Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[17:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir frumvarpið og hans ræðu hér. Mig langar, og það munu örugglega ekki duga tvær mínútur til þess, að heyra helsta muninn á Mennta- og skólaþjónustustofnun, sem nú er lagt til að stofna, og svo Menntamálastofnun og hvernig við munum betur ná þeim markmiðum, sem ég held við getum öll sameinast um, með þessari stofnun frekar en Menntamálastofnun eins og hún var hugsuð á sínum tíma.

Þá langar mig líka að spyrja — því að hér er helsta hlutverk stofnunarinnar, alveg eins og var með Menntamálastofnun, að stofnunin starfi í þágu barna og ungmenna á sviði fræðslu- og menntamála um land allt í samræmi við lög, stefnu stjórnvalda, bestu þekkingu og alþjóðleg viðmið. Það er kannski sá þáttur sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í. Ég hjó eftir því í fjármálaáætluninni undir þessum málaflokki, 22, að verið er að tala um tækifæri þar sem ráðuneytið er núna að þróa og innleiða hagfræðilega og félagsfræðilega aðferðafræði við kostnaðar- og ábatamat í tengslum við ákvarðanatöku og stefnumótun ráðuneytisins. Þar segir líka að þróun aðferðafræðinnar verði byggð á fræðilegum grunni og hyggist ráðuneytið setja á stofn ráðgjafaráð sem skipað verði fulltrúum viðkomandi faggreina í háskólasamfélaginu. Og svo er áfram fjallað um hlutverk ráðgjafaráðsins.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Mun þetta ráðgjafaráð eða þessi ráðgjafaráð, verði þau fleiri, koma að þeim málum sem þarna falla undir? Ég er kannski fyrst og síðast að horfa á lestrarkunnáttu og lestrarþekkingu. Og vegna þess að hér var verið að ræða t.d. þetta frábæra verkefni Kveikjum neistann í Vestmannaeyjum og þann ofboðslega árangur sem við virðumst vera að sjá af því, þá sjáum við líka að það virðast vera ákaflega skiptar skoðanir í fræðasamfélaginu um kennsluaðferðir og annað. Ekki ætla ég að setja mig í eitthvert hásæti og þykjast vita hvað sé best í þeim efnum. En við vitum það alla vega að þeir mælikvarðar sem við höfum á árangur í dag, sem eru PISA og lesfimiprófin sem Menntamálastofnun hefur þróað, eru því miður ekki að sýna góða niðurstöðu. Þannig að ég spyr hæstv. ráðherra: Hvernig bætum við úr því?