegar einstaklingur hefur starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í 24 mánuði eða lengur og uppfyllir að öðru leyti skilyrði fyrir réttindum innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Þykir hæfilegt að einstaklingur sem er virkur á vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði eigi rétt á óskertu tímabili enda er þá nokkuð liðið frá því hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur síðast. Hins vegar er gert ráð fyrir að þegar einstaklingur hefur verið skemur en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði þegar hann sækir að nýju um atvinnuleysisbætur fari hann aftur inn á sama tímabil og hann var á þegar hann fékk vinnuna. Í tilvikum er einstaklingur hefur fengið atvinnuleysisbætur samfellt í þrjú ár er lagt til að sá hinn sami geti áunnið sér rétt að nýju innan kerfisins að 24 mánuðum liðnum enda hafi hann starfað á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. sex mánuði eftir að fyrra tímabili lauk. Þá er að finna fyllri ákvæði í frumvarpi þessu um tilvik sem leiða til þess að atvinnuleysistryggingar geymast, atvik sem leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum og um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Er með þessu leitast við að gera kerfið gagnsærra fyrir þá sem missa atvinnu sína. Á sama hátt er gert ráð fyrir sérkafla um viðurlög, t.d. þegar atvinnuleitendur hafna að taka starfi sem býðst fyrir milligöngu vinnumiðlunar eða neita því að fara í atvinnuviðtal.

Virðulegi forseti. Vonir mínar standa til þess að efni þessa frumvarps komi til með að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Ég tel þetta mál mikilvægt og vona að aðrir þingmenn séu mér sammála.

Ef ég vík svo að frumvarpi til laga um vinnumarkaðsaðgerðir þá byggist það frumvarp eins og hitt í meginatriðum á skýrslu nefndar sem var falið að endurskoða efni gildandi laga um vinnumarkaðsaðgerðir og á m.a. rætur að rekja til samkomulags ríkisstjórnarinnar, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins frá 15. nóvember. Meginmarkmið með þessu frumvarpi er að stuðla að því að sem flestir fái tækifæri til að vera virkir á vinnumarkaði áfram sjálfum sér og samfélaginu til hagsbóta. Í því markmiði er lagt til breytt skipulag á vinnumarkaðsaðgerðum sem leitast við að gera kerfið einfaldara og skilvirkara með því að miða við að ein stofnun, Vinnumálastofnun, annist framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða sem feli í sér vinnumiðlun, mat á hæfni atvinnuleitenda og skipulag vinnumarkaðsúrræða með hliðsjón af færni þeirra sem eru í atvinnuleit. Áfram er gert ráð fyrir að samtök aðila vinnumarkaðarins eigi fulltrúa í stjórn stofnunarinnar en talið er mikilvægt að náið samstarf við aðila vinnumarkaðarins sé eitt af mikilvægum atriðum þess að árangur megi nást í vinnumarkaðsaðgerðum.

Í þeim tilgangi að efla enn frekar tengslin við atvinnulífið sem og önnur þjónustukerfi á einstökum svæðum er lagt til að skipað verði sérstakt vinnumarkaðsráð sem ætlað er að komi í stað svæðisráða samkvæmt gildandi lögum. Þar eiga fulltrúar samtaka launafólks og samtaka atvinnurekenda ásamt fulltrúum sveitarfélaga, menntamálaráðherra og heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sæti. Ástæða þessarar samsetningar er mikilvægi þess að fyrir hendi séu náin tengsl við atvinnulífið sem og félagsþjónustu sveitarfélaganna og heilsugæslu- og fræðsluyfirvalda á hverju svæði svo unnt sér að tryggja sem besta þjónustu við þá sem þurfa á aðstoð að halda og verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði eins og ég mun koma betur að síðar.

Hlutverk vinnumarkaðsráðanna er að eiga frumkvæði að tillögum um vinnumarkaðsúrræði og framkvæmd þeirra á viðkomandi svæði enda er þeim ætlað að vera Vinnumálastofnun og stjórn hennar til ráðgjafar um vinnumarkaðsmálefni á hverju svæði. Enn fremur er gert ráð fyrir að þjónustustöðvar Vinnumálastofnunar hafi náið samráð við ráðin um ákvörðun á framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða á svæðinu í samræmi við stefnumörkun stjórnar Vinnumálastofnunar og skipulag og val á vinnumarkaðsúrræðum. Er þannig lögð rík áhersla á að þjónusta Vinnumálastofnunar geti verið sem best alls staðar á landinu.

Virðulegi forseti. Með einfaldara fyrirkomulagi standa vonir til að betri yfirsýn fáist yfir þau vinnumarkaðsúrræði sem í boði eru hverju sinni en gagnrýnt hefur verið að starfsendurhæfing sé of dreifð hér á landi og á hendi margra aðila. Samhliða betri yfirsýn má vænta þess að auðveldara verði að grípa inn í þegar í ljós kemur að einstök úrræði henta illa fyrir einstaklinginn í því skyni að bjóða honum aðra þjónustu sem er vænlegri til árangurs. Með þessum hætti er jafnframt leitast við að bjóða einstaklingsmiðaða þjónustu þannig að vinnumarkaðsaðgerðir sem í boði eru miðist við þarfir einstaklinganna sem þurfa á þeim að halda í stað þess að takmarkast við einstök greiðslukerfi eins og oft hefur viljað brenna við í núverandi skipulagi.

Lagt er til að skipulag vinnumarkaðsaðgerða verði slitið úr beinum tengslum við einstök greiðslukerfi. Er þar með ekki síður tryggt að starfsendurhæfingin verði samfelld enda þótt einstaklingurinn kunni að fara á milli einstakra greiðslukerfa. Áhersla er lögð á að litið verði á alla þá sem leita til Vinnumálastofnunar sem virka atvinnuleitendur. Þannig ber að líta til getu einstaklinganna og er lagt fyrir um að vinnufærni atvinnuleitenda verði metin sem fyrst eftir að sótt er um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Metin verði hvers konar aðstoð hver og einn þarf á að halda svo að unnt sé að hefjast handa við að aðstoða þá í atvinnuleit sinni með virkum hætti. Einnig er höfðað til ábyrgðar einstaklinganna sjálfra enda þýðingarmikið að náin samvinna verði milli ráðgjafa stofnunarinnar og þeirra sem til hennar leita. Þess vegna er mikilvægt að atvinnuleitandi leggi fram allar þær upplýsingar sem liggja fyrir um vinnufærni hans svo að unnt sé að aðstoða hann við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum. Þegar færni og staða einstaklingsins hefur verið metin að öðru leyti er gert ráð fyrir að gerð verði áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum í samstarfi við hvern og einn. Í þessu sambandi skiptir verulegu máli að atvinnuleitandinn sé hafður með í ráðum enda áhersla á einstaklingsmiðaða þjónustu. Að sama skapi er þýðingarmikið að miða skipulag vinnumarkaðsúrræða við raunveruleg tækifæri einstaklinganna til að fá störf við hæfi á innlendum vinnumarkaði og þarf því jafnframt að líta til þess hverjar atvinnuhorfur í landinu eru á hverjum tíma. Ekki síður er mikilvægt að atvinnuleitandinn sé reiðubúinn að fylgja áætluninni eftir og gera það sem í hans valdi stendur til að meta vinnufærni sína til þess að vera virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Honum stendur til boða ráðgjöf og annar stuðningur frá ráðgjöfum Vinnumálastofnunar en miðað er við að þeir síðarnefndu veiti atvinnuleitendum aðhald í atvinnuleitinni.

Gert er ráð fyrir að allir þeir sem leita til stofnunarinnar eigi regluleg samskipti við ráðgjafa hennar eftir því sem talið er nauðsynlegt. Á það enn fremur við um þá sem nokkuð sjálfbjarga eru í atvinnuleit sinni en það getur skipt sköpum að gripið sé inn í eins fljótt og þörf krefur, dragist atvinnuleit á langinn. Þá er mikilvægt að atvinnuleitandi upplýsi um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti, án ástæðulausrar tafar. Síðast en ekki síst til að undirstrika hlutverk atvinnuleitandans sjálfs er gert ráð fyrir sérstökum heimildum Vinnumálastofnunar til að synja hlutaðeigandi um þá þjónustu sem stofnunin veitir standi vilji hans ekki til gera það sem í hans valdi stendur til að auka líkurnar á því að vera virkur á vinnumarkaði. Til að vinnumarkaðsaðgerðir þjóni tilgangi sínum þarf atvinnuleitandinn sjálfur að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er honum standa til boða og jafnframt að vera reiðubúinn að taka þeim störfum sem í boði eru.

Virðulegi forseti. Til að tryggja að viðunandi árangur innan vinnumarkaðskerfisins liggur fyrir að gott og náið samstarf við aðrar þjónustuaðila þarf að vera fyrir hendi. Í ljósi þeirrar staðreyndar er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um að ráðgjafar Vinnumálastofnunar leiti eftir samstarfi við aðra þjónustuaðila í samráði við atvinnuleitanda ef sá síðarnefndi þarf á þjónustu annarra fagaðila að halda til að ná árangri við að bæta vinnufærni sína í því skyni að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði.

Á sama hátt er gert ráð fyrir að ráðgjafar Vinnumálastofnunar starfi náið með öðrum þjónustuaðilum þegar atvinnuleitandi nýtur þjónustu þeirra eða aðrir þjónustuaðilar leita eftir liðsinni þeirra.

Það kann að vera að raunveruleg atvinnuleit geti ekki hafist fyrr en atvinnuleitandi hefur leitað sér aðstoðar innan annarra opinberra þjónustukerfa. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að ráðgjafar Vinnumálastofnunar leiðbeini atvinnuleitanda áfram til viðeigandi þjónustustofnana innan heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins. Er þar með lögð áhersla á að allir sem koma að málum einstaklinganna geti unnið saman við að aðstoða þá við að verða virkir á vinnumarkaði.

Í því skyni að ganga úr skugga um að atvinnuleitandi leiti sér raunverulegrar aðstoðar er lagt til að heimilt verði að binda þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsaðgerðum við það skilyrði að leitað sé fyrst eða samhliða aðstoðar annarra þjónustuaðila. Með þessu er verið að auka líkur á að vinnumarkaðsaðgerðir skili viðeigandi árangri enda, eins og áður segir, til dæmi þess að einstaklingur teljist ekki vera vinnufær fyrr en hann hefur ráðið bót á öðrum vandamálum sem hann kann að glíma við á sama tíma.

Þegar atvinnuleitandi þarf á aðstoð að halda er mikilvægt að valið sé vinnumarkaðsúrræði sem til þess er fallið að skila einstaklingnum árangri. Lagt er til að fyrir hendi verði nokkrar tegundir vinnumarkaðsúrræða en sum þeirra feli í sér mjög takmarkaða þjónustu en önnur mjög öfluga aðstoð. Það fellur því í hlut ráðgjafa Vinnumálastofnunar að meta hvaða úrræði henta hverjum og einum og miða framboð úrræða við samsetningu hópsins sem óskar eftir þjónustu stofnunarinnar og við atvinnuhorfur á vinnumarkaði.

Gert er ráð fyrir sex tegundum vinnumarkaðsúrræða en að þessu leyti má segja að frumvarpið feli í sér eins konar ramma þar sem gert er ráð fyrir að fleiri en eitt úrræði geti fallið undir hverja tegund. Lagt er til að kveðið verði nánar á um skipulag vinnumarkaðsúrræða í reglugerð en miðað er við að Vinnumálastofnun skipuleggi þau ásamt því að annast framkvæmd þeirra.

Þarna getur verið um að ræða einstök námskeið, svo sem námskeið um gerð starfsleitaráætlunar eða sjálfsstyrkingu sem og námskeið til að bæta tiltekna færni. Starfsúrræði sem fela í sér starfskynningu, starfsþjálfun eða reynsluráðningu hafa þótt skila góðum árangri en þau byggjast á góðu samstarfi við atvinnulífið. Jafnframt kann að vera mikilvægt að skipuleg ráðgjöf fari fram samhliða námskeiðsþátttöku og starfsúrræðum.

Það getur verið um að ræða regluleg viðtöl við ráðgjafa Vinnumálastofnunar en einstaka verkefni þar sem eftirfylgnin er mikil á vegum þess sem annast námskeiðið. Enn fremur hafa námsúrræði þótt mjög mikilvæg vinnumarkaðsúrræði en það þarf að meta hverju sinni hvers konar námsframboð nýtist atvinnuleitanda beint í atvinnuleit. Þar kemur helst til greina starfstengt nám en ekki er hér átt við hefðbundið framhaldsskólanám eða nám á háskólastigi.

Mikilvægt er að í boði séu úrræði sem fela í sér atvinnutengda endurhæfingu þar sem aðalmarkmið endurhæfingar er að atvinnuleitandi verður virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Fólk sem hefur helst úr lestinni á vinnumarkaði eða hefur ekki náð að staðfesta sig þar af einhverjum ástæðum þarf oft á atvinnutengdri endurhæfingu að halda sem felur í sér öflugri aðstoð og stuðning við að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þá er gert ráð fyrir að í boði verði atvinnutengd endurhæfing fyrir einstaka hópa fólks en þar undir falla úrræði eins og atvinna með stuðningi og verndaðir vinnustaðir.

Eins og ég hef sagt hefur það sætt gagnrýni að starfsendurhæfing sé of dreifð á landinu og á hendi margra aðila. Er því gert ráð fyrir að í kjölfar þess að Alþingi samþykki frumvarp þetta verði ráðist í endurskoðun þjónustusamninga og hvers kyns greiðslna úr ríkissjóði sem og einstöku sjóðum til starfsendurhæfingar til að ná fram markvissum árangri. Er gert ráð fyrir 5 millj. kr. í þessi verkefni fyrst um sinn. Þá er í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 15. nóvember starfandi nefnd í forsætisráðuneytinu sem m.a. er ætlað að fjalla um starfsendurhæfingu en segja má að frumvarp þetta veiti nefndinni ákveðinn ramma til að starfa eftir að því er það varðar.

Þar með verður til umræðu hvernig standa skuli frekar að fjármögnun vinnumarkaðsaðgerða en samkvæmt framangreindri yfirlýsingu munu ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins koma sameiginlega að fjármögnun þeirra aðgerða sem fjallað er um í frumvarpi þessu.

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að lagt sé til að skipulag vinnumarkaðsúrræða Vinnumálastofnunar miðist ekki eingöngu að þörfum þeirra sem teljast tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins, eins og verið hefur, er gert ráð fyrir að ákveðin samvinna geti verið milli þessara kerfa. Sama gildir um önnur greiðslukerfi.

Þannig er miðað við að einstök greiðslukerfi geti gert sérstaka þjónustusamninga um samstarf þannig að ráðgjafar Vinnumálastofnunar tilkynni um tilvik þar sem atvinnuleitendur fylgja ekki eftir áætlun þeirra um atvinnuleit og þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum og geti því ekki talist vera í virkri atvinnuleit. Með þessum hætti er gert ráð fyrir að enda þótt tengslin séu óbeint slitin milli vinnumarkaðsúrræða og einstakra greiðslukerfa geti engu að síður verið þýðingarmikið að tengja rétt atvinnuleitanda til fjárhagsaðstoðar úr einstökum greiðslukerfum til þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum í því skyni að auka líkurnar á að hlutaðeigandi verði virkur þátttakandi á vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Efni þessa frumvarps er til þess fallið að auka tækifæri þeirra sem hafa helst úr lestinni af ýmsum ástæðum en vilja aftur verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði. Mikilvægt er að ræða þessi tvö frumvörp sem ég hef mælt fyrir hér í dag saman enda er hér um tengd mál að ræða. Ég ítreka að þessi mál eru afar mikilvæg og vona að aðrir þingmenn séu mér sammála um það. Það er þýðingarmikið og ég veit að þetta mál fær hér málefnalega umræðu. Ég legg til að lokinni þeirri umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. félagsmálanefndar.



[14:37]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þau frumvörp sem við ræðum hér, annars vegar um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og hins vegar frumvarp um vinnumarkaðsaðgerðir, eru fram komin í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir samkomulagi ASÍ og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga frá í nóvember á síðastliðnu ári.

Það ef full ástæða til að þakka verkalýðshreyfingunni og forustu ASÍ fyrir þann áfanga sem hér hefur náðst og er einn af mörgum sem verkalýðshreyfingin hefur náð fram í gegnum tíðina í tengslum við kjarasamninga til að treysta kjör og aðbúnað launafólks á vinnumarkaði.

Þær breytingar sem hér eru lagðar til eru afar þýðingarmiklar, bæði auknar greiðslur atvinnuleysisbóta og að hér eigi að taka upp kerfi virkra vinnumarkaðsaðgerða til að treysta stöðu þeirra sem höllum fæti standa á vinnumarkaði. Þessi leið felur í sér nýjar áherslur og nýja hugsun að því er varðar stöðu þessara hópa og byggist á mikilvægri aðstoð og þjónustu við þá sem eru í atvinnuleit og hafa m.a. misst vinnu sína vegna tækniframfara í atvinnulífinu. Allt of stór hópur ófaglærðra, sem af ýmsum ástæðum hefur ekki lokið námi, hefur orðið undir í þeirri byltingu sem hefur orðið á atvinnuháttum og á vinnumarkaði þar sem sífellt er krafist meiri menntunar og þekkingar til að fólk sé samkeppnishæft á vinnumarkaði. Þessu fólki munu væntanlega nýtast vel þær hugmyndir sem eru uppi um virkar vinnumarkaðsaðgerðir.

Þegar verið er að gera breytingar sem skipt geta sköpum um afkomu fólks er undirstaða þess iðulega vilji stjórnvalda á hverjum tíma til að fylgja eftir breytingunum og lagasetningunni og ræður það oft úrslitum um framkvæmd mála að fjármagn fylgi aðgerðum. Af því hef ég áhyggjur að því er varðar frumvarpið um virkar vinnumarkaðsaðgerðir.

Í þessu tveggja stoða kerfi er nauðsynlegt að litið sé á þetta kerfi heildstætt, annars vegar atvinnuleysistryggingar eða atvinnuleysisbæturnar sjálfar og hins vegar virku vinnumarkaðsaðgerðirnar ef árangur á að nást. Því er það sérstaklega mikilvægt að vinnumarkaðsaðgerðirnar séu markvissar, vel skipulagðar og að þær þjóni vel atvinnuleitendum og geri þá öflugri til að takast á við störf á vinnumarkaðnum sem gefa betri tekjumöguleika.

Ef vinnumarkaðsaðgerðirnar eru bara orð á pappír og þeim ekki fylgt eftir með fullnægjandi fjármagni þá sitjum við í sömu hjólförum og munum ekki ná að treysta stöðu þeirra sem höllum fæti standa á vinnumarkaði.

Ef litið er til hvernig gengið er frá fjármögnun á annars vegar greiðslu til atvinnuleysisbóta og hins vegar til greiðslu á virkum vinnumarkaðsaðgerðum þá er, eins og ég sagði, ástæða til að hafa ákveðnar áhyggjur af því hvort þessar aðgerðir skili tilætluðum árangri ef ekki fylgir fjármagn. Það er oft misvísandi — annars vegar í skýrslu nefndar um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir, sem þessi frumvörp byggja á, og hins vegar t.d. umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarp um vinnumarkaðsaðgerðir. En í yfirliti fjárlagaskrifstofu um útgjöld vegna þessa segir, með leyfi forseta:

„Að óbreyttu er áfram gert ráð fyrir að atvinnuleysistryggingar fjármagni vinnumarkaðsúrræðin.“

Atvinnuleysistryggingar. Það er sem sagt gert ráð fyrir að atvinnuleysistryggingar fjármagni þessi vinnumarkaðsúrræði en þegar litið er á skýrslu nefndarinnar um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir þá kemur fram, með leyfi forseta:

„Lagt er til að sú meginregla verði mótuð í væntanlegri löggjöf að skýr verkaskipting verði á milli Atvinnuleysistryggingasjóðs og ríkissjóðs hvað varðar fjármögnun atvinnuleysisbóta og vinnumarkaðsaðgerða. Þannig verði hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs að fjármagna atvinnuleysisbætur og kostnað við úthlutun og umsýslu þeirra. Fjármunir til vinnumarkaðsaðgerða koma að meginhluta til úr ríkissjóði en aðrir aðilar geta með samningum lagt fjármuni til vinnumarkaðsaðgerða.“

Sú breyting sem hér hefur verið gerð er ekki samhljóða því sem var í skýrslunni sem þessi frumvörp byggjast á. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er það með samkomulagi við verkalýðshreyfinguna að hér er verið að breyta um fjármögnun og leggja til að vinnumarkaðsaðgerðirnar sjálfar ásamt breytingum á atvinnuleysisbótunum séu fjármagnaðar úr Atvinnuleysistryggingasjóði þegar í skýrslunni er alveg kristaltært að það er ríkissjóður sem á að fjármagna þessar vinnumarkaðsaðgerðir? Þetta er mikilvægt að fá fram við þessa umræðu.

Síðan vildi ég aðeins fara inn á Atvinnuleysistryggingasjóðinn og fjármögnun hans. Miðað er við að ekki þurfi að hækka greiðslur í Atvinnuleysistryggingasjóð til að standa undir auknum atvinnuleysisbótum og er miðað við, ef ég skil þetta rétt, að Atvinnuleysistryggingasjóður geti staðið undir þessum greiðslum miðað við 2,6% atvinnuleysi.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur verið reiknað út miðað við þróun og horfur á vinnumarkaðnum og spá um atvinnuleysi næstu missiri og ár hve lengi sjóðurinn getur staðið undir þessum réttindum án þess að fara að ganga á eigið fé? Það er ástæða til að skoða þessa fjármögnun líka í ljósi þeirrar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga frá mars 2004 og þeim áformum að tryggingagjald lækki um 0,45% þann 1. janúar 2007. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort einhverjar breytingar verði á þessum áformum vegna þeirra aðgerða sem í frumvarpinu felast, þ.e. greiðsla á tryggingagjaldinu sem stendur undir fjármögnun Atvinnuleysistryggingasjóðs. En samkvæmt því sem fram kemur frá fjárlagaskrifstofu er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs muni samtals aukast um 700–800 millj. á árinu 2007 vegna ákvæða frumvarpsins og þá er miðað við 2,6% atvinnuleysi.

Það er líka ástæða til að hafa áhyggjur af því sem dregið er fram í fylgiskjali með skýrslunni sjálfri. Þar eru þrjú fylgiskjöl og m.a. lýst þar afstöðu Samtaka atvinnulífsins til hugmynda um tekjutengingu atvinnuleysisbóta. Þar kemur fram atriði sem ég vona að hæstv. ráðherra líti fram hjá og ætli ekkert að taka undir. Hér er talað um, með leyfi forseta, að:

„Skoðaðir verði kostir þess að launamenn kaupi sjálfir viðbótartryggingu eða taki að minnsta kosti þátt í þeim kostnaði líkt og þekkist á Norðurlöndunum. Samtök atvinnulífsins hafa bent á þennan möguleika í nefndarvinnunni en mætt andstöðu ASÍ. Nærtækast væri að líta til þeirra kerfa sem þar hafa verið þróuð. Ef kostnaður vegna tekjutengingar á að greiðast úr Atvinnuleysistryggingasjóði þá verður að ná fram samsvarandi sparnaði á breytingum á bótareglum eða auka tekjur sjóðsins með hækkun atvinnutryggingagjalds samhliða samsvarandi lækkun almenns tryggingagjalds.“

Ég spyr, virðulegi forseti, hvort nokkrar slíkar hugmyndir séu upp á borðinu að því er þetta varðar. Ég hef ekki haft tækifæri til að skoða það ofan í kjölinn en vinnumarkaðsaðgerðirnar komu fyrst inn í þingið hér í gær og þurfti að taka fyrir með afbrigðum. Eru í frumvarpinu einhver ákvæði sem virka til þrengingar og sparnaðar frá því sem nú er, líkt og Samtök atvinnulífsins vísa til?

Virðulegi forseti. Ýmis ákvæði í frumvarpinu munu tryggja betur rétt atvinnulausra, einkum á þriggja mánaða tekjutengda tímabilinu. En áfram eru grunnbæturnar afar lágar og einungis gert ráð fyrir að fullar atvinnuleysisbætur verði 96 þús. kr. á mánuði. Fyrstu tvær vikurnar verða atvinnulausir á grunnbótum og síðan þrjá mánuði á tekjutengdu bótunum sem hæst geta numið 180 þús. kr. En síðan færu þeir aftur á grunnbætur. Ég taldi mig hafa séð í fylgiskjali með bókun ASÍ að þar hafi verið lögð áhersla á hærri bætur og til lengri tíma en þriggja mánaða. Þar var lögð áhersla á að tekjutengingin yrði miðuð við 250 þús. kr. Mig minnir að ég hafi séð að það yrðu sex mánuðir í staðinn fyrir þrjá. En það er ljóst að þetta frumvarp ber með sér málamiðlun Samtaka atvinnulífsins og ASÍ.

Það er gagnrýnisvert í þessu frumvarpi að bótatímabilið er stytt úr fimm árum í þrjú ár. Ég spyr ráðherra út í það. Það væri gott ef ráðherra svaraði því áður en þessari umræðu lýkur. Ég geri ekki ráð fyrir að hann geti svarað því í stuttum andsvörum. Hvað með þá sem enga vinnu hafa fengið eftir þrjú ár? Þá detta þeir af bótum. Þeir gátu þó verið á þeim í fimm ár áður. Hvert á fólkið þá að fara? Hvað öryggisnet geta þeir treyst á sem ekki hafa fengið vinnu á þessum tíma? Er þeim vísað á Tryggingastofnun eða sveitarfélögin eða hvernig hefur þetta verið hugsað?

Ég hef líka áhyggjur af því að í ákvæði til bráðabirgða II er gert ráð fyrir því að þeir sem voru skráðir atvinnulausir fyrir 15. nóvember 2005 fái ekki rétt til tekjutengdra bóta. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað er þetta stór hópur, t.d. þeir sem eru lengur en þrjú ár á bótum miðað við reynslu undanfarinna ára? Erum við að tala um 100 manns eða 200 manns? Hvað er hann að tala um stóran hóp? Ég býst við að langstærstur hlutinn sé á atvinnuleysisbótum skemur en þrjá mánuði. En þarna er einhver hópur sem gæti dottið upp fyrir miðað við þessa lagasetningu. Ég spyr ráðherrann hvort um það hafi verið hugsað og hvernig standi á því að þeir sem voru atvinnulausir fyrir 15. nóvember muni ekki njóta góðs af því sem þó er það besta í þessu frumvarpi, þ.e. að bæturnar séu hækkaðar, að vísu bara tímabundið í þrjá mánuði. Þar er hópur sem einskis mun njóta að því er það varðar.

Ég vil líka spyrja um 14. gr. í frumvarpinu um atvinnuleysistryggingar. Þar er talað um virka atvinnuleit. Mér finnast öll þessi skilyrði nokkuð ströng, að menn verði að vera reiðubúnir að taka starf hvar sem er á Íslandi, svo dæmi sé tekið. Það er virðist þó gert ráð fyrir einhverri undanþágu þar. Í 14 gr. frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar segir, með leyfi forseta:

„Vinnumálastofnun er heimilt að veita undanþágu frá skilyrðum b-, d- og e-liða 1. mgr. þannig að hinn tryggði, sem vegna aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima óskar eftir hlutastarfi eða starfi innan tiltekins svæðis, geti talist vera í virkri atvinnuleit.“

Þarna er gerð mikilvæg undanþága sem ég met mikils. En félagsmálaráðherra getur ákveðið í reglugerð skilyrði fyrir slíkum undanþágum. Ég spyr: Er slík reglugerð tilbúin? Hafa verið lögð fram drög að slíkri reglugerð? Ég spyr vegna þess að það er líka mikilvægt að fá slíka reglugerð inn í félagsmálanefnd þegar við fjöllum um þetta mál. Það er brýnt að menn fari vel yfir þau skilyrði sem þarna eru sett upp.

Ég spyr líka um 63. gr. Þar er verið að tala um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði til verkefna á vinnumarkaði. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Félagsmálaráðherra er heimilt, að fenginni tillögu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði til einstakra verkefna sem ætlað er að efla atvinnulíf einstakra svæða, fjölga atvinnutækifærum einstakra hópa fólks sem og til starfsmenntunar.“

Hvað er verið að tala um hérna, nákvæmlega? Er þetta eitthvað nýtt eða framhald af því sem verið hefur í gangi? Það er líka heimilt að veita sérstaka styrki vegna búferlaflutninga hins tryggða innan lands vegna starfstilboða, þ.e. ef hann er í virkri atvinnuleit og er skyldaður til að taka starf úti á landi. Ef ég skil málið rétt yrði viðkomandi boðið upp á styrki vegna búferlaflutninga. Félagsmálaráðherra á að setja nánari reglur þar um. Ég vildi gjarnan vita: Hvað er verið að tala um háa styrki? Hvernig er þetta hugsað? Liggja fyrir drög að reglugerð varðandi slíkar styrkveitingar?

Síðan spyr ég um refsi- og viðurlagaákvæði gagnvart fólki í atvinnuleit sem fylgir ekki í einu og öllu ákvæðum laganna. Þau eru allt of hörð að mínu mati. Refsi- og sektarheimildir eru allt of víðtækar. Þar er ég að tala um viðurlagakaflann, þ.e. XI. kafla frumvarpsins um viðurlög, t.d. ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað er viðkomandi hreinlega tekinn af bótum í 40 virka daga frá því að viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, og í heila 60 daga eða tvo mánuði ef er beitt ítrekunarheimildum laganna fyrir atvinnulausa sem sætt hefur viðurlögum samkvæmt 57. og 59. gr.

Ég segi bara, virðulegi forseti, að menn hafa ekki verið svona refsiglaðir gagnvart atvinnurekendum eða svonefndum kennitöluhoppurum sem stofna ítrekað rekstur á grunni gjaldþrota fyrirtækja og vísa vörslusköttum og launakröfum til ábyrgðarsjóðs launa. Mér finnst að viðurlagakaflann þurfi að endurskoða. Ég spyr: Var samkomulag um þennan viðurlagakafla, t.d. við verkalýðshreyfinguna? Ég trúi því ekki að verkalýðshreyfingin standi að viðurlagakaflanum eins og hann birtist hér.

Síðan spyr ég um lífeyrisréttindin. Gert er ráð fyrir 6% og ekkert framlag vegna viðbótarlífeyrissparnaðar. Ég tel að þetta sé of lágt. Af hverju er miðað við 6%? Eru lífeyrisréttindin ekki almennt orðin 7% á vinnumarkaði? Af hverju þarf greiðslan að vera lægri til atvinnulausra, þ.e. greiðsla atvinnurekenda í lífeyrissjóð?

Ég spyr líka um ósamrýmanlegar greiðslur samkvæmt 51. gr. Ég spyr: Ef um er að ræða að viðkomandi hafi lægri greiðslur, t.d. sjúkradagpeninga eða fái greiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, fær hann ekki að njóta mismunarins? Í 51. gr. er talað um þessar greiðslur, sjúkradagpeninga og greiðslur til foreldra langveikra barna. Ef þær eru lægri en atvinnuleysisbæturnar, nýtur þá viðkomandi ekki að minnsta kosti mismunarins? Eða á hann engan rétt ef hann er á slíkum bótum?

Ég vildi fara yfir fleiri atriði en til þess er ekki mikill tími. Ég vil spyrja um úthlutunarnefndirnar. Í ályktun á félagsfundi Eflingar kom fram gagnrýni á að leggja eigi niður úthlutunarnefndirnar. Ég spyr hvernig hæstv. ráðherra svari þeirri gagnrýni. Samkvæmt frumvarpinu verður ein úthlutunarnefnd yfir allt landið sem ákveður bætur allra atvinnulausra á landinu. Vinnumálastofnun mun samkvæmt frumvarpinu yfirtaka alla framkvæmd laganna um atvinnuleysistryggingar. Efling og VR hafa mótmælt þessum breytingum á lögunum og telja að með þessu móti verði þau beinu tengsl sem félögin hafi átt við atvinnulaust fólk rofin.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvert fólk á landsbyggðinni eigi að leita ef það er atvinnulaust. Er það til sveitarfélaganna eða hvernig er þetta hugsað ef leggja á allar þessar úthlutunarnefndir niður? Ég lýsi mig ekki andsnúna því fyrir fram en ég vil vita hvað á að koma í staðinn.

Varðandi vinnumarkaðsaðgerðirnar þá er það mál svo nýkomið inn að manni hefur varla gefist tíma til að lesa það. Meginþunginn er lagður á ráðgjöf við atvinnuleitendur sem er gott og vikuleg stimplun aflögð. Það er mjög gott.

Fyrir utan fjármögnunina, sem ég nefndi hér áðan, og spurði um, þá spyr ég um hlutverk þessara þjónustustöðva. Mér sýnist, virðulegi forseti, mjög óljóst í lögunum hvaða verkefni þessar þjónustustöðvar hafa. Það er bæði talað um þjónustustöðvar og líka um vinnumarkaðsráð. Það er alveg skýrt hvaða hlutverk vinnumarkaðsráð hefur en mér finnst óljóst, á þeim stutta tíma sem ég hef haft til að kynna mér málið, hvert er hlutverk þessara þjónustustöðva. Það er t.d. ekki bundið í lögum hvað þær eiga að vera margar. Það kemur bara fram einhvers staðar í greinargerð að álitið sé að þær eigi að vera átta en síðan geti félagsmálaráðherra að vild fækkað þeim eða fjölgað eftir því sem hann kýs hverju sinni. Verður ekki að hafa meiri lagastoð fyrir þessu en hér er gert ráð fyrir? Um það spyr ég.

Ég spyr líka: Var leitað með þetta mál til Tryggingastofnunar ríkisins? Hefur hún sett sig upp á móti þeim ákvæðum sem hér eru lögð til? Því það virðist eiga að gera breytingu á framkvæmd vinnumarkaðsaðgerða sem áður hefur einskorðast við úrræði tengdum við atvinnuleysistryggingakerfið. En í frumvarpinu er lögð áhersla á að Vinnumálastofnun annist skipulegar vinnumarkaðsaðgerðir án tillits til þess hvaðan framfærsla atvinnuleitanda kemur. Það virðist því sem bæði geti verið um læknisfræðilega og atvinnutengda endurhæfingu að ræða sem fallið gæti undir þetta. Ég hygg að þar sé skynsamlega staðið að málum, að skoða málið meira heildstætt. En ég spyr: Hefur verið leitað umsagnar um að fara út í málið með þessum hætti, til Tryggingastofnunar ríkisins? Er hugmyndin sú að verndaðir vinnustaðir falli almennt inn í þessar vinnumarkaðsaðgerðir? Þá er ég að tala um vinnumarkaðsúrræði fyrir fatlað eða þroskaheft fólk.

Ég hefði viljað ræða nokkur fleiri atriði en sé að tíma mínum er lokið. Ég vænti þess að áður en þessari umræðu lýkur svari hæstv. ráðherra því sem fram hefur komið í máli mínu.



[14:57]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki að ástæðulausu að stjórnarandstaðan tók því vel að þessi tvö frumvörp yrðu rædd samtímis, þ.e. frumvarp um atvinnuleysistryggingar annars vegar og um vinnumarkaðsaðgerðir hins vegar. Við höfum einmitt lagt áherslu á að þessi frumvörp fylgdust að, eins og reyndar hefur verið allar götur frá því þessi tvíburi kom til sögunnar árið 1997, ef ég man rétt. Þá sat ég reyndar í nefnd sem undirbjó drög að lögum um atvinnuleysistryggingar og um vinnumarkaðsaðgerðir.

Þessi frumvörp eru byggð á samstarfi verkalýðshreyfingar annars vegar og Samtaka atvinnurekenda hins vegar ásamt fulltrúum ríkisvalds. En af hálfu verkalýðshreyfingarinnar hafa komið að vinnunni Alþýðusamband Íslands og BSRB. Sú vinna hefur skilað sér í málamiðlun sem er góðra gjalda verð, eins langt og hún nær. En þegar þessum frumvörpum var skotið til samningsaðila settu þeir fram ákveðin gagnrýnisatriði sem ég vil reifa lítillega.

Þessi frumvörp gera það tvennt í senn að gera bæði lagatextann og framkvæmdina markvissari og skýrari og er það til góðs. En þarna er einnig að finna nýmæli sem skipta miklu máli og sýnist sitt hverjum. Í fyrsta lagi er það tekjutrygging atvinnuleysisbótanna. Er hún til góðs eður ei? Þetta er atriði sem hefur verið talsvert umdeilt í verkalýðshreyfingunni og í samfélaginu almennt.

Ég get sagt frá umræðu sem fram fór um þetta efni á vettvangi stjórnar BSRB þar sem ég þekki vel til. Þar voru uppi tvenn sjónarmið. Annars vegar voru þeir sem bentu réttilega á að tekjuhár einstaklingur eða maður með miðlungstekjur sem færi á atvinnuleysisbætur yrði að vissu leyti fyrir meira höggi en hinn sem væri með lág laun og færi á atvinnuleysisbæturnar. Þá er bent á það að skuldbindingar hins tekjuháa einstaklings eða meðaltekjumannsins séu yfirleitt meiri en lágtekjumannsins og það sé rétt að taka tillit til þessa með einhvers konar aðlögun í það minnsta í atvinnuleysisbótakerfinu.

Hitt sjónarmiðið kom þá ekki síst frá fulltrúum láglaunafólksins sem lagði áherslu á að atvinnuleysisbæturnar yrðu almennt hækkaðar. Það er gert með þessu frumvarpi en afar lítið, um einar 2 þús. kr., þær fara úr 94 þús. kr. í 96 þús. kr. sem ég held að flestir hljóti að vera sammála um að dugar illa til framfærslu á Íslandi. En það sjónarmið varð ofan á í þessari umræðu að styðja tekjutengingu, og þá tímabundna tekjutengingu, inni í kerfinu. Við skulum ekki gleyma því að menn voru að horfa á þessa tvo valkosti, annars vegar að hækka atvinnuleysisbæturnar almennt til allra eða verja hluta fjármagnsins í tekjutenginguna eins og hér varð ofan á. Menn ætla að tekjutengingin á árinu 2007 sé metin á 600–700 millj. kr. Þetta er fyrsta atriðið sem var rætt um, var og er nokkuð umdeilt en þetta sjónarmið varð ofan á. Menn hefðu viljað hafa tímabilið sem tekjutengingin nær til lengra en gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Menn hefðu viljað sjá tímabilið hálft ár, ef ég man rétt, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að það séu þrír mánuðir.

Hitt er síðan það sem snýr að stjórnsýslunni. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að ýmsir hefðu gagnrýnt það að úthlutun atvinnuleysisbóta yrði rifin úr tengslum við verkalýðshreyfinguna. Úthlutunarnefndir hafa starfað á hennar vegum eða í nánum tengslum við hennar starfsemi og þar hafa menn réttilega bent á að þetta haldi verkalýðshreyfingunni og starfsmönnum hennar við efnið ef svo má segja. Þeir eru í stöðugum tengslum við þennan vanda sinna félagsmanna sem eru án atvinnu.

Síðan er hitt sjónarmiðið, sem hæstv. ráðherra ýjaði að, að það væri eðlilegt að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar væru aðhaldsaðili, sýndu þessu kerfi aðhald en væru ekki hluti af stjórnsýslunni eða þannig skildi ég orð hans. Mér þykir báðir aðilar hafa nokkuð til síns máls en fyrir mitt leyti styð ég þó þessa breytingu. Við skulum ekki gleyma því að grundvallarbreyting hefur orðið á undanförnum árum hvað varðar alla framkvæmd þessara mála. Samfélagið er orðið rafrænt. Einstaklingurinn fer ekki á staðinn hvort sem það er í banka eða til að sækja atvinnuleysisbætur heldur gerist þetta á rafrænan hátt. Þá er að sjálfsögðu eðlilegt að þessari starfsemi sé fyrir komið á sem hagkvæmastan hátt og ég fyrir mitt leyti hef aldrei gagnrýnt þá ráðstöfun að þetta væri fært inn í Vinnumálastofnun eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi.

Ég var því mjög andvígur á sínum tíma þegar ákveðið var að úthlutun til starfsmanna hins opinbera yrði rifin út úr þessu kerfi eins og gert var. Við gagnrýndum það sem sprettum upp úr þeim geira mjög harðlega á sínum tíma. Við vildum hins vegar sýna ákveðinn stuðning við þau sjónarmið sem komu frá Eflingu, þáverandi Dagsbrún sennilega, Verslunarmannafélaginu og öðrum aðilum hér á Reykjavíkursvæðinu og annars staðar í landinu sem lögðu mikið upp úr því að viðhalda þessum tengslum sem ég vék að áðan.

Annað sem lýtur að stjórnsýslunni er aðkoma að nefndum og ráðum. Það er mjög mikilvægt að sú aðkoma verði ekki þrengd eins og reyndar er verið að gera með þessum lögum. Ég vek athygli á því að hvað Atvinnuleysistryggingasjóð varðar er BSRB, svo ég leyfi mér að halda fram þeim samtökum, ekki tryggð aðkoma að stjórninni. Þeim ágætu samtökum BHM og BSRB er gert að koma sér saman um fulltrúa en ég vil beina því til Alþingis og félagsmálanefndar, sem fær málið til umfjöllunar, hvort rétt væri að fjölga í þessari stjórn.

Mér hefur verið bent á það á móti að ef stjórnir verði mjög fjölmennar vilji það gerast að þær skipi sérstakar fámennari framkvæmdastjórnir sem síðan ráði í reynd öllu og hinir séu þá meira og minna til málamynda. Ég held að það þurfi ekki að gerast. Ég hef verið gagnrýninn á þessa framkvæmdastjórnarskipan í atvinnuleysistryggingakerfinu eins og við höfum búið við og tel að menn eigi að venja sig á að sitja í ívið fjölmennari nefndum. Við erum að tala um geysilega fjárhagshagsmuni og hagsmuni einstaklinga og ég held að kerfinu sé til góðs að hafa breiða aðkomu að þessu stjórnkerfi.

Við 1. umr. gerir maður lítið annað en ympra á ýmsum áherslum og eins og ég segi hér þá styð ég þessar hugmyndir um tekjutengingu, takmarkaða tekjutengingu. Ég tel að hún eigi að vera takmörkuð og í takmarkaðan tíma. Ég tek undir það. Ég hefði viljað hafa tímann ívið lengri og ég hefði viljað að viðmiðunarmörkin væru önnur en nú er. Nú er miðað við miðjan nóvember á síðasta ári en ég tek undir þær spurningar sem komu fram hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan um þá aðila sem væru án atvinnu fyrir þann tíma en verða þá væntanlega af þessari tekjutengingu sem þeir gætu átt rétt á.

Hitt atriðið er breyting á stjórnsýslunni. Ég tek almennt undir hana en gagnrýni þessa þröngu aðkomu að stjórninni og tel að það sé nokkuð sem þurfi að íhuga á nýjan leik.

Varðandi vinnumarkaðsaðgerðirnar og frumvarp til laga um þær þá vil ég einnig taka undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Hér skiptir að sjálfsögðu öllu máli hvaða fjármagni er úr að moða til að þessar vinnumarkaðsaðgerðir standi undir nafni, að eitthvað verði úr þeim. Það var minnt á það hér við umræðuna að gert hefði verið ráð fyrir því að sérstök fjárveiting kæmi úr ríkissjóði til þessa verkefnis en í umsögn um frumvarpið frá fjármálaráðuneytinu segir að svo verði ekki. Hér segir, með leyfi forseta:

„Að óbreyttu er áfram gert ráð fyrir að Atvinnuleysistryggingasjóður fjármagni vinnumarkaðsúrræði.“

Auðvitað er þetta nokkuð sem skiptir öllu máli, þ.e. hve mikið fjármagn er sett í þessar aðgerðir.

Eitt sem er rétt að staldra við að sjálfsögðu einnig er tímabil bóta, hversu langt það eigi að vera. Það er verið að stytta það úr fimm árum í þrjú og þarna aftur skiptir þetta samspil vinnumarkaðsaðgerða og atvinnuleysis öllu máli. Hins vegar kemur á móti að rétturinn vaknar að fullu sem hann gerði ekki áður þannig að þar koma til úrræði sem eru til bóta. Allt þetta þarf síðan að vega og meta í samhengi. Við munum gera það í félagsmálanefnd þingsins þegar þar að kemur. Þegar á heildina er litið tel ég að við séum að stíga framfaraspor en við þurfum að gera ýmsar breytingar á frumvarpinu til að vel eigi að vera.

Ég minni á annars ágætt frumvarp um réttindi aðstandenda langveikra barna sem við studdum öll en hefðum gjarnan viljað gera breytingar á. Við erum að vakna upp við það núna, reyndar voru sum sæmilega vakandi þegar það frumvarp var samþykkt hér á þingi, að mikil óánægja er meðal aðstandenda langveikra barna sem ekki falla undir frumvarpið, sem eiga börn sem urðu veik áður en gildistíminn kom til sögunnar. Við eigum ekki að láta svona henda okkur, aldeilis ekki. Eins segi ég um þetta, við eigum að sníða af þá vankanta sem enn eru á þessum lagasmíðum.



[15:13]
Ingvi Hrafn Óskarsson (S):

Virðulegi forseti. Það er yfirlýst markmið frumvarps til laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja launamönnum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst sitt fyrra starf. Þetta er mikilvægt markmið. Það er brýnt að styðja við einstaklinga í þessum sporum og ég held að almenn og góð samstaða sé um það í samfélaginu.

Eins og hæstv. félagsmálaráðherra kom inn á áðan er gert ráð fyrir tilteknum breytingum á fyrirkomulaginu í 32. gr. frumvarpsins þar sem miðað er við að atvinnuleysisbætur verði tekjutengdar. Að mínum dómi er þarna um að ræða nýjung sem vert er að gefa gaum og sumpart er um að ræða nokkuð varhugaverða stefnubreytingu. Í fyrsta lagi er ljóst að þessar breytingar eru býsna kostnaðarsamar. Það kemur fram í fylgiskjali með frumvarpinu frá fjármálaráðuneyti að árlegur kostnaðarauki verði um 600–700 millj. kr. vegna þessara breytinga og þá er miðað við árið 2007, miðað við 2,6% atvinnuleysi. En það eru ýmsir þættir sem gætu valdið því að kostnaðurinn yrði nokkuð meiri en þarna er áætlað því það eru óvissuþættir inni í þessu eins og t.d. launaþróun og þau áhrif sem þessar breytingar munu hafa.

Það er annað atriði í þessu sem einnig er ástæða til að hnykkja á og það er það sem mætti kalla kerfislæg áhrif þessara breytinga. Það er ljóst að þessi breyting getur beinlínis stuðlað að því að atvinnuleysi muni aukast. Eftir því sem bæturnar eru hærri eða ríflegri þeim mun minni er hvatinn fyrir virka atvinnuleit. Það er auðvitað erfitt að meta áhrifin en það er ljóst að þau verða einhver. Á þetta er einmitt bent í umsögn fjármálaráðuneytisins, með leyfi forseta. Þar segir:

„Í fyrsta lagi felur tillagan í sér mjög miklar hækkanir á atvinnuleysisbótum en þá er hætt við því að hvati til atvinnuleitar gæti minnkað.“

Lög og reglur í þessum málaflokki eiga að stuðla að því að einstaklingar sem í skamman tíma verða atvinnulausir komist á vinnumarkaðinn sem fyrst á nýjan leik. Við eigum hins vegar að forðast reglur sem vinna gegn því markmiði. Staðreyndin er sú að hér á landi er sem betur fer lítið atvinnuleysi og langflestir sem þiggja bætur gera það í skamman tíma. Langtímaatvinnuleysi er sem betur fer lítið.

Þessu er ólíkt farið hjá mörgum nágrannaríkjum okkar í Evrópu sem glíma margar við viðvarandi og verulegt langtímaatvinnuleysi enda hvílir á vinnumarkaðnum þungt reglugerðafargan sem dregur úr skilvirkni og er vinnuletjandi. Það má segja að okkar kerfi hafi frá þessu sjónarmiði reynst vel. Því skyldum við þá leita í smiðju ríkja þar sem ekki hefur tekist eins vel til? Reyndar er það þó svo að þegar öllu er á botninn hvolft þá er það sem skiptir mestu máli að hagstjórn og umhverfi atvinnulífsins sé þannig að atvinnuleysi sé í lágmarki. Það hefur tekist á Íslandi á undanförnum árum. Opið og frjálst hagkerfi er nefnilega besta meðalið við atvinnuleysi. Það mætti þó segja að hér væri einungis stigið stutt skref. Sett er þak á tekjutenginguna. Hún er miðuð við að hámarki 180 þús. kr. og getur aðeins verið til átta mánaða en þetta er hins vegar fyrsta skrefið á varhugaverðri braut. Við heyrðum það áðan í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar að hann var þegar farinn að tala um að lengja þann tíma.

En þetta er mikil stefnubreyting í reynd og ég tel að við séum að fara með þessum breytingum inn á varhugaverða braut. Nú eru bætur ekki miðaðar við brýnustu þarfir. Þeir sem fá lægstu launin fá líka lægri bætur en hátekjumenn sem verða atvinnulausir. Mér kæmi ekki á óvart að mörgum þætti hugmyndinni um velferðarríki hafa verið snúið á hvolf með slíkum reglum.

Virðulegur forseti. Ég vek athygli á þessari stefnubreytingu og treysti því að þessi þáttur frumvarpsins verði tekinn til gagnrýninnar skoðunar og umræðu í nefnd.



[15:18]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að koma hér upp og segja nokkur orð um þau ágætisfrumvörp sem hér eru lögð fram, þ.e. frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar og eins um vinnumarkaðsaðgerðir en eins og hér hefur komið fram í umræðum þá tengjast þessi mál mjög náið. Ekki síst vegna ræðu síðasta hv. þingmanns vil ég koma inn á að tilgangur þess að þessi tvö mál eru lögð fram saman er sá að hvetja fólk og hjálpa þeim sem eru í atvinnuleit. Kerfið hefur kannski ekki reynst alveg nógu hvetjandi eins og það er og með þessu er reynt að bregðast við því.

Í nóvember síðastliðnum starfaði nefnd sem skilaði af sér skýrslu um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir og þessi frumvörp eru einmitt byggð á þeirri skýrslu. Þarna koma að hinir ýmsu aðilar og hafa náð saman um ákveðin meginatriði enda eru þessi frumvörp mjög viðamikil og hér er um að ræða gríðarlega mikið hagsmunamál fyrir marga. Við erum að horfast í augu við þýðingarmiklar breytingar, bæði hvað varðar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég er mjög samþykk þeirri tekjutengingu sem við sjáum hér, þ.e. allt að 180 þús. kr. í nokkra mánuði. Samhliða þessu er auðvitað verið að efla vinnumarkaðsaðgerðirnar.

Ég er ekki sammála því að tekjutenging letji til atvinnuleitar því ég held að fólk sem er með sæmilega góð laun muni ekki sækjast eftir því að fara á atvinnuleysisbætur. Við skulum líka muna að þetta er í afmarkaðan tíma en þarna verið að draga úr þessu mikla áfalli. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson kom inn á áðan þá eru auðvitað skiptar skoðanir um þetta en vonandi mun þetta hjálpa mörgum.

Það er ein grein sem ég vildi sérstaklega vekja athygli á vegna þess að hún er nokkuð kunnugleg og ég er afskaplega ánægð að sjá hana þarna inni en það er 25. gr. sem fjallar um nám. Ég man að þegar ég var í stúdentaráði vorum við að berjast fyrir nákvæmlega þessu máli en þarna er fjallað um að aðili sem ákveðið hefur að fara í nám en fær ekki vinnu að námi loknu eigi rétt á atvinnuleysisbótum og þá skal miða við þá vinnu sem hann hafði fyrir, þ.e. áður en hann hóf nám. Þarna er sem sagt verið að miða við þriggja ára nám. Þetta kemur fólki til góða, ekki síst því sem er að fara í framhaldsnám og er að sækja sér meistaragráðu. Þegar það kemur út á vinnumarkaðinn á ný veit það ekki hvernig atvinnuástandið er en á þá rétt á þessum bótum í einhvern tíma. Þetta er skilyrt því að fólk hafi klárað námið. Ég álít þetta vera mjög mikilvæga grein sem eigi eftir að hjálpa mörgum. Þetta virkar afskaplega hvetjandi til að fá fólk til að fara aftur í nám og sækja sér framhaldsmenntun. Við erum alltaf að tala um að nám sé þjóðhagslega hagkvæmt og þetta passar vel inn í þá mynd, þannig að ég vildi vekja athygli á þessu. Að öðru leyti hafa komið fram ýmsar spurningar til hæstv. félagsmálaráðherra. Hann mun eflaust svara þeim í ræðu sinni og við munum síðan fá frumvarpið inn í félagsmálanefnd. Eins og ég sagði áðan þá eru þetta mjög viðamikil frumvörp. Ég vil lýsa sérstakri ánægju minni með þau. Það eru auðvitað alltaf einhver atriði sem standa út af en mér heyrist á þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að mikill vilji sé til að afgreiða þetta mál og ná saman um það og ég hef ekki trú á öðru en að svo verði.



[15:23]
félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær ágætu umræður sem hafa verið um þetta mál og góðar undirtektir við málið í heildina þótt hér kæmu fram ýmsar fyrirspurnir sem eðlilegt er um jafnstórt mál og þetta.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hreyfði því og lýsti áhyggjum sínum af því hvort fjármagn mundi fylgja þessum aðgerðum. Það er alveg ljóst að fjármagn þarf að fylgja þessum aðgerðum. Þessi mál eru til umfjöllunar í nefnd forsætisráðuneytisins sem fjallar um endurhæfingarmálin og niðurstaða af því nefndarstarfi mun væntanlega liggja fyrir fyrir haustið. Að óbreyttu er gert ráð fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður annist endurhæfingarmálin, þetta sé tveggja stoða kerfi í samvinnu við t.d. lífeyrissjóði en það er ríkisframlag, þannig að ef til þess kemur þá færi það í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Það er það sem er átt við í kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins og það var ákveðið að bíða niðurstöðu nefndarinnar með þennan þátt málsins.

Það er engin ákvörðun um að leggja til að launamenn kaupi viðbótartryggingu. Varðandi hvað hópurinn er stór sem hefur rétt til tekjutengdra bóta þá hef ég þá tölu ekki handbæra en mér finnst rétt að félagsmálanefnd kalli eftir henni og sú tala komi inn þegar líður á vinnslu málsins áður en afgreiðslu þess lýkur.

Varðandi hvort reglugerðir séu tilbúnar þá eru þær í vinnslu og við höfum einsett okkur að vinna þær reglugerðir sem þessu tengjast í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.

Varðandi 63. gr., styrkir úr Atvinnuleysistryggingasjóði til ýmissa aðgerða á vinnumarkaði, þá er sú grein aðeins framhald frá fyrri lögum og felur ekki í sér neinar stefnubreytingar.

Varðandi viðurlögin þá eru þau gerð skýrari. Það er engin meginstefnubreyting í kaflanum um viðurlögin.

Varðandi atvinnuleit hvar sem er á landinu og skyldu til að taka atvinnu hvar sem er á landinu þá er þar engin breyting frá gildandi lögum og engin stefnubreyting hvað það varðar.

Varðandi þá sem eru á sjúkradagpeningum eða fá greiðslur úr þeirri átt, þá er reiknað með því að sá hinn sami sé ekki í virkum vinnumarkaðsaðgerðum og ekki talið samrýmanlegt að því leyti að þau ákvæði nái yfir þá.

Varðandi úthlutunarnefndirnar þá vil ég bæta við það sem ég sagði í framsöguræðu minni að þarna eru auðvitað skiptar skoðanir en með þeim tillögum sem fram komu í frumvarpinu er verið að svara ákveðinni gagnrýni og tekin sú ákvörðun að stjórnvaldsákvarðanir séu teknar á einum stað en ekki í nefndum sem dreifðar eru um landið. Eins og ég sagði í upphafi þá tel ég að eðlilegt sé fyrir verkalýðsfélögin og verkalýðshreyfinguna að einbeita sér að virkum vinnumarkaðsaðgerðum fyrir sitt fólk, það sé skynsamlegt að koma þessum aðgerðum að þannig.

Með fækkun í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs er markmiðið að hún geti starfað greitt og markvisst og að stjórnin annist sjálf þær ákvarðanir sem hún þarf að taka til að gegna starfi sínu en núna er sérstakt framkvæmdaráð í stjórninni. Reyndar kom hv. 9. þm. Reykv. s., Ögmundur Jónasson, réttilega að þessu. Um þetta má auðvitað deila en það þótti rétt að fækka í stjórninni til að reyna að gera starf hennar markvissara að þessu leyti. Vissulega má deila um hvernig hið rétta fyrirkomulag eigi að vera í þessu en ég tel og styð það fyrirkomulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Varðandi það hvert eigi að vísa manni sem hefur verið atvinnulaus í þrjú ár þá er það svo að sá sem hefur verið atvinnulaus í þrjú ár á við virkileg vandamál að stríða. Ég hygg að raunin sé því miður sú að sá maður þurfi að leita á náðir tryggingakerfisins til framfærslu og að um hann þurfi að taka sérstakar ákvarðanir, þ.e. um þá einstaklinga sem þannig háttar til um. Það er samkomulag milli þeirra aðila sem undirbjuggu frumvarpið og höfðu samráð um frumvarpið að þetta tímabil yrði þrjú ár og síðan yrði að taka með sérstökum hætti á málefnum þeirra einstaklinga sem þar standa út af.

Ég tel þetta frumvarp í heild sinni vera mjög til bóta og framfaraskref og ég fagna því og þrátt fyrir efasemdir um einstök atriði og réttmætar spurningar sem komu fram í þessari umræðu, sérstaklega frá hv. 2. þm. Reykv. s., Jóhönnu Sigurðardóttur, þá heyri ég að mikill hljómgrunnur er fyrir þessu frumvarpi og stuðningur við það. Ég tel að það sé afar þýðingarmikið. Það er langt í frá að ég sé nokkuð hræddur um að þetta frumvarp leiði til þess að atvinnuleysi aukist eða letji þá atvinnulausu til að ná sér í störf. Ég tel að þær aðgerðir sem ætlunin er að grípa til samhliða þessu frumvarpi muni leiða til mikilla úrbóta á vinnumarkaði og ég bind miklar vonir við störf þeirrar nefndar, sem fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins eiga reyndar aðild að líka því þessi mál tengjast tryggingakerfinu og það er alveg ljóst að þarna þarf samræmingar og samhæfingar við.

Varðandi þjónustuna við landsbyggðarfólk þá tel ég að útfæra megi þá þjónustu þannig að hún versni ekki frá því sem nú er. Það eru fjöldamargir aðilar sem gætu tekið að sér þjónustu fyrir Vinnumálastofnun að þessu leyti þar sem hún starfar ekki. Reyndar hefur hún útibú víða um landið en það er ekki ætlunin að stefna fólki um langan veg til að njóta þjónustu hennar. Stofnunin er að vinna að útfærslu á því hvernig hún skipuleggur sig samkvæmt þessu nýja frumvarpi. En ég tel auðvitað rétt og sjálfsagt að félagsmálanefnd kalli á forsvarsmenn stofnunarinnar og fari yfir þann þátt málsins áður en málið kemur til 2. umr.



[15:35]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fjármögnun á vinnumarkaðsaðgerðum þá náði ég ekki alveg skýringum hæstv. ráðherra í því efni. Ég sé ekki hvaða samhengi er á milli fjármögnunar sem á að koma beint úr ríkissjóði til Atvinnuleysistryggingasjóðs og nefndar sem starfar á vegum forsætisráðherra um starfsendurhæfingu, sem á að skila fyrir haustið.

Nú er það svo að þessi lög eiga að taka gildi um mitt ár, þ.e. 1. júlí. Ég spyr hæstv. ráðherra: Nefndin á ekki að ljúka fyrr en í haust og fjármagnið kemur væntanlega ekki fyrr en sú nefnd hefur skilað af sér, þ.e. væntanlega ekki fyrr en á næstu fjárlögum. En hvað með þann tíma sem eftir lifir af þessu ári? Þetta tekur gildi 1. júlí, á þá Atvinnuleysistryggingasjóður að fjármagna þetta þangað til?

Hvað eru menn að tala um háar fjárhæðir? Það hlýtur að hafa verið rætt milli aðila vinnumarkaðarins um hve háar fjárhæðir er að ræða og hvaða hugmyndir menn hafa þar að lútandi. Ég hef heyrt nefnda töluna 200 millj. kr. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti staðfest að það sé rétt og að ætlaðar séu í þessar vinnumarkaðsaðgerðir 200 millj. kr. Ég skil hæstv. ráðherra svo að þetta verði ríkisframlag sem fari í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Spurningin er hvenær það kemur. Er það hugmyndin, ég bið ráðherra að tala skýrar um það, að það verði á næstu fjárlögum?

Varðandi reglugerðarákvæðin, að þau séu í vinnslu, þá er nauðsynlegt fyrir félagsmálanefnd að hún fái að sjá, virðulegi forseti, a.m.k. hvað er verið að tala um. Lágmarkið er að drög að þessum reglugerðum verði lögð fyrir nefndina. Það þarf að koma fram hvað ráðherra er að hugsa. Hvað er verið að tala um varðandi styrki til búferlaflutninga? Þetta er nauðsynlegt til að fá heildarmynd af öllu dæminu.

Varðandi ákvæði til bráðabirgða II þá finnst mér ekki koma fram nægilega skýrt af hendi ráðherra hvers vegna þeir hópar sem urðu atvinnulausir fyrir 15. nóvember fá ekki atvinnutekjutengdar bætur. Ég spyr um það.



[15:37]
félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi fjármögnunina. Ég endurtek að þessi mál eru til umræðu. Það varð samkomulag um að fá niðurstöðu nefndarinnar og að sú niðurstaða kæmi fyrir haustið. Vissulega mun þá liggja fyrir hvaða fjármunum verður varið í þetta. Ég ætla ekki að nefna þá tölu endanlega núna. Það hafa verið nefndar 100 millj. kr. og allt upp í það sem hv. þingmaður nefndi, allt að 200 millj. kr. En það varð niðurstaðan að nefndin færi rækilega yfir þetta mál. Hlutverk hennar var líka að sameina og samræma aðgerðir lífeyrissjóðanna í þessum málum og hins opinbera.

Varðandi gildistökuákvæðið og stöðu þeirra sem hv. þingmaður nefndi varð það samkomulag milli aðila að þetta yrði eins og frumvarpið gerði ráð fyrir. Sú varð niðurstaðan og þannig er málið lagt fyrir.



[15:39]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi hið síðasta sem hæstv. ráðherra nefndi þá vænti ég þess að þetta mál sé ekki þannig úr garði gert að það megi ekki lagfæra í félagsmálanefnd. Hæstv. félagsmálaráðherra vísar til að þetta sé samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins. Ég er þar sérstaklega að tala um ákvæði til bráðabirgða, þar sem fólk sem var skráð atvinnulaust fyrir 15. nóvember fær ekki þær sérstöku réttarbætur sem koma með þessum lögum, þ.e. þessar tekjutengdu bætur. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi ekkert á móti því, ef samstaða næst um það í nefndinni, að breyta þessu ákvæði.

Hæstv. ráðherra talar um, varðandi fjármögnunina, að þetta sé samkomulag um að fá niðurstöðu fyrst í nefnd forsætisráðherra um starfsendurhæfingu. Ég segi, samkomulag við hvern? Var það t.d. samkomulag við Alþýðusambandið að bíða eftir því að nefnd um starfsendurhæfingu lyki störfum til að fá niðurstöðu í fjármögnunina? Ég spyr: Hver á að fjármagna þessar vinnumarkaðsaðgerðir það sem eftir lifir þessa árs? Þessi lög taka gildi 1. júlí. Kemur þetta þá beint úr Atvinnuleysistryggingasjóði? Ég tel mikilvægt að fá það fram.

Ég spurði ráðherrann líka um styrkina, hvaða hugmyndir væru þar uppi á borði. Hafi hann þær ekki á takteinum núna, munum við fá upplýsingar um það, varðandi 62. og 63. gr., áður en málið verður afgreitt úr félagsmálanefnd? Ég held að það sé afar mikilvægt.

Síðan vil ég nefna það í lokin, af því að ráðherrann sagði að ekki væri verið að herða viðurlögin, heldur bara að gera þau skýrari, að ég er ekki sammála ráðherranum. Við verðum að fara vel yfir það í félagsmálanefnd. Eins þarf að fara yfir stöðu fólks sem er atvinnulaust lengur en í þrjú ár. Það er verið að breyta tímanum og verður að taka það upp í nefndinni. Þegar ráðherrann segir að taka verði það upp með sérstökum hætti, hvað meinar þá hæstv. ráðherra?



[15:41]
félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka, varðandi fjármögnunina, að það var samkomulag um það í ríkisstjórn að leggja málið fram svona. (JóhS: Í ríkisstjórn, ekki við aðila vinnumarkaðarins.) Já, í ríkisstjórn. Það var lagt fram í samráði við aðila vinnumarkaðarins og er alveg ljóst að reiknað er með því að í þetta komi peningar úr ríkissjóði. Það er verið að stilla þessi fjárframlög saman við hugsanleg fjárframlög úr lífeyrissjóðum til að gera mikið átak í endurhæfingu. Það var talið rétt að fá niðurstöðu nefndarinnar áður en gengið yrði frá þessu fjárhagsmáli en þá litlu upphæð sem er inni í frumvarpinu á að nota til undirbúnings.

Varðandi styrkina sem hv. þingmaður nefndi er þar ekki nein breyting frá núverandi fyrirkomulagi. Þeir eru fyrir hendi núna og ekki ætlunin að nein breyting verði á því.

Varðandi það hvort félagsmálanefnd megi ekki breyta neinu í frumvarpinu þá endurtek ég að þetta frumvarp byggist á víðtæku samráði. Hins vegar efast ég ekki um að félagsmálanefnd mun vinna vel í þessu frumvarpi. Ég er aldrei á móti breytingum sem eru til bóta. (JóhS: Gott.) Hins vegar vil ég slá þann varnagla að þetta frumvarp byggist á vissu samkomulagi og það er vont að raska því með miklum uppskurði á frumvarpinu en ég er ekki á móti breytingum sem eru til bóta.



[15:44]
Valdimar L. Friðriksson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hæstv. félagsmálaráðherra um að þessi frumvörp ættu að verða til bóta, bæði frumvarp um atvinnuleysistryggingar og frumvarp um vinnumarkaðsaðgerðir. En hér eru verkefni flutt til Vinnumálastofnunar, m.a. frá verkalýðsfélögunum til stofnunarinnar. Ég velti því fyrir mér hver sé raunveruleg ástæða fyrir því. Það virkar a.m.k. eins og um ákveðið vantraust sé að ræða, án þess að ég ætli að fullyrða það, á verkalýðsfélögunum.

Það vekur jafnframt athygli mína að í þessum frumvörpum, sem öðrum sem hafa komið frá félagsmálaráðherra á síðustu mánuðum, eru aukin verkefni flutt til Vinnumálastofnunar án þess að gert sé ráð fyrir auknum útgjöldum. Það kemur yfirleitt fram í umsögnum frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að ekki sé gert ráð fyrir að löggilding frumvarpsins hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Ég velti fyrir mér hvort Vinnumálastofnun geti tekið við öllum þeim auknu verkefnum. Rafræn skjöl og annað kunna að breyta einhverju, og menn geti unnið verkin hraðar. En ég velti fyrir mér hvort Vinnumálastofnun geti tekið við auknum verkefnum sem hafa fylgt þessum frumvörpum án þess að það kalli á aukin útgjöld, og þá kannski fyrst og fremst á fjölgun starfsfólks.



[15:46]
félagsmálaráðherra (Jón Kristjánsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja að það er að engu leyti vantraust á verkalýðsfélögin að breyta þessu skipulagi. Þarna er verið að samræma afgreiðslur og það er að engu leyti vantraust á það ágæta starf sem verkalýðsfélögin hafa unnið í þessu máli. Þessar afgreiðslur hafa verið dreifðar en með frumvörpunum er verið að samræma þær undir einn hatt og á að okkar mati að verða skilvirkara.

Varðandi Vinnumálastofnun þá þarf vissulega að styrkja stoðir hennar. Það er eitt af því sem við erum með til skoðunar í ráðuneytinu en henni hefur vaxið mjög fiskur um hrygg á síðustu árum enda hafa henni verið falin mikilvæg verkefni. Það er vafalaust þörf á því að styrkja stoðir hennar enn frekar. Það er verkefni sem við munum líta sérstaklega á í framhaldi þess ef sú mikilvæga löggjöf sem hér um ræðir verður samþykkt.