137. löggjafarþing — 30. fundur
 30. júní 2009.
þjóðaratkvæðagreiðslur, 1. umræða.
stjfrv., 125. mál (heildarlög). — Þskj. 169.

[18:15]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Frumvarpið er lagt fram í samræmi við samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

Lög um þjóðaratkvæðagreiðslur hafa ekki verið sett hér á landi þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir slíkri atkvæðagreiðslu í nokkrum tilvikum í stjórnarskrá okkar frá árinu 1944. Með frumvarpi þessu er því stigið afar mikilvægt skref í lýðræðisátt hér á landi og í raun verður að teljast merkilegt að það sé fyrst nú sem slík lög eru sett hér á landi. Þjóðaratkvæðagreiðsla hefur ekki farið fram hér á landi á lýðveldistíma en á fyrri hluta 20. aldar var hins vegar fimm sinnum efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu eins og ég mun gera nánari grein fyrir síðar.

Ekki hefur verið deilt um að þörf sé á setningu sérstakrar löggjafar um þjóðaratkvæðagreiðslur eftir að stjórnarskráin öðlaðist gildi hér á landi. Má í því sambandi líta til þess að framkvæmd allra kosninga er lögbundin og sérstök lög gilda um framboð og kjör forseta Íslands, um kosningar til Alþingis og um kosningar til sveitarstjórnar. Eins og hv. þingmenn þekkja hófst sumarið 2004 undirbúningur að lagasetningu um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að forseti synjaði lagafrumvarpi staðfestingar. Var sérstökum starfshópi þá falið að undirbúa frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ekki varð þó af því að það frumvarp yrði lagt fram, þar sem Alþingi felldi þá úr gildi hin umdeildu lög. Þess ber að geta þegar mælt er fyrir frumvarpi til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur nú að Alþingi hefur nú til umfjöllunar þingsályktunartillögu um að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Þar er jafnframt ráðgert að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um mögulegan aðildarsamning að loknum samningaviðræðum við Evrópusambandið.

Þar sem nauðsynlegt er að setja lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar og ekki hefur áður verið sett löggjöf um efnið er eðlilegt að þetta tilefni verði nýtt til þess að setja almenn lög um þetta efni. Með frumvarpi þessu er því lagt til að sett verði almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sem um er að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu sem skylt er að halda samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar eða ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi ákveður að efna til.

Við smíði frumvarpsins var höfð hliðsjón af tillögum fyrrgreinds starfshóps um þjóðaratkvæðagreiðslur og einnig frumvarpi til laga um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 79. gr. stjórnarskrárinnar sem unnin var á vegum stjórnarskrárnefndar sem forsætisráðherra skipaði árið 2005. Var það frumvarp samið vorið 2007 samhliða frumvarpi til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskránni en hvorugt var þó lagt fram á Alþingi. Einnig hefur verið litið til ákvæða norskra laga um þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild og ákvæði danskra kosningalaga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu á grundvelli ákvæða dönsku stjórnarskrárinnar. Þá hefur verið höfð hliðsjón af leiðbeinandi reglum um Feneyjanefnd Evrópuráðsins sem gefin var út 2001, viðmiðun Feneyjanefndarinnar frá mars 2007 og ályktun ráðgjafarþings Evrópuráðsins um þjóðaratkvæðagreiðslu frá árinu 2005.

Hæstv. forseti. Ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur er að finna í stjórnarskrám meiri hluta Evrópuþjóða. Í sumum ríkjum eru þjóðaratkvæðagreiðslur ekki viðhafðar, til dæmis í Þýskalandi, og í öðrum ríkjum eru þær einungis við ákveðin tilefni, sem varnagli við fulltrúalýðræðið. Í enn öðrum ríkjum er löng hefð fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum og þær haldnar reglulega, jafnvel oft á ári, eins og í Sviss.

Virðulegi forseti. Á lýðveldistíma hefur aldrei farið fram þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi. Þó gerir stjórnarskráin ráð fyrir slíkum atkvæðagreiðslum í þremur tilvikum, í 3. mgr. 11. gr. um frávikningu forseta, í 26. gr. um synjun forseta á staðfestingu lagafrumvarps og í 2. mgr. 79. gr. um breytingu á kirkjuskipan ríkisins.

Ljóst er að samkvæmt stjórnarskránni er niðurstaða atkvæðagreiðslu sem efnt er til á grundvelli framangreindra stjórnarskrárákvæða bindandi fyrir löggjafann og ber honum því að fara eftir þeirri niðurstöðu sem verður í atkvæðagreiðslunni. Á hinn bóginn er jafnljóst að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi ákveður að efna til með samþykkt þingsályktunartillögu á grundvelli þessara laga, verði þau samþykkt, getur einungis orðið ráðgefandi að óbreyttri stjórnarskrá fyrir handhafa ríkisvaldsins samkvæmt gildandi stjórnarskrá. Minni ég á í þessu sambandi að ekki náðist samstaða um afgreiðslu frumvarps til stjórnarskipunarlaga á liðnu vorþingi sem hefði gert bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur að þessu leyti mögulegar. Ekki er þó hægt að draga í efa pólitískt skuldbindingargildi niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, ekki síst ef þátttaka er mikil eða niðurstaða afgerandi samanborið við reynslu annarra þjóða af slíkum atkvæðagreiðslum.

Ég vík nú nánar að efni frumvarps til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Meginmarkmið þessa frumvarps er að setja almenna umgjörð um tilhögun og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Í niðurstöðum alþjóðlegra rannsókna á framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna er mælt með því að ríki setji almennar reglur um framkvæmd þeirra og tilhögun frekar en að sett séu sérstök lög um þau efni í hvert skipti þegar ákveðið er að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Það tryggir gagnsæi að hafa fyrir fram settar reglur um framkvæmdina og dregur úr tortryggni á því að málefnið sem slíkt hafi bein áhrif á hvernig reglur eru settar um atkvæðagreiðsluna.

Í 1. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um gildissvið laganna. Þar sem lögunum er ætla að hafa almennt gildi er ekki tekin nein efnisleg afstaða til þess hvert sé tilefni ákvörðunar um að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram enda hefur Alþingi þar víðtækt svigrúm. Hefur almenni löggjafinn tæpast heimild til þess að setja þinginu beinar skorður í þeim efnum, til dæmis að banna að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um tiltekin mál að öðru leyti en því sem hægt yrði að leiða beint af stjórnarskránni. Ekki verður almenna löggjafanum heldur talið heimilt að leggja þær skyldur á Alþingi að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli ávallt fara fram um tiltekið málefni. Slíkar skyldur er á hinn bóginn hægt að mæla fyrir um í stjórnarskrá.

Í ljósi svigrúms Alþingis til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu ber að túlka hugtakið „málefni“ rúmt og gæti það átt við varðandi spurningu um hvort fella skuli tiltekin lög úr gildi eða hvort setja skuli lög um tiltekin málefni.

Eins og fram kemur í almennum athugasemdum hefur utanríkisráðherra lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Þar er jafnframt ráðgert að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um mögulegan aðildarsamning að loknum samningaviðræðum við sambandið. Tilefni þess að Alþingi ákveður að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu getur annars verið af margvíslegum toga. Þannig gæti þingið til dæmis ákveðið að láta fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið málefni ef sterk krafa kæmi fram um það í þjóðfélaginu og fjöldi kjósenda ritaði nafn sitt á undirskriftalista þar sem atkvæðagreiðslu yrði krafist.

Mikilvægt er þó að hafa í huga, eins og áður hefur komið fram, að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 1. mgr. 1. gr. getur aðeins orðið ráðgefandi en ekki bindandi fyrir handhafa ríkisvaldsins. Þótt niðurstaða atkvæðagreiðslu verði ekki stjórnskipulega bindandi fyrir Alþingi felst í henni mikilvæg vísbending um þjóðarvilja varðandi tiltekið málefni sem þjóðkjörnir fulltrúar yrðu í raun að taka tillit til. Þýðing niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar felst í því að hún hefur pólitískt skuldbindingargildi. Svari löggjafinn ekki því ákalli eða vilja þjóðarinnar sem kemur fram í atkvæðagreiðslunni reynir á pólitíska ábyrgð þjóðkjörinna fulltrúa sem þar sitja.

Í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu taki eftir því sem við á mið af því kosningakerfi sem þegar er til staðar hér á landi. Þessu ráða hagkvæmnissjónarmið en auk þess dregur það úr hættu á mistökum og hugsanlegum ágreiningi að notast við kerfi þar sem löng reynsla hefur skapast um framkvæmdina. Er hér jafnframt litið á fyrirmynd meðal annars frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Frumvarpið byggist þannig í meginatriðum á sömu reglum og gilda um forsetakosningar og kosningar til Alþingis.

Gert er ráð fyrir að tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslna fari eftir sömu reglum og gilda um kjör forseta Íslands. Þau lög gera síðan ráð fyrir að um kjörið gildi lög um þingkosningar að svo miklu leyti sem sérreglna er ekki þörf.

Þó kemur fram í ákvæðinu að kjörskrár skuli þó miðaðar við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag. Væri miðað við reglu kosningalaga að þessu leyti væri tíminn fimm vikur. Gilda sömu rök hér og í forsetakosningum að ekki er þörf á að svo langur tími líði.

Í ljósi þess að viðfangsefni þau sem fjallað er um í þjóðaratkvæðagreiðslu verða alla jafna þau sömu og almennt heyra undir verksvið Alþingis þykir eðlilegt að miða kosningarrétt í þjóðaratkvæðagreiðslu við þann rétt sem gildir í alþingiskosningum og þá einnig varðandi utankjörfundaratkvæðagreiðslur erlendis.

Í 3. gr. frumvarpsins er stefnt að því að setja skýrar reglur um spurningu á kjörseðli í þjóðaratkvæðagreiðslunni og frágang seðilsins. Mikilvægt er að vandað sé til ákvörðunar um það hvernig spurningin er orðuð svo ekki vakni tortryggni um að framsetning hennar kunni að hafa áhrif afstöðu kjósenda. Því er ráðgert að landskjörstjórn gefi umsögn sína um spurninguna sem hlutlaus aðili áður en Alþingi samþykkir endanlegt orðalag. Gert er ráð fyrir því að spurningin sé samþykkt í sömu þingsályktun og þeirri sem Alþingi ályktar að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram, en ekki er útilokað að hún verði ákveðin síðar og þá í sérstakri þingsályktun.

Í erlendum rannsóknum sem gerðar hafa verið á þjóðaratkvæðagreiðslum og ráðleggingum um fyrirkomulag þeirra er jafnan mælt með því að til þess að fá fram skýra og afdráttarlausa niðurstöðu þurfi að setja fram skýra og óskilyrta spurningu þar sem valkostir um svar eru aðeins tveir.

Þrátt fyrir þetta er ekki útilokað að Alþingi kjósi að setja spurningu fram með öðrum hætti, þannig að valkostir séu fleiri en tveir, og er svigrúm til þess í 3. mgr. 3. gr. frumvarpsins. Þar kemur jafnframt fram að unnt er að ákveða að hafa fleiri en eina spurningu í sömu atkvæðagreiðslu.

Þar sem fyrir liggur hvaða málefni eru borin fram í þjóðaratkvæðagreiðslu sem efnt er til á grundvelli ákvæða stjórnarskrárinnar er lagt til að dómsmálaráðuneytið ákveði orðalag og framsetningu spurningar á kjörseðli í þeim tilvikum samhliða þeim undirbúningi sem fer fram fyrir atkvæðagreiðsluna að öðru leyti.

Loks er lagt til að dómsmálaráðherra setji nánari reglur um útlit og frágang kjörseðla, þar sem fram kemur nákvæmari lýsing á uppsetningu texta á seðlinum.

Í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um tímafresti. Ekki er ráðgert að sömu reglur gildi um tímafresti í öllum tilvikum, meðal annars vegna fyrirmæla stjórnarskrárinnar sjálfar.

Ráðgert er að þjóðaratkvæðagreiðsla samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skuli fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að Alþingi samþykkir þingsályktun um hana. Er hér lagður til ákveðinn lágmarkstími vegna þess undirbúnings sem þarf að fara fram fyrir atkvæðagreiðsluna, einkum að nægur tími gefist til að kynna málið með víðtækum hætti. Þá er ráðgert að ekki líði meira en eitt ár frá ákvörðun Alþingis þar til atkvæðagreiðslan fer fram.

Í 2. mgr. er lýst tímafrestum um það hvenær atkvæðagreiðsla skuli fara fram. Hér verður að líta til þess að í báðum þessum ákvæðum er áskilið að atkvæðagreiðslan fari fram innan ákveðins tíma. Hvað síðarnefnda tilvikið varðar má líta til þess að ákveðinn lágmarkstími þarf að líða til undirbúnings fyrir atkvæðagreiðsluna, sem áður segir, en sá tími sem líður frá því að synjun forseta er kunngerð og þar til þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram nýtist til umræðu um viðkomandi lög og til kynningar á hinu umdeilda málefni sem kjósendur verða að taka afstöðu til. Samkvæmt lögum um framboð og kjör forseta Íslands er kjörskrárgerð miðuð við íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag. Er það sami viðmiðunardagur og til skamms tíma gilti um kjörskrá í alþingiskosningum, en þetta tímamark var lengt í fimm vikur með lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis, til að sömu upplýsingar gætu legið til grundvallar kjörskrárgerð og afmörkun nyrðra og syðra kjördæmis í Reykjavík, sem auglýsa ber fjórum vikum fyrir kjördag alþingiskosninga. Án breytinga á öðrum frestum samkvæmt þeim lögum eru þrjár vikur því almennt sá lágmarksfrestur sem þarf til að undirbúa almennar kosningar í landinu.

Í frumvarpinu er tekið af skarið um að þjóðaratkvæðagreiðsla geti farið fram samhliða kosningum til sveitarstjórna eða Alþingis eða forsetakjöri. Eru ýmis hagkvæmnisrök fyrir því að reglulegar kosningar verði nýttar í þessu skyni og eykur það jafnframt líkur á betri þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu. Eðli málsins samkvæmt er þó ólíklegt að þetta geti alltaf átt við og færi þjóðaratkvæðagreiðsla um frávikningu forseta augljóslega ekki fram á sama tíma og forsetakosningar.

Í 5. gr. frumvarpsins kemur fram sú meginregla að Alþingi skuli ákveða kjördag fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu en jafnframt er mælt fyrir um sérstakar auglýsingar um atkvæðagreiðsluna. Sú undantekning er gerð varðandi ákvörðun um kjördag að þegar um er að ræða atkvæðagreiðslu samkvæmt 26. gr. skuli dómsmálaráðuneytið ákveða kjördag.

Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að sett verði ákvæði um kynningu á málefni sem bera á undir þjóðaratkvæði. Slík kynning, þar á meðal útgáfa og dreifing viðeigandi kynningarefnis, er vandmeðfarin og mikilvægt að þess sé gætt að kynna bæði rök með og á móti þeim málstað eða málefni sem kosið er um svo kjósandi geti tekið vel upplýsta ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Lagt er til að Alþingi standi að forminu til fyrir kynningu en forsætisnefnd þingsins er síðan ætlað að setja nánari reglur um fyrirkomulag kynningarinnar.

Í 2. mgr. 6. gr. er sérregla sett um kynningu þegar um ræðir þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar. Í ljósi þess að atkvæðagreiðsla skal fara fram eins fljótt og kostur er gefst minni tími til almennrar kynningar en mikilvægast er að kynna efni hins umdeilda frumvarps, eða öllu heldur laganna sem þá hafa tekið gildi, fyrir kjósendum.

Í 7. gr. frumvarpsins er annars vegar lagt til að undirkjörstjórnir, yfirkjörstjórnir og landskjörstjórn séu hinar sömu og við alþingiskosningar og hins vegar að mörk kjördæma, kjörstaðir og kjördeildir skuli vera hin sömu og í næstliðnum alþingiskosningum.

Ákvæðið sækir beina fyrirmynd í lög um framboð og kjör forseta Íslands.

8. og 9. gr. frumvarpsins eru að mestu leyti samhljóða ákvæðum laga um framboð og kjör forseta Íslands og þarfnast ekki frekari skýringar.

Í 10. gr. frumvarpsins er fjallað um aðgerðir yfirkjörstjórna að lokinni talningu atkvæða. Er hér um sambærilegt ferli að ræða og á við í forsetakosningum, að því frátöldu að landskjörstjórn hefur með höndum þau störf sem Hæstiréttur hefur í forsetakosningum.

Í 3. mgr. kemur fram sérregla um birtingu niðurstöðu atkvæðagreiðslu samkvæmt 26. gr. í A-deild Stjórnartíðinda.

Í 11. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um þá almennu reglu að tillaga eða spurning sem borin er fram í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þegar meiri hluti þeirra sem þátt taka í atkvæðagreiðslunni samþykkir tillöguna sem borin er fram eða svarar spurningu játandi. Er reglunni ætlað að gilda bæði um atkvæðagreiðslur sem Alþingi ákveður að efna til og þeirra þjóðaratkvæðagreiðslna sem taldar eru í stjórnarskránni.

Þar sem einskis er getið í stjórnarskrárákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslu um skilyrði um lágmarksþátttöku kjósenda eða að tiltekið hlutfall þeirra þurfi að samþykkja tillögu sem borin er fram verður byggt á þeirri almennu reglu sem tíðkast hefur.

Í 13. gr. koma fram reglur um hvernig fara beri með kærur um ólögmæti þjóðaratkvæðagreiðslu. Þó eru undanskildar kærur um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað sem lýst er í XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis, en um þær fer eins og aðrar kærur um refsiverða háttsemi eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála.

Í 2. mgr. er lagt til að Alþingi geti ákveðið að ógilda niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Það gæti komið til hvort heldur ef landskjörstjórn hefur tekið til meðferðar kæru og úrskurðað að atkvæðagreiðslan hafi verið ólögmæt eða ef Alþingi telur að aðrir verulegir ágallar hafi verið á framkvæmd hennar sem ætla má að hafi haft áhrif á úrslitin. Séu slíkir verulegir ágallar á framkvæmd atkvæðagreiðslunnar í einu eða fleiri kjördæmum getur Alþingi ákveðið að hún fari aftur fram þar í stað þess að öll atkvæðagreiðslan verði endurtekin.

Í kostnaðarmati fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs við þjóðaratkvæðagreiðslu gæti orðið ámóta og við alþingiskosningar, eða um 160 millj. kr. Heimild til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningum til sveitarstjórna eða Alþingis eða forsetakjöri getur þó lækkað kostnað við þjóðaratkvæðagreiðslu verulega og gæti slíkur kostnaður numið 50 millj. kr. hverju sinni. Verður því ekki séð að lögfesting frumvarpsins hafi teljandi áhrif á kostnað ríkissjóðs frá því sem annars hefði orðið.

Virðulegi forseti. Ég hef þá lokið yfirferð yfir frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur og vænti þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. allsherjarnefndar.



[18:32]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er loks komið á dagskrá frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur og það er hið allra besta mál. Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvaða mál hún telur að geti einmitt verið til þess fallin að við munum setja þau í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún nefndi ESB-málið. Þingflokkar Framsóknarflokksins og þingflokkur Borgarahreyfingarinnar hafa í sameiningu lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að Icesave-skuldbindingarnar, þ.e. ríkisábyrgðin á þeim verði lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur sagt að það mál sé of snúið fyrir þjóðina svo ég vísi beint í orð hans sem birtust á visir.is. Er hæstv. forsætisráðherra sama sinnis eða telur hún kannski eins og hæstv. fjármálaráðherra taldi einu sinni, fyrir nokkrum árum, að þeir sem héldu slíku fram, þ.e. að þjóðin gæti ekki tekið svo stórar ákvarðanir, það væri einhver ömurlegasti málflutningur sem hann hefði heyrt? Getur verið, og það er ágætt að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún telur að ESB-málið sé einfaldara en Icesave-málið.



[18:34]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ekki hægt að gefa einhver einföld svör við því nákvæmlega hvaða mál geta fallið undir þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég fór þó aðeins inn á það almennt í þá veru hvernig það gæti verið og víða í þjóðaratkvæðagreiðslum eru undanskildir ákveðnir málaflokkar. Ég man t.d. eftir fjárlögum og því um líkum málefnum. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um tvö málefni og spyr um ESB. Ég held að það sé alveg ljóst og hvarfli ekki að nokkrum manni annað en ef við fáum samning sem menn telja að sé með þeim hætti að það sé rétt að bera hann undir þjóðina, þá verði hann borinn undir þjóðina. Við gerumst aldrei aðilar að Evrópusambandinu öðruvísi en að þjóðin hafi þar sitt lokaorð og ráði úrslitum um það hvort við gerumst aðilar að Evrópusambandinu eða ekki.

ESB getur auðvitað út af fyrir sig verið flókið mál en ég held að við munum hafa miklu meiri tíma til að kynna það mál fyrir þjóðinni. Það yrði að fara í ítarlega efnislega kynningu eftir að fyrir lægju drög að samkomulagi við Evrópusambandið sem þyrfti að fara í mjög ítarlega kynningu hjá þjóðinni. Varðandi Icesave-málið þá er það flókið og ég tek undir það með forsætisráðherra, og þingmenn hafa séð það á þeim skjölum sem hefur verið dreift að þetta er mjög ítarlegt frumvarp og ég held að það hafi aldrei verið lögð fram jafnmörg málsskjöl með einu máli eins og með þessu máli. Þetta eru 90 eða 100 málsskjöl þar sem aflétt er trúnaði af ýmsum gögnum. Þetta er mjög viðamikið mál sem þarna er lagt fram að því er varðar Icesave-frumvarpið og Icesave-málið og ég held að við höfum ekki þann tíma sem þarf til að bera þetta mál undir þjóðina. En auðvitað munum við eins og kostur er reyna (Forseti hringir.) að kynna málið fyrir þjóðinni miðað við þann tíma sem við höfum í þessu máli.



[18:37]
Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að taka undir með fyrrverandi, þ.e. gamla hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, þegar hann sagði að stundum heyrðist sú hjáróma rödd að einstök mál væru of flókin fyrir þjóðina. Þess vegna væri ekkert jafnömurlegt og að heyra að slík mál væri ekki hægt að fara með í þjóðaratkvæði. Það er einmitt það sem hæstv. forsætisráðherra sagði áðan. Hún er hins vegar reiðubúin að leggja ESB-samninginn undir þjóðina og ég get ekki betur séð en hann verði a.m.k. jafnflókinn ef ekki töluvert mikið flóknari en Icesave-samningarnir. Varðandi það að skýla sér á bak við tímaleysi, varðandi kynningu, það er ekki verið að gera neitt annað en að forðast að svara þeirri einföldu spurningu að auðvitað á Icesave-málið að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu ef menn telja að ESB-samningurinn eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu.



[18:38]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka að ég held að það sé afar mikilvægt þegar verið er að setja svona stór mál fyrir þjóðina — bæði málin eru auðvitað mjög stór, bæði Icesave-málið og ESB-aðild ef til hennar kemur — að kynna þau mál mjög ítarlega fyrir þjóðinni þannig að hún geti tekið afstöðu til þeirra. Miðað við það tímaplan sem menn hafa lagt og séð fyrir sér, ef við náum viðunandi samningsdrögum við Evrópusambandið, þá er ég alveg sannfærð um að við munum við hafa töluvert rúman tíma til að kynna það ítarlega fyrir þjóðinni.

Ég vil bara ítreka að ég tel ekki að við höfum þann tíma þegar Icesave-samningarnir eru annars vegar. Það er ýmislegt sem hangir á þeim samningum eins og margoft hefur komið fram og ég held að þessi samningur sé þess eðlis, hann er stór, hann er mikill og þarna er mikið af skjölum sem þarf að fara í gegnum, ég held að það sé ekki rétt í þessu máli og miðað við þann tíma sem við höfum og aðstæður að leggja hann fyrir þjóðina.



[18:39]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vil taka það fram í upphafi að ég fagna slíku frumvarpi á sama hátt og frumvarpi til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur sem kom fram hjá fulltrúum Borgarahreyfingarinnar en mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra vegna þess að mér fannst málið ekki nægilega skýrt. Það er hvergi talað um það í þeim greinum sem í frumvarpinu eru að kosning í þjóðaratkvæðagreiðslum eigi að fara fram eins og í kosningu um forseta Íslands, þar sem er eitt atkvæði, einn maður. Og ef þannig á að vera að það er eitt atkvæði, einn maður, af hverju í ósköpunum stendur það þá ekki bara í þessu frumvarpi klárt og kvitt og skýrt en ekki eins og stendur í 12. gr., með leyfi forseta:

„Um atkvæðagreiðsluna sjálfa, sem og undirbúning hennar, atkvæðagreiðslu utan kjörstaða og á kjörstað, fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.“

Ef miða á við eitt atkvæði, einn mann, þá á það að standa í þessum lagabálki en ekki í greinargerð með frumvarpinu. Mér þykir þetta óskýrt og ég vænti skýringa frá hæstv. forsætisráðherra.

Í öðru lagi segir í 1. gr., með leyfi forseta:

„Alþingi getur ákveðið með þingsályktun að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram.“

Telur hæstv. forsætisráðherra að þar nægi að meiri hluti þingmanna sé samþykkur slíkri atkvæðagreiðslu eða þarf 2/3 hluta?

Í þriðja lagi segir í 11. gr., með leyfi frú forseta:

„Til þess að spurning eða tillaga sem er borin fram í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þarf meiri hluti þeirra sem þátt taka í atkvæðagreiðslunni að svara játandi eða fylgja tillögunni.“

Ég spyr því: Þarf þá ekki að setja einhver ákvæði um að það þurfi lágmark kosningaþátttöku landsmanna til að þjóðaratkvæðagreiðslan geti verið annað tveggja ráðgefandi eða bindandi?



[18:41]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera að það sé ekki nægilega skýrt sett fram í greinunum sem slíkum og að eitthvað mætti skerpa á þeim en ég held að enginn vafi sé á því og það fram kemur í greinargerðinni eins og hv. þingmaður nefndi að við erum að tala um eitt atkvæði, einn maður. Það er alveg ljóst. Sú nefnd sem fær þetta frumvarp til meðferðar mun auðvitað skoða það ef ástæða er til að skerpa á því eitthvað frekar. Það er gert ráð fyrir að kosið sé í hverju kjördæmi fyrir sig með hefðbundnum hætti eins og verið hefur en það sé eitt atkvæði, einn maður, alveg sama í hvaða kjördæmi það er. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að það liggi alveg klárt fyrir og þykir miður ef eitthvað er óljóst í þessu máli.

Síðan spyr hv. þingmaður um einfaldan meiri hluta þingmanna hvort það sé hann sem ráði. Það er með þeim hætti að það er einfaldur meiri hluti þingmanna sem ræður samkvæmt ákvæðum þessa frumvarps. Ég held að það sé mikilvægt að það sé með þeim hætti. Það er misjafnt í öðrum löndum hvernig það er, hvort það er aukinn meiri hluti en hér er lagt til að einfaldur meiri hluti þingmanna dugi í þessu efni. Að mínu viti er það alveg fullkomlega nægjanlegt að það sé með þeim hætti og að ekki þurfi aukinn meiri hluta. Það hefur lengi verið kallað eftir ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslu hér á landi og ég held að við eigum ekki að gera málið flóknara en það þarf að vera í þessu efni.



[18:44]
Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir útskýringar hennar og vænti þess og beini því til nefndarinnar sem fær þetta mál til umsagnar að skoða að það standi klárt og kvitt, að í frumvarpinu sé verið að leggja til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem er einn maður, eitt atkvæði, en ekki misvægi atkvæða. Þannig að það fari ekkert á milli mála og við séum ekki að túlka lögin heldur séu þau skýr.

Hæstv. forsætisráðherra svaraði ágætlega þeim spurningum sem ég beindi til hennar nema um 11. gr., hvort hæstv. forsætisráðherra teldi að það þyrfti að setja einhvern lágmarksfjölda þeirra sem tækju þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu ef einfaldur meiri hluti þeirra sem tekur þátt á að ráða för. Hvort það nægi að t.d. 15% þjóðarinnar taki þátt, eða 30% eða hvort það nægi bara meiri hluti þeirra sem taka þátt, óháð því hvað þeir eru margir.



[18:45]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér láðist að svara þessari spurningu hv. þingmanns. Það er ekki skilyrði fyrir neinni lágmarksþátttöku.



[18:45]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef mikinn áhuga á að heyra skoðanir hæstv. forsætisráðherra á því að leyfa minni hluta þingmanna að senda mál í þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér skilst að þannig sé fyrirkomulagið í Danmörku. Mig langar einnig til að vita hver sé ástæðan fyrir því eða hvort hæstv. forsætisráðherra geti kannski skýrt það aðeins betur, hún ræddi það aðeins í ræðu sinni, að það var ákveðið að takmarka ekki þá málaflokka eða þau málefni sem gætu farið í þjóðaratkvæðagreiðslu en í Danmörku skilst mér að það séu fjárlögin sem ekki megi vísa í í þjóðaratkvæði og þar með sé litið svo á að viðkomandi ríkisstjórn sé að marka sér ákveðna stefnu eða stefnumörkun til framtíðar með fjárlögunum og þess vegna eigi minni hlutinn ekki að geta vísað því máli í þjóðaratkvæði. Ég hef mikinn áhuga að heyra frá hæstv. forsætisráðherra varðandi það.

Síðan væri kannski ágætt að fá svör frá henni varðandi athugasemdir núverandi hæstv. fjármálaráðherra, um þjóðaratkvæðagreiðslu í máli sem honum var mjög annt um og þar segir hann, með leyfi forseta: „Treystir ekki þjóðinni“, og talar um að það heyrist stundum, að það hljómi einstaka hjáróma rödd um að sum mál séu svo flókin að þau henti ekki í þjóðaratkvæði og hvort hæstv. forsætisráðherra telji kannski að í Icesave-málinu sé hennar rödd svolítið hjáróma.



[18:47]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og glöggt kemur fram í andsvörum hjá hv. þingmönnum þá er mikill áhugi fyrir þessu máli eðlilega vegna þess að það hefur lengi verið kallað eftir því að sett yrðu lög um þjóðaratkvæðagreiðslu og vonandi er runninn upp sá tími að við séum að festa slíkt í lög.

Eins og kom fram í máli mínu var þetta mál unnið í samráði allra stjórnmálaflokka á Alþingi þannig að allir höfðu tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum að í þessu máli. Það sem hv. þingmaður nefndi varðandi það að minni hluti þingmanna hafi þennan rétt, er vissulega einn kostur í málinu og er við lýði ef ég man rétt í Danmörku. En eftir því sem ég skil málið rétt er þetta þannig að þegar slíkt er ekki fest í stjórnarskránni, að minni hluti þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, þá er ekki hægt að kveða á um slíkt í einföldum almennum lögum. Við höfðum vissulega tækifæri til þess á síðasta þingi þar sem við vorum að fjalla um stjórnarskrárbreytingar, að gera slíkt. Þar var mikilvægt ákvæði sem því miður náði ekki fram að ganga. Það er aðferðin við að breyta stjórnarskránni, þ.e. að hægt sé að breyta henni án þess að rjúfa þurfi þing og boða til kosninga, sem ég held að hefði verið afar mikilvægt að ná fram og þar var líka ákvæði um almennan rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ákvæði sem ég tel afar mikilvægt að sé skoðað, ekki síst ef við stofnum til stjórnlagaþings, að það sé ákvæði sem stjórnlagaþing fær til meðferðar. Ég hef flutt frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem var einmitt ákvæði um að þjóðin hefði rétt til þess að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur og ég er alveg viss um að það kemur í framhaldi af þessu.

Ég hef víst ekki tíma til að svara fleiru sem fram kom hjá hv. þingmanni.



[18:49]
Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að taka það fram að ég þakka kærlega fyrir að þetta mál skuli vera komið fram. Ég er mjög ánægð með það og studdi einmitt eindregið minnihlutastjórnina í þeim fyrirætlunum sínum fyrir kosningar að breyta stjórnarskránni hvað þetta varðar. Mér heyrist á hæstv. forsætisráðherra að hún hyggist hugsanlega leggja fram þá breytingu á stjórnarskránni að hægt verði að fara í þess háttar breytingar og jafnvel gera þjóðaratkvæðagreiðslu bindandi fyrir þingið að einhverju leyti.

Ég mundi gjarnan vilja fá svar við spurningu minni um það hvað henti í þjóðaratkvæði og eins þegar við heyrum fullyrðingar um að við treystum ekki þjóðinni til að taka ákvarðanir um svona flókin mál hvort það geti hugsanlega verið einhverjar ákveðnar efasemdir um gáfnafar þjóðarinnar. En síðan eru ýmsir sem kannski hafa velt fyrir sér hvort ekki geti vel verið að aðild að Evrópusambandinu sé töluvert flóknara mál en einmitt það hvort við eigum að skrifa undir Icesave-samninginn og samþykkja ríkisábyrgðina.



[18:50]
forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum ekki langt hvor frá annarri í þeirri skoðun að það sé mjög æskilegt að þjóðaratkvæðagreiðslur séu bindandi. En til þess þurfum við að breyta stjórnarskránni og sú nefnd sem hefur verið á vegum forsætisráðuneytisins og hefur unnið að þessu máli ásamt persónukjöri og stjórnlagaþingi, hún féllst á að lagt væri fyrir þingið frumvarp um stjórnlagaþing. Ég geri mér fulla grein fyrir að það eru skiptar skoðanir um það vegna þess að af því að okkur tókst ekki á síðasta þingi að ná því fram inn í stjórnarskrána, stjórnlagaþinginu, þá er það ekki bindandi heldur einungis ráðgefandi. Ég geri mér grein fyrir því að það er þyrnir í augum margra. En það er mjög brýnt í mínum huga og það er auðvitað skömm fyrir þingið að það skuli varla hafa tekist að breyta neinu sem máli skiptir í stjórnarskránni nema mannréttindaákvæðum frá lýðveldisstofnuninni. Það sýnir bara nauðsyn þess að það sé stjórnlagaþing sem fjalli um þessi mál og breytingar á stjórnarskránni en ekki þingið.

Varðandi spurningar hv. þingmanns um það hvað félli undir þjóðaratkvæðagreiðslu hef ég engu öðru við að bæta en því sem ég sagði áðan í fyrra andsvari mínu við hv. þm. Höskuld Þórhallsson.



[18:52]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan í andsvari mínu við hæstv. forsætisráðherra fagna ég því að þetta frumvarp hafi verið lagt fram. Það er jákvætt að loksins séu komin lög sem kveða á um að hægt sé að skjóta mikilvægum og stórum málefnum til þjóðarinnar. Það sem hryggir mig hins vegar er að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru búnir að lýsa því yfir í dag að ef málin eru flókin verði þeim ekki skotið til þjóðarinnar. Þegar matið fer fram á því hvaða mál séu þess umkomin að þjóðin eigi að skera úr um þá eigum við ekki að leggja fram flókin mál. Þetta finnst mér afar sorglegt á þessum annars góða degi. Og mér finnst þetta vera mikil brotalöm á þessu frumvarpi vegna þess að eins og við vitum er hægt að flækja einföldustu mál og þingmenn eru einkar lagnir við það.

Mér fannst líka sorglegt að heyra í hæstv. forsætisráðherra þegar hún sagði að því miður gæfist ekki tími til að kynna Icesave-samningana fyrir þjóðinni. Þetta er ekkert sérstaklega flókið mál, Icesave-málið. Þetta er einfaldlega þannig að þjóðin þarf að taka ákvörðun um það hvort ríkið veitir ríkisábyrgð á risastóru láni, tæplega 1.000 milljarða sem það gæti farið í, stendur í 700 milljörðum í augnablikinu, hvort þjóðin sé reiðubúin að taka á sig skuldbindingar sem hún átti ekki undir nokkrum kringumstæðum að bera ábyrgð á. Af hverju var það? Vegna þess að bankarnir voru einkavæddir. Þetta voru einkafyrirtæki. Getur það verið, ef maður veltir því upp, að íslenska þjóðin eða bara almenningur í hvaða landi sem ber beri ábyrgð á einkafyrirtæki sem hefur starfsemi í öðru landi? Nei, það getur ekki verið. Þetta liggur í augum uppi. Þetta mál er ekki sérstaklega flókið.

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hefur hins vegar ákveðið að hún ætli að veita þessa ríkisábyrgð. Hæstv. fjármálaráðherra segir að það sé reyndar þegar búið að samþykkja það. En hvernig sem hann reynir kemst hann aldrei fram hjá þeirri staðreynd að það er Alþingi Íslendinga sem á lokaorðið um það hvort það á að binda ríkissjóð til margra ára, 2024. Yngsta barnið mitt verður orðið 15 ára og það elsta 21 árs. Öll æska þessara barna mun mótast af því að við erum að greiða u.þ.b. 40 milljarða á ári út úr ríkissjóði, á árunum 2016–2024, (Gripið fram í.) eru það ekki 60 milljarðar? Þetta eru svo stjarnfræðilegar upphæðir að þegar maður setur þær í samhengi þá kostar menntakerfi okkar landsmanna um 40 milljarða. Allt heilbrigðiskerfið 60 milljarða, allt á einu ári, um 60 milljarða. Við höfum verið að auka framlög til vegaframkvæmda sem skiptir landið allt og landsbyggðina svo miklu máli að það er deilt um það nánast á hverjum einasta degi á Alþingi, upp í 17 milljarða. 17 milljarðar eru smámunir þegar maður er að tala um 705 milljarða skuldbindingu til handa ríkissjóði. En tíminn er ekki nægur til að kynna þetta mál fyrir þjóðinni. Það var það sem hæstv. forsætisráðherra sagði rétt áðan. Getur verið að ástæðan sé sú, að þeir vilji ekki fara með þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu að meiri hluti landsmanna vilji þetta ekki, vilji ekki samþykkja ríkisábyrgðina á Icesave? Hafa ekki komið tvær skoðanakannanir sem sýna að 80% landsmanna eru á móti því? Ég skil vel að hv. formenn stjórnarflokkanna vilji ekki fara með slíkt í þjóðaratkvæði vegna þess að það yrði fellt. Ég skil vel að ráðherrarnir treysti sér ekki til að útskýra málið fyrir þjóðinni vegna þess að þjóðin skilur það mætavel hvað það þýðir fyrir framtíð þjóðarinnar, fyrir framtíð barnanna okkar að taka á sig þessar skuldbindingar. Ég treysti þjóðinni mætavel.

Það sem ég er hins vegar hættur að gera er að ég er hættur að treysta þessari ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem hefur svikið nánast hvert einasta af þeim kosningaloforðum sem frambjóðendur gáfu núna fyrir kosningar, sem er örstutt síðan voru haldnar. Það er ekki þannig að þessi mál hafi skotist upp í dagsljósið á einum til tveimur mánuðum. Það lá fyrir að farið yrði í mikinn niðurskurð. Það lá fyrir. Það lá fyrir að það yrði að taka ákvörðun um Icesave. Vinstri grænir gengu hvað harðast fram í því að það ætti ekki að samþykkja Icesave-skuldbindingarnar. Þær ætluðu líka að fleygja Alþjóðagjaldeyrissjóðnum út, en það er ekki gert. Nú er komið fram eitt af stærstu kosningamálum ríkisstjórnarinnar, þ.e. þessara flokka, að stórmál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu en þá mega þau mál svo sannarlega ekki vera flókin. Það er tekið fram í frumvarpinu að ESB-samningurinn megi fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, ESB-samningurinn sem verður væntanlega einhver flóknasti samningur sem um getur í sögu þjóðarinnar. Við erum enn þá að ræða túlkunaratriði á EES-samningnum, um 15 árum eftir að hann var samþykktur. ESB-samningurinn er einfaldur í huga ríkisstjórnarinnar en ekki Icesave-ríkisábyrgðin.

Mig langar aðeins að benda á orðin á bls. 4 í greinargerðinni með þessu lagafrumvarpi, þar sem koma fram almenn sjónarmið um markmið og tilefni þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þar segir:

„Íslensk stjórnskipun byggist á fulltrúalýðræði sem gerir ráð fyrir því að fulltrúum kjörnum af þjóðinni sé veitt umboð til þess að setja lög og taka mikilvægar ákvarðanir sem varða almannahag. Markmið þjóðaratkvæðagreiðslu er að veita hinum almenna borgara kost á að taka milliliðalaust þátt í ákvörðunartöku um lagasetningu eða eftir atvikum um tiltekin málefni í stað þess að ákvörðun sé tekin af þjóðkjörnum fulltrúum eins og almennt á við þar sem fulltrúalýðræði ríkir.“

Nú þarf bara að bæta inn í lögin: „en það á að sjálfsögðu ekki við flókin málefni“, alls ekki. Og alls ekki ef okkur gefst ekki tími til, að okkar mati, að útskýra málið fyrir kjósendum. Hér er sagt að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur sé að finna í stjórnarskrám meiri hluta Evrópuþjóða en það væri einmitt gaman að fá það fram hvort þar séu sömu takmarkanir sem ráðherrar, forsætis- og fjármála-, hafa einmitt gefið í umræðunni í dag.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína lengri. Það verður gaman að sjá hvaða breytingum þetta frumvarp tekur í nefndinni. Við framsóknarmenn fögnum þessu frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslu en ég ítreka orð mín að það er sorglegt og hryggilegt að þessar takmarkanir skuli hafa komið fram, bæði hjá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, flókin mál verða ekki lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu.