Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[17:48]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áður en ég svara varðandi NEET-hópinn þá vil ég segja að maður hefur á tilfinningunni að með þessu verkefni, Kveikjum neistann, hafi heilu samfélagi tekist að mastera samstarf heimilis og skóla, vegna þess að árangur í námi byggist rosalega mikið á því hvert samstarf fjölskyldunnar er við skólann (IngS: Allt samfélagið.) og allt samfélagið í heild sinni. Það er eitthvað sem við getum lært af og það er eitthvað sem við þurfum að efla vegna þess að skólinn er ekki einangruð stofnun í íslensku samfélagi.

Rétt varðandi NEET-hópinn. Það er áhyggjuefni að það er að fjölga í þeim hópi og það er sérstakt áhyggjuefni að það forspárgildi sem við erum með sýnir að það eru allar líkur til þess að það aukist enn frekar á næstu árum miðað við samsetningu hópsins, einstaklinga af erlendum uppruna o.s.frv. Og já, við höfum í hyggju að setja af stað sérstakt verkefni og erum byrjuð í samtali við félagsmálaráðuneytið um það að setja í gang sérstakt verkefni til að taka sérstaklega utan um þennan hóp og erum að skapa fjárhagslegt svigrúm til þess að framhaldsskólinn komi að því og mögulega félagsþjónustan og fleiri aðilar. (Forseti hringir.) Það er ekki alveg búið að forma það en það er gríðarlega mikilvægt að þarna sé stigið inn. En það er eins með það eins og margt annað, að það þurfa að fleiri en einn aðili koma að því vegna þess að áskoranirnar (Forseti hringir.) eru oft æðiflóknar þar.