144. löggjafarþing — 19. fundur
 15. október 2014.
sérstök umræða.

takmarkað aðgengi að framhaldsskólum.

[15:38]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka sérstaka umræðu í dag um takmarkað aðgengi að framhaldsskólum sem boðað er í fjárlagafrumvarpi ársins 2015. Hæstv. ráðherra hefur væntanlega orðið var við þá óánægju sem víða hefur komið fram með þau áform að fækka nemendum í framhaldsskólum í fullu námi um 916 og enn fleiri ef einstaklingar eru taldir. Það er tæplega 5% fækkun ársnemenda. Til að setja þessa fjöldatakmörkun í samhengi er þetta álíka og neita öllum nemendum Fjölbrautaskóla Suðurnesja um skólavist og segja upp 90 til 100 starfsmönnum í kjölfarið.

Fyrirhuguð fækkun framhaldsskólanemenda mun dreifast um allt land og það mun fækkun starfsmanna að sjálfsögðu einnig gera. Þetta mun fyrst og fremst bitna á nemendum sem vilja fara á bóknámsbrautir og eru eldri en 25 ára. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eru þetta um 1.600 einstaklingar sem ekki eru þó allir í fullu námi.

Í frumvarpinu stendur að þessi takmörkun á aðgengi að skólunum muni spara fjármagn sem muni aftur nýtast til að mæta m.a. hækkunum vegna kjarasamninga kennara. Meðalaldur nemenda er hæstur í verknámsskólum og skólum sem sinna fjarkennslu og meðalaldur í skólum sem starfa á landsbyggðinni er hærri en skólanna á höfuðborgarsvæðinu. Ef menntastefna hæstv. ríkisstjórnar nær fram að ganga mun ársnemendum í Fjölbrautaskóla Snæfellinga fækka um rúm 18%. Í Menntaskólanum á Tröllaskaga mun nemendum fækka um 17%, í Menntaskólanum á Egilsstöðum mun fækka um tæp 16% og í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra um tæp 12%. Það er ekki neitt smáræði sem hér um ræðir. Fjölbrautaskólinn í Ármúla hefur bæði sinnt eldri nemendum af höfuðborgarsvæðinu og einnig utan af landi með fjarkennslu. Þar fækkar nemendum um 12,2%.

Nú berast fréttir af því að möguleiki fullorðinna á höfuðborgarsvæðinu til að sinna námi til stúdentsprófs með vinnu verður ekki lengur til staðar með lokun öldungadeildar Menntaskólans við Hamrahlíð. Slíkar skyndiákvarðanir á ekki að taka í menntamálum. Huga þarf að afleiðingum slíkra aðgerða á einstaklinga, menntunarstig þjóðarinnar, aðgengi að menntun úti á landsbyggðinni, þróun byggðar, hagvöxt og hagsæld. Skólarnir verða að mæta þessum breytingum á nemendafjölda með því að segja upp starfsfólki og væntanlega fækka námsbrautum, en þeir þyrftu í raun aukið fjármagn ættu þeir að mæta menntunarþörfinni í nærsamfélaginu og vera færir um að standa undir fjölbreyttu námsframboði.

Með áformum ríkisstjórnarinnar um fjöldatakmarkanir mun rekstraraðstaða framhaldsskóla úti á landi versna til muna og námsframboð mun þar væntanlega einnig verða einhæfara. Rannsóknir sýna að gott aðgengi að námi skiptir miklu máli ef hækka á menntunarstig þjóðar.

Hæstv. menntamálaráðherra ferðast nú um landið og heldur erindi um mikilvægi læsis og menntunar fyrir hagvöxt og hagsæld í landinu. Á sama tíma skerðir hæstv. ráðherra aðgengi að menntun sem mun koma harðast niður á ungu fólki á landsbyggðinni. Því er í staðinn boðið að flytja búferlum og fara í einkaskóla á Suðurnesjum eða í Borgarfirði með ærnum tilkostnaði. Það vantar að vísu fjármagn í þá skóla til að taka við nemendunum þannig að engin leið virðist vera fyrir 25 ára bóknámsnemanda til að ná sér í menntun á framhaldsskólastigi. Fólk mun hreinlega ekki sætta sig við slíkt.

Það helsta sem aðgreinir okkar framhaldsskólakerfi frá nágrannalöndunum er nám í framhaldsskóla er lengra hér á landi og brottfall er hér meira. Sumir vilja halda því fram að einn sterkur áhrifavaldur brottfalls sé einmitt lengra nám en almennt gerist í öðrum löndum. Sá möguleiki að koma aftur í skóla með auknum þroska og reynslu, hvort sem brottfallið stafaði af fjárskorti, barneignum eða námsleiða, hefur staðið til boða. Að geta lokið námi þótt seint sé skiptir miklu máli fyrir einstaklingana og framtíðarmöguleika þeirra, en einnig fyrir menntunarstig þjóðarinnar sem hefur aftur jákvæð áhrif á hagvöxt og almenna hagsæld. Þær umdeilanlegu fjöldatakmarkanir sem boðaðar eru takmarka sveigjanleika framhaldsskólakerfisins sem til þessa hefur verið helstu kostur þess.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um greiningar sem hljóta að liggja undir svona mikilli stefnubreytingu í menntamálum og niðurstöðu þeirra greininga: Hver eru áhrif fækkunar ársnemenda á rekstur framhaldsskólanna? Hver eru áhrif fækkunar ársnemenda á menntunarstig á landsbyggðinni og aðgengi að menntun á framhaldsskólastigi? Hvað má búast við að samfélagslegur kostnaður verði mikill þegar aðgengi að framhaldsskólum er takmarkað eins og boðað er?



[15:43]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á stöðu framhaldsskólans. Ég vil byrja á að útskýra aðeins hvað hér er verið að gera. Á undanförnum árum hefur fjármagn til framhaldsskólastigsins verið skorið mikið niður. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að fjármagn til framhaldsskólastigsins hefði verið skorið niður um 2 milljarða á sama tíma og nemendafjöldi á námsstiginu hefði aukist töluvert. Bent hefur verið á að svokallað einingaverð, þ.e. fjármagn á hvern nemanda, hefur lækkað jafnt og þétt. Það var árið 2008 rétt um 1 milljón, en á árunum 2011 og 2012 var framlagið komið niður fyrir 900 þús. kr. á nemanda á verðlagi ársins 2014.

Til að skilja þessar tölur má til samanburðar horfa til þess að nemandi á grunnskólastigi kostar 1,5 milljónir. Það er augljóst að framlagið á hvern nemanda á framhaldsskólastiginu er allt of lágt.

Hér er ekki verið að draga úr framlögum til framhaldsskólastigsins heldur þvert á móti verið að auka þau. Það er líka verið að taka ákvörðun um það — ég geri mér auðvitað grein fyrir að það verður umdeild ákvörðun — það er verið að segja að við ætlum að hækka framlagið á nemanda og koma því aftur yfir 1 millj. kr. á hvern nemanda að meðaltali. Það er enn of lágt. Það mun styrkja framhaldsskólann í því að koma í veg fyrir brottfall. Það mun styrkja framhaldsskólann í því að hjálpa nemendum að klára námið á tilsettum tíma, en íslenska framhaldsskólakerfið stendur mjög illa í öllum alþjóðlegum samanburði í því að nemendur klári á tilsettum tíma það nám sem þeir hafa skráð sig í. Það er hugsunin.

Sú ákvörðun að hækka framlag á nemanda þýðir að þegar skoðað er hversu langt það dugar til að hleypa öllum inn í skólann sem eru þar núna rekast menn á það að þar á eru takmörk og þá þarf að horfa eftir því hvaða regla þarf að gilda. Þá má líta til þess að árið 2012 var tekin ákvörðun með reglugerð af þáverandi hæstv. ráðherra að búin væri til forgangsröðun um það hvernig yrði tekið inn í framhaldsskólana, í hvaða röð nemendur væru teknir inn. Það er það sem hér er verið að gera, það er verið að segja: Þessir fjármunir eru til skiptanna. Hérna er reglugerðin sem var samþykkt árið 2012 um það í hvaða röð nemendurnir skuli teknir inn.

Þá er líka mikilvægt að hafa í huga að þeir nemendur sem eru 25 ára og eldri hafa áfram tækifæri til þess að stunda nám sem leiði síðan til réttinda til þess að fara í háskóla. Það er grundvallaratriði.

Það er líka rétt í þessu að horfa aðeins til frænda okkar á Norðurlöndunum, hvernig þeir hafa komið þessu máli fyrir hjá sér. Ef við skoðum hjá frændum okkar Norðmönnum hafa þeir það kerfi hjá sér í grófum dráttum sagt að allir eiga rétt á þriggja ári námi í framhaldsskóla, og reyndar lengur ef námskrá mælir fyrir um slíkt, námið má taka á fimm til sex árum eftir atvikum, en verður að ljúka áður en nemandi klárar 24. ára aldursárið. Í Svíþjóð þurfa nemendur að hafa hafið nám í framhaldsskóla í síðasta lagi árið sem þeir verða tvítugir og hafa þá þrjú ár til að ljúka.

Það er þannig á Norðurlöndunum sem við berum okkur saman við að í flestum tilvikum, þó ekki öllum, Danirnir hafa þetta svolítið öðruvísi, en þegar við skoðum hin löndin eru takmarkanir og það er kerfi sem tekur á móti þeim nemendum sem ekki hafa klárað eða eru komnir vel af stað áður í framhaldsskólakerfinu. Þeir geta farið aðrar leiðir og þær eru opnar hér.

Mitt verkefni verður það á næstu mánuðum, og missirum þá líka, að stúdera nákvæmlega hvort það sé ekki alveg öruggt að þessar leiðir séu allar opnar og tiltækar. Ef ekki reynist einhverra hluta vegna, sem við reyndar höfum ekki séð að sé og höfum farið þó vel í gegnum það, er sjálfsagt að bregðast við því.

Það sem við erum að horfa til er að breyta framhaldsskólanum þannig að við leggjum áherslu á að reyna að fjármagna þá nemendur sem þangað leita þannig að einhver sómi sé að. Þá þarf að taka svona ákvörðun, erfiða ákvörðun svo sem en ég held að hún sé skynsamleg. Hún mun reynast okkur til lengri tíma betur, þ.e. að horfa á framhaldsskólann sem ungmennaskóla og hafa úrræði og þróa þau áfram fyrir þá sem eldri eru þannig að þeir þurfi ekki að setjast á skólabekk með 16 ára og geti farið aðrar leiðir til að komast í háskóla. Þær eru til. Töluvert fjármagn hefur verið sett akkúrat í þær leiðir á undanförnum árum.

Virðulegi forseti. Ég vil þó nota síðustu sekúndurnar til að nefna eitt hérna sem er svolítið mikilvægt. Í fyrsta lagi er ekki verið að loka á aðgengi fyrir þá sem eru í verknámi og eru eldri en 25 ára eins og hv. þm. Ári Páll Árnason hélt fram í ræðu. Það er rangt. Í öðru lagi eru smáreikniskekkjur í (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarpinu. Ég kem að þeim í minni seinni ræðu. Þær snúa að Menntaskólanum í Hamrahlíð, Menntaskólanum á Egilsstöðum, (Forseti hringir.) Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (Forseti hringir.) og Verkmenntaskólanum á Akureyri (Forseti hringir.) þar sem nemendafjöldinn mun aukast við leiðréttingu á skekkjunum.



[15:49]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hjá sveitarstjórnarmönnum í nýliðinni kjördæmaviku komu fram gífurlegar áhyggjur vegna mikils niðurskurðar til framhaldsskólanna og stöðunnar í skólunum og framtíðarhorfa almennt vegna þeirrar stefnu sem menntamálaráðherra boðar. Ég spyr: Hvers vegna á víkja frá þeirri stefnu sem gengið hefur vel og fjársvelta skólana? Framhaldsskólar víða um land hafa unnið vel saman og fjarnámið og dreifnámið hefur virkað mjög vel. Það hefur verið yfirlýst stefna að framhaldsskólanir séu fyrir alla. Það má ekki gerast að það mikla uppbyggingarstarf sem orðið hefur í framhaldsskólunum verði eyðilagt.

Nýlegar varð t.d. Fjölbrautaskóli Snæfellinga tíu ára. Hann hefur gjörbreytt stöðu þess svæðis, styrkt byggðina og aukið menntunarstig fólks á öllum aldri og dregið úr hættu á brottfalli nemenda á svæðinu. Hvað gengur mönnum til með því að ætla að útiloka aðgengi nemenda eldri en 25 ára frá framhaldsskólanámi? Hvað er fengið með því annað en aukinn kostnaður fyrir nemendur og samfélagið? Og er ætlunin að vera með tvö framhaldsskólastig? Það er ekki hagkvæmt. Það á að nýta aðstöðu framhaldsskólanna, sérstaklega á landsbyggðinni þar sem öll aðstaða er til staðar. Til dæmis eru nú í námi í Menntaskólanum á Ísafirði 40 skipstjórnarnemendur sem voru að hefja þar nám. Þetta eru fullorðnir menn. Það væri ekki heimilt áfram miðað við núverandi stefnu. (Gripið fram í: Rangt.)

Sá mikli niðurskurður sem beinist að fjarnámi og starfs- og verknámi og að útiloka nemendur eldri en 25 ára frá framhaldsskólum gengur þvert á fyrirheit ráðamanna um að efla starfs- og verkmenntun. Möguleikar fólks á vinnumarkaði og fólks með litla formlega menntun á að sækja nám í framhaldsskólum er því gífurlega skert.

Einn gamalreyndur sveitarstjórnarmaður hafði það á orði í nýliðinni kjördæmaviku að ef ekki yrði snúið af þessari niðurrifsbraut yrði þar héraðsbrestur. Og það verður ekki bara héraðsbrestur, heldur er verið að rífa niður uppbyggingu skólastarfs (Forseti hringir.) í landinu til margra ára.



[15:51]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda umræðuna. Á undanförnum dögum hefur hver skólamaðurinn eftir annan lýst verulegum áhyggjum af stöðu hins íslenska framhaldsskóla. Þar er af ýmsu að taka.

Skólameistarar þeirra skóla sem hafa þróað dreifnám á undanförnum árum hafa lýst vonbrigðum með þær fyrirætlanir hæstv. menntamálaráðherra að skerða fjárveitingar til þess náms verulega, í sumum tilfellum fella þær jafnvel alfarið niður. Dreifnám hefur sannað sig sem árangursríkt form náms í hinum dreifðari byggðum og hefur leitt til þess að stöðugt hærra hlutfall íbúa þeirra svæða hefur stundað nám í framhaldsskólum. Endurskoðun viðmiða um nemendaígildi er boðuð. Það þýðir einfaldlega að verulega er dregið úr fjárveitingum því fjárveitingar til skólanna eru byggðar á þeim ígildum.

Það á sem sagt að halda áfram að skera niður kerfi sem er fyrir talsverðu síðan komið inn úr beini og inn í merginn. Niðurskurður í framhaldsskólakerfinu fæst í gegnum launakostnað. Allur annar kostnaður er í algjöru lágmarki. Svo fyrir skólameisturum landsins liggur að fækka enn á ný starfsfólki. Það fæst einungis fram með því að stækka námshópa. Stækkun námshópa, hvernig ná menn því fram? Jú, með því að fella niður fámennari hópa.

Það að fella niður fámenna hópa er ávísun á minni fjölbreytni í möguleikum til náms og dregur enn úr námsvali, sem er það sem fulltrúar nemenda hafa ítrekað talað um að þeir telji helst vanta upp á í núverandi kerfi.

Við í Bjartri framtíð leggjum áherslu á aukna fjölbreytni og sveigjanleika í námi. Við teljum það einfaldlega ranga stefnu að krefjast stöðugt meiri einsleitni til að fella alla í sama mót. Við deilum áhyggjum þeirra skólameistara sem hafa lýst þeirri stöðu sem uppi er í framhaldsskólum landsins þar sem þeir telja m.a. að kerfið hafi skaðast nú þegar.

Virðulegi forseti. Hvítbók hæstv. ráðherra er góðra gjalda verð en nú er nóg komið af niðurskurði embættismanna í menntakerfinu, kominn tími á heildræna umræðu við fulltrúa framhaldsskólans um hvernig hægt er að snúa við blaðinu og hefja uppbyggingu kerfisins á ný.



[15:53]
Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér takmarkað aðgengi að framhaldsskólum eða öllu heldur forgangsröðun. Ég tel tímabært að taka umræðu um skilvirkni og verkaskiptingu ýmissa aðila sem vinna að fullorðinsfræðslu því að við þróun fullorðinsfræðslunnar síðustu árin hefur óhjákvæmilega orðið ákveðin skörun milli framhaldsskóla, sérskóla, símenntunarmiðstöðva og ýmissa ráðgjafarverkefna tengdum félagsþjónustu og vinnumarkaðsúrræðum. Jafnframt tel ég að stíga verði varlega til jarðar og ræða þessi mál í stærra samhengi en því hvernig fjárlög næsta árs líta út. Þessi umræða þarf að snúast um þarfir einstaklinga og samfélags og nýtingu fjármuna.

Mig langar að nota tækifærið og segja ykkur litla sögu. Árið 2000 buðu framhaldsskólarnir á Austurlandi saman upp á fjarnám fyrir fólk sem var að hefja nám eftir langt hlé. Í þessu námi byrjuðu yfir 20 nemendur á nokkrum stöðum á Austurlandi og fengu þeir góðan stuðning í byrjun. Skemmst er frá því að segja að margir af þeim sem þarna hófu nám aftur héldu áfram í ýmiss konar framhaldsnámi og hafa nú lokið háskólanámi. Þetta hafði meðal annars þá þýðingu fyrir Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar að haustið 2009 var hann í fyrsta skipti frá stofnun eingöngu mannaður réttindakennurum en þá höfðu fjórir leiðbeinendur við skólann lokið kennaranámi í fjarnámi, auk þess sem leiðbeinendur við leikskóla höfðu lokið leikskólakennaranámi. Jafnframt varð fjarnámið hvati fyrir aðra kennara að bæta við sig námi og nú er hluti þeirra sem hófu framhaldsskólanám árið 2000 að ljúka mastersnámi. Gæti þetta haft áhrif á niðurstöður úr næstu PISA-könnun?

Það sem ég vil koma á framfæri með þessari sögu er að við þurfum að horfa á stóru myndina en ekki er þar með sagt að við getum ekki og þurfum ekki að gera breytingar á skólakerfinu.



[15:55]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mig langaði að athuga hvort ég skildi þetta rétt. Það virðist vera munur á verknámi annars vegar og bóknámi hins vegar. Ungu fólki í verknámi er óhætt að þvælast um með gamalmennum en ekki ungu fólki í bóknámi. Það skal vera girt af þannig að gamalmennin þvælist ekki fyrir því, ef þetta er rétt. — Og hver er þá hugmyndin á bak við það? Ég hreinlega skil það ekki og það væri ágætt að fá að heyra það.

Hitt varðar sjálfræði sjálfráða fólks; fólk sem er orðið yfir 18 ára er sjálfráða á Íslandi. Verða þessi úrræði um námsframvindu, án þess að fara í framhaldsskóla — það virðist vera einhver leið fyrir þá sem eru yfir 25 ára að tryggja námsframvindu sína til að fá réttindi til að ganga í háskóla. En á það við ef þú ert orðinn 25 ára? Hvers vegna er þá 25 ára talan? Á þetta líka við þegar þú ert orðinn sjálfráða, 18 ára gamall, þá er litið á þig sem sjálfráða einstakling sem átt að geta ráðið námsframvindunni sjálfur, eða hvað?



[15:57]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég verð að byrja ræðu mína á því að segja að ég hef miklar áhyggjur af stefnunni í menntamálum þar sem hún hefur farið fram undir þeim merkjum að það eigi að vera samráð en nánast allar yfirlýsingar um menntamál byrja á: „Ég ætla“, eða „ég skal“. Ég vona að við náum að breyta því þannig að við getum átt sameiginlega stefnumótun í menntamálum með hagsmuni íbúa landsins að leiðarljósi.

Við erum að vinna að því að auka menntunarstig á Íslandi, það er eitt af stóru vandamálum íslenska menntakerfisins að um 30% vinnumarkaðarins hafa aðeins grunnskólamenntun samanborið við 10% í Danmörku og þar er markmiðið að lækka hlutfallið niður í 5%. Hvað erum við að gera nú? Við erum að fara í þveröfuga átt, við ætlum að takmarka hverjir komast inn í skólana til að draga úr möguleikum fólks til viðbótarmenntunar eða framhaldsmenntunar, nema ætlun ráðherra sé að færa þetta allt saman út úr menntastofnunum yfir til sjálfstæðra stofnana þar sem eru nemendagjöld og há gjaldtaka til að komast inn í skólakerfið. Það er svo sem þekkt leið, sem þessi ríkisstjórn hefur notað mjög mikið, að reyna að færa gjaldtökuna frá almennri sameiginlegri skattgreiðslu yfir í gjaldtöku á einstökum stöðum.

Hér er líka verið að hækka greiðslur á nemanda til að bæta rekstrarstöðu framhaldsskólanna en um leið er nemendum fækkað og þeim er fækkað svo mikið úti á landsbyggðinni að neyðarkall hefur heyrst á hverjum einasta fundi sem við höfum komið á í okkar kjördæmum frá framhaldsskólunum: Hvernig eigum við að reka skólana með þessum nýju fjárlögum?

Það hefur líka verið ráðist á dreifnám og framhaldsnám. Ég ætla að treysta því að menn snúi af þessari leið og geri það sem lofað er í hvítbókinni, hafi samráð, bæði pólitískt og faglegt, um það hvernig við eigum að standa að menntamálum. Við viljum að samstaða sé um menntamálin og það á ekki að snúast um geðþóttaákvörðun, eða „ ég-aðgerðir“ hæstv. ráðherra, hvernig menntamálum er stýrt.



[15:59]
Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Það er nú einu sinni þannig að í fjárlögum hefur menntamálaráðherra ákveðið fjármagn til framhaldsskólans. Og hvaða skyldur hefur menntamálaráðherra? Hann hefur þær skyldur að nýta það fjármagn sem best.

Nú er verið að auka fjármagn í skóla, þ.e. fjármagn á hvern nemanda er aukið. Þetta hefur þann tilgang að styrkja framhaldsskólann sem ungmennaskóla, styrkja bóknámið, það er tilgangurinn. Það er ekki verið að skerða aðgengi 25 ára og eldri, það eru ýmsir möguleikar sem hafa verið raktir hér. En við höfum horft upp á gífurlegt brottfall í ungmennaskólunum, menntaskólunum, bóknáminu. Fjármagn á hvern nemanda lækkaði verulega á síðasta tímabili og það er verið að auka það.

Halda menn virkilega að hægt sé að fara sömu leiðina og láta sem ekkert sé með þetta fjármagn og minnka á hvern nemanda? Það er auðvitað ekki hægt. Það eru ýmsir möguleikar. Við höfum tilhneigingu til þess að bera okkur alltaf saman við Norðurlöndin, að vísu gera sumir það aðeins þegar hentar, og þá er þetta leiðin. Þetta er leiðin til að styrkja skólann og hún er nauðsynleg og það verður einfaldlega ekki hjá henni komist. Ég held að við ættum öll að einbeita okkur að því að styrkja skólann enn betur í framtíðinni í stað þess að hér sé einhvers konar lausung þar sem ekki er tekið á brottnámi, enginn gerir neitt og þetta er látið lulla áfram. Það kemur ekki út úr því góður skóli og það koma ekki út úr því góðir nemendur.



[16:01]
Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það liggur við að manni líði eins og skólameistara hérna uppi, þ.e. í algerri óvissu um hvert verið er að fara með þetta mál af hálfu menntamálaráðherra því það er alveg víst að ef einhverjir hafa misskilið hann þá eru það skólameistararnir í landinu, ef hægt er þá að misskilja hvað hæstv. ráðherra er að fara.

Í hvítbók menntamálaráðherra um umbætur í menntun er sérstakur kafli um námstíma og hvaða markmiði ráðherra hyggst ná með styttingu námstíma, þ.e. að 60% nemenda ljúki námi í framhaldsskóla á tilsettum tíma í stað 44% í dag með því meðal annars að stytta námið. Þetta er nokkuð skýrt. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 er einnig fjallað um þetta og segir, með leyfi forseta:

„Að því marki sem takmörkunum verður beitt við innritun í framhaldsskóla verður megináhersla lögð á að mæta óskum nemenda undir 25 ára aldri um skólavist […] Að öllu samanlögðu þýðir þetta að ársnemendur fjárlaga 2015 verða 18.685 og er það fækkun um 916 ársnemendur.“

Það er þarna sem á að finna hærra framlag á nemenda, ekki með því að auka framlögin, heldur með því að breyta deilitölunni með því að lækka hana, þ.e. með því að fækka nemendum. Það er þannig sem á að gera það. Er hægt að misskilja það sem kemur fram í hvítbókinni og það sem kemur fram í fjárlagafrumvarpinu? Nei, það hefur enginn misskilið það. Framhaldsskólameistarar hafa ekki misskilið það. Þeir hafa sent út yfirlýsingar hverja af annarri um áhrif þess að takmarka nám fólks eldra en 25 ára að skólunum, en þá kom menntamálaráðherra í gær í útvarpið og þar segir í frétt, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðherra segir það misskilning að til standi að innleiða styttingu framhaldsskólans næsta haust.“

Ég spyr: Hvað ætlar hæstv. menntamálaráðherra sér í þessu máli? Ætlar hann að fylgja hvítbókinni? Ætlar hann að fylgja fjárlagafrumvarpinu (Forseti hringir.) eða er þetta allt saman einn misskilningur? (Forseti hringir.) Og þá óska ég eftir því að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) tali skýrar og sendi skýrari skilaboð til skólanna.



[16:04]
Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Mjög lítið samráð virðist hafa verið haft við hagsmunaaðila varðandi fyrirhugaðar breytingar á framhaldsskólakerfinu eða við gerð hvítbókar. Ég hvet hæstv. menntamálaráðherra til að hefja nú þegar víðtæka umræðu um menntamál í landinu og kalla til hennar alla þá sem þessi mikilvægu mál varða. Miklar vangaveltur hafa átt sér stað um þessar breytingar og hvaða áhrif þær munu hafa í för með sér fyrir menntun í landinu, eins og t.d. stytting framhaldsskólans.

Við í Bjartri framtíð erum í sjálfu sér opin fyrir breytingum en erum ekki viss um að áform ráðherra tryggi jöfn tækifæri nemenda og auðveldi þeim nám sem ekki vilja fara í gegnum framhaldsskólann á þremur árum eða geta það einfaldlega ekki.

Margar spurningar vakna. Hvað á að skera burt? Er það kjarninn, sem eru skyldufögin, eða kjörsviðin, sem er sérhæfing og valfög, eða kannski hvort tveggja? Hvernig verður samráði háttað við nemendur, foreldra og kennara í ferlinu? Hvernig verður samráð milli skólastiga, t.d. grunnskóla og háskóla? Verða framhaldsskólarnir „strúktúreraðir“ eins eða á að gera breytingu á þeim? Mun þetta auka fjölbreytni í námsvali eða draga úr henni? Eykst þyngd námsins á hverri önn? Ef svo er, er búið að velta fyrir sér aukinni stoðþjónustu við hópinn sem á henni þarf að halda og mun verða stutt betur við nemendur fjárhagslega í ljósi þess að margir nemendur vinna með skóla? Verður ekki að endurskoða og gera breytingar á grunnskólanum samhliða áformunum styttingu framhaldsskólans?

Helstu rök hæstv. menntamálaráðherra fyrir styttingunni eru þau að við séum lengur að koma krökkum í gegnum grunn- og framhaldsskóla en aðrar þjóðir. Kemur t.d. til greina að lengja skólaárið og hafa sama háttinn á og Danir sem eru með 200 nemendadaga á ári á móti 180 hér sem þýðir að þeir eru níu ár að klára 1.800 daga en við erum tíu ár að klára þá?

Virðulegi forseti. Þetta eru margar spurningar og þær eru miklu fleiri sem svara þarf í þessu ferli öllu. Lykilatriðið er samráð við alla sem að menntamálum koma því að einungis þannig næst niðurstaða og sátt sem er mjög mikilvæg í þessum málaflokki. Menntamál eru atvinnumál og snúast um lífskjör þjóðarinnar til framtíðar. Menntun er í raun mikilvægasta fjárfesting þjóðar.



[16:06]
Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Það er öllum mikilvægt að hafa traust og gott skólakerfi þar sem allir geta fengið menntun við sitt hæfi. Það er einnig mikilvægt að hafa öflugar skólastofnanir, þar á meðal framhaldsskóla, um alla landsbyggð.

Hæstv. menntamálaráðherra fór fyrir stuttu fundaferð um landið og kynnti áform sín um umbætur í menntamálum. Þar var meðal annars fjallað um styttingu á framhaldsskólanámi og ýmsar breytingar er snúa að menntakerfinu. Tel ég að mörg af þeim áformum geti orðið til góðs. Hins vegar tel ég nauðsynlegt að þessar breytingar verði gerðar í nokkrum skrefum og að kerfið og vinnan innan þess fái að aðlagast breyttu umhverfi og koma að því ferli er að því lýtur.

Þrátt fyrir þetta hef ég áhyggjur af stöðu framhaldsskólanna eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015 og þeirri fækkun sem það felur í sér á nemendaígildum, sérstaklega í ljósi þess að undanfarin ár hafa skólastofnanir landsins, þar á meðal framhaldsskólar, þurft að sníða sér mjög þröngan fjárhagslegan stakk.

Það hefur haft þau áhrif að víða hefur þurft undanfarin ár að draga saman í námsframboði og einnig þekkist það að úrræði er varðar sérkennslu og sérúrræði fyrir nemendur hafi verið skert, og er það miður. Álagið hefur verið mikið á starfsfólk og komið er að þolmörkum í þeim efnum.

Þrátt fyrir þetta mikla álag hafa starfsmenn skólanna unnið mjög gott starf. Fjarmenntaskólinn hefur verið settur á fót en markmið hans er að auka framboð náms á framhaldsskólastigi á starfssvæði þeirra skóla er vinna saman að kerfinu og á landinu öllu. Dreifnám er víða í góðum gangi og nauðsynlegt er að standa vörð um þá starfsemi. Dreifnám hefur nefnilega jákvæð áhrif fyrir nemendur er búa á landsbyggðinni. Þeir geta verið lengur heima og þetta styður vel við byggðasjónarmiðin. Mikilvægt er að fá svör við hvað niðurskurður í formi fækkunar á nemendaígildum þýðir fyrir framhaldsskóla landsins og hver tilgangurinn er. Ef það varðar styttingu framhaldsskólanámsins, er þá ekki ráð að staldra aðeins við, vinna málið í fáum góðum skrefum og með aðlögun kerfisins í huga?



[16:08]
Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Menntun er rosalega mikilvæg fyrir alla sem einn. Með það í huga vil ég samt segja: Stúdentspróf eru vita gagnslaus. Ég endurtek: Menntun er rosalega mikilvæg, stúdentspróf gagnslaus.

Það er rosalega erfitt að breyta kerfinu. Fólk er vant þessu ferli; leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli, háskóli. Það er erfitt að breyta en ef framhaldsskólinn breytist, hverfur jafnvel úr því formi sem hann er núna, þá breytir það því ekki að nemendur og kennarar verða áfram á þeim aldri að læra og kenna.

Nú þegar getur fólk skautað fram hjá stúdentsprófinu ef það vill komast í háskóla. Ég mæli ekki með því en það er hægt, það er erfitt en það er mögulegt. Aðgengið er takmarkað á landfræðilegan og peningalegan hátt en það er nákvæmlega þar sem við komum að kjarna málsins. Hvaða leiðir hefur fólk til að halda áfram að mennta sig? Tækifæri ungra foreldra og þeirra sem hafa ekki aðstæður eða efni á yngri árum, eða þeirra sem komast seint á menntabraut. Leiðirnar sem fólk hefur í stað þeirra sem verið er að klippa á eru ekki augljósar eða aðgengilegar öllum. Ef frumgreinadeildir og fjarnám eiga að vera lausnin þá vantar tilfinnanlega upp á stoðkerfið, t.d. tryggan aðgang að internetinu um allt land fyrir fjarnámið ásamt möguleikanum til að nálgast kennara án þess að þurfa að ferðast yfir hálft landið til þess. Því að sama er hversu frábæran möguleika fjarnám býður upp á þá er samvinna með kennara augliti til auglitis árangursríkasta kennsluaðferðin sem við kunnum. Því er verið að fjarlægja ákveðna möguleika til náms án þess að bjóða upp á sambærilega kosti í staðinn.

Varðandi það sem kom fram áðan vil ég endilega spyrja: Er verið að laga brottfall með því að koma í veg fyrir að nemendur í einhverjum áhættuhóp fari í námið? Það hljómaði dálítið þannig.



[16:10]
Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum fyrir góða umræðu. Ef marka má málflutning sumra hv. stjórnarþingmanna má vænta þess að hér verði einhverjar breytingar áður en við afgreiðum fjárlögin.

Hæstv. ráðherra vill bera okkar menntakerfi saman við menntakerfi annars staðar á Norðurlöndunum. Það er vissulega lærdómsríkur samanburður en við náum ekki þeim viðmiðum með skyndiákvörðun um fjöldatakmarkanir, það þarf meira til, bæði frekari undirbúning og fjármagn. Þrengt hefur verið að framhaldsskólunum og þeim hefur tekist að halda uppi þjónustu þrátt fyrir niðurskurð, en í stað þess að leggja fjármagn til skólanna er nemendum fækkað þannig að deilt er í heildarframlagið með lægri nemendatölu og út kemur hærra framlag á hvern nemanda. Nemendum er fækkað til að dæmið gangi upp.

Framhaldsskólarnir tóku vel á til að mæta ungu fólki í atvinnuleit þegar atvinnuleysi var sem mest hér á landi á síðasta kjörtímabili. Þannig fengu margir og þar á meðal 25 ára einstaklingar tækifæri til að mennta sig út úr kreppunni ef svo má segja. Menntun verður ekki frá okkur tekin. Henni verður til dæmis ekki stolið frá okkur og menntun stuðlar að vexti bæði einstaklinga og samfélaga. Þess vegna borgar sig að leggja fjármuni í menntun og raða henni framar í forgangsröðinni með viðbótarframlagi. Það eigum við að gera núna þegar við erum að rétta úr kútnum eftir efnahagshrun.

Mér finnst stjórnvöld sýna mikla skammsýni og metnaðarleysi þegar þau vilja greiða fyrir kjarasamninga kennara með fjöldatakmörkunum í framhaldsskóla. Þar finnst mér vanta alla hugsun, leyfi ég mér að segja, virðulegi forseti, og framtíðarsýn bæði í mennta- og byggðamálum.



[16:12]
mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda enn á ný fyrir umræðuna, og einnig öðrum hv. þingmönnum.

Það eru ýmis atriði sem ég vil tæpa hér á en reyni að fara hratt í gegn. En fyrst þetta. Það er rangt sem haldið er hér fram og er sagt í síbylju að verið sé að skera niður heildarframlög til framhaldsskólastigsins. Hið öfuga er rétt, þ.e. verið er að auka í krónum talið framlögin til framhaldsskólanna.

Síðan er líka verið að horfa til þess að hækka framlagið á hvern nemanda, það verði gert, og ég legg það til. Það er ekki svo að deilt sé með lægri tölu eins og hér hefur verið haldið fram af hv. þingmönnum, í það minnsta tveimur, þeir hafa þá misskilið málið, því að mætti nú halda að auðvelt væri að átta sig á þessu af því að þetta stendur skrifað í fjárlagafrumvarpinu skýrum stöfum.

Síðan er hitt að hér hefur verið líka sagt, virðulegur forseti, að gengið hafi vel á framhaldsskólastiginu. Ég ætla bara að leyfa mér að segja að það sé ekki svo. Það er ekki í lagi hjá okkur hvernig við stöndum okkur í því að láta krakkana klára nám á framhaldsskólastigi. Skoðið bara samanburð við önnur lönd þá sjáið þið það. Þetta er ekkert í lagi. Það sem ég er að reyna að gera er að hækka framlagið til nemenda þannig að við höfum meira úr að spila fyrir hvern nemanda til þess að koma krökkunum í gegn.

Númer tvö. Hvers vegna þessi 25 ára regla? Hún er auðvitað fengin þannig, virðulegi forseti, að ég er með reglugerð sem var samin árið 2012 þar sem er farið í gegnum það lið fyrir lið í hvaða röð á að taka inn nemendur. Þar er kveðið á um í g-lið að þegar búið er að taka inn alla þá sem koma úr grunnskólunum og svo framvegis, og farið er í forgangsröð þá kemur hópurinn 25 ára og eldri. Þannig er þetta nú fengið.

Ég ítreka, það er áfram engin breyting hvað varðar iðn- og verknámið. Það er meðal annars vegna þess að meðalaldur þeirra sem eru í því námi er 25 ár, það er meðalaldur þeirra sem eru í því námi og aldrei hefur komið til greina að breyta því.

Ég vil síðan ítreka þetta. Þegar talað er um stöðu framhaldsskólans (Forseti hringir.) þá á að rifja það upp að framlag á nemanda árið 2011 (Forseti hringir.) fór niður í 890 þús. kr. (Forseti hringir.) á verðlagi ársins í ár, (Forseti hringir.) en grunnskólanemandi kostar 1,5 milljónir. (Forseti hringir.) Það kalla ég, (Forseti hringir.) aðför að framhaldsskólakerfinu.