135. löggjafarþing — 40. fundur
 10. desember 2007.
umræður utan dagskrár.

yfirtaka vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár.

[15:36]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Tilefni þessarar umræðu er greinargerð ríkisendurskoðanda um yfirtöku Landsvirkjunar á vatnsréttindum ríkisins í Þjórsá neðan Búrfells í kjölfar samnings sem um það var gerður með leynd tveimur dögum fyrir síðustu kosningar. Þessi greinargerð sem okkur barst í hendur á fimmtudaginn er samfelldur áfellisdómur yfir stjórnsýslu þeirra ráðherra fyrrverandi ríkisstjórnar sem undir þennan samning eða samkomulag rituðu, þ.e. hæstv. ráðherrar fjármála, iðnaðar og landbúnaðar.

Aðdragandi þessarar greinargerðar er nokkuð sérkennilegur vegna þess að á fundi sem umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd áttu með heimamönnum og fulltrúum Landsvirkjunar í Árnesi um miðjan ágúst sl. var upplýst um þetta leynisamkomulag. Það var strax mjög gagnrýnt, einkum og sér í lagi fyrir það að þarna töldum við að verið væri að ráðstafa eignar- og nýtingarrétti ríkisins án lagaheimilda svo sem skylt er skv. 40. gr. stjórnarskrár auk þess sem þetta afsal um yfirtöku Landsvirkjunar á vatnsréttindunum var ekki undirritað með lögboðnum fyrirvara um samþykki Alþingis.

Við óskuðum því eftir því, þingflokkur Vinstri grænna, að ríkisendurskoðandi léti í ljósi álit sitt á þessum gjörningi og hvort hann fengi staðist lög. Það verður að viðurkennast að greinargerð ríkisendurskoðanda lét nokkuð á sér standa og við höfum kallað eftir henni hér nokkrum sinnum, bæði úr ræðustól og símleiðis. Það verður að segjast eins og er að þegar maður les innganginn að þessari greinargerð hlýtur sú töf að skrifast einvörðungu á reikning ráðuneytanna þriggja, fjármálaráðuneytis, iðnaðarráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis, sem sameiginlega skiluðu áliti til Ríkisendurskoðunar af þessu tilefni, fyrst 24. október sl. og síðan 3. desember sl. Þremur dögum síðar fengu þingmenn loksins þessa ágætu greinargerð ríkisendurskoðanda á sín borð.

Ég ætla ekki að fjölyrða um innihald þessa samkomulags en ég ætla að geta þess að um tilganginn segir skýrt í samningnum að hann sé sá að tryggja Landsvirkjun fullnægjandi heimildir til að halda áfram undirbúningi að virkjun í neðri hluta Þjórsár gagnvart öðrum rétthöfum. Þessir aðrir rétthafar eru að sjálfsögðu landeigendur, heimamenn, sveitarstjórnir og þeir sem eiga fasteignir, svo sem sumarbústaði, eða veiðiréttindi á svæðinu. Ráðuneytin hafa ítrekað í greinargerð sinni sem sjá má á blaðsíðu 18 í skýrslu Ríkisendurskoðunar að þetta hafi verið gert í því skyni að auðvelda þá samninga Landsvirkjunar sem í hönd fóru við hagsmunaaðila.

Hæstv. fjármálaráðherra staðfesti þetta einmitt hér í umræðum um fjáraukalög, 1. umr. 11. október sl., þar sem hann sagði að á þessum tíma hefði verið afskaplega mikilvægt að gert yrði samkomulag við Landsvirkjun um vatnsréttindin þar eystra. Svo sagði ráðherrann, með leyfi forseta:

„Því var þetta nauðsynlegt, málið hefði getað stöðvast.“

Herra forseti. Þessi orð ráðherrans eru athyglisverð í ljósi þess sem hann nú segir, að þessi samningur hafi bara verið í plati, Landsvirkjun hafi oftúlkað hann og þarna hafi engum eiginlegum réttindum verið afsalað. Svo segir hann ofan í kaupið, hæstv. ráðherrann, að hann sé sammála ríkisendurskoðanda um að þessi samningur sé ekki bindandi fyrir ríkið.

Þrátt fyrir afneitun ráðherrans á þessum samningi núna og þrátt fyrir mótbárur þriggja ráðuneyta og langar lagaskýringar þeirra í sex köflum þess efnis að samkomulagið hafi ekki falið í sér lögbrot kemst ríkisendurskoðandi að þeirri niðurstöðu að í samkomulaginu felist brot á 40. gr. stjórnarskrárinnar hvað varðar vatnsréttindi jarðarinnar Þjótanda og brot gegn 29. gr. fjárreiðulaga hvað varðar önnur vatnsréttindi. Röksemdir ráðuneytanna um annað dugi ekki, eins og segir á blaðsíðu 19, og af því leiði að þetta samkomulag sé ekki bindandi fyrir ríkið.

Það er ljóst, herra forseti, að ráðherrar fyrrverandi ríkisstjórnar fóru offari í þessu máli. Þeir brutu lög í tilraunum sínum til að styrkja samningsstöðu Landsvirkjunar gagnvart heimamönnum. Og ég hlýt að spyrja: Hvernig ætlar nú hæstv. fjármálaráðherra að bregðast við þessum áfellisdómi? Hefur hann kallað eftir samningum og samningstilboðum Landsvirkjunar — hann fer jú með hlutabréf ríkisins í Landsvirkjun — þeim tilboðum sem eru reist á þessum ólögmæta gjörningi?



[15:41]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og vinstri græn reiða hátt til höggs í þessu máli. Stjórnarskráin er undir en þeim ásökunum er ýtt til hliðar í skýrslunni. Samkeppnislögin eru undir en þeim ásökunum er líka ýtt til hliðar í skýrslunni. Jarðasala án heimilda sem ekki er gerð athugasemd við og síðan er hinn meinti glæpur, afsal vatnsréttinda í Þjórsá, en í skýrslunni kemur fram að hann hafi ekki átt sér stað. Í skýrslunni segir að afsalið hafi ekki átt sér stað vegna þess að samkomulagið hafi ekki verið borið undir Alþingi.

Það skyldi þó ekki vera að ástæðan fyrir því að samkomulagið var ekki borið undir Alþingi hafi einmitt verið sú að það stóð aldrei til á þessu stigi málsins að afsala vatnsréttindum í Þjórsá frá ríkinu til Landsvirkjunar. Samkomulagið er skilyrðum háð, þeim skilyrðum að virkjanaleyfi fáist. Samkomulagið fjallar um það hvað gerist ef virkjanaleyfið fæst og er í samræmi við raforkulög þar um. Því skyldu vera gerðar athugasemdir við það?

Herra forseti. Þegar þetta samkomulag var gert höfðu sveitarfélög talað um að það væri skilyrði til þess að hægt væri að setja virkjunina inn á skipulag að samningar yrðu gerðir við landeigendur. Í því ljósi var mikilvægt að það lægi greinilega fyrir hver staða Landsvirkjunar yrði fengist virkjanaleyfi. Til þess var þetta samkomulag gert, til þess að enginn vafi væri um það að fengist virkjanaleyfi mundi ríkið ganga til samninga við Landsvirkjun um að vatnsréttindin fengjust.

Ég veit ekki til þess að eitthvað annað hafi verið upp á teningnum í þessu. Ég fæ ekki séð að hægt sé að ásaka menn fyrir að hafa ætlað sér að afsala eignum, menn sem augljóslega eiga að vita hvað stendur í fjárreiðulögunum, og láta sér detta í hug að þeir hafi gert það án þess að ætla sér að leggja það fyrir Alþingi.

Ég er þess vegna sammála niðurstöðunni. Það er engin skuldbinding um að afsala vatnsréttindunum á þessu stigi máls. Ég ætla hins vegar ekkert að deila við Ríkisendurskoðun um það hvernig Ríkisendurskoðun kemst að niðurstöðu sinni miðað við það hvernig ég kemst að minni. Lögfræðin er þannig málefni að lögspekingar eru ekki einu sinni sammála um hvort við einni og sömu lögfræðilegu spurningunni geti verið eitt, tvö eða fleiri rétt svör. Ég ætla ekki að hafa sérstakar áhyggjur af því að Ríkisendurskoðun skuli komast að sömu niðurstöðu og ég en á annan hátt. Ég verð bara að vera ánægður með það að við séum á einu máli um niðurstöðuna.

Ég hef það á tilfinningunni að í bókaflóðinu um jólin þegar alls konar sögur eru kynntar hafi hv. þingmaður einhvern veginn flækst í sínu eigin plotti, svo maður sletti, og mér sýnist einfaldlega sem glæpinn vanti. Það hefur ekkert afsal farið fram og það vantar eiginlega líkið í plottið hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur til að það geti gengið upp. (SJS: … samkomulag um ekki neitt?)



[15:46]
Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Ég held að hér sé verið að gera úlfalda úr mýflugu. (Gripið fram í: … mýfluga.) Í fyrsta lagi var þetta aldrei neitt leyniplagg eða samkomulag sem þarna var gert. Það kemur náttúrlega skýrt fram þar sem ég var landbúnaðarráðherra og stóð að þessu og það sem að mér sneri var sérstaklega jörðin Þjótandi sem hefur verið í eyði. Það kemur hér glöggt fram að yfirlýsingin felur ekki í sér neinar bindandi fjárskuldbindingar fyrir ríkið og verður sem slík ekki talin fara á nokkurn hátt í bága við lög að öðru leyti en því sem snýr að vatnsréttindunum. Ríkið á 95% af þeim vatnsréttindum í Þjórsá og hefur átt hátt í 90 ár. Títan-félagið keypti þau og ríkið fékk þau síðar í sínar hendur. Ég sé því ekki að hér sé um neinn áfellisdóm að ræða. Ríkisstjórnin mun auðvitað fara yfir þetta og koma í fyllingu tímans með þetta mál áfram til þingsins ef það verður niðurstaðan að fara í virkjanir í neðri Þjórsá. Hins vegar hafa virkjanir í neðri Þjórsá valdið deilum. Það var tekist á um Þjórsárverin og Norðlingaölduveitu. Sem betur fer var niðurstaðan að láta það Ramsar-svæði í friði. Ég minnist þess að vinstri grænir höfðu hér hátt á þeim tíma og töluðu þá um virkjanir í neðri Þjórsá og töldu þær vænlegar. Við þurfum sannarlega að fara yfir það hvar við ætlum að virkja því að Íslendingar munu þurfa meira á hreinni orku að halda í framtíðinni, rafmagni til að lýsa upp skammdegið og þjóðfélagið og öll þau atvinnutækifæri og hús sem við eigum. Einhvers staðar verðum við að virkja.

Ég stóð fyrir því og var sammála því að Landsvirkjun fengi að byggja á Þjótanda upplýsingamiðstöð um þessa miklu á, móður ljósanna sem Þjórsá er. Það væri glæsilegt ef það yrði að veruleika að þar risi (Forseti hringir.) upplýsingamiðstöð um allt sem Þjórsá hefur gefið okkur og að því vildi ég standa. Þess vegna gaf ég þessa viljayfirlýsingu en tel að hér sé verið að (Forseti hringir.) gera úlfalda úr mýflugu. Ríkisstjórnin þarf auðvitað að fara yfir þetta mál (Forseti hringir.) og koma með það aftur til þingsins.



[15:48]
iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason kallar fram í að iðnaðarráðherra muni ræða um stefnu Samfylkingarinnar varðandi virkjun Þjórsár. Ég held að það sé rétt sem hv. þm. Guðni Ágústsson sagði áðan, að það hafa löngum staðið deilur um virkjun Þjórsár. En það vill svo til að ekki eru liðin mörg missiri síðan því var haldið fram af einum sem af þeim sem standa hv. þm. Jóni Bjarnasyni miklu nær en ég geri að virkjanir í neðri Þjórsá væru með álitlegri virkjunarkostum. Meiri voru ekki deilurnar á þeim tíma.

En, herra forseti, það skyldi þó ekki vera að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði átt kollgátuna, eins og oft áður í þessari umræðu, að hér hefði verið gert samkomulag um ekki neitt. Í þeim skilningi að það er alveg ljóst af niðurstöðu Ríkisendurskoðunar að þetta er ekki bindandi fyrir ríkið. Ég tel hins vegar að þetta sé merkileg niðurstaða og vil segja það alveg skýrt að ég er þessu sammála í öllum meginatriðum. Sérstaklega finnst mér eftirtektarvert að skoða hvaða ályktanir má draga af umfjöllun Ríkisendurskoðunar t.d. um fjárreiðulög og samspil þeirra við lög um raforku. Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu að vatnsréttindi í neðri Þjórsá séu veigamikil eign í skilningi fjárreiðulaga og af þeim sökum verði þau ekki framseld nema með samþykki Alþingis. Ég túlka þetta svo að komi til þess að Landsvirkjun fái virkjanaleyfið og gangi í krafti 38. gr. raforkulaga til samninga við ríkið um þau vatnsréttindi sem eru í þess höndum, þá ríki í besta falli óvissa um heimild framkvæmdarvaldsins til að afhenda þau réttindi varanlega án samþykkis Alþingis og í versta falli sé það óheimilt. Ég vil því segja það alveg skýrt að miðað við stöðu málsins tel ég óvarlegt að það sé gert.



[15:50]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Sá samningur sem hér er til umræðu er um mjög margt sérstakur. Í fyrsta lagi að orðin sem notuð voru eru yfirtekin réttindi og endurgjald. Ekki er getið hvort um sölu eða leigu er að ræða og þessi hugtök bæði tvö halda því alveg opnu um hvort er.

Í öðru lagi er tekið fram í samningnum að réttindin séu yfirtekin tímabundið án þess að tilgreina nein tímamörk á því hvað tímabundið þýðir. Svo merkilegt sem það hljóðar virðist það tímabundið í það óendanlega nema eitthvert tiltekið aðgerðaleysi af hálfu Landsvirkjunar stofni ríkinu rétt til að rifta samningnum. Ef Landsvirkjun heldur lágmarksaðgerðum virðist fyrirtækið halda réttindunum svo lengi sem það kýs.

Í þriðja lagi fær Landsvirkjun heimild til þess að þræta við ríkið, eiganda sinn, um endurgjald fyrir þessi réttindi og náist ekki samkomulag á milli aðila, Landsvirkjunar fyrir hönd ríkisins og ríkisins fyrir hönd ríkisins, afturkallar ríkið ekki réttindin til sín heldur fer málið fyrir dómstóla og Landsvirkjun heldur réttindunum. Það er mjög sérstakt.

Í fjórða lagi, virðulegi forseti, sem mér finnst eiginlega vera það sem stendur upp úr í þessum samningi, má Landsvirkjun selja þessi réttindi með heimild ríkisins. Það stendur í samningnum að Landsvirkjun sé heimilað að framselja réttindin. Orðið framselja hlýtur að þýða það sama í þessum samningi og í lögunum um stjórn fiskveiða þar sem það er eina heimildin sem ríkið hefur veitt handhöfum fiskveiðiréttinda, að selja þau. Það hlýtur að vera hægt að selja þessi réttindi út á sama orðalag í þessum samningi eins og í gildandi lögum, virðulegi forseti.



[15:52]
Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Það er sama hvað tautar og raular og það er sama hvað hæstv. fjármálaráðherra fullyrðir, það liggur algjörlega á borðinu að frá því að samningurinn var gerður í maí í vor hefur Landsvirkjun farið með þessi vatnsréttindi samkvæmt Títan-samningnum sem sín, sem full, óskoruð eignarréttindi.

Maður spyr þá í framhaldi af því: Er þá allt sem Landsvirkjun hefur gert frá því í vor ógilt? Landsvirkjun hefur borið þennan samning fyrir sig í samningaviðræðum við landeigendur af því sem ég kalla óbilgirni vegna þess að þeir hafa sagt við landeigendur sem eiga um 7% vatnsréttinda: Við erum með meiri hlutann, þið verðið að sætta ykkur við það, og það verður ekkert eignarnám, þess þarf ekki, hér er bara um einhvers konar húsfélag að ræða.

Ég vil líka benda hæstv. fjármálaráðherra á það, af því að hann talaði um mismunandi lögfræðiálit, að ganga úr skugga um það í eitt skipti fyrir öll, af því að það er borð fyrir báru núna, hvaða vatnsréttindi og hvaða virkjanaréttindi Títan-samningarnir veita. Þeir voru gerðir 1915 undir því fororði að öll vötn skuli renna sem að fornu hafa runnið. Það stendur til að búa til lón og breyta rennslisvatni í stöðuvatn, það stendur til að taka ána úr sambandi á löngum köflum. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að fá faglegt, hlutlaust álit um heimildir sem samningurinn veitir.

En það er algjörlega deginum ljósara að eignarnám þarf til núna út af þessum virkjunum. Samfylkingin lýsti því skýrt og skorinort yfir á fundi um helgina, og reyndar hefur það komið úr ranni Sjálfstæðisflokksins líka, að ekki verði farið í eignarnám. Því segi ég: Sláið þessa framkvæmd af borðinu. Þyrmum nú náttúruperlunni Þjórsá, sköpum sátt um þetta mál, hættum að sá óeiningu inn í þau hreppsfélög sem hér eiga hlut að máli.



[15:54]
Kjartan Ólafsson (S):

Herra forseti. Það skal engan undra að Vinstri grænir efni hér til umræðu sem snýst um það að vera á móti virkjunum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Allt frá því að hafist var handa við undirbúning að virkjun á Búrfelli, Búrfellsvirkjun, og um leið byggingu álverksmiðju í Straumsvík í Hafnarfirði, hafa vinstri menn á Íslandi verið á móti virkjunarframkvæmdum, á móti stóriðjuframkvæmdum og það er engin breyting þar á. Það er hlutur sem okkur mun greina á um í hinu pólitíska starfi hér, að þeir munu verða á móti þessum framkvæmdum eins og annars staðar, á Kárahnjúkum, fyrir norðan, á Norðausturlandi, og það mun ekki breytast frekar en fyrri daginn.

Sunnlendingar hafa staðið saman hingað til um þær virkjanir sem byggðar hafa verið á Suðurlandi, þar hefur verið full samstaða. Í dag er það krafa sveitarfélaganna að orkan sem fæst úr neðri hluta Þjórsár verði nýtt heima í héraði, að hún verði nýtt til orkufreks iðnaðar við Þorlákshöfn. Þannig er fullkomin samstaða meðal heimaaðila um þessa framkvæmd. Það skiptir miklu máli.

Hér er rætt um það, herra forseti, að verið sé að koma á óeiningu meðal fólks á Suðurlandi. Það er fjarri lagi. Það eru hópar vinstri grænna sem koma í uppsveitir Árnessýslu til að skapa þá andstöðu sem er um þessi mál. Það er augljóst og hefur verið allan tímann að rennslisvirkjanir í neðri hluta Þjórsár eru einhverjar þær hagkvæmustu með tilliti til hagkvæmis- og umhverfissjónarmiða og þess vegna eigum við að nýta þann hagkvæma virkjanakost. Hv. formaður Vinstri (Forseti hringir.) grænna hefur sagt í þessum stól af það væri illskást að virkja á þessu svæði.



[15:57]
Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Hér er rætt um virkjanir í neðri hluta Þjórsár og álitsgerð þá sem Ríkisendurskoðandi hefur nú gefið út. Ég tel raunar að atriðið sem þar er úrskurðað um fjalli um mikið formsatriði sem aldrei muni ráða úrslitum þessa máls og ég vara við þeim skotgrafahernaði sem menn vilja fara í vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár.

Það er ákveðinn hringlandi í gangi hjá þeim mönnum sem tala hvað harðast á móti þessum virkjunum núna en sögðu fyrir nokkrum vikum að þeir væru tilbúnir til að skoða rennslisvirkjanir. Það hefur hv. þm. Atli Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, sagt og þannig hafa menn öðru hvoru í þeim flokki talað með þessum virkjunum eða á móti.

Þetta er ekki mjög sannfærandi málflutningur. Við þurfum að fara sáttaleiðina þarna. Ég held að það sé alveg augljóst að ekki eru efnisleg rök fyrir því að ætla að stöðva virkjanir alveg á þessu svæði. Málið er einfaldlega komið það langt. Við hleyptum því í gegnum umhverfismat án þess að gera athugasemdir og margir af þeim sem hér eru inni voru þá þegar í pólitík og gátu beitt sér fyrir því að gera þær athugasemdir á þeim tíma en gerðu ekki. Sjálfur er ég þar meðsekur líka því að ég hef alltaf verið andsnúinn því að fara með virkjanir niður í byggðir landsins. Ég tel að þær eigi að vera á hálendinu og er ekki hrifinn af þessum virkjunum. En ég legg áherslu á að menn fari þá leið að koma í veg fyrir þann umhverfisskaða sem mestur getur orðið þarna, sem á sérstaklega við um svæðið neðan við Haga í Gnúpverjahreppi þar sem til standa stóralvarleg umhverfisspjöll sem vel er hægt að komast hjá með því að þetta verði hreinar rennslisvirkjanir, og notist alfarið við miðlunina á hálendinu en sleppi því að hafa lónið þarna, en auðvitað minnkum við aðeins hagkvæmnina.

Ef menn fara í skotgrafahernaðinn, ef menn fara í stríð við Landsvirkjun, þá tel ég engar líkur á að sá árangur náist. Sá árangur næst aðeins með skynsamlegri sáttaleið í þessu máli, með þeirri skynsemi að við náum lendingu og förum (Forseti hringir.) bil beggja og duga þá hvorki til öfgar Vinstri grænna né grímulaus virkjanastefna margra sem hér hafa talað.



[15:59]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til þess að menn reyni að sáttum í því máli sem hér er rætt sem er virkjanir í Þjórsá og að menn horfi þar fyrst og fremst til viðhorfa heimamanna auk þess að horfa til þess að hér er um mikla náttúruperlu að ræða.

Það sem ég vildi kannski fyrst og fremst ræða, virðulegi forseti, er það sem þessi umræða snýst um. Hún snýst um það að Ríkisendurskoðun hefur farið yfir gjörðir hæstvirtra ráðherra frá síðasta kjörtímabili, fjallað um þær og komist að niðurstöðu. Það er kannski stóra málið í þessu að Ríkisendurskoðun, sem heyrir undir Alþingi, hefur smám saman verið að styrkjast og eflast í starfi sínu og veita framkvæmdarvaldinu aukið aðhald. Það er mjög mikilvægt að skilaboðin sem koma frá þinginu séu þau að þingið standi á bak við Ríkisendurskoðun en ekki þannig, eins og mér hefur á stundum fundist, að séu niðurstöðurnar í takt við það sem menn vilja fá, styðji menn við bakið á Ríkisendurskoðun en séu þær það ekki lýsi þeir hana vanhæfa eða ómögulega í alla staði.

Það er afar mikilvægt að þingið standi á bak við Ríkisendurskoðun í þeim málum sem það tekur upp í stað þess að hegða sér á þennan hátt. Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á Ríkisendurskoðun, hvaða skoðun sem menn kunna að hafa haft á henni í fortíðinni þá er það einfaldlega svo að hún hefur verið að eflast og styrkjast og veita aukið aðhald og því er mikilvægt að þingið standi á bak við þessa stofnun sína. Hér er að sjálfsögðu ekki um niðurstöðu dóms að ræða heldur álit frá Ríkisendurskoðun sem er mjög trúverðugt og mjög skynsamlegt og því segi ég, virðulegi forseti, að það er mikilvægt að þessi stofnun fái skýr skilaboð frá Alþingi um að þingið og þingmenn ætli að standa á bak við hana hver sem niðurstaða (Forseti hringir.) hennar er hverju sinni.



[16:01]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Við erum að fjalla um þá niðurstöðu Ríkisendurskoðunar þar sem segir að „afla þurfi sérstakrar lagaheimildar til þess að ráðstafa þeim réttindum með þeim hætti, sem gert er í margumræddu samkomulagi. Því hefði verið rétt og eðlilegt að gera samkomulagið með fyrirvara um samþykki Alþingis“.

Það er nú það eina sem mál þetta snýst um þannig að hér hafa verið látin orð falla sem eru ekki í nokkru samræmi við það sem þessi niðurstaða kveður á um eða það sem fjallað er um í þessari greinargerð Ríkisendurskoðunar. Niðurstaðan samandregin: Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að afla sérstakrar lagaheimildar til þess að ráðstafa þeim réttindum sem samkomulag íslenska ríkisins og Landsvirkjunar frá 9. maí 2007, um yfirtöku vatnsréttinda í neðri hluta Þjórsár, mælir fyrir um. Þetta er ekki flóknara mál en það.

Að gera þetta að einhverju meginmáli þar sem spurningin er um það að afla lagaheimilda til þess að tryggja gildi þessa samnings finnst mér ekki bara vera að gera úlfalda úr mýflugu, eins og hv. þm. Guðni Ágústsson sagði áðan, við getum alveg eins kallað þetta storm í vatnsglasi.

Það er svo annað mál hvort menn eru inni á því að virkja eigi neðri hluta Þjórsár eða ekki. Við erum að fjalla hér um þessa greinargerð og þessa niðurstöðu og það var sagt í umræðunni áðan, mig minnir að hæstv. fjármálaráðherra hafi talað um að lögfræði væri svo skemmtilegt fyrirbrigði að það væri til margs konar niðurstaða, þær væru ein, tvær eða jafnvel fleiri. Þannig er það nú. Ákveðinn hæstaréttardómari sem kom úr röðum flokks hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri aðeins til ein lögfræðilega rétt niðurstaða og þannig er að sá dómstóll og sá stjórnsýsluaðili sem fjallar um málið kveður upp endanlega niðurstöðu (Forseti hringir.) hvað þetta varðar — og hún liggur fyrir hér.



[16:03]
Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég mótmæli því harðlega að hæstv. fjármálaráðherra svaraði ekki í neinu þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Mér þykir miður að þurfa að nota nú af seinni ræðutíma mínum til að nefna það.

Það er líka greinilegt, herra forseti, að hæstv. ráðherra hefur ekki lesið greinargerðina. Ég bið hann um að gjöra svo vel og aðra hv. þingmenn að lesa það sem segir neðst á bls. 16 í greinargerð ríkisendurskoðanda um það að vegna þess að vatnsréttindi jarðarinnar Þjótanda hafa ekki verið aðskilin frá fasteigninni felist í framsali á þeim, eins og er gert með þessum samningi, brot á 40. gr. stjórnarskrárinnar með því að það sé ekki gert með lagaheimild. Að öðru leyti hvað varðar vatnsréttindi annarra jarða felist í því brot á 29. gr. fjárreiðulaganna (GÁ: … bara yfirlýsing.) með því — þetta er einmitt ekki yfirlýsing og á því tekur ríkisendurskoðandi einnig. Það er erfitt að þurfa að tyggja ofan í hæstv. ráðherra áfellisdóm ríkisendurskoðanda að þessu leyti og slæmt að þurfa að eyða seinni ræðutíma sínum í það.

Ég spyr hv. þm. Kjartan Ólafsson og þá sem hér hafa talað niður til okkar þingmanna Vinstri grænna: Helgar tilgangurinn meðalið? Er það virkilega svo að vilji menn virkja geta þeir bara gert það með hvaða móti sem er, líka með ólögmætum gerningum eins og hér liggja á borðinu?

Ég fagna því hins vegar, herra forseti, að iðnaðarráðherra hefur fullvissað, vil ég segja, þingheim um það að leynisamningar af þessu tagi verði ekki gerðir hér í hans tíð og ef vatnsréttindum í Þjórsá verði nú afsalað (Forseti hringir.) verði það ekki gert nema með samþykki Alþingis.



[16:06]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er óhætt að segja að þessi umræða hefur verið mjög áhugaverð og ágæt sjónarmið komið fram. Ég held reyndar að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi kannski komist hvað næst því í sinni ræðu að lýsa stöðu þessa máls þar sem hjá honum kom einmitt fram að í þessu samkomulagi kemur ekki fram hvort um væri að ræða sölu eða leigu á réttindunum ef Landsvirkjun fengi virkjanaleyfi. Það lýsir einmitt stöðu málsins sem í besta falli, eða versta falli eftir því hvernig menn horfa á það, er ófrágenginn samningur. Um efnisatriði eins og þetta, hvort það væri sala eða leiga, að ætla sér að leggja það fyrir Alþingi — ég veit ekki hvað hv. þingmaður hefði sagt hefði ég reynt það. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, sem er greinilega andstæðingur þessa máls, ætlist ekki til þess að ég leggi málið fram hérna til að fá framsal á þessum grundvelli samþykkt.

Ég verð að segja líka að mér finnst að hv. þm. Framsóknarflokksins, Bjarni Harðarson, og auðvitað hv. þm. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, sem þekkir málið átti sig á því hvað hér er um að ræða. (GÁ: Áttirðu ekki von á því?) Jú, ég átti von á því. Hv. þm. Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, er með tilvísun í hæstaréttardómara en þá er annar eða reyndar fyrrverandi hæstaréttardómari sem segir að það séu til fleiri en ein niðurstaða í hverju lögfræðilegu máli.

Varðandi það sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir segir, að ég skuli ekki svara spurningum hennar, er ég hér í utandagskrárumræðu, ég er ekki í fyrirspurnatíma. Það er annar dagskrárliður sem er til þess að svara spurningum. Ég er hér til að taka þátt í umræðunum.

Ég held hins vegar að grundvöllur málsins sé, herra forseti, sá sem hv. alþingismaður Kjartan Ólafsson kom inn á, að (Forseti hringir.) hv. málshefjandi og flokkur hennar eru á móti því að virkja Þjórsá. (Gripið fram í: … skipta um skoðun.) (Gripið fram í: Ekki allir.) (Gripið fram í: Nei, ekki allir.)