153. löggjafarþing — 97. fundur
 24. apríl 2023.
Mennta- og skólaþjónustustofa, 1. umræða.
stjfrv., 956. mál. — Þskj. 1492.

[17:29]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarp til laga um Mennta- og skólaþjónustustofu á þskj. 1492, mál nr. 956.

Frumvarpið byggir á menntastefnu til ársins 2030 sem var unnin í víðtæku samráði við hagsmunaaðila og samþykkt hér á Alþingi árið 2021. Mikilvægur þáttur í menntastefnunni er uppbygging heildstæðrar skólaþjónustu um land allt þvert á skólastig. Þessi aðgerð er hluti af markmiðum og innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna í skólum sem við ræddum í fyrra máli.

Í samræmi við þessa stefnumótun hef ég í hyggju á næsta löggjafarþingi að leggja fram frumvarp til nýrra heildarlaga um skólaþjónustu. Löggjöfinni er ætlað að mæta skýru ákalli, sem komið hefur fram í samráði undanfarinna ára, um frekari og markvissari stuðning og ráðgjöf inn á vettvang skólans, fjölbreyttari fagþekkingu, fleiri úrræði og öflugri skólaþjónustu sem getur veitt stuðning inn í skólana, til foreldra og barna.

Í vetur höfum við átt í víðtæku samráði um allt land um nýja skólaþjónustu. Að þessu samráði hafa komið mörg hundruð einstaklingar, stjórnendur, fagfólk með fjölbreyttan bakgrunn, foreldrar og börn. Einstök efnisatriði frumvarpsins liggja ekki enn fyrir en unnið er að útfærslu þeirra í því samráði sem nú fer fram.

Í þessu samráði hefur þó komið skýrt fram að ný skólaþjónusta verður ekki að veruleika nema til staðar sé öflugur miðlægur aðili sem styður við skólaþjónustu. Þetta hefur jafnframt legið fyrir frá árinu 2021 þegar menntastefnan var samþykkt hér á Alþingi.

Meðal annars til að svara þessu ákalli mæli ég hér fyrir frumvarpi til laga um nýja stofnun, sem lagt er til að fái nafnið Mennta- og skólaþjónustustofa. Stofnun sem á að verða öflugur, faglegi og miðlægi aðili sem styður m.a. við skólaþjónustu um land allt.

Í frumvarpinu fellst jafnframt að Menntamálastofnun í núverandi mynd verður lögð niður. Sú sýn að miðlæg stofnun ríkisins eigi að vera þjónustustofnun við skólasamfélagið fellur ekki að hlutverki og verkefnum núverandi Menntamálastofnunar. Í frumvarpinu er því lagt til að hluti verkefna Menntamálastofnunar verði færður í nýja stofnun þar sem þau verða endurskilgreind með hliðsjón af nýjum markmiðum stofnunarinnar. Öðrum verkefnum Menntamálastofnunar, einkum stjórnsýslu- og eftirlitsverkefnum, verður komið fyrir annars staðar í stjórnsýslunni, þar á meðal í mennta- og barnamálaráðuneyti.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef þegar komið að er nýrri Mennta- og skólaþjónustustofu ætlað að vera þjónustu- og þekkingarmiðstöð á sviði fræðslu- og menntamála. Samkvæmt frumvarpinu á hún að starfa í þágu barna og ungmenna í samræmi við lög, stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið.

Í frumvarpinu er kveðið á um markmið með starfsemi Mennta- og skólaþjónustustofu. Þau eru m.a. að styðja við þroska, líðan og farsæld barna og ungmenna þegar kemur að skóla- og frístundastarfi, styðja við rétt barna og ungmenna til gæðamenntunar og skólaþjónustu og samhæfa skóla- og frístundastarf og skólaþjónustu, stuðla að jöfnuði og vera faglegt forystuafl og bakhjarl í skóla- og frístundastarfi og skólaþjónustu þvert á skólastig.

Í frumvarpinu er lagt upp með að marka ákveðinn ramma utan um verkefni nýrrar Mennta- og skólaþjónustustofu. Í frumvarpinu er fjallað um þessi verkefni í nokkrum liðum. Um er að ræða yfirgripsmikil og fjölbreytt verkefni sem öll eiga það sameiginlegt að fela í sér stuðning við skólasamfélagið.

Í frumvarpinu er fjallað um að Mennta- og skólaþjónustustofa fái skilgreint hlutverk við að styðja og efla menntun og skólastarf og styðja við skólaþróun. Verkefnið felur í sér að Mennta- og skólaþjónustustofa styðji við skóla og starfsfólk skóla og efli í hlutverkum sínum. Stuðningurinn nær til leik-, grunn- og framhaldsskóla. Þetta gerir stofnunin m.a. með ráðgjöf, leiðsögn, námskeiðum og útgáfu leiðbeininga og fræðsluefnis. Stofnuninni er jafnframt ætlað sambærilegt stuðningshlutverk þegar kemur að frístundastarfi í landinu.

Eins og ég fjallað um í upphafi ræðu minnar er lagt til í frumvarpinu að Mennta- og skólaþjónustustofa fái leiðandi hlutverk þegar kemur að skólaþjónustu á Íslandi. Hér er horft til þeirrar framtíðarsýnar að nýtt fyrirkomulag skólaþjónustu verði lögfest á næsta löggjafarþingi. Gert er ráð fyrir að þá geti Mennta- og skólaþjónustustofa tekið að sér framkvæmd skólaþjónustu, eða ákveðinna þátta hennar, eins og því verður nánar lýst í nýjum lögum um skólaþjónustu. Frumvarpið tekur þó mið af því að þangað til að nýju fyrirkomulagi verður komið á fót muni Mennta- og skólaþjónustustofa starfa innan ramma skólaþjónustu í gildandi lögum, en í lögum um leikskóla og lögum um grunnskóla er skólaþjónusta skilgreind sem stuðningur við börn og fjölskyldur og stuðningur við starfsemi skóla og starfsfólk þeirra, og framkvæmd af sveitarfélögunum.

Með frumvarpinu er lagt til að Mennta- og skólaþjónustustofa fái verkefni sem tengjast námsgögnum og varða útgáfu námsgagna og stuðning við skóla við notkun námsgagna. Við höfum hafið vinnu við frekari endurskoðun á fyrirkomulagi útgáfu námsgagna sem gert er ráð fyrir að fari fram nú á síðari hluta yfirstandandi kjörtímabils í samræmi við þau markmið sem koma fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og menntastefnu til ársins 2030. Er því gert ráð fyrir að það fyrirkomulag, sem fjallað er um í frumvarpi þessu um útgáfu námsgagna, muni taka breytingum fyrir lok þessa kjörtímabils.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að innan Mennta- og skólaþjónustustofu fari fram uppbygging og utanumhald með aðferðum og úrræðum fyrir skóla sem styðja við skólastarf og skólaþjónustu. Hér er átt við ýmis gæðaviðmið, verkferla, verkfæri, matstæki og önnur tæki til skimana og athugana á einstaklingum eða hópum. Í mennta- og barnamálaráðuneytinu er nú unnið að nýrri stefnu um námsmat og mun Mennta- og skólaþjónustustofa m.a. halda utan um afurð þeirrar vinnu. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að Mennta- og skólaþjónustustofa veiti faglegan stuðning og leiðsögn, m.a. við gerð innra mats, framkvæmd og eftirfylgni umbótaáætlana vegna ytra mats.

Í frumvarpinu er lagt til að Mennta- og skólaþjónustustofa styðji innleiðingu stefnumótunar stjórnvalda á sviði menntunar og farsældar barna og ungmenna og aðalnámskráa. Með því að fela Mennta- og skólaþjónustustofu þetta innleiðingarhlutverk í lögum eru væntingar um markvissari eftirfylgni með stefnumótun. Hefur þetta mikla þýðingu þegar kemur að fyrirhuguðum breytingum á skólaþjónustu þvert á skólastig.

Í frumvarpinu er jafnframt fjallað um fleiri verkefni Mennta- og skólaþjónustustofu, þar á meðal rannsóknir og skipulag fræðslu, en um þau vísa ég til frumvarpsins og umfjöllunar í greinargerð þeirri sem fylgir því.

Virðulegi forseti. Eins og ég fjallaði um fyrr í ræðu minni miða verkefni nýrrar Mennta- og skólaþjónustustofu að því að hún verði hreinræktuð þjónustustofnun sem styður við skóla, sveitarfélög og stofnanir um land allt. Þetta kallar á endurskoðun ýmissa verkefna á sviði menntamála, einkum þeirra sem Menntamálastofnun hefur nú með höndum.

Í frumvarpinu er því m.a. lagt til að öll söfnun, greining og miðlun upplýsinga um börn og ungmenni á sviði mennta- og fræðslumála á málefnasviði mennta- og barnamálaráðuneytis verði í höndum ráðuneytisins. Breytingarnar munu stuðla að heildaryfirsýn yfir farsæld barna hér á landi með heildstæðri og samræmdri gagnaöflun sem nær til allra málaflokka ráðuneytisins. Unnið er að því að verkefni tengd söfnun, greiningu og miðlun upplýsinga um farsæld barna verði endurskipulögð að fullu innan ráðuneytisins og erum við með áform um að leggja fram frumvarp til laga um gagnaöflun um farsæld barna á næsta löggjafarþingi. Í þessu felst að mennta- og barnamálaráðuneyti tekur við ábyrgð á alþjóðlegum greiningarverkefnum, t.d. PISA, frá Menntamálastofnun, auk annarra greiningarverkefna.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að eftirliti með skólastarfi, þar á meðal ytra mati sem Menntamálastofnun hefur séð um að framkvæma, verði komið fyrir í mennta- og barnamálaráðuneyti. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að leyfisveitingum og viðurkenningum verði almennt komið fyrir hjá viðkomandi ráðuneyti en slík verkefni eru nátengd eftirlitsverkefnum. Til framtíðar höfum við til skoðunar að koma eftirliti með skólastarfi og tengdum leyfisveitingum fyrir í eftirlitsstofnun sem eftir atvikum sinni jafnframt eftirliti með öðrum málaflokkum. Ég held að það séu talsverð tækifæri í því, jafnvel þvert á ráðuneyti, að eftirlitsverkefni þurfi ekki endilega að heyra undir stofnun sem er staðsett hjá viðkomandi ráðherra. Eftir breytingar sem urðu núna á málaflokkum ráðuneyta þá er eftirlit með ákveðnum þáttum barnaverndar enn þá hjá eftirlitsstofnun sem heyrir undir hæstv. félagsmálaráðherra og ég hef ekki séð neina meinbugi á því að það geti verið þannig áfram.

Virðulegi forseti. Eins og ég hef þegar komið að felst í frumvarpinu að Menntamálastofnun verður lögð niður. Ljóst er að starfsemi Mennta- og skólaþjónustustofu verður verulega frábrugðin starfsemi Menntamálastofnunar. Greiningarverkefni, ytra mat og ýmis stjórnsýsluverkefni, sem hafa verið veigamikill þáttur í starfsemi Menntamálastofnunar, flytjast til ráðuneytisins þar sem þau verða endurskipulögð að fullu. Nýjar áherslur leiða til þess að endurskoða þarf forgangsröðun og áherslur þegar kemur að verkefnum sem verða flutt frá gömlu Menntamálstofnun til nýrrar Mennta- og skólaþjónustustofu, þar sem aukin áhersla verður lögð á þjónustu, ráðgjöf og stuðning við skólakerfið þvert á skólastig. Mennta- og skólaþjónustustofa verður ný stofnun, þjónustustofnun en ekki stjórnsýslustofnun, sem þarfnast þess að vera byggð upp frá grunni.

Af þessu leiðir að hvorki er unnt að flytja störf frá Menntamálstofnun yfir í nýja stofnun og eftir atvikum til ráðuneytanna með yfirtöku ráðningarsamninga, né bjóða starfsfólki forgang að nýjum störfum. Er því engin önnur leið fær við niðurlagningu Menntamálastofnunar en að leggja öll störfin formlega niður. Ný störf hjá Mennta- og skólaþjónustustofu og mennta- og barnamálaráðuneyti verða síðan auglýst laus til umsóknar.

Hvað varðar fjárhagsáhrif frumvarpsins er rétt að fram komi að gert er ráð fyrir fjárhagsáhrifum fyrir ríkissjóð en uppskipting verkefna mun kalla á tilfærslur fjárheimilda Menntamálastofnunar til Mennta- og skólaþjónustustofu og mennta- og barnamálaráðuneytis.

Virðulegur forseti. Stórar kerfisbreytingar eins og þær sem felast í frumvarpi þessu og þeim áformum sem munu fylgja í framhaldinu taka tíma. Ég tel að mjög mikilvægt sé að það samstarf sem hefur skapast þvert á flokka í þingmannanefnd í málefnum barna, þar sem allir flokkar hafa komið að vinnunni með einum eða öðrum hætti, haldi áfram. Jafnframt skal það sagt algerlega skýrt hér að þingmenn sem tekið hafa þátt í vinnunni skulu halda áfram að vera gagnrýnir. Þó að þeir hafi tekið þátt í vinnunni og frumvarpið hafi orðið til í samstarfi þá þýðir það ekki að þegar fram koma nýjar upplýsingar og ný sjónarmið sé ekki hægt að hafa skoðun á þeim, svo því sé algerlega haldið til haga.

Ég tel mikilvægt að hefja uppbyggingu þessarar nýju stofnunar sem fyrst svo hún verði í stakk búin til að takast á við verkefni samkvæmt nýjum heildarlögum um skólaþjónustu. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar er fylgir með frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.



[17:42]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. ráðherra til hamingju með þetta frumvarp. Ég er algjörlega sammála því að það er kominn tími til að söðla um og gjörbreyta allri umgjörð í kringum menntamálin okkar. Ég veit að hæstv. ráðherra er ekki í öfundsverðri stöðu því að hún er vægast sagt hrikaleg. Um 38% 15 ára unglinga ná ekki grunnfærni í lesskilningi og stærðfræði. Þetta eru tölur frá UNESCO frá 2020. Um 34% drengja og 19% stúlkna lesa sér ekki til gagns eftir tíu ár í grunnskóla. Þetta er PISA-könnun frá 2018. Í lesskilningi skora börn norskra og danskra innflytjenda hærra en íslensk börn, og ég veit ekki hvort ég á að vera að koma með áframhaldandi tölur, þetta eru staðreyndar tölur, en það eru sem sagt 457 stig sem norsk og dönsk börn hafa í sinni færni, en 15 ára drengir á Íslandi eru þar mun lakari. Ég ætla ekki að eyða tímanum í tölurnar en ég ætla að segja að skýrsla innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar 2019 sýnir að 92,5% innflytjenda eru á rauðu og gulu ljósi íslenskukunnáttu. Sem sagt: Þau geta illa nýtt sér tungumálið. Skýrsla ASÍ frá 2020 sýnir að 10,8% 19 ára ungmenna eru hvorki í námi eða starfi. Þannig að það eru ærin verkefnin hjá hæstv. ráðherra og ég hvet hann til dáða. Mig langar til að spyrja hann í beinu framhaldi: Nú hefur verið gerð ákveðin tilraun, Kveikjum neistann, í Vestmannaeyjum. Þar eru niðurstöðurnar í rauninni stórkostlegar. Árangurinn er ótvíræður, hann fer ekkert á milli mála: Af 48 börnum á tveimur árum, tveimur fyrstu árunum, í 1. og 2. bekk, þá eru einungis tvö börn sem ekki eru farin að geta stautað sig þokkalega áfram í lestri, þannig að framtíð þeirra er björt. Ef ég skil hæstv. ráðherra: Er ekki ástæða til þess að berjast áfram fyrir svona frábærum verkefnum sem eru greinilega að skila jákvæðum árangri?



[17:44]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og segja aðeins varðandi tölfræðina, sem hv. þingmaður nefndi, að það er rétt að við getum gert miklu betur þegar kemur að ákveðnum þáttum í íslensku menntakerfi. Ég vil byrja á því að segja að um leið er margt rosalega jákvætt að gerast. Ef maður fer um og hittir fólk, hvort sem það er varðandi Kveikjum neistann-verkefnið í Vestmannaeyjum, nú eða inn í einstakra skóla, við höfum gert það ítrekað að heimsækja einstaka skóla, kaffistofurnar, og kynnst verkefnum sem þar eru unnin, þá er gróskumikið starf unnið mjög víða. Það sem hefur vantað er einhver miðlægur aðili, miðlægur stuðningur og fagþekking til að aðstoða aðra aðila við að ráðast í sambærilegar breytingar og fá jafnframt betri tölfræði til að mæla árangur af þeim breytingum. Hvort tveggja erum við að styrkja grunninn undir, vil ég meina, með þessum breytingum. Það sem mér fannst áhugavert við verkefnið Kveikjum neistann í Vestmannaeyjum var kannski ekki kennsluaðferðin á lestrinum heldur það hvernig þeir eru búnir að kveikja neistann í heilu samfélagi til að vilja vera með mikinn metnað í skólastarfinu. Það er haldin ráðstefna og það mæta á annað hundrað manns í Vestmannaeyjum á ráðstefnu til að ræða gæði skólastarfs. Þeir eru búnir að breyta skólanum og setja inn hreyfingu á hverjum degi. Þeir eru að setja inn ákveðna ástríðutíma, eru að þróa það upp í aldri, eru núna komnir með 2. bekk og eru byrjaðir að hugsa: Hvernig eigum við að hafa ástríðutíma þegar einstaklingurinn er kominn í 5., 6. og 7. bekk? Hvað þarf þá? Þá er umræðan um jafnvel að það þurfi að tengja atvinnulífið meira inn í það o.s.frv. Þannig að þróunarverkefnið sem þar á sér stað er gríðarlega jákvætt, (Forseti hringir.) líkt og víða annars staðar. Það sem við þurfum að gera, og er hugsunin með þessari nýju stofnun, er að það sé miðlægur þjónustuaðili (Forseti hringir.) við að miðla slíkum verkefnum; þekkingu, fagþekkingu, aðstoð við innleiðingu þeirra, mæla árangurinn. (Forseti hringir.) Við þurfum að skapa grunn undir að þessi stofnun geti orðið sá aðili. Þá mun þessi gróska nýtast (Forseti hringir.) sem er alls staðar í kerfinu okkar.

(Forseti (DME): Og þá áminni ég hæstv. ráðherra um að virða ræðutímann. Það verður enn þá meira krefjandi í næstu umferð þar sem ræðutíminn er ein mínúta.)

(Menntmrh.: Ég biðst afsökunar, frú forseti.)



[17:47]
Inga Sæland (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég segi: Það er líka þetta sem er ástæða til að horfa mjög sterkt til. Það er t.d. þessi skýrsla sem Alþýðusambandið gaf út 2020 sem sýndi það að 10,8% 19 ára ungmenna voru bæði án vinnu og ekki í námi. Er hæstv. ráðherra meðvitaður um hversu umfangsmikið þetta er í íslensku samfélagi, hversu umfangsmikið það er að ungmennin okkar, tæplega tvítug, eru hvorki í námi né í starfi? Er hann með einhverja lausn hvað þetta varðar, með eitthvað á teikniborðinu sem gæti gripið þau og gert eitthvað fyrir þessa einstaklinga? Og hvað varðar Kveikjum neistann: Jú, það er kennsluaðferðin. Jú, það er öll þessi gleði sem hæstv. ráðherra nefnir. Það er í rauninni hugsjónin um að mæta barninu þar sem það er fyrir en ekki setja það í einhvern kassa, litla kassa á lækjarbakka sem allir eru alveg eins.



[17:48]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Áður en ég svara varðandi NEET-hópinn þá vil ég segja að maður hefur á tilfinningunni að með þessu verkefni, Kveikjum neistann, hafi heilu samfélagi tekist að mastera samstarf heimilis og skóla, vegna þess að árangur í námi byggist rosalega mikið á því hvert samstarf fjölskyldunnar er við skólann (IngS: Allt samfélagið.) og allt samfélagið í heild sinni. Það er eitthvað sem við getum lært af og það er eitthvað sem við þurfum að efla vegna þess að skólinn er ekki einangruð stofnun í íslensku samfélagi.

Rétt varðandi NEET-hópinn. Það er áhyggjuefni að það er að fjölga í þeim hópi og það er sérstakt áhyggjuefni að það forspárgildi sem við erum með sýnir að það eru allar líkur til þess að það aukist enn frekar á næstu árum miðað við samsetningu hópsins, einstaklinga af erlendum uppruna o.s.frv. Og já, við höfum í hyggju að setja af stað sérstakt verkefni og erum byrjuð í samtali við félagsmálaráðuneytið um það að setja í gang sérstakt verkefni til að taka sérstaklega utan um þennan hóp og erum að skapa fjárhagslegt svigrúm til þess að framhaldsskólinn komi að því og mögulega félagsþjónustan og fleiri aðilar. (Forseti hringir.) Það er ekki alveg búið að forma það en það er gríðarlega mikilvægt að þarna sé stigið inn. En það er eins með það eins og margt annað, að það þurfa að fleiri en einn aðili koma að því vegna þess að áskoranirnar (Forseti hringir.) eru oft æðiflóknar þar.



[17:50]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir frumvarpið og hans ræðu hér. Mig langar, og það munu örugglega ekki duga tvær mínútur til þess, að heyra helsta muninn á Mennta- og skólaþjónustustofnun, sem nú er lagt til að stofna, og svo Menntamálastofnun og hvernig við munum betur ná þeim markmiðum, sem ég held við getum öll sameinast um, með þessari stofnun frekar en Menntamálastofnun eins og hún var hugsuð á sínum tíma.

Þá langar mig líka að spyrja — því að hér er helsta hlutverk stofnunarinnar, alveg eins og var með Menntamálastofnun, að stofnunin starfi í þágu barna og ungmenna á sviði fræðslu- og menntamála um land allt í samræmi við lög, stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið. Það er kannski sá þáttur sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í. Ég hjó eftir því í fjármálaáætluninni undir þessum málaflokki, 22, að verið er að tala um tækifæri þar sem ráðuneytið er núna að þróa og innleiða hagfræðilega og félagsfræðilega aðferðafræði við kostnaðar- og ábatamat í tengslum við ákvarðanatöku og stefnumótun ráðuneytisins. Þar segir líka að þróun aðferðafræðinnar verði byggð á fræðilegum grunni og hyggist ráðuneytið setja á stofn ráðgjafaráð sem skipað verði fulltrúum viðkomandi faggreina í háskólasamfélaginu. Og svo er áfram fjallað um hlutverk ráðgjafaráðsins.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Mun þetta ráðgjafaráð eða þessi ráðgjafaráð, verði þau fleiri, koma að þeim málum sem þarna falla undir? Ég er kannski fyrst og síðast að horfa á lestrarkunnáttu og lestrarþekkingu. Og vegna þess að hér var verið að ræða t.d. þetta frábæra verkefni Kveikjum neistann í Vestmannaeyjum og þann ofboðslega árangur sem við virðumst vera að sjá af því, þá sjáum við líka að það virðast vera ákaflega skiptar skoðanir í fræðasamfélaginu um kennsluaðferðir og annað. Ekki ætla ég að setja mig í eitthvert hásæti og þykjast vita hvað sé best í þeim efnum. En við vitum það alla vega að þeir mælikvarðar sem við höfum á árangur í dag, sem eru PISA og lesfimiprófin sem Menntamálastofnun hefur þróað, eru því miður ekki að sýna góða niðurstöðu. Þannig að ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig bætum við úr því?



[17:52]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að þegar þessi stofnun er rædd þá leggjum við áherslu á þjónustuhlutverk hennar, þ.e. þá hugsun að hún verði miðlægur þjónustuveitandi, sé til staðar þegar upp koma ólíkar áskoranir og líka að hún sé þvert á skólastig, vegna þess að það höfum við ekki haft. Menntamálastofnun sem slík í dag hefur ekki haft það hlutverk með lögum að vera þessi aðili sem ríki og sveitarfélög ákveða sameiginlega að fái þetta hlutverk. Tökum sem dæmi: Það koma upp áskoranir er varða ofbeldi í skólum. Það er ekkert mikið sem breytist frá því að einstaklingur er 15 ára þangað til hann verður 16 ára og fer í framhaldsskóla varðandi að aðstoða við að stíga inn í þau mál. Svona er þetta með ótrúlega mörg mál. Þarna byggist upp miðlæg þjónustuþekking, framsækin, endurmenntun o.fl. þegar kemur að þessum þáttum. Þá fer einfaldlega ekki alveg saman að vera með stjórnsýsluna og eftirlitið á sama tíma þarna inni, vegna þess að þegar kemur að innra matinu og þjónustu við að ná ytra matinu þá viljum við að þessi stofnun sé sú sem þú hringir í til að fá aðstoð við það, en síðan komi ytra matið utan frá.

Rétt varðandi hagrænar greiningar. Það sem við gerðum með farsældarlögunum var að við reiknuðum út arðsemina af því að ráðast í þessa fjárfestingu, hvað við værum að gera ráð fyrir að grípa mörg börn o.s.frv., þannig að við erum að reyna að þróa það tæki áfram, m.a. í samstarfi við erlenda aðila og við fjármálaráðuneyti og fleiri aðila hér, til þess að geta nýtt það í frekari þætti til þess að börn nái farsæld. Og lestur er einn þeirra þátta. En við þurfum að ná að þróa tólið áfram til að geta nýtt það. Ég kem kannski betur inn á það á eftir og eins mælikvarðana o.fl. Þetta var alveg efni í talsvert meira en tveggja mínútna ræðu.



[17:55]
Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og er sammála því að þetta er efni í miklu fleiri mínútur en hér eru undir. En spurning mín sneri að því hvort við myndum í kjölfarið vera með einhvers konar ráðgjafaráð, einhvers konar vísindaráð sem getur veitt skólum og kennurum aðstoð, sem segir: Hver er besta leiðin til að kenna lestur? Hvernig náum við þeim markmiðum sem við setjum okkur? Því að hér virðist hafa verið uppi einhvers konar ágreiningur meðal íslenskra fræðimanna um hvort ekki sé hreinlega ástæða til þess að horfa út fyrir landsteinana, mögulega að vera jafnframt með erlenda sérfræðinga í slíkri ráðgjöf.

Þá langaði mig líka svona rétt í lokin að skella inn einni viðbótarspurningu til ráðherra. Hún er um samræmdu prófin sem við höfum nú tekið út. Ef ég man rétt þá var það nú bara bráðabirgðaniðurstaða og enn þá vorum við ekki komin með framtíðarfyrirkomulag. Hvert verður þá framtíðarfyrirkomulagið? Hvernig verður þessu mati okkar háttað á kunnáttu barna í mismunandi árgöngum í skólunum?



[17:56]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Já, það er svigrúm fyrir ráðgjafaráð. Hugsunin á bak við tölfræðivinnuna í tengslum við farsældina — vegna þess að menntun er ein meginstoðin í farsæld. Í hugsuninni og uppbyggingunni á henni er menntun ein af þessum fjórum lykilstoðum. Það sem við erum að gera ráð fyrir þar er að ákveðin grunntölfræði meti það hvort einstaklingurinn nái grunni sínum þegar kemur að menntun eða ekki og síðan sé þá rætt hvaða áherslna þurfi að grípa til, ef við þurfum að rétta okkur af í einstaka sveitarfélögum eða einstaka skólum eða annað slíkt þá séu starfandi einhvers konar ráðgjafaráð til að ná því. Þau geta verið sett tímabundið eða varanlega eða eftir atvikum hverjar áskoranirnar eru hverju sinni.

Síðan varðandi samræmdu prófin þá frestuðum við þeim tímabundið vegna þess að það er verið að þróa nýjan matsferil á þessar helstu greinar okkar sem er hugsaður, ekki sem samræmd próf sem eru lögð fyrir heldur meira sem (Forseti hringir.) verkfæri sem hægt er að nýta til þess að vera alltaf að krefja nemandann um að gera aðeins betur á morgun en í dag. En á sama tíma þurfum við að móta okkur sýn á alþjóðlega mælikvarða sem við ætlum að taka þátt í og þá er ég ekki viss um að það sé eingöngu lestur, stærðfræði og þessir þættir. (Forseti hringir.) Hvaða grunnþekkingu þurfum við sem einstaklingar að hafa til þess að takast á við breytingar 21. aldarinnar? Við þurfum (Forseti hringir.) auðvitað að kunna íslensku og lestur og stærðfræði, en það er svo miklu fleira. — Fyrirgefðu, forseti, fyrir fram, af því að ég veit að þú munt skamma mig þegar ég geng hér úr ræðustól.



[17:58]
Ingibjörg Isaksen (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Frú forseti. Mig langar að taka fram að ég fagna þessari löggjöf. Þetta lítur rosalega vel út. Það er alveg löngu tímabært að taka þessi mál föstum tökum og tryggja að menntun barna sé dínamísk og taki til greina þær breytingar á umhverfi sem eru að verða og geri það með hagsmuni barnanna fyrst og fremst að leiðarljósi. Ég held að ekki þurfi að benda neinum á þær miklu breytingar sem eru fram undan með tilkomu gervigreindar hvað varðar menntun. Nú tók ég eftir því að í þessu frumvarpi er ekki vikið að því með neinum hætti. Mér þykir þetta vanta. Mér þykir vanta að þessi stofnun fái í raun sterkt umboð til þess að taka til greina þær breytingar sem eru bara handan við hornið hvað varðar menntun og að þess sé skýrt getið í lagasetningunni þannig að vilji löggjafans til þess sé skýr, auk þess hversu mikilvægt það er hvernig brugðist er við þeim miklu breytingum sem eru fram undan með tilkomu gervigreindar. Þau viðbrögð þarf að samræma milli menntastofnana þannig að hver og ein stofnun þurfi ekki sjálf upp á sitt einsdæmi að meta hvernig viðbragðið er heldur sé þetta bara fumlaust og komi beint frá þessari góðu stofnun til samræmis.



[18:00]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta góða innlegg. Rétt áður en ég kem inn á gervigreindina þá má kannski segja frá því, af því að við vorum að tala hér um mat á námsárangri og hvaða hæfni við þurfum að hafa sem einstaklingar inn í þennan breytingatíma sem við erum að ráðast í, að ég tók þátt í menntamálaráðherrafundi OECD fyrir einhverjum tveim, þrem mánuðum síðan en sá fundur hefur ekki farið fram í 15 ár. OECD sagði við okkur menntamálaráðherrana að við skyldum undirbúa okkur undir að við þyrftum líklega að funda miklu oftar á næstu 15 árum en við höfum gert á síðustu 15 árum vegna þess að breytingarnar væru svo gríðarlegar fram undan. Það væri kannski tvennt sem stæði upp úr sem við þyrftum að hafa í huga að einstaklingur framtíðarinnar þyrfti að hafa. Hann þarf í fyrsta lagi að hafa þannig félagslega eiginleika að hann geti talað við annað fólk og liðið vel í sínum líkama og sinni sál og haft ákveðna tilfinningaþekkingu og svona, eitthvað sem er svolítið mikil umræða um í íslensku samfélagi, og hins vegar að vera tilbúinn til þess að breyta algjörlega um starfsvettvang á fimm til sjö ára fresti. Heimurinn bara gjörbreytist á fimm til sjö fresti. Það er kannski ágætt fyrir okkur sem erum búin að vera dálítinn tíma á Alþingi að hugsa það að við erum kannski komin aðeins fram yfir síðasta söludag. En þetta tvennt verður grundvallaratriði inn í 21. öldina.

Af því að hv. þingmaður nefnir tæknina og gervigreindina þá þarf hún sannarlega að fá veigamikinn sess þarna. Mér finnst þetta bara mjög góður punktur og ábending sem hv. þingmaður er með og hvet til þess að nefndin skoði það. Hugsunin á bak við þessa löggjöf er sú að hún sé fremur opin og sé bara að tala um stóru línurnar og verkefnin sem þessi stofnun hafi. En hún er með námsgagnaútgáfuna og hún á að vera þróunaraðilinn. Þannig að mér finnst þetta alveg góður punktur og hvet hv. þingmann eða hans fulltrúa í nefndinni — og ég tek það jafnframt upp innan ráðuneytisins hvort hægt sé að skerpa á þessu með tæknina og þær breytingar sem eru að verða, vegna þess að ef þessi stofnun verður ekki á tánum þar og það er ekki teiknað þannig upp í upphafi þá mun hún aldrei ná þeirri fótfestu og þeim styrk sem hún þarf til að fleyta börnunum okkar út úr skólakerfinu sem öflugri einstaklingum.



[18:02]
Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svar við andsvari. Það er bara mjög ánægjulegt að heyra hversu sammála við erum um mikilvægi þessa. Kannski til að benda á aðeins meira í þessu þá verður vart hægt að leggja of mikla áherslu á mikilvægi gagnrýninnar hugsunar í kjölfar þeirra miklu breytinga sem eru að verða á öllu þjóðfélaginu út af þeim byltingum sem eru að verða í gervigreindinni hvað varðar framsetningu á myndefni og slíku þar sem við sjáum gervigreind á örfáum sekúndum ýta út úr sér mynd sem gæti verið ljósmynd eða sem gæti verið teiknuð af listamanni og hefði hugsanlega tekið mörg ár í bígerð. Þannig að þessar miklu breytingar, það er varla hægt að leggja of mikla áherslu á hversu mikilvægt er að taka tillit til þeirra í allri þessari vinnu.



[18:04]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég ætla að reyna að halda tímamörk nú. Ég vil taka undir með hv. þingmanni. Ég held að það sem hann nefnir hér enn og aftur sé gríðarlega mikilvægt inn í þann breytingatíma sem menntakerfið þarf að ráðast í. Gagnrýnin hugsun verður gríðarlega mikilvæg í því samhengi. Ég hvet hv. þingmann og hef hvatt til að allir þeir sem hafi þekkingu á þessum geira — og ég hef sagt þetta m.a. við atvinnulífið, af því að þau eru kannski stundum svolítið nær þessu: Komið þið með þessar athugasemdir inn í vinnuna vegna þess að með þessari stofnun og svo skólaþjónustulöggjöfinni sem kemur í framhaldinu erum við að leggja grunninn undir það hvernig við þurfum að búa börnin okkar undir 2050, 2060 í heimi sem við vitum ekkert hvernig lítur út, af því að hann breytist hraðar milli daga nú heldur en hann gerði þegar ég var á þessum aldri.



[18:05]
Guðbrandur Einarsson (V):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Sem fyrrverandi sveitarstjórnarmanni finnst mér málið áhugavert af því að þetta er hluti af þeirri nærþjónustu sem veitt er í sveitarfélögunum okkar og skiptir auðvitað miklu máli að vel takist til. Ég hjó eftir því að þegar hæstv. ráðherra var að kynna þessa mennta- og skólaþjónustustofu nefndi hann að þarna ætti að verða til þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem styddi við þroska og líðan. Þetta finnst mér vera háleit og flott markmið og myndi gjarnan vilja taka þátt í að bæta umhverfið þannig að við myndum búa til skólaþjónustustofu sem gerði einmitt þetta, að styðja við þroska barna og bæta líðan þeirra.

Það er orðið löngu tímabært að taka utan um skólamálin með heildstæðum hætti. Þar er því miður víða pottur brotinn, sama hvort við lítum til mönnunarvanda, þjónustunnar sem börnin fá, þjónustu til skólanna, biðlista eftir úrræðum og þannig mætti lengi telja. Skólar eru í mismunandi stöðu til að veita þjónustu, m.a. vegna smæðar. Ég fæ ekki betur séð en þessar breytingar sem verið er að leggja til séu jákvæðar þó að maður sé ekki alveg búinn að ná utan um það hvort þær leysi allan þann vanda sem skólasamfélagið okkar stendur frammi fyrir eða hreinlega bara börnin sjálf.

Þegar maður fer inn á heimasíðu Menntamálastofnunar, sem er nánast að deyja drottni sínum innan væntanlega ekki langs tíma, þá eru þar skilgreind þau verkefni sem stofnuninni ber að sinna. Þar er m.a. sagt frá því að hún eigi að sjá grunnskólanemendum fyrir fjölbreyttum og vönduðum námsgögnum. Maður gerir ráð fyrir því að ný þekkingarmiðstöð eða skólaþjónustustofa beri ábyrgð á því að skólarnir hafi úr vönduðum námsgögnum að ráða.

Í öðru lagi segir að Menntamálastofnun hafi eftirlit og meti með mælingum árangur af skólastarfi. Í þessu felst að sjá um samræmd próf sem maður gerir ráð fyrir að verði nú felld niður, alla vega gat ég ekki heyrt annað en að þannig yrði það á nýráðnum forstjóra Menntamálastofnunar, væntanlegum forstjóra nýrrar þjónustumiðstöðvar, í viðtali á Rás 2 í morgun.

Síðan er talað um söfnun og greiningar og birtingar upplýsinga um menntamál og síðan í fjórða lagi framkvæmd ýmissa stjórnsýsluverkefna sem manni sýnist á öllu að sé verið að færa til ráðuneytisins. Það má lesa um það að þegar Menntamálastofnun var stofnuð voru þessi verkefni færð til stofnunarinnar frá ráðuneytinu. Nú er verið að fara með þau til baka aftur. Það er kannski ágætt að búið sé að gera ákveðna tilraun sem er talið að hafi ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Það væri því ágætt ef við lærðum af því að prófa okkur áfram.

Það sem manni finnst vera spennandi í þessu, af því að við erum að tala um þessa samþættingu, er íþrótta- og tómstundastarfið sem skiptir auðvitað miklu máli. Ef við erum að ræða samþættingu á annað borð þá varðar það ekki bara menntamálin heldur kannski daglegt líf barna og ungmenna á hvaða sviði sem er.

Manni sýnist svona fljótt á litið að með þessu sé ríkið að ætla sér stærri hlut í skólastarfi heldur en það hefur gert undanfarin ár. Manni hefur einhvern veginn fundist að fræðsluskrifstofur sveitarfélaga hafi svona að mestu leyti séð um þetta en mér finnst ég geta lesið út úr þessu að ríkið ætli sér stærri hlut í skipulagningu á skólastarfi og aukna þátttöku í að láta þessa hluti ganga.

Af því að sjálfstæði sveitarfélaga er mikið er sérstaklega mikilvægt að það sé tryggt að smærri sveitarfélög sitji hreinlega ekki eftir. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hefur gert athugasemdir við misræmi milli sveitarfélaga hvað varðar aðgengi barna að þjónustu. Við þekkjum það bara svo vel að minni sveitarfélög sem hafa t.d. ekki getað rekið fræðsluskrifstofur hafa verið að leita til annarra sveitarfélaga eftir þjónustu. Líka bara á velferðarsviðinu og hvað varðar barnaverndarnefnd þá hafa minni sveitarfélög oft og tíðum ekki haft burði til að sinna því sem þeim í raun og veru ber skylda til að gera samkvæmt lögum. Og í sjálfu sér er ekkert að því að samstarf sveitarfélaganna sé með þeim hætti að þau standi saman við að sinna ákveðnum verkefnum.

Það sem maður vill kannski velta vöngum yfir núna er hversu langt á að ganga í að skerða frelsi skóla og skólastjórnenda til að haga kennslu í samræmi við þær áherslur sem hver skóli hefur verið að setja sér. Við erum reyndar með svolítið ólíkt kerfi í leikskólunum. Þar er kannski aðeins meira frelsi þar sem við erum með einkarekna leikskóla sem setja prógrammið svolítið á annan hátt. Síðan sjáum við auðvitað að sumir skólar einbeita sér hreyfingu, aðrir einbeita sér að tónlist eða einhverju slíku. Hvort það sé hætta á því að skólarnir tapi sérstöðu sinni með því að auka einsleitni í skólastarfi er kannski eitthvað sem þarf bara að vakta. Það er auðvitað nauðsynlegt að skólarnir hafi ákveðið frelsi til að sinna þeim hlutum sem þeir telja að sé jákvætt að sinna.

Það sem mér finnst líka spennandi, eins og hefur verið nefnt á fundum og er nefnt í þessu, er það sem kallað er inngilding sem er auðvitað alveg ótrúlega mikilvægt. Ef maður veltir því fyrir sér: Hvað þýðir inngilding? Bara að auka þátttöku barna, að þau skynji að þau séu hluti af hópnum, að þau séu með. Við þekkjum það að börn af erlendum uppruna eru kannski stundum utangarðs, standa utan hópsins. Maður skilur ekki alveg orðið inngilding en ef maður veltir þessu fyrir sér þá skiptir þetta máli.

Mér finnst líka spennandi það sem maður hefur heyrt á þessum fundum um að það verði búin til einhvers konar viðbragðsteymi til að styðja við og hjálpa sveitarfélögunum til að takast á við erfið mál sem geta komið upp inni í skólunum. Við vitum, eins og hér var nefnt áðan, að börn hafa mismunandi þarfir. Börn eru líka að glíma við geðræn vandamál. Það er ekki alltaf hægt að vera með úrlausn í litlum sveitarfélögum eða bara sveitarfélögum yfirleitt. Þetta eru kannski erfið mál að takast á við og þess vegna er mikilvægt að það verði búin til einhvers konar verkfærakista sem sveitarfélögin geta þá leitað í til að takast á við einstök mál sem upp koma sem eru ekkert endilega alltaf daglegt brauð en geta verið mál sem eru bara erfið úrlausnar og mikilvægt að takast á við.

Mig langaði kannski að lokum að nefna að þrátt fyrir að við séum að tala um það sem hefur verið nefnt mennta- og skólaþjónusta þá er þetta auðvitað hluti af samþættingunni. Það er hluti af samþættingunni hvernig við ætlum að vinna með börn og ungmenni. Þá spyr maður sig: Hver er eftirlitsaðilinn með samþættingunni? Er það þessi stofnun? Hæstv. ráðherra nefndi áðan að barnaverndarnefndir væru jú á borði félagsmálaráðherra en barnaverndarnefndir eru auðvitað hluti af samþættingunni. Við erum að sjá breytingar eiga sér stað þar. Það er verið að fara úr því kerfi að vera með barnaverndarnefnd í hverju sveitarfélagi yfir í einhvers konar svæðisbundnar barnaverndarnefndir eða landshlutabarnaverndarnefndir til að stækka mengið og auka þá þekkinguna sem er inni í nefndunum og færa þetta svolítið frá því fólki sem þekkir börnin og á erfitt með að takast á við erfiðleika sem eru kannski til staðar inni á heimilum. Þannig að þarna er verið að vinna að ákveðnu velferðarúrræði sem er auðvitað hluti af samþættingunni.

Við erum að tala um sveitarfélögin og félagsþjónustuna, við erum að tala um skólana, við erum að tala um heilbrigðiskerfið og hver eigi að láta vita og hver ætli að halda utan um pakkann. Mér finnst bara skipta máli að það sé algerlega skýrt hver ber ábyrgð á að samþættingin eigi sér stað og verði að veruleika. Ég veit að það voru ekki allir ánægðir í sveitarfélögunum með hversu lítið fékkst frá heilbrigðisstofnunum. Það vantaði kannski vilja hjá heilbrigðisstofnunum til að taka þátt í þessu eða kannski vantaði bara hreinlega mannskap, einhverja sem voru með það á sínu borði að sjá alveg um þetta, að vera alveg í samráðinu og samstarfinu sem skiptir svo miklu máli.

Að því sögðu þá er ég bara ánægður með að það sé verið að vinna að þessu. Þetta er stórt og mikið verkefni sem verið er að vinna með og kemur fram í farsældarfrumvörpunum öllum. Við erum ekki komin til enda en þetta er góður partur af þeirri vegferð.



[18:18]
Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að fagna því að við séum að ræða menntamál í þessum þingsal. Mér finnst við gera of lítið af því. Ég nefni það sennilega í hvert skipti sem við fáum að ræða menntamál hversu lítið við gerum það en það er gott að við fáum tækifæri til þess hér í dag. Við erum að ræða frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um hina nýju stofnun, Mennta- og skólaþjónustustofu, og niðurlagningu Menntamálastofnunar. Stofnunin verður þjónustu- og þekkingarmiðstöð á sviði fræðslu- og menntamála, sem sagt ekki lengur stjórnsýslustofnun. Lögin eru hugsuð sem rammi utan um stofnunina og áætlað er að fjallað verði um verkefni Mennta- og skólaþjónustustofu í lögum sem gilda hverju sinni.

Þegar málið var kynnt í samráðsgátt komu fram athugasemdir um að skýrleika skorti um ýmsa þætti í frumvarpinu og þá komu framangreindar skýringar fram. Ég hefði sjálf kosið að heildarendurskoðun og endurskipulagning nýrrar stofnunar fæli í sér að heildin yrði skoðuð öll í einu. Það er erfitt að ætla að hnika til verkefnum ef ramminn er settur of þröngur en það er svolítið erfitt að gera sér grein fyrir því hvort það eigi við núna þar sem ramminn er svo sem alla jafna bara almennt orðaður. Þó er það þannig að ef horft er til t.d. verkefnisins um útgáfu námsgagna hefur orðalagið sem fyrir liggur um það verkefni ekki breyst frá fyrra horfi sem gefur til kynna að framkvæmdin muni ekki breytast í framhaldinu. Þegar verið er að setja á laggirnar nýja stofnun með nýju starfsfólki og nýjum áherslum er spurning hvort heppilegra hefði verið að taka þessa meginþætti, sem vitað er að eiga að fara í endurskoðun, strax í stað þess að allt hið nýja falli strax í sama gamla formið og muni eiga erfiðara með að taka breytingum eftir því sem líður á. Það er þess vegna sem ég tel að ekki sé hægt að ræða þetta frumvarp án þess að taka hér til umræðu fyrirkomulag á útgáfu námsgagna og ég ætla að helga ræðu mína þeirri mikilvægu starfsemi í menntun barnanna okkar.

Samkvæmt frumvarpinu mun ný Mennta- og skólaþjónustustofa taka við verkefnum Menntamálastofnunar og þar með fara með útgáfu námsgagna. Eins og segir í núgildandi lögum er það meðal hlutverka Menntamálastofnunar að sjá nemendum í skyldunámi fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum og öðrum nemendum eftir því sem stofnuninni kann að vera falið. Í frumvarpinu sem við hér ræðum er gert ráð fyrir að stofnunin muni ekki einungis sjá grunnskólum fyrir námsgögnum heldur er verkefnið útvíkkað til alls leik- og framhaldsskólastigsins. Sem er vel, það er gott að halda utan um þetta ef fyrirkomulagi á framkvæmd á útgáfu námsgagna er breytt samhliða.

Fyrirkomulag námsgagnaútgáfu hefur haldist nánast óbreytt frá árinu 1980 þrátt fyrir ýmsar breytingar á lögum um námsgögn og útfærslur á þeim ríkisstofnunum sem halda utan um útgáfu námsgagna. Námsgagnastofnun, Menntamálastofnun eða núna Mennta- og skólaþjónustustofa, heitið á stofnuninni virðist ekki skipta máli því að framkvæmdin helst hin sama. Þó hafa vissulega komið á þessum tíma mjög mikilvægar viðbætur eins og námsgagnasjóður og þróunarsjóður námsgagna.

Alþjóðlegur samanburður á námsgagnaútgáfu sýnir að við erum langt frá því að vera sambærileg nágrannalöndum okkar. Þar er útgáfa námsgagna hornsteinn í rekstri bókaútgefenda og skiptir sköpum fyrir bókamarkaðinn í heild sinni. Á Íslandi er sagan önnur og eiga bókaútgefendur lítið færi á því að komast inn á lista Menntamálastofnunar yfir þau námsgögn sem skólunum stendur til boða. Eins er mjög sjaldan, ef nokkurn tímann, leitað til þekkingar og reynslu íslenskra bókaútgefenda við útgáfu námsgagna heldur virðist ríkisstofnunin vilja halda spilunum þétt að sér.

Lög um námsgagnaútgáfu eru þannig almennt orðuð líka að þau gefa ekkert sérstaklega til kynna að hér sé ríkiseinokun á útgáfu námsgagna. Í greinargerð með lögum um námsgögn, nr. 71/2007, er svolítið útlistað hvernig framkvæmd á útgáfu námsgagna hjá Námsgagnastofnun — sem er þó ekki lengur til, ég verð að taka það fram — er háttað. Sú framkvæmd á við enn í dag og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í framkvæmd hafa grunnskólar fengið afhent námsgögn sem gerð eru fyrir tilstuðlan Námsgagnastofnunar, sem fær til þess fé á fjárlögum. Námsgagnastofnun ákveður hvaða námsefni er samið, það er síðan samið fyrir tilstuðlan stofnunarinnar og hún annast útgáfu námsefnisins og hefur það á boðstólum fyrir þá skóla sem eftir leita. Námsgögnum sem framleidd eru af Námsgagnastofnun er dreift endurgjaldslaust til skólanna og er réttur þeirra til úthlutunar reiknaður út í hlutfalli við fjölda nemenda í hverjum skóla og stærð skólanna.“

Þannig hefur framkvæmdin í reynd orðið þannig að skólar sjá ekki annan kost en að þiggja þær bækur sem ríkið hefur blessað og gefið út sjálft. Hér þarf að breyta framkvæmdinni þar sem lögin gefa raunverulega færi á breytingu á henni en til þess þarf þó pólitískan vilja.

Árið 2015 voru samþykktar breytingar á lögum um útgáfu námsgagna og sett var á laggirnar ný stofnun sem tók við hlutverki gömlu Námsgagnastofnunar og er það Menntamálastofnun sem við þekkjum í dag. Nú er gerð önnur breyting á þeirri ríkisstofnun sem fer með útgáfu námsgagna og ég hefði svo innilega viljað sjá raunverulegar breytingar gerðar í þessum fasa með niðurlagningu Menntamálastofnunar og setningu nýrrar Mennta- og skólaþjónustustofu.

Til að fá að halda áfram með útgáfu námsgagna og framkvæmdina þá var settur á laggirnar námsgagnasjóður með það fyrir augum að gefa skólunum tækifæri til að kaupa námsgögn sem aðrir en ríkisstjórnin hafa á boðstólum. Þó var sjóðurinn þannig gerður að einnig var hægt að nýta fjármuni hans í kaup á gögnum frá stofnuninni sjálfri. Nú segir í frumvarpi um lög um námsgögn, með leyfi forseta:

„Með námsgagnasjóði verður skólum og kennurum veitt aukið svigrúm til að velja sér efni í samræmi við markaða stefnu í skólanámskrá og til að stuðla að einstaklingsmiðaðri kennsluháttum. Þetta ætti að geta stuðlað að því að skapa einkaaðilum aukið svigrúm til að koma inn á markaðinn.“

Ljóst er nú að sjóðurinn hafði ekki burði til þess að raunverulega breyta markaðsaðstæðum. Bókaútgefendum er enn þá haldið úti í kuldanum.

Kennarar gera kröfu um meiri fjölbreytni í vali á námsgögnum til að fylgja eftir faglegum áherslum sínum. Grunnskólakennarar hafa í raun afar takmarkað val um önnur námsgögn en þau sem ríkisstofnunin hefur á boðstólum. Stofnunin hefur veitt þeim færi á að nýta hluta fjárveitingar sinnar til kaupa á öðru námsefni í gegnum námsgagnasjóð en sá hluti er vissulega bara afskaplega lítill. Þá var, eins og ég nefndi áðan, einnig settur á laggirnar þróunarsjóður námsgagna en gagnrýni á hann hefur að mestu leyti snúið að því að engin eftirfylgni virðist vera með þeim verkefnum sem hljóta styrk úr sjóðnum. Með setningu sjóðsins átti einmitt að nást betri yfirsýn með nýtingu fjármuna sem varið er til þróunar og nýsköpunar í gerð námsgagna. Á árunum 2016–2021 var úthlutað alls 233 styrkjum og hefur 166 verið lokið með útgáfu, eins og kom fram í svari við fyrirspurn minni um þróunarsjóðinn þar sem ég leitaði einmitt eftir svörum um nýtingu þeirra gagna við kennsluna sem hlotið hafa styrk. Skemmst er frá því að segja að slík gögn liggja ekki skýrt fyrir, einungis hlutfall þeirra verkefna sem gefin eru út. Það er erfitt að greina hvaða verkefni það eru sem raunverulega nýtast í kennslu í dag.

Þróunarsjóður námsgagna er mikilvægur og einna helst ætti að leita leiða til að stækka hann eða efla eða breyta honum einhvern veginn í ljósi þeirra öru tæknibreytinga og þeirra breytinga sem hafa orðið í samfélaginu á því hvernig námsmenn og yngri kynslóðir móttaka upplýsingar í gegnum tæknina. Ekki er til staðar nein stefna um aðgengi að rafrænum námsgögnum eða neitt raunverulegt átak í því að efla stafræna útgáfu námsgagna. Ekki er heldur með þessu frumvarpi gerð tilraun til að efla þennan sjóð eða nýsköpun í námsgagnaútgáfu — sem ég verð að segja að er miður.

Íslenskir bókaútgefendur hafa lýst sig reiðubúna að koma inn á þennan markað á grunnskólastigi en eru flestir nú þegar að gefa út námsgögn á framhaldsskólastigi. Þau rök sem hið opinbera notar óspart gegn aukinni aðkomu almennra bókaútgefenda að námsgagnaútgáfu er að markaðurinn hér sé svo smár og það yrði ekki hagkvæmt fyrir þessa aðila að fara í námsgagnaútgáfu. Íslenskir bókaútgefendur svara þessu þó þannig að þeir hefðu mikinn áhuga á því að koma að útgáfu námsgagna. Þeir hafa sjálfir ítrekað leitað til fjölmiðla til að vekja máls á þessu. Það er tímabært að við hér í þinginu hlustum eftir því og bregðumst við. Sé einhver hætta á því að íslenskir bókaútgefendur færu vegna hagkvæmnissjónarmiða ekki í útgáfu á gögnum í þeim fögum sem fáir nemendur eru að læra er okkur einfalt og ljúft og skylt að setja þá reglu að sú ríkisstofnun sem heldur utan um námsgagnaframboð á öllum skólastigum skuli einnig sjá til þess að námsefnið sé til staðar í öllum námsgreinum og að gæði námsefnisins sem framleitt er á vegum stofnunarinnar séu tryggð.

Þá þarf að hafa í huga að hér eru margir nemendur með annað móðurmál en íslensku og fer þeim fjölgandi. Nemendum sem hafa erlent tungumál að móðurmáli hefur fjölgað ár frá ári. Haustið 2022 höfðu 6.570 grunnskólanemendur erlent tungumál að móðurmáli eða 13,9% nemenda. Þetta var fjölgun um 760 nemendur frá árinu áður. Ég mun leggja fram fyrirspurn hér í þinginu til að leita svara við því hvernig hraðri aukningu grunnskólanemenda með erlent tungumál að móðurmáli er mætt við útgáfu námsgagna. Ein af þeim athugasemdum sem mér hefur sérstaklega borist um útgáfu námsgagna er sú að námsgögn endurspegli ekki þann fjölda af börnum sem eru með annað móðurmál en íslensku. Algengasta erlenda móðurmál nemenda í grunnskólum á Íslandi er t.d. pólska sem töluð af tæplega 2.100 nemendum. Næst á eftir koma enska, arabíska, spænska og filippseysk mál en fleiri en 300 börn tala þau tungumál. Það er gott og vel að verið sé að bregðast við þessari þróun með skipulagsbreytingum, aukinni þjónustu og aðgengi að úrræðum en námsgögnin sem við vinnum með í skólunum verða að styðja við þá nemendur sem eru að læra íslensku og alveg sérstaklega verður að gera átak til að styðja við þá kennara sem glíma við þessa vaxandi áskorun í íslensku samfélagi.

Virðulegi forseti. Ræða mín hér í dag hefur vissulega að öllu leyti snúist um gerð námsgagna og heldur minna um skólaþjónustuna en það endurspeglast í minni sýn, að námsgögnin eru grunnurinn. Rétt er að taka fram að í greinargerð með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir endurskoðun á fyrirkomulagi útgáfu námsgagna og að hún fari fram á síðari hluta yfirstandandi kjörtímabils. Ég tel tilefni til að framkvæma þessa endurskoðun nú þegar í ljósi þess að námsárangri barna hérlendis fer hrakandi og áskoranir eins og fjölgun barna með erlent móðurmál eru vaxandi. Ef námsgögnin okkar eru ekki sterk, fjölbreytt, í stöðugri þróun og þjóna ekki hagsmunum barnanna þá er að mínu mati ekki raunverulega verið að vinna í því að bæta menntun hér á landi og tækifærið til þess svo sannarlega glatað.



[18:30]
Bryndís Haraldsdóttir (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta frumvarp og ræðuna og fagna því mjög að við séum hér að ræða menntamálin. Ég tek undir með hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur, við gerum það of sjaldan og mættum gera meira af því. Nú erum við vonandi komin á þann stað að það mun rigna inn góðum frumvörpum frá hæstv. ráðherra er lýtur að menntamálum.

Ég spurði hér áðan í andsvari um aðalmuninn á milli þessarar stofnunar sem hér um ræðir, Mennta- og skólaþjónustustofu, og svo Menntamálastofnunar sem við búum við í dag. Ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt er þarna verið að færa ákveðin hlutverk sem hafa verið hjá Menntamálastofnun yfir til ráðuneytisins, m.a. eftirlitshlutverkið. Alla vega er það þannig að þessi tilraun okkar með Menntamálastofnun hefur því miður bara ekki tekist nægilega vel og þá hlýtur að vera ástæða til að breyta. Ég hef fylgst með umræðunni, m.a. á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og skólaþingi þar, þar sem hefur verið ákall eftir því sem þetta frumvarp fjallar um, þ.e. þessari samræmdu þjónustu til handa sveitarfélögum og skólum um land allt. Mér finnst mjög skynsamlegt að slíkt sé á herðum ríkisins og hef sagt í ræðum að mér líði stundum eins og við höfum of mikið sleppt tökum á menntamálum við yfirfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga. Ég tek því undir að það er mjög mikilvægt að þau verkefni sem tilgreind eru undir þessum lögum séu á miðlægu formi þannig að öll sveitarfélög og allir skólar hafi kost á þeirri þjónustu sem í því felst.

Mig langar samt að ítreka það sem ég kom aðeins inn á áðan í andsvari. Þegar við erum að tala um að við ættum að veita þjónustu sem er byggð á bestu þekkingu og alþjóðlegum viðmiðum þá er ofboðslega mikilvægt að það sé örugglega svo og að þær aðferðir sem Mennta- og skólaþjónustustofnun er að mæla með séu aðferðir sem byggja á vísindalegri þekkingu og hafi verið sannreyndar með einhverjum hætti. Það er gott og vel að gera prófanir og tilraunir með nýja hluti en það er ekki þannig að við getum gert það bara á heilu árgöngunum og öllum börnunum okkar. Það má alls ekki vera þannig að skólar hér á Íslandi séu einhvers konar tilraunastofnanir til að prófa nýjar og nýjar aðferðir heldur verða þær aðferðir sem beitt er við kennslu barna að byggja á vísindalegum grunni og vísindalegri þekkingu. Mig langar bara að ítreka mikilvægi þess.

Ég hef reyndar hallast að því eftir að hafa rætt við aðila bæði í Frakklandi og Bretlandi sem benda á þessi ráðgjafaráð þar sem aðilar eru fengnir til að veita slíkum stofnunum ráð, aðilar sem þekkja vel til vísindagreina — ég hreinlega velti því fyrir mér, þar sem við erum nú lítið land, hvort við þurfum jafnvel að horfa út fyrir landsteinana í þessum efnum og horfa til erlendra sérfræðinga, ekki síst til þess líka að það skapist einhvers konar sátt um hvað það sé sem við leggjum hér fyrir þegar kemur að kennsluaðferðum.

Mig langar að þakka hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur fyrir sína ræðu og umfjöllun um námsgagnagerð og útgáfu og tek undir margt af því sem þar fram kemur og velti því fyrir mér hvernig við getum komið betur að þeim málum þegar við förum að takast á við verkefnið í allsherjar- og menntamálanefnd. Fyrst og síðast vil ég leggja áherslu á að við erum með frábær börn. Íslensk börn, krakkarnir okkar, eru að gera frábæra hluti. Ég held reyndar líka að við höfum frábæra kennara og fullt af frábærum skólum sem eru að gera rosalega góða hluti en því miður er það enn þá svo að þegar við setjum einhvers konar staðlaðar mælieiningar á þessi störf þá kemur það ekki nægilega vel út. Við erum samt það OECD-ríki sem er að setja hvað mesta fjármuni í grunnskólana. Þess vegna er svo mikilvægt fyrir okkur sem hér stöndum, fjárlagavaldið sjálft og þá sem sitja í sveitarstjórnum, að vera sannfærð um að þær aðferðir sem verið er að beita, þær bjargir og þau tæki og tól sem kennarar og skólastofnanir fá, séu á heimsmælikvarða og séu þess eðlis að þeim sé ætlað að ná sem bestum árangri og búa börnin okkar sem best undir framtíðina. Ég tek heils hugar undir það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan um að það sé ekki bara lesskilningur og lestrarkunnátta, stærðfræði og náttúrufræði. Þó að það sé rosalega mikilvægt þá þurfum við alltaf að hugsa til þess að börnin okkar munu mjög líklega fást við eitthvað í framtíðinni sem við þekkjum ekki í dag. Það er því alveg ofboðslega mikil krafa á menntastofnanir hvers konar menntun þær að veita. Ég er alveg sannfærð um að við erum að gera margt alveg ofboðslega gott í þeim efnum en það er sláandi að við erum ekki að ná nægjanlega góðum árangri í lesfimi og lesskilningi.

Hæstv. ráðherra var fjarstaddur þegar við vorum að ræða fjármálaáætlunina en var með ágætisstaðgengil, formann flokksins, í sinn stað. Ég var að fara yfir þessi viðmið sem við setjum okkur í fjármálaáætlun þar sem við erum t.d. með viðmið um lesfimina og staðan árið 2022 var þannig að til að mynda í 4. bekk var þessi lesfimimælikvarði 80,7% en þegar ég fór að skoða eldri fjármálaáætlun sé ég að árið 2021 var það 82,6%, þannig að við vorum að lækka á milli ára, á meðan viðmiðið okkar fyrir 2024 er 85%. Þegar við horfum á PISA-niðurstöðurnar — sem ég veit að eru umdeildar og alls konar skoðanir eru á en það er samt það sem OECD er að gera til að mæla árangur — verðum við að horfa á það með þeim gleraugum að við viljum auðvitað þarna, eins og í svo mörgu öðru, vera hátt skrifuð og sjá til þess að þeir fjármunir sem við verjum í menntun og í lestrarkennslu skili sér líka. Þegar verið er að mæla þennan árangur þá er það bara sláandi hvað við erum því miður að ná slökum árangri.

Ég minnist þess að hæstv. menntamálaráðherra fyrir mörgum árum, Illugi Gunnarsson, fór í lestrarátak vegna þess að þá vorum við að horfa á þetta. Ég veit ekki hvað mörg ár eru liðin, tíu ár eða eitthvað svoleiðis. Því miður höfum við ekki náð árangri. Ef eitthvað er þá förum við niður. Þetta er algjörlega sláandi. Þess vegna segi ég að verkefnið sé stórt, þess vegna fagna ég öllum breytingum, öllum tillögum og hugmyndum sem lúta að því að ná betri árangri. Ég efast ekki um að það að vera með svona fagstofnun sem hægt er að leita til geti skilað árangri en ég ítreka enn og aftur það sem ég sagði: Við verðum líka að vera sannfærð um að þær aðferðir sem við erum að beita í skólakerfinu séu sannprófaðar, sannreyndar og til þess gerðar að ná árangri.

Að því sögðu þá veit ég það líka að við setjum ekki bara mælistiku á skólakerfið okkar út frá lesfimi eða lestrarskilningi. Það er ekki mælikvarðinn. Auðvitað skiptir líka miklu máli til að mynda hvernig börnunum okkar líður í skólanum. Og talandi um farsældina þá er hún auðvitað alveg ofboðslega stór þáttur. Lengi vel voru þær niðurstöður okkar mjög jákvæðar. Því miður eru eitthvað af nýjustu mælingum þar ekki nógu góðar. Það er samfélagslegt verkefni, það er verkefni okkar hér inni, verkefni sveitarfélaganna en ekki síst bara fjölskyldnanna og fólksins í landinu, að huga að því hvað það er sem veldur því að börnum á Íslandi líður ekki nógu vel. Það er ekki hægt að kasta allri ábyrgðinni á skólana og segja að þeir eigi að sjá um þetta allt saman. Það kann að vera að hluti af vandamálinu sem við erum að glíma við sé að menntastofnanir eru orðnar svo miklu, miklu meira en bara menntastofnanir. Þeim er falið svo víðtækt og mikilvægt hlutverk. Það breytir því ekki að þær spila lykilhlutverk í samfélaginu okkar. Ekki síst út frá jöfnuði og jöfnum tækifærum eru þessar stofnanir, og þar af leiðandi starfið sem þar er inni, alveg ofboðslega mikilvægar fyrir framtíðina okkar.

Þar af leiðandi vísa ég í það að starf kennarans er alveg gríðarlega mikilvægt. Ef þessi stofnun verður með einhverjum hætti til þess að auðvelda og styrkja kennara í þeirra störfum þá er það gott og vel. Ég veit að hér er markmiðið það. Ég vona bara að við getum öll, þingheimur, sameinast um að einblína á þessi verkefni. Ég fagna því sem kemur fram í máli hæstv. ráðherra og hann hefur sýnt það í þessu og í farsældarlögunum að viðhafa þessa þverfaglegu og þverpólitísku vinnu. Við verðum að ná utan um þessi mál. Ég veit að hér í þessum sal eru allir sammála um að hagur barna, velsæld barna, lestrarkunnátta barna og gæði íslensks skólastarfs skiptir okkur öll máli og við ættum að geta sameinast um að reyna að ná þeim árangri sem við höfum sett okkur. Enn og aftur segi ég að við þurfum greinilega að vera á vaktinni. Því miður höfum við ekki verið að ná þeim markmiðum sem við höfum sett fram og þeim viðmiðum sem við höfum verið að setja fram á síðustu árum í fjármálaáætlunum okkar.



[18:41]
Ingibjörg Isaksen (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Mig langar líkt og aðrir þingmenn hér að þakka fyrir að fá að ræða hér um menntamál, fræðslumál. Þetta er afar mikilvægur málaflokkur og jafnvel bara einn af stærstu málaflokkunum okkar hér í þinginu og sveitarstjórnum landsins. Þarna erum við að byggja undir framtíð barnanna okkar og má segja að þetta sé bara eitt helsta jöfnunartæki sem við höfum fyrir börnin. Við stofnun nýs mennta- og barnamálaráðuneytis var boðuð ný stefna í málefnum barna og er leiðarljós þeirrar stefnu að stjórnvöld séu að styðja við alla þá þætti sem gera barn farsælt. Þar gegnir menntunin sannarlega lykilhlutverki. Skólar landsins og sveitarfélög eru auðvitað misstór og misjafnlega í stakk búin til að mæta þörfum barna og því mikilvægt að til staðar sé miðlæg stofnun sem hægt er að leita til.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir ræddi aðeins um líðanina hér áðan. Nú þekki ég ekki þessar nýjustu tölur sem hún var að vitna til varðandi það að líðan barna sé því miður að fara niður á við skólunum en það tel ég vera mikið áhyggjuefni vegna þess að þegar börnunum okkar líður vel þá sjáum við að þau sýna framfarir. Það er auðvitað velferð og farsæld þeirra sem við þurfum að hafa í huga af því að stórum hluta dagsins verja þau einmitt innan þessara stofnana og afar mikilvægt að þeim líði vel. Ég fagna samt sem áður því að þetta frumvarp sé fram komið. Þetta var einmitt unnið í ráðuneytinu en einnig í samvinnu við okkur sem sitjum í þingmannanefnd um farsæld barna. Síðustu ár hefur verið aukin áhersla á að aðskilja eftirlitshlutverk og þjónustuhlutverk stofnunarinnar eins og hún er í dag. Hún er einmitt að sinna báðum þessum hlutverkum. Það má alveg velta því fyrir sér hvort það sé að koma niður á þjónustuhlutverkinu því að jú, það er kannski ekki alveg eðlilegt að eftirlit og þjónusta sé innan sömu stofnunarinnar.

Það er einmitt verið að leggja til að þessi stofnun fái sérstakt hlutverk við að styðja og efla skólastarf og hér er verið að benda á að þörf sé á kennslu- og sérfræðiráðgjöf fyrir skóla og starfsfólk í þágu nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Það samræmist einmitt menntastefnu til 2030. Við sjáum að samfélag okkar er að breytast ört og við erum með fjölbreyttari flóru innan samfélagsins. Það er afar mikilvægt að við séum að takast á við það verkefni en einnig þarf stuðning og leiðbeiningar til skóla vegna innra mats og framkvæmdar umbótaáætlana vegna ytra mats. Með þessu er verið að færa ytra matið til ráðuneytisins sem er mjög mikilvægt. Eins og staðan er í dag er verið að gera ytra mat í hverjum og einum grunnskóla á u.þ.b. sjö ára fresti. Liður í þessu er einmitt að Menntamálastofnun sé þá í rauninni að styðja við umbætur og aðgerðir til þess að bæta gæðin og þær niðurstöður sem koma út úr ytra matinu og ég tel að það sé afar mikilvægt. Þegar verið er að færa þetta yfir til ráðuneytisins má velta fyrir sér hvort það sé ekki líka jafnvel tækifæri til að endurskoða þættina sem eru í ytra matinu. Ég kannski beini því til hæstv. ráðherra hvort hann gæti jafnvel komið aðeins inn á það hér á eftir.

Auðvitað er þetta frumvarp sem hæstv. ráðherra var að mæla fyrir í dag fyrst og fremst til að bæta þjónustu við börnin okkar en Mennta- og skólaþjónustustofu er einmitt ætlað að starfa í þágu barna og ungmenna á sviði fræðslu og menntamála um land allt í samræmi við lög og stefnu stjórnvalda. Henni er líka ætlað að vera leiðandi þegar kemur að skólaþjónustu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi um land allt.

Hér hefur aðeins verið rætt um námsgögn og hvort þau ættu að koma inn í þetta frumvarp. Auðvitað er það ekki verkefnið með þessu frumvarpi en mig langar samt sem áður að velta því upp því að þetta var rætt mikið í þingmannanefndinni okkar. Það kom fram hjá starfsmönnum ráðuneytisins að þetta ætti að endurskoða. Mig langar bara til að velta því hér upp og leggja til, og væri kannski ágætt að heyra skoðun hæstv. ráðherra á því, hvort ekki væri hægt að leggja til bráðabirgðaákvæði um að menntamálaráðherra eða ráðuneytinu yrði falið að leggja fram innan tveggja ára ný heildarlög um útgáfu námsgagna, líkt og við erum að gera með skólaþjónustulögum, þegar við erum að kveða nánar á um hlutverk stofnunarinnar. Það væri gaman að heyra hvað hæstv. ráðherra finnst um það. Við erum auðvitað að ræða um stóru myndina hér, um hlutverk stofnunarinnar. Síðan auðvitað eiga eftir að koma fram ný heildarlög um skólaþjónustu þar sem hlutverkum og verkefnum verða gerð betri skil. Það er einmitt samráðið núna sem mér skilst að standi yfir.

Mig langar til að nýta tækifærið og hrósa hæstv. ráðherra og starfsfólki ráðuneytisins fyrir afar góð og vönduð vinnubrögð því að það er leitun að því að við sjáum jafn mikið samráð og þau hafa haft varðandi þau mál sem komu frá ráðuneytinu. Það er verið að sækjast í að kalla til hópa, það er verið að halda ráðstefnur og fundi til þess að fá skoðanir fólksins sem er á gólfinu, fá skoðanir sérfræðinganna á því sem við erum að leggja til. Einmitt með því að fá þessar ábendingar þá erum við að stíga rétt skref í átt að því að efla menntakerfið okkar enn frekar.

Ég er alveg sannfærð um að nái þetta frumvarp fram að ganga muni það hafa almenn jákvæð áhrif fyrir skóla og starfsfólk skóla, svo að ég tali nú ekki um börnin okkar og ungmennin og foreldrana. Betri stuðningur við börn og ungmenni í skólakerfinu þvert á skólastig um land allt getur ekki annað en skilað okkur góðum árangri.



[18:48]
mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara að koma hingað upp og þakka fyrir þessa umræðu og reyna að koma inn á nokkur atriði sem beint var til mín eða sem mér finnst ástæða til þess að koma sérstaklega inn á. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa góðu umræðu. Mér finnst hún búin að vera gríðarlega málefnaleg og það hefur verið komið víða við. Ég ætla að reyna að stikla á nokkrum atriðum hérna.

Hv. þm. Guðbrandur Einarsson kom sérstaklega inn á að í þessum lögum væri nefnd líðan og geðheilbrigði. Eitt af því sem við erum einmitt að huga að með nýrri stofnun og nýjum skólaþjónustulögum er að fylgja eftir skýrslu og tillögum sem unnar voru á síðasta kjörtímabili og eru líka hluti af menntastefnu 2020–2030 um geðheilbrigði í skólum og hvernig við getum með auknum hætti kennt geðheilbrigði í skólum. Það tengist því sem við vorum að ræða hér áðan um biðlista eftir sálfræðiþjónustu og öðru slíku og eftirspurn eftir þriðja stigs þjónustu.

Síðan kom hv. þingmaður inn á litla skóla og hvernig við héldum betur utan um þjónustu við litla skóla þegar upp kæmu áskoranir. Það er auðvitað líka eitt af því sem þarf að ávarpa. Vísindasamfélagið hefur verið duglegt að benda á það að þegar kemur að gæðum náms og stuðningi við nemendur þá skuli það ekki vera þannig að það skipti máli hvort þú sért nemandi í litlum skóla með ekki mikið bakland eða í stærri skóla þar sem er faglegt bakland. Það er það sem skólaþjónustan þarf m.a. að taka utan um.

Lykilspurningin þegar við tölum um ákveðna samhæfingu, þegar við tölum um heildstæða skólaþjónustu þvert á skólastig leik-, grunn- og framhaldsskóla er: Hvernig ætlum við að ná því án þess að skerða faglegt frelsi skóla og frelsi einstakra skóla til að sækja fram? Það er alveg áskorun. Það er þessi lína sem við þurfum að ná að feta í þessum breytingum. Við viljum hafa ákveðið frelsi vegna þess að það er þar sem uppspretta breytinganna er o.s.frv., en það þarf líka ákveðna samhæfingu.

Hv. þingmaður kom líka inn á það sem lýtur að eftirliti með lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Eftirlit með þeirri löggjöf er í dag hjá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála en eftirlitið er á innleiðingartímanum, skulum við segja, ekki farið að bíta enn þá.

Síðan kom hv. þm. Berglind Ósk Guðmundsdóttir með mjög góða ræðu um námsgögn. Ég verð að segja að það var margt í hennar máli sem ég er mjög sammála. Kannski að segja aðeins í upphafi að ástæðan fyrir því að ekki er sérstaklega kveðið á um námsgagnabreytingar í þessum lögum og hvernig þeim verði háttað er sú að þetta er svona heildarrammi utan um stofnunina en síðan eru einstaka lög, eins og lög um námsgögn, lög um skólaþjónustu, sem kveða þá nánar um hvernig námsgagnaútgáfu skuli háttað. Og bara til að segja það væri ég tilbúinn til samtals við nefndina um að skerpa á þessu. Við erum komin af stað með vinnu um breytingar á námsgagnaútgáfu, þar sem við erum m.a. að vinna með Félagi íslenskra bókaútgefanda en við ætlum okkur líka að vinna með nýstofnuðum Menntatæknisamtökum um það hvernig sjáum við þessa námsgagnaútgáfu þróast. Það er í takt við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar vegna þess að við ætlum okkur að efla námsgagnaútgáfu og þá viljum við jafnframt skoða með hvaða hætti þarf að gera breytingar á henni. Þar höfum við í hyggju að kalla alla aðila að borðinu til samráðs og samtals og samvinnu. Það má hugsa sér að gera það hvort sem er með bráðabirgðaákvæði, eins og hv. þm. Ingibjörg Isaksen nefndi, til að ramma það bara inn að ráðuneytið þurfi að gera það, eða þá í nefndaráliti eða öðru slíku. Ég læt nefndinni eftir að meta það. En við erum sannarlega til í samtal um þau mál vegna þess að ég er sammála hv. þm. Berglindi Ósk Guðmundsdóttur um að námsgögnin séu algjört lykilatriði.

Þegar kemur að börnum af erlendum uppruna sérstaklega, þessum aukna fjölda sem þingmaðurinn kom inn á, þá erum við ekki að standa okkur vel þar. Það er bara þannig. Þegar þú ferð og hittir skólastjórnendur og kennara sem eru að kenna börnum af erlendum uppruna þá fer allt of mikill tími í þeirra starfi í það að búa til námsgögn. Þetta bara er ekki í lagi. Þetta er eitt af því sem við þurfum að stórefla og er hluti af vinnunni um eflingu námsgagnaútgáfu. Allar leiðbeiningar þingsins eða allsherjar- og menntamálanefndar í því efni og sjónarmið eru bara vel þegin.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir fór aðeins yfir muninn á núverandi stofnun og nýrri stofnun. Ég verð að segja að það er kannski ekki miklu við það að bæta. Ég er bara algerlega sammála þeim greiningum sem hún var með og líka því sem lýtur að því þegar við verðum komin með þessa nýju þjónustustofnun, ef vel tekst til, að þær aðferðir sem stofnunin vinnur eftir og mælir með séu vísindalega viðurkenndar. Það er gríðarlega mikilvægt. Við erum með þetta þannig og þess vegna höfum við líka lagt áherslu á það í samtölum við háskólastofnanir og rannsóknarsamfélagið að hluti af svona breytingum sé auðvitað að við þurfum líka að efla vísindasamfélagið okkar og allt sem lýtur að því. Ég bara hvet nefndina til að skoða það sérstaklega ef menn hafa áhyggjur af því að þessi stofnun muni ekki vinna með þeim hætti — eða kannski ekki áhyggjur af því heldur hvernig sé hægt að skerpa á því að það sé rammað inn að unnið sé með þeim hætti. Ég ætla ekki að gerast sérfræðingur í einhverju sem vísindin eiga að rannsaka þegar kemur að mjög afmörkuðum kennslutæknilegum aðferðum eða öðru slíku. Það eigum við að láta vísindunum eftir. Svo er það auðvitað líka þannig að vísindin segja ekki alltaf A eða B, þau segja stundum einhvers staðar þar á milli, og þá þarf stofnunin að meta hvernig það er. Þá held ég að það sé bara ástæða til að skerpa á því.

Hv. þm. Ingibjörg Isaksen fór aðeins yfir ytra matið. Já, við sjáum fyrir okkur samhliða þessu, rétt eins og með námsgagnaútgáfuna, að fara í vinnu við ytra mat og erum að byrja að undirbúa hana, hvernig við sjáum ytra matið fyrir okkur og hvaða breytingar þurfi að verða á því. Hv. þingmaður nefnir ytra mat á sjö ára fresti, hvort ástæða sé til að endurskoða hvernig við eigum að vinna það o.s.frv. Sú vinna er bara á fyrstu metrunum núna. Það er, rétt eins og námsgögnin, eitthvað sem við eigum að nota í framhaldinu. Síðan er þetta auðvitað rammað inn í mjög framsækinni menntastefnu sem sett var á Alþingi til 2030. Við sjáum að þetta eru það miklar breytingar sem þurfa að verða á menntakerfinu að þær þurfa að gerast í bútum. Við erum að vinna eftir fyrstu aðgerðaáætluninni sem sett var í því efni, skólaþjónustu, börn af erlendum uppruna o.s.frv. Síðan þarf að setja nýja aðgerðaáætlun.

Ég ætla kannski bara að enda þetta á því sem hv. þingmaður og formaður nefndarinnar kom hér inn á áðan um starf kennarans. Mikilvægast af öllu er að við getum styrkt og eflt kennara í íslensku samfélagi inni í skólunum. Það er númer eitt, tvö og þrjú og upp í tíu. Það er það sem við þurfum að rýna í öllu sem við erum að gera. Kennslan fer fram í skólunum. Hún fer ekki fram á fræðsluskrifstofum, í menntamálaráðuneyti, hvað þá í þingsal Alþingis, hún gerist í hverri einustu skólastofu. Mér fannst þessi orð hv. þingmanns ramma þetta vel inn. Ég segi að lokum bara: Ég hlakka til samstarfs við nefndina og megi okkur takast í sameiningu að gera þetta frumvarp enn betra með breytingar í för með sér og aukinn stuðning inn í skólakerfið.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til allsh.- og menntmn.