141. löggjafarþing — 10. fundur.
störf þingsins.

[14:01]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Þann 20. október nk. verður stór dagur í sögu þjóðarinnar þegar hún gengur að kjörborði og tekur afstöðu til nýrrar stjórnarskrár. Árið 1944 fengu Íslendingar stjórnarskrá en þá strax var viðurkennt að hún yrði aðeins til bráðabirgða og allar götur síðan hafa stjórnmálamenn á Alþingi freistað þess að hefja endurskoðun á stjórnarskrá en tekist illa upp. Þess vegna ákvað núverandi stjórnarmeirihluti að leita til þjóðarinnar og hófst það ferli með þjóðfundi árið 2010 en hugmynd að þjóðfundinum var meðal annars ættuð frá sjálfstæðismönnum á Alþingi.

Á þjóðfund komu 950 einstaklingar valdir með slembiúrtaki og sátu saman daglangt og skiptust á hugmyndum um hvernig ný stjórnarskrá gæti litið út. Stjórnlagaráð útfærði svo þær hugmyndir í drög að stjórnarskrá sem þjóðin tekur afstöðu til eftir fjórar vikur.

Það er mikilvægt að menn hafi í huga þetta orsakasamband: Sjálfstæðismenn lögðu meðal annars til að þjóðfundur yrði haldinn og þjóðfundur lagði fram hugmyndir að nýrri stjórnarskrá sem þjóðin tekur svo afstöðu til 20. október. Það skýtur því óneitanlega skökku við að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli um helgina lýsa því yfir að hann muni greiða atkvæði gegn drögum að nýrri stjórnarskrá, stjórnarskrá sem unnin er úr hugmyndum sem komu fram á þjóðfundi sem hann studdi meðal annarra og lagði til.

Virðulegi forseti. Atkvæðagreiðslan 20. október snýst um hvort þjóðin eða flokkarnir skrifi nýja stjórnarskrá. Stjórnmálaflokkar hafa reynt í tæp 70 ár en lítið gengið því að á þingi gæta margir sérhagsmuna. Þjóðareign á auðlindum er dæmi um slíka sérhagsmuni. Þess vegna þurfti að koma ritun nýrrar stjórnarskrá til þjóðarinnar og þann 20. október verður stigið mikilvægt skref í því ferli. Um það snýst líka ágreiningurinn milli mín og formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann segir nei við hugmyndum þjóðfundar og vill að flokkarnir á Alþingi skrifi nýja stjórnarskrá. Ég segi: Þjóðin á sjálf að ákveða hvernig ný stjórnarskrá lítur út og hún getur tekið stórt skef í þeim efnum 20. október næstkomandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)



[14:03]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og síðasti ræðumaður fjalla um þá atkvæðagreiðslu sem fram fer 20. október og leggja áherslu á að allir stjórnmálaflokkar á þinginu hafa með einum eða öðrum hætti haft jákvæða aðkomu að þessu merkilega ferli. Samfylkingin, Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Hreyfingin hafa allt kjörtímabilið stutt þetta ferli af einurð og sett málið í forgang. Framsóknarmenn gerðu stjórnlagaþing að baráttumáli sínu og forgangsmáli í kosningabaráttunni 2009 þó að þeir hafi síðan skipst í mismunandi hópa eftir afstöðu til stjórnlagaráðs og þess ferils á seinni stigum. Sjálfstæðismenn töluðu á sínum tíma fyrir því að haldinn yrði þjóðfundur um meginlínur stjórnskipunarinnar. Slíkur fundur var haldinn. Tæplega þúsund manns sóttu hann og hann var afar vel heppnaður. Þar var áhersla lögð á tiltekin grunngildi sem mynda grundvöll þess frumvarps sem kosið verður um 20. október. Það er því merkilegt og veldur ákveðnum vonbrigðum þegar forusta Sjálfstæðisflokksins hvetur nú almenning til að segja nei við frumvarpi stjórnlagaráðs sem byggir svo ótvírætt á þeim grunni sem þjóðfundurinn lagði.

Sú endurskoðun stjórnarskrárinnar sem staðið hefur yfir á kjörtímabilinu er einstæð því að hún svarar háværu kalli um beint lýðræði, um traust almennings á stjórnvöldum og þessari stofnun sem hrundi haustið 2008 rétt eins og fjármálakerfið. Höfum í huga að virðing Alþingis verður ekki endurreist með því að menn beri hálstau í þingsalnum eða gangi til kirkju á þingsetningardegi. Virðing Alþingis verður einungis endurreist ef þingheimur sýnir í verki að hann áttar sig á því að róttækra breytinga er þörf á inntaki og ásýnd Alþingis og þeim vinnubrögðum sem tíðkast í þinginu. Hluti af þeirri endurskoðun er að viðurkenna í verki að Alþingi hefur ekki tekist í áratugi að ná fram nauðsynlegum endurbótum á stjórnarskránni sem svarar háværu kalli þjóðarinnar um auðlindir í þjóðareign, um þjóðaratkvæðagreiðslur, um jöfnun (Forseti hringir.) atkvæðisréttar, persónukjör o.s.frv.



[14:05]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Nú í hádeginu voru tvær nefndir þingsins á fundum með ríkisendurskoðanda þar sem við ræddum mál sem kom fram í Kastljósi í gær. Á þessum fundi kom fram, og ég get sagt frá því vegna þess að fundurinn var opinn fréttamönnum, að ríkisendurskoðandi hefur óskað eftir lögreglurannsókn vegna upplýsingaleka.

Mig langar að tengja þetta mál við frumvarp stjórnlagaráðs sem verður þjóðaratkvæðagreiðsla um 20. október vegna þess að þar eru tvær greinar í mannréttindakaflanum sem eru afskaplega mikilvægar. Það er 15. gr. sem heitir upplýsingaréttur og fjallar um rétt manna til upplýsinga og sú 16., um frelsi fjölmiðla, þar sem meðal annars er kveðið á um vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara og að þá vernd skuli tryggja í lögum. Hér erum við komin með dæmi um hvað slíkt skiptir ákaflega miklu máli. Ég vil benda á það og vekja jafnframt athygli á því að þetta er einmitt spurningin um hvort við viljum gamla eða nýja Ísland. Viljum við þjóðfélag þar sem menn leyna upplýsingum og krefjast lögreglurannsóknar vegna þess að menn deila upplýsingum, sem almenningur á rétt á, um hvernig farið er með fjármuni okkar eða viljum við eitthvað annað?



[14:07]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að ræða aðeins þann fund sem var í hádeginu, sameiginlegan fund fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í framhaldi af umfjöllun Kastljóss í gær um mjög alvarlegt mál þar sem hugbúnaðarkerfi fyrir ríkið sem átti að kosta 160 milljónir er komið upp í 4 milljarða. Fjármunirnir hafa runnið til eins fyrirtækis sem var á sínum tíma einkavinavætt í hendur flokksgæðinga. Sagan endurtekur sig. Það á bara eftir að fletta einu laginu enn utan af lauknum.

Það er ömurlegt að vera í þessari stöðu ár eftir ár. Í þessu tilviki, þ.e. í Kastljósi í gær, var verið að fjalla um skýrslu Ríkisendurskoðunar þannig að það var ekki verið að búa til einhverjar upplýsingar heldur eru þetta gögn sem Ríkisendurskoðun hefur haft undir höndum árum saman og þagað yfir.

Framhald vinnunnar við þessa skýrslu, eins og kom fram á fundinum í morgun, hefur verið mjög einkennilegt og ekki í samræmi við verklagsreglur Ríkisendurskoðunar hingað til, þ.e. að tilteknir aðilar fái skýrsluna afhenta óformlega til að gera væntanlega einhverjar óformlegar athugasemdir við hana.

Niðurstaðan eftir fundinn í morgun getur að mínu viti eingöngu verið á einn veg: Það þarf að taka framhald þessarar vinnu úr höndum Ríkisendurskoðunar og láta fara fram rannsókn á þessu máli og á vinnubrögðum Ríkisendurskoðunar í málinu og það þarf að koma fram með nöfnin á þeim sem tengjast því í stjórnsýslunni, í einkageiranum og benda á þessi tengsl viðskiptalífs, stjórnmála og stjórnsýslu. Greinilegt er við fyrstu umfjöllun að um er að ræða gjörspillingu í samfélaginu. Það er ekki hægt að búa við þetta endalaust og nú verður Alþingi og þingmenn einfaldlega að taka af skarið og setja á stofn enn eina rannsóknarnefndina. Þó að (Forseti hringir.) hæstv. forseta þingsins sé illa við það og telji það ekki peninganna virði (Forseti hringir.) þá getum við ekki búið við þetta ástand áfram.



[14:09]
Róbert Marshall (Sf):

Virðulegi forseti. Það voru vissulega mjög alvarlegar upplýsingar sem fram komu í umfjöllun Kastljóss í gærkvöldi og mjög alvarlegar upplýsingar sem fram komu á fundi fjárlaganefndar og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í hádeginu. Það er nauðsynlegt fyrir þingið sem hefur Ríkisendurskoðun sem sitt verkfæri að fara mjög vandlega yfir þetta mál, skoða tilurð þess og hvað fór úrskeiðis rólega og yfirvegað. Það eru mjög alvarlegar vísbendingar á ferðinni. Fram kom í svörum Ríkisendurskoðunar að vísað var til skýrsludraga sem ekki höfðu verið fengin viðbrögð við, en í málinu öllu blasir það engu að síður við að það sem aldrei má gerast þegar Ríkisendurskoðun er annars vegar hefur gerst, þ.e. trúverðugleiki hennar hefur beðið nokkurn skaða af þessu máli og umfjölluninni.

Ég held að ég verði að taka undir það sem fram kom í máli hv. þm. Þórs Saaris áðan og segja: Það þarf að fara fram sjálfstæð rannsókn á málinu vegna þess að það snýst ekki lengur um það hvort Ríkisendurskoðun eða einhver annar hafi brotið lög heldur snýst það fyrst og fremst um það að við verðum að geta borið traust til stofnana ríkisvaldsins og þegar það brestur verðum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sameinast um að endurheimta það traust. Það er algert grundvallaratriði í samskiptum þingsins við Ríkisendurskoðun og almenning allan.



[14:11]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Við erum að renna út á tíma. Hætta er á að höftin bresti við slit þrotabúa gömlu bankanna. Þá geta kröfuhafar bankanna náð yfirráðum yfir Arion banka og Íslandsbanka. Kröfuhafarnir eru hákarlar sem keyptu kröfur sínar á hrakvirði. Hákarlarnir munu nota bankana sína til að fara í kringum höftin með hörmulegum afleiðingum fyrir almenning. Ef höftunum verður leyft að bresta vegna aðgerðaleysis munu efnahagslegar hörmungar leika þá sem síst skyldi afar illa. Misskiptingin verður óbærileg milli þeirra eignalausu með tekjur í krónum og hinna sem geta flúið land með eignir sínar. Ríkið og fyrirtæki með erlend lán munu ekki geta staðið í skilum af erlendum skuldum sínum.

Frú forseti. Við verðum að hefja skýrt afnám gjaldeyrishafta til að þjóðin verði ekki fyrir enn frekari skaða af rangri efnahags- og peningastjórn. Eina leiðin sem er í boði og felur ekki í sér greiðslufall er upptaka nýkrónu með mismunandi skiptigengi. Hrægömmum sem eiga froðueignir og bólueignir verður þá boðið að skipta yfir í nýkrónu á afar lágu gengi. Ef þeir hafna því halda þeir eignarrétti sínum á gömlu krónunum.

Það er komið að ögurstundu, látum ekki hugleysi verða til þess að þjóðin fari í gegnum aðrar efnahagshörmungar. Stýrum afnámi hafta.



[14:14]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil deila með þingmönnum upplifun minni í morgun og þeirri atburðarás sem var sett af stað. Ég sit í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og fékk fundarboð um að sameiginlegur fundur yrði haldinn með fjárlaganefnd í hádeginu og að umfjöllunarefnið ætti að vera Kastljóssþáttur hv. þm. Björns Vals Gíslasonar frá því í gær. Þar sem ég sat á fundi á þeim tíma og sá ekki þennan Kastljóssþátt þá mætti ég til fundarins og vissi ekki hvað væri á dagskrá. Svo ber undir að meira að segja fjölmiðlum hafði verið boðið á fundinn en enginn vissi raunverulega hver það var sem stóð að því boði nema hvað fundarsalurinn var fullur af fjölmiðlamönnum.

Það sem gerist síðan, frú forseti, sem er öllu alvarlegra, er að í ljós kemur að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Björn Valur Gíslason, er sá eini á fundinum með drög að skýrslu Ríkisendurskoðunar undir höndum. Við hinir þingmennirnir 12 eða 15, tvær sameiginlegar nefndir, höfðum engin gögn í höndum. Það sem er allra verst í þessu, og er ekki til að auka virðingu þingsins, er að á fundinum kom í ljós að þessi drög eru þýfi. Þessum drögum var stolið frá Ríkisendurskoðun og þar kemur þrennt til: Forstöðumaður fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins var búinn að afhenda skýrsluna þannig að hann liggur ekki undir grun en þá eru það núverandi eða fyrrverandi starfsmenn Ríkisendurskoðunar sem hafa komið henni í hendur fjölmiðla. Það er grafalvarlegt að formaður fjárlaganefndar þingsins skuli vera með þessa skýrslu undir höndum, sérstaklega í ljósi þess, (Forseti hringir.) eins og ég kom inn á áðan, að hún er þýfi og hefur þjófnaðurinn nú þegar verið kærður til lögreglu. Við ætluðum (Forseti hringir.) að auka virðingu þingsins — var það ekki?



[14:16]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta á hv. þingmenn stjórnarliðsins og þá sem styðja ríkisstjórnina tala hér. Hingað kom hv. þm. Magnús Orri Schram og fór með staðlausa stafi þar sem hann hélt því fram í fullri alvöru að þjóðfundurinn væri uppruninn að því frumvarpi sem greidd verða atkvæði um. Ég var á þessum þjóðfundi og ég hvet menn til að skoða niðurstöður hans. Það vita allir sem vilja vita það að stjórnlagaráð samdi þetta frumvarp.

Það hefur verið margbent á það, m.a. af fræðimönnum, síðast Gunnari Helga Kristinssyni prófessor, sem fram til þessa hefur verið aðili sem samfylkingarmenn hafa hlustað á, að aðferðafræðilega ganga þessar spurningar illa upp. Það að reyna að spinna upp núna að atkvæðagreiðslan um frumvarp stjórnlagaráðs snúist um þjóðfundinn er fullkomlega súrrealískt.

Ég fagna, virðulegi forseti, þeim breyttu vinnubrögðum að nú eftir þátt í sjónvarpinu fer allt á fleygiferð og strax er haldinn fundur hjá hv. þingnefnd til að komast til botns í málinu. Ég lagði það nefnilega til í síðustu viku í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að beiðni mín um að fá svör við spurningum sem hafa legið fyrir í marga mánuði yrði fastur liður í dagskrá nefndarinnar, annars vegar um Byr og SpKef, sem kostaði skattgreiðendur 25 milljarða, og hins vegar inngrip ríkisstjórnarinnar í Sjóvá. Núna hljóta að vera tímamót. Ég hlýt að fá upplýsingarnar á eftir. Stjórnarliðar hljóta að hlaupa til og láta okkur vita hvað er í gangi (Forseti hringir.) þegar við leggjum fram formlegar spurningar og þar af leiðandi geta þeir hjálpað okkur að sinna því hlutverki sem okkur er ætlað samkvæmt stjórnarskrá, (Forseti hringir.) að veita framkvæmdarvaldinu aðhald, því að það hefur ekki verið neinn áhugi á því fram til þessa.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að virða tímamörk, tvær mínútur í þessari umræðu.)



[14:18]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hv. síðasta ræðumanni tókst að gera málið í kringum Ríkisendurskoðun algjörlega óskiljanlegt, það var kannski tilgangur hans hér í ræðustól. Það eru dapurleg viðbrögð við þessum atburðum að kalla á lögguna í staðinn fyrir að setjast niður og klára þá skýrslu sem unnið var að. Ég beini því til forseta þingsins, sem er að vísu ekki yfirmaður en eins konar umsjónarmaður ríkisendurskoðanda, að koma þeim skilaboðum áfram.

Hv. síðasti ræðumaður var fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hér talaði og hann minntist á stjórnarskrárkosningarnar og reyndi að skera á milli þjóðfundarins annars vegar og stjórnlagaráðsins hins vegar. Þar eru að sjálfsögðu skýr skil þó að stjórnlagaráðið sé í beinu framhaldi af þjóðfundinum og tengist stjórnlaganefndinni.

Tíðindin í því máli nákvæmlega núna eru þau að formaður þess flokks sem hv. þingmaður tilheyrir hefur lýst afstöðu flokksins til málsins. Maður vonaði auðvitað að stjórnmálaflokkarnir gætu komið sér saman um það í samræmi við gang þessa máls að þáttur þeirra, að minnsta kosti opinber og augljós, takmarkaðist við það að hvetja fólk til að koma að kjörborðinu, að greiða atkvæði. Það hefði verið sæmilegt fyrir stjórnmálaflokkana. En Sjálfstæðisflokkurinn hefur sumsé gengið lengra, hann hefur tekið afstöðu til málsins sjálfs, hann hefur gert málið að flokkspólitísku máli af sinni hálfu. Hann segir nei.

Næsta skref er þá að hann segi okkur við hverju hann segir nei því að það hefur í löngum ræðuhöldum á þinginu, á nefndarfundum og í umræðu í samfélaginu aldrei komið í ljós. Hverju er hann á móti í þessu stjórnarskrárfrumvarpi? Er hann á móti auðlindaákvæðinu? Er hann á móti skýrum reglum um rétt almennings? (Forseti hringir.) Hverju er Sjálfstæðisflokkurinn á móti?

Nú hvet ég hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson til þess að koma hingað upp aftur og segja okkur frá því í (Forseti hringir.) eitt skipti fyrir öll: Af hverju segir Sjálfstæðisflokkurinn nei?

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á tímamörkin.)



[14:21]
Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og oft gerist undir þessum lið eru mörg mál til umfjöllunar. Það sem ég vil taka hér upp eru þær fréttir sem birtust í fjölmiðlum í hádeginu, en það lá fyrir að málið yrði gert opinbert í dag, um að sjávarútvegsráðherrar Evrópusambandsins hafi komið sér saman um og staðfest reglur sem heimila refsiaðgerðir vegna makríldeilu Íslendinga við Evrópusambandið.

Reglurnar eru almennt orðaðar og Ísland og Færeyjar eru ekki nefndar á nafn en það er algjörlega skýrt í ummælum talsmanna Evrópusambandsins og sjávarútvegsstjóra þess, Maríu Damanaki, að þessar reglur eru settar til höfuðs Íslendingum og Færeyingum til að beita í þessari deilu. Haft er eftir sjávarútvegsstjóranum að þarna sé Evrópusambandið komið með öflugt vopn í deilunni við Íslendinga og Færeyinga, skýrara getur það ekki orðið. Jafnvel þótt reglurnar sjálfar séu almennar eru ummæli eins og þessi algjörlega skýr. Meira að segja ríkisstjórn Íslands ætti að vera það ljóst að þessum reglum er beint gegn Íslendingum og Færeyingum vegna makríldeilunnar þannig að það sé sagt algjörlega skýrt.

Ég fer fram á það formlega að ríkisstjórn Íslands mótmæli þessu og tali hátt og skýrt í þeim efnum, mótmæli því að settar séu slíkar reglur sem gera ekkert annað en að herða þessa deilu og koma í veg fyrir og hindra (Forseti hringir.) lausn hennar. Ég fer fram á það við ríkisstjórn Íslands að hún mótmæli þessu hástöfum og geri (Forseti hringir.) það þannig að Íslandi og Íslendingum verði sómi að.

(Forseti (ÁRJ): Enn minnir forseti þingmenn á að virða tímamörk.)



[14:23]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að taka undir það að þrátt fyrir hinar almennu reglur sem settar voru er varða fiskveiðar, og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir vakti athygli á, þá mun Ísland að sjálfsögðu standa föstum fótum í deilunni gegn þeim fráleitu kröfum sem uppi eru af hálfu Noregs og Evrópusambandsins, burt séð frá því er lýtur að þessum reglusetningum sem eru, eins og þingmaðurinn sagði, almennt orðaðar en túlka má með þessum hætti. Ríkisstjórn Íslands mun að sjálfsögðu standa fast á samningsmarkmiðum sínum.

Ég vildi taka sérstaklega undir þau mál sem var vakin athygli á hérna áðan er varða atkvæðagreiðsluna um stjórnarskrána. Það er innan við mánuður þangað til hún fer fram sem er auðvelt að fullyrða að marki þáttaskil í lýðveldissögunni. Þetta er meðal mikilvægustu atkvæðagreiðslna sem hafa verið haldnar hér og er ástæða til að hvetja fólk sérstaklega til málefnalegrar umræðu um tillögurnar burt séð frá skaki flokkastjórnmálanna og að taka þátt.

Þarna er verið að spyrja hvort auka eigi val persónukjörs og jafna vægi atkvæða. Þarna er verið að greiða atkvæði um þjóðareign á auðlindum landsins og síðast en ekki síst hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að liggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Þetta er meiri háttar mikilvæg atkvæðagreiðsla og brýn ástæða til að halda umræðunni um inntak einstakra greina og tillögunum í heild sinni fyrir utan skotgrafir flokkastjórnmálanna sem á tíðum vilja drepa slíkri umræðu á dreif. Hér er um að ræða gífurlega mikilvægt mál og auðvitað skiptir miklu máli fyrir úrslit atkvæðagreiðslunnar að þátttaka verði góð og að umræðan á þeim fáu vikum sem eftir eru verði opin og mikil í samfélaginu um það sem þar er lagt til að verði breytt í stjórnarskrá okkar.



[14:26]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Menn ræða hér þjóðaratkvæðagreiðsluna sem er fram undan. Hér hefur verið sagt að greiða eigi atkvæði um þjóðareign á auðlindum. Það er vitanlega ekki þannig heldur er verið að gera skoðanakönnun á því hvort fólk vilji að slíkt ákvæði sé í stjórnarskránni. Það er fyrst og fremst verið að gera könnun. Ég ætla ekki að standa hér og segja hvort fólk eigi að mæta eða ekki eða hvað það eigi að gera í þessari könnun, það verður sjálft að meta það.

Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af og hef haft mjög lengi er sú forgangsröðun sem stjórnarflokkarnir og helstu stuðningsmenn þeirra í þinginu hafa, eins og að leggja höfuðáherslu á að breyta stjórnarskránni eftir síðustu kosningar. Það hefði ekki að mínu viti átt að vera forgangsmál. Forgangsmálið er að sjálfsögðu að fara í þau verk sem brenna brýnast á heimilunum og fyrirtækjunum. Það lýtur að því að lækka skuldir heimilanna. Það á að vera forgangsmál. Það á að vera forgangsmál að reyna að breyta verðtryggingunni, setja á hana þak, reyna að hemja þessa ófreskju sem verðtryggingin er með einhverjum hætti, og það á að vera forgangsmál að fara hér í mjög ákveðna og massífa atvinnuuppbyggingu. Þess í stað er höfuðáherslan lögð á að breyta stjórnarskránni sem að mínu viti hefur í sjálfu sér ekkert til saka unnið. Hin gamla stjórnarskrá sem hér hefur verið við lýði býsna lengi er ágæt. Það má hugsanlega breyta einhverju í henni, eins og að styrkja auðlindaákvæðið, ég tek undir það, en að eyða öllu þessu púðri í stjórnarskrána eru mikil mistök.

Mig langar að benda á eitt enn sem kom hér fram varðandi Ríkisendurskoðun. Ef grunur er um þjófnað hlýtur að sjálfsögðu sá er telur að frá sér hafi verið stolið að kæra, hvort sem það er Ríkisendurskoðun eða einhver annar. Það breytir þó engu um það að þær upplýsingar sem virðast vera í þessum gögnum eru algjörlega galnar. Ef búið er að fara marga milljarða fram úr áætlun (Forseti hringir.) og ekki hægt að skýra það með réttum og lögmætum hætti þá er það óásættanlegt.



[14:28]
Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Flest fer úrskeiðis hjá hæstv. ríkisstjórn og úr böndum. Það eru glannalega mörg verkefni fram undan í fangi Alþingis til að leysa úr ósköpunum á næstu missirum.

Ég nefni stuttlega skilanefndir bankanna, spilafíknina þar. Ég lagði til í þessum sal fyrir rúmu ári að öllum skilanefndum bankanna yrði sagt upp með mánaðar fyrirvara. Það hefði betur verið gert. 500 milljónir í laun til tveggja manna á tveimur árum er ekki boðlegt.

Það er alvarlegt mál líka þegar ríkisstjórnin stendur fyrir því og samþykkir það að 5 þús. tonn af kvóta í stærstu verstöð landsins séu flutt burt. Margir kunna að hafa bilað þar á vaktinni því að þetta er flókið mál en það gengur ekki að hæstv. ríkisstjórn, sem er eigandi Landsbanka Íslands, láti skrímslið ganga laust. Skrímslið í þessu máli er Landsbanki Íslands. (Gripið fram í: Kvótakerfið.) Landsbanki Íslands ræður ferðinni og ákveður hver á að eignast hvað. Það er búið að vera að gera upp mál í langan tíma sem ekkert gekk að gera upp hjá bankanum og biðstaða og margs konar hugmyndir eru þar á bak við. Menn vomuðu þar yfir til að eignast 5 þús. tonna kvóta án þess að greiða neitt fyrir hann, hirtu það sem eftir stóð og það var ekki mikið. Þetta er málið.

Það má ekki gleyma því að það er ríkisstjórn Íslands sem ber ábyrgð á því að svo stór hluti af kvóta í stærstu verstöð Íslands er hugsanlega að fara burt úr því byggðarlagi, þeirri verstöð sem hefur gefið mest af sér af öllum byggðum Íslands í rúmlega 100 ár til íslenska þjóðfélagsins (Forseti hringir.) — af öllum byggðum Íslands.



[14:30]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í dag eins og oft áður kemur forgangsröðun ríkisstjórnarflokkanna ágætlega fram. Allir þeir sem hafa talað af hálfu ríkisstjórnarflokkanna ræða hér stjórnlagaráð eða nýjar rannsóknarnefndir. Það sem fólkið í landinu bíður frekar eftir er að rædd séu atvinnumál. Við hefðum til dæmis getað rætt af hverju í ósköpunum næst ekki í tekjur af olíu- og bensíngjaldi vegna ofsköttunar, það vita allir. Við ræddum í gær um ferðaþjónustuna og fyrirhugaða ofsköttun ríkisstjórnarinnar þar og alvarlegar afleiðingar. Ég vil taka undir þær áherslur sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson ræddi um og við framsóknarmenn styðjum.

Það er margt sem þarf að skoða í þinginu. Ég vil koma inn á eitt mál. Á fundi í atvinnuveganefnd í morgun ræddum við um þriðju tilskipun Evrópusambandsins í raforkumálum og álit okkar til utanríkismálanefndar. Sú staðreynd hefur verið uppi í þessum málum að frá því að við innleiddum fyrstu tilskipunina höfum við alltaf sótt um undanþágu frá því í raun að taka meginþætti í raforkumarkaði Evrópu upp en engu að síður höfum við verið jafnvel kaþólskari en páfinn við innleiðingu reglnanna. Varðandi aðskilnaðinn þurftu til að mynda aðeins fyrirtæki sem hafa 100 þús. notendur eða fleiri að skilja að fyrirtæki sín en á árinu 2008 ákváðum við að það miðaðist einungis við 10 þús. notendur og þar með fóru þó nokkur fyrirtæki þá leið, en Orkuveita Reykjavíkur ein, sem er þó með 100 þús. notendur, er ekki enn búin að þessu en það stendur reyndar til á þessu ári.

Spurningin er alltaf þessi: Er þetta rétta leiðin? Eigum við að sækja um undanþágur? Hvaða afleiðingar hefur þetta?

Rarik reynir af veikum mætti að verðjafna á öllu landinu. Í morgun ræddum við við garðyrkjumenn um hvaða möguleika þeir hafa til að fá lægra verð. Mér sýnist að afleiðingin af stefnu okkar verði annaðhvort sú að risagarðyrkjustöðvar rísi við orkuverin og þar verði framleiðslan en fjölskyldubúin leggist af eða að menn stofni ný dreififyrirtæki á landinu þar sem það er hagkvæmt (Forseti hringir.) og sífellt dýrara verði að dreifa rafmagni um hinar dreifðu byggðir.

Eigum við ekki að staldra við núna áður en við tökum upp þriðju tilskipunina og velta fyrir okkur kostum og göllum? (Forseti hringir.) Hvora leiðina eigum við að fara? Þetta er eitt af verkefnunum sem þingið þarf að taka á á næstu mánuðum.



[14:33]
Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Í morgunútvarpinu í morgun var athygli landsmanna vakin á stöðu barna frá Sýrlandi, barna sem hafa ýmist sjálf orðið fyrir alvarlegum pyntingum eða orðið vitni að slíku, mörg aftur og aftur. Maður getur af veikum mætti reynt að ímynda sér hvernig áhrif slíkt hefur á sálarlíf barna og ungmenna, enda kemur í ljós að mörg þeirra eru afar illa haldin.

Þakka ber Barnaheill á Íslandi fyrir að hafa vakið athygli okkar á málinu. Mér finnst eðlilegt að íslensk stjórnvöld sem eru blessunarlega að auka framlög sín til þróunarmála skoði það vandlega hvort ekki sé ástæða til að styrkja það starf sem fram undan er til að byggja þessi börn upp eftir áföllin.

Ekki má gleyma að Barnaheill bendir líka á að hópur barna hér á landi á um sárt að binda vegna þess að hann hefur orðið vitni að síendurteknu ofbeldi. Þar þurfa opinberir aðilar líka að bretta upp ermar. Á netinu undanfarna daga hafa birst frásagnir ungmenna sem segja stuttlega frá reynslu sinni. Þetta eru ungmenni sem hafa orðið fyrir einelti í langan tíma, fyrst og fremst vegna þess að útlit þeirra er ekki staðlað. Einelti er alvarlegt ofbeldi sem hefur því miður dregið þróttinn úr fjölda íslenskra ungmenna, ungmenna sem eiga það skilið að samfélagið styðji við bakið á þeim og stöðvi ofbeldið. Ekki má gleyma því að gerendur eineltis eru oft í vandræðum með sjálfsmynd sína og til að leyna því telja þeir að ofbeldi sé gott tæki.

Mörg góð verkefni hafa verið sett af stað til að vinna gegn einelti og vissulega hafa þau gert sitt gagn en enn stíga börn fram og lýsa vanlíðan sinni svo að verkinu er engan veginn lokið. Það þarf því enn að vinna markvisst og örugglega að því að finna leiðir sem gagnast í markvissri samvinnu allra aðila. Þá langar mig til að leggja sérstaka áherslu á hlut foreldra. Við höfum ekki efni á því að börn og ungmenni þessa heims fái ekki notið friðhelgi til að vaxa og dafna. Þau eru framtíðin og vaxtarskilyrði framtíðarinnar er mikilvægasta verkefni samtíðarinnar.