Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[18:05]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Virðulegur forseti. Sem fyrrverandi sveitarstjórnarmanni finnst mér málið áhugavert af því að þetta er hluti af þeirri nærþjónustu sem veitt er í sveitarfélögunum okkar og skiptir auðvitað miklu máli að vel takist til. Ég hjó eftir því að þegar hæstv. ráðherra var að kynna þessa mennta- og skólaþjónustustofu nefndi hann að þarna ætti að verða til þjónustu- og þekkingarmiðstöð sem styddi við þroska og líðan. Þetta finnst mér vera háleit og flott markmið og myndi gjarnan vilja taka þátt í að bæta umhverfið þannig að við myndum búa til skólaþjónustustofu sem gerði einmitt þetta, að styðja við þroska barna og bæta líðan þeirra.

Það er orðið löngu tímabært að taka utan um skólamálin með heildstæðum hætti. Þar er því miður víða pottur brotinn, sama hvort við lítum til mönnunarvanda, þjónustunnar sem börnin fá, þjónustu til skólanna, biðlista eftir úrræðum og þannig mætti lengi telja. Skólar eru í mismunandi stöðu til að veita þjónustu, m.a. vegna smæðar. Ég fæ ekki betur séð en þessar breytingar sem verið er að leggja til séu jákvæðar þó að maður sé ekki alveg búinn að ná utan um það hvort þær leysi allan þann vanda sem skólasamfélagið okkar stendur frammi fyrir eða hreinlega bara börnin sjálf.

Þegar maður fer inn á heimasíðu Menntamálastofnunar, sem er nánast að deyja drottni sínum innan væntanlega ekki langs tíma, þá eru þar skilgreind þau verkefni sem stofnuninni ber að sinna. Þar er m.a. sagt frá því að hún eigi að sjá grunnskólanemendum fyrir fjölbreyttum og vönduðum námsgögnum. Maður gerir ráð fyrir því að ný þekkingarmiðstöð eða skólaþjónustustofa beri ábyrgð á því að skólarnir hafi úr vönduðum námsgögnum að ráða.

Í öðru lagi segir að Menntamálastofnun hafi eftirlit og meti með mælingum árangur af skólastarfi. Í þessu felst að sjá um samræmd próf sem maður gerir ráð fyrir að verði nú felld niður, alla vega gat ég ekki heyrt annað en að þannig yrði það á nýráðnum forstjóra Menntamálastofnunar, væntanlegum forstjóra nýrrar þjónustumiðstöðvar, í viðtali á Rás 2 í morgun.

Síðan er talað um söfnun og greiningar og birtingar upplýsinga um menntamál og síðan í fjórða lagi framkvæmd ýmissa stjórnsýsluverkefna sem manni sýnist á öllu að sé verið að færa til ráðuneytisins. Það má lesa um það að þegar Menntamálastofnun var stofnuð voru þessi verkefni færð til stofnunarinnar frá ráðuneytinu. Nú er verið að fara með þau til baka aftur. Það er kannski ágætt að búið sé að gera ákveðna tilraun sem er talið að hafi ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Það væri því ágætt ef við lærðum af því að prófa okkur áfram.

Það sem manni finnst vera spennandi í þessu, af því að við erum að tala um þessa samþættingu, er íþrótta- og tómstundastarfið sem skiptir auðvitað miklu máli. Ef við erum að ræða samþættingu á annað borð þá varðar það ekki bara menntamálin heldur kannski daglegt líf barna og ungmenna á hvaða sviði sem er.

Manni sýnist svona fljótt á litið að með þessu sé ríkið að ætla sér stærri hlut í skólastarfi heldur en það hefur gert undanfarin ár. Manni hefur einhvern veginn fundist að fræðsluskrifstofur sveitarfélaga hafi svona að mestu leyti séð um þetta en mér finnst ég geta lesið út úr þessu að ríkið ætli sér stærri hlut í skipulagningu á skólastarfi og aukna þátttöku í að láta þessa hluti ganga.

Af því að sjálfstæði sveitarfélaga er mikið er sérstaklega mikilvægt að það sé tryggt að smærri sveitarfélög sitji hreinlega ekki eftir. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins hefur gert athugasemdir við misræmi milli sveitarfélaga hvað varðar aðgengi barna að þjónustu. Við þekkjum það bara svo vel að minni sveitarfélög sem hafa t.d. ekki getað rekið fræðsluskrifstofur hafa verið að leita til annarra sveitarfélaga eftir þjónustu. Líka bara á velferðarsviðinu og hvað varðar barnaverndarnefnd þá hafa minni sveitarfélög oft og tíðum ekki haft burði til að sinna því sem þeim í raun og veru ber skylda til að gera samkvæmt lögum. Og í sjálfu sér er ekkert að því að samstarf sveitarfélaganna sé með þeim hætti að þau standi saman við að sinna ákveðnum verkefnum.

Það sem maður vill kannski velta vöngum yfir núna er hversu langt á að ganga í að skerða frelsi skóla og skólastjórnenda til að haga kennslu í samræmi við þær áherslur sem hver skóli hefur verið að setja sér. Við erum reyndar með svolítið ólíkt kerfi í leikskólunum. Þar er kannski aðeins meira frelsi þar sem við erum með einkarekna leikskóla sem setja prógrammið svolítið á annan hátt. Síðan sjáum við auðvitað að sumir skólar einbeita sér hreyfingu, aðrir einbeita sér að tónlist eða einhverju slíku. Hvort það sé hætta á því að skólarnir tapi sérstöðu sinni með því að auka einsleitni í skólastarfi er kannski eitthvað sem þarf bara að vakta. Það er auðvitað nauðsynlegt að skólarnir hafi ákveðið frelsi til að sinna þeim hlutum sem þeir telja að sé jákvætt að sinna.

Það sem mér finnst líka spennandi, eins og hefur verið nefnt á fundum og er nefnt í þessu, er það sem kallað er inngilding sem er auðvitað alveg ótrúlega mikilvægt. Ef maður veltir því fyrir sér: Hvað þýðir inngilding? Bara að auka þátttöku barna, að þau skynji að þau séu hluti af hópnum, að þau séu með. Við þekkjum það að börn af erlendum uppruna eru kannski stundum utangarðs, standa utan hópsins. Maður skilur ekki alveg orðið inngilding en ef maður veltir þessu fyrir sér þá skiptir þetta máli.

Mér finnst líka spennandi það sem maður hefur heyrt á þessum fundum um að það verði búin til einhvers konar viðbragðsteymi til að styðja við og hjálpa sveitarfélögunum til að takast á við erfið mál sem geta komið upp inni í skólunum. Við vitum, eins og hér var nefnt áðan, að börn hafa mismunandi þarfir. Börn eru líka að glíma við geðræn vandamál. Það er ekki alltaf hægt að vera með úrlausn í litlum sveitarfélögum eða bara sveitarfélögum yfirleitt. Þetta eru kannski erfið mál að takast á við og þess vegna er mikilvægt að það verði búin til einhvers konar verkfærakista sem sveitarfélögin geta þá leitað í til að takast á við einstök mál sem upp koma sem eru ekkert endilega alltaf daglegt brauð en geta verið mál sem eru bara erfið úrlausnar og mikilvægt að takast á við.

Mig langaði kannski að lokum að nefna að þrátt fyrir að við séum að tala um það sem hefur verið nefnt mennta- og skólaþjónusta þá er þetta auðvitað hluti af samþættingunni. Það er hluti af samþættingunni hvernig við ætlum að vinna með börn og ungmenni. Þá spyr maður sig: Hver er eftirlitsaðilinn með samþættingunni? Er það þessi stofnun? Hæstv. ráðherra nefndi áðan að barnaverndarnefndir væru jú á borði félagsmálaráðherra en barnaverndarnefndir eru auðvitað hluti af samþættingunni. Við erum að sjá breytingar eiga sér stað þar. Það er verið að fara úr því kerfi að vera með barnaverndarnefnd í hverju sveitarfélagi yfir í einhvers konar svæðisbundnar barnaverndarnefndir eða landshlutabarnaverndarnefndir til að stækka mengið og auka þá þekkinguna sem er inni í nefndunum og færa þetta svolítið frá því fólki sem þekkir börnin og á erfitt með að takast á við erfiðleika sem eru kannski til staðar inni á heimilum. Þannig að þarna er verið að vinna að ákveðnu velferðarúrræði sem er auðvitað hluti af samþættingunni.

Við erum að tala um sveitarfélögin og félagsþjónustuna, við erum að tala um skólana, við erum að tala um heilbrigðiskerfið og hver eigi að láta vita og hver ætli að halda utan um pakkann. Mér finnst bara skipta máli að það sé algerlega skýrt hver ber ábyrgð á að samþættingin eigi sér stað og verði að veruleika. Ég veit að það voru ekki allir ánægðir í sveitarfélögunum með hversu lítið fékkst frá heilbrigðisstofnunum. Það vantaði kannski vilja hjá heilbrigðisstofnunum til að taka þátt í þessu eða kannski vantaði bara hreinlega mannskap, einhverja sem voru með það á sínu borði að sjá alveg um þetta, að vera alveg í samráðinu og samstarfinu sem skiptir svo miklu máli.

Að því sögðu þá er ég bara ánægður með að það sé verið að vinna að þessu. Þetta er stórt og mikið verkefni sem verið er að vinna með og kemur fram í farsældarfrumvörpunum öllum. Við erum ekki komin til enda en þetta er góður partur af þeirri vegferð.