133. löggjafarþing — 94. fundur
 17. mars 2007.
samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010, síðari umræða.
stjtill., 574. mál. — Þskj. 852, nál. 1163, brtt. 1164.

[19:53]
Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010 frá samgöngunefnd.

Fjölmargir aðilar komu á fund nefndarinnar auk þess sem margar umsagnir bárust nefndinni.

Nefndin leggur ekki til breytingar á flugmálaáætlun. Nefndin leggur hins vegar til breytingar á siglingamálaáætlun og vegáætlun.

Siglingamálaáætlun: Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á siglingamálaáætlun í samræmi við ákvörðun sem tekin var á ríkisstjórnarfundi 9. mars sl. um að veita 1.600 millj. kr. viðbótarframlag til samgönguáætlunar fyrir árið 2009.

1. Lagðar eru til leiðréttingar á töflu 3-3 í kafla 3.2.1.1 Hafnir í grunnneti, ríkisstyrktar og töflu 3-7 í kafla 3.2.1.3 Sjóvarnargarðar.

2. Lagt er til framlag til byggingar grjótgarðs út að Tösku á Rifi í Snæfellsbæ og gerðar sandfangara. Með þessari framkvæmd næst að draga úr áhrifum norðaustan- og austanöldu innan Rifshafnar. Nauðsynlegt er að gera sandfangara til að draga úr sandburði. Heildarframkvæmdakostnaður er áætlaður 116,2 millj. kr. og þar af er framlag ríkissjóðs 70 millj. kr. og kemur til framkvæmda árið 2008.

3. Lagt er til framlag til dýpkunar innsiglingarrennu og innan hafnar á Vopnafirði. Dýpi innan hafna miðast við 8 m djúprist skip en skipin sem nú fara um höfnina rista yfir 9 m. Með dýpkun ná hin djúpristu nótaveiðiskip HB Granda að taka höfnina í meðalstórstraumsfjöru. Kostnaður við dýpkun er áætlaður 116,2 millj. kr., þar af er framlag ríkissjóðs 70 millj. kr. sem kemur til greiðslu 2008. Stefnt er að því að frestað verði til ársins 2008 að steypa þekju og koma fyrir lýsingu og lögnum til að unnt sé að hefja dýpkun þegar á þessu ári. Dýpkað verður í ár fyrir tæpar 58 millj. kr. og að ári fyrir rúmar 58 millj. kr.

4. Lagt er til að veittar verði 60 millj. kr. til stækkunar tollaðstöðunnar á Seyðisfirði á árinu 2008. Aðstaða tollvarða er talin of knöpp og er gert ráð fyrir að stækka húsið um 200 fermetra. — Rétt er að geta þess að samgöngunefnd fór fyrir einu og hálfu ári á Austfirði og skoðaði þar m.a. tollhöfn og í framhaldi af ferðinni sendi samgöngunefnd samgönguráðherra, dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra erindi þar sem nefndin lagði til að sérstaklega yrði tekið til þessa máls sem hér er nú komið í framkvæmd.

5. Í breytingartillögu samgöngunefndar við frumvarp til breytingar á hafnalögum, nr. 61/2003, (sbr. þskj. 998, 366. mál) er lagt til að heimilt verði að veita styrki úr Hafnabótasjóði B-hluta vegna tjóns á upptökumannvirkjum. Með hliðsjón af þessari breytingu er nauðsynlegt að veita viðbótarfjármagn í Hafnabótasjóð, sem eftir sem áður gegnir því hlutverki að vera varasjóður ef tjón verður á hafnarmannvirkjum sem ekki fæst að fullu bætt úr Viðlagasjóði. Því er lagt til að veitt verði 200 millj. kr. framlag úr ríkissjóði í Hafnabótasjóð árið 2008.

Vegáætlun: Frá því að tillagan var lögð fram á Alþingi hafa fulltrúar Vegagerðarinnar fundað með þingmönnum hvers kjördæmis og kynnt vegáætlun og rætt mögulegar breytingar. Fjárveitingum til almennra verkefna, tengivega og ferðamannaleiða hefur verið skipt á milli einstakra verkefna. Nefndin leggur m.a. til eftirfarandi breytingar á vegáætlun í samræmi við niðurstöður þessara aðila:

1. Kafli 4.2.1.2 Verkefni á höfuðborgarsvæði:

a. Lagt er til að 5 millj. kr. færist frá hringvegi (lagfæring gatnamóta) til Hafravatnsvegar á árinu 2008 (Hringvegur–Úlfarsfellsvegur, hringtorg).

b. Lagt er til að 110 millj. kr. fjárveiting til Hlíðarfótar árið 2007 verði felld niður.

c. Lagt er til að fjárveiting til Hafnarfjarðarvegar (Kringlumýrarbraut–Miklabraut) hækki um 110 millj. kr. á árinu 2009. Einnig er lagt til 600 millj. kr. viðbótarframlag í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar sem gerð er grein fyrir hér á eftir. Því er samtals gerð tillaga um 710 millj. kr. hækkun á framlaginu.

d. Lagt er til að 110 millj. kr. færist frá árinu 2009 til ársins 2008 vegna Reykjanesbrautar (gatnamóta við Vífilsstaðaveg).

e. Lagt er til að 110 millj. kr. færist frá árinu 2008 til ársins 2007 vegna Nesbrautar (bráðabirgðagatnamóta við Kringlumýrarbraut).

2. Kafli 4.2.1.3 Verkefni á landsbyggð:

a. Lagt er til að 100 millj. kr. færist frá hringvegi á Suðurlandi (um Hornafjarðarfljót) til Reykjavegar (Biskupstungnabraut–Laugarvatnsvegur) á árinu 2010.

b. Lagt er til að fjárveiting til Vestfjarðavegar (Svínadalur–Flókalundur) lækki um 100 millj. á árinu 2010.

c. Lagt er til að fjárveiting til Strandavegar (Djúpvegur–Drangsnesvegur) hækki um 100 millj. á árinu 2010.

d. Lagt er til að fjárveiting til hringvegar á Norðausturlandi (við Egilsstaði) hækki um 50 millj. kr. á árinu 2007.

e. Lagt er til að fjárveiting til hringvegar á Norðausturlandi (Berufjarðarbotn) lækki um 50 millj. kr. á árinu 2010.

f. Lagt er til að fjárveiting til hringvegar á Norðausturlandi (Þvottár- og Hvalnesskriður) lækki um 50 millj. kr. á árinu 2007.

g. Lögð er til 50 millj. kr. fjárveiting til Norðfjarðarvegar (snjóflóðavarnir við Grænafell) á árinu 2010.

Þá leggur nefndin til eftirfarandi breytingar á vegáætlun í samræmi við ákvörðun sem tekin var á ríkisstjórnarfundi 9. mars sl. um að veita 1.600 millj. kr. viðbótarframlag til samgönguáætlunar fyrir árið 2009.

1. Lagt er til 200 millj. kr. framlag til Suðurstrandarvegar árið 2009. Með þessu viðbótarframlagi verður hægt að gera nýjan veg frá Þorlákshöfn vestur fyrir Selvog og munu þá helstu farartálmarnir á leiðinni verða úr sögunni þó svo að sjálfum veginum verði ekki að fullu lokið, en vegurinn getur sinnt hlutverki sínu jafnt fyrir þungaflutninga sem og almenna umferð.

2. Lagt er til að 200 millj. kr. viðbótarframlag verði veitt í veginn að Dettifossi þannig að heildarframlag á árinu 2009 til þess vegar verði 340 millj. kr. Með þessu framlagi verður unnt að fullgera veginn frá Norðausturvegi að Vesturdalsvegi.

3. Lagt er til að 100 millj. kr. viðbótarframlag verði veitt til vegarins um Fróðárheiði á árinu 2009. Lagðir hafa verið verulegir fjármunir í þennan veg og því er aðkallandi að ljúka honum til þess að vegurinn nýtist sem fyrst með eðlilegum hætti.

4. Lagt er til að 50 millj. kr. viðbótarframlag verði veitt á árinu 2009 til gerðar Þjóðbrautar á Akranesi sem telst til grunnnets og breytir aðkomuleið inn í bæinn að norðan. Ástæða þessarar tillögu er sú að veruleg uppbygging er fyrirhuguð á því svæði sem vegurinn mun liggja um og því aðkallandi að fjárveitingum til vegarins verði hraðað.

5. Lagt er til að veittar verði 50 millj. kr. á árinu 2009 til endurbóta á Miðfjarðarvegi sem er tengivegur. Ástand vegarins fram hjá Melstað er þannig að ekki verður undan því vikist að leggja til þessa viðbótarfjárveitingu.

6. Lagt er til 600 millj. kr. viðbótarframlag til gerðar mislægra gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar á árinu 2009. Viðbótarframlag þetta mun stuðla að því að unnt verði að ljúka þeirri framkvæmd fyrr en ella.

7. Lagt er til 400 millj. kr. viðbótarframlag til gatnamóta Hafnarfjarðarvegar og Vífilsstaðavegar á árinu 2009 til að bæta úr bágu umferðarástandi á þessum vegamótum.

Nefndin hefur fjallað sérstaklega um fjárframlög í samgönguáætlun til höfuðborgarsvæðisins. Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu komu á fund nefndarinnar og lýstu yfir áhyggjum sínum af því hversu lítið fjármagn væri veitt í áætluninni til svæðisins. Lögðu þau til að fjárframlag á tímabilinu yrði tvöfaldað því annars mundi umferðarástand á svæðinu versna mjög. Nefndin telur að stefna beri að því að umferðarástand á svæðinu versni ekki á tímabilinu en tekur jafnframt fram að spá samtakanna um framtíðarástand hafi verið málað nokkuð dökkum litum. Jafnframt veltir nefndin því fyrir sér hvort fleira þurfi ekki að koma til en sífellt aukið framboð á stærri og afkastameiri umferðarmannvirkjum og því þurfi að fara að huga að eftirspurninni eða notkuninni sjálfri þegar fram líða stundir. Með nefndaráliti þessu er birt sem fylgiskjal yfirlýsing af hálfu fjármálaráðherra og samgönguráðherra um að í kjölfar undirbúnings og hönnunar stærstu umferðarmannvirkjanna á höfuðborgarsvæðinu, svo sem gatnamóta við Kringlumýrarbraut og á Hafnarfjarðarvegi, verði ákveðin sérstök fjáröflun til þess að hraða framkvæmdum við þau mannvirki á fyrsta tímabili samgönguáætlunar. Vænta má beinnar tillögu um þá sérstöku fjáröflun við næstu endurskoðun samgönguáætlunar fyrir árin 2009–2012.

Nefndin beinir þeirri áskorun til Vegagerðarinnar og viðkomandi aðila að fara vel yfir umferðaröryggismál við fjölförnustu ferðamannastaði landsins og þá sérstaklega við Geysi í Haukadal. Nefndin leggur til að Vegagerðin taki nú þegar upp viðræður við Ferðamálastofu Íslands til þess að bæta umferðaröryggi á þessum fjölfarna ferðamannastað.

Að lokum telur nefndin rétt að geta þess til að taka af öll tvímæli að tillaga um sérstaka fjáröflun til Vaðlaheiðarganga í samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010 tekur til verkefna er tengjast undirbúningi ganganna.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Jón Bjarnason sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.

Undir nefndarálitið rita Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Árnason, Anna Kristín Gunnarsdóttir, með fyrirvara, Kristján L. Möller, með fyrirvara, Guðjón Hjörleifsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Jón Kristjánsson, Guðjón Arnar Kristjánsson, með fyrirvara.



[20:04]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur innleitt alveg nýtt fyrirbæri í samgöngumálin á Íslandi, einhvers konar kengúrusúlurit. Þetta fyrirbæri hagar sér þannig að á kosningaárum tekur súlan mikið stökk upp á við en síðan hrapar hún niður strax árið eftir. Núna við þessi tímamót á þessu kosningavori sjáum við þriðja stökkið hjá kengúrunni. Súlan hefur tekið mikið stökk upp á við og ef hæstv. ráðherra fær að ráða áfram mega landsmenn búast við því að kengúran hrapi til jarðar á næstu þremur árum.

Þetta er ekki þannig, virðulegi forseti, að það sé mismunandi þörf fyrir samgöngubætur á Íslandi, að þær séu alltaf langmestar á kosningaárum. Hins vegar er alveg gífurlega mikil þörf á samgöngubótum á Íslandi. Heildarakstur á þjóðvegum hefur aukist um 100% á 15 árum. Fjármagn til viðhalds vega hefur verið nær hið sama síðustu tíu árin og fyrir vikið eru þjóðvegir landsins meira og minna ónýtir. Sums staðar er það reyndar þannig að á heilum landsvæðum, eins og t.d. Vestfjörðum og norðausturhorninu, að þar eru landsmenn ekki komnir í nútímann enn þá. Þegar hæstv. samgönguráðherra talar um hinar miklu samgöngubætur á Íslandi hlýtur hann eiginlega að fara allt aftur á söguöld til að ná sér í samanburð. Það er auðvitað hægt að gera alla hluti góða í samanburði ef maður fer nógu langt aftur í tímann og leitar sér að nógu slæmum samanburði.

Hinni miklu umferðaraukningu sem ég var að segja frá áðan fylgja auðvitað auknar tekjur í ríkissjóð. Á síðasta kjörtímabili, síðustu fjórum árum hafa tekjur ríkissjóðs af umferð vaxið á milli 40 og 50% en á sama tíma hafa framlög til vegamála verið dregin saman um 22%, enda hefur núverandi ríkisstjórn skorið niður framlög til vegamála til samgöngubóta um 6 milljarða á því kjörtímabili sem nú er að líða. Fyrir utan þetta sem ég er að rekja hefur hæstv. samgönguráðherra notað samgönguáætlun sem refsitæki á höfuðborgarbúa vegna þess að þeir kusu Sjálfstæðisflokkinn af höndum sér fyrir 12 árum. Slysuðust til að kjósa þá yfir sig aftur síðast, en við skulum sjá hvernig það verður næst.

Vegna þess að landinu hefur verið illa stjórnað og mikill fólksflaumur verið til Reykjavíkur af landsvæðum sem halda sig illa er fyrir vikið komið mikið ófremdarástand í samgöngumálum í höfuðborginni. Þrjú svæði á landinu eru langverst stödd í samgöngumálum, höfuðborgarsvæðið og tengingarnar út frá því, Vestfirðir og Norðurland eystra eða norðausturhorn landsins. Á þessum tveimur síðarnefndu svæðum er það þannig að fólkið er enn þá að keyra á malarvegum. Það keyrir á stórhættulegum vegarköflum þar sem það má búast við grjóthruni ofan á sig, snjóflóðum og ég veit ekki hverju. Þær aðstæður sem fólkinu er gert að búa við gera það að verkum að landsvæðin eru ekki samkeppnishæf. Þetta er mikill ábyrgðarhluti hjá einni ríkisstjórn að standa svona að verki ekki eitt kjörtímabil, ekki tvö, heldur þrjú kjörtímabil í röð. Sömu landsvæðunum er því látið blæða æ ofan í æ.

Virðulegi forseti. Það er kominn tími til þess að skipta um ríkisstjórn og það er svo sannarlega kominn tími til þess að skipta um samgönguráðherra.



[20:10]
Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg viðurkennt að það sem hefur gerst í umferðarmálum á höfuðborgarsvæðinu með tilliti til fjölgunar bifreiða hefur kannski verið miklu meira en stjórnvöld gerðu sér grein fyrir. Eins og áður hefur komið fram er búið að vera mikið góðæri og bílaeign landsmanna er orðin miklu meiri en gert var ráð fyrir og allar umferðarspár hafa nánast sprungið.

Ég vildi þó aðeins, af því að hv. þingmaður kom inn á höfuðborgarsvæðið, geta þess sérstaklega og ég þykist vita að hv. þingmaður muni að 1994 þegar R-listinn komst til valda í Reykjavík voru mikil plön að undirbúningi frágangs og smíði mislægra gatnamóta Miklubrautar/Kringlumýrarbrautar, (Gripið fram í.) en það var tekið af dagskránni. Það var dálítið merkilegt.

Í annan stað er það svo með þessa blessuðu Sundabraut að þar hafa menn verið að kasta því fjöreggi á milli sín og ekki fundið þeim vegi endanlegan stað svo menn geti verið sáttir. Hins vegar er verið að vinna að því núna og vonandi tekur það einhvern enda svo hægt sé að fara að vinda sér í Sundabrautina. Til stendur að gera mislæg gatnamót Miklubrautar/Kringlumýrarbrautar og hefur verið unnið víða að því á öðrum stöðum eins og t.d. Breiðholtsbraut/Reykjanesbraut og fleiri staði mætti nefna. Stefna Vegagerðarinnar er að þeir sem aka eftir Sæbraut og Reykjanesbraut geti ekið í einum rykk alveg út að Hafnarfjarðarvegi án þess að þurfa að tefjast við nokkur gatnamót því á (Forseti hringir.) umferðarmestu gatnamótin á að setja mislæg gatnamót.



[20:12]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að benda hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni á það að umferðaraukning gerist ekki í einu vetfangi. Það er þróun eins og sjá má af línuritinu sem ég er með hérna. Hlutirnir eiga því alls ekki að koma á óvart.

Sama er að segja um flutning til höfuðborgarinnar. Það er þróun og það þarf auðvitað að hafa rænu á að bregðast við henni. Það er ekki borgaryfirvalda einna að bregðast við. Það þarf að gerast í samvinnu við ríkið og viljann til samvinnu af hálfu samgönguráðherra hefur skort þangað til núna en mér sýnist sem betur fer að viljinn sé að glæðast hjá hæstv. ráðherra.

Ég geri mér líka grein fyrir að það eru uppi góðar hugmyndir um að bæta ástandið í borginni. Það er hins vegar seint og um síðir sem á að koma peningur í það. Þó það hafi verið bætt inn milljarði núna, sem betur fer, eru áætlanir um t.d. göng undir Öskjuhlíðina mjög seint á dagskrá samkvæmt löngu samgönguáætluninni.

Það eru svo sannarlega mörg verkefni sem bíða, virðulegi forseti, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu, heldur, eins og ég benti á, ekki síst úti á landi. Skoðun mín er sú að á Vestfjörðum þurfi að fara í alveg sérstakt átak í samgöngumálum ef þingmenn hafa hugsað sér að þar verði byggð áfram því samgöngubætur eru algjör forsenda þess að allar aðrar aðgerðir í atvinnumálum og byggðamálum beri árangur til lengri tíma litið.



[20:14]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er komin tillaga til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun með þeim viðbótum sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson hefur mælt fyrir fyrir hönd samgöngunefndar.

Það verður að segjast eins og er að fátt hefur verið daprara á síðustu fjórum árum en framkvæmd núverandi ríkisstjórnar í vega- og samgöngumálum. Nokkuð metnaðarfull vegáætlun var samþykkt hér fyrir fjórum árum í aðdraganda kosninga sem strax um sumarið var skorin niður um tæpa 2 milljarða kr., strax á fyrsta ári. Síðan hefur þessi samgönguáætlun verið skorin niður á hverju ári þannig að heildarniðurskurður á áætluninni á þessu þriggja og hálfs árs tímabili nemur einhvers staðar á milli 6 og 7 milljörðum kr. óverðbætt. Til viðbótar þessu hafa svo verið skornir niður á þessu ári liðlega 2 milljarðar kr. sem áttu að fara til sértækra vegabóta fyrir söluandvirði Símans. Við sjáum á þessu hverjar efndirnar hafa verið í samgöngumálum, enda er það svo að árið 2006 eru framkvæmdir í vegamálum þær minnstu, bæði hvað varðar fjármagn í heild sinni og einnig sem hlutfall af þjóðarframleiðslu, um árabil. Og þótt nú komi hér nokkuð metnaðarfull samgönguáætlun til næstu fjögurra ára skulum við líta á efndirnar hjá þeirri ríkisstjórn sem nú er búin að sitja í tólf ár. Hún hafði nákvæmlega sama háttinn á á fyrra kjörtímabili sínu við að skera niður. Trúverðugleiki núverandi ríkisstjórnar í vega- og samgöngumálum er því enginn að mínu mati.

Síðastliðið sumar þegar ríkisstjórninni þótti þenslan keyra um þverbak vegna stóriðjuframkvæmdanna var gripið til þess að fresta framkvæmdum þar sem þenslan var minnst, á Vestfjörðum og á Norðausturlandi. Þetta var nú nánd þessarar ríkisstjórnar við raunveruleikann. Trúir því nokkur að þessi ríkisstjórn hafi breyst eða breytist eitthvað þó að hún setji hér fram einhverja nýja samgönguáætlun? Nei, því trúir enginn, enda er ekki hægt að ætlast til þess. Þetta er eins gott að hafa í huga þegar við fjöllum um þá þingsályktun sem er til umfjöllunar um áætlaðar vegaframkvæmdir á næstu fjórum árum. Örfá atriði samt varðandi þessa áætlun.

Lagt er til að í henni sé sérstök fjármögnun, svona óskilgreind fjármögnun, mig minnir að til vegamála séu einhvers staðar 10 milljarðar kr. sem eigi bara að taka einhvers staðar, er kallað sérstök fjármögnun o.s.frv., sem er fullkomlega óábyrgt því að við vitum að allar framkvæmdir kosta fjármagn og ríkissjóður er ábyrgur fyrir því að framkvæmdir verði gerðar og útvegi fjármagn. Það má vel vera að ríkissjóður þurfi að taka lán í einhvern takmarkaðan tíma en ríkissjóður á að bera ábyrgð á þessum framkvæmdum en ekki að láta það vera eins og óútfylltan tékka hvernig það skuli fjármagnað. Þetta er einn af stóru veikleikunum fyrir utan það að ýjað er að einkavæðingu á vegum, einkavæðingu á framkvæmdum, ýjað að því að það leysi málin að láta einhver fyrirtæki, einhverja einstaklinga fá vegarspotta til þess að byggja upp eða leggja eða innheimta gjöld af. Þetta er kolröng stefna og til skammar. Okkur ber að eiga þjóðvegina.

Frú forseti. Það er alveg ljóst að gera þarf stórátak í vegamálum. Það er efst á lista hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að strax að loknum kosningum, ef tekst að skipta um ríkisstjórn, sem við efumst ekkert um, verður þessi samgönguáætlun tekin upp. Hún verður tekin upp, hún verður endurskoðuð, það verður gert átak í samgöngumálum, í vegamálum, og staðið við þau. Ég horfi þá m.a. til Vestfjarða og Norðausturlands, til safn- og tengivega sem hafa fullkomlega verið vanræktir á undanförnum árum. Vegirnir inn til dala og út til stranda sem eru í rauninni lífæðar þessara byggða, t.d. vegurinn norður Strandir. Svona má áfram nefna vegi sem hafa fullkomlega verið vanræktir og þurfti ekki að skera niður fjármagn til á þessu ári, þessir vegir eru tilbúnir til þess að ráðist verði í þá. Aumingjaskapurinn í kringum vegamál og vegagerð sem verið hefur á undanförnum árum og heldur áfram á þessu ári er að mínu viti ríkisstjórninni til skammar. Eitt brýnasta verkefnið fyrir þjóðina er að gera stórátak í vegamálum og það verður aðeins gert með því að skipta um ríkisstjórn og endurskoða þessa vegáætlun af einhverjum myndarbrag. (Gripið fram í.)

(Forseti (SAÞ): Forseti biður hv. þingmenn að hafa þögn í salnum.)



[20:20]
Ellert B. Schram (Sf):

Frú forseti. Ég hef mjög takmarkaðan tíma til þess að fara yfir þetta stóra mál en mér finnst hins vegar óhjákvæmilegt að kveðja mér hljóðs til þess fyrst og fremst að ræða aðeins um umferðar- og samgöngumál í höfuðborginni og á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst vegna þess að þegar þetta mál var lagt fram fyrr í vetur átti ég orðastað við hæstv. samgönguráðherra um þau vandamál sem blasa við í samgöngumálum á þessu svæði. Ég taldi og fullyrti að þær fjárveitingar sem rynnu til úrbóta í samgöngu- og vegamálum á því svæði væru allsendis ófullnægjandi og í engu samræmi við það sem borgarstjórn Reykjavíkur hafði t.d. lagt til. Hæstv. samgönguráðherra var bara nokkuð kotroskinn þegar hann svaraði þessum fullyrðingum mínum og ekki var hægt að skilja annað en að tillögurnar sem hann setti fram í þessari samgönguáætlun væru í fullu samræmi við óskir og þarfir borgarstjórnar Reykjavíkur og annarra á höfuðborgarsvæðinu.

Nú hefur komið í ljós að þetta er mikill misskilningur ef ekki beinlínis blekking af hálfu hæstv. ráðherra, og það er synd að hann skuli ekki vera hér viðlátinn til þess að hlusta á þessa gagnrýni. Ég fullyrði að þetta sé allt á hinum versta vegi með vísan til þess að hér kemur fram að samgöngunefnd kallaði til sín eða fékk á sinn fund bæjarstjóra og fulltrúa allra sveitarfélaganna hér á svæðinu og þar hefur ástandinu greinilega verið lýst þannig að hæstv. samgönguráðherra og ríkisstjórnin hafa séð sig knúin til þess að leggja fram örlítið meira fé, eða eitthvað í kringum einn milljarð í viðbót til þess kannski að bjarga brýnustu þörfunum. En samgöngunefndin sem er að leggja fram sitt álit núna hefur ekki meiri metnað til þess að takast á við þennan vanda en það sem segir á bls. 3 í nefndarálitinu: „Nefndin telur að stefna beri að því að umferðarástand á svæðinu versni ekki á tímabilinu …“ Allt og sumt sem vakir fyrir nefndinni er svona neyðarbjörgun, að sjá til þess að ástandið versni ekki. Með öðrum orðum, það er ekki gert ráð fyrir að lagt sé í mikil átök eða miklar framkvæmdir heldur eigi aðeins að reyna að viðhalda ástandinu þannig að það versni ekki mjög mikið. Þetta kalla ég ekki metnaðarfulla framtíðarstefnu í ljósi þess að ástandið sem blasir við öllum, hvort sem þeir búa á höfuðborgarsvæðinu ekki, er algjört öngþveiti í samgöngumálum.

Nefnt hefur verið hér vandamálið að komast út úr bænum, bæði vestur og suður. Við höfum talað um Sundabrautina, Miklubrautina og Kringlumýrarbrautina. Við höfum talað um Hlíðarfótinn og um greiðari samgöngur vestur í bæ, í Tryggvagötunni, þar þarf að ráðast í miklar framkvæmdir. Öll þessi verkefni eru meira og minna í fullkominni upplausn. Ég held að síðasti naglinn í þessari líkkistu hæstv. ráðherra sé kannski sú yfirlýsing sem fylgir með nefndarálitinu þar sem það er beinlínis viðurkennt af hálfu ríkisstjórnarinnar og ráðherranna að gera þurfi sérstakt átak og greina það vandamál og þá stöðu sem nú er uppi á höfuðborgarsvæðinu. Hæstv. samgönguráðherra og hæstv. fjármálaráðherra gefa sem sagt frá sér yfirlýsingu um það að á næstunni þurfi að taka samgöngumálin á höfuðborgarsvæðinu til sérstakrar athugunar. Þeir eru svo örlátir að þeir ætla að reyna að tryggja fjármagn eða eins og segir í yfirlýsingunni að þeir muni leitast við að tryggja fjármagn, og ef og þegar eitthvert fjármagn á að koma þá er það ekki fyrr en 2009. Þetta er allt og sumt sem þeir hafa í hyggju að gera í þessum mikla vanda og ég fullyrði að þessi yfirlýsing er vottorð um að þessi mál eru í fullkomnum ólestri.

Ég held líka að það verði erfitt fyrir ágæta borgarstjórn í Reykjavík og borgarfulltrúa að standa við þær yfirlýsingar og loforð sín um að settur verði stokkur í Miklubrautina á þessu kjörtímabili. Það liggur fyrir að ekkert fé verður lagt í það verkefni samkvæmt þessari áætlun ef við erum að tala um stokkinn, og ef eitthvað kemur verður það ekki fyrr en 2009. Það verður því ekki miklu meira gert en rétt að hefja þær aðgerðir ef á annað borð verður ráðist í það. Hér er sem sagt öllu slegið á frest og þær fjárveitingar sem eru til samgöngumála í höfuðborginni og á svæðinu öllu eru nánast eins og upp í nös á ketti.

Þessum sjónarmiðum vildi ég koma að við þessa umræðu, frú forseti, og endurtaka þá skoðun mína að yfirlýsingin sem fylgir nefndarálitinu frá tveimur hæstv. ráðherrum er yfirlýsing um það hversu ástandið er bágborið.



[20:27]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir þessa lýsingu hv. þingmanns varðandi umferðina í Reykjavík, þar er ýmislegt sem betur má fara að mínu viti. Mér finnst líka, hv. þingmaður, og ber nú vel í veiði því að hér eru a.m.k. þrír þingmenn Reykjavíkur í salnum, að menn þurfi jafnvel að hugsa málin upp á nýtt.

Þegar maður horfir á áætlanir um það hvernig leysa eigi umferðarvandann í Reykjavík varðandi Miklubraut, Kringlumýrarbraut og Hlíðarfót, held ég að það sé kallað, með göngum undir Öskjuhlíð og síðar auðvitað með Sundabrautinni eða fyrr eftir atvikum, þá ráðgera menn að breyta verulega landslaginu á Kringlumýrarbraut og byggja þar mislæg gatnamót, stór og mikil, og væntanlega ætla menn að byggja mislæg gatnamót á Háaleitisbraut, væntanlega á Grensásvegi og væntanlega á Lönguhlíð. Síðan á að byggja stokk á Miklubrautinni en það var upplýst í samgöngunefnd um daginn að kílómetri í stokk kostaði að lágmarki milljarð, minnir mig, meira en að búa til jarðgöng. Og ef ég man rétt voru nefndar tölur varðandi Kringlumýrarbraut upp á tæpa 4 milljarða, mislæg gatnamót.

Ég vildi bara beina einni hugmynd til hv. Reykjavíkurþingmanna, í fullri vinsemd og virðingu, með það að markmiði að horfa svolítið öðruvísi á þessi mál. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort ekki væri leið að hreyfa bara ekkert við þessum fernum gatnamótum sem ég taldi upp og fara hreinlega inn með jarðgöng fyrir austan Grensás undir holtið og koma upp með þau rétt fyrir austan Snorrabraut, við brúna þar, að hreyfa bara ekkert við yfirborðinu og þar með kæmist umferðin sem kæmi sunnan að og norðan að greiðlega um þau gatnamót sem fyrir eru og við værum búin að fá alvöruakstursbraut frá austri til vesturs til þess að flytja þá umferð. Þessu vil ég varpa fram til hv. þingmanna til að hugleiða fyrir framtíðina. Mér finnst menn ekki hugsa (Forseti hringir.) nógu langt inn í framtíðina.



[20:29]
Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi hugmynd er ekkert vitlausari en hver önnur. (PHB: Hún er frá mér.) Já, jafnvel þó að hún komi frá hv. þm. Pétri Blöndal. Það getur nú oft komið eitthvað af viti frá honum, eins og ég hef orðið var við hér.

Reyndar er það þannig að samtökin sem kenna sig við Hlíðahverfið, sem hafa haft sig í frammi að undanförnu og hafa áhyggjur af samgöngumálum í Hlíðunum og í Austurbænum, hafa lagt til og talað um, bæði vegna sjónmengunar, hávaðamengunar og svifryks, að leggja beinlínis Miklubrautina í stokk alla leið frá Snorrabraut og austur að Grensásvegi. Ég held að það sé mikil skynsemi í því, því að eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á að með því að fara með umferðina neðan jarðar skapast náttúrlega byggingarpláss þar sem vegirnir eru núna.

Ég held að það megi velta fyrir sér mörgum möguleikum í úrbótum á vegamálum á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst í ljósi þess hve miklir peningar renna í ríkissjóð vegna umferðar. Ríkissjóður hefur tekjur upp á 50 milljarða, skilst mér, vegna bíla eða umferðar og þá eru tollar af bílainnkaupum innifaldir. Þegar við erum að tala um vegáætlun upp á 14 milljarða þá er samt ýmislegt enn eftir í ríkissjóði sem ætti auðvitað að langmestu leyti að fara í það að bæta þau samgöngumál sem við erum að tala um (Forseti hringir.) vegna þess að það blasir alls staðar við og þessi mál eru, eins og ég sagði áðan, í fullkomnum ólestri.



[20:31]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég veit rétt um áætlanirnar varðandi Miklubraut og mislæg gatnamót þá ætla menn að gera mislæg gatnamót við Grensásveg og á Háaleitisbraut. Ég geri ráð fyrir að þessi mislægu gatnamót kosti um 1,5–2 milljarða hver, 4 milljarðar fari í Kringlumýrarbraut og sennilega 2 milljarðar í Lönguhlíð. Síðan ef menn ætla að byggja 1–2 km stokk er það milljarður fyrir hvern kílómetra, eftir því sem upplýst var um daginn í samgöngunefnd.

Ég vil minna menn á að í fullbúnum Fáskrúðsfjarðargöngum með öllum búnaði kostaði hver km tæpar 700 millj. Þannig að ef verið er að horfa á þetta í raunkostnaði kann einfaldlega að vera betra að velja að gera braut í jarðgöngum fyrir austan Grensás og að Snorrabraut og hleypa umferðinni þannig austur og vestur undir núverandi gatnakerfi. Það kann að vera hægt að gera það fyrir miklu minni fjármuni en verið er að tala um í öllum slaufunum sem ætlunin er að búa til og leyfa svo bara umferðinni að vera ofan á jörðinni sem þarf að komast þvert til suðurs og norðurs og kemur úr hverfunum og inn á núverandi Miklubraut sem yrði þá áfram ofan jarðar.

Þetta bendi ég á, hæstv. forseti, vegna þess að mér sýnist í fljótu bragði að í framtíðarverkefnum sem tengjast Miklubraut séu menn að tala um 12–14 milljarða þegar upp er staðið, þegar búið er að leysa það að ekki séu gatnamót með ljósum og menn geti keyrt á mislægum gatnamótum alla leið vestur í bæ eða austur um eftir því um hvort er að ræða. Þetta held ég að þingmenn Reykjavíkur ættu að hugleiða. Ég bendi á þetta vegna þess að ég er mikill áhugamaður um að leysa svona framtíðarvandamál með jarðgöngum.



[20:34]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég er búinn að koma því frá mér í andsvari við hv. þm. Ellert B. Schram sem ég vildi segja um Miklubraut og mislægu gatnamótin í Reykjavík, hef að vísu ekki vikið að Sundabrautinni sem er náttúrlega framtíðarsamgöngubót við Reykjavík og við landið, tenging Reykjavíkur við landið og tenging landsbyggðarbúa við Reykjavík. En nóg um það.

Í þessari stuttu ræðu sem ég hyggst flytja vil ég víkja aðeins að stöðu vegamála í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi. Sem betur fer er það sums staðar í þokkalegu lagi og horfur eru á að það verði enn betra innan mjög skamms tíma. Ég minni t.d. á Þverárfjallsveg sem mun væntanlega ljúka og tengja saman með verulegri styttingu byggðirnar við Húnaflóa annars vegar og hins vegar byggðirnar í Skagafirði auk þess sem vegalengdin frá Skagafirði til Reykjavíkur styttist um þó nokkuð marga kílómetra, að mig minnir um 30 km miðað við núverandi akstursleið.

Síðan er verið að lagfæra veginn í Borgarfirði þó þar hafi svolítið verið stoppað við vegna sigs á vegstæðinu en þar er verið að bæta vegina verulega til framtíðar. Einnig hefur verið gert mikið átak í kjördæminu á Snæfellsnesi. Í því flýtifé sem var að koma og hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson gerði grein fyrir, koma m.a. 100 millj. í Fróðárheiði á árinu 2009 til að flýta því að hægt sé að klára þann veg sem núna er reyndar innansveitarvegur með sameiningu sveitarfélaganna á nesinu og allt gott um það að segja.

Við höfum sem sagt notið þess að gera mjög merka og góða áfanga víða í vegakerfinu í Norðausturkjördæmi. Vandinn er hins vegar sá að þar er mjög mikið eftir, vægast sagt, og þar búum við við algerlega ónýta vegi á sumum svæðum. Þess vegna horfa menn sérstaklega til þess að þar þurfi að gera verulegt átak eins fljótt og mögulegt er til þess að styrkja byggðina á svæðinu. Ég tala alveg sérstaklega um Vestfirði í þessu sambandi vegna þess að þar er ástandið verst. Það fer ekki á milli mála ef við lítum yfir Norðausturkjördæmi að þá er ástandið verst í okkar kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, að því er varðar samgöngur. Þá er ég að tala um þær þjóðleiðir sem við þurfum að ferðast á til þess að komast á þjóðveg 1 annars vegar og hins vegar þær þjóðleiðir sem við þurfum að flytja nánast öll okkar aðföng á með flutningabílum í dag. Margir þessir vegir eru malarvegir enn þá, lélegir malarvegir, meira að segja svo lélegir að eins og ástandið hefur verið á þeim undanfarið hafa menn verið að keyra jafnvel á 20–40 km hraða út allan Ísafjörð, fyrir Reykjafjörð og fyrir Vatnsfjörð á leiðinni til Ísafjarðar eða frá Ísafirði. Það verður að segjast alveg eins og er að sá vegur er varla ökufær. Það er verið að hefja þar framkvæmdir og við væntum að þeim ljúki sem allra fyrst og vonandi lýkur þeim seint á árinu 2008 eða á árinu 2009 þannig að tengja megi saman á bundnu slitlagi þá kafla sem búnir eru í inndjúpi annars vegar og útdjúpinu hins vegar. Þetta er varðandi Djúpið.

Ef við horfum hins vegar á hvað er að milli byggðarlaganna á Vestfjörðum þá kannast allir við Óshlíðarveg og þarf ekki að fara mörgum rökum um það að sá vegur er hættulegur og búið er að ákveða að gera þar jarðgöng. Menn hefðu betur gert það fyrir 20 árum. Þá voru ýmsir á Vestfjörðum, m.a. sá sem hér stendur, áhugamenn um að fara frekar jarðgangaleið til Bolungarvíkur en að fara Óshlíðarleiðina, en hún var valin. Í svari sem ég fékk frá samgönguráðherra nýlega þegar ég spurði um viðhald vega á Vestfjörðum kom í ljós að viðhald á Óshlíð var tæpar 900 millj. — sagt og skrifað 900 millj. — á síðustu 12–14 árum, en viðhald í Vestfjarðagöngum eftir að þau voru tekin í notkun árið 1996 aðeins 82 millj. og hefur aldrei verið sett bundið slitlag í Vestfjarðagöng eftir að þau voru lögð, ekki frekar en í Hvalfjarðargöng með allri þeirri geysilegu umferð sem þar hefur verið. Þar hefur ekki verið sett nýtt slitlag eftir því sem ég veit best frá því að göngin voru tekin í notkun. Það segir okkur auðvitað að vegir sem eru í fjöllunum og fara undir fjöllin og eru með stöðugu hitastigi, ekki frosti, ekki úrkomu, ekki saltburði o.s.frv. endast miklu betur en gerist almennt.

Þess vegna eigum við, hæstv. forseti, að horfa til þessara lausna á þeim hlutum landsins þar sem fjallvegirnir eru erfiðastir og mestir að leysa okkur frá fjallaklifrinu og hættulegu hlíðunum og komast frekar undir fjöllin og ná fram styttingu í leiðinni.

Við fengum sem betur fer Vestfjarðagöng. Þau hefðu gjarnan mátt koma miklu fyrr til þess að það hefðu náðst af þeim meiri samlegðaráhrif milli byggðanna en varð kannski síðar vegna þess að byggðirnar voru farnar að veikjast. Hvað um það, þau hafa gerbreytt mannlífi og samskiptum fólks á norðanverðum Vestfjörðum, þ.e. milli Dýrafjarðar, Önundarfjarðar, Súgandafjarðar og Ísafjarðar, gerbreytt því og það hugsar sig enginn um í dag hvort hann langar í kaffi vestur á Flateyri vetur, sumar, vor eða haust, það tekur u.þ.b. korter. Það veltir því enginn fyrir sér í dag. En ef menn hefðu ætlað að gera það að vetrarlagi fyrir nokkrum árum hefði verið best fyrir þá að panta sér flug til Reykjavíkur og síðan aftur frá Reykjavík á Önundarfjarðarflugvöll og þá hefðu þeir kannski komist um kvöldmatarleytið í kaffi. Þannig var það, hæstv. forseti.

Á milli suður- og norðursvæðis Vestfjarða er það enn þannig að það er ekki hægt að ferðast þar á milli. Hrafnseyrarheiði er alger farartálmi, búin að vera það lengi, áratugum saman og öllum verið það ljóst. Ég hygg að fyrsta áætlunin um að tengja svæðin saman hafi fæðst 1963 — 1963, sagt og skrifað — og ætli það verði fyrr en 2013 sem því lýkur ef við ætlum að halda þeim hraða sem nú er í samgönguáætlun að tengja þessi svæði saman, 50 árum eftir að hugmyndin fæddist um að tengja þau saman. Þetta er það sem við búum við.

Þetta gengur ekki, hæstv. forseti. Þess vegna hljótum við þingmenn Vestfjarða, sérstaklega í þeirri stöðu sem byggðirnar eru sums staðar í í dag, að reyna að þoka því framar þar sem bæði er búið að rannsaka berglögin og langt komið í að hanna legu jarðganganna milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar að reyna að þoka þeirri framkvæmd framar á framkvæmdatímann. Við hljótum að gera það til að reyna að ná þessum byggðum saman í eðlilegt samgönguumhverfi. Það er hægt með nútímatækni að ganga þannig frá samgöngum milli norðursvæðis og suðursvæðis Vestfjarða að það eigi ekki að taka nema 45–50 mínútur að aka frá Bíldudal til Ísafjarðar með heilsárssamgöngum sem allir geta treyst á.

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti, um þennan hluta samgangna á Vestfjörðum sem byggja á því að tengja saman byggðirnar og reyna að efla þær, til að þær finni betur til styrks síns með því að hafa eðlileg og varanleg samskipti sín á milli.

Hæstv. forseti. Ég er búinn að geta um framkvæmdirnar í Djúpi en síðan er á Barðaströndinni svokallaður Vestfjarðavegur sem þarf að koma á bundnu slitlagi og gera til góða með nútímaaðferðum. Þar er m.a. verið að tala um að fara yfir þrjá firði og ná verulegri styttingu af veginum eins og hann er í dag. Margir þekkja Bjarkalund, þann veitingastað og það svæði og með þeirri aðgerð hygg ég að við værum ekki nema 15–20 mínútur að aka frá Bjarkalundi vestur á Skálanes en þangað erum við um klukkutíma í dag með því að fara yfir tvo hálsa og fyrir þrjá firði. Það sjá það allir í hendi sér hversu geysilegt stökk fram á við það væri þegar við værum komin á bundið slitlag í botni Kollafjarðar. Þá spyrja menn sig auðvitað: Og hvað svo? Hinum megin við, norðan við Kollafjarðarheiðina, er svo annað bundið slitlag í Ísafjarðardjúpi og þá mun auðvitað koma æpandi krafa á það að tengja þessa vegi saman þótt menn átti sig kannski ekki alveg á því í dag hvaða auðlegð felst í því að nýta þá vegi sem þarna eru fyrir þegar þeir eru komnir með bundið slitlag. Þá er akstursleiðin frá Ísafirði komin niður fyrir 400 km og á láglendisvegi alla leiðina.

Ég kalla það láglendisveg að eiga þess kost að fara yfir Heydal, fara um Skógasand og fara yfir Heydal, ef veður er svo, og Brattabrekka er ekki lengur bratta brekka. Þar erum við að horfa til þeirra áfanga sem þegar er lokið. Búið er að leggja bundið slitlag á Svínadal milli Búðardals og Saurbæjar. Við erum því vissulega að horfa til þess, Vestfirðingar, að gert verði átak og landsmenn séu sammála því að það beri að gera átak á Vestfjörðum í því að koma samgöngunum í viðunandi horf fyrir framtíðina vegna þess að menn deila ekki um að þetta þurfi að gera. Menn eru fyrst og fremst að velta fyrir sér forgangsröðuninni. Það er enginn að deila við okkur Vestfirðinga um að það þurfi að laga þessa vegi. Þetta er spurning um það að ná fram flýtingu á verkefnunum þannig að við náum að komast í 21. öldina og förum af hestagötuöldinni. Það er það sem við erum að tala um. (JBjarn: Þá þarf að skipta um ráðherra.) Það stendur væntanlega til, hv. þingmaður, að skipta um ráðherra og ég vænti þess að eftir alþingiskosningar í vor takist okkur að skipta um ríkisstjórn í landinu. Ég heyrði það á heitstrengingum hv. þingmanns áðan í pontu að hann vildi gera verulegt átak í því að takast á við þær samgöngubætur sem þyrfti að takast á við, m.a. á Vestfjörðum. Ég er honum sammála um það og það er líka annar hluti landsins, norðausturhornið, sem hefur setið eftir og þarf að gera átak í. (Gripið fram í: Það dugar að gera nýjan veg.)

Þetta vildi ég segja, hæstv. forseti, og þess vegna er það að við horfum til þess í fyrsta lagi að koma malarvegunum undir bundið slitlag og að komast í þá áfanga sem stytta vegalengdir milli fjarða og kaupstaða þannig að það verði varanlegar samgöngur. Ég veit að þingmenn sem eru vel kunnugir um land allt og hafa farið um þessa vegi átta sig á því hvað ég er að tala um og skynja hvað í því felst ef menn geta lagfært samgöngur á milli staða. Það er mönnum löngu orðið ljóst.

Einn vinur minn á Drangsnesi mælti einu sinni sérstaklega fyrir því að leggja veginn fljótt yfir Arnkötludal til að ná 40 km styttingu fyrir t.d. byggðirnar á Ströndum til Reykjavíkur. Arnkötludalurinn er mjög góð framkvæmd til að ná saman samtengingu byggðanna á Ströndum við byggðirnar í Dölum og eins til að stytta vegalengdir, það er ekki spurning. Það felst í því sama stytting og kom þegar Hvalfjarðargöngin voru gerð. Það munar jafnmikið um það fyrir Strandabúana og Dalafólkið að komast um Strandir til að eiga samskipti og okkur sem erum að koma norðan að til að geta farið yfir Arnkötludal eins og það munaði fyrir Vestfirðinga að komast undir Hvalfjörð á sínum tíma. Við erum að tala um 40 km. Það munar jafnmikið um það. Hver vildi þurfa að keyra fyrir Hvalfjörð í dag? Auðvitað enginn. Þó sagði einn vinur minn norðan af Ströndum þegar hann var að deila við vini sína um vegstæðið við Arnkötludal að ef þeir þyldu ekki styttinguna gætu þeir bætt sér það upp með því að keyra fyrir Hvalfjörð, þá næðu þeir tímanum.

Hæstv. forseti. Mjög brýnt er að taka á þessum málum og við getum ekki annað, þingmenn Norðvesturkjördæmis, en reynt eftir fremsta megni að setja þau í forgang svo við horfum til þess í framtíðinni að við færum okkur hratt fram í því að komast í eðlilegar samgöngur til samræmis við það sem er hér víðast hvar, sem betur fer. Við höfum að vísu enn þá þröskulda því við gerðum ein mistök á Vestfjörðum nýverið. Við fórum yfir Klettshálsinn sem að mínu viti voru alger mistök. Við áttum að fara undir Klettshálsinn, fara mun neðar með veginn og fara með holu í gegn sem yrði 2,5–2,6 km. Þá væri Klettshálsinn ekki sá farartálmi að um leið og hreyfir veður á Vestfjörðum þá heyrist tilkynning í útvarpinu: Ófært á Klettshálsi. Á splunkunýjum uppbyggðum vegi. Hvað um það. Við hljótum að horfa til þeirrar framtíðar að reyna að komast áfram í samgöngumálum okkar og það skiptir miklu máli fyrir byggðirnar á Vestfjörðum og íbúana að ná fram slíkum áföngum.

Þetta vildi ég segja, hæstv. forseti, og ætla ekki að lengja umræðuna en lýsi því yfir að ég er tilbúinn að vinna með þingmönnum Norðvesturkjördæmis og íbúum Vestfjarða að því að reyna að þoka þeim málum áfram eins og best verður á kosið og einnig í samstarfi við aðra þingmenn sem ég veit að skilja vel vanda okkar. Alveg á sama hátt og við landsbyggðarþingmenn áttum okkur á því að umferðaröngþveiti í Reykjavík getur ekki annað en vaxið og það verður að taka á því. Spurningin er: Hver er hagkvæmasta lausnin? Þess vegna fór ég upp í pontu áðan, landsbyggðarþingmaðurinn, og benti á þær hugmyndir sem ég held að séu raunhæfar til þess að ná fram betri samgöngubótum í Reykjavík en menn eru jafnvel að hugsa um í dag.



[20:50]
Halldór Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég varð hálfundrandi á því að hv. þingmaður skyldi þó minnast á að kannski þyrfti að laga vegi úti á landi einhvers staðar víðar en á Vestfjörðum. (Gripið fram í.)

Ég vil á hinn bóginn vekja athygli hv. þingmanns á því að það sem brýnast er nú fyrir landsbyggðina er að ljúka hringveginum.



[20:50]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Halldóri Blöndal um að ljúka þurfi hringveginum. Það er líka hægt að ná fram verulegri styttingu á hringveginum, t.d. ef við horfum á veginn á Austfjörðum um Öxi. Þá fáum við hvergi eins marga kílómetra í styttingu frá Reykjavík og inn á miðsvæði Austurlands en einmitt um þá leið.

Ég veit að hv. þm. Halldór Blöndal þekkir það jafn vel og ég að það væri ekki lítil samgöngubót fyrir Vopnfirðinga að komast undir fjöllin, yfir á láglendið austur í Héraðsflóa og tengjast þannig Egilsstöðum örskotsfljótt.