137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

125. mál
[18:52]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan í andsvari mínu við hæstv. forsætisráðherra fagna ég því að þetta frumvarp hafi verið lagt fram. Það er jákvætt að loksins séu komin lög sem kveða á um að hægt sé að skjóta mikilvægum og stórum málefnum til þjóðarinnar. Það sem hryggir mig hins vegar er að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru búnir að lýsa því yfir í dag að ef málin eru flókin verði þeim ekki skotið til þjóðarinnar. Þegar matið fer fram á því hvaða mál séu þess umkomin að þjóðin eigi að skera úr um þá eigum við ekki að leggja fram flókin mál. Þetta finnst mér afar sorglegt á þessum annars góða degi. Og mér finnst þetta vera mikil brotalöm á þessu frumvarpi vegna þess að eins og við vitum er hægt að flækja einföldustu mál og þingmenn eru einkar lagnir við það.

Mér fannst líka sorglegt að heyra í hæstv. forsætisráðherra þegar hún sagði að því miður gæfist ekki tími til að kynna Icesave-samningana fyrir þjóðinni. Þetta er ekkert sérstaklega flókið mál, Icesave-málið. Þetta er einfaldlega þannig að þjóðin þarf að taka ákvörðun um það hvort ríkið veitir ríkisábyrgð á risastóru láni, tæplega 1.000 milljarða sem það gæti farið í, stendur í 700 milljörðum í augnablikinu, hvort þjóðin sé reiðubúin að taka á sig skuldbindingar sem hún átti ekki undir nokkrum kringumstæðum að bera ábyrgð á. Af hverju var það? Vegna þess að bankarnir voru einkavæddir. Þetta voru einkafyrirtæki. Getur það verið, ef maður veltir því upp, að íslenska þjóðin eða bara almenningur í hvaða landi sem ber beri ábyrgð á einkafyrirtæki sem hefur starfsemi í öðru landi? Nei, það getur ekki verið. Þetta liggur í augum uppi. Þetta mál er ekki sérstaklega flókið.

Ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hefur hins vegar ákveðið að hún ætli að veita þessa ríkisábyrgð. Hæstv. fjármálaráðherra segir að það sé reyndar þegar búið að samþykkja það. En hvernig sem hann reynir kemst hann aldrei fram hjá þeirri staðreynd að það er Alþingi Íslendinga sem á lokaorðið um það hvort það á að binda ríkissjóð til margra ára, 2024. Yngsta barnið mitt verður orðið 15 ára og það elsta 21 árs. Öll æska þessara barna mun mótast af því að við erum að greiða u.þ.b. 40 milljarða á ári út úr ríkissjóði, á árunum 2016–2024, (Gripið fram í.) eru það ekki 60 milljarðar? Þetta eru svo stjarnfræðilegar upphæðir að þegar maður setur þær í samhengi þá kostar menntakerfi okkar landsmanna um 40 milljarða. Allt heilbrigðiskerfið 60 milljarða, allt á einu ári, um 60 milljarða. Við höfum verið að auka framlög til vegaframkvæmda sem skiptir landið allt og landsbyggðina svo miklu máli að það er deilt um það nánast á hverjum einasta degi á Alþingi, upp í 17 milljarða. 17 milljarðar eru smámunir þegar maður er að tala um 705 milljarða skuldbindingu til handa ríkissjóði. En tíminn er ekki nægur til að kynna þetta mál fyrir þjóðinni. Það var það sem hæstv. forsætisráðherra sagði rétt áðan. Getur verið að ástæðan sé sú, að þeir vilji ekki fara með þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu að meiri hluti landsmanna vilji þetta ekki, vilji ekki samþykkja ríkisábyrgðina á Icesave? Hafa ekki komið tvær skoðanakannanir sem sýna að 80% landsmanna eru á móti því? Ég skil vel að hv. formenn stjórnarflokkanna vilji ekki fara með slíkt í þjóðaratkvæði vegna þess að það yrði fellt. Ég skil vel að ráðherrarnir treysti sér ekki til að útskýra málið fyrir þjóðinni vegna þess að þjóðin skilur það mætavel hvað það þýðir fyrir framtíð þjóðarinnar, fyrir framtíð barnanna okkar að taka á sig þessar skuldbindingar. Ég treysti þjóðinni mætavel.

Það sem ég er hins vegar hættur að gera er að ég er hættur að treysta þessari ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem hefur svikið nánast hvert einasta af þeim kosningaloforðum sem frambjóðendur gáfu núna fyrir kosningar, sem er örstutt síðan voru haldnar. Það er ekki þannig að þessi mál hafi skotist upp í dagsljósið á einum til tveimur mánuðum. Það lá fyrir að farið yrði í mikinn niðurskurð. Það lá fyrir. Það lá fyrir að það yrði að taka ákvörðun um Icesave. Vinstri grænir gengu hvað harðast fram í því að það ætti ekki að samþykkja Icesave-skuldbindingarnar. Þær ætluðu líka að fleygja Alþjóðagjaldeyrissjóðnum út, en það er ekki gert. Nú er komið fram eitt af stærstu kosningamálum ríkisstjórnarinnar, þ.e. þessara flokka, að stórmál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu en þá mega þau mál svo sannarlega ekki vera flókin. Það er tekið fram í frumvarpinu að ESB-samningurinn megi fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, ESB-samningurinn sem verður væntanlega einhver flóknasti samningur sem um getur í sögu þjóðarinnar. Við erum enn þá að ræða túlkunaratriði á EES-samningnum, um 15 árum eftir að hann var samþykktur. ESB-samningurinn er einfaldur í huga ríkisstjórnarinnar en ekki Icesave-ríkisábyrgðin.

Mig langar aðeins að benda á orðin á bls. 4 í greinargerðinni með þessu lagafrumvarpi, þar sem koma fram almenn sjónarmið um markmið og tilefni þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Þar segir:

„Íslensk stjórnskipun byggist á fulltrúalýðræði sem gerir ráð fyrir því að fulltrúum kjörnum af þjóðinni sé veitt umboð til þess að setja lög og taka mikilvægar ákvarðanir sem varða almannahag. Markmið þjóðaratkvæðagreiðslu er að veita hinum almenna borgara kost á að taka milliliðalaust þátt í ákvörðunartöku um lagasetningu eða eftir atvikum um tiltekin málefni í stað þess að ákvörðun sé tekin af þjóðkjörnum fulltrúum eins og almennt á við þar sem fulltrúalýðræði ríkir.“

Nú þarf bara að bæta inn í lögin: „en það á að sjálfsögðu ekki við flókin málefni“, alls ekki. Og alls ekki ef okkur gefst ekki tími til, að okkar mati, að útskýra málið fyrir kjósendum. Hér er sagt að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur sé að finna í stjórnarskrám meiri hluta Evrópuþjóða en það væri einmitt gaman að fá það fram hvort þar séu sömu takmarkanir sem ráðherrar, forsætis- og fjármála-, hafa einmitt gefið í umræðunni í dag.

Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína lengri. Það verður gaman að sjá hvaða breytingum þetta frumvarp tekur í nefndinni. Við framsóknarmenn fögnum þessu frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslu en ég ítreka orð mín að það er sorglegt og hryggilegt að þessar takmarkanir skuli hafa komið fram, bæði hjá hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra, flókin mál verða ekki lögð í þjóðaratkvæðagreiðslu.