138. löggjafarþing — 111. fundur.
fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra, ein umræða.

[15:38]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Efnahags- og viðskiptaráðherra hefur óskað eftir því að gefa munnlega skýrslu hér á Alþingi um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðakerfisins. Samkomulag er um tilhögun umræðunnar og mun hún standa í eina og hálfa klukkustund.



[15:38]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Hæstv. forseti. Í kjölfar bankahrunsins varð strax ljóst að fjárhagsstaða íslensku sparisjóðanna var, með örfáum undantekningum, afar erfið. Afkoma sparisjóðanna var afleit árið 2008. Hjá flestum þeirra varð veruleg rýrnun á eigin fé, einkum vegna lækkunar á hlutabréfavirði og gangvirði eignarhluta í félögum en einnig vegna taps á útlánum og skuldabréfaeign. Þá var afkoma af kjarnastarfsemi fyrir skatta neikvæð hjá flestum þeirra og hafði raunar verið það löngu fyrir hrun bankakerfisins. Það lá því fyrir að margir sparisjóðanna hefðu þörf fyrir að auka stofnfé sitt til að styrkja eiginfjárgrundvöll og rekstrarhæfi og að jafnframt þyrfti að hagræða mikið í rekstri sparisjóðakerfisins.

Eins og margar aðrar innlendar fjármálastofnanir og raunar erlendar líka höfðu margir sparisjóðir byggt hagnað sinn á djörfum fjárfestingum á undangengnum árum og gátu þar með horft fram hjá því að undirliggjandi rekstur stæði ekki undir kostnaði. Þannig var rekstrarkostnaður sumra sparisjóða vel yfir 100% af tekjum af svokallaðri kjarnastarfsemi, fyrst og fremst hefðbundnum inn- og útlánum, sem flestir myndu telja að ætti að vera kjarni í rekstri sparisjóðs.

Þá höfðu nokkrir sparisjóðir á síðustu árum hækkað stofnfé sitt mjög mikið og greitt stofnfjáreigendum ríflegan arð, sem gekk á varasjóði þeirra. Stærsta sparisjóðnum, SPRON, var sem kunnugt er breytt í hlutafélag og nokkrir aðrir sjóðir stefndu að sambærilegri breytingu. Til undirbúnings því var ráðist í mikla loftfimleika við útgáfu stofnfjár og arðgreiðslur þannig að hluti af óráðstöfuðu eigin fé sparisjóðanna færðist til stofnfjáreigenda.

Þessi saga liggur þegar fyrir að verulegu leyti þótt ýmsum spurningum sé ósvarað. Það er mikilvægt að hún verði öll skráð svo hægt sé að draga af henni eðlilegan lærdóm og komast að því hvar ábyrgð liggur. Ég tek því undir með þeim, m.a. rannsóknarnefnd Alþingis, sem telja ástæðu til að rannsaka það hvers vegna íslenska sparisjóðakerfið fór svo illa út af sporinu sem raun ber vitni. Ég geri ráð fyrir að þingmannanefndin sem fjallar um fyrrnefnda skýrslu rannsóknarnefndarinnar muni taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig slík rannsókn mun fara fram.

Tveir umsvifamiklir sparisjóðir voru komnir í veruleg vandræði áður en bankakerfið hrundi. Stóðu þess vegna yfir viðræður milli Kaupþings og SPRON annars vegar og Kaupþings og Sparisjóðs Mýrasýslu hins vegar á haustmánuðum 2008 um sameiningu sparisjóðanna tveggja við Kaupþing.

Þegar efnahagsreikningar sparisjóða voru gerðir upp í lok árs 2008 blasti við að varasjóður var í mörgum tilfellum löngu uppurinn og jafnvel orðinn neikvæður í mörgum sparisjóðanna.

Erfiðleikar sparisjóðanna voru einnig nátengdir erfiðleikum Sparisjóðabankans, sem hét um tíma Icebank. Þannig höfðu sparisjóðirnir í umtalsverðum mæli keypt skuldabréf stóru bankanna þriggja, lagt þau að veði gegn lánum frá Sparisjóðabankanum sem aftur lagði bréfin að veði í Seðlabankanum gegn aðgengi að lausu fé. Þessi viðskipti hafa almennt verið nefnd viðskipti með „ástarbréf“. Þegar stóru bankarnir sigldu í þrot urðu skuldabréf þeirra að sjálfsögðu verðlítil. Sparisjóðabankinn fór í þrot og við það eignaðist Seðlabankinn umtalsverðar kröfur á hendur sparisjóðunum.

Auk þess að vera umsvifamikill lánveitandi sparisjóðanna þjónaði Sparisjóðabankinn þeim m.a. á vettvangi greiðslumiðlunar og fjárstýringar. Þrot Sparisjóðabankans hafði því slæm áhrif á sparisjóðakerfið í heild.

Sparisjóðabankinn, SPRON og Sparisjóður Mýrasýslu áttu í viðræðum við kröfuhafa vegna fjárhagslegrar endurskipulagningar veturinn 2008–2009. Öll höfðu þessi fjármálafyrirtæki fengið ítrekaðan frest frá Fjármálaeftirlitinu til að lagfæra eiginfjárstöðu sína sem var neikvæð og þar með langt undir lögbundnu lágmarki.

Hinn 21. mars í fyrra tók Fjármálaeftirlitið yfir stjórn Sparisjóðabankans og SPRON. Viðræður við lánardrottna höfðu ekki skilað árangri og ljóst var að lausafjárstaða þeirra og eiginfjárstaða var slík að ekki varð við það búið lengur.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins voru innstæður viðskiptavina SPRON fluttar til Nýja Kaupþings, sem nú heitir Arion banki, og gátu viðskiptavinir SPRON nálgast innstæður sínar þar. Byr tók við hlutverki greiðslumiðlunar fyrir sparisjóðina sem Sparisjóðabankinn hafði áður þjónað. Sparisjóður Mýrasýslu hafði einnig verið í samningaviðræðum við kröfuhafa sem fyrr segir. Niðurstaða þeirra viðræðna varð að Nýja Kaupþing eða Arion banki, sem var stærsti kröfuhafi sparisjóðsins, keypti allar eignir hans og greiddi fyrir með skuldabréfi og útgáfu nýrra hluta. Samhliða því eignaðist Nýja Kaupþing allt stofnfé Sparisjóðs Mýrasýslu.

Síðustu 12 mánuði hafa stjórnvöld haldið áfram að vinna með sparisjóðunum að því að finna viðunandi lausn á vanda þeirra sparisjóða sem enn voru standandi eftir áföll vetrarins 2008–2009.

Í mars á þessu ári töldust sjálfstætt reknir sparisjóðir 12 talsins á landinu með 47 afgreiðslustaði.

Eignir sparisjóðanna hafa að sjálfsögðu rýrnað frá því í árslok 2008 en hlutfallslega stærð má þó reikna út frá stöðu þeirra þá. Í árslok 2008 námu heildareignir sparisjóðanna um 690 milljörðum kr. samkvæmt bókfærðu mati. Þar af voru eignir Byrs, SPRON og dótturfélags þess nb.is, Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðs Mýrasýslu, sem nú eru allir komnir í þrot, um 625 milljarðar kr. alls og eignir allra annarra sparisjóða því til samans aðeins um 65 milljarðar kr. eða um tíundi hluti heildarinnar.

Af þessum fjórum stærstu sparisjóðum fóru SPRON og nb.is og Sparisjóður Mýrasýslu ýmist í þrot eða runnu inn í Arion banka á síðasta ári sem fyrr segir. Eftir hremmingar vorsins voru vandamál Byrs og Sparisjóðsins í Keflavík auk minni sparisjóðanna þannig enn óleyst. Stjórnvöld freistuðu þess að stuðla að því að vandi stærstu fyrirtækjanna tveggja yrði leystur í frjálsum samningum kröfuhafa og sparisjóðanna. Fyrir síðustu áramót lágu þannig fyrir drög að samkomulagi, en jafnframt þurfti að vinna ítarlegt mat á eignum og rekstrarhæfi sjóðanna þannig að kröfuhafar gætu tekið afstöðu til tilboðsins.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið og fjármálaráðuneytið létu einnig ráðgjafarfyrirtækið Oliver Wyman vinna ítarlega úttekt á endurskipulagningu sparisjóðanna, meðal annars til að meta þörfina fyrir eiginfjárframlag.

Um líkt leyti hóf Seðlabankinn einnig viðræður við minni sparisjóðina um formbreytingu krafna þeirra þannig að hluta krafna Seðlabankans á hendur sparisjóðunum yrði breytt í víkjandi lán en hluta í stofnfé. Víkjandi lánin yrðu færð yfir í eignarhaldsfélag Seðlabankans en stofnfé til Bankasýslu ríkisins gegn greiðslu úr ríkissjóði.

Viðræður Byrs og Sparisjóðs Keflavíkur við kröfuhafa tóku drjúgan tíma og lengi vel virtist góð von um að samningar næðust. Í síðustu viku varð hins vegar ljóst að innlendir kröfuhafar höfðu ákveðið að fallast á samkomulag það sem lagt hafði verið fyrir, en umtalsverður hluti erlendra kröfuhafa var því mótfallinn. Fimmtudaginn 22. apríl ákváðu því stjórnir beggja sparisjóðanna að fara þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir starfsemi viðkomandi fyrirtækis. Innstæður og eignir sparisjóðanna voru þá flutt til nýrra fjármálafyrirtækja sem stofnuð voru í þeim tilgangi af fjármálaráðuneytinu. SpKef sparisjóður tók við hlutverki Sparisjóðsins í Keflavík en Byr hf. við hlutverki Byrs sparisjóðs.

Nýjar stjórnir tóku við störfum að kvöldi fimmtudagsins 22. apríl. Starfsfólk Seðlabankans og Reiknistofu bankanna vann sleitulaust þá um kvöldið og nóttina við að færa allar innstæður og eignir milli kerfa og tryggja það að þjónusta tengd greiðslumiðlun, hraðbönkum, netbönkum og greiðslukortum gengi hnökralaust fyrir sig. Það gekk eftir og að morgni föstudagsins 23. apríl opnuðu þessar stofnanir og öll útibú þeirra undir nýjum nöfnum.

Enn er mikið verk óunnið við endurskipulagningu á rekstri þeirra sparisjóða sem enn eru starfandi í landinu. Ríkið hefur nú tekið, a.m.k. um tíma, yfir starfsemi tveggja stærstu sparisjóðanna sem eftir voru og von er á því að Bankasýsla ríkisins taki yfir eignarhluti minni sparisjóðanna að verulegu leyti.

Ríkisvaldið þarf óhjákvæmilega að móta stefnu um það hvernig það vill vinna úr málum sparisjóðakerfisins. Aðkoma efnahags- og viðskiptaráðuneytisins verður fyrst og fremst vegna regluverks og umgjarðar fjármálamarkaðarins. Hér má nefna að í júlí í fyrra voru samþykkt á Alþingi lög um breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki er vörðuðu sparisjóðina. Þar var m.a. tekið mið af þeirri vinnu sem fram fór í nefnd sem viðskiptaráðherra skipaði á árinu 2007 til að endurskoða ákvæði laga um fjármálafyrirtæki sem varða sparisjóði.

Lagabreytingarnar sem Alþingi samþykkti síðastliðið sumar fólu í sér að félagaform sparisjóðanna var skilgreint betur og eignarréttindi stofnfjáreigenda voru nánar afmörkuð. Þeir eiga þannig enga hlutdeild í óráðstöfuðu eigin fé eða varasjóðum sparisjóðsins. Tekið var fyrir að stofnaðir yrðu nýir hlutafélagasparisjóðir eða eldri stofnfjársparisjóðum breytt í hlutafélagasparisjóði. Hins vegar voru takmarkanir um sölu og innlausn stofnfjár felldar á brott þannig að viðskipti með stofnfé lytu sömu reglum og viðskipti með eignarhluti í öðrum fjármálafyrirtækjum. Einnig var sparisjóðum gert auðveldara að sækja sér nýtt stofnfé. Þrengt var að heimildum til arðgreiðslna með því að aðeins er heimilt að greiða út arð ef hagnaður hefur verið af rekstri og helmingur hagnaðar þarf að vera læstur inni í sjóðnum til frambúðar en ekki greiddur út sem hækkun stofnfjár eða arður. Þannig voru gerðar róttækar breytingar á rekstrarfyrirkomulagi sparisjóða, sérstaklega hvað varðar samskipti þeirra og arðgreiðslur til eigenda

Ekki verður svo skilið við málefni sparisjóðanna að ekki sé minnst á vanda stofnfjáreigenda. Á árunum 2007 og 2008 höfðu margir sparisjóðir undirbúið hlutafélagavæðingu eða sameiningar og gáfu af því tilefni út nýtt stofnfé. Fjöldi manna keypti þetta nýja stofnfé og tóku margir veruleg lán til kaupanna. Stofnfé þessa fólks hefur nú gufað upp að mestu eða jafnvel öllu leyti. Vandi þessara fjárfesta er tilfinnanlegur og sambærilegur vanda þeirra sem keyptu hlutafé í bönkum og öðrum skráðum félögum sem nú er orðið verðlaust. Á annað þúsund milljarða í hlutafé tapaðist þegar viðskiptabankarnir þrír féllu, en þær fjárfestingar voru einnig að miklum hluta fjármagnaðar með lánum. Vitaskuld er ekki hægt að gera upp á milli þeirra sem lenda í vanda vegna fjárfestinga sem þessara en það er brýnt að unnið verði úr þessari stöðu sem fyrst, einkum með samningum lánardrottna og lánþega sem gera hinum fjölmörgu fjölskyldum kleift að ná aftur tökum á fjármálum sínum.

Þótt hið endurreista sparisjóðakerfi verði til muna minna en það sem hrundi mun það áfram gegna mikilvægu hlutverki í hinu íslenska hagkerfi. Sparisjóðir munu sérstaklega skipta miklu við að tryggja aðgang að eðlilegri fjármálaþjónustu utan þéttbýlisins á suðvesturhorni landsins. Þeir munu hafa alla burði til að sjá einstaklingum og smærri fyrirtækjum fyrir grunnfjármálaþjónustu og hafa náin tengsl við sína heimabyggð. Þetta er eðlilegt hlutverk sparisjóða og í hinni löngu sögu íslenska sparisjóðakerfisins ræktu þeir þetta hlutverk lengst af með ágætum.

Sparisjóðir þurfa framvegis að gegna þessu hlutverki með miklu minni kostnaði en undanfarin ár. Sparisjóðum mun þurfa að fækka umtalsvert með sameiningu og sparisjóðakerfið mun þurfa að leggja niður eða skera verulega niður stóran hluta þeirrar yfirbyggingar sem byggð hefur verið upp vegna rekstrar sjóðanna undanfarin ár. Það á þó ekki að þurfa að koma að neinu umtalsverðu leyti niður á þeirri þjónustu sem þeir veita.

Það mun fyrst og fremst koma í hlut Bankasýslu ríkisins og forsvarsmanna sparisjóðanna að sjá til að þetta gangi eftir en einnig munu Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn gegna þar nokkru hlutverki. Jafnframt er mikilvægt að heimamenn á hverjum stað fái að koma að þessari vinnu enda munu þeir verða bæði viðskiptavinir og bakhjarlar sparisjóðanna, hér eftir sem hingað til.



[15:52]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir það að veita okkur tækifæri og flytja þessa skýrslu, gefa okkur tækifæri til að ræða þessi mál með aðeins ítarlegri hætti en við gerum alla jafnan, t.d. í utandagskrárumræðum.

Hæstv. ráðherra lýsti samningaferlinu og forsögunni, gerði það ágætlega þótt ég væri kannski ekki sammála öllu því sem þar kom fram eða þeirri túlkun eða skýringu. En hann leiddi okkur að þeirri niðurstöðu sem menn komust að og lá fyrir á sumardaginn fyrsta. Það er kannski ágætt að niðurstaðan liggi fyrir að þessu leyti vegna þess að óvissutíminn er alltaf erfiðastur, ekki síst fyrir starfsfólk þessara stofnana sem búið hefur við mikið óöryggi í langan tíma. Þó verð ég að segja að í mínum huga er enn mikil óvissa í þessu öllu saman, kannski enn frekar eftir ræðu hæstv. ráðherra, og fjölmörgum spurningum er enn ósvarað.

Þegar við stóðum hér í haust, sumar og vetur og ræddum Icesave-málið voru ýmsir sem líktu þeirri atburðarás við kvikmynd sem heitir Groundhog Day þar sem helsta sögupersónan vaknar og það er alltaf sami dagurinn. Dagurinn líður, svo vaknar sögupersónan aftur næsta morgun og þá byrjar sami dagurinn aftur. Ég verð að segja að þessi tilvísun á við fleira en Icesave-málið vegna þess að nú líður mér eins og við séum komin ár aftur í tímann. Þeir hlutir sem ég hef áhyggjur af í sambandi við sparisjóðina eru nákvæmlega þeir sömu og við ræddum fyrir réttu ári þegar lögunum um fjármálafyrirtæki, sem hæstv. ráðherra minntist á, var breytt.

Ég hef áhyggjur af sömu atriðum og ég vakti athygli á í umræðum í fyrra. Hvað gerir sparisjóð að sparisjóði? Er sparisjóður 100% í eigu ríkisins? Er það sparisjóður? Er mögulegt að hafa slíkan sparisjóð? Hver er framtíðarsýnin? Hvernig ætlar ríkið út úr rekstrinum? Hver er hvatinn fyrir menn að koma inn í þetta nýja sparisjóðakerfi sem stofnfjáreigendur? Hvernig á að bregðast við vanda þeirra stofnfjáreigenda sem hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni, sérstaklega í Húnavatnssýslunum þar sem menn tóku lán fyrir stofnfjárkaupum sínum? Í kringum fjórðungur af íbúunum á því svæði er í gríðarlegum vandræðum. Hæstv. ráðherra líkti stofnfjárbréfunum við hlutabréf, á því er grundvallarmunur. Gleymum því ekki að þegar viðkomandi einstaklingar tóku þessa ákvörðun var litið til þágildandi laga sem giltu gegn ákveðinni tryggingu vegna þess að ef illa færi væri hægt að innleysa bréfin á genginu einn. Þetta fólk gerði sig sekt um að treysta á gildandi löggjöf, ef svo má segja.

Það er skortur á heildarsýn sem við gagnrýndum í fyrra. Eftir ræðu hæstv. ráðherra finnst mér sá skortur á heildarsýn enn vera frekar æpandi. Hæstv. ráðherra fór mjög vel yfir það hvernig t.d. hvernig Sparisjóður Mýrasýslu var innlimaður í Nýja Kaupþing. SPRON fór á hausinn og reyndar eru fyrrum viðskiptavinir SPRON í miklum vanda t.d. þegar kemur að greiðsluvandaúrræðum vegna þess að þar vísar hver á annan. BYR er núna samkvæmt nýjustu fréttum BYR hf. en Sparisjóðurinn í Keflavík er SpKef sparisjóður þannig að þarna er engin heildarsýn nema heildarsýnin sé sú að vera með nýtt trikk fyrir hvern sparisjóð sem lendir í vandræðum. En það er greinilegt í þessu öllu saman að SpKef sparisjóði er ætlað að vera hryggjarstykkið í nýju sparisjóðakerfi, enda langstærsti sparisjóðurinn sem er eftir í kerfinu. Ég ætla aðeins að gera það að umtalsefni síðar, en þá er spurning mín: Hvað með BYR hf.? Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn og ríkið með þá fjármálastofnun? Er ætlunin að búta hana niður eða er ætlunin að sameina hana annarri fjármálastofnun eða öðrum fjármálastofnunum, Landsbankanum, hinum ríkisbankanum? Hafa menn yfirleitt alltaf hugsað út í það eða kemur þetta allt í ljós síðar? Í fyrra þegar við spurðum þessara spurninga var sérstaklega tekið fram að nefndinni sem samdi það frumvarp var ekki ætlað að takast á við framtíðarsýn sparisjóðakerfisins. Það yrði að bíða betri tíma. Er sá góði tími kominn? Vitum við eitthvað um þetta núna? Hversu lengi ætlar ríkið sér að eiga þessar fjármálastofnanir? Okkur var sagt í viðskiptanefndinni fyrr í vikunni að það stæði ekki til, að það væri langur tími sem ríkið ætlaði að eiga þennan hlut. En hvernig ætlar ríkið þá út úr þessari starfsemi? Því hefur heldur ekki verið svarað, ekki heldur í nefndinni. Það var sagt að Bankasýslan mundi sjá um þetta. Það er sem sagt engin sýn, það er engin útgönguáætlun hjá ríkinu. Hæstv. ráðherra talaði um að gera ætti stofnfjáreigendum kleift að koma inn í þetta og heimamenn ættu eftir sem áður að verða tryggir bakhjarlar. En þeir gera það ekki vegna þess að hæstv. ráðherra finnst að þeir eigi að gera það. Þeir verða að hafa einhvern hvata til þess.

Við gagnrýndum ýmis atriði í fyrra, við gagnrýndum flýtinn og fórum í gegnum það mál. Við gagnrýndum líka 7. gr. sem var heimildin til niðurfærslu stofnfjár. Ég horfi á hv. þm. Guðbjart Hannesson sem tók m.a. þátt í þeirri umræðu með okkur í stjórnarandstöðunni og lýsti þeirri skoðun sinni að setja ætti á þetta eitthvert gólf til þess að hafa einhvern hvata fyrir stofnfjáreigendur til að vera inni í sparisjóðunum og viðhalda þannig hugsuninni í kerfinu. En það var talið allsendis óþarft, það stæði hreinlega ekki til að færa þetta niður í núll, en við sjáum núna hvernig þetta er. Núna er ríkið eini eigandinn að tveimur stærstu sparisjóðunum og allir nema tveir, held ég, fá einhvers konar framlag frá ríkinu. Það mun þá væntanlega færa niður stofnfé sitt.

Ef við förum aðeins að samningunum við kröfuhafana erum við búin að kalla eftir upplýsingum um allt ferlið og höfum fengið nokkra fundi. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir, allt þar til nýlega voru menn tiltölulega bjartsýnir á að þetta ferli mundi allt saman ganga upp. Þetta er búið að vera hálfgerð rússíbanareið og ég geri ekkert lítið úr því að þetta kerfi er flókið og margir aðilar komu að því. En það hefur alltaf vakið hjá mér spurningar sem gerðist í haust þegar við vorum nálægt því, eftir því sem okkur skildist, að ná samkomulagi þegar kröfuhafar voru búnir að fallast á ákveðna leið. Ríkið og allir voru komnir að ákveðinni niðurstöðu, byrjað var að gera drög að pappírunum, eftir því sem manni skildist. En þá fer ríkið fram á enn eina úttektina, sem eru annaðhvort 12 eða 13 í öllu þessu ferli. Eftir það stekkur ríkið frá borði og setur fram nýjar kröfur sem ekki var hægt að ganga að þannig að ferlið fer allt í uppnám og rennur út í sandinn. Þarna held ég að sé ákveðin vendipunktur, ekki vegna þess að það ferli hafi runnið út í sandinn þá heldur skilur maður svo sem erlendu kröfuhafana sem eru, eftir því sem maður heyrir um í fjölmiðlum, búnir að fá nóg af Íslendingum. Ef þetta hefur verið takturinn í samningaviðræðunum er ekkert skrýtið að menn fái nóg af Íslendingum. Tilfinningin sem ég hef haft, og hvernig hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra nálgaðist umræðuna áðan styrkir þá tilfinningu, er að það hafi aldrei verið neitt sérstaklega ríkur vilji til að bjarga sparisjóðunum. Menn tala um að þarna hafi einhver ægileg græðgisvæðing farið af stað. Það er næstum því eins og menn segi: Þá er þetta bara svona, þetta ætti að kenna þessu fólki. En það er kannski ekki alveg þannig sem við ættum að nálgast þetta.

En það eru margar spurningar um framtíð sparisjóðakerfisins. Eins og ég sagði áðan er Sparisjóðnum í Keflavík ætlað að vera hryggjarstykki. En hvernig hugsa menn sér sparisjóðakerfið í framtíðinni og hvað gerir sparisjóð að sparisjóði? Hér er hugmyndafræði sparisjóðanna sett fram af þeim sjálfum árið 2009, með leyfi forseta:

„Sparisjóður er sjálfseignarstofnun undir forræði heimamanna. Fjöldahreyfing einstaklinga og lögaðila sem með stofnfé og/eða viðskiptum tryggja eðlilega fjármálaþjónustu í sínu héraði.“

Þá eru það spurningarnar sem við höfum verið að spyrja í heilt ár, það er aldrei mikilvægara en nú að fá svör við þeim: Hvernig mun ríkið losa sig út úr þessum rekstri? Hvernig verður stofnfé komið í hendur heimamanna þannig að sparisjóðurinn verði fjöldahreyfing sem er bakhjarl? Verður núverandi stofnfjáreigendum gefinn forkaupsréttur? Verður öllum almenningi á svæðinu gefinn kostur á að kaupa? Stóra spurningin er þessi: Af hverju ætti einhver að vilja koma inn í þetta sem stofnfjáreigandi núna þegar ríkið er komið inn í þetta? Eftir að hafa hlýtt á ræðu ráðherra er ég eiginlega sannfærð um að markmiðið er kannski ágætt, að tryggja bankaþjónustu á landsbyggðinni, (Forseti hringir.) en eigum við þá ekki að kalla þetta réttu nafni? Er ekki verið að stofna landsbyggðarbanka í eigu ríkisins?



[16:03]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna hér um sparisjóðina og stöðuna sem við erum komin í varðandi það mál, ég harma að það hafi ekki gengið eftir sem lagt var upp með á síðasta ári og raunar allt frá því hrunið varð, að reyna að bjarga sparisjóðunum. Þetta er gamalt, gott og traust form og hefur verið ákveðin tegund í fjármálastarfsemi okkar. Sparisjóðirnir þjónuðu vel sinni heimabyggð og höfðu ákveðnu, mikilvægu hlutverki að gegna. En því miður þróuðust þeir eins og raun ber vitni vegna þess að ákveðnir aðilar og ákveðin lífssýn bentu á að þarna lægi inni dautt stofnfé sem þyrfti að nýta með einhverjum hætti. Hófst þá ágangur í þá veru að breyta þessu í hlutafé, helst í sölu og koma því þannig fyrir að menn gætu grætt á þessu stofnfé. Síðan þekkja menn söguna þegar þessi innreið hófst hjá sparisjóðunum líkt og hjá öðrum bönkum, þó sérstaklega hjá sparisjóðunum þar sem menn reyndu að breyta stofnfénu í hlutafé. Dæmi voru um að heilu sveitarfélögin stórykju stofnfé sitt til þess að geta tekið út meiri arð og hafa af þessu gróða.

Þetta er afleiðing af því sem menn töluðu um, að það mátti ekkert fé vera án hirðis og að menn færu ekki vel með neitt nema þeir gætu haft af því ágóða. Við höfum séð afleiðingarnar af þessari stefnu, því miður, og það er leitt að sparisjóðakerfið skuli verða fórnarlamb hennar.

Það var ákvörðun Alþingis og ríkisstjórnar, eins og ég sagði, að standa vörð um sparisjóðakerfið. Sem liður í þeirri ákvörðun var einmitt farið yfir lagafrumvarp á síðastliðnu sumri, þ.e. í júnímánuði ef ég man rétt 2009, þar sem á vissan hátt var slegin skjaldborg um sparisjóðina eða reynt að verja þá. Það var frá upphafi ákveðið að ríkisvaldið gæti komið með allt að 20% stofnfé inn í sparisjóðina til þess að verja þá. Þetta var auðvitað ákvörðun Alþingis þó að það sé rétt, sem hér hefur komið fram, að það var ágreiningur á milli þingmanna og stjórnmálaflokka hér í þinginu um með hvaða hætti ætti að gera þetta. En lögin voru engu að síður samþykkt og eftir þeim hefur verið unnið. Ég harma að ástandið hafi síðan verið verra en áætlað var á þeim sparisjóðum sem hér voru undir og að kröfuhafar skuli ekki hafa getað náð samkomulagi um með hvaða hætti ætti að stilla sparisjóðunum upp að nýju. Það endaði með því að ríkið tók sparisjóðina yfir núna á sumardaginn fyrsta líkt og gert hafði verið við bankana á sínum tíma.

Það voru líka alvarlegar yfirlýsingar sem fylgdu þessu vegna þess að innlendir kröfuhafar höfðu fallist á þær lausnir sem voru á borðinu en erlendir kröfuhafar síður eða alls ekki og var vitnað til þess að þeir hafi verið búnir að fá nóg af Íslendingum. Ég skildi það nú ekki þannig að það væri í samskiptum við stjórnvöld heldur einfaldlega vegna þess að erlent bankakerfi hefur náttúrlega fengið yfir sig þúsundir milljarða. Menn greinir á um hversu há talan er en ég held að rannsóknarskýrslan nefni 7.300 milljarða sem fallið hafa á bankakerfi Evrópu án þess að við höfum borið beinar afleiðingar af því, þ.e. einstaklingar eða ríkisvald, umfram allt það sem féll svo á íslenska skattgreiðendur og ríki.

Við sjáum því að þetta er bara hluti af þeirri auðn sem hefur skapast af því hvernig hér var farið með fjármuni á síðastliðnum árum.

Nú er málið komið til Fjármálaeftirlitsins og það er Bankasýslan sem tekur við. Það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli, eins og hér hefur líka komið fram nú þegar, að menn móti hratt stefnu um hvernig á að láta þessa sparisjóði starfa áfram og í hvaða formi. Það er rétt sem kom fram í ræðu síðasta hv. þingmanns, þótt það hafi vakið athygli mína, að þar er eingöngu horft til ríkisins, að ríkið eigi að fara að leggja fram peninga umfram það sem áður var gert og koma þeim síðan í hendur stofnfjáreigenda. Ég veit ekki hvort hægt er að ætlast til þess að það sé gert með þeim hætti ofan á allt annað sem gengið hefur á. Það breytir ekki því að búið var að taka ákvörðun um að leggja í þetta ákveðið fjármagn og við þurfum auðvitað að vinna úr því og móta stefnuna. Síðan verður Bankasýslan að vinna eftir þeirri stefnu og að reyna að koma sparisjóðakerfinu á sem hluta af heildarfjármálastarfsemi þessa lands með það hlutverk sem sparisjóðirnir höfðu áður, sem var fyrst og fremst lánastarfsemi og þjónusta í heimahéraði í smærri mæli.

Það var þyngra en tárum tók að fylgjast með því hvernig menn fóru hamförum í því þegar verið var að sameina stofnanir eða þegar menn voru að leysa til sín smærri sparisjóði. Þá upphófst mikill harmleikur í kringum það að reyna að auka stofnfé til þess að halda stöðu minni sparisjóða í hlutdeildinni, m.a. í Sparisjóði Keflavíkur og hér hefur áður verið nefnt ástandið í Húnavatnssýslunum og í Bæjarhreppnum. Þar voru menn kallaðir til, beðnir um að auka stofnfé sitt og koma að málum, þeir tóku til þess lán. Þar voru loforðin upphaflega þau að veðið fyrir lánunum var eingöngu í stofnfénu. Síðan hefur verið gengið eftir því að menn tryggðu þessi lán með öðrum hætti, þ.e. að þeir greiddu þau, og talað var um að ganga að eignum fólks. Ég held að það sé afar mikilvægt að reynt sé að kveða upp úr um með hvaða hætti þetta var gert, ef rétt er að þarna hafi m.a. Sparisjóður Keflavíkur leitað til fólks, skorað á það að auka stofnfé og lofað því að þarna væri eingöngu stofnbréfin að veði. Þetta verður hreinlega að skýra fyrir dómstólum þannig að það komi í ljós ef þarna hefur verið um að ræða rangar upplýsingar.

Það er ein af afleiðingunum. Við sjáum hvernig Sparisjóður Mýrasýslu fór með heilan milljarð í stofnfjáraukningu með láni til einstaklinga í stofnfjáraukningu til að hjálpa ákveðnum fyrirtækjum sem síðan fóru öll á hausinn. Svo sjáum við hvernig fór í Húnavatnssýslunni og í Bæjarhreppnum, ég held að það séu 1,9 milljarðar á 130–140 einstaklingum, þar sem menn juku stofnfé í þeirri trú að þeir gætu alltaf skilað bréfunum inn aftur eða hætt við og að ábyrgðin væri eingöngu fólgin í bréfunum sjálfum. Síðan er gengið að þessum aðilum og þeir krafðir um greiðslur.

Þetta er auðvitað úrlausnarefni sem samfélagið verður að taka á, að fá upplýst með fullnægjandi hætti með hvaða hætti þessi loforð voru gefin og hvernig salan fór fram. Alla vega reynir mjög á þau úrræði sem menn hafa varðandi aðstoð við heimilin þannig að þarna verði ekki fleiri bú og býli í héraði gjaldþrota.

Auðvitað verður að gæta jafnræðissjónarmiða og fara með þetta með líkum hætti og annars staðar. Hlutabréf eru ekki endilega sama og stofnfé þótt gerðar hafi verið tilraunir til að láta það vera þannig. Þetta er því mjög vandmeðfarið mál en mikilvægt engu að síður.

Að lokum treysti ég á að þetta fari í vandaðan farveg og að menn reyni að vinna úr þessu. Þegar við ræddum um að endurstilla bankakerfið, að halda öllum þremur bönkunum gangandi af því að það eru kröfuhafar sem eiga þá, vissum við að þegar fjármálakerfið dregst saman, fer niður í þriðjung eða jafnvel minna af því sem það var upphaflega, hlýtur þjónustan í landinu og fjármálastarfsemin að dragast saman sem því nemur. Það verður því samdráttur í bankakerfinu og í sparisjóðakerfinu. Það er mikilvægt að unnið verði af heilindum að þeirri uppstokkun, það verður að eiga sér stað hagræðing. En það var auðvitað hugmyndin að hún kæmi á lengri tíma því að það væri ekki á það bætandi í því ástandi sem núna er að fara í allan þann niðurskurð og uppstokkun á einu bretti, það yrði síðan að finna farveg til lengri tíma í þeirri vinnu sem fram undan er.

Í lokin bið ég hæstv. ráðherra, og það er mjög mikilvægt, að skýra það betur hver kostnaðurinn verður hugsanlega sem fellur á ríkissjóð, því að það er mikilvægt að við höldum líka um hagsmuni ríkissjóðs í allri þessari endurreisn og fáum þær upplýsingar upp á borðið. Svo tek ég heilshugar undir það sem hæstv. ráðherra nefndi, og kemur raunar fram í rannsóknarskýrslunni, að það er mjög mikilvægt að menn skoði sparisjóðakerfið, en það var ekki undir í skýrslunni. Að menn skoði með hvaða hætti hlutirnir gerðust, hvað það var sem fór úrskeiðis þannig að menn geti átt eðlilegt uppgjör hvað þetta varðar, skýrt línur og reynt að skýra einmitt það sem ég var að segja áðan varðandi aðkomu einstaklinga að aukningu á stofnfé, hvaða loforð voru gefin og þess háttar. Ég treysti á að rannsóknarnefnd Alþingis taki þetta mál fyrir og finni því farveg í framhaldinu.



[16:12]
Eygló Harðardóttir (F):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þann rúma tíma sem við fáum til þess að ræða um sparisjóðina hér.

Sparisjóðirnir hafa gegnt mjög veigamiklu hlutverki í íslensku fjármálalífi og hafa oft verið eina fjármálastofnunin í hinum dreifðari byggðum landsins. Þeir hafa notið mjög mikils velvilja hjá íslensku þjóðinni og hafa án undantekningar fengið hæstu einkunn hvað varðar þjónustu og ímynd. Ég tel að sparisjóðakerfið geti gegnt lykilhlutverki í endurreisn heiðarlegs og góðs fjármálakerfis í landinu. Til þess að það geti orðið þurfa björgun þeirra og endurreisn að byggjast á þeim grunngildum sem sparisjóðirnir voru byggðir á og tryggja að þeir starfi eftir dreifðri eignaraðild þar sem jafningjarétturinn ræður ferðinni.

Hér er ég aftur að vitna í orð hæstv. ráðherra, Jóns Bjarnasonar, þegar hann fjallaði á sínum tíma um sparisjóðina. Hvernig förum við að því? Ef við horfum aðeins til baka, til fortíðar, eiga sparisjóðirnir sér alllanga sögu hérlendis, a.m.k. ef við berum þá saman við önnur fjármálafyrirtæki. Það hefur oft verið talað um að fyrsti eiginlegi sparisjóðurinn hafi verið stofnaður á Seyðisfirði árið 1868, Sparisjóður Múlasýslna. Hann varð ekki langlífur og hætti starfsemi upp úr 1870. Reyndar hafa verið færð rök fyrir því að saga sparisjóða sé jafnvel eitthvað eldri og heimildir eru fyrir því að stofnaður hafi verið sparisjóður í Mývatnssveit árið 1858, sem lagður hafi verið niður árið 1864 og kallaður Sparisjóður búlausra í Skútustaðahreppi. Af því að dæma sem ég skoðaði þegar fjallað var um löggjöf sparisjóða var elsti sparisjóðurinn talinn vera Sparisjóður Siglufjarðar, stofnaður 1873. Þeir voru 63 árið 1960 en eftir bankahrunið fækkaði þeim í 12. Við yfirtöku FME fækkaði þeim síðan enn um einn þar sem Byr var endurstofnað sem hlutafélag en ekki sem sparisjóður.

Hrunið hafði sannarlega áhrif á sparisjóðina, eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fór í gegnum. En það voru aðeins tveir sjóðir sem sóttu ekki um að fá aðstoð frá ríkissjóði, það voru minnstu sjóðirnir.

Við höfum margoft sett lög hér á Alþingi um starfsemi sparisjóðanna og fyrstu slíku stjórnvaldsfyrirmæli okkar voru sett árið 1874, um hlunnindi nokkur fyrir sparisjóði á Íslandi. Ástæðan fyrir því að við erum hér saman komin er að FME tók yfir Sparisjóð Keflavíkur og Byr sparisjóð, þar höfðu fjölmargir sparisjóðir sem lágu á bak við verið sameinaðir. Báðir þessir sjóðir rekja hins vegar uppruna sinn til byrjunar síðustu aldar og störfuðu um 320 manns hjá þessum sjóðum víðs vegar um landið. Það voru þúsundir einstaklinga sem voru stofnfjáreigendur í þessum tveimur sjóðum og þeir hafa tapað miklum fjármunum, jafnvel þannig að heilt byggðarlag er undir, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson minntist á varðandi Húnaþing vestra.

Ég tel mjög mikilvægt þegar við horfum á það hvernig við viljum byggja upp nýtt samfélag, hvernig við viljum endurreisa íslenskt samfélag, að við höfum þar ekki það sem ég vil gjarnan kalla „öfgamarkaðshyggju“. Að við leitumst við að byggja upp raunverulegt blandað hagkerfi, hagkerfi þar sem við erum með sterk og lifandi einkafyrirtæki, vel rekið ríkisvald og sterkan félagslegan eða almennan félagsgeira. Þann fjölbreytileika þarf fjármálamarkaðurinn að endurspegla.

Á vefsíðu Sparisjóðs Keflavíkur segir:

„Sparisjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem hefur það að takmarki að veita viðskiptavinum sínum góða og örugga ávöxtun sparifjár og alhliða þjónustu á sviði fjármála.“

Fyrri ræðumenn hafa komið hérna og fjallað aðeins um skilgreininguna á því hvað það er að vera sparisjóður. Hvað er sparisjóður í raun og veru? Ég held að ef við förum í þá vinnu sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson var að tala um, væri nauðsynlegt að skoða hvað fór úrskeiðis varðandi sparisjóðina, komi í ljós að við höfum alls ekki náð utan um það hvað sparisjóður er í raun og veru. Við hér á Íslandi höfum ekki náð utan um það hvað félagslegur eða almennur félagsgeiri eru, hvaða hlutverki þessi tegund af félögum á að gegna í blönduðu hagkerfi. Ísland er ekkert einsdæmi í þessu. Það má kannski rekja þessi fræði, sem tóku brátt yfir í hinum vestræna heimi, til Margrétar Thatcher og Ronalds Reagans. Þau töluðu mikið fyrir því að markaðurinn ætti að geta stjórnað sér sjálfur og það ætti helst að einkavæða allt.

Ég vil aðeins skilgreina og velta fyrir mér hvað sparisjóður er raunverulega. Sparisjóður byggir á annarri hugmyndafræði en hlutafélög og aðrir bankar. Hugmyndafræðin er sambærileg þeirri sem býr að baki í gagnkvæmum tryggingafélögum, samvinnufélögum, sjálfseignarstofnunum og jafnvel frjálsum félagasamtökum. „Eigendur“ eiga að vera þeir sem nota sér þjónustu fyrirtækisins og hagnaðurinn af starfseminni á að skila sér til þeirra í formi t.d. lægri þjónustugjalda, lægri vaxta, afsláttar af vöru eða í gegnum samfélagssjóði sem styðja við mann- og menningarlíf á starfssvæði félagsins. Grundvallarhugsunin í þessum félögum er lýðræði: Einn maður, eitt atkvæði, en ekki hversu mikla peninga maður á.

Joseph Stiglitz skrifaði heilmikla grein þegar hann var að fjalla um það að við þyrftum að fara frá því sem hann kallar „öfgamarkaðshyggju“. Talað er um að lýðræði sé virði í sjálfu sér, að lýðræði á vinnustöðum sé mikilvægur hluti af lýðræði almennt. Félög með þessa félagslegu hugsun eru t.d. minna líkleg til að misnota þá sem þau eiga samskipti við, starfsmenn, viðskiptavini og birgja, og hvetur það jafnvel til nýsköpunar í fyrirtækjum og í samfélaginu í heildina.

Það hefur hins vegar verið þannig hér á Íslandi, og ég mundi segja líka í stórum hluta hins vestræna heims ef við horfum á löggjöfina hjá Evrópusambandinu, að áróður gegn þessari tegund starfsemi hefur verið stöðugur, ekki bara í nokkur ár, þótt ég hafi minnst hér á Ronald Reagan og Margaret Thatcher, heldur áratugum saman. Þessi mikli og víðtæki áróður gegn rekstri almannafélaga, svo sem sparisjóða og gagnkvæmra félaga, leiddi til að lagalegt og rekstrarlegt umhverfi félaganna var allt fært til þess horfs að að lokum voru sparisjóðirnir nær allir einkavæddir með hörmulegum afleiðingum. Við könnumst öll við hugtakið „fé án hirðis“, það var innleitt sem skammaryrði. Það var á allan hátt neikvætt hugtak um eignir og fjármagn sem stóð að baki rekstri sem ekki var ætlað að skila beinum hagnaði í vasa einstakra eigenda sinna. Almannaeignarhald, opinbert eignarhald, gagnkvæm félög og samvinnufélög, þar með talin kaupfélög og sparisjóðir, voru þannig útmáluð sem úrelt form og fortíðarvandi. Við töpuðum okkur í því sem ég hef kallað öfgamarkaðshyggju og nýfrjálshyggju, ekki bara hér á landi, þótt þessar tegundir félaga hafi verið mjög veikar, heldur á heimsvísu.

Það sem ég hef miklar áhyggjur af er að við höfum raunar ekkert lært. Við höfum horft upp á það í frumvörpum sem komið hafa frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að unnið hefur verið að því að reyna að ýta þessum fyrirtækjaformum út úr löggjöfinni sem varðar fjármálamarkaðinn. Það hefur verið mikil barátta að halda uppi þessari umræðu, þrátt fyrir að ég telji að það sé örugglega hægt að finna ýmsar ályktanir frá Vinstri grænum um mikilvægi þess að byggja upp félagslega geirann eða almannafélagsgeirann hér á Íslandi.

Mig langar til þess að rifja aðeins upp hér í lokin nokkrar breytingartillögur sem ég lagði fram á lögunum um sparisjóði þegar þeim var breytt núna í sumar, þannig að við getum, þegar við förum að byggja upp sparisjóðina, raunverulega farið að svara því hvað sparisjóður er. Að við getum tryggt að sparisjóðurinn hafi þessi tengsl við heimabyggð sína sem við töluðum um að skipti svo miklu máli til þess að geta svarað því hvað sparisjóður er raunverulega. Þetta eru tillögur sem byggja á norsku löggjöfinni um sparisjóði. Stjórn sparisjóðanna ætti að vera skipuð þannig að stofnfjáreigendur mundu tilnefna tvo stjórnarmenn, hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir mundu tilnefna tvo stjórnarmenn og innstæðueigendur einn stjórnarmann, samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Þar sem við horfum fram á að ríkið er eini stofnfjáreigandinn, t.d. í Sparisjóði Keflavíkur eins og staðan er núna, mundu þeir kjósa tvo stjórnarmenn. Síðan mundu þau sveitarfélög sem eru á starfssvæðinu kjósa tvo stjórnarmenn og síðan hefðu innstæðueigendur einhverja aðkomu að þessu. Ef við erum með stóran sjóð munu starfsmenn líka hafa tækifæri til þess að kjósa fulltrúa í stjórn sjóðsins og þar með værum við komin með raunverulega tengingu við samfélagið. Við mundum vonandi geta farið að byggja aftur upp traustið og tengslin sem þurfa að vera til staðar á milli sparisjóðs og viðskiptavinanna og samfélagsins sem þeir starfa í.

Ég tel líka að þegar farið verður í að endurskoða löggjöfina um sparisjóðina, (Forseti hringir.) af því við þurfum að skilgreina þetta mjög skýrt, þurfum við að ræða um rekstrarumhverfi sparisjóðanna. Við þurfum að fara í gegnum það hvernig við tryggjum þessi tengsl og hvort þessi (Forseti hringir.) tillaga gæti komið til greina, eins gagnsæi í reglum um það hvernig menn geta orðið stofnfjáreigendur eða hvernig þeir geta fengið (Forseti hringir.) aðkomu að þessu, og síðan hvernig við viljum stjórna sjóðunum og (Forseti hringir.) stýra atkvæðisvægi sparisjóðanna.



[16:23]
fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir þau orð með hv. síðasta ræðumanni að það er mikilvægt að við getum átt í skoðanaskiptum um málefni sparisjóðanna. Ég verð að segja að út frá þeim hugleiðingum sem hv. þingmaður var með, um hinn hugmyndafræðilega pólitíska þátt þessa máls hvað varðar sparisjóðina sem fyrirbæri, deili ég að miklu leyti skoðunum með hv. þm. Eygló Harðardóttur. Ég hefði nú eiginlega óskað þess að hún hefði verið komin á þing svona 10 árum fyrr fyrir Framsóknarflokkinn og verið þar til staðar með sín sjónarmið þegar Framsóknarflokkurinn var nokkuð að véla um þessi mál og átti t.d. viðskiptaráðherrann á löngum stundum. En ég er algerlega sammála hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt að menn ræði og átti sig á hvers konar framtíðarform og fyrirkomulag menn eru þá að tala um þegar verið er að ræða endurreisn eða björgunaraðgerðir í þágu sparisjóða.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hélt hér góða ræðu og ég get gert allt sem hann sagði um þessar aðgerðir að mínum orðum og þarf ekki að endurtaka það. Ég vil fyrst og fremst koma lítillega að því sem hefur snúið að fjármálaráðuneytinu í þessu ferli og staldra við sumardaginn fyrsta sem var kannski ekki nákvæmlega eins og sumardagurinn fyrsti má gjarnan vera þar sem menn geta glaðst í góðu veðri með fjölskyldu sinni, a.m.k. ekki af minni hálfu. En þannig fór það bara að því miður komust á endastöð tilraunir bæði Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs sparisjóðs til að ná samkomulagi við sína lánardrottna eða kröfuhafa sem staðið höfðu linnulítið undanfarna mánuði og missiri.

Rétt er að hafa í huga og leggja á það áherslu að þetta voru viðræður á vegum sparisjóðanna sjálfra á þeirra forræði, sem þeir stýrðu, með þeirri aðkomu ríkisvaldsins að þeim stóð til boða það stofnfjárframlag á grundvelli neyðarlaganna sem strax var ákveðið að sparisjóðum stæði til boða, og að því tilskyldu að sjálfsögðu að hin fjárhagslega endurskipulagning þeirra gengi þannig eftir að hún uppfyllti þær kröfur sem Fjármálaeftirlitið gerði um fjárhagslegan styrk og stöðu.

Ég hafna því alveg að skort hafi upp á vilja ríkisvaldsins í þessum efnum. Þvert á móti væru menn að sjálfsögðu ekki af einhverju áhugaleysi að gera ráð fyrir því að leggja jafnmikla opinbera fjármuni í það að endurskipuleggja sparisjóðakerfið og raun ber vitni ef mönnum væri ekki með það full alvara. Við skulum átta okkur á því að hér er verið að tala um umtalsverðar fjárhæðir, eða 22–24 milljarða kr. í allt, ef það gengur eftir að það takist að ljúka endurskipulagningunni með þátttöku ríkisins upp á þær stærðir.

Fjármálaeftirlitið hefur að sjálfsögðu sett sínar kröfur um nauðsynlegan fjárhagslegan styrk. Það er út af fyrir sig rétt að eftir því sem nánari úttekt á stöðu einstakra sparisjóða hefur undið fram, hefur þróunin því miður gjarnan orðið sú að Fjármálaeftirlitið hefur gert ríkari kröfur en upphaflega var talið að mundu nægja og það hefur haft áhrif á þetta ferli. En það hefur allan tímann legið fyrir að það væri grunnforsenda þess að fjárhagsleg endurskipulagning gengi á þeim forsendum að menn næðu að henni lokinni að uppfylla kröfur um eigið fé og fjárhagslegan styrk, nægjanlegan aðgang að lausafé og annað í þeim dúr. Þetta tókst því miður ekki í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur og Byrs og þeir kusu því að skila inn starfsleyfum sínum á fimmtudaginn var. Þá voru stofnuð ný fjármálafyrirtæki og þar kemur fjármálaráðuneytið að til að tryggja að þau séu til staðar til að taka við innlánum og eignum og reyna að sjá til þess að aðgerðin gangi sem hnökralausast fyrir sig. Það tel ég að það hafi gert, satt best að segja mjög vel, og eiga allir þeir sem lögðu hönd á plóginn og urðu að leggja hart að sér á einum sólarhring, þakkir skildar fyrir.

Ráðningarsamningar starfsfólks annarra en æðstu yfirmanna færðust sjálfkrafa yfir til hinna nýju fjármálastofnana og þannig tókst að tryggja að þetta gerðist með lágmarksröskun, bæði gagnvart starfsmönnum og auðvitað viðskiptavinum fjármálafyrirtækjanna sem komu að þeim opnum daginn eftir.

Um hremmingar sparisjóðanna almennt mætti hafa mörg orð og þá dapurlegu staðreynd hvernig þeir drógust inn í tíðarandann og viðskiptahætti sem fóru svo að lokum illa með þá. Auðvitað verður að halda því til haga að veldur nokkuð hver á heldur. Í gegnum allan þennan ólgusjó sigldu þó þrátt fyrir allt nokkrir sparisjóðir og komust í gegnum hann nokkuð vel og tveir eða reyndar þrír má segja sem ekki hafa þurft á sérstöku framlagi ríkissjóðsins að halda. En aðrir eru ýmist komnir í þrot eða þurfa á umtalsverðri fjárhagslegri endurskipulagningu að halda og hún er í gangi gagnvart átta minni sparisjóðum sem Seðlabankinn vinnur sérstaklega úr sökum þess að hin fjárhagslega endurskipulagning þeirra gerist í gegnum meðferð krafna ríkisins eða Seðlabankans á sparisjóðunum. Þær eru notaðar ýmist til að mynda nýtt stofnfé og/eða afskrifa þær að hluta til og í tilviki nokkurra sparisjóða er veittur afsláttur á þeim gegn staðgreiðslu, þannig að það kemur þeim stofnunum til góða.

Þannig lítur dæmið út að að meðtöldum Sparisjóði Keflavíkur hinum nýja og þeim átta sem Seðlabankinn hefur haft til úrvinnslu, eru tveir í viðbót sjálfstætt starfandi sparisjóðir sem eru dótturfélag Arion banka, áður Kaupþings, og fylgdu þar með Sparisjóði Mýrasýslu á sínum tíma, en af hálfu stjórnvalda hefur verið lögð á það áhersla að þeim sparisjóðum verði haldið sjálfstæðum og þeir verði í framtíðarlandslaginu hluti af sparisjóðakeðjunni, þannig að vonandi verða hér a.m.k. 11 lífvænlegir sparisjóðir starfandi á næstunni nema innbyrðis sameiningar komi til sem auðvitað getur vel orðið.

Það er að sjálfsögðu ákaflega sorglegt að sjá hvernig stofnfjáreigendur og þeir sem tóku þátt í stofnfjáraukningu eða hlutabréfaaukningu þeirra sparisjóða sem orðnir voru hlutafélög, sitja eftir með sárt ennið. Er það með dapurlegri dæmum sem þetta bankahrun skilur eftir sig sem þar getur að líta í einstökum byggðarlögum.

Næst gerist það að eignarhlutur ríkisins verður færður samkvæmt lögunum til Bankasýslu ríkisins og hún fer með hann og hefur það hlutverk að vinna úr þeim málum að móta tillögur til stjórnvalda um framtíðarfyrirkomulag og eftir atvikum svo í fyllingu tímans tillögur um sölu stofnfjárhluta eða ráðstöfun þeirra að öðru leyti. Það er alveg ljóst, og ég tek undir það sem efnahags- og viðskiptaráðherra og reyndar fleiri hafa sagt hér, að það þarf að eiga sér stað umtalsverð hagræðing í þessu kerfi. Það er rétt að menn hafi í huga hversu miklu, miklu minna sparisjóðakerfi við erum þá að endurreisa en það sem var þegar mest var umfangs og munar þar auðvitað miklu um að bæði SPRON og nú Sparisjóðurinn Byr eru horfnir af vettvangi sem slíkir. Þá kemur líka að því að móta þarf aðferðafræðina gagnvart því hvernig sparisjóðunum verður í framtíðinni tryggt sitt bakland.

Í tilviki minni sparisjóðanna mun standa eftir lítils háttar stofnfjáreign, mismikil þó, þannig að þar verður til staðar, þó í litlum mæli sé miðað við hlutfallslega eign, eitthvert stofnfjáreigendabakland, þannig að forkaupsréttur í því tilviki getur nýst til þess að færa umfangið aftur yfir til heimamanna. Væntanlega er líklegast að farin verði einhver blönduð leið forkaupsréttar þeirra stofnfjáreigenda sem fyrir eru og nýrra aðila sem vilja bætast í bakland sjóðanna.

Í tilviki hins nýja sparisjóðs í Keflavík er þessu vissulega ekki til að dreifa þar sem ríkið stofnar hann eitt og verður eini stofnfjáreigandinn og þá þarf að hugsa nýjar aðferðir til að hið sama geti engu að síður gerst, því að sjálfsögðu verða sparisjóðirnir ekki sparisjóðir nema þeir eigi sér sitt bakland í viðkomandi byggðarlögum og sína bakhjarla í breiðum hópi stofnfjáreigenda. Æskilegast er að sjálfsögðu að það sé á þeim grunni sem upphaflega var til stofnað að þar sé um að ræða fjölmennan breiðan hóp með tiltölulega litla eign hjá hverjum og einum.

Auðvitað voru það mikil vonbrigði að eftir alla þá vinnu og allan þann kostnað og allan þann tíma sem búið var að leggja í að reyna að ná samningum við kröfuhafa stóru sparisjóðanna tveggja sem eftir stóðu, og voru í þeirri miklu sérstöðu að í kröfuhafahópi þeirra voru stórir erlendir aðilar öfugt við minni sparisjóðina þar sem eingöngu var innlendum aðilum til að dreifa, að þetta skyldi fara eins og það fór. En óvissunni er a.m.k. eytt og hægt að leggja af stað í næsta áfanga verksins og vonandi fer nú dögum eða sólarhringum af því tagi sem fimmtudagurinn síðasti var að linna.

Það er enginn bilbugur á þeim sem hér stendur hvað það varðar að það er æskilegt að sparisjóðir sem eru eiginlegir sparisjóðir verði hluti af framtíðarlandslagi í okkar fjármálaþjónustu, ekki bara vegna þess mikilvægis sem þeir hafa landfræðilega á þeim svæðum þar sem þeir eru í stórum stíl einu fjármálastofnanirnar, heldur líka vegna þess að það er hollt að fjármálakerfi okkar samanstandi af fjölbreyttari stofnunum en kannski einum banka í eigu ríkisins og einum eða tveimur einkabönkum.



[16:33]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Nú ættum við kannski loksins að fara að sjá fyrir endann á fjárhagslegri endurskipulagningu hins opinbera á fjármálafyrirtækjum, því að ríkið hefur nú fengið öll fjármálafyrirtæki landsins nema þrjú í fangið. Á meðal þeirra sem enn standa eru tveir smæstu sparisjóðirnir. En hvernig fjármálakerfi þurfum við? Hvernig banka og sparisjóðakerfi viljum við? Mér finnst eins og enginn hafi spurt þessara tveggja grundvallarspurninga, hvað þá svarað þeim. Við hefðum þurft að leyfa okkur að byrja með autt borð og byggja nýtt kerfi frá grunni, sníða fjármálakerfið að raunverulegum þörfum landsmanna en ekki bara þörfum kröfuhafa eða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég held að fjármálakerfið sé enn allt of stórt og bankarnir eru of margir og allt of valdamiklir. Við lifum í græðgisþjóðfélagi þar sem vöxtur var dásamaður og hið stóra var sjálfkrafa talið betra en hið smáa. Hefðbundnir sparisjóðir sem byggðu starfsemi sína á vaxtamun voru álitnir gamaldags og úreltir og urðu olnbogabörn í samfélaginu.

Mér finnast sparisjóðirnir mikilvægir. Mér finnst mikilvægt að meginmarkmið endurreisnar þeirra verði að tryggja nærþjónustu, fjölbreytni í fjármálaþjónustu og þekkingu á atvinnulífinu á minni stöðum og í minni fyrirtækjum líka.

Ég heyrði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tala um fækkun sparisjóða og niðurskurð á yfirbyggingu þeirra. Sú fækkun má ekki bitna á þjónustu sparisjóðanna á landsbyggðinni.

Ég vil taka undir með þeim hv. þingmönnum sem töluðu hér á undan mér um að margt er enn á huldu um endurreisn sparisjóðanna og framtíð þeirra. Eiga þeir að vera hlutafélög eða byggja starfsemi sína eingöngu á stofnfé eða hvort tveggja? Hvað eru eiginlega sparisjóðir? Hvernig getum við fengið fólkið í uppbyggingu þeirra á nýjan leik, þannig að þeir verði raunveruleg fjöldahreyfing stofnfjáreigenda? Það er frekar ólíklegt að þeir sem tóku kúlulán í erlendri mynt fyrir stofnfé, og sitja nú uppi með stóra skuld án nokkurrar innstæðu, séu tilbúnir í þann slag. Mér finnst einnig brýnt að gengið sé úr skugga um hvort fólk hafi vísvitandi verið blekkt til að taka þessi lán og það sé athugað af fullri alvöru hvort um saknæmt athæfi hafi verið að ræða. Og e.t.v. þarf að skoða fleira í sögu sparisjóðanna síðustu 15 árin.

Ég vil í lokin þakka þessa þörfu umræðu og vona að við getum sameinast um mikilvægi sparisjóðanna á þeirra eigin forsendum eins og þær voru upphaflega, forsendum samfélagsábyrgðar, forsendum natni og umhyggju fyrir nærsamfélaginu og með virðingu fyrir því smáa.



[16:37]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í þessari umræðu, sem við svo sem vissum frá fyrri umræðu um sparisjóðina, að það er mikil þverpólitísk sátt um mikilvægi þeirra sem hluta af okkar fjármálakerfi. Það fer ekkert á milli mála að sparisjóðirnir hafa gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki, ekki síst úti á landsbyggðinni, og þess vegna skiptir svo miklu máli fyrir okkur að vel takist til við að endurreisa fjármálakerfið sem sparisjóðirnir eru.

Þegar neyðarlögin voru sett hinn 8. október 2008 var sett inn sérstakt ákvæði sem fól í sér að það mætti koma til liðs við uppbyggingu sparisjóðanna, endurreisn sparisjóðanna, þrátt fyrir að enginn sparisjóðanna hefði þá þegar farið á hliðina. Í lok sama árs voru settar og samþykktar í þáverandi ríkisstjórn reglur um það hvernig standa ætti að því að styðja við bakið á sparisjóðunum. Síðan eru liðin hér um bil eitt og hálft ár og það eina sem við höfum handfast í því máli er að það liggur fyrir að sparisjóðir með u.þ.b. 90% af efnahagsreikningum sparisjóðakerfisins í landinu hafa fallið og eftir standa þá sparisjóðir með u.þ.b. 10% af upphaflegum efnahagsreikningum sparisjóða. Þetta er á vissan hátt sá vandi sem við er að glíma vegna þess að sparisjóðirnir, þeir litlu, hafa ekki getað staðist nema með tiltekinni miðlægri þjónustu og forsendan fyrir þeirri miðlægu þjónustu hefur verið þátttaka og hlutdeild stærri sparisjóðanna. Þess vegna er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra upplýsi okkur um það hvernig ríkisvaldið, sem kemur til með að verða mjög ráðandi um framtíð og þróun sparisjóðanna, sjái fyrir sér að sú miðlæga þjónusta haldi áfram. Ég nefni dæmi eins og tölvukerfin, ég nefni markaðshlutann. Ég nefni útvegun erlends fjármagns sem var ekki á færi þessara litlu sparisjóða. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á þessu.

Það þarf að hraða þessari vinnu. Ég veit að af hálfu hæstv. ríkisstjórnar hefur verið unnið sleitulaust að þessum málum upp á síðkastið. Það voru auðvitað mikil vonbrigði að þeir sparisjóðir sem við ræðum um núna féllu á sumardaginn fyrsta, að þeir hafi ekki getað klárað sína fjárhagslegu endurskipulagningu en það breytir ekki því að þetta er staðan og við verðum að vinna út frá henni. Það vekur t.d. athygli að annar þeirra sparisjóða sem féll á sumardaginn fyrsta er endurreistur sem hlutafélag, ekki sem sparisjóður. Er þetta einhver vísbending, hæstv. ráðherra, um að það sé ætlunin að minnka sparisjóðakerfið enn þá frekar? Er ekki ætlunin að það sem eftir stendur af Byr sparisjóði verði hluti af sparisjóðahópnum í framtíðinni? Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á þessu, því að það er mjög hættulegt að mínu mati ef við minnkum sparisjóðakerfið enn meira frá því sem það er í dag.

Mér finnst hafa verið dálítið miklar alhæfingar hér um ástæður fyrir því að sparisjóðakerfið hrundi. Það var ekki bara þannig að allir sparisjóðirnir hafi orðið græðgisvæðingunni að bráð, eins og menn hafa verið að tala um hérna. Auðvitað voru margs konar ástæður sem ollu þessu sem ég hef áður farið yfir í ræðu, m.a. voru sparisjóðirnir í þeirri stöðu að þeir voru litlir, þeir urðu að reyna að verja sína miðlægu þjónustu. Hluti af því var t.d. Sparisjóðabankinn og margir þessara sparisjóða lögðu umtalsverða fjármuni inn í þann banka til að halda honum á lífi til þess að geta sjálfir starfað. Þetta var í raun og veru sú staða sem sparisjóðirnir voru í.

Svo má ekki gleyma því að það hefur orðið hrun á eignaverði. Margir sparisjóðir úti á landsbyggðinni lánuðu t.d. til sjávarútvegsfyrirtækja. Ætli eignamatið í sjávarútvegsfyrirtækjunum hafi ekki lækkað um svona helming frá hruninu? Sama má segja um sparisjóðina sem störfuðu í dreifbýlinu og lánuðu til landbúnaðarins. Það vita allir að t.d. jarðaverð á markaði hefur snarlækkað. Ætli þetta hafi ekki haft einhver áhrif á t.d. efnahagsreikninga þessara sparisjóða?

Margir þessara sparisjóða voru mjög sterkir. Þeir fóru í það að reyna að blása út efnahagsreikning sinn vegna þess að eigið fé þeirra var orðið óþægilega hátt miðað við það sem talið var eðlilegt að menn gætu annars fengið ávöxtun á. Það má síðan segja að í þessari „velgengni þeirra“ hafi fall þeirra á vissan hátt verið falið, vegna þess að þeir fóru út í það að gefa út skuldabréf til að lækka þetta eiginfjárhlutfall og stækka efnahagsreikning sinn.

Virðulegi forseti. Það er ekki tími til þess að fara yfir þessa forsögu. Aðalatriðið er þó að horfa fram á veginn. Það veldur mér vonbrigðum að heyra ekkert frekar frá hæstv. ríkisstjórn um viðbrögð við þeim mikla vanda sem nú blasir við í mörgum byggðarlögum vegna stöðu stofnfjáreigenda. Við vöruðum, mörg hver, við þeirri lagasetningu sem var framkvæmd hér á síðasta ári þar sem grunnurinn var lagður að því að færa niður stofnféð. Að mínu mati standa hér eftir mjög mikil og alvarleg óleyst vandamál. Þá var talað um þetta, þá var sagt að þetta biði síns tíma. Nú hafa menn beðið í heilt ár og ég heyri það á máli bæði hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að í raun og veru erum við í sömu sporum. (Forseti hringir.) Menn hafa ekki fundið neinar lausnir gagnvart þeim þúsundum stofnfjáreigenda — og gleymum því ekki að (Forseti hringir.) stofnfé og hlutafé er sitt hvað — og það er eitt sem hæstv. ríkisstjórn verður að fara að skilja.



[16:42]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa þörfu umræðu um sparisjóðakerfið á Íslandi sem er okkur mörgum mjög kært og flestum held ég. Ég velti fyrir mér þegar ég var að undirbúa mig fyrir þessa umræðu hver væri eiginlegur munur á sparisjóði og viðskiptabanka. Það fer í rauninni ekkert á milli mála því að í lögum um fjármálafyrirtæki, sem við breyttum í sumar og þar sem sérstaklega voru tekin fyrir ýmis ákvæði sparisjóðanna, kemur mjög ákveðið fram að sparisjóður hefur skilgreint samfélagslegt hlutverk í samþykktum sínum. Þar kemur mjög skýrt fram, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson talaði um rétt áðan, að stofnfé hefur annað eðli en hlutafé og stofnfjáreigendur bera ekki ábyrgð umfram stofnfjáreign sína. Síðan kemur mjög ákveðið fram að sögulega séð eru sparisjóðir fyrst og fremst fjármálastofnanir minni byggðarlaga sem á ákveðnum tíma áttu ekki sama aðgang að fjármagni og hin stærri. Fólkið í byggðarlaginu lagði fé sitt í sjóðinn, svokallað stofnfé, og sló þannig tvær flugur í einu höggi, ávaxtaði fé sitt og studdi við atvinnustarfsemi heima fyrir.

Ákveðin fjölbreytni í fjármálafyrirtækjaflórunni skiptir okkur mjög miklu máli og þess vegna eigum við að standa vörð um sparisjóðakerfið. Auðvitað verðum við að horfast í augu við það að ákveðin skynsemi verður að vera í því hvað það kostar, þannig að við leggjum ekki allt að veði við endurreisn ákveðins kerfis. Við verðum að vita hvað það kostar og ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra fari aðeins inn á það á eftir.

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að í raun og veru voru sparisjóðirnir miklu verr staddir en við gerðum okkur grein fyrir flest held ég. Ég hafði t.d. ekki gert mér grein fyrir því að afkoma kjarnastarfsemi sparisjóðanna var neikvæð löngu fyrir hrun. Ég hafði gert mér grein fyrir því og um það var mikið talað að stofnfé var hækkað mjög og greiddur var út arður þó að allir vissu að eiginfjárstaðan væri afar veik. Það er ljóst að við verðum að horfast í augu við það að við þurfum að draga lærdóm af því sem gerðist innan sparisjóðanna og jafnvel að rannsaka það enn frekar. Við verðum að horfast í augu við það, þó svo að við séum mörg mjög skotin í sparisjóðakerfinu, að þar viðgekkst ýmislegt sem við viljum ekki sjá.

Ég held að það skipti okkur mjög miklu máli að við förum í stefnumótun, að við ákveðum það hér á pólitískum vettvangi hvernig sparisjóðakerfi við viljum sjá og felum síðan Bankasýslu ríkisins að útfæra það fyrir okkur meðan staðan er eins og hún er. Það er einnig mjög áhugavert að sjá að velta þeirra sem ekki eru farnir á hausinn var í raun og veru einungis 10% af heildarveltu sparisjóðanna. Mér finnst það segja okkur ákveðna sögu um það hve stærðin getur verið vandmeðfarin og í raun og veru hættuleg.

Við vitum af þeim vanda sem hér hefur ítrekað verið talað um í umræðunni, hversu illa fór fyrir mörgum sem juku stofnfé sitt. Vonandi finnum við leið til að hjálpa því fólki og jafnvel heilu byggðarlögunum sem hafa farið mjög illa út úr stofnfjáraukningu. Við getum ekki annað en horfst í augu við að það er ákveðið samfélagslegt mein sem við verðum að takast á við.

Ég hef fulla trú á því að eftir fjárhagslega endurskipulagningu verðum við með öflugt sparisjóðakerfi eftir sem áður, minna en það er núna, öflugt og heilbrigt. Það skiptir nefnilega miklu máli að hið nýja kerfi, sem rís úr öskustó þess sem féll, sé heilbrigt sparisjóðakerfi með aukinni áherslu á upprunalegt hlutverk sitt., þ.e. að vera ekki síst til fyrir fólkið á landsbyggðinni og með skilgreint samfélagslegt hlutverk.



[16:47]
Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með það að við skulum eiga hér lengda umræðu um uppbyggingu sparisjóðakerfisins í landinu og veitir svo sannarlega ekki af þeim tíma til að fara yfir þetta mikilvæga mál. Við framsóknarmenn höfum á undangengnum mánuðum og árum talað fyrir mikilvægi sparisjóðanna, sérstaklega fyrir landsbyggðina. Mér heyrist á þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað í dag að við framsóknarmenn eigum ágæta samleið með ríkisstjórninni þegar kemur að málefnum sparisjóðanna.

Vegna orða hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, fyrr í umræðunni um að einhverjar ávirðingar væru um meint áhugaleysi hans eða annarra í ríkisstjórn á því að byggja upp þetta mikilvæga rekstrarform get ég einfaldlega staðfest það fyrir mína parta, eftir samtöl við hæstv. ráðherra, að þar fer maður sem hefur áhuga á því að byggja upp sparisjóðina á þeim gildum sem þeir voru upphaflega stofnaðir til. Við framsóknarmenn erum einfaldlega sammála þeim áherslum þó að okkur geti greint á um það hversu hratt við viljum koma þeim framkvæmdum í verk, en við viljum eiga gott samstarf við ríkisstjórnina um uppbyggingu þeirra.

Þessar stofnanir eru nefnilega kjölfestan í mörgum, litlum samfélögum vítt og breitt um landið. Þær hafa styrkt marga innviði í sínum samfélögum, íþróttafélög, menningarstarf og fleira mætti nefna.

Ég kem úr bæ þar sem elsti starfandi sparisjóður á Íslandi er í dag, Sparisjóður Siglufjarðar. Mig minnir að hann hafi verið stofnaður 1873 og er hann þá orðinn 137 ára. Sú stofnun er ekki stöðnuð. Hún er mikilvæg í mínum heimabæ. Þar vinna yfir 40 manns í dag. Þetta er einn stærsti vinnustaður bæjarins. Þessi elsta starfandi peningastofnun landsins hefur verið mjög drjúg í því að ná sér í verkefni til að skjóta meiri kjölfestu undir byggðina í samfélagi sínu.

Það er mikilvægt að vítt og breitt um landið horfum við upp á sparisjóðina starfa í þeirri mynd sem þeir voru upphaflega ætlaðir til. Ég lýsi yfir miklum áhuga hjá okkur framsóknarmönnum á að koma að þeirri uppbyggingu og að þeirri framtíðarsýn því að ég tel að með öflugum sparisjóðum vítt og breitt um landið séum við í raun og veru að endurreisa íslenskt efnahagslíf og íslenska fjármálastarfsemi. Með fleiri sparisjóðum erum við að gera íslenska fjármálamarkaðinn fjölbreytilegri.

Mig langar aðeins að minnast á það hvernig komið er fyrir mörgum fjölskyldum í tilteknum samfélögum sem leituðust við að styrkja við sparisjóðinn sinn. Þar get ég nefnt Húnaþing vestra og líka Dalvíkurbyggð þar sem tugir fjölskyldna eru nú í gríðarlega erfiðum málum vegna þess að fólk lagði þar inn mikla fjármuni, tók jafnvel lán eftir mikla hvatningu, til að styðja við bakið á sparisjóðnum sínum. Það er mikilvægt byggðamál að við leysum úr þessum vanda sem allra fyrst.

Á laugardaginn hitti ég Elínu R. Líndal, formann byggðaráðs í Húnaþingi vestra, og hún lýsti ágætlega fyrir mér hvernig staðan er í því litla samfélagi. Það má einfaldlega ekki dragast lengur að menn takist á við þetta byggðamál. Það mál sem snertir miklar skuldir bænda og einstaklinga í Húnaþingi vestra er farið að hafa greinileg áhrif á samfélagið. Menn þurfa að takast á hendur að leysa úr þessu vandamáli, rétt eins og í fleiri samfélögum eins og ég nefndi, til að mynda í Dalvíkurbyggð.

Ég hlakka til þess, frú forseti, að eiga aðkomu að því að móta framtíðarsýn um hvernig samfélag við viljum byggja upp til framtíðar. Þar munu sparisjóðirnir gegna lykilhlutverki. Hugmyndafræði sparisjóðanna er ekki svo ólík samvinnustefnunni; einn maður/eitt atkvæði, lýðræðisleg stofnun sem ég hef mikinn áhuga á að við sjáum endurvakta vítt og breitt um landið. Eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi áðan verða trúlega 11 sparisjóðir starfandi í framtíðinni hér á landi. Vonandi verða þeir fleiri því að fólki þykir vænt um sparisjóðinn sinn. Sparisjóðurinn hefur mikil tengsl við fólkið í þessum byggðarlögum og fólk skiptir við sparisjóðinn sinn. Vonandi getum við byggt upp hógværar stofnanir sem stunda eingöngu viðskipti við fyrirtækin (Forseti hringir.) á sínum stað og fólkið á staðnum, viðkomandi byggðarlagi til hagsbóta. (Forseti hringir.)



[16:53]
Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er mjög þarft að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra upplýsi okkur um stöðu þessara mála.

Ég vil byrja á því að taka upp þráðinn frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni þar sem hann fjallaði um stöðu byggðarlaga. Ég tek undir með hæstv. fjármálaráðherra þegar hann segir að líklega sé ein af sorglegustu afleiðingum bankahrunsins mikil lántaka hjá einstaklingum og fyrirtækjum, einkum einstaklingum, til stofnfjárkaupa sem fara mjög illa með byggðarlög, eins og til að mynda Húnaþing vestra núna.

Samkvæmt úttekt sem gerð var af Byggðastofnun fyrir sveitarfélagið Húnaþing vestra kemur fram að 137 aðilar eigi þarna stofnfé og það nemi nokkrum milljörðum króna. Til samanburðar er tekið fram að heildartekjur hjá íbúunum á þessu svæði séu um tveir milljarðar króna á ári. Þarna hvíla á skuldir sem eru yfir launatekjunum á viðkomandi svæði. Þetta er grafalvarlegt mál og ég tek undir með þeim sem hafa hér talað um hversu dapurlegt þetta er.

Hér hefur verið rifjuð upp saga sparisjóðanna, hvernig hún byrjaði og hvenær. Þetta byrjaði allt þegar Fjármálaeftirlitið heimilaði Sparisjóði Hafnarfjarðar að selja stofnbréf á yfirverði. Þá byrjaði hasarinn, þá var búið að kasta þessum bolta og eftir það fór þessi taumlausa einkavæðing á sparisjóðunum af stað þar sem ekkert var heilagt. VG flutti ítrekað tillögur á þingi, skrifaði greinar, talaði gegn þessu, lagabreytingartillögur voru ítrekað lagðar fram á hverju löggjafarþinginu á fætur öðru, en þeim var ekki vel tekið. Nú er það að koma á daginn að hefði verið gripið inn í og ráðist í einhverjar þeirra tillagna sem þá voru lagðar fram væri ástandið ekki með þessum hætti í Húnaþingi vestra.

Okkur ber að horfa til framtíðar með þetta sparisjóðakerfi og hvernig við viljum sjá það þróast áfram. Ég held að ráðast þurfi í mun róttækari breytingar á lagaumgjörðinni til að verja fyrirtæki sem þessi og þá félagslegu hugsjón sem þar býr að baki. Það má velta fyrir sér hugsanlegri sérlöggjöf um starfsemi sem þessa, að henni sé hugsanlega ekki nægilega vel fyrir komið inni í þessum almennu lögum um fjármálafyrirtæki, en heildarendurskoðun á þessu rekstrarformi verður að fara fram og með þær hugsjónir að leiðarljósi sem þarna búa að baki.

Hitt verðum við líka að horfa á, það hvernig þetta gerðist. Við getum tekið til að mynda þá sem eru í Húnaþingi vestra og víðar sem eru með miklar skuldir á bakinu. Á hvaða forsendum var þessu fólki veitt lán? Hvaða upplýsingar fékk það? Hverjir voru þarna í stafni? Hverjir töluðu mest fyrir þessu? Auðvitað leysir það ekki vandann, en þetta er klárlega það sem þarf að skoða og það kemur til að mynda fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna að ekki hafi verið fjallað sérstaklega um málefni sparisjóðanna. Það hefur reyndar komið fram í fjölmiðlum undanfarna daga, en í skýrslunni er líka tekið fram að sparisjóðirnir og það sem þar gekk á verðskuldi rannsókn.

Ég er með í undirbúningi þingsályktunartillögu sem ég vonast til að ríkur stuðningur verði við hér. Hún felur í sér ítarlega rannsókn á því hvað gekk á í sparisjóðunum og það verði síðan útfærsluatriði hvort því verði skilað til þeirrar nefndar sem nú er að vinna þetta eða hvort rannsóknarnefnd sparisjóðanna skili sjálfstæðu áliti. Þar verði farið ofan í allar þær lagabreytingar sem voru gerðar með það að markmiði að ráðast að sparisjóðakerfinu, það verði farið ofan í það hvar mistökin lágu, hvað hafi farið úrskeiðis og veikt þetta félagslega rekstrarform sem kom því í þá stöðu sem það er í í dag.

Ég sakna þess að í þingsal skuli ekki vera þeir sem töluðu hvað mest fyrir því að ráðast í þessa einkavæðingu á sparisjóðakerfinu. Ég vil að endingu segja að fyrr í dag var í umræðunni minnst á ameríska bíómynd sem heitir Groundhog Day sem fjallar um það að einstaklingur vaknaði upp á hverjum degi (Forseti hringir.) og lifði sama daginn aftur. Hvernig var þetta hér? (Forseti hringir.) Menn vöknuðu upp á hverjum degi og þeir spörkuðu í þetta félagslega kerfi — samfellt. (Forseti hringir.)

Ég fagna því að (Forseti hringir.) þingmenn séu komnir út úr þessum Groundhog Day (Forseti hringir.) og vonast til þess að (Forseti hringir.) þegar farið verður að ræða þetta (Forseti hringir.) frekar hoppi menn ekki aftur inn í (Forseti hringir.) þennan svart/hvíta raunveruleika.



[16:58]
Forseti (Ragnheiður Ríkharðsdóttir):

Forseti biður hv. þingmenn um að virða þau tímatakmörk sem samið var um í umræðunni.



[16:58]
Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér sparisjóðina og örlagasögu þeirra. Eins og heyra mátti á máli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er með eindæmum hvernig farið var með sparisjóðina og sparisjóðakerfið. Ég hygg að það hljóti að vera einsdæmi í heimssögunni að 90% af einstöku fjármálakerfi hafi farið á hausinn. Við skulum ekki gleyma því að sparisjóðakerfið var fórnarlamb þeirrar græðgisvæðingar og þeirrar hugmyndafræði sem ákveðinn stjórnmálaflokkur stóð hér fyrir lengi og beitti sér fyrir nánast á hverjum degi, eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði, það var reynt að eyðileggja það meira og meira.

Lýsingar hæstv. ráðherra á falli þessara stofnana virtust mér einfaldlega lýsingar á einhvers konar stórfelldri svikamyllu. Það er dapurlegt að þetta skuli hafa vaðið uppi, en hvað höfum við í staðinn? Við vitum hvaðan við komum í þessu máli, en hvert ætlum við að fara? Ég sé ekki betur en að það vanti enn þá, því miður, heildarstefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar til framtíðar hvað varðar fjármálakerfið í heild og einstaka þætti og einstakar tegundir fjármálafyrirtækja.

Hér er verið að leysa til sín sparisjóði og reyna að bjarga þeim eftir bestu getu, sparisjóð fyrir sparisjóð. Við erum aftur á móti búin að endurreisa bankakerfið í sinni gömlu mynd. Við sitjum uppi með bankakerfi sem er í rauninni allt of stórt fyrir þarfir þjóðarinnar. Við sitjum uppi með bankakerfi þar sem fjárfestingarbankar og viðskiptabankar eru í sömu stofnuninni. Ég hef starfað í fjárfestingarbanka og fjárfestingarbankastarfsemi er algjörlega óskyld viðskiptabankastarfsemi. Það má tala um þetta sem tvö algjörlega aðskilin fyrirtæki í rauninni. Fjárfestingarbankastarfsemi er allt annars eðlis. Ég skil ekki hvernig stendur á því að ríkisstjórnin skuli endurreisa þetta kerfi með sama fyrirkomulagi og var. Áratugum saman var t.d. bannað í Bandaríkjunum að hafa fjárfestingarbanka og viðskiptabanka undir sama þaki. Í nýframkomnu frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra, sem nú er í viðskiptanefnd og snýr að endurskipulagningu fjármálafyrirtækja, er ekki verið að skilja á milli fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi.

Ég hef ekki séð hver hefur ákveðið þetta og hvar það hefur verið ákveðið. Ég lýsi eftir svari við því hver ákvað þetta. Var það ríkisstjórnin? Var það efnahags- og viðskiptaráðherra? Var það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn? Þetta er svolítið mikið grundvallaratriði hvað varðar framtíð íslenska fjármálakerfisins, ekki síst vegna þess að viðskiptabankar eru með innstæðutryggingar og þegar við höfum viðskiptabanka og fjárfestingarbanka undir sama þaki býr fjárfestingarbankastarfsemin við það skjól að það er í rauninni de facto ríkisábyrgð á innstæðum innstæðueigenda í fjárfestingarbankanum. Það að það skuli vera ríkisábyrgð, bein eða óbein, á fjárfestingarbankastarfsemi er ekki bara óæskilegt, það er fráleitt og það hlýtur að koma til ítarlegrar skoðunar hvernig hægt er að koma þessu fyrir með öðrum hætti.

Nú hefur því margoft verið lýst yfir að endurreist bankakerfi er með ríkisábyrgð á öllum innstæðum. Hvað á það að vera svoleiðis lengi? Hvað á fjárfestingarbankastarfsemi á Íslandi að vera með ríkisábyrgð lengi? Á hún að vera svoleiðis til frambúðar? Hún verður það til frambúðar svo lengi sem þetta tvennt er undir sama þaki.

Við höfum líka fjallað um eftirlitið sem á að vera með þessum stofnunum. Við vitum að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn brugðust algjörlega í aðdraganda hrunsins. Það breytir því ekki að enn þá er til staðar allt sama starfsfólkið, nema æðstu stjórnendur þessara stofnana, í sínum gömlu störfum við það að endurreisa sama hrófatildrið, að mér virðist, að einhverju leyti úr gömlu fúaspýtunum. Það hefur sýnt sig að eftirávirkt eftirlit virkar ekki.

Ég starfaði við hliðina á mönnum í fjárfestingarbanka í New York sem vissu að þeir ættu yfir höfði sér 30 ára fangelsi ef það kæmist upp um það sem þeir væru að gera. Þeir víluðu engu að síður ekki fyrir sér að fara út í það og við sjáum af fjölmörgum dómsmálum frá Bandaríkjunum að eftirávirkt eftirlit, þó að það séu þungar refsingar við brotunum, virkar ekki. Það þarf að koma í veg fyrir glæpina og svindlið fyrir fram. Það þarf að gera það með afgerandi hætti. Sú sorgarsaga sem við búum við lýsir sér kannski best í Húnaþingi vestra. Það er nokkuð sem má ekki endurtaka sig og þarf ekki að endurtaka sig (Forseti hringir.) ef menn hugsa svolítið vel út í það sem þeir eru að fara að gera.



[17:04]
efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (-):

Frú forseti. Ég þakka ágæta umræðu sem hefur verið málefnaleg og að mínu mati dregið fram víðtækan stuðning þingheims við sparisjóðakerfið og sparisjóðahugsjónina. Í ljósi þess tel ég engan vafa á að hægt verður að safna liði og fá þann stuðning sem þarf bæði innan þings og utan til þess að ýta endurreistu sparisjóðakerfi úr vör með eðlilegri umgjörð sem væntanlega endurspeglar þær hugsjónir sem menn hafa rætt í dag og voru grunnurinn að sparisjóðakerfinu þegar það fyrst leit dagsins ljós á 19. öld.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson sagði réttilega að stofnfé og hlutafé væri ekki það sama. Um það er enginn ágreiningur. Ég verð þó að benda á að eitt af því sem leiddi til þess að sparisjóðakerfið sogaðist niður með bankakerfinu í fallinu var að menn fóru í ríkum mæli að líta á stofnfé sem nánast ígildi hlutafjár á síðustu árum fyrir hrun bankakerfisins. Það á ekki að vera það sama. Hvort tveggja er að vísu eigið fé en hluthafar í hlutafélagi, hvort sem það er banki eða eitthvert annað hlutafélag, eiga allt fyrirtækið. Þeir eiga kröfu á allt eigið fé og allan hagnað. Stofnfjáreigendur í sparisjóði með sama hætti og sambærilegir eigendur að kaupfélögum eiga ekki kröfu á allt eigið fé viðkomandi fyrirtækis. Þeir eiga sinn hlut og þeir geta fengið á hann eðlilega, heilbrigða og vonandi ágæta ávöxtun en þeir eiga ekki kröfu á afganginn af eigin fé viðkomandi sparisjóðs eða kaupfélags ef út í það er farið. Þessu reyndu menn að breyta og tókst á síðustu árum fyrir hrun bankakerfisins. Sú leikfimi skildi ekki bara sparisjóðakerfið eftir stórskuldugt heldur líka stofnfjáreigendur.

Nú hefur þingið breytt lögum um fjármálafyrirtæki og sérstaklega ákvæðum um sparisjóði á þann veg að ekki á að vera hægt að leika þennan sama leik aftur. Ég tel að lögin geri það skýrt og ég vona og trúi að menn hafi lært nógu mikið af reynslunni til þess að lögunum verði ekki aftur breytt í það horf sem þau voru þegar mönnum tókst á undanförnum árum að sneiða hjá þeim grundvallarmun sem er á stofnfé og hlutafé.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson spurði um kostnað sem fellur á ríkissjóð vegna sviptinga undanfarinna daga í sparisjóðakerfinu. Ríkissjóður verður því miður fyrir tilfinnanlegu tjóni vegna vandræða sparisjóðakerfisins. Það tjón kom í raun og veru að mestu fram haustið 2008 vegna lána Seðlabankans til Sparisjóðabankans, eða Icebank, fyrst og fremst og óbeint til sparisjóða – það var verulegt tjón. Ég fæ ekki séð að við þessar breytingar bætist á það tjón. Að vísu mun ríkissjóður fyrirsjáanlega leggja sparisjóðum til talsvert eigið fé en það er eign sem vonandi skilar arði og er jafnvel hægt að selja síðar. Ef reksturinn gengur þokkalega og helst vel fær ríkið það fé aftur með vöxtum. Ríkið tekur ákveðna áhættu, eins og allir aðrir sem leggja fyrirtækjum í rekstri til eigið fé, en ekki er verið að niðurgreiða tap annarra eða taka á sig fyrirsjáanlegt tjón. Ríkið ber auðvitað áhættu nú þegar. Hún breytist í raun og veru ekkert við það sem gerðist í síðustu viku vegna yfirlýsinga um að allar innstæður séu tryggar en ég á von á því að eignir Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs nægi fyrir innstæðum þannig að ekki reyni á það.

Að lokum þetta: Tveir hv. þingmenn nefndu til sögunnar bandaríska kvikmynd sem heitir Groundhog Day . Vissulega má líkja ýmsu í íslensku samfélagi síðustu missirin við þá ágætu kvikmynd en ég ætla að leyfa mér — svona til þess að enda umræðuna á björtum nótum — að minna á að sú mynd fékk hamingjusaman endi eins og bandarískar kvikmyndir gera almennt.