141. löggjafarþing — 5. fundur
 18. september 2012.
málefni innflytjenda, 1. umræða.
stjfrv., 64. mál (stjórnsýsla, Fjölmenningarsetur, innflytjendaráð o.fl.). — Þskj. 64.

[14:49]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um málefni innflytjenda. Frumvarpið var lagt fram á 140. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er efnislega óbreytt frá síðustu framlagningu en gerðar hafa verið breytingar á orðalagi reglugerðarheimildar.

Samkvæmt frumvarpinu er markmið laganna að stuðla að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Markmiðinu skal meðal annars náð með því að tryggja að hagsmunir innflytjenda séu samþættir allri stefnumótun, stjórnsýslu og þjónustu hins opinbera. Einnig skal stuðla að víðtæku samstarfi allra aðila sem koma að málum innflytjenda, efla fræðslu og miðlun upplýsinga um málefni innflytjenda og samfélag án fordóma og styðja við rannsóknir og þróunarverkefni.

Í frumvarpinu er einkum fjallað um hvernig stjórnsýslu í málefnum innflytjenda skuli háttað. Þar er gert ráð fyrir að festa í sessi ákveðið starfsumhverfi sem mótast hefur á grundvelli reynslu undanfarinna ára og tryggja þannig framhald þeirra verkefna sem unnið hefur verið að undanfarin ár. Sem kunnugt er hefur innflytjendum fjölgað ört síðustu árin en samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands voru innflytjendur hér á landi 8.425 árið 2000 en árið 2011 voru þeir orðnir 25.693.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um starfsemi Fjölmenningarseturs. Var gert ráð fyrir að aðsetur þess yrði áfram á Ísafirði. Hlutverk þess skal meðal annars vera að sinna ráðgjafar- og upplýsingahlutverki, hvort sem er til innflytjenda, stjórnvalda, stofnana, fyrirtækja, félaga eða einstaklinga. Fjölmenningarsetrið skal einnig koma á framfæri við ráðherra, innflytjendaráð og önnur stjórnvöld ábendingum og tillögum um aðgerðir sem hafa það að markmiði að allir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu óháð þjóðerni og uppruna. Einnig skal Fjölmenningarsetrið fylgjast með þróun innflytjendamála í þjóðfélaginu, m.a. með upplýsingaöflun, greiningu og upplýsingamiðlun, og hafa eftirlit með framgangi verkefna í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um innflytjendaráð sem hafi meðal annars það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málefnum innflytjenda, stuðla að samhæfingu og samráði milli ráðuneyta, sveitarfélaga og innan stjórnsýslunnar og stuðla að opnum umræðum um málefni innflytjenda.

Þá er í frumvarpinu ákvæði um þróunarsjóð innflytjendamála, en sjóðurinn hefur það hlutverk að efla rannsóknir og styðja við þróunarverkefni á málefnasviðinu.

Loks er lagt til að þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda verði lögð fram á Alþingi á fjögurra ára fresti ásamt skýrslu um stöðu og þróun í málaflokknum. Í framkvæmdaáætluninni skal kveða á um verkefni sem hafa það að markmiði að stuðla að samfélagi þar sem allir einstaklingar geti verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna.

Hæstv. forseti. Fjölmenningarsetrið hefur verið starfrækt á Vestfjörðum, á Ísafirði, um árabil og var stofnað þar vegna mikils fjölda innflytjenda einmitt þar. Í tengslum við umræðuna um stöðu byggðar á Vestfjörðum og íbúaþróun kynnti ríkisstjórnin á fundi sínum á Vestfjörðum í apríl síðastliðnum að festa ætti stofnunina í sessi á Vestfjörðum og nýta þá reynslu sem þar hefur fengist. Þannig er tilgangur þessa frumvarps að festa í sessi stofnunina og staðsetningu hennar.

Ljóst er að málefni innflytjenda eru fyrst og fremst verkefni sveitarfélaga og er hverju sveitarfélagi skylt að sinna þjónustu við íbúa sína óháð þjóðerni og uppruna. Hlutverki ríkisins, samanber ákvæði frumvarpsins, er auðvelt að sinna hvar sem er á landinu og því rökrétt framhald að starfið verði áfram á Vestfjörðum og stofnunin þá þar.

Ég legg áherslu á að með þessu frumvarpi er verið að stíga mikilvægt skref til að tryggja bætta stöðu innflytjenda. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði, eins og ég sagði áður, ákvæði um Fjölmenningarsetur og innflytjendaráð sem ætlað er að vinna að því markmiði. Leyfi ég mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og 2. umr.



[14:53]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. velferðarráðherra fyrir framsögu fyrir þessu frumvarpi. Eins og kemur fram í því byggir það á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:

„Rík áhersla verður lögð á að tryggja rétt og þátttöku fólks af erlendum uppruna og lög um hælisleitendur verði endurskoðuð. Ný lög sett um málefni innflytjenda.“

Hér er verið að því en hér er jafnframt fjallað um að enn á eftir að taka upp tvær reglugerðir í íslenskan rétt sem snúa að innflytjendum, og líklega er það vegna þess að við erum í umsóknarferli að Evrópusambandinu.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja ráðherrann hvers vegna ekki hafi verið sett ein heildarrammalöggjöf um málefni innflytjenda þar sem þessar tvær reglugerðir frá Evrópusambandinu voru settar inn í lögin. Eins spyr ég hvers vegna ekki hafi verið sett inn í þetta frumvarp þessir svokölluðu kvótaflóttamenn. Mér finnst það mikill galli að lög um innflytjendur skuli vera á víð og dreif í lagasafninu í stað þess að hafa ein heildarlög.

Markmið laganna er meðal annars að innflytjendur skuli vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Hvernig er hægt að tryggja það með lögum? Hér stendur jafnframt að það sem ekki er fjallað um í frumvarpinu séu réttindi og skyldur innflytjenda. Um leið og einhverjum ákveðnum hópi eða einstaklingum eru færð réttindi, í þessu tilfelli þau réttindi að búa hér á landi, fylgja því jafnframt þær skyldur að gangast undir þau lög og þær reglur sem eru í gildi í því samfélagi, í þessu tilfelli á Íslandi. Hvers vegna var þetta ekki haft með í frumvarpinu þar sem þessir aðilar væru með það alveg á hreinu samkvæmt lögum hverjar skyldur þeirra væru í nýju samfélagi?



[14:55]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að hér er alls ekki um að ræða heildarlög. Hér er fyrst og fremst tekið á meginmarkmiðum varðandi málefni innflytjenda og síðan stofnanastrúktúrnum. Þannig var ákveðið að fara í þetta. Ég átta mig ekki alveg á hvaða reglugerðir hv. þingmaður er að tala um en ég geri ráð fyrir að ég fái betri skýringar á því. Það er þó í gangi vinna og afraksturinn var sérstök skýrsla sem bæði velferðarráðuneytið og innanríkisráðuneytið áttu aðild að þar sem fjallað er einmitt um hælisleitendur sem og kvótaflóttamenn. Heil bók var gefin út og það er verið að vinna tillögur að lagasetningu í framhaldi af því. Sú vinna er í fullum gangi í innanríkisráðuneytinu þannig að við eigum von á því að fá þær niðurstöður einhvern tímann á haustmánuðum. Þar er meðal annars fjallað um hvaða réttindi og skyldur sérstaklega þeirra sem koma utan Evrópska efnahagssvæðisins gilda gagnvart því hverjir koma til landsins, atvinnuleysi, dvalarleyfi o.s.frv.

Ég vænti þess að fá að vita aðeins betur hvaða reglugerðir er verið að tala um. Eitt af því sem við höfum glímt við er krafa frá ESB og dómstólum um mismunatilskipunina. Hún er mjög langt komin í vinnu, er á þingmálaskrá og kemur vonandi inn í þingið.



[14:57]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég var að vísa í er á bls. 4 í frumvarpinu, t.d. þetta með framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis og almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi, þannig að ráðherrann getur kynnt sér það.

Vinstri flokkarnir kunna eitt best af öllum hér á landi, og þótt víðar væri leitað, og það er að setja á stofn og efla opinberar stofnanir í kreppuástandi, fjölga opinberum starfsmönnum, setja reglugerðarheimildir í frumvörp sem koma til þingsins og framselja þar með lagasetningarvaldið úr þinginu og búa til og sitja á sjóðum sem ráðherra úthlutar úr sjálfur. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Þetta er allt saman að finna í þessu frumvarpi. Sem ég segi er hér ekki lögð áhersla á að auka eða styðja eða styrkja almenna vinnumarkaðinn. Nei, enn á ný er verið að ríkisvæða og eyða dýrmætu fjármagni í ríkisstofnanir. Eins og ég fór yfir er þetta akkúrat stefna kratískra stjórna.

Í fjárlögum 2012 er gert ráð fyrir að tæpar 30 milljónir fari til þessa nýja seturs sem hæstv. velferðarráðherra fór yfir í framsöguræðu sinni. Við þessa stofnun eru 3,25 stöðugildi. Í ljósi þess sem kemur fram í frumvarpinu um að ekki eigi að auglýsa stöðurnar í hinu nýja setri sem á að setja á stofn heldur sé um einhvers konar endurráðningar að ræða spyr ég: Var það ekki meiningin og stefna vinstri stjórnarinnar að auglýsa allar stöður og passa upp á jafnrétti kynjanna í stöðuveitingum, sérstaklega í ljósi þess að nú hafa tveir ráðherrar í ríkisstjórninni brotið jafnréttislög, þótt ekki sé annað?



[14:59]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að vera hreinskilinn með að ég átta mig ekkert á um hvaða athugasemd er verið að ræða hér. Að við séum að setja á stofn stofnun sem er búin að vera lengi starfandi á Ísafirði og er verið að formgera með þeim hætti að það er verið að festa hana í sessi? Hún er búin að vera starfandi mjög lengi og langflestir innflytjendur voru á því svæði, þess vegna var setrið sett þar niður löngu fyrir tíma þessarar ríkisstjórnar.

Það er ánægjulegt að heyra að það sé upplifun viðkomandi hv. þingmanns að það sé verið að fjölga opinberum starfsmönnum. Við höfum frekar legið undir ámæli fyrir að fækka þeim, enda liggur fyrir að það hefur fækkað um 1–2 þús. starfsmenn. Það er í sjálfu sér ekki ástæða til að fagna en það hefur verið afleiðing af því að við þurftum að bregðast við því hruni sem hér varð.

Varðandi sjóði ráðherra er einmitt verið að formgera þá. Það hafa verið sjóðir um innflytjendamál og svo er í ýmsum öðrum málaflokkum. Það er alrangt að ráðherra úthluti úr þeim. Það eru stjórnir sem fjalla um úthlutanir, hafa gert það mjög faglega og unnið þá vinnu mjög vel. Þarna er verið að beina ákveðnu fjármagni til rannsóknaverkefna til að vinna að og fylgja eftir ákveðnum verkefnum. Eitt af því sem skiptir mestu máli í þessari umræðu og er einmitt markmiðið með þessari stofnun og því formi sem hér er sett á laggirnar er að taka ekki ríkisábyrgð á einhverjum ákveðnum íbúum sveitarfélaga. Sveitarfélögin eiga að sjá um sína íbúa, hvort sem þeir koma frá Asíulöndum, Ameríku eða Evrópulöndum, og þjónusta þá til jafns. Þeirri reglu viljum við halda, það á ekki að stimpla fólk eða flokka það eftir því hvaðan það kemur.

Varðandi stefnu krata get ég svo sem fjallað um hana einhvern tímann síðar en það er alveg rétt að í henni felst að jafna kjör og færa til sem er okkar meginmarkmið.



[15:01]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguræðu hans um þetta frumvarp. Eins og fram kemur er það engin heildarlöggjöf um málefni innflytjenda heldur er um að ræða löggjöf eða frumvarp sem tekur til skipanar stjórnsýslu í málefnum innflytjenda. Það er nauðsynlegt að formgera hana og festa í sessi.

Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu liggur fyrir að enn á eftir að ræða aðra þætti sem snúa að þessu. Þarna hefur verið vikið að tilskipun Evrópusambandsins um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis og fleira í þeim dúr. Frumvarpið er ekki flutt í neinu tómarúmi, málið á sér alllanga forsögu.

Þegar við skoðum þetta í ákveðnu samhengi blasir við að smám saman hefur það orðið verkefni sem við höfum orðið að takast á við hvernig við ætlum að skipa málefnum innflytjenda til lengri tíma, annars vegar í almennri löggjöf og hins vegar í stjórnsýslunni. Fyrir fáum áratugum var íslenska þjóðfélagið tiltölulega einsleitt, innflytjendur voru ekki margir. Á millistríðsárunum fengum við að vísu innflytjendur frá Mið-Evrópu sem auðguðu mjög menningarlíf okkar. Síðar komu innflytjendur frá fjarlægari löndum sem höfðu líka áhrif á menningu Íslands, meðal annars matarmenningu. Við sjáum það á tölum sem hafa birst að þeim hefur farið fjölgandi sem flust hafa til landsins af mörgum ástæðum. Meðan vöxtur var sem mestur í samfélagi okkar fluttu mjög margir útlendingar hingað til lands, unnu hér mjög mikilvæg störf sem ella hefðu ekki verið unnin og hefðu þar með ekki skapað þann arð sem þjóðfélagið sannarlega var að skapa með störfum þessa fólks.

Ef við skoðum þetta í 30 til 40 ára samhengi sjáum við að í sjávarútvegi hefur það tíðast mjög lengi að útlendingar hafa komið til starfa. Fyrst var það í kringum 1970, meðal annars á Vestfjörðum, Austfjörðum, Norðurlandi og víðar, að fólk kom frá Nýja-Sjálandi og Ástralíu, hafði verið að ferðast um Evrópu, tók eins konar manndómsvígslu á þeim ferðum sínum, og komst að því að á Íslandi var hægt að vinna sér fyrir farareyrinum með því að setja sig niður úti um landið. Á sínum tíma auðgaði þetta fólk þau samfélög sem í hlut áttu. Það sem var þægilegt í þessum efnum var það að tungumálaþröskuldurinn var tiltölulega lágur. Þetta fólk talaði ensku. Þarna urðu til tengsl, hjónabönd og sambönd, sem hafði þau áhrif að þetta fólk settist að í viðkomandi byggðarlögum eða Íslendingar fluttu með sínum nýju mökum til annarra landa alveg eins og lífið gengur fyrir sig.

Eins og ég nefndi hefur þetta líka verið að breytast í þeim skilningi að útlendingar hafa komið frá fjarlægari heimsálfum þar sem tungumálaþröskuldurinn er hærri og menn hafa kannski borið með sér nýja og nýstárlegri menningu sem menn hafa verið að reyna að takast á við að skilja og meðtaka og kannski samsama sig í því. Það gerist í samfélögum að menningarstraumar renna saman og það hefur áhrif á samfélögin. Sumum finnst kannski stundum nóg um, en það breytir því ekki að þetta er veruleikinn og við hljótum sem siðmenntað þjóðfélag að reyna að búa þannig um hnútana að það gangi allt sem best fyrir sig svo að því fólki sem kemur til landsins finnist það velkomið og það fólk sem hér býr geti um leið tekið þátt í því, ásamt því fólki sem hingað flytur, að móta samfélagið til lengri tíma. Þá þurfum við að búa til einhvers konar leikreglur og reyna að koma í veg fyrir að þeir múrar sem annars gætu risið verði til staðar. Þetta vil ég rekja í þessu sambandi vegna þess að það sem við ræðum hér verðum við að skoða í þessu sögulega samhengi.

Eins og kemur fram í athugasemdum við þetta lagafrumvarp þá á þetta mál rætur að rekja að minnsta kosti til ársins 2003 þegar þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra skipaði nefnd til að fara yfir þessi mál. Sú nefnd skilaði síðan áliti í marsmánuði 2004 með ákveðnum tillögum. Á grundvelli þeirrar greinargerðar sem þá hafði verið lögð fram var síðan sett niður önnur nefnd á vegum þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra til að útfæra tillögur sem fram höfðu komið í þessari greinargerð, meðal annars um verkefni tiltekinnar miðstöðvar um þjónustu við innflytjendur. Árið 2008 var fyrsta þingsályktunartillagan um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda samþykkt undir forustu þáverandi hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra. Þannig má áfram telja.

Ég þekki þetta líka vegna þess að á sínum tíma var ég 1. flutningsmaður að þingsályktunartillögu sem allir þingmenn þáverandi Vestfjarðakjördæmis fluttu með mér um stofnun svokallaðrar nýbúamiðstöðvar. Gert var ráð fyrir að sú nýbúamiðstöð yrði sett á laggirnar á Ísafirði. Af hverju var það? Jú, það var vegna þess að þar var mjög mikil reynsla af samskiptum Íslendinga við fólk sem hafði flutt til landsins, hafði sett sig niður, var að vinna og bjó þar til lengri eða skemmri tíma. Sú reynsla var að mínu mati í meginefnum góð. Sambúðin gekk vel fyrir sig þrátt fyrir að tungumálaþröskuldurinn væri til staðar. Ekki þýðir þó að horfa fram hjá því að þetta getur líka reynt á innviði lítilla samfélaga. Þegar það gerist að fólk frá fjarlægum löndum, með ólíka menningu og ólíkan bakgrunn, ólík viðhorf jafnvel, kemur inn í lítil samfélög og hefur þar áhrif þá getum við ekkert horft fram hjá því að það kann að reyna á innviði slíkra samfélaga. Þá er verkefnið einfaldlega að takast á við það og reyna að sjá til þess að sú samlögun sem þarf að eiga sér stað gerist með sem friðsamlegustum og bestum hætti.

Reynslan sem við höfðum á Vestfjörðum, bæði af þessu og því sem ég nefndi áður með komu erlendra starfsmanna til landsins fyrir 40 árum, gerði það að verkum að þar var til staðar þekking sem skipti máli að menn reyndu að nýta til frambúðar, ekki bara fyrir þau samfélög sem eru á Vestfjörðum heldur líka fyrir landið í heild. Þess vegna var sú hugsun sett fram í þingsályktunartillögunni að skynsamlegt væri fyrir okkur að reyna að nýta þessa þekkingu, ekki bara á svæðisgrunni heldur á landsvísu. Þess vegna var hugsunin alveg frá upphafi — eins og menn geta séð ef lesið er í gegnum þingsályktunartillöguna, greinargerðina og umræðurnar sem fóru í kjölfarið — að skynsamlegast væri að þarna væri þessum málum á vissan hátt stjórnað, að því leyti sem stjórna ætti þessum málum í gegnum stofnun á vegum hins opinbera.

Það verður að segjast eins og er að baráttan fyrir þessari stofnun var á sínum tíma mjög hörð. Mjög hart var lagst gegn þessari hugmynd á sínum tíma, meðal annars héðan úr Reykjavíkurborg þar sem menn töldu að eins og öll önnur stjórnsýsla ætti þetta ekki heima á stað eins og Ísafirði heldur í Reykjavík. Ég hef flutt rökin sem við settum fram á sínum tíma um það af hverju skynsamlegast væri að reyna að nýta þá þekkingu og reynslu sem þarna var til staðar til að miðla henni um land allt. Að lokum var þessi þingmannatillaga afgreidd, undir forustu þáverandi formanns félagsmálanefndar, Arnbjargar Sveinsdóttur, sem ályktun Alþingis og kom það í hlut þáverandi hæstv. félagsmálaráðherra, Páls Péturssonar, að hrinda henni í framkvæmd. Stóðu þá á honum öll spjót, meðal annars héðan úr Reykjavík, úr stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Það er rétt að halda þessu til haga. Hæstv. þáverandi félagsmálaráðherra á hrós skilið fyrir að hafa staðið þetta af sér, eins og hans var svo sem von og vísa, þess karlmennis sem hann er.

Þetta er upphafið að því að Fjölmenningarsetrið, sem síðar var kallað svo, komst á laggirnar og hefur starfað í skjóli Alþingis sem hefur veitt þessari stofnun atbeina sinn, bæði fjárhagslegan atbeina og stuðning að öðru leyti. Þó að ég sé enginn sérstakur talsmaður fjölgunar stofnana ríkisins fagna ég því að verið sé að formgera, á þann hátt sem hér er verið að gera, starfsemi Fjölmenningarsetursins og festa það í sessi. Ég hef að vísu ekki haft áhyggjur af því að menn gætu eftir 12 ár hent þessari stofnun út um gluggann eins og margan langaði til fyrir rúmlega áratug. Ég hefði talið að sú stofnun væri búin að vinna sér þann sess og sýna fram á mikilvægi sitt þannig að menn færu ekkert út í það. Engu að síður er það eðlilegur hlutur, þegar verið er að setja löggjöf um stjórnsýslu innflytjendamála, að kveðið sé á um starfsemi Fjölmenningarsetursins sjálfs.

Virðulegi forseti. Þetta er nú það sem ég hef fram að færa í þessum efnum. Eins og alltaf þegar frumvarp af þessu tagi er lagt fram þurfum við að fara yfir efnisatriðin. Hér kunna að vera alls konar hlutir sem við sjáum ekki við fyrstu sýn, að minnsta kosti ekki nýliðar í velferðarnefnd Alþingis, að mögulega þurfi að breyta. Þá er það þannig. Ég geri ráð fyrir að nefndin sem fær málið til meðhöndlunar, velferðarnefnd Alþingis, kalli eftir umsögnum eins og lög gera ráð fyrir. Þá munum við heyra þau viðhorf sem uppi eru í þessum efnum.

Stór hluti af frumvarpinu snýr að starfsemi Fjölmenningarsetursins og hér er verið að freista þess að setja á laggirnar heildarlöggjöf um stjórnsýslu um málefni innflytjenda. Það er kannski kórréttara heiti á frumvarpinu. En frumvarpið er um breytingu á löggjöf um málefni innflytjenda, sýnist mér. En hér er fyrst og fremst verið að taka á þeim afmarkaða þætti sem stjórnsýsluþátturinn er. Annað liggur þá eftir en þó vitum við að við höfum á undanförnum árum verið að setja löggjöf sem snýr að innflytjendum. Við höfum samþykkt þingsályktunartillögur sem lúta að málefnum innflytjenda. Það er ekki þannig að ekkert hafi verið gert í þessum efnum. Öðru nær. Heilmikið hefur verið gert sem hefur vissulega hjálpað okkur í gegnum alla þessa umræðu.



[15:13]
Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það verður að segjast eins og er að það er mjög ánægjulegt að til sé fjölmenningarsetur á Íslandi. Ég verð að viðurkenna að ég var ein af þeim sem hafði töluverðar áhyggjur af því að þetta yrði alfarið fært úr Reykjavík á svipuðum tíma og Alþjóðahús var lagt niður. Ég þekki töluvert marga innflytjendur og ég hef töluverðar áhyggjur af því. Fjölmenningarhús í Reykjavík eða Alþjóðahúsið var ákveðin kjölfesta fyrir marga. Eftir að það hvarf hafa margir ekkert vitað hvert þeir ættu að leita til að fá aðstoð eða svör við spurningum sínum. Það verður að viðurkennast að enn vantar töluvert mikið upp á að tenging sé á milli þeirra sem flytja hingað og okkar. Það væri gaman að heyra hvort hv. þingmaður hefur heyrt eitthvað um þessa gagnrýni.

Ég veit að þetta hefur gengið mjög vel þarna á Vestfjörðum, á Ísafirði, en hefur hann eitthvað velt fyrir sér afleiðingunum af því að flytja þennan mikilvæga hlekk og tengingu alfarið úr borginni? Síðan kom reyndar önnur stofnun eða annað hús en það eru bara allt of margir sem vita ekkert að það sé til. Það væri gaman að heyra hvort hann hefði heyrt eitthvað um þessa gagnrýni og hver heildarávinningurinn hefur verið af því að flytja þetta á Vestfirðina.



[15:15]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég þekki þessa sögu sæmilega. Það er í fyrsta lagi mikilvægt að átta sig á því að þau verkefni sem Fjölmenningarsetrið tókst á hendur voru ekki verkefni sem hafði verið unnið að. Það var einfaldlega verið að setja á laggirnar það sem við kölluðum á þeim tíma nýbúamiðstöð sem seinna varð Fjölmenningarsetur vegna þess að þörfin kallaði. Þeim verkefnum hafði ekki verið sinnt á vegum stjórnsýslunnar og við sögðum, með þeim rökum sem ég flutti áðan og ég get ekki endurtekið á þessum stutta tíma, að það væri mjög skynsamlegt að setja á laggirnar þessa starfsemi á Ísafirði sem gæti síðan á miðlægan hátt sinnt verkefnum úti um allt land. Það útilokar í sjálfu sér ekki að einhvers konar annað starf sé unnið á þessu sviði víða um landið. Ég veit að á Akureyri voru menn með slíka starfsemi. Hér í Reykjavík var Alþjóðahúsið, það var sannarlega til á þeim tíma en það var hins vegar verkefni sveitarfélaga og ég hygg félagasamtaka á höfuðborgarsvæðinu. Sú stofnun sem við settum á laggirnar á Ísafirði var ekki stofnun af því tagi.

Þess vegna fannst mér það alltaf frekar leiðinlegt að þurfa að standa í því að verja hagsmuni Fjölmenningarsetursins og að menn voru að reyna að stilla stofnununum upp hvorri gegn annarri, Fjölmenningarsetrinu á Ísafirði og Alþjóðahúsinu í Reykjavík, sem voru ekki eins. Ég er viss um að Alþjóðahúsið vann mjög gott starf í þágu þeirra sem það átti að sinna en Fjölmenningarsetrið gerði það líka. Þessar stofnanir unnu hvor á sinn hátt að þessum verkefnum, hvor á sínum staðnum. Það hefði ekki verið skynsamlegt að setja á laggirnar aðra ríkisstofnun sem héti Alþjóðahús í Reykjavík sem ynni með sama hætti og Fjölmenningarsetur á Ísafirði. Það er síðan verkefni sveitarfélaganna og eftir atvikum frjálsra félagasamtaka hvort þau vilja efla starfsemina í þessum málaflokki með alþjóðahúsi eða á annan hátt. (Forseti hringir.) Ég hef ekki þekkingu til að svara því hvort það sé skynsamlegt að gera það undir hatti Alþjóðahúss eða með öðrum hætti á höfuðborgarsvæðinu.



[15:17]
Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Það var nefnilega þannig að Alþjóðahúsinu var lokað stuttu eftir að Fjölmenningarsetrið hóf starfsemi sína þannig að óhjákvæmilega tengdi fólk þessa tvo hluti saman þó að það kunni að hafa verið óréttlátt. Kannski var þessi mismunur hreinlega ekki nægilega skýr meðal almennings og sérstaklega meðal innflytjenda á þessu stóra svæði, höfuðborgarsvæðinu þar sem mjög margir þeirra búa. Það hefur mjög oft gerst að það vantar upp á upplýsingastreymi. Það hefur í raun ekkert komið í staðinn. Maður hefur pínulitlar áhyggjur af þessu og ég hafði sérstaklega miklar áhyggjur af því í kjölfar hrunsins hversu lítið var reynt að koma upplýsingum til innflytjenda, að rétta út arminn og láta vita hvað væri í gangi. Í sumum bönkum var meira að segja gert átak í að ræða við innflytjendur og fá þá til að flytja peningana sína af öruggum reikningum á áhættureikninga, vegna þess að þeir skildu ekki nægilega vel hvernig samfélagið okkar virkaði og treystu því sem þeim var sagt af bönkunum.

Ég fagna því að lagaramminn um þessa hluti sé styrktur og vonast til að við getum haldið umræðunni á málefnalegum nótum og ég veit að það gerir hv. þingmaður. En ég vil hvetja til þess að við gleymum því ekki að það er oft erfitt fyrir innflytjendur að fá aðgang að upplýsingum. Við þurfum að standa okkur betur í því.



[15:19]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferð hans og gott að hann rifjaði upp hver var aðdragandi þess að stofnunin fór vestur til að byrja með. Eins og þingmaðurinn lýsti var það með undirskriftum og þingsályktun sem samþykkt var af öllum stjórnmálaflokkum á þingi vegna þess að þarna var mjög blandaður hópur innflytjenda einmitt á þessu svæði.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Einar Kristin Guðfinnsson hvort honum þyki það nægilega tryggt í frumvarpinu að starfsemin verði áfram fyrir vestan. Hér er boðað að stofnuð skuli í raun ný ríkisstofnun á grunni stofnunarinnar fyrir vestan. Í fjárlögum er gert ráð fyrir, eins og ég kom að áðan, um 30 millj. kr. til setursins. Það kemur fram að starfsmenn stofnunarinnar nú þegar eru starfsmenn velferðarráðuneytisins. Óttast þingmaðurinn að þetta sé gert núna til að byrja með og síðan verði stofnunin flutt til Reykjavíkur? Það hefur mjög svo verið stefna þessarar ríkisstjórnar að toga til sín verkefni af landsbyggðinni yfir á höfuðborgarsvæðið. Telur þingmaðurinn að þetta sé nógu vel tryggt? Þarna er um að ræða 3,25 stöðugildi og það skiptir auðvitað máli fyrir Vestfirðinga. Það skiptir náttúrlega líka máli fyrir höfuðborgarsvæðið en ég mundi óska þess að þingmaðurinn færi aðeins yfir þetta.



[15:21]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get því miður ekki sagt að ég sé alveg öruggur með að Fjölmenningarsetrið verði áfram á Vestfjörðum, sérstaklega ekki meðan núverandi ríkisstjórn er því hún er mikið ólíkindatól eins og við vitum og gæti tekið upp á hverju sem er. Ég ætla þó ekki á þeim fáu mánuðum sem eftir lifa af lífi þessarar ríkisstjórnar að henni muni detta það í hug að færa starfsemina frá Ísafirði. Í greinargerðinni er að minnsta kosti vísað til starfseminnar á Ísafirði og ég er nokkuð viss um að um þessa stofnun hefur verið að skapast ágæt þverpólitísk samstaða.

Fjölmenningarsetur hefur hins vegar alltaf þurft að berjast dálítið mikið fyrir lífi sínu. Það hefur komið fyrir að þar hefur verið skorið mjög hressilega niður, m.a. á síðustu árum, og við höfum orðið að bregðast við og það hefur verið brugðist við. Ég hygg þó að smám saman sé mönnum að verða ljóst að hér er um að ræða alvörustofnun sem vinnur ekki bara á héraðsvísu. Það er alls ekki hugsunin að hún vinni bara á héraðsvísu, hún á að halda utan um, eins og kemur fram í frumvarpsgreinunum, mjög mikilvæg verkefni sem nýtast í þessum málaflokki um landið allt. Það var einmitt sú grunnhugsun sem bjó að baki þegar við þingmenn Vestfjarðakjördæmis á sínum tíma lögðum fram þessa þingsályktunartillögu, að þarna ætti þessi starfsemi að vera og stofnunin að sinna landinu í heild, á sama hátt og fjölmargar stofnanir á höfuðborgarsvæðinu sinna landinu í heild.

Það má auðvitað velta því fyrir sér hvað er afskekkt og hvað ekki. Reykjavík er dálítið afskekkt séð frá Bolungarvík, finnst mér. Menn verða að skoða þetta líka þannig. Þessi stofnun á Ísafirði hefur að mínu mati sinnt hlutverki sínu með miklum ágætum.



[15:23]
Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Það þarf kannski að spyrja hæstv. velferðarráðherra að því hver sé framtíðarsýnin fyrir þessa stofnun, hvort hún eigi að vera áfram fyrir vestan eða ekki. Það kemur fram í frumvarpinu í ákvæði til bráðabirgða að ráðherra sé heimilt að skipa núverandi framkvæmdastjóra Fjölmenningarseturs í embætti forstöðumanns Fjölmenningarseturs til loka árs 2013. Frá þeim tíma skal embættið auglýst laust til umsóknar í samræmi við ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þeir starfsmenn velferðarráðuneytisins sem starfa hjá Fjölmenningarsetri verða áfram starfsmenn hjá hinni nýju stofnun. Þetta er það eina sem sagt er um þetta og samkvæmt frumvarpinu er því ekki tryggt að stofnunin verði áfram fyrir vestan. En hæstv. velferðarráðherra situr í salnum og getur líklega sagt okkur í ræðu eða andsvari á eftir hver framtíðarsýnin er.

Mig langar til að spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hvað honum finnist um að verið sé að taka þessi innflytjendamál í litlum pörtum inn í þingið í stað þess að setja eina rammalöggjöf. Ef svo væri gætum við rætt um heildarsýnina í þessum málaflokki eins og til dæmis það hvað vantar mikið fjármagn til Útlendingastofnunar sem er raunverulega flöskuhálsinn inn í landið. Þar koma aðilar til landsins jafnvel vegabréfalausir á fölsuðum skilríkjum og annað og eru fastir í Keflavík svo mánuðum skiptir. En hér er verið að leggja fram lokastöðuna í þessum málum í stað þess að taka á þeim brýnu vandamálum sem við þurfum einmitt núna að setja fjármagn í, eins og til dæmis þessa miklu fjárþörf hjá Útlendingastofnun. Úrlausn á því væri líka til að gæta mannréttinda hjá þessum aðilum því það eru mjög litlar líkur á því að mannréttinda sé gætt þegar úrvinnslutíminn hjá íslenskum stjórnvöldum er svo mikill sem raun ber vitni. Hefði ekki verið skynsamlegt að hafa þessa heildarsýn við vinnslu þessa máls?



[15:26]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað er það rétt sem hv. þingmaður segir að það er mikilvægt fyrir okkur að hafa heildarsýn í þessum efnum, það þarf sannarlega. Hér er valin sú aðferð að flytja frumvarp til laga um málefni innflytjenda sem snúa fyrst og fremst að stjórnsýslunni. Það skiptir miklu máli, en ég hef líka tilhneigingu til að reyna að ræða þetta í því samhengi sem ég gerði og gera grein fyrir því að við erum ekki að stíga fyrstu skrefin í málefnum innflytjenda með þessu frumvarpi. Það má kannski frekar segja að við séum komin að ákveðnum þáttaskilum með því að festa þennan þátt málsins í lög, ef þetta frumvarp verður samþykkt í meginatriðum eins og það er flutt.

Ég vakti athygli á því að ríkisstjórnir á undan þessari hafa sinnt þessum málum að mínu mati prýðilega í gegnum tíðina. Eins og ég nefndi áðan voru strax árið 2004 lagðar fram ítarlegar tillögur í málefnum innflytjenda sem síðan var unnið með áfram og á árinu 2008 var samþykkt fyrsta þingsályktunin um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda. Þar var kveðið á um ýmis stór mál sem lutu að réttindum innflytjenda. Ég ætla ekki að fullyrða að þar hafi verið sagt síðasta orðið í þessum efnum. Það þarf örugglega að halda áfram. Aðstæður eru líka stöðugt að breytast og fjöldi innflytjenda hefur farið vaxandi, þó það hafi aðeins verið að breytast á allra síðustu árum. Þetta skapar auðvitað ný verkefni fyrir okkur í stjórnsýslunni að takast á við. Ég vil ekki líta á það sem vandamál. Það er veruleiki sem við þurfum að takast á við og horfast í augu við að getur reynt á innviði samfélaga og hefur stundum haft í för með sér átök í samfélögum. Við eigum að reyna að læra af því og koma í veg fyrir slík átök og það var hugsunin á sínum tíma með Fjölmenningarsetrinu; að læra af þeirri reynslu sem þessi litlu samfélög fyrir vestan höfðu af því að fjöldi útlendinga flutti inn í samfélögin og hafði heilmikil áhrif og breytti heilmiklu. Samfélögin lærðu síðan að takast á við þetta. (Forseti hringir.) Þetta kostar hins vegar mikið. Sveitarfélögin verða fyrir kostnaði, til dæmis vegna skólahalds. Allt þetta þurfa menn að skoða og hafa í huga.



[15:28]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hér hefur verið haldin hver snilldarræðan á fætur annarri. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir þessa skörulegu yfirferð yfir málefni innflytjenda áðan. Ég tel þó að það hafi verið fullkominn óþarfi hjá hv. þingmanni að taka undir með fyrri ræðumönnum um að það væri einhver hætta á því að þessi ríkisstjórn reyndi að ýta stofnunum út á land. Ég bendi á það að meðal annars sá sem hér stendur hefur gert sitt til að ýta verkefnum sem tengjast Evrópusambandsaðildarumsókninni út á land, m.a. í kjördæmi hv. þingmanns. [Hlátur í þingsal.] Í fjárlagafrumvarpinu er til dæmis að tillögu minni fjárveiting til að tryggja að áfram verði fimm manna starfslið í þýðingamiðstöð á Ísafirði. Það hefur tekist mjög glæsilega og þeir heimamenn sem hafa starfað þar eiga þakkir skildar.

Sömuleiðis af því að hér eru þingmenn úr öðrum kjördæmum vil ég minna á að á Akureyri er annað slíkt setur sem hefur verið treyst. Síðan hefur í tíð minni verið komið upp átta manna starfsstöð á Austfjörðum þar sem menn hafa staðið sig frábærlega við að þýða erfiðar reglur og tilskipanir frá Evrópusambandinu. (Gripið fram í: Og laga þær.) Laga þær oft, það var sérstaklega á árum áður að þurfti sérstakan þýðanda til að þýða íslenskuna sem þetta var á en það hefur breyst enda höfum við núna frábæra orðastjóra, svo ég beiti einu nýyrði ráðuneytisins.

Það var hins vegar fullkomlega þarft hjá hv. þingmanni að spara mér ómakið við að koma hingað upp og leiðrétta það sem kom fram hjá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Hún virtist telja hið ágæta Fjölmenningarsetur á Ísafirði kratíska uppáfinningu sem fór í taugarnar á henni, en það er vitanlega eins og fram kom í máli hv. þingmanns skilgetið afkvæmi vestfirskrar íhaldsmennsku og Framsóknarflokksins. Eins og hv. þingmaður sagði var þörf fyrir þetta á sínum tíma, þetta tók ekkert frá Reykjavík. Og af því að hv. þingmaður seildi nokkrum köpuryrðum til okkar þingmanna Reykvíkinga vil ég minna hv. þingmann á að einmitt þau snilldarrök sem hann færði hér áðan felldu mig á sínum tíma fyrir þessu máli.

Ég kom þó aðallega upp út af einu. Mér gefst svo sjaldan tækifæri til að vera sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur en hún nefndi að hún væri ekki glöð með að málefnum innflytjenda væri komið of víða niður í íslenskum lagaramma. Sumum hópum flóttamanna er nánast enginn staður fundinn. Það er ekki að sakast við hæstv. velferðarráðherra þar. Það eru fleiri en hann sem þar um véla. Hún nefndi kvótaflóttamenn og sagði að um þá væri ekki sérstaklega rætt í þessu frumvarpi og það er satt. Ég ber ábyrgð á því að sjá um hluta þess máls og staðreyndin er sú að það þarf taka skýrar og skarpar á því, meðal annars innan ramma ráðuneytis míns. Til dæmis er það utanríkisráðuneytið sem fjármagnar komu og undirbúning að komu kvótaflóttafólks til Íslands og það er enginn sérstakur fjárlagaliður til þess. Það fer bara eftir því hvaða uppsóp er eftir í kistunni ef að slíku kemur.

Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að uppi eru viðsjár í heiminum núna. Við vitum að það er borgarastríð í Sýrlandi og það hefur borist beiðni frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um að við tökum við kvótaflóttafólki sem er staðsett í Sýrlandi. Ég og hæstv. velferðarráðherra höfum fullan hug á því en þá rekur maður sig á að engir sérstakir peningar eru til þess. Það finnst mér miður. Ég vil segja það hér að við í mínu ráðuneyti höfum verið að skoða það sem að okkur snýr og ég tel að í framtíðinni eigi að vera sérstakur fjárlagaliður til að sinna þörfum af þessu tagi og mun beita mér fyrir því. Ég vildi að það kæmi fram í umræðunni að ég er sammála þessari athugasemd hv. þingmanns og hyggst gera mitt til að bæta þar úr.



[15:33]
Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans og sérstaklega jákvæð og hlý orð í garð okkar sem höfum unnið að Fjölmenningarsetrinu, sem erum fjölmörg. Alþingi samþykkti reyndar þessa þingsályktunartillögu samhljóða á sínum tíma.

Aðeins út af kvótaflóttamönnunum sem hæstv. ráðherra nefndi í lok máls síns. Hæstv. ráðherra greindi frá því að uppi væru hugmyndir um að hingað kæmu mögulega flóttamenn frá Sýrlandi. Ef ég veit rétt hafa ekki komið flóttamenn með þessum hætti til landsins frá því að þeir komu til Akraness á sínum tíma. Er það ekki rétt? (Gripið fram í.) Ef það er ekki rétt þá verður það leiðrétt. Mér fannst hæstv. ráðherra aðeins ýja að því að það væri vilji hæstv. ríkisstjórnar, eða að minnsta kosti tveggja ráðherra hennar, að taka á móti flóttamönnum með líkum hætti og gert var fyrir fáeinum árum, ætli það hafi ekki verið 2009. Nú vildi ég spyrja hæstv. ráðherra nánar út í það hvar þessi mál eru stödd, hvaða áform það eru. Hafa þessar formlegu óskir komið fram? Hafa íslensk stjórnvöld mótað sér einhverja stefnu almennt talað um móttöku slíkra flóttamanna?



[15:34]
utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega reynsla í landinu af móttöku kvótaflóttafólks eins og það er kallað í þessum málaflokki. Íslendingar hafa brugðist við ákalli um slíkt áður. Ég held að reynslan af því hafi verið býsna góð. Ég held að við séum komin með tæki og tól til að gera það nokkuð vel.

Hv. þingmaður spyr síðan um þetta tiltekna mál og hvort borist hafi beiðni um móttöku kvótaflóttafólks, sem svo er kallað, frá Sýrlandi. Sú beiðni barst í síðustu viku frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna til margra landa, m.a. til Íslands. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að skoða það ákaflega vel. Ég er mjög jákvæður gagnvart því.

Það sem við höfum verið að velta fyrir okkur í mínu ráðuneyti er að taka við litlum hópi. Við höfum alltaf gert það, fyrir utan kannski einu sinni. Það er farsælast fyrir okkur að gera þetta í tiltölulega litlum skömmtum. Þarna yrði þá um fáar fjölskyldur að ræða en við mundum að minnsta kosti bregðast við svipað og aðrar þjóðir. Ég tel að það sé siðferðileg skylda okkar í hvert skipti sem slík beiðni berst að við skoðum hana til hlítar og hvort hægt sé að verða með jákvæðum hætti við henni.



[15:36]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta frumvarp enda er um 1. umr. að ræða því að svo fer það til nefndar. Tæknilega séð sé ég nokkra annmarka á frumvarpinu sem ég hef komið aðeins inn á.

Ég fór yfir reglugerðarheimildina áðan, en inn í þingið kemur tæpast nokkurt einasta frumvarp frá ríkisstjórninni nema um reglugerðarheimild sé að ræða. Í 9. gr. stendur að ráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga svo sem um starfsemi Fjölmenningarseturs og innflytjendaráðs. Ég átta mig ekki á því hvers vegna ekki er hægt að setja þetta með skilvirkari hætti inn í frumvarpið, sérstaklega í því ljósi að þetta er mjög viðkvæmur málaflokkur. Við vitum hvernig það er á bloggsíðum í samfélaginu. Ef einhver þingmaður leyfir sér að opna munninn um innflytjendamál er oft og tíðum reynt að gera hann ótrúverðugan og hann kallaður ýmsum nöfnum sem ég ætla ekki að hafa eftir hér. Við verðum að geta rætt þennan málaflokk af skynsemi og yfirvegun vegna þess að líklega er ásókn flóttamanna til Norðurlanda eitt stærsta verkefni sem við komum til með að standa frammi fyrir í nánustu framtíð. Við megum aldrei sofna á verðinum, aldrei nokkurn tíma. Við eigum fyrst og fremst að styrkja varnir okkar og gera það vel. Því sakna ég þess að þetta frumvarp skuli koma eitt fram og að það skuli ekki vera annaðhvort stutt af fleiri frumvörpum sem hægt væri að ræða samhliða eða á einhvern hátt efnisríkara.

Eins og hér kemur fram er ekki fjallað um réttindi og skyldur innflytjenda. Það á eftir að lögleiða þá tilskipun hér sem við þurfum að taka upp frá ESB og eins tilskipunina um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi. Auðvitað viljum við taka vel á móti því flóttafólki sem vill vera hér og það er þjóðhagslega hagkvæmt að koma því sem fyrst út í atvinnulífið. Sett voru skilyrði fyrir því að þetta fólk yrði að læra íslensku til að aðlagast íslensku samfélagi en í lagafrumvarpinu kemur fram að ekki sé verið að ræða það nú og er það sett á bið. Þegar einstaklingur fær réttindi ber hann líka skyldur og því má ekki gleyma. Það er ekki hægt að færa bara réttindi til einstaklings og svo er hann algjörlega ábyrgðarlaus gagnvart því samfélagi sem hann býr í.

Í markmiðslýsingu er tekið fram — þetta er lagafrumvarp, ekki þingsályktunartillaga — að allir skuli vera virkir í samfélaginu. Það er alltaf svolítið erfitt að setja svona texta inn í frumvörp sem verða seinna að lögum, þetta er svo matskennt. Það eru náttúrlega ekki refsiákvæði við þessu. Það er nokkuð skrýtið þegar markmiðsstefna í lagatexta er svona almennt orðuð og alhæft á þennan hátt.

Eins og fram hefur komið byggist þetta frumvarp á samstarfsyfirlýsingu Samfylkingarinnar og Vinstri grænna og var sett þar inn að lög um innflytjendur skyldu endurskoðuð. Það birtist í þessu frumvarpsformi. Þetta var að vísu líka lagt fram á síðasta þingi en náði ekki afgreiðslu. Við skulum staldra við þær staðreyndir sem koma fram í frumvarpinu og hvað valdi því að árið 2000 voru tæplega 8.500 innflytjendur hér á landi en núna 11 árum seinna eru þeir orðnir 25.693. Ásóknin í að koma hingað er augljóslega að aukast. Samkvæmt tölum frá Útlendingastofnun hefur orðið stórkostleg fjölgun á innflytjendum hingað til landsins síðan umsóknin um aðild að Evrópusambandinu var lögð inn sumarið 2009, sem er athyglisvert. Líklega er farið að spyrjast út að við tökum vel á móti flóttamönnum, ég veit það ekki.

Við verðum að vera sérstaklega varkár í þessum málum, sérstaklega í ljósi þess hvar á landakortinu okkar ágæta eyja er. Hér hafa komið upp mjög alvarleg atvik nú í sumar, sem dæmi. Hingað hafa komið vegabréfalausir einstaklingar eða jafnvel með fölsuð vegabréf sem reyna svo að komast héðan úr landi með skipum til fyrirheitna landsins í Ameríku. Við megum ekki verða sá stökkpallur hjá ákveðnum aðilum því að fagmenn í þessum geira segja mér að stundum séu þeir sem koma hingað til lands með fölsuð vegabréf eða vegabréfalaus fórnarlömb mansals og að jafnvel hafi þeir þurft að kaupa sér vegabréf eða viðkomandi aðilar eigi inni greiða hjá þeim. Við verðum að vera vel meðvituð um það að hér festi glæpaklíkur ekki enn frekar rætur.

Í fyrra vorum við í allsherjarnefnd vöruð við því sem kallað er krækjur í Noregi sem eru einstaklingar sem koma til landsins og eru jafnvel búnir að brenna fingraförin af sér, láta draga úr sér endajaxl og hvað annað og þykjast vera börn. Þeir eru ekki með vegabréf og geta ekki sannað hverjir þeir eru. Svo fer viðkomandi í aldursgreiningu og í ljós kemur að hann er skráður sem barn og þá kemur fjölskyldan til landsins á grunni fjölskyldusameiningar.

Við verðum náttúrlega að horfa til Noregs því að Norðmenn hafa verið aðeins á undan okkur. Þeir hafa líka verið mjög viljugir að taka við flóttamönnum og kvótaflóttamönnum, alveg til fyrirmyndar. Það er náttúrlega langbest ef hægt er að stýra þessu, eins og hæstv. utanríkisráðherra fór yfir, þannig að það sé þá gert af mikilli yfirvegun, ekki síst að þessum verkefnum sé tryggt eitthvert fjármagn og húsnæði sé tilbúið þegar þessir aðilar koma til landsins.

Ég geri líka athugasemdir við að lagt er til að hér verði skipað sex manna innflytjendaráð. Ég fór áðan yfir þann kratisma sem birtist orðið í öllum frumvörpum. Það eru nefndir og ráð og einhverjir sjóðir og fyrir rest á svo ráðherra að deila út peningum. Þetta á auðvitað fyrst og fremst að vera á fjárlögum og ákveðið faglega. Ráðherra á ekki að deila út einhverjum peningum því að lagt er til að þróunarsjóður innflytjendamála verði lögfestur í þessu frumvarpi. Hann hefur að vísu verið til frá árinu 2007 án þess að vera lögfestur en hér er gert ráð fyrir því að þetta sex manna innflytjendaráð skili tillögum til ráðherra sem tekur svo ákvörðun um hvaða verkefni eigi að hljóta styrki. Styrkveitingarnar sem ráðherrum er falið í þeim frumvörpum sem hafa verið að koma fram finnst mér ógeðfelldar. Mér finnst ekki rétt árið 2012 að fara á nýjan leik í handstýrt fjárveitingavald. Best er að allt sé uppi á borðum, fyrir fram ákveðið og einstaka ráðherrar úthluti ekki styrkjum.

Í þessum þróunarsjóði voru 10 milljónir árið 2011. Ég hef ekki kíkt í fjárlagafrumvarpið og séð hvað gert er ráð fyrir að þetta verði há upphæð í fjárlögum 2012. Ef mikill munur er á kem ég til með að vekja athygli á því.

Virðulegi forseti. Hér er lagt til að þeir starfsmenn sem nú þegar vinna við stofnunina haldi störfum sínum. Stofnunin hefur 3,25 stöðugildi. Ég skal ekki segja hvort of mikið sé í lagt, kannski ekki miðað við það sem kemur fram í frumvarpinu, þ.e. fjölgun innflytjenda á þessu 11 ára tímabili. Nú fer þetta í nefnd og kem ég til með að fylgja eftir því sem ég hef bent á og koma með breytingartillögur að því sem betur má fara.



[15:45]
velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu. Ég held að það sé mikilvægt að við áttum okkur á því að þetta frumvarp er fyrst og fremst um tvennt, um meginmarkmiðssetninguna og síðan er verið að formgera það sem í raunveruleikanum hefur verið að þróast á undanförnum árum og raunar meira en áratug varðandi þjónustuna við innflytjendur.

Hér er ekki tekið á málefnum flóttamanna sérstaklega heldur er verið að tala um innflytjendur. Eins og komið hefur fram voru þeir árið 2011 yfir 25 þúsund. Þeim hefur fækkað en eru samt enn vel yfir 20 þúsund. Það er mikilvægt að við sinnum þessum einstaklingum eins og öðrum í samfélaginu. Það er ekki verið að tala um nein forréttindi, heldur að hjálpa fólki að geta búið í íslensku samfélagi. Mesti flöskuhálsinn og það sem er erfiðast er yfirleitt upplýsingamiðlunin, það að koma skilaboðum, upplýsingum og kynningu á íslensku samfélagi til viðkomandi aðila. Þar bera auðvitað sveitarfélögin og viðkomandi stofnanir um allt land meginábyrgðina en þarna er sem sagt sett niður fjölmenningarsetur sem á að samhæfa þessar aðgerðir, vera í stefnumótuninni og reka á eftir. Þannig kemur ríkisvaldið að þessu. Ég ætla bara að segja það líka, af því að það kom fram í umræðunni að þetta væri einhver stofnun sem yrði svo bara flutt fljótlega í burtu og ekkert hægt að treysta á, að einmitt núna er verið að formgera það hvar stofnunin á að vera og að hún sé byggð á lagalegum grundvelli. Það held ég að skipti mjög miklu því að það er alveg klárt að það er verið að lýsa því yfir að þessi stofnun eigi að vera til í einmitt þessu hlutverki og vera á Ísafirði.

Það voru átök á sínum tíma um Alþjóðahúsið og það er engin launung á því. Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefur líka farið ágætlega yfir það og það er einmitt rétt sem kom fram í máli hans um að þar átti í hlut stofnun sem var fyrst og fremst rekin af sveitarfélaginu Reykjavíkurborg og félögum þar í kring. Ég held að menn ættu að hugleiða hvernig þau þjónusta innflytjendur sérstaklega, hvort sem það er borgin eða aðrir, og þá geta menn metið sjálfir hvort þeir vilja hafa sérstakt alþjóðahús eða sinna þessum hópi öðruvísi.

Þetta fer til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd. Þar verður málið auðvitað skoðað sérstaklega. Hér hefur verið rætt um að það sé óeðlilegt að það séu einhverjar reglugerðarheimildir. Ég held að það séu mjög skýr ákvæði um hvað reglugerðirnar hugsanlega geta verið vegna þess að það er upptalning á verkefnum, hvort sem er Fjölmenningarsetursins eða innflytjendaráðs. Þar af leiðandi er ramminn mjög skýr. Hið sama gildir um þróunarsjóðinn. Ég veit ekki hvað hefur tíðkast hér áður fyrr en það er alveg klárt að úthlutun úr sjóðum er birt opinberlega. Það er formlegt ferli um hvernig fjallað er um það. Það er settur rammi utan um hvort einhver sérstök áherslusvið eru auglýst og svona sjóðir hafa verið í gangi. Framkvæmdin á þeim úthlutunum hefur verið algerlega árekstralaus og án athugasemda og ég vona að svo verði áfram.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.