141. löggjafarþing — 34. fundur
 14. nóvember 2012.
sérstök umræða.

byggðamál.

[15:38]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tel að sú neikvæða byggðaþróun sem átt hefur sér stað víða á landsbyggðinni síðustu tvo áratugina sé komin á mjög hættulegt stig á einstökum stöðum og svæðum. Við verðum að bregðast strax við, stjórnvöld í landinu verða að bregðast við.

Fyrir liggur skýrsla Byggðastofnunar um samfélag, atvinnulíf og íbúaþróun í byggðarlögum með langvarandi fólksfækkun. Þar eru skoðuð sérstaklega svæði sem byggja afkomu sína á landbúnaði og sjávarútvegi og önnur sem byggja á meiri fjölbreytileika í atvinnulífi. Sem betur fer er víða uppgangur á landsbyggðinni og tækifærin eru óteljandi ef rétt er á málum haldið. Samt sem áður eiga margar byggðir undir högg að sækja. Skýrt kemur fram í skýrslunni hve mikið samgöngubætur hafa að segja, ekki bara vegna jákvæðra áhrifa á búsetu heldur einnig fyrir atvinnulíf og ekki síst ferðaþjónustuna. Skýrasta dæmið um slíkt er svæði eins og sunnanverðir Vestfirðir og norðanverðar Strandir sem eiga allt sitt undir því að góðar samgöngubætur komist á.

Aldurssamsetning íbúa þar sem fólksfækkun hefur orðið er verulegt áhyggjuefni. Meðalaldurinn er orðinn hár og það fækkar að sama skapi í yngri árgöngum, sérstaklega í aldurshópnum 20–40 ára sem er barneignaraldur. Þar af leiðandi dragast útsvarstekjurnar saman í kjölfarið og erfiðara reynist að halda uppi góðri grunnþjónustu sem ýtir undir áframhaldandi fækkun íbúa. Skipting milli kynja á þessum svæðum er yfirleitt þannig að karlar eru fleiri en konur og það veit ekki á gott.

Nú koma margir eflaust til með að álykta sem svo að við þessu sé lítið að gera, byggðaþróunin annars staðar í veröldinni sé á sama veg. Ég tel vissulega að stjórnvöld geti ekki einhliða haft áhrif á íbúaþróun í landinu, þar hefur margt annað mikið að segja, en stjórnvöld hafa með aðgerðum og aðgerðaleysi svo sannarlega haft áhrif á byggðaþróun síðustu áratugina. Afleiðingin er mikil samþjöppun byggðar á suðvesturhorninu með tilheyrandi stofnkostnaði. Víða á landsbyggðinni standa eftir vannýtt opinber mannvirki og autt húsnæði sem selst ekki eða aðeins fyrir brot af raunvirði.

Þannig hefur margt landsbyggðarfólk þurft að fara frá eigum sínum eða fengið sáralítið fyrir ævisparnaðinn. Ég met það svo að ekki hafi verið rekin raunveruleg byggðastefna hér í gegnum árin heldur hafðar uppi handahófskenndar aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að mæta aðsteðjandi vanda fólks og fyrirtækja hverju sinni, settir plástrar hér og þar sem ekki hafa byggst á að styrkja grunngerð samfélaganna til lengri tíma. Ótal greiningar og skýrslur liggja fyrir og ég efast ekki um góðan vilja margra ráðamanna í gegnum tíðina en orð og efndir hafa ekki alltaf haldist í hendur, því miður.

Hver kannast ekki við fyrirheit um jöfnun olíuverðs og húshitunar í landinu? Þetta er jú sameiginleg auðlind eins og fiskurinn í sjónum. Lengi hefur verið talað um jöfnun flutningskostnaðar og fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni, en ef það hefur gengið eftir er endalaus barátta við að halda störfunum inni í fjárlögum. Það er gömul saga og ný.

Dreifikerfi RÚV er til dæmis víða ekki í lagi og það vantar margt upp á að búsetuskilyrði séu jöfn í landinu. Skýrt hefur komið fram í greiningu að styrkja þurfi menntunarstig á landsbyggðinni og tek ég heils hugar undir það, en þá verður líka að standa vörð um þær menntastofnanir sem þar eru fyrir og útvista fleiri opinberum störfum út á land sem krefjast fjölbreytilegrar menntunar og þekkingar.

Atvinnumál, heilbrigðismál, samgöngur og menntun, allt eru þetta lykilþættir sem ráða ákvörðun um búsetu fólks. Bleiki fíllinn í umræðunni um stöðu landsbyggðarinnar í sjávarbyggðum er kvótakerfið sem og sú óvissa og óöryggi í búsetu sem fylgt hefur frjálsu framsali aflaheimilda í gegnum árin. Þetta hafa staðir eins og Vestmannaeyjar og Akranes, stór byggðarlög, þurft að reyna á eigin skinni.

Ég spyr hæstv. atvinnuvegaráðherra: Liggur fyrir greining stjórnvalda á því hvaða byggðir standa veikast í byggðalegu tilliti í dag? Ef svo er, hverjar eru þá byggðirnar og svæðin?

Hvaða byggðir af þeim sem háðastar eru sjávarútvegi eru í alvarlegum vanda? Hvaða áhrif hefur framsal aflaheimilda haft í því sambandi og hvaða úrræði eru möguleg í slíkum tilvikum?

Hvaða landbúnaðarsvæði og hvaða búgreinar standa hvað höllustum fæti í dag og hvar innan landbúnaðar og matvælaframleiðslu sjá menn helstu sóknarfærin? (Forseti hringir.) Er hægt að segja að unnið sé eftir skilvirkri byggðastefnu og hvað telur ráðherra byggðamála vænlegast til árangurs (Forseti hringir.) svo styrkja megi til framtíðar byggðir og sveitarfélög í erfiðri stöðu?

Hvað hyggjast (Forseti hringir.) stjórnvöld gera til að mæta bráðavanda sem blasir við þeim byggðum sem standa frammi fyrir mikilli óvissu og íbúafækkun?

Að lokum: Til hvaða aðgerða hafa stjórnvöld gripið eða hyggjast grípa á næstu mánuðum (Forseti hringir.) til að jafna búsetuskilyrði landsmanna?



[15:44]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er sannarlega þörf. Ég held ég reyni að svara spurningunum best með því að fara almennt yfir nokkur atriði sem ákveðin hafa verið og unnið er að sem skipta máli í byggðalegu tilliti. Markmiðið er að sjálfsögðu að byggð geti blómgast um allt land og öll byggðarlög fái nýtt sín tækifæri og möguleika.

Ég nefni fyrst fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var og nú liggur fyrir hvernig fjármögnun hennar verður á fyrsta ári. Hún var sett fram upphaflega með fyrirvara um hverjar tekjur mundu skila sér af veiðigjöldum og arði úr bönkum, eignasölu og öðru slíku. Á næsta ári fara alls 10,3 milljarðar kr. í verkefni sem munu auka fjárfestingu og styðja við vaxandi atvinnugreinar, skapa hagvöxt og störf vítt og breitt um landið. Þar af fara í samgöngur 2,5 milljarðar sem gerir kleift að flýta Norðfjarðar- og Dýrafjarðargöngum og ýmsum öðrum brýnum vegbótum. Þá er tryggt fé vegna Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs og til endurbóta í Landeyjahöfn, samtals 640 milljónir. Í sóknaráætlun landshlutanna sem unnið er að um allt land í öflugu samstarfi við heimaaðila verður varið 400 millj. kr.

Á svið ferðamála er einnig lögð mikil áhersla, enda einn af mestu vaxtarbroddum íslensks atvinnulífs og dreifist mjög vel um landið og skapar störf vítt og breitt. Þar verða settar 500 milljónir til viðbótar í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða næstu þrjú árin sem gerir kleift að fara í mikið átak til að byggja upp innviði og sömuleiðis 250 milljónir í þjóðgarða og friðlýst svæði í sama skyni. Þessu fylgja að sjálfsögðu störf og framkvæmdir en ekki er þó síður mikilvægt að þarna erum við að efla innviðina og auka möguleika okkar til að takast á við vaxandi fjölda ferðamanna.

Þá má nefna Kirkjubæjarstofu en ákveðið er að ráðast í byggingu hennar og verja í það 290 millj. kr. og á Kirkjubæjarstofa að verða eitt af anddyrum Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar á sannarlega í hlut ein af þeim byggðum sem hefur átt í vök að verjast, þ.e. Vestur-Skaftafellssýsla, eins og kom fram hjá hv. málshefjanda.

Í verkefni sem flokkast undir græna hagkerfið fara sömuleiðis talsverðir fjármunir og þeir dreifast í ýmis verkefni um allt land.

Varðandi jöfnun flutningskostnaðar, sem mikið hefur verið rætt á Alþingi árum og áratugum saman, eru loksins komin lög þar um og komu til framkvæmda 1. janúar sl. Með þeim er unnt að veita framleiðslufyrirtækjum á svæðum sem eru í a.m.k. 240 kílómetra fjarlægð frá útflutningshöfn 10% endurgreiðslu af flutningskostnaði en fyrirtæki sem liggja lengra frá fá 20%. Ég geri ráð fyrir að flytja á næstu vikum frumvarp sem framlengir gildistíma þeirra laga en heimilar jafnframt að fela Byggðastofnun að annast um framkvæmdina.

Strandsiglingar eru í undirbúningi, þ.e. að undirbúa útboð um strandsiglingar eins og komið hefur fram. Ég vil nefna eitt mál enn sem er auðvitað eitt af stóru og brýnu hagsmunamálum margra þessara byggða, þ.e. húshitunarkostnaðinn á köldum svæðum eða húshitunarkostnað þeirra sem kynda með rafmagni. Ég vonast til þess að við afgreiðslu fjárlaga nú verði tekið nokkurt skref í að jafna þann kostnað.

Þá að hinni sérstöku nálgun varðandi byggðir í bráðri hættu. Byggðastofnun hefur unnið þar mikið verk og skilgreint ýmis byggðarlög. Hún nálgast núna byggðamálin á öðrum forsendum en fyrr, annars vegar að skoða sterku svæðin, höfuðborgarsvæðið og 100 kílómetra radíus þar í kring, Miðnorðurlandið og Miðausturlandið, á þeim svæðum búa 92% þjóðarinnar. Hins vegar hafa nokkur byggðarlög sem eru á varnarsvæðum átt við mikinn vanda að etja um árabil. Það er því ekki rétt að tala um landsbyggðina í heild sem eina heldur fremur um landsbyggðirnar. Vandinn á varnarsvæðunum birtist fyrst og fremst í viðvarandi fólksfækkun, einhæfni atvinnulífs, fækkun starfa og hækkandi meðalaldri íbúanna eins og kom fram áðan. Þar er einkum um að ræða fámenna byggðakjarna og sveitir í umtalsverðri fjarlægð frá stærri byggðakjörnum. Ég hygg að segja megi að þrjú svæði séu einkum í forgrunni í þeirri flokkun eða skilgreiningu. Það eru svæði á Vestfjörðum, Suðausturlandi og á norðausturhorninu. Byggðastofnun hefur tillögur í smíðum um að leita nýrra leiða til að glíma við vanda slíkra byggða þar sem þurfi sértækari úrræði en hin almennu og hefðubundnu sem öflugri svæði geta nýtt sér betur. Byggðastofnun hefur sent ráðuneytinu greinargerð og tillögur í þeim efnum sem eru í skoðun í ráðuneytinu og við höfum fullan hug á að fylgja eftir.

Varðandi sjávarútvegsmál og önnur mál sem bar á góma, allt skiptir það að sjálfsögðu máli í glímunni við vanda byggðanna en hann er sannarlega ærinn og sérstaklega tilfinnanlegur í umræddum byggðum. Sumar hverjar hafa verið í fréttum að undanförnu þar sem menn hafa átt við langvarandi erfiðleika að etja. Ég hygg að hin nýja (Forseti hringir.) nálgun Byggðastofnunar sé skynsamleg í ljósi þessara aðstæðna, í ljósi reynslunnar og við eigum að styðja það að byggðamálunum verði sinnt sérstaklega með sértækum aðgerðum varðandi byggðir í bráðum vanda.



[15:50]
Birna Lárusdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í þessu máli held ég að nauðsynlegt sé að allir stjórnmálaflokkar í þinginu líti í eigin barm og viðurkenni ákveðið andvaraleysi eða stefnuleysi í málefnum þeirra byggða sem eiga við mestan vanda að etja. Stefnu í byggðamálum á Íslandi hefur skort um langt árabil, eins og fram hefur komið í máli annarra, og vandi byggðanna er meðal annars tilkominn vegna þess.

Þóroddur Bjarnason, formaður stjórnar Byggðastofnunar, er meðal þeirra sem hafa greint vandann skýrast og best. Eins og kom ágætlega fram í máli hæstv. forsætisráðherra hefur Þóroddur Bjarnason skilgreint ákveðin varnarsvæði landsbyggðanna þar sem vandinn er áþreifanlegastur. Þar búa 8% þjóðarinnar, það eru öll ósköpin, 25 þúsund manns. Sjáum til dæmis umræðuna um húshitunarkostnaðinn og jöfnun hans. Þar er fyrst og fremst verið að ræða um 10% landsmanna sem búa við það óréttlæti að þurfa að greiða mun meira fyrir húshitun en aðrir í landinu. Við eigum að ráða við að lagfæra það óréttlæti.

Þótt margt hafi áunnist á liðnum árum sést að ekki er jafnt gefið. Skoðum hlutfall opinberra starfa, skiptingu skatttekna, flutningskostnað og aðgang að lánsfé.

Ég vil segja þetta: Einhendum okkur í að skilgreina vandann. Fáum okkar færustu sérfræðinga á þessu sviði til liðs við okkur, formann stjórnar Byggðastofnunar þeirra á meðal, til að vinna tillögur hratt og vel. Tökum síðan mark á þeim og hrindum þeim í framkvæmd. Þessi málefni eiga að varða okkur öll, hvar í flokki sem við stöndum og hvar á landinu sem við búum.

Ég sat lengi í bæjarstjórn vestur á fjörðum og hlustaði á margar loforðsræður ráðamanna ríkisins í þessum efnum. Hættum að tala bara um hlutina og förum að grípa til róttækra aðgerða. Það er orðið löngu tímabært að standa við öll stóru orðin um eflingu byggðanna.



[15:52]
Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Versnandi staða landsbyggðarinnar er ekki náttúrulögmál. Höfuðborgin aflar um 42% ríkistekna en hún eyðir ríflega 70% þess sem kemur í ríkiskassann. Það er ekki náttúrulögmál.

Það er gott að búa úti á landi í námunda við hreina náttúru, í göngufæri við vinnustað og í skjóli umhyggjusams nærsamfélags. En þau lífsgæði að vera landsbyggðarmaður kosta. Húshitun á köldum svæðum er þrefalt dýrari en í Reykjavík, það er mannleg ákvörðun, vöruverð er umtalsvert hærra vegna flutningskostnaðar sem veltur á samgöngum og því er hægt að breyta. Samgöngur eru víða erfiðar, raforkan ótrygg, internetið lélegt. Allt eru þetta forsendur þess að atvinnulíf og byggð fái þrifist og allt eru þetta forsendur sem hægt er að breyta ef vilji og heildarsýn er fyrir hendi.

Þróunin á landsbyggðinni er afleiðing ákvarðana, til dæmis þeirrar að afhenda fiskveiðiauðlindina útvöldum hópi og færa þeim óðalsrétt á þjóðarauðlind án endurgjalds til samfélagsins. Af þeirri ákvörðun hefur hlotist mikil atvinnu- og byggðaröskun. Hin margrómaða hagræðing í sjávarútvegi varð á kostnað samfélagsins því daginn sem skipið er selt eða útgerðarmaðurinn selur kvótann og fer með auðæfi sín úr byggðarlaginu situr eftir byggð, atvinnulaust fólk með verðlitlar fasteignir og kemst hvergi en unga fólkið lætur sig hverfa til náms og kemur ekki aftur. Það þýðir ekki að tala um byggðaröskun sem eðlilega þróun. Slík þróun er mannanna verk. Hún stafar af misviturlegum ákvörðunum og skeytingarleysi um yfirlýst stefnumið laga um jafnan búseturétt og það á við um góðærin fyrir hrun ekkert síður en aðra tíma. (Forseti hringir.) Til að jafna stöðu byggðanna þarf einfaldlega að taka réttar ákvarðanir í samgöngumálum, atvinnu- og auðlindamálum, (Forseti hringir.) við uppbyggingu stofnana og þjónustu. (Forseti hringir.) Byggðahnignunin er ekki náttúrulögmál, frú forseti. Það þarf bara að láta verkin tala því að stefnan er til.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á ræðutímann og biður hv. þingmenn að virða hann.)

Hann er allt of stuttur.



[15:55]
Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Það má kannski segja að dálítið seint sé í rassinn gripið fyrir ríkisstjórnina að koma og ræða það núna en betra er seint en aldrei. Ég vil túlka ræðu þingmannsins sem ákall til ráðherra sinna um að gera betur á síðustu mánuðum kjörtímabilsins en gert hefur verið.

Um langt skeið má halda því fram, og ég tek undir með hv. málshefjanda, að hér á landi hefur ekki verið nein skilvirk byggðastefna. Þóroddur Bjarnason, stjórnarformaður Byggðastofnunar, var með mjög gott erindi á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna þar sem hann sýndi fram á að sú byggðastefna sem verið hefur um 150 ára skeið hefur verið mjög góð fyrir þá byggð sem hún þjónar og skilað mjög miklum árangri, þ.e. að byggja upp höfuðborgina og færa allar stofnanir ríkisins þangað. En nú er kominn tími á nýja byggðastefnu sem horfir til annarra átta. Eins og hæstv. ráðherra minntist á má segja að á landinu séu margar landsbyggðir með mismunandi aðstöðu.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að rétt sé að skoða meðal annars norsku leiðina, við höfum talað fyrir því að stækka þurfi atvinnusvæðin til að bregðast við ýmsum áföllum sem verða í minni byggðum. Við höfum talað um að styrkja innviði á landinu öllu, til að mynda fjarskipti, samgöngumál, jöfnun raforku og húshitunar, við mæltum fyrir þingsályktunartillögu um það í gær, og flutningskostnað svo eitthvað sé nefnt. Við höfum einnig talað fyrir því að taka þurfi upp sértækar lausnir í atvinnumálum sem tengjast sóknarfærum hvers svæðis fyrir sig og jafnframt að skoða sértækar lausnir í menntunarmálum þeirra svæða sem oft eiga erfitt með að standast samkeppnina um menntun ungs fólks. Við höfum staðið í því að verja heilbrigðiskerfið og aðra grunnþjónustu á kjörtímabilinu fyrir niðurskurði. Fyrir þessum atriðum höfum við framsóknarmenn barist allt kjörtímabilið.

Ég vil enda ræðu mína á að taka undir það ákall sem kom fram hjá hv. þm. Birnu Lárusdóttur að nú er mál að linni. Við skulum (Forseti hringir.) hætta að tala, taka höndum saman og leysa þessi mál.



[15:57]
Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Þetta er mikilvæg umræða um byggðamál. Rótin að þeim vanda er að byggðirnar í landinu hafa verið sviptar atvinnumöguleikum þegar kvótinn fór frá þeim. Þetta er þróun sem þarf einfaldlega að snúa við því að tilvistarmöguleikar flestra þessara byggða byggjast á því að þær geti sótt sjóinn fyrir utan byggðina.

Hins vegar er annað mál sem menn tala harla lítið um og það er hverjir eiga atvinnufyrirtækin hringinn í kringum landið. Atvinnufyrirtækin þurfa að vera í eigu heimamanna til að arðurinn af þeim verði eftir í héraði svo hægt sé að byggja upp frekari atvinnutækifæri.

Förum aðeins hringinn í kringum landið. Hvað blasir við manni í nánast hverju einasta bæjarfélagi? Þar er Bónus, höfuðstöðvarnar eru í Reykjavík, arðurinn rennur til Reykjavíkur. Þar er Hagkaup, höfuðstöðvarnar eru í Reykjavík, arðurinn rennur til Reykjavíkur. Þar er Olís, N1, Landsbankinn og Arion banki. Höfuðstöðvarnar eru í Reykjavík, arðurinn af fyrirtækjunum rennur til Reykjavíkur. Þar er fjöldi hótela og annarra fyrirtækja sem eru með höfuðstöðvar í Reykjavík og arðurinn rennur þangað. Þetta er það sem er alvöruvandamál. Við getum byggt 10, 20 eða 30 byggðastofnanir til að reyna að laga þann vanda, en þetta mun ekki breytast að neinu marki fyrr en arðurinn úr fyrirtækjunum úti á landi verður eftir þar.

Ef við horfum á þetta úr fjarlægð þá er þetta nýlendufyrirkomulag þar sem Reykjavík er höfuðstöðvarnar og byggðirnar úti á landi eru nýlendurnar og arðurinn úr þeim rennur í heimsveldið. Þar til arðurinn varð eftir, alveg eins og Íslendingar stóðu frammi fyrir í sambandinu við Dani, þangað til Íslendingar sjálfir eignuðust atvinnutækin og fyrirtækin og arðurinn varð eftir á Íslandi þá varð engin uppbygging á Íslandi. Nákvæmlega þetta sama á sér stað hringinn í kringum landið. Þetta er risaverkefni (Forseti hringir.) en það er ekki að öllu leyti hinu opinbera um að kenna og það er ekki hægt að leiðrétta þá skekkju eingöngu með aðgerðum hins opinbera. (Forseti hringir.) Það þarf meira til og það er flóknara vandamál en svo að ég ráði við það.



[16:00]
Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Eina leiðin til að sporna við fólksfækkun á landsbyggðinni er að færa þjónustu tekjustofna og ákvarðanatöku út á land og snúa þannig við þróuninni sem hefur orðið á undanförnum árum og birtist í því að um 40% tekna ríkissjóðs er aflað á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið eyðir um 70%.

Síðustu ár hefur þjónusta eins og heilbrigðisþjónusta í vaxandi mæli verið færð undir Landspítalann í nafni niðurskurðar. Þjónustuskerðingin í heilbrigðiskerfinu hefur þýtt að margt landsbyggðarfólk þarf að ferðast langar vegalengdir og dvelja langdvölum á höfuðborgarsvæðinu til þess að fá spítalaþjónustu sem er ekki ýkja flókin. Ég nefni sem dæmi fæðingarþjónustu. Þeir sem búa við góða sjúkrahúsþjónustu úti á landi njóta hennar oft vegna nálægðar við stóriðju enda gerir stóriðja kröfu um að gott sjúkrahús sé í klukkustundarradíus frá verksmiðjunni.

Frú forseti. Á undanförnum árum hafa stórir málaflokkar eins og málefni aldraðra og fatlaðra verið færðir til sveitarfélaganna. Reynslan af þessari yfirfærslu er að stjórnsýslan verður eftir á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að mörg sveitarfélög ráða ekki við hana vegna smæðar sinnar. Veiðigjaldið hefur auk þess verið gagnrýnt fyrir að vera í raun sérstakur landsbyggðarskattur.

Mikilvæg leið til að efla þjónustustigið, atvinnulífið og lýðræðið á landsbyggðinni er að koma á svokölluðum svæðisþingum. Verkefni svæðisþinganna yrði að sjá um úthlutun veiðigjalds á viðkomandi svæði, svæðisbundnar atvinnuþróunarstofnanir og velferðarmál, svo sem ákvarðanatöku um málefni sem færð hafa verið til sveitarfélaga og nauðsynlegt er að taka á svæðisbundið.



[16:02]
Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að vekja máls á þessu þarfa máli sem vekur mann til umhugsunar, ekki síður en þau ummæli sem hafa fallið í umræðunni. Ég held að við getum öll tekið undir orð hv. þm. Birnu Lárusdóttur sem sagði að nú skyldum við taka höndum saman og fara að gera eitthvað í staðinn fyrir að tala endalaust.

Frú forseti. Til þess að byggðir í landinu vaxi og dafni þarf auðvitað að vera til staðar atvinna og öryggi um atvinnu. Það þarf að vera einhver vissa um hvert stefnt sé og hvert umhverfið verði á næstu missirum til að fyrirtæki sem til staðar eru geti vaxið, dafnað, tekið ákvarðanir um frekari uppbyggingu o.s.frv.

Það er rétt sem kom fram hér í máli hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur að verkin tala. Við sjáum það af verkum núverandi ríkisstjórnar sem hefur tekið miklar ákvarðanir er varða með hvaða hætti atvinnulíf í landinu mun þróast. Teknar hafa verið ákvarðanir um ofurskattlagningu á sjávarútveginn sem hefur gríðarleg áhrif á allar sjávarbyggðir í landinu. Við höfum heyrt af litlum og meðalstórum útgerðum um land allt sem sjá ekki annan kost en að breyta verulega rekstri sínum, jafnvel selja og hætta. Þetta eru dæmi um verk sem tala.

Síðan er hægt að tala um þær virðisaukaskattshækkanir sem ráðist er í gagnvart ferðaþjónustunni án nokkurs fyrirvara. Þar eru líka verkin að tala gagnvart iðnaði sem er vaxandi eða átti að vera vaxandi á landsbyggðinni. Hér eru verkin að tala. (Gripið fram í.)

Það þriðja sem hægt er að tala um hér er landbúnaðurinn. Bændur vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér vegna áherslu Samfylkingarinnar á að ganga í Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Þess vegna er fjárfesting þar einnig í lágmarki. (Gripið fram í.)



[16:04]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem kom fram hjá hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra að samgöngur skipta gríðarlega miklu máli til að efla svæði, stytta leiðir og byggja undir. Góð dæmi um það eru þau sem voru nefnd hérna áðan, þ.e. nýr Herjólfur, Landeyjahöfn, hvernig samgöngustaða Vestmannaeyja gagnvart fastalandinu tók stakkaskiptum, breytti öllu fyrir þessa byggð. Menntun, framhaldsskólar og aðgengi að háskólanámi um fjarnám eru allt byggðamál sem er hægt að segja að séu mikilvægasta byggðastefnan þegar allt er samandregið.

Hitt er að halda utan um svæðin sem Byggðastofnun skilgreindi réttilega sem svæði sem ekki hefur verið tekin nein sérstök ákvörðun um að eigi að lifa af og þar muni því byggð leggjast af. Dæmi um þetta eru Raufarhöfn, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur. Þetta er viðfang stjórnmálanna akkúrat núna. 14% fækkun íbúa á tíu árum, eins og í Skaftárhreppi, er vísbending um að byggðin leggist af ef ekki verður brugðist við strax.

Þess vegna ber að fagna sérstaklega ákvörðun um 250 milljónir í fyrsta áfanga þekkingarseturs á Kirkjubæjarklaustri nú á fjárlögum fyrir 2. umr. út frá fjárfestingaráætluninni. Þetta er dæmi um ákvörðun sem verður að taka á pólitískum forsendum af fjárveitingavaldinu eigi byggð sem er í jafnalvarlegri tilvistarkreppu og þær sem ég taldi upp áðan að eiga sér viðreisnar von, hvað þá að lifa af. Það mætti nefna mörg dæmi af ágætlega heppnaðri byggðastefnu víða um land, en svæði hafa orðið eftir og út undan. Þau hafa verið mjög vel skilgreind af Byggðastofnun og fleiri aðilum, eins og nefnt hefur verið í umræðunni hérna í dag. Það er okkar að taka ákvarðanir um uppbyggingu á svæðunum þannig að þau fái viðspyrnu, lifi af og byggðin byrji að braggast þar aftur. Sú ákvörðun sem ég nefndi hérna áðan er dæmi um það. Við þurfum að taka aðrar og fleiri slíkar og láta vita af því í markvissri áætlun (Forseti hringir.) um uppbyggingu þessara byggða.



[16:06]
Ásmundur Einar Daðason (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir að taka þetta mál upp hér. Ég ætla ekki að fara út í hvað núverandi ríkisstjórn hefur gert fyrir hinar dreifðu byggðir landsins því að þeir sem þekkja til hafa fundið það á eigin skinni, það þarf því ekki að fjalla um það hér.

Ég ætla að fjalla um byggðamál og með hvaða hætti við getum snúið vörn í sókn. Hér hefur verið talað um sértækar aðgerðir. Sértækar aðgerðir munu eingöngu gagnast þeim byggðarlögum sem verst standa og staðreyndin er sú að ef fram fer sem horfir með stóran hluta af hinum dreifðu byggðum mun þeim byggðarlögum fjölga sem komast í þann hóp að þurfa sértækar aðgerðir eins og Raufarhöfn.

Það sem við þurfum að ráðast í eru almennar aðgerðir í byggðamálum. Talað er um jöfnun húshitunarkostnaðar, það að veita fjármuni á hverju ári til jöfnunar húshitunarkostnaðar. Það er sértæk aðgerð. Við þurfum að breyta kerfinu og ráðast í almennar aðgerðir þannig að þetta gerist sjálfkrafa. Við þurfum að gera þetta á fleiri sviðum. Við þurfum að bæta umgjörð fyrirtækja á landsbyggðinni með almennum aðgerðum. Það eru til fyrirmyndir af slíku í byggðastefnu Norðmanna. Noregi er skipt upp í ákveðin svæði. Eftir því sem lengra er frá höfuðstaðnum Ósló er umgjörð fyrirtækja jákvæðari. Þau greiða lægra tryggingagjald, þau greiða jafnvel lægri skatta og fólk sem hefur tekið námslán greiðir lægra hlutfall af námslánum til baka ef það býr í hinum dreifðu byggðum landsins. Þetta mundi stuðla að því til lengri tíma litið að fleiri fyrirtæki mundu setjast að á landsbyggðinni og fleiri einstaklingar mundu gera það líka. Þá mundum við sjá að þeir miklu möguleikar sem landsbyggðin hefur, því að landsbyggðin hefur gríðarlega möguleika á að afla mikilla gjaldeyristekna fyrir íslenska þjóð, mundu nýtast í auknum mæli. Það mundi ekki einungis vera hagkvæmt fyrir landsbyggðina, (Forseti hringir.) það yrði hagkvæmt fyrir höfuðborgina og landið allt.



[16:08]
Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Viljum við hafa Ísland í byggð? Ef við segjum nei eða að okkur sé sama getum við haldið áfram að gera hlutina eins og við höfum gert. Þá getum við leyft byggðunum að fjara út eftir því hvernig kvótinn færist til. Það er nákvæmlega það sem við höfum verið að gera. Svo höfum við reynt að setja einhverja smáplástra á sárin.

Ef við segjum já þurfum við að breyta um stefnu eða öllu heldur, eins og Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður, málshefjandi hér í dag, benti á, taka upp raunverulega byggðastefnu. Það er ákvörðun að styrkja og efla byggð í landinu. Ef við ætlum að taka þá ákvörðun þurfum við að fara í aðgerðir. Við þurfum að horfast í augu við að það kostar fé að halda landinu í byggð og það þarf að gera ráð fyrir því. Samgöngur þurfa að vera í lagi, tækifæri til menntunar þurfa að vera fyrir hendi og fjölbreytt atvinnutækifæri. Netið er grundvallaratriði fyrir fólk á 21. öld og forsenda fyrir fjölbreyttu atvinnulífi og menntunartækifærum um land allt. Við þurfum líka öruggt heilbrigðiskerfi um land allt sem byggir á nærþjónustu.

Mér fannst málshefjandi hitta naglann á höfuðið þegar hún nefndi bleika fílinn í stofunni, kvótakerfið. Fiskurinn er grundvöllur byggðar hringinn í kringum landið, það er bara svoleiðis. Um leið og fiskurinn fer fer fólkið. Það þarf að kalla kvótann inn og endurúthluta honum með sanngjörnum hætti.

Viljum við halda Íslandi í byggð? Ég segi já við því.



[16:10]
Atli Gíslason (U):

Herra forseti. Hér er til umræðu svört skýrsla Byggðastofnunar frá því í júní sem er reyndar framhald skýrslu frá árinu 2008 sem er framhald nokkurra eldri skýrslna. 30 sveitarfélög eru undir í þessari skýrslu. Allir stjórnmálaflokkar lofuðu bót og betrun fyrir kosningarnar 2009. Efndir hafa verið litla sem engar.

Hér höfum við rætt um að íbúum á svæðum hafi fækkað úr 12% í 50%. Fækkað hefur í yngri aldurshópum. Talað er um fjölgun starfa á landsbyggðinni, sem er mjög auðvelt í rafrænu kerfi í dag, og að á köldum svæðum þurfi íbúar að borga 13. mánuðinn til að standa jafnfætis íbúum á heitum svæðum, verslun og annað. Miklar áhyggjur voru vegna niðurskurðar hins opinbera, ekki síst varðandi heilbrigðisþjónustu. Viðmælendum þótti gæta skilningsleysis hjá stjórnvöldum og fannst að gjá milli landsbyggðar og höfuðborgar hefði dýpkað.

Í mínum augum er verst að þessi niðurskurður hefur bitnað verulega á kvennastörfum á landsbyggðinni. Íbúum á landsbyggðinni er enn mismunað og ekki er gætt jafnræðis. Í nokkrum þessara sveitarfélaga, ég nefni Skaftárhrepp og Raufarhöfn, ríkir neyðarástand. Þau eru ekki sjálfbær og þær tillögur sem hafa verið nefndar í umræðunni duga ekki til.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvaða sértækar tillögur hefur Byggðastofnun lagt fram sem hann hyggst leggja fram í framhaldinu?

Dapurt dæmi um þessa mismunun er að aukaframlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga voru 800 milljónir árið 2011, 350 milljónir 2012, aðallega til Álftaneshrepps, en í fjárlögum í ár hafa þau verið felld niður. Það er kvöld kveðja og ámælisverð.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hyggst ríkisstjórnin bæta hér úr og bæta verulega í aukaframlög? (Forseti hringir.)

Því miður hefur vandi landsbyggðarinnar aukist á kjörtímabilinu. Vilji er allt sem þarf í þessum efnum.



[16:13]
Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem vekja væntingar um að gripið verði til raunhæfra aðgerða gagnvart veikburða byggðum á landsbyggðinni. Vissulega eru miklar vonir bundnar við sóknaráætlun landshlutanna og að fjárfestingaráætlun ríkisins skili sér í markvissri uppbyggingu í góðu samstarfi við heimamenn, sveitarstjórnir, aðila vinnumarkaðarins og opinberar stofnanir á þessum svæðum.

Ég held að það sé í raun þjóðarsátt að standa vörð um hinar dreifðu byggðir landsins en kjark hafi vantað til að horfast í augu við þá þætti sem valdið hafa hvað mestri fólksfækkun. Allt of miklar smáskammtalækningar hafa verið í gegnum tíðina í stað þess að byggðirnar njóti jafnræðis í búsetuskilyrðum og fái að njóta þeirra náttúrugæða og auðlinda sem þær hafa fyrst og fremst byggst upp á.

Ef þingið sammæltist til dæmis um að klára háhraðatengingar á landsbyggðinni, bæta dreifikerfi RÚV, setja upp þriggja fasa rafmagn þar sem þörf er á og jafna orku- og flutningskostnað mundi það strax vera gífurleg innspýting og styrking fyrir byggðirnar. Þetta erum við búin að tala um í áratugi, fyrir utan að breyta kvótakerfinu sem ég tel vera gífurlegt byggðamál.

Miklar fjárfestingar liggja í innviðum byggða um allt land og þær fjárfestingar eru ekki síður mikilvægar fyrir þjóðarhag í heild. Byggðarlög eins og Raufarhöfn hafa skapað mikinn gjaldeyri í gegnum tíðina og lagt mikið til uppbyggingar þjóðfélagsins. Íbúar þar eiga því allt gott skilið þegar illa árar sem og önnur veikburða byggðarlög sem þurfa á aðstoð að halda. Stefna hins opinbera þarf ekki að öllu leyti að ráðast af hagkvæmninni einni saman né heldur þurfa markaðsöflin ein að ráða för, heldur skiptir gildismat samfélagsins miklu máli og hvernig samfélag við viljum sem þjóð að þróist í landinu. Jöfnun búsetuskilyrða í landinu (Forseti hringir.) telst til mannréttinda sem Alþingi á að geta sameinast um eins og hefur komið fram í máli manna.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessa þörfu og góðu umræðu um (Forseti hringir.) stöðu landsbyggðarinnar. Ég heyri að mikill samhljómur er í þingsal um þessi brýnu mál.



[16:15]
atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og hefði gjarnan viljað hafa tíma til að fara betur yfir þessi mál. Ég ætla að leyfa mér að halda því hér fram að almennt standi landsbyggðin nú hlutfallslega betur en hún gerði á löngu árabili fyrir hið margfræga hrun. Þannig er það til dæmis að atvinnuleysi eða atvinnuástand er mun betra á landsbyggðinni. Það breytir ekki hinu að tiltekin byggðarlög og svæði eiga í verulegum erfiðleikum.

Ég nefndi hér jöfnun flutningskostnaðar. Það er mál sem menn höfðu haft óralangan tíma að hrinda í framkvæmd við betri aðstæður en nú er þó búið að gera. Ég vil ekki að því sé alveg gleymt sem þó hefur verið gert.

Ef við tökum fjárfestingarnar sem fara í samgöngumálin, innviðina, uppbyggingu ferðamannastaða og sóknaráætlanir landshlutanna, allt fjármunir sem að uppistöðu til munu renna til landsbyggðarinnar, eru sennilega um 4 milljarðar kr. nýir að fara í slík verkefni á næsta ári. Það munar eitthvað um það, hlýtur að vera.

Að sjálfsögðu skiptir stefnan í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálunum miklu máli. Hér nefndi einn hv. þingmaður að landbúnaðurinn byggi við óvissu. Má ég þá minna á að nýbúið er að framlengja alla búvörusamninga um tvö ár í góðri sátt milli stjórnvalda og landbúnaðarins. Að mínu mati hefur tekist vel að verja landbúnaðinn í gegnum þessa erfiðleika með tvennum búvörusamningum sem gerðir hafa verið í góðri sátt milli aðila, fyrst 2009 og aftur núna 2012.

Tekjur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fara nú vaxandi og hann fær á annan milljarð kr. aukalega vegna þess að tekjustofnar ríkisins eru að gefa meira af sér. Sveitarfélögin njóta þannig líka góðs af því og hafa meiri burði til að jafna út verkefnum og kostnaði á milli sín vegna þess að þau eru að fá auknar tekjur. Ég tel hins vegar að reynsla undangenginna áratuga sýni að hið almenna stoðkerfi og hlutir af því tagi sem ég hef verið að tala hér um nýtast ekki brothættustu samfélögunum sem skyldi. Það er hin nýja skilgreining Byggðastofnunar. Ég fagna því að stuðningur sé við að styðja Byggðastofnun (Forseti hringir.) og gera henni kleift að vera fullgildur þátttakandi í aðgerðum á sértækum grunni gagnvart þessum varnarsvæðum sem nú er verið að skilgreina, (Forseti hringir.) við getum þar nefnt Raufarhöfn og fleiri sem hér hefur borið á góma.