140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og þingheimi er kunnugt verður lögð fram í vikunni þingsályktunartillaga frá fjölda þingmanna um rannsókn á einkavæðingu bankanna frá árinu 1998–2003. Nokkur umræða hefur spunnist á milli þingmanna hvort rannsaka eigi sömuleiðis það ferli sem fór í gang þegar erlendir kröfuhafar sömdu við ríkið um endurreisn gjaldþrota fyrirtækja. Ég vildi hafa sagt það í þessum sal að þrátt fyrir að um tvo eðlisólíka ferla sé um að ræða sé ég ekkert því til fyrirstöðu að hvort tveggja verði skoðað í hörgul.

Í seinna tilvikinu var ekki um að ræða eiginlega einkavæðingu heldur endurreisn gjaldþrota fyrirtækja sem voru í raun í eigu kröfuhafa og að því leytinu til var þar fyrst og fremst um samning að ræða til að koma bönkunum í gang á nýjan leik.

Núverandi stjórnvöld hafa ekkert að fela hvað þetta ferli snertir og þess vegna er ekki hægt annað en að hvetja til að þetta verði íhugað og skoðað ef áhugi er til þess meðal þingheims. Núverandi stjórnvöld geta í raun og veru verið stolt af þessu ferli því að margt jákvætt hefur komið út úr þessum samningum. Ríkið losaði sig ekki bara undan því að þurfa að leggja fram um 200 milljarða kr. til að endurreisa föllnu bankana með tilheyrandi vaxtakostnaði heldur hefur til dæmis ekki síður komið í ljós, í þeirri skýrslu sem Hagfræðistofnun tók saman fyrir Hagsmunasamtök heimilanna og ríkisstjórnina, að með því að haga málum með þessum hætti tókst að auka svigrúm eða aðstoð við skuldug heimili um 50 milljarða kr. Hinir föllnu bankar aðstoðuðu skuldug heimili fyrir um 50 milljörðum kr. meira en það svigrúm sem þeir höfðu bar með sér.

Ég vildi bara árétta þetta, virðulegi forseti. Ég tel að ef áhugi er á því hjá þingheimi þá eigi sömuleiðis að skoða þessi mál enda tel ég að þar sé ekkert að fela.