Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 97. fundur,  24. apr. 2023.

Mennta- og skólaþjónustustofa.

956. mál
[17:58]
Horfa

Indriði Ingi Stefánsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að taka fram að ég fagna þessari löggjöf. Þetta lítur rosalega vel út. Það er alveg löngu tímabært að taka þessi mál föstum tökum og tryggja að menntun barna sé dínamísk og taki til greina þær breytingar á umhverfi sem eru að verða og geri það með hagsmuni barnanna fyrst og fremst að leiðarljósi. Ég held að ekki þurfi að benda neinum á þær miklu breytingar sem eru fram undan með tilkomu gervigreindar hvað varðar menntun. Nú tók ég eftir því að í þessu frumvarpi er ekki vikið að því með neinum hætti. Mér þykir þetta vanta. Mér þykir vanta að þessi stofnun fái í raun sterkt umboð til þess að taka til greina þær breytingar sem eru bara handan við hornið hvað varðar menntun og að þess sé skýrt getið í lagasetningunni þannig að vilji löggjafans til þess sé skýr, auk þess hversu mikilvægt það er hvernig brugðist er við þeim miklu breytingum sem eru fram undan með tilkomu gervigreindar. Þau viðbrögð þarf að samræma milli menntastofnana þannig að hver og ein stofnun þurfi ekki sjálf upp á sitt einsdæmi að meta hvernig viðbragðið er heldur sé þetta bara fumlaust og komi beint frá þessari góðu stofnun til samræmis.