140. löggjafarþing — 51. fundur
 31. janúar 2012.
störf þingsins.

[13:31]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og þingheimi er kunnugt verður lögð fram í vikunni þingsályktunartillaga frá fjölda þingmanna um rannsókn á einkavæðingu bankanna frá árinu 1998–2003. Nokkur umræða hefur spunnist á milli þingmanna hvort rannsaka eigi sömuleiðis það ferli sem fór í gang þegar erlendir kröfuhafar sömdu við ríkið um endurreisn gjaldþrota fyrirtækja. Ég vildi hafa sagt það í þessum sal að þrátt fyrir að um tvo eðlisólíka ferla sé um að ræða sé ég ekkert því til fyrirstöðu að hvort tveggja verði skoðað í hörgul.

Í seinna tilvikinu var ekki um að ræða eiginlega einkavæðingu heldur endurreisn gjaldþrota fyrirtækja sem voru í raun í eigu kröfuhafa og að því leytinu til var þar fyrst og fremst um samning að ræða til að koma bönkunum í gang á nýjan leik.

Núverandi stjórnvöld hafa ekkert að fela hvað þetta ferli snertir og þess vegna er ekki hægt annað en að hvetja til að þetta verði íhugað og skoðað ef áhugi er til þess meðal þingheims. Núverandi stjórnvöld geta í raun og veru verið stolt af þessu ferli því að margt jákvætt hefur komið út úr þessum samningum. Ríkið losaði sig ekki bara undan því að þurfa að leggja fram um 200 milljarða kr. til að endurreisa föllnu bankana með tilheyrandi vaxtakostnaði heldur hefur til dæmis ekki síður komið í ljós, í þeirri skýrslu sem Hagfræðistofnun tók saman fyrir Hagsmunasamtök heimilanna og ríkisstjórnina, að með því að haga málum með þessum hætti tókst að auka svigrúm eða aðstoð við skuldug heimili um 50 milljarða kr. Hinir föllnu bankar aðstoðuðu skuldug heimili fyrir um 50 milljörðum kr. meira en það svigrúm sem þeir höfðu bar með sér.

Ég vildi bara árétta þetta, virðulegi forseti. Ég tel að ef áhugi er á því hjá þingheimi þá eigi sömuleiðis að skoða þessi mál enda tel ég að þar sé ekkert að fela.



[13:33]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég bað um orðið til að eiga orðastað við hv. þm. Magnús Orra um tolla og vörugjöld en ég ætla samt ekki að láta hjá líða tækifærið og taka undir …

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmann til að nefna þingmenn fullu nafni.)

Já, hv. þm. Magnús Orra Schram, ég vil ræða við hann um tolla og vörugjöld en ég vil ekki láta þetta tækifæri hjá líða og vil taka undir með hv. þingmanni að ef menn vilja rannsaka einkavæðinguna á sínum tíma þá á að gera það, ég styð það. Ég held að það væri gott ef farið yrði í gegnum þá einkavæðingu og ég held að menn eigi ekkert að vera hræddir við það, hvar í flokki sem menn standa. Ég fagna því sérstaklega að núna loksins eru stjórnarliðar tilbúnir til að fara í könnun á hinni nýjustu einkavæðingu því að upplýsingum hefur ekki verið miðlað til þingmanna þegar þeir hafa spurt um hana. Það er ágætt að menn séu komnir á aðra skoðun.

En ég vil aðeins fara yfir tolla- og vörugjöldin. Það liggur ljóst fyrir að breyta þarf því umhverfi, það er steinrunnið. Á síðasta ári kom í ljós, meðal annars við ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á toll- og innflutningskvótum byggða á GATT-samningnum, hversu úrelt þetta kerfi er og hvernig þeim innflutningi er háttað eftir geðþótta ráðherra. Fyrir utan það að miðað er við neyslu Íslendinga á árinu 1986–1988 á landbúnaðarvörum og allir sjá og vita að sú neysla hefur náttúrlega gerbreyst.

Ég vil því spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram hvort hann sé ekki sammála mér í því að nýta núna tækifærið, meðal annars í ljósi þess að nú er kominn fjármálaráðherra frá Samfylkingunni sem hefur væntanlega aðrar áherslur en Vinstri grænir því þeir hafa sagt lok, lok og læs á allar breytingar á búvörulögum og allar breytingar á tolla- og innflutningsgjöldum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því að nauðsynlegt sé, meðal annars til að tryggja hagsmuni neytenda, að fara í heildarendurskoðun á tolla- og innflutningslöggjöf landsins.



[13:35]
Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni vegna þess að mín skoðun er sú að vörugjaldakerfið þarfnist verulegrar endurskoðunar. Álagning innan þess byggist í mörgum tilvikum á afar veikum og handahófskenndum grunni.

Það er mikilvægt að skattkerfið sé einfalt, hlutlaust, gagnsætt og skilvirkt, enda er sá háttur til þess fallinn að stuðla að heilbrigðri samkeppni og bæta verðskyn neytenda.

Margt er skrýtið í vörugjaldaheimi. Til dæmis hefur verið bent á það að brauðristar bera ekki vörugjald en samlokugrill bera 20% vörugjald. Það skiptir sem sagt máli hvort brauðið sé ristað lóðrétt eða lárétt. Þá er vörugjald á vöfflujárnum en ekki á pönnukökupönnum. Kaffivélar bera ekki vörugjald en hraðsuðukönnur bera vörugjald upp á 25%. Það er sem sagt dýrara fyrir neytendur að drekka te en kaffi. (Gripið fram í.)

Ég tel, virðulegi forseti, að þetta kerfi þurfi að endurskoða algerlega frá grunni (Gripið fram í.) og ég hef til þess væntingar að fjármálaráðherra Samfylkingarinnar muni ráðast í þær breytingar. (Gripið fram í.) Ef það tekst ekki í þessu áhlaupi, vonast ég til að það takist í næsta áhlaupi. (Gripið fram í.)

Skýrar og gildar forsendur verða að liggja að baki þegar ráðist er í skattlagningu og/eða vörugjöld. Ég tel að þær forsendur sem liggja að baki núverandi skipan vörugjalda séu ekki skýrar né gildar. Það er mikilvægt að skattar, tollar og gjöld séu skiljanleg neytendum og þeir átti sig á því af hverju hlutirnir eru skattaðir eða á þeim eru vörugjöld. Eins og ég hef áður rakið er vörugjaldaheimurinn frumskógur sem erfitt er að rata um og gengur ekki upp, það er í raun og veru engin lógík í vörugjöldum eins og þeim er háttað hjá okkur í dag. (Gripið fram í.)



[13:37]
Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég vil gera skuldastöðu heimilanna að umræðuefni. Nokkrir dagar eru síðan Hagfræðistofnun Háskóla Íslands lagði fram skýrslu sína um möguleika bankakerfisins til að skrifa niður skuldir almennings.

Frú forseti. Ég tel að hér sé byrjað á röngum enda. Fyrsta spurningin sem við eigum að spyrja er: Hvert er skuldaþol heimilanna? Þegar þeirri spurningu hefur verið svarað, þarf að svara því hvað hægt er að gera. Með því að byrja að spyrja sig að því hversu mikið bankarnir geta skrifað niður eru menn í raun og veru að segja eftirfarandi: Fyrst er skjaldborgin um bankana og síðan um heimilin. Okkur vantar betri upplýsingar og nákvæmari um hver staða heimilanna er hvað varðar skuldaþol þeirra. Ef við náum ekki betri árangri í þessu, frú forseti, munum við ekki ná neinni sátt í samfélagi okkar. Það er engin spurning í mínum huga að það fyrirkomulag sem nú er á þessum málum og sú tortryggni sem uppi er, er stórkostlegt vandamál en vandamálið verður enn stærra þegar horft er fram á við, ef íslensk heimili eru orðin svo skuldum vafin að þau nái sér ekki upp þannig að neysla þeirra verði eðlileg og almenningur geti lifað eðlilegu lífi.

Fyrsta spurning er, frú forseti: Hvert er skuldaþol heimilanna? Næsta spurning er: Hver er geta bankanna til að skrifa niður skuldir og hvað kostar það? Þannig verður að nálgast vandamálið. Þetta er spurning um skjaldborg heimilanna eða skjaldborg bankanna, skjaldborg fólksins eða skjaldborg fjármagnsins. Nú stendur þannig á að svara þarf þessari spurningu miklu betur en gert hefur verið. Núverandi ástand, frú forseti, er óþolandi.



[13:39]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst koma því á framfæri vegna umræðu um rannsókn á einkavæðingu bankanna að þingflokkur framsóknarmanna flutti tillögu um að rannsaka einkavæðinguna og einnig síðari einkavæðingu líka ásamt fleiru. Við munum að sjálfsögðu endurflytja þá tillögu því að við viljum láta rannsaka þetta ferli allt saman, allt ferlið frá A til Ö fram á daginn í dag, fram á þessa mínútu og það skal verða gert.

Varðandi skuldir heimilanna sem hv. þm. Illugi Gunnarsson kom inn á, má ekki gleyma því að við fengum í þingið fyrir nokkru síðan skýrslu fjármálaráðherra þar sem staðfest var að ríkisstjórnin sló skjaldborg um bankana en ekki heimilin. Ég velti fyrir mér, frú forseti: Hvernig stendur á því að hæstv. forsætisráðherra, sem hefur líklega talað manna mest um afnám verðtryggingar, hefur haft tækifæri til í ríkisstjórn í þrjú ár að gera eitthvað í því en hefur ekkert gert? Hins vegar koma þingmenn Samfylkingarinnar hingað upp og tala um að ekki sé hægt að afnema verðtrygginguna nema með því að skipta um gjaldmiðil. Getur það verið, frú forseti, að það sé nýtilkomið að skipta þurfi um gjaldmiðil til að afnema verðtrygginguna? Hvernig stendur á því að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki fyrr eða í fyrri ræðum nefnt það sem eina af forsendum fyrir því að afnema hana?

Frú forseti. Annað vekur athygli mína. Nefnd um endurskoðun á peningastefnu og gjaldmiðlamálum hefur ekki enn komið saman. Nefndin hefur ekki komið saman. Búið er að kalla saman nefndina um gjaldeyrishöftin en hin hefur ekki tekið til starfa. Því hlýt ég að velta því fyrir mér, frú forseti, hvort það geti verið að það þjóni hagsmunum ríkisstjórnarinnar að kalla ekki saman þessa nefnd og halda því á lofti að verðtrygging verði eingöngu afnumin með því að ganga í Evrópusambandið og skipta um gjaldmiðil. Getur verið, frú forseti, að ríkisstjórnin sé einfaldlega að láta heimilin í landinu kveljast í verðtryggingunni þangað til markmiðum með Evrópusambandið og evru er náð? Við hljótum að spyrja því að rökin fyrir þessu eru algerlega fáránleg og ekki til staðar.



[13:42]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Allir eru sammála um að fjárfesting í íslensku atvinnulífi er eitthvert brýnasta verkefni sem við þurfum að koma í gang til að hér fari af stað alvöruefnahagsbati. Mig langar að draga stuttlega upp þá alvarlegu mynd sem við stöndum frammi fyrir í því máli.

Í dag er staðan þannig að sjávarútvegurinn sem hefur haldið hjólunum gangandi í íslensku samfélagi á undanförnum árum horfir upp á lækkun á verðum á mörkuðum. Það eru miklar breytingar að verða á helstu markaðssvæðum okkar og mjög alvarlegir hlutir að gerast. Birgðir hjá kaupendum okkar eru að dragast mjög saman, birgðir eru að aukast hér á landi á móti. Þetta er að gerast á helstu saltfiskmörkuðum okkar og reyndar miklu víðar. Á sama tíma og þessi alvarlega staða blasir við sjávarútveginum og þær hugsanlegu breytingar sem því fylgja, ætlar hæstv. ríkisstjórn að leggja stórauknar álögur á sjávarútveginn á hausti komanda þegar fara á með veiðigjaldið upp í 9,1 milljarð. Þetta þýðir einfaldlega, virðulegi forseti, að sú fjárfesting sem við höfum beðið eftir í sjávarútvegi fer ekki af stað.

Á sama tíma er nauðsynlegt til að hér verði alvöruefnahagsbati að komið verði af stað fjárfestingu í orkufrekum iðnaði. Þar stöndum við frammi fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir eru ekki einhuga varðandi rammaáætlun og nú eru að verða tafir á því að rammaáætlun verði lögð fram í þinginu. Taka hefði þurft ákvarðanir á þessum vettvangi á síðasta ári til að þeirra hefði gætt í efnahagslífinu á þessu ári. Það gerðist ekki og í raun afgreiddu Vinstri grænir það mál á fundi sínum síðastliðið haust þar sem þeir buðu ekki upp á neina málamiðlun í þessum efnum.

Nú er að kristallast, virðulegi forseti, að síðastliðin þrjú ár hafa verið ár hinna glötuðu tækifæra að þessu leyti. Sjávarútvegi hefur verið haldið algerlega í kreppu, engin fjárfesting verið í greininni svo munar um og hið sama hefur átt við um orkufrekan iðnað. Nú stöndum við frammi fyrir því að miklar breytingar eru að verða í helstu viðskiptalöndum okkar, (Forseti hringir.) þar þrengir að. Ástandið er mjög alvarlegt, virðulegi forseti, miklu alvarlegra en ég held að margir geri sér grein fyrir og við þetta verður ekki búið lengur.



[13:44]
Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil á sama hátt og hv. þm. Jón Gunnarsson fjalla um fjárfestingar í samfélagi okkar en út frá öðrum forsendum.

Þannig er mál með vexti að við samþykktum í þinginu árið 2010 ný lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi og fórum þar út úr því fyrirkomulagi sem hafði tíðkast um áratugaskeið að klæðskerasauma fjárfestingarsamninga utan um einstök verkefni. Núna höfum við almenna rammalöggjöf með skýrum leikreglum um almennar ívilnanir sem öllum standa til boða sem uppfylla tiltekin skilyrði. Síðan hafa fjórir fjárfestingarsamningar verið gerðir á þessu rúma ári sem liðið er; um gagnaver í Reykjanesbæ, aflþynnuverksmiðju í Eyjafirði, kísilmálmverksmiðju sem vonandi verður staðsett fyrir norðan, og kísilver í Helguvík. Áætlað verðmæti þessara verkefna er 130 milljarðar. Þau munu skila 430 framtíðarstörfum og að auki 400 ársverkum á framkvæmdatíma.

Það ánægjulega er að þessu til viðbótar liggja nú fyrir tíu umsóknir um slíka fjárfestingarsamninga. Fjölbreytni þeirra verkefna er sérstaklega mikil. Það má nefna sem dæmi verksmiðju sem endurvinnur úrgang, einkum timbur og plast, vatnsátöppunarverksmiðju á Vesturlandi, fræðslu- og skemmtigarð í Reykjavík sem nýtir norræna goðafræði, álkaplaverksmiðju fyrir austan, stækkun aflþynnuverksmiðjunnar á Norðurlandi, stálendurvinnslu á Vesturlandi, fiskeldi á Suðurnesjum og síðast en ekki síst ferðaþjónustuverkefni sem hefur mikið verið í umræðunni og snýst um uppbyggingu á Grímsstöðum á Fjöllum og í Reykjavík. Það mál er nú komið í farveg sem er mun líklegri til að skila farsælli niðurstöðu en sú leið sem reynd var um daginn. Hún felur ekki sér kaup á landi heldur leigusamning sem á sér mörg fordæmi hér á landi á undanförnum árum og áratugum.

Þessar umsóknir eru mislangt á veg komnar. Við getum ekkert gefið okkur um niðurstöðuna en umfang verkefnanna er upp á tæpa 70 milljarða kr. og þau mundu leiða til þess að rúmlega 1.300 ný störf yrðu til í landinu og (Forseti hringir.) allt að 1.400 ársverk til viðbótar á framkvæmdatímanum. Það er prýðilega margt í kortunum varðandi fjárfestingar og fjölbreytnin miklu meiri en við höfum séð í fjárfestingum erlendra aðila á undanförnum áratugum.



[13:46]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því þegar menn koma hér upp í löngum röðum, hv. stjórnarþingmenn, og segja að það sé sjálfsagt að rannsaka einkavæðinguna hina síðari. Það er ofsalega góð hugmynd að byrja þá rannsókn á að svara fyrirspurnum sem framkvæmdarvaldinu er skylt að gera. Ég vil enn og aftur minna á að ég bað um hluthafasamkomulagið milli gömlu og nýju bankanna. Ég efast ekki um að núna muni hv. þingmenn, sem baða sig í ljósi fjölmiðlanna út af sannleiksást, virkilega leggja sig alla fram við að sjá til þess að þeir fái þessar sjálfsögðu og eðlilegu upplýsingar. Ég bíð spenntur eftir að þeir komi hlaupandi með þessar sjálfsögðu upplýsingar, ég tala nú ekki um svör við fyrirspurn í tengslum við Byr, SpKef og annað þess háttar. En þessi einkavæðing sem menn vildu og vilja, og er sjálfsagt að skoða, sem var fyrir áratug, er aðeins brot af því sem hefur verið í gangi í dag.

Virðulegi forseti. Ég vona líka að hv. stjórnarþingmenn átti sig á ákveðnum staðreyndum. Núna eru 26.096 á vanskilaskrá. Fólk fer ekki á vanskilaskrá nema það hafi lent í mjög miklum vanskilum. Fjölgunin á tímabili ríkisstjórnarinnar er 11.648. Þetta segir mér að við þurfum að skoða skuldamál heimilanna. Það segir mér líka að við þurfum að skoða skuldamál heimilanna þegar atvinnuþátttaka hefur aldrei mælst minni. Og fólksflóttinn hefur (Forseti hringir.) aldrei mælst meiri. Ég vona að við náum samstöðu um að fara í þessi mál en afgreiða þetta ekki út af borðinu eins og hæstv. forsætisráðherra hefur (Forseti hringir.) enn og aftur reynt að gera.



[13:49]
Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er dæmalaust að hlusta á stjórnarliða hér í dag. Ég verð aðeins að koma hér að orðum hv. þm. Magnúsar Orra Schrams sem talaði áðan og minna hv. þingmann á að Samfylkingin hefur nú þegar setið tæp fimm ár í ríkisstjórn, og svo kemur hv. þingmaður hér upp og talar eins og það sé allt öðrum að kenna að hér sé flókið skattkerfi. Þessi þingmaður situr í ríkisstjórn fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, sem samkvæmt nýjustu tölum hefur staðið fyrir því að breyta skattalögum 170 sinnum. Hvernig geta þingmenn ríkisstjórnarinnar komið hér fram og talað fyrir einfaldara skattkerfi? Jú, þeir tala fyrir einfaldara skattkerfi og tollakerfi í IPA-málinu svokallaða því að nú á að taka upp á Íslandi vegna ESB-umsóknarinnar og IPA-styrkjanna algjört tolla- og skattfrelsi fyrir þá aðila sem koma til að vinna hér í gegnum Evrópusambandið og framfylgja því og uppfylla það að eyða þessum 5 þús. milljónum hér á landi. (Gripið fram í: Ég var ekkert …) Ég er búin að skrifa grein um þetta og hvet ég þingmenn til að lesa sér til um hvað þetta virkilega þýðir í raun og sann fyrir okkur Íslendinga.

Ég ætlaði fyrst og fremst að tala um verðtrygginguna á lánunum, frú forseti, og minna jafnframt á að hæstv. forsætisráðherra hefur setið tæp 35 ár á þingi og þetta hefur verið mesta baráttumál hennar allar götur að afnema verðtryggingu lána. Nú hefur þessi hæstv. ráðherra setið fimm ár í ríkisstjórn, þar af þrjú ár sem forsætisráðherra, og það gerist ekki neitt. Það gerist ekki neitt því að gjarnan kemur sá hæstv. ráðherra hingað í pontu, steytir hnefann og kennir íhaldinu um allt. Ég minni á það enn og aftur að Samfylkingin hefur setið fimm ár í ríkisstjórn (Forseti hringir.) og hefur haft allan þann tíma, fimm ár, til að breyta því sem gagnrýnt var svo mikið á árum áður en það hentar ekki.



[13:51]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Okkur berast fregnir af því að lán heimilanna séu að hækka gríðarlega vegna verðtryggingarinnar, um einhverja milljarða króna, og þau hækka dag hvern vegna verðtryggingarinnar. Hagsmunasamtök heimilanna héldu stóran fund í síðustu viku þar sem meðal annars var farið yfir mögulegar leiðir til þess að afnema verðtrygginguna. Sömu samtök hafa verið með undirskriftasöfnun á netinu þar sem um 37 þús. manns hafa skorað á ríkisstjórnina að grípa til raunhæfra aðgerða til afnáms verðtryggingar. Maður hlýtur að spyrja sig í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur hér: Við hvað er hv. þingflokkur Samfylkingarinnar hræddur í þessum efnum? Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur á morgun verið forsætisráðherra í þrjú ár. Þrjú ár eru síðan Jóhanna Sigurðardóttir, hv. þingmaður, varð hæstv. forsætisráðherra. Fimm ár eru síðan Samfylkingin tók sæti í ríkisstjórn.

Það var laumað til mín auglýsingu frá fjölskylduföður í Hafnarfirði þar sem boðin eru fundarlaun fyrir þann sem getur bent á hvar Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin eru. Þar er meðal annars vitnað í grein eftir hæstv. forsætisráðherra um verðtrygginguna frá árinu 1996 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Efnahagsleg rök og sanngirni mæla með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð.“

Jóhanna Sigurðardóttir telur að ríkisstjórnin sé föst í gamla verðbólguhugsunarhættinum. Er ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur ekki einmitt föst í gamla verðtryggingarhugsunarhættinum? Ef einhvern tímann hefur verið þörf á því að þingheimur taki höndum saman er það í þessu. Það er búið að benda á mögulegar leiðir til að afnema verðtrygginguna, fjöldi aðila hefur gert það, og okkur er ekkert til fyrirstöðu að hefjast handa. Þess vegna spyr ég: Hvenær ætlar Samfylkingin (Forseti hringir.) og hæstv. forsætisráðherra að hætta að slá skjaldborg um verðtrygginguna?



[13:53]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að koma hérna upp og gleðjast yfir því sem hv. þm. Skúli Helgason talaði um, þær fjárfestingar sem hafa verið og þann áhuga sem er á Íslandi. Það er einmitt staðreyndin að tækifærin eru gríðarleg og sú gagnrýni sem við höfum verið með á núverandi ríkisstjórn er að hún hafi ekki nýtt tækifærin og það sé seinagangur á öllu. Til að mynda var hér lögð fram samgönguáætlun, ákaflega metnaðarlítið plagg, einu ári of seint, og rammaáætlun sem mig langar aðeins að koma inn á er komin að minnsta kosti einu ári á eftir áætlun, hið minnsta. Hér var ágætisumræða fyrir viku þar sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson spurði hæstv. umhverfisráðherra og það komu engin skýr svör frá umhverfisráðherra. Í fréttum í dag, í fjölmiðlum, stendur að stjórnarflokkarnir deili um rammaáætlun, stöku þingmenn vilji fleiri virkjanir, og enn bóli ekkert á rammaáætlun um flokkun virkjanakosta sem til stóð að leggja fram fyrir jólahlé þingsins. Á atvinnuveganefndarfundi í morgun var þetta rætt og þar komu heldur ekki fram neinar nýjar hugmyndir eða tillögur. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin er minnihlutastjórn en í hinu margfræga og margumtalaða norræna velferðarmódeli eru það einmitt minnihlutastjórnir sem ganga til liðs og tala við stjórnarandstöðuna og reyna að fá 70–80% þingheims og þjóðar á bak við stór mál, eins og til dæmis rammaáætlun. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu að ríkisstjórnin geri það. Eina sem stendur í vegi fyrir því er þroskaleysi hæstv. forsætisráðherra og hæstv. allsherjarráðherra, fyrrverandi [Hlátur í þingsal.] fjármálaráðherra, einfaldlega vegna þess og kannski þrátt fyrir þeirra löngu starfsreynslu á þingi, eða kannski einmitt vegna þeirrar starfsreynslu hafa þau ekki þroska til að fara inn í þetta ferli sem þingið á að vera tilbúið til. Mig langar að koma hér að tillögu um að við setjumst yfir þetta (Forseti hringir.) og reynum að afgreiða rammaáætlunina, klára hana sem fyrst. Það er ábyggilega meiri hluti þings fyrir því.



[13:56]
Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Nú hefur það verið upplýst að ríkisstjórnin hefur ekki með sínum löngu krumlum enn þá náð að setja skatta á pönnukökupönnur og brauðristar. Og nú ætla ég að fullyrða að allar líkur eru á því að við munum sjá á næstunni sérstakt frumvarp til laga um að setja skatta á pönnukökupönnur og brauðristar. Þannig hefur að minnsta kosti ríkisstjórnin unnið, þegar hún hefur séð einhvers staðar færi á því að hækka skatta hefur það að sjálfsögðu verið gert.

Ég ætla aðeins að fara yfir stöðu mála sem snúa að hinni svokölluðu rammaáætlun og rifja upp nokkrar dagsetningar í því sambandi. Skýrsla nefndar um rammaáætlun sem hafði verið lengi í undirbúningi leit dagsins ljós í júní á síðasta ári. Í þingmálaskrá sem hæstv. forsætisráðherra gerði opinbera núna 18. janúar var það boðað að þingmál um rammaáætlun yrði lagt fram á þinginu 30. janúar, 12 dögum seinna. Nú skyldi maður ætla að þegar þingmálaskrá er útbúin með þessum hætti og það boðað að þetta stóra mál komi inn í þingið 12 dögum síðar hafi legið þar að baki einhver vitneskja um hvar þetta mál er statt.

Ég átti viðræður við hæstv. umhverfisráðherra hér í síðustu viku, á þriðjudaginn fyrir nákvæmlega viku, og þá sagði hæstv. umhverfisráðherra að ætlunin væri sú að í meginatriðum verði staðið við þann tímaramma sem lagt er upp með, þ.e. (Forseti hringir.) að það verði klárað um þetta leyti.

(Forseti (ÁRJ): Einn fund í salnum.)

Nú er hins vegar kominn 31. janúar og einu fréttirnar sem við höfum af þessu eru þær að þessi mál séu í mikilli togstreitu innan stjórnarflokkanna. Það kemur ekki á óvart. Við vitum alveg um hvað þessi togstreita snýst, hún snýst um það að fækka þeim verkefnum sem skýrslan um rammaáætlun hafði sett inn í nýtingaráætlun, færa þau inn í biðflokkinn eða verndunarflokkinn, koma í veg fyrir að hægt sé að vinna í anda þeirrar nýtingaráætlunar sem rammanefndin hafði sett fram. Þetta (Forseti hringir.) er auðvitað fráleitt, og auðvitað alveg fráleitt að ríkisstjórnin skuli vera búin að hanga á þessu máli í átta mánuði, frá því að skýrslan var lögð fram, eingöngu vegna þess að það er pólitísk togstreita milli og innan (Forseti hringir.) stjórnarflokkanna um þetta mál.



[13:58]
Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Rannsóknir hafa sýnt að ljóshært fólk á oft erfiðara með að ná árangri í lífinu. Rannsóknir hafa líka sýnt fram á að hávaxið fólk á auðveldara með að fá hærri laun og ná árangri í lífinu. En hvað ef einhver er ljóshærður, lágvaxinn og er kona sem er yfirmaður hjá ríkisstofnun eða ríkisfyrirtæki? Þá virðist greinilega vera erfitt að fá rétt laun, sambærileg laun og karlar í sambærilegum stöðum. Það kemur núna fram í Fréttatímanum að kjararáð sem er skipað af Alþingi, sem við berum ábyrgð á, er að ákvarða konum lægri laun en körlum í sambærilegu starfi, jafnvel í sama starfi. Núverandi forstjóri Fríhafnarinnar, kona, ekki sérstaklega há í loftinu, að vísu dökkhærð, hjálpar henni kannski, fékk lægri föst yfirvinnulaun í ákvörðun kjararáðs. Og það var ekki fyrr en eftir að forstjórinn ákvað að kæra þá ákvörðun til Jafnréttisstofu að kjararáð endurskoðaði ákvörðun sína. Þegar skoðaðar eru upplýsingar almennt um launakjör karla og kvenna sem kjararáð ákveður kemur ítrekað fram að konur virðast þurfa að vinna minni yfirvinnu, jafnvel í störfum þar sem krafist er meiri ábyrgðar, þar sem þær fara með meiri veltu og fleira starfsfólk.

Þetta er sláandi. Því vil ég spyrja hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson, formann allsherjar- og menntamálanefndar: Hvernig er ætlunin að bregðast við þessu? Hvar er hin margumtalaða kynjaða hagstjórn sem hlýtur að byrja (Forseti hringir.) í launum fólks?



[14:00]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Það er vel við hæfi að taka þetta mál hér upp á 30 ára afmælisdegi Kvennaframboðsins sem var stofnað á Hótel Borg fyrir 30 árum. Það markaði mikil þáttaskil í íslenskum stjórnmálum og er án efa einn af merkustu atburðum í stjórnmálasögu okkar á liðnum áratugum og hefur skilað gríðarlegum árangri. Jafnréttismál á Íslandi hafa tekið stakkaskiptum á þessum 30 árum. Það sjáum við á Alþingi, það sjáum við sem betur fer víðast hvar í samfélaginu en vissulega ekki alls staðar.

Það mál sem hv. þingmaður vekur hér athygli á á þessum merka degi í sögu íslenskra stjórnmála sætir auðvitað talsverðri furðu. Er ótrúlegt að slíkur úrskurður geti legið eftir kjararáð og með nokkrum ólíkindum þegar maður plægir í gegnum málið að þetta hafi verið niðurstaðan eftir skoðun á stöðu viðkomandi einstaklinga hvað varðar menntun, hæfi og allt annað. Það kallar auðvitað á útskýringar og áminningu til allra, bæði kjararáðs og annarra sem fara með launamál og annað sem snertir jafnrétti kynjanna og stöðu fólks í samfélaginu, jafnréttismál í sinni breiðustu mynd, að gæta sanngirni og réttlætis.

Grundvallaratriðið í jafnréttismálum kemur skýrt fram í jafnréttislögunum og allt annað en það er lögbrot. Það stendur í jafnréttislögunum að greiða skuli konum og körlum hjá sama atvinnurekanda jöfn laun og þau skuli njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Það er kjarni málsins og það eru engir afslættir eða undanþágur frá jafnréttislögum sem þetta varðar frekar en annað í landslögum Íslands. Þessi áminning er ágæt hér á Alþingi í dag og annars staðar í samfélaginu á degi sem markar þessi þáttaskil í íslenskri (Forseti hringir.) stjórnmálasögu og auðvitað í jafnréttismálum sérstaklega.



[14:03]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að tæpa á máli sem tengist mörgu af því sem sagt hefur verið hér fyrr í dag en það er hin klassíska víxlverkun hækkandi verðlags og launa þar sem launahækkanir sem gengið hafa í garð og eru fram undan eru taldar af sveitarfélögunum vera ástæða þess að þau þurfi að hækka gjaldskrár. Gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga leiða til hærri verðbólgumælingar, ríkissjóður kennir launahækkunum um þegar ríkissjóður hefur ofskuldsett sig, heimilin eru knésett með verðtryggðum lánum og geta ekkert gert til þess að bregðast við. Hv. formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fyrrverandi fjármálaráðherra segist hálffúll út af verðbólgumælingunni sem nýverið var gerð opinber og hversu há hún er, sem hann ber sjálfur ábyrgð á vegna gjaldskrárhækkana ríkisstofnana í síðustu fjárlögum. Verð á þjónustu á flestöllum stöðum á landinu tekur mið af vísitöluhækkunum í hverjum mánuði. Um leið og vísitölumæling er gefin út hækka þjónustustofnanir og þjónustufyrirtæki verðskrá sína sem aftur leiðir til hærri verðbólgu.

Frú forseti. Forsendur fyrir markaðshagkerfi eru margar. Sumar eru til dæmis þær að það sé auðvelt að stofna fyrirtæki, það sé skilvirk og skilmerkileg afgreiðsla á gjaldþrota fyrirtækjum en mikilvægasta forsendan er samkeppni á markaði. Við höfum séð hér nýverið úr ritröð Samkeppnisstofnunar verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði. Hér hefur viðgengist í áratugi eitthvað sem er þykjustumarkaðshagkerfi þar sem fákeppni og einokun ræður ríkjum, ekki bara í verslun og viðskiptum heldur líka af hálfu hins opinbera sem leiðir svo til hækkana á gjaldskrám og hækkana á sköttum. Þetta er vítahringur sem íslensk efnahagsstjórn hefur verið í í 30 eða 40 ár og enn þann dag í dag er ekki verið (Forseti hringir.) að gera neitt til að breyta þessu, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta heitir að geta ekki lært af mistökunum. Þetta er sorglegt.