144. löggjafarþing — 104. fundur
 11. maí 2015.
efling brothættra byggða og byggðafesta veiðiheimilda, fyrri umræða.
þáltill. LRM o.fl., 588. mál. — Þskj. 1020.

[21:01]
Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um eflingu brothættra byggða og byggðafestu veiðiheimilda. Ásamt mér eru flutningsmenn að tillögunni hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir.

Tillagan hljóðar svo:

Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að vinna framtíðarstefnumörkun um eflingu brothættra byggða í samráði við Byggðastofnun og helstu hagsmunaaðila.

Til grundvallar stefnumörkuninni fyrir minni sjávarbyggðir verði lögð verulega aukin byggðafesta veiðiheimilda og metið hversu miklum veiðiheimildum er nauðsynlegt að ráðstafa til þessa. Hliðsjón verði höfð af þeirri reynslu sem fengist hefur af ráðstöfun og notkun þeirra veiðiheimilda sem Byggðastofnun hefur haft til meðferðar.

Skoðað verði hvaða stuðningsúrræðum sé vænlegast að beita til að skapa aukna byggðafestu í brothættum byggðum þar sem landbúnaður, matvælaiðnaður, ferðaþjónusta eða önnur atvinnustarfsemi hefur skapað eða er líklegust til að skapa stöðugleika og vaxtarmöguleika og gerð grein fyrir því hvernig heppilegast væri að koma slíkum stuðningi við svo að hann beri tilætlaðan árangur.

Stefnt verði að því að framvegis verði sérstök aðgerðaáætlun um eflingu brothættra byggða samþætt áherslum hins opinbera í byggðamálum. Ráðherra leggi fram slíka áætlun í formi þingsályktunartillögu í fyrsta sinn við upphaf haustþings 2015.

Greinargerð með þessari tillögu er þannig:

Með þessu þingmáli eru lögð drög að skipulegum aðgerðum í þágu svonefndra brothættra byggða, þ.e. þeirra byggða sem einkennast af viðvarandi fólksfækkun, einhæfu atvinnulífi, fækkun starfa og hækkandi meðalaldri íbúanna. Hugtakið tekur þannig yfir þær byggðir landsins sem standa veikast og mest hætta er á að leggist af.

Árið 2012 hófst á Raufarhöfn tilraunaverkefni undir heitinu Brothættar byggðir með aðild heimamanna, Byggðastofnunar og fleiri aðila. Árið eftir var efnt til sambærilegra verkefna í þremur sveitarfélögum í viðbót, Skaftárhreppi, Breiðdalshreppi og Bíldudal. Vinnulagið sem beitt er í verkefnunum sem unnin eru undir formerkjum Brothættra byggða byggist á lýðræðislegri nálgun og hugmyndum um valdeflingu. Í þessu felst að leitað er frumkvæðis og hugmynda heimamanna á hverjum stað og falast eftir mati þeirra á þörf fyrir aðgerðir og vali á viðfangsefnum. Reynsla, þekking og þarfir heimafólks vega því þungt þegar að forgangsröðun viðfangsefna kemur. Þannig verða hugmyndir heimamanna, stefnumið þeirra og vilji forsendur ráðstafana sem gripið er til.

Þegar í hlut eiga brothættar byggðir sem eiga afkomu sína undir veiðum og vinnslu sjávarfangs blasir við að hlutdeild í aflaheimildum er brýn forsenda þess að byggðirnar eigi sér lífvænlega framtíð. Byggðakvóti, sem felst í aflaheimildum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra úthlutar árlega til stuðnings tilteknum byggðarlögum, hefur getað komið brothættum byggðum að notum í vissum tilfellum. Forsendur úthlutunar byggðakvóta eru að um sé að ræða minni byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og eru háð veiðum og/eða vinnslu á botnfiski eða byggðarlög sem hafa orðið fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa sem gerð hafa verið út og landað afla í viðkomandi byggðarlögum. Það er skilyrði að um sé að ræða byggðarkjarna sem liggja að sjó og þar sem veiðar og vinnsla sjávarafla skipta verulegu máli. Minni byggðarlög eru þau þar sem voru færri en 2 þúsund íbúar 1. desember 2013, samanber 1. gr. reglugerðar nr. 651 frá 4. júlí 2014 um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2014/2015. Byggðakvóta má einnig úthluta til fiskiskipa að uppfylltum tilteknum skilyrðum, samanber reglugerð nr. 652 frá 4. júlí 2014 um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2014/2015.

Eins og framanritað ber með sér er úthlutun byggðakvóta ráðstöfun sem gripið er til í viðlögum þegar í óefni er komið með atvinnu og framfærslu fólks á tilteknum svæðum og nauðsynlegt þykir að afstýra vandræðum sem geta stafað af náttúrulegum orsökum, svo sem aflabresti, en einnig af mannavöldum eins og þeim þverbresti kvótakerfisins að unnt er að flytja aflaheimildir í einni svipan úr einum stað í annan án þess að minnsta tillit sé tekið til heimafólks sem missir viðurværi sitt eins og af völdum skyndilegra hamfara. Samfélagið mun vafalaust alltaf hafa þörf fyrir úrræði á borð við núverandi byggðakvóta til að bregðast við áföllum og erfiðleikum í atvinnurekstri en vitanlega er ekki haldbært að byggja framtíð nokkurs byggðarlags á tíma- og aðstæðubundinni viðlagahjálp heldur verður að finna leiðir til að skjóta traustum stoðum undir atvinnustarfsemina þannig að búseta verði lífvænleg til lengri tíma litið. Þar mun byggðafesta veiðiheimilda skipta miklu fyrir byggðarlög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi. Löngu er orðið brýnt að ganga svo frá málum að hlutskipti byggða sem nú eru brotnar eða brothættar vegna skorts á aflaheimildum verði bætt svo um munar með úthlutun varanlegrar hlutdeildar í hinni sameiginlegu sjávarauðlind.

Ekki eru allar brothættar byggðir við sjávarsíðuna eða þannig settar að byggðafastar aflaheimildir geti orðið til að styrkja grundvöll búsetu þar. Verður þá að leita annarra leiða. Verkefnið Brothættar byggðir leiðir meðal annars til þess að smám saman verður til þekking á þeim úrræðum sem duga best til að efla og styrkja byggðarlög sem glíma við lágar tekjur og viðvarandi fólksfækkun. Einnig er unnt að sækja þekkingu og reynslu til annarra landa sem fást við svipaðar aðstæður en víðast hvar í Evrópu er framkvæmd byggðastefnu meðal mikilvægustu verkefna stjórnvalda, miklu fé er varið til þess málaflokks og skal því ráðstafað í samræmi við skilgreindar forsendur og markmið.

Þróunin í framkvæmd byggðastefnu og stuðningi við byggðarlög í hnignun hefur orðið sú að auka hlutdeild heimamanna í mótun og framkvæmd þeirra aðgerða sem gripið er til. Ráðstafanir til að treysta grundvöll byggða og bæta hag íbúanna geta meðal annars falist í auknum tækifærum til menntunar, t.d. með fjar- og dreifnámi, fjárfestingu í innviðum, styrkjum til nýfjárfestinga í atvinnutækjum, markaðsrannsóknum, gerð rekstraráætlana og ráðgjöf vegna stofnunar fyrirtækja og stuðningi við tekjumyndandi og tekjuaukandi nýbreytni í rekstri sem þegar er stundaður.

Við öllum blasir hve mikilvægt það er að þeir atvinnu- og tekjumöguleikar sem finna má í tilteknum byggðum verði nýttir þar eins og unnt er íbúunum til hagsbóta. Ráðstafanir í byggðamálum hljóta jafnan að miðast við þá forsendu. Tekjumyndandi aðstaða eða rekstur sem byggist á ferðamennsku er til dæmis augljós kostur á þeim svæðum þar sem ferðaiðnaður er eða getur orðið tekjuskapandi. Sums staðar eru líkur á að aukin jarðyrkja, skógrækt eða önnur nýsköpun í búnaðarháttum geti reynst hagstæður kostur fyrir tiltekið byggðarlag og íslenskt samfélag í heild. Annars staðar getur léttur iðnaður reynst góður kostur.

Þessi tillaga er flutt vegna þess að þeirri sem hér stendur hefur lengi þótt það vera góð hugmynd að skoða möguleikann á því að tengja aflaheimildir og festa þær við veikustu byggðarlögin. Við þekkjum dæmi þess hvernig þetta hefur verið undanfarið. Margar litlar byggir hafa orðið fyrir miklum bresti þegar stærsti atvinnurekandinn fer úr sjávarplássinu með aflaheimildir sínar og það fólk sem eftir situr hefur litla möguleika á að skapa sér atvinnu þar sem aðgengi að fiskimiðunum er ekki fyrir hendi. Þar koma í ljós gallar kvótakerfisins, þ.e. framsalið. Einhvern veginn verður að bregðast við þessu og skoða hvaða möguleikar eru til þess að styrkja varanlega grunninn fyrir búsetu í þessum sjávarbyggðum. Eðlilega er horft til þess að styrkja líka fjölbreyttari stoðir en í hinum veiku byggðum, og það á alveg jafnt við byggðir þar sem landbúnaður er meginstoðin, þá verða þessar tvær stoðir, landbúnaður og sjávarútvegur, alltaf sá grunnur sem byggt er á og annað kemur þá til með að styrkja og auka fjölbreytni á þessum stöðum.

Nú er 5,3% af aflaúthlutun hvers árs ætlað að styrkja atvinnu og byggðir með félagslegri tengingu við þær. Það hefur verið gert með svokölluðum byggðakvóta en hann hefur verið umdeildur. Sú ráðstöfun sem verið hefur undanfarin ár, að sérstakur byggðakvóti á vegum Byggðastofnunar hefur verið færður til nokkurra byggðarlaga með sérstökum samningum, hefur mælst vel fyrir. Ég tel rétt að við þróum það áfram og skoðum hvort við getum tryggt enn frekar búsetu og öryggi fólks í veikum byggðum jafnt til sjávar og sveita.

Nú á dögunum lagði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram frumvarp til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Ég tel að þessi þingsályktunartillaga falli ágætlega að því máli í sjálfu sér. Ég vísa þessari tillögu til atvinnuveganefndar. Mér þykir mjög eðlilegt að horft verði til frumvarps til laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, sem er þar til umfjöllunar, og þessi þingsályktunartillaga verði tekin inn í þá vinnu. Byggðamál eru ekki einkamál þeirrar ríkisstjórnar sem er við völd hverju sinni heldur er sameiginlegt verkefni stjórnvalda hverju sinni að reyna með öllum hætti að treysta búsetu og byggð í landinu. Það er auðvitað hægt að gera með ýmsum hætti. Menn hafa yfirleitt talað á jákvæðum nótum í því sambandi hér á Alþingi en því miður hefur það ekki reynst vera mikill stuðningur þegar á reynir, t.d. við fjárlagagerð. Stundum þarf ekki að gera svo mikið til að styrkja þessar byggðir.

Nú eru um 2 þúsund tonn af þorskígildum í Byggðastofnun sem er hægt að ráðstafa í þessa hluti. Það þyrfti að efla þann hluta mikið því að við erum alltaf að fá inn ný byggðarlög, nú síðast Grímsey. Við þekkjum Flateyri, Þingeyri, Djúpavog og fleiri staði. Við megum ekki alltaf bregðast við þessu með áfallahjálp hverju sinni heldur vera búin að ákveða á hinu háa Alþingi að þessar byggðir eigi sinn tilverurétt og hafi tryggan grunn til að byggja á. Ég tel þetta vera innlegg í þá umræðu.



[21:16]
Geir Jón Þórisson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta mjög merkileg tillaga sem þarna kemur fram. Ég vil aðeins staldra við veiðiheimildir, ekki bara til brothættra byggða heldur til allra sjávarþorpa í kringum landið. Ég kem úr sveitarfélagi sem er ekki brothætt bygg en stórt sveitarfélag og hefur miklar aflaheimildir. Síðan var tekið upp svokallað viðbótarveiðigjald. Hvað mundi hv. þingmaður segja um þá tillögu að hluti af viðbótarveiðigjaldi yrði eftir í þessum sjávarbyggðum? Í Vestmannaeyjum greiðir til dæmis hvert mannsbarn þar tæpar 600 þúsund í bæði veiðigjöld og viðbótarveiðigjöld. Af þessu verður ekkert eftir í sveitarfélaginu, þannig að þetta fer annað. Hvað mundi hv. þingmaður segja um það ef hluti af viðbótarveiðigjaldi yrði eftir í þessum sjávarbyggðum?



[21:17]
Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Umræðan um veiðigjöldin er alltaf í þessu samhengi. Ég hef ekki litið á veiðigjöldin sem sérstakan landsbyggðarskatt eins og ég hef heyrt suma hv. þingmenn tala um. Ég tel að veiðigjöldin eigi að renna að stærstum hluta í sameiginlegan sjóð landsmanna sem er síðan útdeilt úr í gegnum fjárlög til uppbyggingar samfélagsins, innviðanna, heilbrigðiskerfisins, menntakerfisins og samgöngukerfisins. Hv. þingmaður veit að ekki veitir af fjármunum til að styrkja samgöngur við Eyjar, þá í Landeyjahöfn og með nýjum Herjólfi. Allt þetta þarf auðvitað að fara í gegnum ríkissjóð til útdeilingar. Ekkert lítið sjávarþorp byggir eitt upp innviðina, vegakerfi og eigin heilbrigðisstofnanir eða menntastofnanir. Við gerum það í gegnum sameiginlegan sjóð okkar landsmanna, ríkissjóð.

Í frumvarpi sem fyrri ríkisstjórn lagði fram var gert ráð fyrir að það yrði vaxandi leigupottur þar sem ríkið leigði út aflaheimildir. Það var til að auka möguleika á nýliðun og opna lokað kvótakerfi. Þar var gert ráð fyrir að hluti af þeim tekjum sem kæmi inn vegna þessa leigupotts ríkisins rynni til sveitarfélaganna. Ég er alveg sammála því að það eigi að útfæra og finna leið eins og var gert í því frumvarpi til þess að sveitarfélögin njóti líka ávaxta þess og fái hluta arðsins af sameiginlegri auðlind til að byggja upp (Forseti hringir.) innviði sveitarfélagsins.



[21:20]
Geir Jón Þórisson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessi svör. Ég get tekið undir þau.

Nú hefur komið fram í umræðum þegar útgerð, ein eða tvær, í litlu sjávarþorpi er seld úr byggðarlaginu og þá sitja íbúarnir eftir og veiðiheimildir fara. Mundi hv. þingmaður sjá fyrir sér að hluti af veiðikvóta yrði merktur sveitarfélaginu þannig að hvert sjávarpláss réði kannski yfir meiri hluta kvótans eða leigupottanna og fengi því einhvern hluta sem yrði eftir í byggðinni? Þetta hefur oft komið upp, eins og við þekkjum í gegnum tíðina, þegar stór og sterk sjávarútvegsfyrirtæki fara úr litlum byggðarlögum, sveitarfélögum, jafnvel stórum, og þá er erfitt með atvinnu og annað þess háttar. Mér þætti vænt um að heyra svar við því.



[21:21]
Flm. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er svo merkilegt með framsalið, sem margir hafa dásamað í gegnum tíðina, að þegar kemur að göllunum þá vakna menn upp við vondum draum, sérstaklega þegar það kemur við þeirra byggðarlag. Menn eru annars rólegir og hugsa: Já, já, þessi litlu byggðarlög úti á landi — það er nú tilhneiging að allir vilja fara suður á mölina. Þetta er nú bara svona, við getum ekkert spyrnt við fæti.

Það er ekki alveg þannig. Þetta er kjarninn í þessum byggðum sem þarf að halda utan um. Framsalið er með þessa miklu galla sem erfitt er að berjast við. Menn hafa skoðað ýmsar leiðir í því sambandi, m.a. það sem hv. þingmaður nefnir, að hægt sé að skylda menn til að selja aflaheimildir á viðkomandi svæði aftur, þeir séu að hluta til skyldugir til þess svo að sveitarfélagið fái möguleika á að vera milliliður og endurráðstafa aflaheimildunum. Það er einn möguleiki. Síðan er sá möguleiki að ríkið hreinlega taki til sín aflaheimildirnar fyrir ákveðið verð og bjóði þær aftur út. Það eru ýmsir möguleikar.

Ég hef alla tíð verið mjög andvíg þessu framsali og því hversu illa það hefur komið við þessar byggðir. Þess vegna horfi ég með hryllingi til þess ef leika á sama leikinn nú með makrílinn. Við erum búin að brenna okkur á (Forseti hringir.) þessu kerfi og búa við það allt of lengi. Ég vil gjarnan sjá miklar breytingar á því, en nú (Forseti hringir.) ætla menn að fara að gera nákvæmlega sama með makrílinn. Það (Forseti hringir.) er óásættanlegt.



[21:23]
Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að taka til máls í þessu ágæta máli sem félagar mínir hér í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði standa að, sem er tillaga til þingsályktunar um eflingu brothættra byggða og byggðafestu veiðiheimilda. Kannski er löngu tímabært að festa veiðiheimildir eins og við höfum orðið svo áþreifanlega vör við sem komum úr sjávarbyggðum þar sem kvótinn hefur farið í einu vetfangi og stoðum kippt undan samfélagi. Þá er það kannski eitt af því sem við þurfum að bregðast við hér á þingi ef við teljum að byggð eigi að vera í öllu landinu. Þetta er ein aðferð til þess, þ.e. festa veiðiheimildir við byggðirnar.

Hér er lagt til að sérstök aðgerðaáætlun verði til, þ.e. samþætt áætlun um byggðamál hjá hinu opinbera og gert verði ráð fyrir að hún verði lögð hér fram í fyrsta sinn næsta haust.

Við þekkjum auðvitað þá einhæfni atvinnulífs sem gjarnan fylgir litlum sjávarplássum. Þess vegna er það oft og tíðum mikil blóðtaka sem átt hefur sér stað á slíkum stöðum. Þetta verkefni var sett af stað árið 2012 á Raufarhöfn, en þar byrjaði það. Það hefur sýnt sig, þótt hægt fari, að það gengur ágætlega og hefur lyft andanum svolítið hjá íbúum og komið í veg fyrir að byggðin hreinlega leggist af.

Síðan hafa bæst inn í verkefnið fleiri sveitarfélög, Bíldudalur, Breiðdalshreppur og Skaftárhreppur komu inn í þetta verkefni, Brothættar byggðir, árin 2013 og 2014, og var þá fé aukið í þetta til handa Byggðastofnun. Síðan höfum við hér á Alþingi barist fyrir því í tengslum við fjárlagagerð núverandi ríkisstjórnar að auka fé fremur en draga úr því til handa stofnuninni sem og að bæta í þann kvóta sem er til úthlutunar. Hér kom fram fyrir ekki svo löngu þegar hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, sem flutti þetta mál, átti orðastað við hæstv. sjávarútvegsráðherra um þann pott sem hljóðar upp á 5,3% og við teljum mörg hver vera of lítinn til að mæta þessu. Því hefur verið talað um það jafnvel að til ráðstöfunar verði sérstakur pottur hjá Byggðastofnun, mun meiri en hann er ef hann á að koma byggðarlögum að gagni. Við sjáum til dæmis á Djúpavogi, þar sem þúsundir tonna hverfa úr sveitarfélaginu og byggðakvóti upp á örfá hundruð tonn kemur í staðinn, þá hefur það auðvitað ekkert að segja þegar að auki er búið að tæma vinnsluna í landi. Því þarf eitthvað annað að koma til. Það er auðvitað margt annað sem getur komið til, þ.e. ekki endilega bara að festa veiðiheimildir, heldur eru margs konar aðrir möguleikar sem sveitarfélögin geta staðið frammi fyrir sem geta styrkt byggð og eru þeim íbúum til hagsbóta sem þar búa. Okkur ber í því ljósi þegar við erum að biðja heimamenn um að koma með tillögur — af því að þetta er tilraunaverkefni sem er náttúrlega búið að sanna sig byggðist á því að draga íbúana að borðinu og fá þá til að sjá fyrir sér hvernig þeir sæju samfélagið. Forsvarsmenn Djúpavogshrepps hafa til dæmis komið að máli við okkur. Í ljósi þeirrar stöðu sem þar er hafa þeir lagt fram ákveðnar hugmyndir fyrir okkur þingmenn kjördæmisins til þess að koma þeim áfram þar sem áhugi er fyrir hendi til að efla og viðhalda byggðinni og styðja við það sem þar er fyrir í ljósi þess brests sem þar varð þegar kvótinn fór. Og þá er að sjá hvað þeir sem nú ráða för vilja gera til þess að styðja við það. Ég held að brýnt sé að hlusta á það þegar komið er með afmarkaðar hugmyndir sem íbúarnir telja að styrki samfélagið, það er eitt af því sem mér finnst að okkur beri að horfa til og skoða með mjög svo opnum huga.

Það eru í sjálfu sér um fleiri byggðir að ræða sem hafa verið að takast á við aflabrest. Við höfum fjallað töluvert um Grímsey og hvað beri að gera þar. Sem betur fer erum við komin á þann stað að verið er að vinna í þeim málum þverpólitískt í von um að lausn finnist á vanda þeirra, því að ekki held ég að nokkur maður vilji að byggð leggist af þar frekar en annars staðar. Ég held að við þurfum líka að vera tilbúin að hafa opinn huga gagnvart því öllu. Þó að við höfum verið að máta okkur við ákveðnar leiðir, meðal annars í tengslum við þetta verkefni, Brothættar byggðir, þá getur þurft að taka mið af þeim sveitarfélögum sem við eiga hverju sinni. Það er ekki alltaf í tengslum við fiskinn.

Það er í sjálfu sér kannski áhugavert um leið og það er ekki gott að sveitarfélög skuli vera að ráða sér verkefnisstjóra vegna þess að byggðirnar eru brothættar, en að sama skapi sýnir það kannski áhuga fólks á því að halda byggðarlagi sínu í byggð. Og bæði Skaftárhreppur og Austurland hafa ráðið sér sérstaka verkefnisstjóra núna til tiltekins tíma til að reyna að hafa þessi samskipti og tengsl við Byggðastofnun og líka til að fylgja eftir þeim hugmyndum sem kvikna hjá íbúum til að styrkja og auka fjölbreytni í byggðarlögunum. Það er kannski það sem er svo mikilvægt þar sem atvinnuvegur hefur verið einhæfur. Ljóst er að eins og hér var rakið áðan og í tillögunni er tekið til orða: „aðstæðubundinni viðlagahjálp“, þá það er ekki eitthvað sem við getum reist byggðarlögin á. Þess vegna er svo mikilvægt að fjölga tækifærum í fjölbreyttara atvinnulífi, ekki einungis ferðaþjónustunni sem þó er mjög mikilvæg, heldur í svo mörgu öðru sem kannski hentar hverju og einu byggðarlagi. Þó að flestir horfi til ferðaþjónustunnar á þessu augnabliki verðum við líka að gæta okkar að setja ekki öll eggin í sömu körfu hvað það varðar. En það er vissulega hægt að byggja á þeim styrkleikum sem hvert svæði hefur þrátt fyrir að það sé kannski innan þess geira.

Í tillögunni er rakið að treysta eigi grundvöll byggða og bæta hag íbúa, og mér er umhugað um það. Þar er talað um menntun, fjar- og dreifnám, fjárfestingu í innviðum o.s.frv. Ég hef miklar áhyggjur af því að við stöndum ekki vel að vígi með þann menntamálaráðherra sem er við völd akkúrat núna. Ég hef miklar áhyggjur af hinum dreifðu byggðum þegar kemur að menntunartækifærum. Ég tel ráðherra vera að skerða þau með þeim aðgerðum sem hann hyggst fara í og hefur verið að leggja fram í gegnum fjárlög fyrst og fremst, því að ekki er það í gegnum umræðu hér á þingi, og fækkar í rauninni kostum fólks til að sækja sér bæði fjar- og dreifnám. Það er auðvitað ekki til þess fallið að styrkja þær dreifðu byggðir sem þurfa svo mjög á því að halda, flestar hverjar, að hækka menntunarstig sitt. Þegar uppi eru áform um að jafnvel sameina skóla í einu kjördæmi sem er þá himinn og haf á milli, til dæmis Ísafjörð og Sauðárkrók eða eitthvað slíkt, þá er það auðvitað ekki til þess fallið að íbúar á Vestfjörðum njóti góðs af því og geti aukið sitt menntunarstig til að nýta til frumkvöðlastarfsemi eða annars slíks sem gæti styrkt byggðirnar og orðið til þess að hún hreinlega haldist á þeim slóðum.



[21:34]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis leggja nokkur orð í belg um þessa tillögu. Ég er reyndar einn af flutningsmönnum þannig að ekki þarf að fara í grafgötur um afstöðu mína. Ég tel að vinnan með veikustu eða brothættustu byggðunum, sem þróast hefur undanfarin þrjú ár í gegnum sameiginlegt frumkvæði Byggðastofnunar og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins á sínum tíma, sé með merkari nýbreytni á þessu sviði sem við höfum séð í nokkuð langan tíma. Um er að ræða nýja nálgun, nýsköpun getum við kallað það, í aðferðafræði á sviði byggðamála og tengist umræðu sem, ég hygg að ekki sé á neinn hallað þótt nefndur sé til sögunnar fyrrverandi stjórnarformaður Byggðastofnunar, prófessor Þóroddur Bjarnason var að mörgu leyti upphafsmaður að, þ.e. að fara að tala um landsbyggðirnar í fleirtölu til að vekja athygli á og leggja til grundvallar umræðunni þann fjölbreytileika sem þar er við að eiga. Hluti af þeim fjölbreytileika er sú staðreynd að sumar byggðir eru mjög veikar og brothættar langt umfram aðrar og það kallar á sértæka nálgun, sértæka vinnu þeim til stuðnings.

Það er eiginlega lærdómurinn að hinar almennu aðgerðir í formi vaxtarsamninga og byggðaáætlunar og almennra ráðstafanna sem menn tengja gjarnan byggðamálum, góðar sem þær eru duga þær einfaldlega ekki eða gagnast ekki allra minnstu byggðunum vegna þess að staðan þar er í raun orðin of veik til að menn geti nýtt sér þau úrræði til fulls. Það þarf sértækar ráðstafanir. Það er það sem er fólgið í þessari hugmyndafræði plús það að hún hefur frá byrjun byggt á því að vinna þetta með íbúunum og virkja þá sjálfa til samstarfs um sín mál. Þetta verkefni hefur þegar gefið góða raun. Það er búið að gera nokkra úttekt á því hvernig það hefur reynst á fyrstu metrunum og þær niðurstöður eru jákvæðar.

Eins og þegar hefur komið fram fór þetta af stað á Raufarhöfn, einkum og sér í lagi vegna þeirra mjög svo erfiðu aðstæðna sem þar voru, og eru auðvitað sumpart uppi áfram, eftir eiginlega fordæmalausa þróun á seinni áratugum til hins verra í málefnum staðarins undanfarin eða undangengin ár, sem m.a. og ekki síst tengdust nánast algjöru brotthvarfi veiðiheimilda úr byggðarlaginu. Það er að sjálfsögðu eitt hryggjarstykkið í þessari tillögu að leita leiða til að skapa sjávarbyggðunum aftur einhvern grundvöll með verulega aukinni byggðafestu veiðiheimilda.

Eins og hér hefur komið fram eru ekki allar brothættar byggðir við sjávarsíðuna þótt þær séu það margar og staðan víða hvað veikust í litlum sjávarbyggðum með einhæft atvinnulíf tengt sjávarútegi og er yfirleitt sammerkt þeim erfiðleikum að veiðiheimildir hafa horfið á braut.

Síðan eru önnur svæði. Þar er þegar til í verkefninu Skaftárhreppur, sem eðli málsins samkvæmt byggir ekki mikið á sjávarútvegi með sína hafnlausu strönd. Fleiri byggðarlög, þar sem landbúnaður, ferðaþjónusta eða önnur starfsemi er mun meira ráðandi en sjávarútvegur, hafa ýmist sótt um aðild eða eru að hugleiða aðild að verkefninu. Stjórnvöld þurfa þá auðvitað að hafa eitthvað til að leggja á borðið með sér. Það vekur athygli á því að mjög mikilvægt er að á það reyni núna í vor hvort vilji er til þess á Alþingi að auka svigrúm Byggðastofnunar í þeim efnum og færa til hennar meiri veiðiheimildir, þannig að hún hafi möguleika á að bregðast við aðstæðum á fleiri stöðum eða eftir atvikum gera enn betur þar sem hún hefur þegar farið inn með einhverjar veiðiheimildir á þessum grundvelli. Sá er meðal annars munurinn á að þarna er hægt að festa veiðiheimildir til nokkurra ára í staðinn fyrir árlega úthlutun á minni háttar hefðbundnum byggðakvóta sem er í grundvallaratriðum miklu öflugri aðgerð, að skapa festu sem hægt er að byggja á. Á það þarf að reyna.

Sömuleiðis þarf, eins og tillagan gengur út á, að kortleggja möguleikana til að beita sambærilegum úrræðum í byggðum þar sem önnur meðul þurfa að koma til og duga betur en byggðafesta veiðiheimilda, svo sem eins og stuðningur við þróun í landbúnaði eða ferðaþjónustu eða matvælaiðnaði eða öðru slíku. Að sjálfsögðu er hægt að hugsa sér stuðninginn þá í formi annarra hluta. Við getum nefnt þar nýliðunarstuðning í landbúnaði, menn fái sérstakan stuðning við kynslóðaskipti eða nýliðun í landbúnaði, við búháttabreytingar, einhvers konar þróunarfé og þar fram eftir götunum.

Það má spyrja: Hvers vegna að horfa sérstaklega á brothættustu og veikustu byggðirnar? Auðvitað er það aðeins ein nálgun af mörgum sem möguleg er í sambandi við byggðamál. En það er stundum sagt að engin keðja sé sterkari en veikasti hlekkurinn og það á að mörgu leyti vel við um byggðamál. Það er þannig að ef byggð rofnar á einhverju svæði, ef það slitnar hlekkur í byggðakeðjunni t.d. með ströndinni eða þar sem byggð er, þá myndast þar eyða, þar myndast jaðar og slíkir jaðrar hafa tilhneigingu til að færast út. Þá veikjast aðliggjandi svæði. Það er því ekki verri hugsun en hver önnur að horfa akkúrat á þetta frá þeim enda og reyna að græða upp rofabörðin og koma í veg fyrir að það myndist byggðalegir jaðrar.

Allt önnur nálgun, og auðvitað gild í sjálfu sér, er að horfa á þetta frá hinum endanum og leggja áherslu á mikilvægi vaxtarsvæða og mikilvægra þjónustukjarna í landshlutunum. Að sjálfsögðu er líka rétt að þeir þurfa að vera til staðar. Þangað þurfa menn að geta sótt nauðsynlega sérhæfðari og meiri þjónustu o.s.frv. En ætli þetta sé ekki eins og stundum áður, að þetta sé gott hvað með öðru. Ég held að það sé hárrétt að beina sjónum í byggðarlegu tilliti ekki síður að þeim byggðum og vinna með þeim en að einblína einungis á það að einhverjir örfáir staðir utan suðvesturhornsins eigi sér möguleika.

Vinnan með heimamönnum er að sjálfsögðu mjög mikilvæg. Ég hef sótt mörg íbúaþing á undanförnum missirum, þar á meðal á Raufarhöfn, og líka í tengslum við sóknaráætlanir landshlutanna. Það var hugmyndafræði af nákvæmlega sama meiði, að vinna að framfaramálum byggðanna og landshlutanna á þeirra forsendum. Ekki veitir af að taka á því núna í ljósi þess að því miður hefur núverandi ríkisstjórn gert þau, að mínu mati afdrifaríku mistök að nánast setja á ís sóknaráætlanir landshlutanna. Það getur rétt heitið svo að það sé í öndunarvél núna milli ára með einhverjum 100 milljónum sem eru með harmkvælum grátin hér út við fjárlagaafgreiðsluna tvö ár í röð, í staðinn fyrir að lagt var upp með 400 milljónir í byrjun og meiningin að það mundi aukast í 1 milljarð til 1.200 milljónir á ári. Það hefði orðið að umtalsverðu fé sem yrði ráðstafað á forsendum heimamanna á grundvelli vinnu á svæðunum þar sem menn hefðu forgangsraðað og sett í öndvegi tiltekin framfaramál og ákveðið sjálfir að það fjármagn sem þeir hefðu úr að spila skyldi ganga til þeirra verkefna.

Í ljósi þess hversu vinnan á grundvelli sóknaráætlana er veik og nánast í lamasessi vegna fjárskorts er enn þá meiri ástæða til að leggja þá að minnsta kosti eitthvað, þótt ekki sé nema það sem hefur verið gert undanfarin ár, 50 milljónir til reksturs verkefnisins og síðan einhverjar veiðiheimildir og önnur úrræði sem stjórnvöld hafi til að leggja á borðið með sér í vinnunni með heimamönnum á grundvelli verkefnanna um brothættar byggðir.

Því miður höfum við verið að horfa upp á áföll, veruleg áföll, ekki síst tengd framsali veiðiheimilda í kvótakerfinu. Er þar nærtækt að minnast, eins og hér var nefnt, þegar eitt fyrirtæki tekur með einni ákvörðun í raun ákvörðun um að greiða þremur byggðum landsins þungt högg og nánast rústa þeim sjávarútvegi og vinnslu sjávarafurða sem þar voru til staðar, þ.e. Vísir í Grindavík sem ákveður á einu bretti að leggja af fiskvinnslu á Djúpavogi, Þingeyri og Húsavík og flytja allar veiðiheimildirnar suður, í burtu. Í að minnsta kosti tveimur tilvikum af þremur fóru þar í burtu veiðiheimildir viðkomandi byggða, þ.e. á Djúpavogi þar sem voru saman safnaðar veiðiheimildir Djúpavogs og Breiðdalsvíkur og á Húsavík veiðiheimildir frá Fiskiðjusamlagi Húsavíkur sem útgerð heimamanna og vinnsla hafði byggt upp um áratugi, á einni nóttu hverfa þær eins og dögg fyrir sólu.

Vandamál Grímseyjar hafa sömuleiðis verið nefnd. Ég óttast að jafnvel fleiri staði mætti nefna þar sem staðan er brothætt og menn hafa ekki enn fengið stuðning af því tagi sem verkefnið Brothættar byggðir á og getur gert. Það er því ærin ástæða til (Forseti hringir.) að samþykkja þessa tillögu og fylgja því eftir að það verði veiðiheimildir til ráðstöfunar til þess að framkvæma málið.



Till. gengur til síðari umr. 

Till. gengur til atvinnuvn.