135. löggjafarþing — 96. fundur
 29. apríl 2008.
störf þingsins.

[13:31]
Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna grafalvarlegrar stöðu í efnahagsmálum. Við höfum nú í þessum sal hlýtt á þau orð ríkisstjórnarinnar og stjórnarliða að verið sé að undirbúa aðgerðir og verið sé að ræða hvað skuli gert og reyndar nú upp á síðkastið mjög dularfullar yfirlýsingar, vil ég segja, um að ekki sé hægt að upplýsa frá degi til dags hvað sé í undirbúningi. En þjóðin bíður, hún bíður þess að eitthvað verði gert og þess vegna má kannski segja að mjór sé mikils vísir þegar nú hafa loksins birst efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar, en mér þykir það frekar bera vott um eitthvert undarlegt skopskyn þegar boðað er að heilum 4 millj. kr. eigi að verja til að stemma stigu við verðbólgu í landinu.

Er ríkisstjórn Íslands að gera at í efnahagsástandinu? Eða er það ætlan manna að 4 millj. kr. hafi raunveruleg áhrif á verðbólguþróunina sem er komin í tveggja stafa tölu og við stefnum hraðbyri inn í ástand sem verður æ verra að ráða við. Bæði við framsóknarmenn og raunar fleiri í stjórnarandstöðunni höfum margítrekað lagt fram tillögur í vetur um hvað hægt væri að gera í þessum málum. Við höfum talað fyrir því að unnið verði að þjóðarsátt. Sama hefur verkalýðshreyfingin gert og það eru alveg hreinar línur að það er hægt að stemma stigu við verðbólgunni. Við búum við sterkan ríkissjóð og það er í rauninni það eina sem við höfum heyrt frá hæstv. ríkisstjórn að hún eigi sterkan ríkissjóð — ég sakna þess nú að það er enginn úr ríkisstjórninni hér í dag — en það þarf að nota hann. (Forseti hringir.) Ég óska eftir svari við því hvort það sé eining um það algera aðgerðaleysi og þá 4 millj. kr. aðgerð sem nú er farið út í í efnahagsmálum.



[13:34]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður saknaði þess að ríkisstjórnin væri ekki viðstödd þessa umræðu (Gripið fram í.) og lítur svo á að 4 milljónir til að stemma stigu við verðhækkunum séu grín. Ég get fullvissað hv. þingmann um að ríkisstjórnin er ekki að fara að tillögu Framsóknarflokksins í efnahagsmálum, sem kom fram á þinginu í gær, um að hún segi af sér. Það er verið að vinna að allt öðrum hlutum.

Ég held að allir deili áhyggjum þingmannsins af þeirri þróun sem uppi er í íslensku samfélagi og efnahagslífi landsins sem birtist okkur mjög grimmilega þessa dagana. Við getum séð að hækkanir á verði erlends gjaldeyris hafa verið um 25% frá áramótum og óhjákvæmilega hlýtur það að koma fram á öllum sviðum þjóðlífsins, ekki síst í ljósi hækkana á erlendum aðföngum, svo sem olíu og matvöru. Engu að síður lít ég svo á að eftir góðæri undangenginna ára virðast einkum þrjú heimatilbúin atriði valda þeirri miklu spennu sem ríkir hér á landi og ég vil tiltaka þau sérstaklega. Það er mikill kaupmáttur fólks, lítið verðskyn og loks vil ég nefna skort á samkeppni í verslun. Þetta eru allt þættir sem vega inn í þessa umræðu og ber líka að taka til umræðu hér.

Varðandi þessa þrjá þætti held ég að hollt sé fyrir okkur að hugleiða hvernig verðlag hefur þróast, sérstaklega þegar gengi krónunnar var að styrkjast, og spyrja okkur að því hvernig málum muni reiða af þegar hún fer að styrkjast á ný. Það er óhjákvæmilegt að fljótt mun slá á einkaneyslu í samfélaginu og við hljótum að taka tillit til þess í fjárlagagerðinni fyrir komandi ár. Við höfum rætt það hér og ég veit að það var til umræðu í fjárlaganefnd fyrir stuttu síðan (Forseti hringir.) að bráðabirgðauppgjör fyrir fyrstu þrjá mánuðina gaf ekki tilefni til aðgerða en í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið nú í apríl er full ástæða til þess að fjárlaganefnd setjist niður.



[13:36]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég held að það skipti mjög miklu máli að unnið sé af trúverðugleika. Þess vegna tel ég að fjárlaganefnd eigi að taka fjárlög ársins upp og endurskoða þau miðað við breyttar forsendur. Í haust var gert ráð fyrir að verðbólga yrði 3,3% og það eru forsendur fjárlaga sem unnið var með við fjárlagagerðina. Í janúar var spáð af hálfu fjármálaráðuneytisins að verðbólgan yrði 4,3%, í apríl spáir fjármálaráðuneytið að verðbólgan sé 8,3% og nú er hún 11,8 eða tæplega 12%. Ein af grundvallarforsendum fjárlaga eru því brostnar og það sem verra er, fjármálaráðuneytið virðist vera einhvers staðar úti að aka.

Ef við lítum á gengi íslensku krónunnar þá var gert ráð fyrir því í forsendum fjárlaga að það yrði 119. Í janúar gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir að gengið fyrir árið 2008 verði 121. Í apríl gerir fjármálaráðuneytið ráð fyrir að gengi krónunnar verði 135. Núna er það í kringum 150. Grunnforsendur fjárlaga eru því brostnar og ríkisstjórnin virðist lifa í einhverjum veruleikafirrtum heimi. Ég tel að eitt brýnasta málið nú sé að koma ríkisstjórninni til veruleikans. Það má skipta um ríkisstjórn. Við höfum haft ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins í 17 ár og nú biður hún um biðlund, hún er að biðja um að sér sé sýnd biðlund og að leitað verði samskota meðal almennings til að rétta við fjárhaginn og stofna eitthvað sem heiti þjóðarsjóður, eftir 17 ára ríkisstjórnarferil Sjálfstæðisflokksins. (Forseti hringir.) Það er alveg hárrétt að skipta um ríkisstjórn en númer eitt er að vera með réttar tölur og vinna út frá réttum forsendum, herra forseti.



[13:38]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur setið að völdum í rétta 11 mánuði. Staðan í efnahagsmálum er þannig núna að verðbólgan síðustu 12 mánuði er 11,8% og hefur ekki verið hærri í 18 ár. Mestur hlutinn af þessari verðbólgu hefur komið til á síðustu mánuðum. Á síðustu þremur mánuðum hefur hækkunin verið 6,4% — 6,4% verðbólga á síðustu þremur mánuðum af 11,8% verðbólgu á síðustu 12 mánuðum og bara á síðasta eina mánuði er verðbólgan 3,4%. Það er alveg ljóst að nú eru komin þau vatnaskil að öll ábyrgð á stöðu efnahagsmála um þessar mundir er komin yfir á herðar núverandi ríkisstjórnar. Þessar tölur bera það með sér að vandinn hefur farið vaxandi eftir því sem ríkisstjórnin hefur setið lengur. Í stað þess að ný ríkisstjórn hefði átt að hafa stöðu til að koma stefnu sinni í framkvæmd, skynsamlegri stefnu sem hefði tekið á þeim tilefnum sem undirliggjandi voru og hefði við þessar aðstæður í dag átt að skila lágri verðbólgu ef ríkisstjórnin hefði haft skynsamleg efnahagsmarkmið og einhvern innri styrk til að fást við stjórn efnahagsmála hér á landi.

Það sem blasir við er að ríkisstjórnin er á öfugri leið. Hún flatrekur undan vindinum. Það er enginn skipstjóri um borð, virðulegi forseti, og hvar er áhöfnin sem á að róa með skipstjóranum? Það er það sem vantar, virðulegi forseti, bæði skipstjóra og áhöfn til að stjórna þjóðarskútunni í gegnum þá stöðu sem við ráðum að sumu leyti ekki við. (Gripið fram í: Hér situr hásetinn.) En hér situr einn háseti, virðulegi forseti, með hendur í vösum.



[13:41]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Sú staða sem komin er upp í efnahagslífi þjóðarinnar er afar alvarleg og við heyrðum hér eina nýja söguskýringu. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sagði að hér væri of mikill kaupmáttur, lítið verðskyn og lítil samkeppni. Þetta er alveg ný söguskýring á því efnahagsástandi sem við erum að upplifa. Hið rétta er að hér situr vanmáttug ríkisstjórn sem hefur ekkert gert, það er hægt að skrifa hluta af ástandinu á hana og hluta á erfiðar aðstæður erlendis, en mikill hluti skýringarinnar er framtaksleysi ríkisstjórnarflokkanna.

Hér var ríkisstjórninni líkt við skútu án skipstjóra og áhafnar. Ég vil leyfa mér að líkja ríkisstjórninni við strúta sem stinga höfðinu í sandinn. Þetta er ríkisstjórn sem hefur tekið upp sið strúta, að stinga höfðinu í sandinn og gera ekki neitt. Það er engin lína. Forsætisráðherra segir að það sé erfitt að bregðast við vandanum af því að hann komi utan frá. Það er ekki alveg rétt hjá honum, það er einungis hluti vandans. Hæstv. utanríkisráðherra segir að við eigum að grípa inn í málin og aðstoða bankana þannig að það eru gefin fyrirheit um að gripið verði til aðgerða og það ganga sögur um að talað hafi verið við norræna banka. Það kemur ekkert út úr því. Við vitum ekki hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Hún ætlar ekki að gera neitt, sýnist okkur. Hún kemur með 4 millj. í verðlagseftirlit. Það er allt of lítið, virðulegi forseti. Ég tel að það verði að gera eins og Seðlabankinn hefur svarað okkur framsóknarmönnum, við lögðum fram fyrirspurnir til Seðlabankans og þeir segja að fara verði yfir forsendur fjárlaga. Því neituðu formaður fjárlaganefndar og hæstv. fjármálaráðherra fyrir viku síðan en nú verður að fara í það. (Forseti hringir.) Ég skora á hv. þm. Kristján Þór Júlíusson að beita sér fyrir því að fjárlaganefnd verði kölluð saman hið fyrsta til að fara yfir forsendur fjárlaga sem eru algerlega brostnar.



[13:43]
Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa gert gys að 4 millj. sem á að verja í verðlagseftirlit. Það er nákvæmlega sá grunnur sem þarf að leggja og þó að þessi upphæð sé lág og táknræn undirstrikar hún hins vegar mjög mikilvæg sannindi og þau eru að verðbólgutölurnar sem við sjáum núna eru grafalvarlegar og þær eru aðför að hagsmunum heimila í landinu. Það er mjög mikilvægt að við snúum bökum saman og hefjum þjóðarátak í að vinna gegn þeirri sjálfvirku hrinu verðhækkana sem komin er í gang.

Fyrir fáeinum árum hafði Alþýðusamband Íslands forgöngu um að snúa til baka frá hengifluginu og kallaði til liðs við sig Samtök atvinnulífsins, stærstu fyrirtæki landsins og bankana, alla saman og sagði: Nú verðum við að snúa til baka. Og það tókst.

Vandinn núna er gríðarlegt alvöruleysi í samfélaginu yfir stöðunni eins og hún er orðin. Hagsmunir fólks og hagsmunir fyrirtækja eru í húfi og ástandið er orðið grafalvarlegt. Þess vegna hlýtur maður að kalla eftir því að fyrirtækin leggist nú á árarnar með Alþýðusambandinu og vinni að því að endurheimta stöðugleika í landinu, því að það má ekki verða seinna en strax. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin mun að sjálfsögðu taka þátt í þeirri vegferð. Hitt er svo aftur annað mál að við erum ekki gæfulaus þjóð og getum þakkað fyrir a.m.k. eina blessun við þessar erfiðu aðstæður og það er sú blessun að við höfum Framsóknarflokkinn ekki í ríkisstjórn (Gripið fram í.) vegna þess að við höfum séð hvaða tillögur hann hefur fram að færa í þessum málum sem eru þrjú álver og vaxtalækkun strax. Hvernig menn ætla að haga skynsamlegri efnahagsstefnu við þær aðstæður er auðvitað öllum skynsömum mönnum hulin ráðgáta. En þetta er uppskriftin sem Framsóknarflokkurinn býður upp á (Gripið fram í.) og það er mjög gott að við höfum ekki slíka brennuvarga í slökkviliðinu í dag. (Gripið fram í: En fjármálaráðherra?)



[13:45]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ræða hv. þm. Árna Páls Árnasonar hér á undan var athyglisverð. Hv. þingmaður kemur í ræðustól og kallar eftir ábyrgð fyrirtækjanna í samfélaginu á því ástandi sem nú er uppi í efnahagslífinu. Hvað sögðu þessi sömu fyrirtæki á haustmánuðum þegar ný ríkisstjórn var að myndast við að móta fjárlög ársins 2008? Slappið af, sýnið aðhald í ríkisfjármálum því að 20% hækkun á útgjaldaramma ríkissjóðs á árinu 2007–2008 gaf náttúrlega tóninum um að það yrði ekki stöðugleiki í íslensku samfélagi á árinu 2008. (Gripið fram í: … kosningar.) Með því að slá þann tón ber ríkisstjórnin ábyrgð á því hver staða efnahagsmála er í dag. Það er fullkomlega ábyrgðarlaust af hv. þm. Árna Páli Árnasyni að koma hér upp og kenna fólkinu í landinu eða fyrirtækjunum um þá stöðu sem er uppi. Ríkisstjórnin hefur sýnt fullkomið ábyrgðarleysi í þessum málaflokki. Og ég ætla að minna hv. þingmann á rauða kverið sem heitir Jafnvægi og framfarir , en það er rit sem Samfylkingin gaf út í aðdraganda síðustu kosninga.

Hvað hafa Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn sýnt á fyrsta ári sínu í meiri hluta á þingi? Algjört ábyrgðarleysi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Verðbólgan er nú hærri en hún hefur verið í 20 ár. Við erum með hæstu stýrivexti í heimi. Skuldir heimilanna eru að aukast og kaupmáttur almennings og kannski ekki síst aldraðra og öryrkja er að stórskerðast þessi missirin. Svo koma stjórnarliðar upp og segja að nú eigi almenningur og fyrirtækin að fara að sýna ábyrgð. Ja, þvílíkur málflutningur. Ríkisstjórnin er greinilega gjörsamlega stikkfrí ef marka má málflutning sjálfstæðismanna og samfylkingarmanna í þessari umræðu. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin ber ábyrgð á undirliggjandi óstöðugleika í samfélaginu. Við því varaði OECD, við því varaði Seðlabankinn. (Forseti hringir.) En það er engin áhöfn og engin skipstjóri á ríkisstjórnarfleyinu. Okkur rekur stjórnlaust.



[13:47]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Verðbólgumæling Hagstofunnar á síðustu dögum hefur sýnt fram á að gengisfall krónunnar hefur farið hraðar í gegn en menn áttu von á. Engar greiningardeildir, fjármálaráðuneytið eða aðrir áttu von á að þetta gengi svona hratt. Þetta segir mér að samkeppni hér á landi er ekki nægilega mikil og að menn taka ekki nægilega mikið tillit til innlends kostnaðar þegar þeir meta verðlag. Þetta ástand er mjög alvarlegt fyrir heimilin, fyrir kjarasamningana og fyrir fyrirtækin í landinu.

Krónan hefur reyndar styrkst síðan þessi mæling fór fram og nú búast allir við að þetta gangi hratt til baka og að við munum jafnvel upplifa verðhjöðnun ef krónan styrkist nægilega mikið. En ég tek undir að aðalvandinn er skortur á samkeppni og skortur á verðskyni. Svo er spurning hvort verðlag fari eins hratt niður og það fór upp. Það er nokkuð sem menn hafa tekið eftir að er ekki alltaf samræmi í.

Hvað veldur því að ég trúi því að krónan muni styrkjast? Það er gífurlegur útflutningur og aukning í útflutningi á áli sem kemur einmitt til núna þessa dagana. Það er mjög sterkur útflutningur á sjávarafurðum og verð á sjávarafurðum hefur hækkað mjög mikið erlendis. Það eru mjög sterkar útflutningsgreinar sem standa undir sterkri krónu og þess vegna mun krónan ekki falla meira. Ég geri ráð fyrir að hún styrkist frekar og endi í gengisvísitölunni 140 og jafnvel neðar.

Staða okkar er mjög góð til að mæta þessum áföllum. Hér er lítið atvinnuleysi og ríkissjóður er skuldlaus. Það er framlag ríkissjóðs til stöðugleika að hann hefur verið rekinn með afgangi í fjölda ára.



[13:50]
Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Síðastliðið haust flutti ég ræðu þar sem ég furðaði mig á áhuga- og stefnuleysi sjálfstæðismanna í efnahagsmálum. Svo virtist sem þjóðarskútan sigldi áfram stefnulaust og ekki væri ljóst hvert ný ríkisstjórn væri að fara. Nú liggur það ljóst fyrir. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að gera ekki neitt sýnir algjört aðgerðaleysi og beinir þjóðarskútunni beint í klettana þrátt fyrir að allar viðvörunarbjöllur glymji. Verðbólgan mælist nú 11,8% sem er það hæsta sem hún hefur mælst frá því í október 1990. Það er met. Nú er líka komið á daginn að óráðsía nýrrar ríkisstjórnar í fjárlögum reyndist, eins og við framsóknarmenn bentum á, olía á verðbólgueldinn.

Ég furða mig á ummælum hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar, sem gerði grín að þessum tillögum okkar framsóknarmanna í haust, að hann komi núna fram með tillögur þess efnis að það eigi að taka þetta inn í fjárlagagerð næsta árs. Allar upplýsingar lágu fyrir við fjárlagagerð síðasta árs og það hefði hæglega verið hægt að taka þetta upp þá. Þá stæðum við ekki frammi fyrir þeim vanda sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir í dag.

Ég furða mig líka á ummælum hv. þm. Árna Páls Árnasonar sem sagði áðan að það væri gríðarlegt alvöruleysi í samfélaginu yfir þeirri stöðu sem blasir við núna. Hvað með alvöruleysi ríkisstjórnarinnar? Hún gerir ekki neitt. Mikill meiri hluti stjórnarmeirihlutans situr. Þetta eru kannski samræðustjórnmálin, að tala um hlutina en aðhafast ekki neitt. (Gripið fram í: Þrjú álver, er það lausnin?)



[13:52]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að full ástæða sé til að taka undir það að verðbólgumælingarnar sem við urðum vitni að að fá upp á borðið í gær eru mjög alvarlegar og það taka allir þær mjög alvarlega.

Það er hins vegar athyglisvert í þessari umræðu sem stjórnarandstaðan efnir til að hún leggur ekkert inn í umræðuna. (Gripið fram í.) Hún segir jafnvel að hún hafi séð fyrir hrávöruverðshækkanir, matvöruverðshækkanir, olíuverðshækkanir, hrun á krónunni o.s.frv. Jafnvel hv. þm. Jón Bjarnason fer yfir það að fjármálaráðuneytið hafi ekki spáð nákvæmlega fyrir um hver gengisvísitalan yrði á hverjum degi.

Það er einfaldlega þannig með spádóma að menn vinna með þær forsendur sem eru til staðar hverju sinni. Það sá enginn fyrir að þetta mundi gerast á þann hátt sem það gerði í mars og við höfum síðan orðið vör við að hefur komið fram í verðlaginu og hækkun á verðbólgu. Þetta liggur alveg klárt fyrir.

Það er líka athyglisvert á að hlýða hvernig Framsóknarflokkurinn hefur fundið nýjan guð í Seðlabankanum. Það er mjög athyglisverð lína sem nú er komin upp. Seðlabankinn hefur fyrst og fremst talað um að vinna á verðbólguvæntingum og jafnvel vísað til þess að seðlabanki Bandaríkjanna hafi gert það upp úr 1980. Seðlabanki Bandaríkjanna bjó við allt aðrar aðstæður. Það var lokað hagkerfi með stórri mynt. Seðlabanki Íslands berst við einn þriðja eða þar um bil af þeirri mynt sem er hér í umferð í minnsta hagkerfi í heimi. (Gripið fram í.) Þetta er ekki sambærilegt og þetta er því mjög athyglisverð umræða.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin vinnur af fullum krafti í þessum málum og mun halda því áfram. Hún mun hins vegar halda ró sinni, hún mun ekki fara á taugum eins og mér virðist vera lína stjórnarandstöðunnar í (Forseti hringir.) þessu máli. En það væri líka fróðlegt af því að stjórnarandstaðan efnir til þessarar umræðu að fá þó ekki væri nema eitt sjónarmið um það hvernig á að bregðast við núna. Það gæti verið innlegg.



[13:54]
Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Þessi umræða er með miklum ólíkindum þar sem þingmenn Samfylkingarinnar virðast helst hafa sér til dundurs að telja álver líkt og þeir sem verða andvaka telja kindur. En hér hafa nú ekki aðrir staðið að álvæðingu en Samfylkingin á síðustu missirum. Það skiptir miklu máli að við tölum um þetta af alvöru. Þegar því er haldið fram að stjórnarandstaðan hafi ekki lagt fram tillögur í efnahagsmálum þá helgast það af því sama og að stjórnarliðum kom algjörlega í opna skjöldu á útmánuðum að það væri efnahagskreppa á heimsvísu. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson segir: Þingmenn stjórnarandstöðunnar þykjast hafa séð þetta fyrir. Þingmenn stjórnarandstöðunnar lásu einfaldlega blöðin, það stóð einfaldlega í öllum blöðum: Hrávöruverð mun hækka, hlutabréf munu fara niður. Þetta vissu allir. Og allur sá leikaraskapur sem leikinn hefur verið af stjórnarmeirihlutanum að láta eins og efnahagskreppan sem nú ríður yfir hafi komið að óvörum (Gripið fram í.) og sé algjörlega óvænt tíðindi er barnaskapur og í rauninni móðgun við þjóðina sem á það undir og hefur treyst þessari stjórn til að fara með stjórn efnahagsmála. Hún hefur algjörlega brugðist því trausti. (Gripið fram í: Af hverju ert þú ekki alþjóðlegur fjármálaráðgjafi?)

Hv. þingmaður hefur það eitt til málanna að leggja að hún spyr hví ég sé ekki alþjóðlegur fjármálaráðgjafi. Þetta lýsir mjög alvöruleysi málsins að það er aldrei hægt að ræða um hlutina hér án þess að vera í skítkasti. Við höfum lagt fram tillögur um það hvernig bregðast megi við í efnahagsmálum og það er miklu meira en þessi ríkisstjórn hefur gert og stjórnarmeirihlutinn.

Nú þegar efnahagskreppan er komin í þær hæðir að verðbólgan er komin í tveggja stafa tölu og ekkert lát þar á þá talar hv. þm. Árni Páll Árnason um að alvaran í (Forseti hringir.) samfélaginu þurfi að vera meiri. Hver á að leiða aðila vinnumarkaðarins saman? Hver á að leiða þjóðina til þess að grípa til ráðstafana ef ekki ríkisstjórn (Forseti hringir.) Íslands?



[13:56]
Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Sú umræðu sem hér hefur farið fram er dálítið sérstök og einkennist af því að stjórnarliðar verja að sjálfsögðu sitt lið og svo sækir stjórnarandstaðan á.

Ég ætla að brydda aðeins upp á þeim tillögum sem bornar voru upp af talsmanni fjárlaganefndar í aðdraganda þess að við samþykktum fjárlögin. Þær voru tvær. Annars vegar að draga saman í samgöngumálum og hins vegar að hætta við bætur á kjörum lífeyrisþega. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Þessar tillögur talsmanns Framsóknarflokksins í fjárlagagerðinni (Gripið fram í: … eins og allir sjálfstæðismenn …) hlutu að því ég best veit ekki miklar og góðar viðtökur innan þingflokks Framsóknarflokksins. Það getur vel verið að óeiningin þar stafi af því að þeir hafi ekki lesið blöðin nægilega vel. Dettur mönnum í hug að einhver trúi því að hægt sé að stýra fjármálum íslenska ríkisins með dagblaðalestri? Hvaða ábyrgðarleysi er þetta?

Að sjálfsögðu get ég tekið undir það sem hér hefur komið fram að við eigum og þurfum að efla vöxt í landinu með því stuðla að því að framleiðsluatvinnuvegirnir blómstri og gefi eitthvað af sér. Menn hafa notað hér líkingar við sjómennsku. Ég veit ekki til þess að margir hv. þingmenn hafi migið í saltan sjó. (Gripið fram í: Jæja?) Enda kemur það fram … ekki margir, fyrirgefðu, hv. þingmaður. (Iðnrh.: Ég hef gert það.) Hæstv. iðnaðarráðherra tilkynnir hér hátíðlega að hann hafi gert það og skal þakkað fyrir það. En í málflutningi þeirra sem taka samlíkinguna af sjónum kemur fram að þeir hafa ekki hugmynd um um hvað þeir eru að ræða. Þeir bera þá líkingu upp með mjög misjöfnum hætti eins og þeir koma fram í umræðu um efnahagsmál landsins. Hún einkennist af þeirri ókyrrð og þeim óstöðugleika sem er vissulega nú um stundir. Til þess að taka á honum þurfa allir að leggjast á eitt með að vinna sig út úr þeim vanda.



[13:59]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er nokkuð óþægilegt að rjúfa þessa umræðu núna og fara í allt annað mál þegar svo stutt er eftir af tímanum sem við höfum í þennan dagskrárlið.

Ég vildi fá að spyrja hv. formann félagsmálanefndar, Guðbjart Hannesson, um stefnu ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega Samfylkingarinnar varðandi verndaða vinnustaði eða vinnuumhverfi geðfatlaðra og þeirra sem þurfa á stuðningi að halda hvað varðar atvinnu. Ég veit að ýmislegt er í boði í dag sem ekki var fyrir nokkrum árum og var ekki í boði þegar Bergiðjan, starfsendurhæfingardeild Landspítalans, áður starfsendurhæfingarstöð Kleppsspítalans, var sett á laggirnar. En eftir sem áður stendur að 1. maí næstkomandi, eftir tvo daga, verður þessari starfsemi lokað og endurhæfing geðdeildar Landspítalans mun alfarið verða þar innan húss. Þarna vinna einstaklingar sem eiga mjög erfitt með að fara út á hinn almenna vinnumarkað þrátt fyrir að það sé með stuðningi. Það verða því miður alltaf til einstaklingar sem ekki geta verið úti á hinum almenna vinnumarkaði með stuðningi þó að góður vilji sé fyrir hendi

Því vil ég spyrja hv. formann félagsmálanefndar hvort hann og flokkur hans hafi skoðað þá stöðu (Forseti hringir.) sem upp er komin við lokun Bergiðjunnar, starfsendurhæfingardeildar Landspítalans.



[14:01]
Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Spurt er almennt um stefnu Samfylkingarinnar, sem ég hélt að Vinstri grænir þekktu manna best. Það hefur verið í stefnuskrá hjá okkur, og ég ítreka að Samfylkingin er stofnuð um það, að berjast fyrir jafnrétti og mannréttindum. Þar er sérstaklega talað um að tryggja réttindi fatlaðra þannig að þeir búi við sambærileg lífskjör og aðrir þjóðfélagsþegnar. Sú er stefnan í hnotskurn og markmiðið hlýtur því ávallt að vera að búa þannig um hnútana að fatlaðir búi við sem allra bestu starfsskilyrði þannig að þeir geti verið á almennum vinnumarkaði og eftir atvikum tekið þátt í alls kyns atvinnuhæfingu og fjöliðju eða unnið á vernduðum vinnustað eins og fyrirspyrjandi kallaði það.

Með nýrri ríkisstjórn og nýjum ráðherra í félags- og tryggingamálaráðuneyti hafa mörg verkefni varðandi atvinnumál fatlaðra verið sett á dagskrá einmitt með þetta að leiðarljósi. Þess má geta að unnið er að því að færa atvinnumál fatlaðra undir Vinnumálastofnun, sem er í samræmi við lög um vinnumarkaðsaðgerðir sem voru samþykkt 2006. Stefnt er að þeirri yfirfærslu í haust og þó að það dragist hugsanlega eitthvað er hugmyndafræðin þar algjörlega skýr. Það er verið að styrkja endurhæfingarþáttinn hjá Vinnumálastofnun þannig að fatlaðir eigi aðgengi að vinnumarkaðnum og þeim úrræðum sem þar eru. Þessu samhliða getum við nefnt Straumhvarfaátakið en það er sérstakt aðstoðarverkefni sem á að auðvelda geðfötluðum að komast út á vinnumarkaðinn og Hugarafl hefur einnig verið að vinna öflug sérhæfð verkefni í samstarfi við ráðuneytið.

Bergiðjan er á forræði Landspítalans og ákvarðanir um það hvernig málum er hagað varðandi endurhæfingu eru teknar af þeim, og sérstaklega þá af geðdeildinni þar, og eru í samræmi við nýjar hugmyndir um það hvernig haga skuli málefnum fatlaðra. Þessi mál eiga að vera áfram í skoðun, þau hafa ekki verið (Forseti hringir.) tekin sérstaklega fyrir í félagsmálanefnd (Forseti hringir.) en að sjálfsögðu fylgjumst við með. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að reyna að búa fötluðum (Forseti hringir.) öflug atvinnuúrræði jafnt og öðrum þegnum landsins.



[14:03]
Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Nýjar stefnur eru uppi í málefnum fatlaðra og vönduð stefna hefur verið mótuð í félagsmálaráðuneytinu í málefnum geðfatlaðra. Mig langar að minna á að geðfatlaðir eru einn af fáum hópum fatlaðra sem getur náð bata. Verið er að hverfa frá vernduðum vinnustöðum, talið er að það sé úrelt form og Bergiðjan er að verða liðin tíð. Nú er lögð áhersla á að geðfatlaðir fari út á almennan vinnumarkað, fái þar störf við hæfi og stuðning eftir þörfum eins og lög gera ráð fyrir. Endurhæfing þeirra fer þá fram í samfélaginu.

Mig langar að minna á Straumhvarfaverkefnið, sem er átaksverkefni í málefnum geðfatlaðra og er kostað af símapeningunum að hluta til, en þar er ég formaður verkefnisstjórnar. Þar hefur verið stutt verulega við ýmis fjölbreytt verkefni sem auðvelda geðfötluðum að komast út á vinnumarkaðinn. Mig langar að minna á verkefnið „Notandi spyr notanda“ þar sem geðfatlaðir spyrja aðra notendur þjónustunnar hvernig þeim líki þjónustan o.s.frv. Ég hef séð ótrúlegar framfarir í heilbrigði hjá þeim einstaklingum sem hafa starfað að þessum verkefnum.

Ég vil minna á Múlalund. Þar hefur verið stutt við verkefni sem styður þennan hóp fatlaðra út í samfélagið að nýju, út á vinnumarkaðinn. Fyrirtæki hafa lagt drjúgan skerf, ég vil minna á matvörukeðjurnar, sparisjóðinn og ýmis stórfyrirtæki. Þessi leið, að fá sína endurhæfingu úti í samfélaginu, hefur skilað ótrúlegum árangri og fjölmargir hafa náð góðum tökum á lífi sínu og jafnvel þó nokkrum bata. Þeir hafa (Forseti hringir.) þannig getað lagt sitt af mörkum til samfélagsins.