144. löggjafarþing — 57. fundur.
sérstök umræða.

gjaldeyrishöft.

[14:08]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er kunnara en hafa þurfi um mörg orð að það er eitt brýnasta verkefni efnahagsstjórnar á Íslandi að losa gjaldeyrishöft. Kostnaðurinn af þeim er gríðarlegur. Viðskiptaráð mat tapaðar gjaldeyristekjur á ári 80 milljarða vegna gjaldeyrishaftanna. Við sjáum að fjármálafyrirtækin eiga erfitt með að fjármagna sig erlendis og þar af leiðandi eru stærri fyrirtækin farin að njóta betri kjara, aðstöðumunur eykst milli minni fyrirtækja og þeirra stóru og fjölmargar aðrar neikvæðar afleiðingar eru af gjaldeyrishöftunum.

Til að ná árangri við þetta mikilvæga verkefni þarf heildarmyndin að ganga upp og það þarf að setja hagsmuni íslensks atvinnulífs og íslenskra heimila og fyrirtækja í öndvegi. Það dugar ekki að einblína á þrotabú og þarfir þeirra eða aðra þætti, það má ekki stíga neitt skref til að losa suma út nema tryggt sé að hægt sé að mæta þörfum einstaklinga, lífeyrissjóða og atvinnufyrirtækja í bráð og lengd. Við getum ekki hneppt íslenskt atvinnulíf í hlekki um ókomna tíð til að þjóna erlendum kröfuhöfum.

Við höfum séð á undanförnum missirum að ríkisstjórnin talar digurbarkalega um afnám hafta en það gerist óskaplega lítið. Yfirlýsingar forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa nú verið svo miklar og stórkarlalegar að það er eiginlega orðin sérstök bókmenntagrein að fara yfir þær. Það dugar að nefna að strax eftir að ríkisstjórnin tók við sagði forsætisráðherra að hann hefði skýra áætlun um afnám hafta sem yrði kynnt í september það sama ár. 15. október 2013 fullyrti fjármálaráðherra að stutt væri í afnám haftanna. Í janúar 2014 sagði forsætisráðherra að ríkisstjórnin hefði skamman tíma til að afnema höftin og 7. júní á síðasta ári sagði fjármálaráðherra — og það er nú kannski hægt að taka undir með honum í því — að það þurfi pólitískan kjark til að afnema höft. Það hefur ekki verið mikið framboð á honum, að því er best verður séð.

Við höfðum í tíð fyrri ríkisstjórnar áætlun uppi á borðum sem var öllum ljós og unnið hefur verið eftir og tryggðum samningsstöðu gagnvart erlendum kröfuhöfum með því að fella eignir þrotabúanna undir höftin í mars 2012. Þá sat Framsóknarflokkurinn hjá og Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði á móti. Og það er sú samningsstaða sem við þurfum nú að nýta. Við höfðum í lok þess kjörtímabils lagt upp hugmyndir um lausn haftanna, sem gerðu ráð fyrir að ríkið og lífeyrissjóðir tækju yfir eignarhald bankanna og að svigrúm upp á 300 milljarða, var áætlað þá, mundi skapast. En síðan hefur ekkert gerst.

Í aðgerðaáætluninni sem fyrir liggur var gert ráð fyrir því að þegar álandsgengi og aflandsgengi færðust saman kæmi til útgönguskatts. Það hefur nú gerst en það bólar ekkert á útgönguskattinum eða útfærslu á honum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður í því efni?

Stóra spurningin er síðan: Hvert er markmiðið? Er höfuðmarkmiðið að afnema höft með íslenska hagsmuni að leiðarljósi eða er ríkisstjórnin orðin verklaus og lömuð vegna þess að hún er orðin fangi ítrekaðra yfirlýsinga forsætisráðherrans um hversu gríðarlega mikla peninga hann ætlaði að skapa með afnámi hafta? Er ekki nauðsynlegt að ríkisstjórnin geri það upp við sig hvort markmiðið er að afnema gjaldeyrishöft eða að afla tekna fyrir ríkið? Hver er afstaða fjármálaráðherrans í þessu efni, hvað setur hann í forgang? Er ekki höfuðverkefnið að losa höftin, finna leið til þess, og getum við ekki sameinast um það meginmarkmið?

Auðvitað viljum við skapa allt það svigrúm sem mögulegt er en höfuðmarkmiðið hlýtur að vera að tryggja árangur við afnám hafta.

Að síðustu þá er leyndin, sem hefur verið yfir verkefninu öllu, mikið umhugsunarefni. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir í nýlegri úttekt sinni að mjög mikilvægt sé að fullt gagnsæi sé og fyrirsjáanleiki um áætlun um afnám hafta. Hann vekur áhyggjur og tortryggni þessi leyndarhjúpur og það mikla hringl sem verið hefur á stofnanaumgjörðinni í þessu efni, sífellt nýjar og nýjar nefndir sem virðast vera til vitnis um ágreining innan ríkisstjórnarinnar um leiðina áfram. Er fjármálaráðherra tilbúinn að stíga næstu skref í opnu ferli hér og (Forseti hringir.) ræða við okkur opinskátt og byggja þverpólitíska samstöðu um þetta mikilvæga hagsmunamál þjóðarinnar?



[14:13]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Hér er sett á dagskrá eitt allra stærsta verkefni á sviði efnahagsmála sem ríkisstjórnin vinnur að ef ekki það stærsta. Það skiptir miklu að við ræðum um þetta mál í réttu heildarsamhengi hlutanna.

Fyrst aðeins út af umræðu um þann tíma sem það tekur að afnema höft, ég hef margoft sagt: Það er í sjálfu sér ekkert lagatæknilegt eða efnahagslegt sem kallar á að höftin séu visst lengi. Það þurfa bara ákveðnir hlutir að gerast. Það þarf að létta af þeim þrýstingi sem stendur á krónuna, vegna uppgjörs á slitabúum föllnu bankanna, vegna aflandskrónuvandans og vegna endurfjármögnunarþarfar hér innan lands, áður en það er gert. Fyrir okkar parta, sem sitjum í ríkisstjórninni, þarf það ekkert að taka vissan árafjölda. Það hafa bara ekki fæðst þau skilyrði að þetta sé mögulegt. Það er fyrst og fremst vegna þess að slitabúin hafa ekki náð að ljúka nauðasamningum og hafa ekki haft uppi raunhæfar væntingar um það hvernig það getur gerst svo að hægt sé að gefa vilyrði um undanþágur frá gjaldeyrishöftum. Það hefur tafið ferlið. Þess vegna hef ég oft sagt í opinberri umræðu um þetta: Þetta getur tekið tiltölulega skamman tíma ef hægt er að stilla saman væntingar. Það hefur ekki gerst.

Þó hafa ýmsir jákvæðir hlutir gerst á undanförnu einu og hálfu ári eða svo. Þar vil ég nefna að við höfum kortlagt þennan undirliggjandi vanda miklu betur en við höfðum gert fram að þeim tíma. Við höfum fengið erlenda ráðgjafa okkur til liðsinnis, sérstaklega síðasta rúma hálfa árið. Ég met það svo að það hafi verið mjög mikið gagn af því. Nú síðast, þegar við erum að uppfæra skipulag þessarar vinnu, þá er Seðlabankinn að koma nær og nær vinnunni og að setja fólk til starfa í haftaafnámsvinnunni. En það er mín skoðun að við höfum kannski sett of mikinn kraft í framkvæmd haftanna, að viðhalda höftunum, að tryggja að við værum að fylgja lögum og reglum um það hvernig ætti að framfylgja höftunum. Við vorum kannski farin að venjast því á einhverjum tímapunkti og að verða sérfræðingar í því að viðhalda höftum. Of lítill kraftur fór í að kortleggja afnám haftanna.

Annað sem ég gæti nefnt er að fram undan er síðasta útboðið á vegum Seðlabankans sem markar ákveðin tímamót hvað varðar aflandskrónuhlutann. Fundir með kröfuhöfum sem voru haldnir undir lok síðasta árs gáfu okkar sérfræðingum líka innsýn inn í það hvaða væntingar eru þar. Allt þetta hjálpar okkur við að móta heildstæða áætlun vegna þess að það er rétt, sem málshefjandi nefnir hér, að við þurfum heildstæða áætlun sem tekur á öllum öngum þessa máls.

Ég vil ekki líta þannig á að við stöndum frammi fyrir vali um að hafa höft eða hafa miklar tekjur af afnámi haftanna, þ.e. að við höfum höftin á meðan við finnum ekki leiðir til að afnám þeirra skapi ríkissjóði miklar tekjur, það er ekki verkefnið. Þetta snýst miklu frekar um að viðhalda stöðugleika. Þeim efnahagslega stöðugleika sem hefur skapast hérna á undanförnum árum og við ætlum ekki að skipta á höftunum og stöðugleikanum heldur einmitt að verja stöðugleikann á sama tíma og höftin hverfa. Þetta mun gerast í skrefum, en ég hef, eins og ég hef áður sagt, trú á því að hægt sé að stíga stór skref innan skamms á grundvelli þeirrar vinnu sem er í undirbúningi í Stjórnarráðinu. Það hafa aldrei fleiri verið í fullu starfi við að þróa þær lausnir sem við munum þurfa að láta reyna á á næstu mánuðum en einmitt í dag.

Ég vil láta það koma fram í þessari umræðu að ég hef ávallt stutt gott samráð milli flokka frá því að ég var í stjórnarandstöðu. Það var kannski helsta ástæða þess að við lögðumst gegn málinu á sínum tíma, sem vitnað var til hér, að stjórnarandstaðan var algjörlega í myrkrinu og skildi ekkert hvers vegna verið var að herða höftin. Við vorum á móti því að herða höftin á þeim tíma sem við töldum að við ættum að vera farin að létta þeim, meðal annars vegna þess að stjórnarandstaðan væri algerlega í myrkrinu. (Gripið fram í.)

Það skal sagt hér að ég styð áframhaldandi samráð á þeim pólitísku forsendum sem hafa gilt um það. Þó að smá hikst hafi komið í þá vinnu nýlega, þá stendur hugur minn til þess að viðhalda því og tryggja sem allra mesta samstöðu um þau skref sem stigin verða í framhaldinu.



[14:18]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að skiptast á orðum um þetta risavaxna mál. Ég vil nota tækifærið og ítreka það sem ég hef áður sagt í umræðum um þessi mál, að um leið og verkefnið er stórt og mikið er mjög mikilvægt að við náum samstöðu um þau skref sem stíga þarf. Sú samstaða þarf að fela í sér að afnám hafta valdi ekki almennri kjaraskerðingu fyrir almenning í landinu. Ég held að það hljóti að vera eitt af markmiðunum í þessari vinnu.

Þó að það sé rétt að höftin kunni að verða afnumin í einhverjum skrefum er mikilvægt að hafa heildarmyndina alltaf undir og þess vegna er mjög mikilvægt að vel sé staðið að málinu og að við náum samstöðu um þá aðferðafræði sem verður fyrir valinu, hver sem hún kann að verða. Hér hefur verið rætt um nauðasamninga og hér hefur líka verið rætt um útgönguskatt, sem ég hef nú raunar alltaf haldið til haga að kunni að verða sú leið sem fara þurfi í þessu máli. En hluti af því að við getum lent þessu máli almennilega er að almenningur í landinu og Alþingi allt sé upplýst af því að hér kann að koma upp sú staða að við þurfum að taka ákvarðanir með skömmum fyrirvara og þá er brýnt að við getum náð samstöðu um þær ákvarðanir. Auðvitað er von að við setjum spurningarmerki við til að mynda allar þær misvísandi yfirlýsingar sem gefnar hafa verið og komið hafa fram, meðal annars í máli hv. málshefjanda, þar sem tilkynnt var við upphaf þessa ríkisstjórnarsamstarfs að unnin yrði ný áætlun um afnám hafta. Hana átti að kynna í september 2013, ekki september 2014. Hér kom fram áðan að nú væri unnið að heildstæðri áætlun. Ég skil þá málið sem svo að við séum í raun og veru enn að vinna samkvæmt hinni gömlu áætlun sem sett var á laggirnar 2011, nema það sé þannig að ekki sé unnið samkvæmt neinni áætlun. Mér finnst mikilvægt að fá það staðfest að við séum þá að vinna samkvæmt áætluninni sem samþykkt var 2011 og nýja áætlunin hafi í raun ekki litið dagsins ljós þó að hér sé margoft búið að gefa yfirlýsingar um annað.

Ég fagna orðum hæstv. ráðherra um áframhald á þverpólitísku samstarfi en kem nánar að því á eftir í síðara innleggi mínu.



[14:21]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er eins og málshefjandi orðinn svolítið ringlaður á ýmsum yfirlýsingum um afnám hafta, að aðgerðir um afnám hafta verði kynntar fyrir eða eftir helgi, þetta er orðið svona síendurtekið leiðarstef í umræðunni um höftin. Maður er orðinn svolítið langeygður eftir því að fara að sjá einfaldlega hverjar áætlanirnar eru. Ef menn hafa ekki áætlanirnar þá ættu menn að hætta endurteknum yfirlýsingum um að þær sé væntanlegar.

Hins vegar finnst mér margt í áherslum hæstv. fjármálaráðherra í umræðunni um afnám hafta vera mjög gott. Ég get tekið undir það. Mér hefur fundist mjög mikilvægt að það er skýrt í huga hæstv. fjármálaráðherra að við erum að fara að afnema höft, við erum ekki að fara að reyna að græða peninga, verkefnið er að afnema höft á fjármagnsflutninga og koma á frjálsu markaðshagkerfi, frjálsum fjármagnsflutningum á Íslandi.

Á sama tíma ætlum við að viðhalda stöðugleika og við verðum að búa þetta ferli þannig úr garði að við eflum traust á íslensku hagkerfi. Þetta þarf allt að vera alveg skýrt. Þetta er ekki ferli þar sem við ætlum að reyna að nota tækifærið til að koma höggi á erlenda kröfuhafa eða til að svara fyrir okkur út af því sem íslenska þjóðin þurfti að láta ganga yfir sig í hruninu, eða til þess að koma 300 milljörðum einhvern veginn upp í Seðlabanka sem við getum síðan eytt að vild hér í pólitíkinni. Þetta er ekki ferli um það.

Gagnvart þeirri hugmynd að við komum til með að græða fullt af peningum í þessu þá hvet ég til þess að menn spyrji sig: Mun það standast fyrir dómstólum erlendis að það verði hið augljósa markmið afnáms haftanna hér? Hver er munurinn á því að taka 300 milljarða úr þessum sjóðum sem eru ekki inni í hagkerfinu núna og einfaldlega bara prenta þessa peninga og setja þá út í hagkerfið með augljósum efnahagslegum afleiðingum? Þannig að ég fagna því að markmiðin (Forseti hringir.) í huga hæstv. fjármálaráðherra eru skýr.

Ég held að það sé meiri samhljómur milli (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra og minnihlutaflokkanna (Forseti hringir.) á þingi en á milli (Forseti hringir.) fjármálaráðherra og (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra.



[14:24]
Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir að hefja þessa umræðu. Ég fagna því og tel reyndar afar mikilvægt að við fáum tækifæri til að draga fram mikilvægustu þættina í þessu brýna verkefni, í þessu stóra og mikla hagsmunamáli þjóðarinnar.

Já, markmiðin eru alveg skýr; að koma á frjálsu flæði fjármagns en um leið að verja stöðugleikann. Í því felst auðvitað sú samstaða sem er svo afar mikilvæg og ég finn í máli hv. þingmanna hingað til að samhljómur er með.

Ég hef hins vegar ekki, eins og fram kom hjá hv. málshefjanda, upplifað neitt hringl á þessari vinnu, en það eru auðvitað mjög margir aðilar sem hafa með málið að gera og margt sem þarf að fara saman eins og hæstv. fjármálaráðherra fór mjög vel yfir í sinni ræðu. Ég hef þvert á móti upplifað það að ríkisstjórnin hafi unnið skipulega að lausn þessarar vinnu með aðkomu færustu sérfræðinga og ráðgjafa, innlendra og erlendra, og hingað til hafa verið tekin markviss fagleg skref allt frá því hæstv. forsætisráðherra skipaði ráðgjafarhóp um losun hafta í nóvember 2013.

Eins og ég sagði fór hæstv. fjármálaráðherra í ræðu sinni vel yfir þetta ferli og um samfelluna í þeirri vinnu og samráðið við þingflokka, sem ég tek undir að er afar mikilvægt í næstu skrefum sem tekin verða. En hingað til hafa leiðtogar ríkisstjórnarinnar talað af varfærni og ríkisstjórnin tekið yfirveguð og markviss skref í átt að afnámi hafta sem er það mikilvægasta fyrir þjóðina alla.



[14:26]
Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Mér finnst hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson spila þetta mjög vel. Hann gerir það faglega, hann gerir það af yfirvegun, hann festir sig ekki í því að við ættum bara einhvern veginn að fara með þetta. Nei. Þetta verður bara gert ef það er innan ramma þess sem hv. þm. Árni Páll Árnason segir, árangur við afnám hafta en þó, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefnir, innan ramma stöðugleika. Þessi stöðugleikarammi þýðir að það er bara hægt að taka ákveðið mikið af peningum úr landi. Ef ekki er hægt að hoppa í gegnum þann hring verður þetta ekki klárað. Hæstv. fjármálaráðherra stendur mjög fast á þeim stað, þetta er samningaferli, óbeint samningaferli, þetta er ákveðinn pókerleikur sem er í gangi. Að sjálfsögðu vilja kröfuhafarnir taka sem mest úr landi en fjármálaráðherra hefur staðið fast á sínu, það verður ekki gert nema innan ramma stöðugleika, það er mjög mikilvægt.

Síðan þurfum við líka að horfa til þess að 60 milljarðar eiga eftir að fara í kosningaloforð Framsóknarflokksins sem á að taka út úr þessu þrotabúi í gegnum skatta. Þetta á eftir að gera á næstu þrem árum. Það skapar að sjálfsögðu ákveðið vandamál við þetta ferli. Ef það á að klára þetta uppgjör á búunum verður einhvern veginn að ná þessum peningum inn til að geta deilt þeim út til landsmanna. Að sjálfsögðu veldur það ákveðnum óþægindum í öllu þessu ferli. Ef það er rétt, sem hv. þm. Árni Páll Árnason segir, að þetta kosti 80 milljarða á ári í töpuðum gjaldeyristekjum, eru það 80 milljarðar sem tapast. Hvað tefst ferlið mikið út af kosningaloforði Framsóknarflokksins? Það er eitthvað sem við ættum að horfa til ef það er verið að tapa 80 milljörðum á ári í gjaldeyristekjum. Svona loforð kosta og þetta hefur klárlega áhrif á afnámsferlið, en (Forseti hringir.) það er mjög gott að hæstv. fjármálaráðherra sé í faglegu ferli að kortleggja allt ferlið(Forseti hringir.) og samningsstöðu og stöðu ríkisins gagnvart því að vera ekki lögsótt o.s.frv. (Forseti hringir.) og standa fast á því að þessi höft verði ekki afnumin nema innan ramma stöðugleika.



[14:28]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að það kom mér dálítið á óvart að heyra hæstv. ráðherra segja að stjórnarandstaðan hafi verið í myrkri á síðasta kjörtímabili, þann 12. mars 2012 þegar ákveðið var að fella þrotabúin undir höft. Það eru svo sem engin geimvísindi, að sjálfsögðu átti allt að vera innan hafta sem hafði áhrif á útflæði fjármagns hér og afnám þeirra. Þeir flokkar sem nú mynda ríkisstjórn hafa ekki sýnt það í verki hingað til að þeir taki þetta mál sérstaklega föstum tökum og þetta er hluti af sögu þeirra, þ.e. menn hafa ekki treyst sér til þess að fella þrotabúin undir höft. Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkvæði beinlínis gegn því og Framsókn sat hjá og menn geta því ekki afgreitt það svona billega.

Stærsta atriðið sem mér finnst órætt hér er að gríðarlegir fjármunir og eignir munu skipta um hendur í öllu þessu ferli, þar á meðal bankar, eignarhald á bönkum og mér finnst við þurfa að fara að ræða með hvaða hætti það verður gert. Þess vegna skiptir það máli sem hv. þm. Árni Páll Árnason sagði í ræðu sinni áðan, að ferlið sé eins gagnsætt og mögulegt er vegna þess að við Íslendingar höfum bitra reynslu af því þegar stjórnmálaflokkar koma að því að einkavæða banka, selja eignir eða hafa eitthvað með slíkt að gera þegar svona stórar eignir skiptar um hendur. Við höfum heilt bankahrun til að sýna afleiðingar þess. Þess vegna skiptir máli að við séum með allt uppi á borðinu í þessum efnum og við verðum að fara að ræða það með hvaða hætti við sjáum það gerast.

Að lokum vil ég nefna það að við þurfum líka að ræða hvað gerist svo, og ég sakna þeirrar umræðu af hálfu hæstv. fjármálaráðherra. Það á að afnema höft en hvaða peningastefnu ætla menn svo að reka? Það eina sem sýnt hefur verið í þeim efnum er að menn ætla að loka á evruleiðina. Ekkert annað hefur okkur verið sýnt en maður getur ekki afnumið höft nema vita hvað maður (Forseti hringir.) ætlar að gera næst.



[14:31]
Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Í þau rúmu 1.100 ár sem við höfum búið í þessu landi höfum við búið við frjálst flæði fjármagns, líklega í 1.015 ár. Í 60 ár bjuggum við við gjaldeyrishöft og síðan aftur í þau sjö ár sem liðin eru frá hruni. Þau gjaldeyrishöft sem nú eru við lýði koma einungis til vegna þess að verið er að varðveita stöðugleika. Í þrotabúum föllnu bankanna er, undarlegt nokk, íslenska ríkið einungis lítill aðili, einungis sem kröfuhafi. Því er þetta mál mjög vandmeðfarið, að íslenska ríkið blandi sér ekki í þetta með þeim hætti að það leiði til málaferla og það lengi í snörunni.

Þrotabúin eru sérkafli. Annar kafli er svokölluð snjóhengja sem er afrakstur af vaxtamunaviðskiptum á árunum fyrir 2008. Þar stendur upp á íslenska ríkið. En enn og aftur, segi ég, til að varðveita stöðugleika í gengi og þar með verðlagsbreytingum, verður að fara afskaplega varlega. Það verður að ná samkomulagi við kröfuhafa um eftirgjöf á eignum, sérstaklega á innlenda hlutanum, til að hér losni um greiðslur til kröfuhafa af erlendu eignunum sem eru í raun þau einu verðmæti sem eru í þessum búum.

Það er aldrei hægt að líta á eignir þrotabúanna sem einhvers konar mark til skattlagningar. Ég hallast að því að það sé hættulegt að reikna með útgönguskatti öðruvísi en hér verði löng málaferli. En þetta mál þarfnast þess að stigið verði varlega til jarðar og gagnsæið þarf að vera til staðar. (Forseti hringir.) Menn verða stundum að halda að sér höndum, sýna ekki á spilin. (Forseti hringir.) Til þess er verið að reyna að spila þetta til að varðveita stöðugleikann.



[14:33]
Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Áðan sagði hæstv. ráðherra að unnið væri að heildstæðri áætlun. Við fáum kannski svör við því á eftir hvaða áætlun er þá unnið eftir núna. Fyrir nákvæmlega ári kom það einmitt fram hjá hæstv. fjármálaráðherra að unnið væri hörðum höndum að gerð áætlunar um hvernig ætti að komast á næsta stað í ferlinu og raunar sagði svo hæstv. forsætisráðherra í febrúar 2014, af því að hér hefur verið rætt um að hæstv. ráðherrar hafi talað af varfærni, að vissulega væri unnið að áætlun en hún yrði ekki birt og henni yrði haldið leynilegri. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé sammála þeim orðum hæstv. forsætisráðherra frá því í febrúar 2014 en vil líka ítreka, af því að hér hefur verið starfandi hópur þar sem fulltrúar stjórnarandstöðu og stjórnarflokka hafa setið saman, að mér finnst algjört lykilatriði ef það á að vinna einhverja áætlun um afnám hafta að við tökum öll þátt í því, að það sé verkefni okkar allra en ekki einungis verkefni ríkisstjórnarinnar sem svo verði kynnt á einhvern hátt. Annars getum við ekki öll verið ábyrg fyrir þeirri áætlun. Áætlunin er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar ef hún er eingöngu unnin af henni.

Það kom líka fram hjá hæstv. ráðherrum áðan að það hefði hlaupið snurða á þráðinn eða eitthvað slíkt í störfum hópsins og vissulega er það rétt. Ekkert fundarboð hefur borist í þennan þverpólitíska hóp síðan snemma í desember. Á meðan hafa birst fregnir af framvindu mála í fjölmiðlum, svo sem um skipan enn einnar nefndar sem hafi verkefni tengd afnámi fjármagnshafta með höndum, að lagt hafi verið fram tilboð um einhvers konar eignaskipti til að greiða götu nauðasamninga, og því finnst mér mjög mikilvægt að því verði komið á hreint hvort ætlunin sé að halda áfram þessu samráði, hvort alvara sé á bak við það og hvort ætlunin sé að hér taki allir þátt í að móta þessa nýju áætlun sem hefur verið í vinnslu nánast allt kjörtímabilið, eins og hefur komið fram. Það liggur alveg fyrir að annaðhvort verðum við öll með og þá er það alvörusamráð, annars ber ríkisstjórnin bara ábyrgð á þessu máli.

Ég held að það sé (Forseti hringir.) affarasælast í ljósi stærðar málsins og hagsmunanna sem eru svo miklir fyrir alla að við gerum þetta saman. Svona liggur þetta.



[14:36]
Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég kýs að trúa því að hæstv. fjármálaráðherra átti sig vel á því hvað það er mikilvægt að það myndist um þessa umsvifamiklu aðgerð pólitísk samstaða. Hún bara verður að vera fyrir hendi.

Tökum dæmi. Ef ákveðið verður að fara í útgönguskatt, að það verði niðurstaðan, að við viljum létta þrýstingnum af þessu ferli með því að það verði útgönguskattur, þá þarf að hafa mjög sterk pólitísk bein í það. Útgönguskattur verður að ganga jafnt yfir alla. Hann verður ekki bara settur á kröfuhafana, hann verður þá settur á lífeyrissjóðina líka og alla þá sem þurfa að færa fjármuni úr hagkerfinu. Það þarf að vera þverpólitísk samstaða um að það sé í lagi vegna þess að annars verður þessi skattur bitbein hér um missiri og ár.

Ég efast um, og ég er sammála þeim sem hafa haldið því á lofti, að það standist að slíkur skattur verði tekjuöflunarleið fyrir ríkissjóð. Ég er ekki viss um að það mundi standast fyrir dómstólum sem málefnaleg ástæða fyrir þessum skatti, að við ætlum að reyna að græða á þessu öllu saman. Það eru miklar freistingar fyrir hendi hér í þessum sal og víðar að reyna að græða mjög mikla peninga á útgönguskatti eða öðrum leiðum við afnám hafta. Það þarf að forðast slíkar freistingar og það reynir á pólitíska samstöðu í því og samtal þannig að hér er augljóst dæmi. Ég nefni eina leið sem hefur verið nefnd í þessu, leið til afnáms hafta, og það er augljóst að hún krefst pólitískrar samstöðu og ég hvet hæstv. ráðherra til að einbeita sér að því að skapa hana.

Svo þurfum við auðvitað að horfa á heildarmyndina og til langs tíma. Þetta snýst ekki bara um búin. Ég er í raun farinn að hallast að því að uppgjör búanna sé eiginlega það auðveldasta í þessu. Svo er það fjárfestingarþörf Íslendinga, innlendra aðila, erlendis, um áratugi, lífeyrissjóðanna, annarra, og við þurfum að spyrja okkur: Höfum við (Forseti hringir.) gjaldmiðil í landinu sem stenst allan þann þrýsting um áratugina?



[14:38]
Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Yfirskrift þessarar umræðu er gjaldeyrishöft. Málshefjandi er hv. þm. Árni Páll Árnason, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Þeirri ríkisstjórn og þeim ráðherra tókst ekki að ljúka því verkefni að afnema fjármagnshöftin þótt væntanlega hafi ekki skort vilja til verksins. Hvers vegna skyldi það nú hafa tekið svo langan tíma?

Hv. málshefjandi hefur kallað eftir samráði af hálfu núverandi ríkisstjórnar, en þó hefur hann sjálfur átt sæti í samráðsnefnd þingnefndar um afnám hafta þar sem fulltrúar allra þingflokka sitja. Í samráðsnefndinni höfum við fengið kynningar um framvindu við afnám hafta og þá undirbúningsvinnu sem þar er í gangi. Við höfum fengið að spyrja innlenda og erlenda sérfræðinga og ráðgjafa sem vinna að tillögum að undirbúningi á næstu skrefum í afnámi hafta bundin trúnaði og þagnareiði.

Því miður fara hagsmunir landsmanna og kröfuhafa ekki alltaf saman. Kröfuhafar, sem flestir hafa keypt sig inn í þessa stöðu, vilja að sjálfsögðu hámarka gróðann af þeirri stöðutöku sinni, en þar sem gjaldeyristekjur þjóðarbúsins eru endanleg stærð er ekki hægt að verða við kröfum þeirra nema með því að skerða lífskjör í landinu um ókomin ár. Ég hef heyrt af ræðum þingmanna hér að fullkomin samstaða er um það í þessum sal að það sé ekki fær leið.

Það er mikilvægt að rifja upp að kröfuhafar eiga kröfur í fallna banka en ekki á ríkissjóð. Þessir föllnu bankar eru íslensk slitabú sem eru lokuð innan fjármagnshafta eins og allir aðrir í þessu landi. Kröfuhafarnir hafa óskað eftir því að fá að taka sitt fjármagn út fyrir höftin á undan öðrum hér í landi. Ekki er til nægur gjaldeyrir í landinu til þess að verða við því og gjaldeyrisafgangur komandi ára mun ekki duga nema kröfuhafar gefi verulegan afslátt af kröfum sínum.

Ríkisstjórnin hefur það vandasama verkefni að leysa fjármagnshöftin og gæta jafnræðis í því ferli og einnig að það verði ekki á kostnað landsmanna og lífskjara í landinu. Hér skiptir miklu að það takist vel til. Og eins og smiðirnir segja: Það skiptir mestu máli að mæla tvisvar því það er bara hægt að saga einu sinni.



[14:40]
Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að fagna því sem fram hefur komið í máli hæstv. fjármálaráðherra um aukið upplýsingaflæði og samvinnu um það hvað við ætlum að gera eftir að höftunum verður aflétt. Mér finnst það ekki síður mikilvægt og ég vona að sú samvinna sem hér hefur verið boðuð feli það líka í sér. Það er löngu tímabært að við sem Alþingi, einstakir þingmenn og flokkar, förum að hugsa framtíðina lengur en til næstu fjögurra ára. Það er óbærilegt að horfa upp á það að góð og vönduð vinna sé rakin upp eingöngu út af því að rétta fólkið kom ekki þeirri vinnu í gegn. Ég vil hvetja hæstv. fjármálaráðherra til að hafa góðan grunn að samvinnu um þessi mál hér á þingi. Ég held að það sé mjög mikilvægt til langs tíma fyrir alla. Auðvitað er það svo að við erum hér á Alþingi fyrir landsmenn alla, ekki bara fyrir kjördæmin okkar, flokkana eða hverfið.

Þetta er rosalega stórt mál. Eins og fram hefur komið skiptir miklu að unnið sé með heildarhagsmuni í huga. Ég efast ekki um að það sé markmið hæstv. fjármálaráðherra. En það er líka mjög mikilvægt að í þessu ferli verði ekki það sem kalla má „hubris“. Hann gengur út á það að viðkomandi sem fer með málaflokkinn haldi að hann einn geti leyst hann. Hér skiptir miklu máli að við gerum eins og þegar við þurftum að taka Icesave fyrir dóm, að við vinnum eindregið saman öll. Það mun skila langbestum árangri fyrir framtíð landsins og fyrir okkur öll sem hér sitjum. Þá munum við vonandi sofa ákaflega vel á næturnar ef okkur tekst að gera þetta á tilhlýðilegan máta án þess að hér fari fram (Forseti hringir.)



[14:42]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Fyrst, vegna orða hv. þm. Frosta Sigurjónssonar, vil ég segja að það er óþarfi að vera með skens í garð minn eða síðustu ríkisstjórnar fyrir framgöngu okkar í afnámi hafta. Sú áætlun sem var unnin í minni efnahagsráðherratíð árið 2011 er sú sama og búið er að vinna að í næstum því tvö ár í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hún hefur ekki breytt einum stafkrók í þeirri áætlun. Það er auðvitað mikil traustsyfirlýsing við það verklag sem lagt var upp með.

Ég fagna yfirlýsingu hæstv. ráðherra um samráð sem ég held að sé forsenda að lausn. Hann sagði að slitabúin hefðu ekki getað komið með lausn, það hefði tafið málin. Við getum ekki sætt okkur við það. Við hljótum að standa saman um að sætta okkur ekki við það að þau ákveði hraðann í þessu verki eða þau ákveði dagskrána en samráð hlýtur að felast í alvörusamtali. Það veit hann frá síðasta kjörtímabili og ágætt að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir vísaði hér til samráðsins um Icesave í aðdraganda málsvarnarinnar. Það tókst vel vegna þess að menn komu þar ekki að ketinu soðnu. Allir fulltrúar stjórnarandstöðunnar fengu að eiga þátt í mótun afstöðunnar. Það er ekki samráð að boða til funda og kynna ákvarðanir sem þegar hafa verið teknar. Þess vegna er það grundvallaratriði ef menn vilja almenna pólitíska samstöðu um þetta verkefni að við komum saman að mótun afstöðunnar.

Ég vil líka undirstrika mikilvægi gagnsæis og almennra leikreglna í þessu efni. Eðli málsins samkvæmt, í ljósi þess hvernig þessir flokkar fóru með það vald sem þeir höfðu tök á við einkavæðingu bankanna á sínum tíma, þegar vildarvinum var afhent lykilaðstaða í efnahagslífinu, þá er tortryggni í samfélaginu. Það er eðlilegt að mæta henni með því að vinna þetta eins og kostur er fyrir opnum tjöldum og draga úr ótta við flokksbundna (Forseti hringir.) hrægamma sem nú voma yfir (Forseti hringir.) og eru kannski ekkert endilega mikið betri(Forseti hringir.) en erlendir hrægammar.



[14:45]
fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Þetta hefur verið um allt ágætisumræða, en það er kannski um árin strax eftir hrun að segja að ég held að ekki bara stjórnarandstaðan hafi verið í ákveðnu myrkri, við vorum öll í ákveðnu myrkri. Við áttuðum okkur til dæmis alls ekki á því hversu mikill þrýstingur var á íslensku krónuna hér strax eftir höftin. (Gripið fram í.)Upphaflega var út frá því gengið að við værum fyrst og fremst að eiga við aflandskrónuvandann upp á nokkur hundruð milljarða. Það var snjóhengjan sem við ræddum um og var meginástæða haftanna eins og málið var lagt upp í upphafi. Síðan smám saman yfir tíma gera menn sér grein fyrir því að það eru ófjármagnaðar skuldbindingar hér innan lands til næstu ára sem þarf að eiga við og að gjaldeyrisjöfnuðurinn, þegar horft er til slitabúanna, muni alls ekki duga til þess að greiða kröfuhöfunum út eins og væntingar þeirra stóðu til. Þetta hefur gjörbreytt myndinni.

Eftir hvaða áætlun er þá verið að vinna? Auðvitað er í grunninn verið að vinna eftir þeirri áætlun sem var lagt upp með strax eftir hrunið, en við höfum þurft að gera breytingar og aðlaganir eftir því sem staðan hefur skýrst. Ég vil leggja áherslu á það að sú vinna sem ég vísa til að verið sé að sinna í stjórnkerfinu er fyrst og fremst sérfræðingavinna. Þetta er ekki eitthvert pólitískt starf þar sem menn velta fyrir sér hvaða pólitíska aðferðafræði gagnist best. Við erum að reyna að kortleggja vandann með aðstoð sérfræðinga, t.d. með því að gera okkur grein fyrir því nákvæmlega hvernig greiðslujöfnuðurinn lítur út, hvernig spá er um hann til næstu ára, hvaða lagalegu þætti þarf að taka með í myndina, þegar allir valkostir eru teknir upp á borðið, allt frá þeim sem hafa verið nefndir hér, eins og skattinum, og yfir í gjaldþrotaleiðina.

Gjaldþrotaleiðin hefur verið kortlögð alveg sérstaklega vegna þess að hún er kannski sú sem er nú þegar skrifuð í lögin. Við vitum hvað lögin segja, en við þurfum að gera okkur nákvæmlega grein fyrir því. Allir þessir kostir hafa verið skoðaðir. Þetta er því fyrst og fremst sérfræðingavinna sem er verið að vinna í stjórnkerfinu og það þurfti að gera mikið átak til þess að skýra myndina þannig að við stöndum frammi fyrir valkostum (Forseti hringir.) sem hafa verið kannaðir til hlítar. Ég vonast til þess að (Forseti hringir.) á hinum pólitíska samráðsvettvangi verði (Forseti hringir.) hægt að kynna þá kosti á grundvelli þessarar vinnu á næstu vikum og (Forseti hringir.) mánuðum.