132. löggjafarþing — 51. fundur
 25. janúar 2006.
laun og kjör stjórnarmanna og æðstu stjórnenda.
fsp. JóhS, 425. mál. — Þskj. 642.

[14:03]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Fyrirspurn sem ég beini til ráðherra snýr að reglum varðandi upplýsingagjöf um launakjör stjórnenda og stjórnarmanna hjá lífeyrissjóðum, lánastofnunum og fyrirtækjum. Í leiðbeinandi reglum sem Fjármálaeftirlitið gefur út er ekki gert ráð fyrir að gefa þurfi upp starfslokasamninga og þar sem við á kaupréttarsamninga með líkum hætti og nú er í reglum kauphallarinnar og spyr ég hvort ráðherra hyggist beina tilmælum til Fjármálaeftirlits um að það verði gert. Ég sé ekki neina ástæðu til þess að ekki ríki sama gegnsæi um launakjör stjórnenda lífeyrissjóða, sparisjóða og annarra lánafyrirtækja og ríkir um skráð fyrirtæki í Kauphöllinni sem eru m.a. bankarnir.

Síðari spurning mín lýtur að tryggingafélögum en að því er ég best veit eru ekki til neinar reglur um upplýsingagjöf í ársreikningum tryggingafélaganna varðandi laun og önnur launakjör stjórnenda og stjórnarmanna, þar með talið lífeyrisréttindi og starfslokasamningar á grundvelli 5. mgr. 44. gr. laga um vátryggingastarfsemi líkt og nú er í reglum Kauphallarinnar. Því spyr ég hvort ráðherra muni beita sér fyrir að slíkar reglur verði settar um upplýsingagjöf í ársreikningum tryggingafélaganna en eftir þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér sé það verk viðskiptaráðherra að setja slíkar reglur en ekki Fjármálaeftirlitsins.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé full ástæða til að stjórnvöld og löggjafarþing setji lög og reglur sem þarf til að öll launakjör, starfslokasamningar, kaupréttarsamningar og hlunnindi sem topparnir í samfélaginu hafa séu sýnileg og a.m.k. hluthöfum sé búin aðstaða til að hafa eftirlit með þeim ofurkjörum og stjarnfræðilegu fjárhæðum sem í sívaxandi mæli eru að koma upp á yfirborðið í samfélaginu. Þessi ofurlaun og kjör hafa skapað mikla ólgu í samfélaginu enda hafa þau leitt til mikillar gliðnunar í tekjum og kjörum og svo virðist sem hér sé að spretta upp samfélag ofurríkra einstaklinga, milljarðamæringa sem eru í lífsstíl og kjörum úr öllu samhengi við það sem er að gerast í þjóðfélaginu. Þess vegna er þessi fyrirspurn sett fram og spurt er:

1. Hvort ráðherra telji rétt að í reglum um upplýsingagjöf varðandi laun stjórnenda og stjórnarmanna hjá lífeyrissjóðum og lánastofnunum og fyrirtækjum verði einnig kveðið á um upplýsingagjöf um starfslokasamninga og þar sem við á um kaupréttarsamninga með líkum hætti og nú er í reglum Kauphallarinnar.

2. Hvort ráðherra byggist beita sér fyrir sambærilegum reglum um upplýsingagjöf í ársreikningum tryggingafélaganna.



[14:05]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ítarleg upplýsingagjöf er einn af hornsteinum hlutabréfamarkaða og þjónar þeim tilgangi fyrst og fremst að gera fjárfestum kleift að meta verðmæti hlutabréfa. Ekki verður komið auga á þörf fyrir slíka ítarlega upplýsingagjöf vegna félaga sem ekki eru skráð á markaði. Í slíkum félögum er hins vegar mikilvægt að eigendur félagsins séu vel upplýstir um allar aðgerðir stjórnar félagsins. Í þessum tilgangi hef ég lagt fram á Alþingi frumvörp um breytingu á hlutafélagalögum og einkahlutafélagalögum þar sem kveðið er á um að í félögum sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda beri að samþykkja stefnumið varðandi laun og aðrar greiðslur til framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda, svo og stjórnarmanna. Stefnumiðin skulu samþykkt á aðalfundi. Þar skulu koma fram grundvallaratriði varðandi starfskjarastefnu, þar með talinn kauprétt og starfslokasamninga.

Jafnframt leggur frumvarpið til að á aðalfundi skuli gera grein fyrir kjörum stjórnenda og stjórnarmanna og áætluðum kostnaði vegna kaupréttarsamninga. Reglur frumvarpsins, verði það að lögum, munu gilda um lánastofnanir og vátryggingafélög sem almennt eru rekin sem hlutafélög. Þær munu ekki gilda um sparisjóði gagnkvæm vátryggingafélög, lífeyrissjóði, sem reyndar heyra hér undir löggjöf, né um lítil félög sem uppfylla ekki stærðarmörk ákvarðana. Í þessu samhengi er þó rétt að minna á að öll vátryggingafélög og lífeyrissjóðir lúta eftirliti fjármálaeftirlitsins burt séð frá félagaformi sem fylgist m.a. með áhættustýringu þessara aðila.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég segja þetta. Þegar ákvarðanir eru teknar um íþyngjandi reglur verður að liggja fyrir mat á hagsmunum. Eins og ég sagði hér að framan er eðlilegt að almennir fjárfestar fái þær upplýsingar sem geri þeim kleift að meta fjárfestingarkosti og að eigendur, þ.e. hluthafar óskráðra félaga séu upplýstir um hvers konar kvaðir sem viðkomandi félag hefur undirgengist og kunna að hafa áhrif á verðmæti hluta viðkomandi. Ekki verður hins vegar séð að aðrir aðilar hafi slíka hagsmuni af svo ítarlegri upplýsingagjöf að ástæða sé til að leggja þær upplýsingakvaðir á félög eða aðra lögaðila.



[14:09]
Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda, hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að vekja máls á upplýsingum og upplýsingaskyldu varðandi laun og starfslokasamninga. Ástæðan er m.a., eins og kom fram í máli þingmannsins, þau ofurlaun og þeir ofurstarfslokasamningar sem eru farnir að tíðkast í þjóðfélaginu. Hvernig í ósköpunum stendur á því að fyrirtæki borgar manneskju 130 millj. eftir 5 mánaða starf? Orðið fíflagangur dugar ekki einu sinni hérna. En á hverjum bitnar þetta? Að sjálfsögðu bitnar þetta á almenningi í hærri kostnaði, í þessu tilfelli í hærri flugfargjöldum. Hvernig í ósköpunum dettur mönnum þetta í hug? Það er bráðnauðsynlegt að menn setji hér skýrar reglur um upplýsingaskyldu til að koma í veg fyrir slík ofurlaun sem m.a. leiða til gífurlegrar misskiptingar í þjóðfélaginu.



[14:10]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli og um leið vil ég lýsa vonbrigðum mínum með svar hæstv. viðskiptaráðherra.

Við þekkjum öll umræðuna um ofurlaun stjórnenda og starfslokasamninga en mér finnst afar brýnt að þetta sé einnig upplýst um launakjör forstjóra lífeyrissjóða hjá lánastofnunum. Þetta er bara um almennt gegnsæi í þjóðfélaginu, þetta eru upplýsingar sem eiga að vera uppi á borðinu og mér finnst mjög eðlilegt að hér séu settar reglur um upplýsingaskyldu fyrirtækja svo að almenningur sé upplýstur um hvað er í gangi í þjóðfélaginu.



[14:11]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef eru leiðbeinandi reglur um kjör stjórnenda mjög ítarlegar hjá Kauphöllinni. Það skal ítarlega gera grein fyrir þeim og starfslokasamningum og kaupréttarsamningum og það skal gera þetta á nafn og þetta skal upplýst í ársreikningum. Upplýsingar sem ég hef um reglur sem fjármálaeftirlitið setur er að þær gangi mun skemmra. Það þarf t.d. ekki að gera grein fyrir starfslokasamningum og það sem ég var að ganga eftir var hvort settar yrðu sambærilegar reglur hjá fjármálaeftirlitinu varðandi þá eftirlitsskyldu aðila sem fjármálaeftirlitið er með þannig að þetta verði upplýst í ársreikningi en ekki þyrfti að fara og fá slíka starfskjarastefnu samþykkta á hluthafafundi. Gengur frumvarp ráðherrans það langt að þetta verði upplýst með sama hætti og er hjá fyrirtækjum í Kauphöllinni, þannig að þetta verði upplýst á nafn þess stjórnanda og stjórnarmanns hjá viðkomandi fyrirtækjum sem í þessu tilviki eru sparisjóðirnir og tryggingafélögin? Það er mikilvægt að fá það fram. Ég sé það ekki í frumvarpi ráðherrans, þó að viðleitni sé í þá átt, að hluthafar þurfi að samþykkja starfskjarastefnu. En ég tel að fullkomið gegnsæi þurfi að vera í þessu alveg eins og er uppi á borðinu hjá Kauphöllinni og ég hef m.a. spurst fyrir um það sérstaklega að ráðherra geri grein fyrir upplýsingum hvers félags um sig, um launakjör einstakra stjórna og æðstu stjórnenda sem skráðir eru í Kauphöllinni.

Ég tel það algerlega óviðunandi ef ekki á að setja sambærilegar reglur um lífeyrissjóði. Það hefur margoft komið fram í þinginu að það þarf að setja miklu strangari reglur um stjórnarhætti starfsmanna í lífeyrissjóðum en gert hefur verið. Meðal annars þurfa að vera þar uppi á borði öll launakjör og allir starfslokasamningar sem varða stjórnarmenn og stjórnendur lífeyrissjóðanna. Mér heyrðist á ráðherra að það sé ekki í því sem hún leggur til eða ætlar að beita sér fyrir og það er fullkomlega óviðunandi, virðulegi forseti.



[14:13]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst taka það fram hvað varðar lög um lífeyrissjóði að þau heyra ekki undir mig heldur undir fjármálaráðherra, þannig að það sé alveg skýrt. En ég vil ítreka það sem ég hef sagt hér og hv. þingmaður veit ákaflega vel að hér hefur verið dreift frumvarpi á Alþingi, að ég best veit og ég vona að það sé komið inn í þingið, sem tekur á þessu máli hvað varðar öll þau félög sem ber skylda til að kjósa sér endurskoðanda og það ber að samþykkja kjarastefnu á hluthafafundum (Gripið fram í.) og annað sem varðar starfslokasamninga. Þetta hlýtur að teljast myndarlegt skref og ég bið hv. þingmenn að átta sig á þessu.

Eins og ég sagði áðan þá finnst mér að öðruvísi beri að líta á minni félög en aðalatriðið er að eigendur séu upplýstir. Það er það sem skiptir mestu máli. Hvað varðar almenning er það þannig að a.m.k. hefur Frjáls verslun reglulega tekið saman launakjör þeirra hæst launuðu á Íslandi þannig að fólk hefur þá getað séð það, þeir sem virkilega hafa áhuga á þessum málum en mér finnst að það þurfi að velta fyrir sér hagsmununum. Hverjir eru þeir? Það er ekki þannig í frjálsu samfélagi að allt eigi að vera uppi á borðinu þó að vissulega sé upplýsingaskylda mikil, og af því að hv. þingmaður talar í þessu sambandi um Fjármálaeftirlitið þá er ég ekki fær um að svara því nákvæmlega á þessari stundu hvernig reglur Fjármálaeftirlitsins eru hvað þetta varðar. Ég er ekki með þær upplýsingar með mér hér. En ég treysti því að Fjármálaeftirlitið fari af skynsemi í þessi mál. En mér finnst að hv. þingmaður vilji oft ganga ákaflega langt á þessu sviði og ég er kannski ekki alveg sammála því að öllu leyti.