Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[17:55]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið og er sammála því að þetta er efni í miklu fleiri mínútur en hér eru undir. En spurning mín sneri að því hvort við myndum í kjölfarið vera með einhvers konar ráðgjafaráð, einhvers konar vísindaráð sem getur veitt skólum og kennurum aðstoð, sem segir: Hver er besta leiðin til að kenna lestur? Hvernig náum við þeim markmiðum sem við setjum okkur? Því að hér virðist hafa verið uppi einhvers konar ágreiningur meðal íslenskra fræðimanna um hvort ekki sé hreinlega ástæða til þess að horfa út fyrir landsteinana, mögulega að vera jafnframt með erlenda sérfræðinga í slíkri ráðgjöf.

Þá langaði mig líka svona rétt í lokin að skella inn einni viðbótarspurningu til ráðherra. Hún er um samræmdu prófin sem við höfum nú tekið út. Ef ég man rétt þá var það nú bara bráðabirgðaniðurstaða og enn þá vorum við ekki komin með framtíðarfyrirkomulag. Hvert verður þá framtíðarfyrirkomulagið? Hvernig verður þessu mati okkar háttað á kunnáttu barna í mismunandi árgöngum í skólunum?