141. löggjafarþing — 70. fundur
 24. janúar 2013.
stimpilgjald, 1. umræða.
frv. RR o.fl., 294. mál (afnám gjalds vegna kaupa á íbúðarhúsnæði). — Þskj. 327.

[13:31]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978, með síðari breytingum, afnám stimpilgjalda vegna kaupa á íbúðarhúsnæði einstaklings.

Þetta frumvarp var lagt fram á haustþingi í október 2012 og er að koma til 1. umr. í lok janúar. Flutningsmenn ásamt mér að þessu frumvarpi eru þingflokkur Sjálfstæðisflokksins eins og hann var þegar frumvarpið var lagt fram, en þá sat Arnbjörg Sveinsdóttir á þingi fyrir Tryggva Þór Herbertsson og Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir fyrir Einar K. Guðfinnsson.

1. gr. þessa frumvarps hljóðar svo:

„Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. a laganna:

a. Orðið „fyrstu“ í 1. mgr. fellur brott.

b. 2. mgr. orðast svo: Skilyrði niðurfellingar skv. 1. mgr. eru að kaupandi íbúðarhúsnæðis, og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali, sé þinglýstur eigandi að a.m.k. helmingi eignarhluta í þeirri fasteign sem keypt er og að lánsfjárhæð sú sem fram kemur í hinu stimpilfrjálsa skjali skuli einvörðungu ætluð til fjármögnunar kaupa á viðkomandi fasteign.

c. 4. og 5. mgr. falla brott.

d. Í stað orðanna „séu uppfyllt“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: sé uppfyllt.

e. Í stað orðanna „skulu eftirfarandi gögn liggja fyrir“ í 2. málsl. 6. mgr. kemur: skal liggja fyrir afrit af þinglýstum kaupsamningi, afsali eða annarri eignarheimild vegna fasteignar sem hið stimpilfrjálsa skjal er gefið út til fjármögnunar kaupa á.

f. A–c-liðir 6. mgr. falla brott.

g. Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi: Þrátt fyrir ákvæði 24. og 26. gr. skal, þegar fasteignaveðskuldabréf einstaklings er endurnýjað með nýju fasteignaveðskuldabréfi sem kemur í stað þess eldra, að hluta eða öllu leyti, ekki greiða stimpilgjald af þeim hluta nýja fasteignaveðskuldabréfsins sem svarar til uppreiknaðs virðis eldra fasteignaveðskuldabréfsins ásamt vanskilum.“

2. gr.:

„Ákvæði til bráðabirgða III í lögunum fellur brott.“

3. gr.:

„Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013 og taka til skjala sem eru gefin út frá þeim tíma.“

Virðulegur forseti. Þess ber að geta að þetta frumvarp er lagt fram í október 2012 þannig að 3. gr. um að lögin öðlist gildi 1. janúar 2013 stenst ekki og verður því hv. efnahags- og viðskiptanefnd að íhuga að breyta gildistöku laganna afgreiði hún málið úr nefnd. Ég vil þó geta þess að í gildandi lögum nr. 36/1978 er kveðið á um tímabundið gildissvið þeirrar reglu að stimpilgjald vegna kaupa á fyrstu íbúð verði undanþegin stimpilgjaldi. Sú regla féll úr gildi þann 31. desember 2012 og þá er það væntanlega þannig að þeir sem hafa keypt íbúðir í janúar 2013 hafa þurft að greiða fullt stimpilgjald hvort sem um var að ræða kaup á fyrstu íbúð eða ekki vegna þess að engin breyting hefur komið fram á gildandi lögum fram til þessa.

Frumvarpið var áður lagt fram á 140. löggjafarþingi. Það var þá á þskj. 654, mál. nr. 415 og nú er það lagt fram að nýju lítið breytt. Með frumvarpinu eru tekin fyrstu skref í afnámi stimpilgjalda, þessa óverjandi skatts sem lagður er á fólk og fyrirtæki sem taka lán í formi veðskuldabréfa. Í október árið 2012 var þess getið í blöðum, m.a. í Fréttablaðinu , að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hygðist afnema stimpilgjöld vegna athugasemdar ESA sem telur þau neytendum í óhag. Þá var boðað frumvarp sem átti að koma fram um miðjan október en við erum nú stödd hér 24. janúar og enn bólar ekkert á frumvarpi ríkisstjórnarinnar um afnám stimpilgjalda, hvorki í skrefum né að fullu eins og athugasemdir ESA segja til um. Þetta er til marks því að í þessum sal hefur margoft verið talað um að í raun sé ríkisstjórnin sjálf lítið sem ekkert að gera fyrir skuldug heimili í landinu, en eigni sér ýmislegt sem falli til vegna dómsmála einstaklinga eða fyrirtækja vegna gengistryggða lána sem dæmd voru ólögleg í Hæstarétti.

Ég vil taka þetta sérstaklega fram því að ég fór hér í umræðu um störf þingsins í október þegar lá fyrir að ríkisstjórnin hygðist koma fram með frumvarp í þá veru að afnema eða breyta frumvarpi til laga um stimpilgjöld, en nú í janúar höfum við ekkert séð í þeim efnum. Ljóst var þegar fjárlagafrumvarpið var afgreitt frá Alþingi í desember að ekki stóð til að breyta þessum óverjandi skatti á nokkurn hátt því meiri hlutinn telur sig geta innheimt allt að 4 milljarða í stimpilgjöldum árið 2013 samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Ég sé að formaður efnahags- og viðskiptanefndar er kominn í salinn og ég fagna því.

Eins og ég sagði þá eru fyrstu skrefin í afnámi stimipilgjalda tekin með þessu frumvarpi. Lagt er til að stimpilgjöld vegna kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði til eigin nota verði afnumin, ekki bara á fyrstu íbúð heldur almennt afnumin. Að mati flutningsmanna hníga augljós rök að því að auðvelda einstaklingum að koma sér þaki yfir höfuðið og við teljum að ekki eigi að nýta slík viðskipti til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.

Nú munu sjálfsagt ýmsir ræða það að sá flokkur sem ég sit á þingi fyrir hafi ráðið hér ríkjum frá 1991–2007 og lítið beitt sér í þessum málum. Það er svo, en það breytir því ekki að sú sem hér stendur telur að þessi breyting þurfi að eiga sér stað og meðflutningsmenn að þessu frumvarpi einnig. Í 35. gr. a í lögunum um stimpilgjald, nr. 36/1978, er nú kveðið á um að kaupandi íbúðarhúsnæðis til eigin nota skuli undanþeginn stimpilgjaldi við fyrstu kaup. Ég held að þessi undanþága hafi runnið út 31. desember 2012. Við teljum rétt að víkka út það ákvæði þannig að það taki til allra almennra kaupa einstaklinga á íbúðarhúsnæði til eigin nota, ég ítreka, íbúðarhúsnæði til eigin nota. Ég tel að þetta sé einfaldlega einstaklingum til hagsbóta og að þetta auðveldi mörgum að breyta þeim lánum sem þeir eru með í dag, þurfi þeir ekki að greiða það stimpilgjald sem við erum að ræða og kem að því síðar.

Þó er lagt til að áfram þurfi það skilyrði að vera uppfyllt að kaupandi íbúðarhúsnæðis og skuldari samkvæmt hinu stimpilfrjálsa skjali sé þinglýstur eigandi a.m.k. helmingi eignarhluta í þeirri fasteign sem keypt er. Jafnframt, og það er ekki síður mikilvægt, er lagt til að endurfjármögnun lána vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota verði varanlega undanþegin stimpilgjaldi, en í gildandi lögum er kveðið á um tímabundið gildissvið þessarar reglu, þ.e. að hún gildi til 31. desember 2012. Að endurfjármögnun lána verði varanlega undanþegin stimpilgjaldi telja flutningsmenn afar mikilvægt á þeim tímum sem við erum nú á, bæði þegar bjóðast óverðtryggð lán og einnig þegar mismunandi fjármálastofnanir bjóða ólík tilboð, ef við megum segja svo, fyrir einstaklinga til að skuldbreyta lánum sínum. Þegar eru margir sem leita leiða til skuldbreytinga og íhuga að breyta úr verðtryggðu í óverðtryggt. Eðlilegt er að fólk hafi tækifæri til að skoða tilboð frá fjármálafyrirtækjum og beina viðskiptum sínum þangað sem þeir telja að kjörin bjóðist best, en í dag stendur stimpilgjaldið í vegi fyrir því. Þess vegna eru lagðar til breytingar á 35. gr. a þessu til samræmis.

Af veðskuldabréfum og tryggingabréfum, þegar skuld ber vexti, ber að greiða 1,5% stimpilgjald af fjárhæð bréfs. Af afsölum, kaupsamningum og öðrum yfirfærslugjörningum um fasteign greiðist 0,4% stimpilgjald af fasteignamati eignar að lóðaréttindum eignar meðtöldum. Það er því ljóst að afnám þessara gjalda, sem geta muni umtalsverðum fjárhæðum, er til augljósra hagsbóta fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Ég treysti því að hv. efnahags- og viðskiptanefnd líti þetta mál jákvæðum augum og til hagsbóta fyrir neytendur, fólkið í landinu og skuldara í eigin húsnæði sem hugsanlega vilja skuldbreyta lánum sínum með einum eða öðrum hætti.

Ég ítreka að í frumvarpinu er lagt til að gildistakan verði 1. janúar 2013 og gildi um skjöl sem gefin eru út á þeim tíma. Það er ljóst að hv. efnahags- og viðskiptanefnd þarf að sjálfsögðu að breyta dagsetningu gildistöku þessara laga. Ég segi þegar þau verða að lögum því ég trúi ekki að hv. efnahags- og viðskiptanefnd sé ekki reiðubúin í þessar breytingar til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Hún gæti hugsanlega horft til þess að gildistakan verði 1. apríl 2013. Það er þá hæfilegur tími fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að kanna málið, kalla inn umsóknir, ræða málið og bera það síðan undir Alþingi.

Samhliða er lagt til að ákvæði til bráðabirgða III í lögunum falli brott, þar sem kveðið er á um tímabundið gildissvið sambærilegs ákvæðis um að endurfjármögnun lána verði undanþegið stimpilgjaldi. Ég ítreka að þetta er mikilvægt og að þetta bráðabirgðaákvæði gilti til 31. desember 2012, því hefur mér vitanlega ekki verið breytt. Flutningsmenn telja mikilvægt að þessi regla verði varanleg og gildi um fasteignaveðbréf sem koma í stað eldra bréfs að hluta eða öllu leyti. Ég held að það sé nokkuð skýrt hvað fyrir flutningsmönnum vakir með þessum breytingum á lögum um stimpilgjald, nr. 36/1978.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til efnahags- og skattanefndar til umfjöllunar og ég treysti því að í hv. efnahags- og viðskiptanefnd sitji einstaklingar sem eru tilbúnir að breyta lögunum frá 1978 eins og hér er lagt til. Það er til hagsbóta fyrir neytendur og til þess að koma í hægum skrefum til móts við athugasemdir ESA um að stimpilgjald eins og það er innheimt hér á landi sé í andstöðu við það sem ESA hefur kveðið upp um.



[13:46]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður þarf ekkert að afsaka þátt Sjálfstæðisflokksins í þessu máli því hann stóð fyrir fjöldamörgum skattalækkunum á þeim 18 árum sem Sjálfstæðisflokkurinn veitti ríkisstjórn forgöngu og ég ætla ekki einu sinni að byrja að telja allar þær skattalækkanir upp. Eignarskatturinn hvarf, tekjuskattur einstaklinga var lækkaður o.s.frv. sem leiddi til þess að atvinnulífið blómstraði og ég tel að þessi skattur hafi orðið út undan þegar menn voru að slátra sköttum. Að sjálfsögðu hefði hann átt að fara því hann er ekki bara skattur á kaup einstaklinga á íbúðum, sem er alveg furðulegur ef menn þurfa að byrja á því að borga ríkinu ef þeir ætla að kaupa sér þak yfir höfuðið, heldur hamlar þetta líka mjög samkeppni á milli fjármálafyrirtækja og gerir það eiginlega ómögulegt að skipta um. Þótt búið sé að liðka dálítið til er það engu að síður mjög samkeppnishamlandi að borga skatta af skuldabréfum.

Nafnið sjálft gefur til kynna hvað þetta er fornfálegur skattur. Þetta heitir stimpilgjald, þ.e. skjöl voru stimpluð með raunverulegum stimpli og ég meira að segja upplifði það á sínum tíma að vera að stimpla 100–300 skjöl og það var gífurleg vinna. Síðan hefur stimplunin sem betur fer horfið en nafnið situr eftir til merkis um það hversu fornfálegur skatturinn er.



[13:48]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var ekki að afsaka Sjálfstæðisflokkinn á nokkurn hátt. Ég var einfaldlega að benda á að þrátt fyrir allar þær skattbreytingar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir í gegnum tíðina hefur hann ekki staðið fyrir afnámi stimpilgjalda og gjöldin hafa verið við lýði frá 1978. Það segir okkur einfaldlega að við endurskoðun skattkerfisins í heild sinni af hálfu Sjálfstæðisflokksins hefði mátt taka stimpilgjöldin með.

Ég sagði þetta einfaldlega vegna þess að það er stundum sagt að flytji maður frumvarp eða þingsályktunartillögu hafandi verið þingmaður í stuttan tíma beri maður ábyrgð á því sem flokkurinn sem maður situr á þingi fyrir gerði sl. 80 ár eða svo og talað um að flokkurinn hafi ekki beitt sér fyrir þessu eða hinu. Með nýju fólki koma ný viðhorf og samfélagið breytist einnig og ég held að það sé tímabært akkúrat nú að við skoðum hvort ekki sé hægt að taka þessi skref. Ég geri mér grein fyrir því að þau þurfi að taka hægt og bítandi. Það er væntanlega ekki hægt að afnema stimpilgjöld einn, tveir og þrír nema maður komi með tillögu á móti um hvernig ríkissjóður eigi að geta aflað 4 milljarða kr. samkvæmt fjárlögum, en ég held að þetta sé skref í þá átt að fella niður stimpilgjöld eins og okkur ber í raun og veru að gera samkvæmt niðurstöðu ESA.



[13:50]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu eru flokkar alltaf háðir þeim tíma sem þeir lifa á og eins hv. þingmenn þannig að menn taka afstöðu til mála á grundvelli þess tíma sem þau eru lögð fram. Nú eru erfiðleikar hjá ríkissjóði og hart í ári en það má færa rök fyrir því að afnám stimpilgjalda muni auka umsvif á þessu sviði og jafnvel auka umsvif á byggingarmarkaði sem gefur ríkissjóði svo aftur tekjur í gegnum vörugjöld, tolla, tekjur iðnaðarmanna og annað slíkt. Þegar upp er staðið kynni að vera að þær tekjur, aukin umsvif vegna lækkunar eða þessa afnám hemils — þetta er hemill á viðskipti með fasteignir — kunni að greiða það tap sem ríkissjóður verður fyrir út af þessari breytingu.



[13:51]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta innlegg. Það er ein röksemdin fyrir því að það ætti að vera auðveldara að afnema þessi stimpilgjöld og þá í skrefum hvað varðar kaup á húsnæði til eigin nota. Ég vænti þess að hv. þingmaður, sem er meðflutningsmaður að þessu frumvarpi, beiti sér fyrir því í hv. efnahags- og viðskiptanefnd að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi.



[13:51]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vegna orða hv. þm. Péturs H. Blöndals er rétt að taka fram að sjaldan eða aldrei í sögu Íslands hafa skattar verið hærri en í tíð Sjálfstæðisflokksins hvort sem mælt er í dollurum, evrum, sambærilegu verðlagi eða sem hlutfall af landsframleiðslu. Þó að einstaka skattstofnar hafi verið afnumdir var öðrum bara haldið þess hærri í staðinn.

Ég vil hins vegar þakka hv. þingmanni, 1. flutningsmanni þess máls sem hér er til umræðu, kærlega fyrir flutning þess. Það er nú þannig að jörðin snýst og frá því að málið var flutt 24. október sl. hafa orðið nokkrar breytingar í þessu umhverfi í tengslum við samþykkt á ráðstöfunum í ríkisfjármálum úr efnahags- og viðskiptanefnd í desembermánuði sl. Þá var tekið á tveimur þáttum sem nefndir eru í þessu frumvarpi, annars vegar því að endurfjármögnun að hluta er jafnframt undanþegin stimpilgjaldi en ekki aðeins endurfjármögnun í heild og hins vegar á öðru atriði sem laut að því að það ákvæði var, eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, tímabundið til 31. desember 2012. Það var tillaga Stjórnarráðsins að framlengja það sem tímabundið ákvæði en niðurstaða efnahags- og viðskiptanefndar var að gera ákvæðið varanlegt og það er nú varanlegt þannig að þeim áföngum er náð og góð samstaða um það í nefndinni. Ég þakka hv. þingmanni og öðrum flutningsmönnum fyrir að hafa vakið athygli á þeim atriðum.

Þriðja atriðið er að þegar ég kann að kaupa mér aðra íbúð einhvern tíma seinna á lífsleiðinni verð ég undanþeginn stimpilgjöldum. Ég held að það sé út af fyrir sig eftirsóknarvert að afnema þá skattlagningu í framtíðinni en meðan ríkissjóður er rekinn með tapi og við söfnum skuldum á komandi kynslóðir held ég að það sé ekki svigrúm til að taka það skref núna þótt ég styðji það efnislega.



[13:53]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að deila við hv. þm. Helga Hjörvar um hvort skattar hafi verið hærri eða lægri á tímum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur eða á tímum Sjálfstæðisflokksins. Það er hins vegar alveg ljóst að skattstofnar á tímum Sjálfstæðisflokksins stækkuðu hér til muna. Það hafa þeir ekki gert í tíð núverandi ríkisstjórnar en málið snýst ekki um það.

Ég þakka hv. þingmanni þær upplýsingar sem hann veitir hér, það hefur þá einfaldlega farið fram hjá mér í þeim stjórnarráðstillögum sem voru lagðar fram og ég fagna því að það sé komið fram. Mig langar samt að spyrja hv. þingmann um þau skref sem stigin voru með fjárlagafrumvarpinu og sem engu að síður gera ráð fyrir 4 milljörðum í ríkissjóð með stimpilgjaldinu eða vegna stimpilgjaldanna. Telur hann að þær greinar sem hann nefnir og komið hafa fram — þetta er að hluta til endurfjármögnunin, hún er frí stimpilgjalds — hafa þau skref sem þar voru stigin í raun komið til móts við athugasemdir ESA og það sem ríkisstjórnin sagði, að hún mundi í október leggja fram frumvarp sem tæki á stimpilgjöldum samkvæmt athugasemd ESA? Er það virkilega svo að núna þegar við erum alltaf að fjalla um skuldavanda heimilanna, og þetta er einn þáttur sem gæti auðveldað heimilunum í landinu í sínum skuldavanda, ætlum við enn að segja að það sé vegna þess að ríkissjóður er svo illa staddur að við getum ekki gert þetta á sama hátt og við ætlum okkur að taka inn arð af fyrirtækjum til að leggja í rekstur og setja 500 milljónir í að hjálpa Reykjavíkurborg að kaupa Perluna? Við getum eytt í slíkan óþarfa en ekki afnumið stimpilgjöld fjölskyldum og einstaklingum í landinu til hagsbóta. Ég trúi því ekki, virðulegi forseti, að ég hafi skilið hv. þingmann rétt.



[13:56]
Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekkert eðlilegra en að þetta hafi farið fram hjá hv. þingmanni því að frumvörpin um ráðstafanir í ríkisfjármálum eru auðvitað mjög margþætt, snerta á margri löggjöfinni og í raun og veru aðeins á færi nefndarmanna sem fjalla um það mál að hafa yfirsýn yfir á hvaða atriðum er tæpt þar. Auk þess koma frumvörpin um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem kunnugt er oft og einatt til afgreiðslu í þingsölum seint á kvöldin eða jafnvel á næturnar í önnum fyrir jól og ýmislegt sem þar fer fyrir ofan garð og neðan. Það er bara gott að þessum áföngum er náð og þeir snúa að endurfjármögnuninni og þeim vandkvæðum sem hv. þingmaður benti á, m.a. fyrir skuldsett heimili.

Ég held hins vegar að það sé ekki röksemdin fyrir því að við sem höfum keypt okkar fyrstu íbúð og erum síðan einhvern tíma síðar á ævinni að skipta um íbúð og taka til þess ný lán en ekki að endurfjármagna, þurfum ekki við slík viðskipti að greiða sömu gjöld og menn hafa þurft að gera í áratugi. Ég held að enn þurfi sá háttur að vera á um sinn, því miður, vegna hinnar slæmu stöðu sem ríkissjóður er í. Ég tek undir það með hv. þingmanni að um leið og hagur strympu vænkast, ég er bjartsýnn maður og tel fulla ástæðu til að ætla að það verði á allra næstu missirum, eigi að nota tækifærið og hverfa alfarið frá þessari skattlagningu en ekki bara af endurfjármögnuninni og af kaupum á fyrstu íbúð.



[13:57]
Flm. (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að fagna síðustu orðum hv. þingmanns þar sem hann sagði að það ætti að falla alfarið frá þessari skattheimtu því að auðvitað er þetta ekkert annað en skattur og hann er ósanngjarn. Ég tek því undir orð hv. þm. Helga Hjörvars og fagna þeim þegar hann segir að til lengri tíma litið eigi að fella skattinn niður.

Ég held hins vegar, og það er mín bjargfasta skoðun, að við eigum að leita leiða til að afnema þá skatta sem við fáum líka athugasemdir við frá ESA, hvernig við getum afnumið þá og af hverju. Hv. þingmaður svaraði reyndar ekki spurningu minni sem var þess eðlis hvort hann teldi að þau skref sem stigin voru hér í desember hafi komið til móts við ESA. Ég tel að svo sé ekki og við þurfum að leita leiða til þess að fella brott stimpilgjöldin. Mér finnst við hljóta að geta skoðað forgangsröðun okkar í því hvernig við förum með fjármuni. Ef við viljum fara með fjármuni ríkisins þannig að við viljum koma til móts við heimilin þurfum við einhvern veginn að draga úr útgjöldum ríkisins um 4 milljarða til að geta afnumið stimpilgjöldin. Mér finnst það vera leið sem við eigum að íhuga og huga að. Miðað við margt annað sem við höfum gert á undanförnum árum er það alveg jafnbrýnt og til hagsbóta fyrir fólkið í landinu eins og margt annað sem telst brýnt fyrir fólkið í landinu. Við þurfum ekkert að takast á um það hverjir sitja í ríkisstjórn hverju sinni, þetta er óverjandi skattur að áliti flestra og við þurfum að sameinast um að afnema hann, því fyrr því betra.



[13:59]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Þessi stutta en snarpa umræða um framsöguræðu fyrsta flutningsmanns þessa máls, hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, kom inn á mörg mál. Ég vildi gjarnan ræða það sem hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði, að skattar hefðu verið miklu hærri þegar Sjálfstæðisflokkurinn veitti ríkisstjórn forgöngu. Það er rétt, skatttekjurnar voru miklu hærri en skattarnir voru lægri. Skatttekjurnar uxu svona mikið vegna þess að skattstofnarnir stækkuðu þegar skattarnir lækkuðu.

Það er það sem alltaf er verið að halda fram. Hækkun skatta getur lækkað tekjur ríkissjóðs og öfugt, lækkun skatta getur aukið tekjur ríkissjóðs. Hér ræðum við skatt, stimpilgjald, sem er hemill, hann er verulegur hemill á viðskipti með fasteignir vegna þess að menn borga 150 þús. kr. fyrir hverjar 10 millj. kr. sem þeir taka að láni til að kaupa íbúð þannig að fólk borgar 450 þúsund fyrir 30 millj. kr. lán, þeir sem kaupa sína aðra íbúð, fyrri eignin gæti verið pínulítil eign sem þeir keyptu einhvern tíma fyrir langalöngu og seldu. Þetta er því hemill og ég er viss um að ef hemillinn er tekinn af og ef markaðurinn færi í gang mundi hann enda hjá byggingaraðilum þar sem atvinna skapast við að byggja íbúðir.

Hver einasti maður sem er á atvinnuleysisbótum kostar ríkissjóð 4 millj. kr. miðað við það að hann væri vinnandi og borgaði skatta. Annars vegar kostar það að borga honum bætur og hins vegar borgar hann skatta. Það eru 4 millj. kr. á hvern einasta atvinnuleitandi mann. Það þyrftu ekki nema þúsund manns að fá vinnu á hverju ári í byggingariðnaðinum, þá er búið að borga skattinn, þá koma meiri skatttekjur þar inn og minni upphæðir í atvinnuleysisbætur og eitt þúsund manns fær vinnu og verður hamingjusamara, því að það er ömurlegt, herra forseti, að vera atvinnulaus, ömurlegt.

Það má vel vera að frumvarpið borgi sig, og ég held að nefndin ætti að skoða það þegar þar að kemur, í því að tekjur ríkissjóðs vaxa — ekki útgjöldin, það þarf ekki að lækka þau, tekjurnar vaxa í öðrum sköttum, virðisaukaskatti, tekjuskatti o.s.frv., tollum og vörugjöldum. Smáblóð í líkamann gefur ríkissjóði tekjur, ef blóðið í atvinnulífinu fer að hreyfast pínulítið.

Þetta er því hemill og hann er mjög skaðlegur, hann er mjög ónáttúrulegur, þetta er ónáttúrulegur hemill á íbúðarkaup og á verðbréfaviðskipti yfirleitt. Menn hafa fundið upp alls konar aðferðir til að komast fram hjá því en engu að síður er þetta mjög sterkur hemill og kemur í veg fyrir samkeppni þó að menn hafi gripið til ýmissa ráða til þess að minnka það, sérstaklega núna fyrir áramót, þá voru gerðar nokkrar góðar ráðstafanir. En þetta er engu að síður hemill á samkeppni milli banka vegna þess að ef maður ætlar að taka lán hjá öðrum banka og skipta yfir og ekki er beint samhengi þar á milli þannig að maður geti notað þær heimildir sem voru veittar fyrir áramót, er það mjög erfitt.

Ég ætla að nefna dæmi sem ég rakst um daginn. Sett voru lög árið 2009, að mig minnir, um að þeir sem kaupa sína fyrstu íbúð eigi að vera stimpilgjaldsfrjálsir. Ég þekki dæmi um sambýlisfólk þar sem annað tekur lán eða þau taka bæði lán. Annað hefur aldrei keypt áður, hitt á íbúð fyrir. Þá er vinnureglan sú með vísan í lögin, sem sýnir það að lögin eru ekki rökrétt, að sá aðili sem ekki hafði keypt íbúð áður fær helminginn af stimpilgjaldinu frádregið vegna þess að gert er ráð fyrir því að makinn, sem átti íbúð áður, borgi. Allt í lagi, það er sanngjarnt. En sá sem átti íbúð áður og tekur lán þarf að borga fullt gjald. Þannig eru lögin túlkuð og þannig lesa menn lögin þannig að það er galli í lögunum. Auðvitað ætti líka að vera skipt til helminga þar vegna þess að sá sem ekki átti íbúð fyrir borgar af því láni. Þarna er ekki jafnræði á milli sambýlisfólksins. Auðvitað þyrfti nefndin að skoða það í leiðinni þegar hún fær það gullna tækifæri að ræða um stimpilgjald af íbúðarkaupum þegar frumvarpið kemur til nefndarinnar.



[14:05]
Valgeir Skagfjörð (Hr):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og þakka fyrir fram komið frumvarp hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um afnám stimpilgjalds, ég held að það sé hið besta mál.

Ýmis gjöld og skattar eru til komnir oft og tíðum af góðum og gildum ástæðum, vegna aðstæðna í samfélaginu og í viðskiptaumhverfi og annars slíks. Stundum virðast mannanna verk, hvort sem það eru ákvarðanir um gjöld eða eitthvað annað, verða að einhvers konar náttúrulögmáli. Stimpilgjald er mannanna verk og fyrst hægt var að taka ákvörðun um að afnema stimpilgjald af fyrstu íbúð sé ég ekki annað en að jafneinfalt sé að taka ákvörðun um að afnema stimpilgjald með öllu.

Það er óréttlátur skattur, eins og fram hefur komið, ég er sammála því. Ég vona það að frumvarpið nái fram að ganga og verði að lögum og að þessi óréttláti skattur verði hreinlega aflagður. Við vitum að við erum með dýrustu lán í heimi og byrðar heimilanna eru nægar fyrir. Afnám stimpilgjalds yrði mikil búbót fyrir heimilin. Besta kjarabótin yrði auðvitað sú að afnema verðtryggingu þessara sömu lána.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til efh.- og viðskn.