136. löggjafarþing — 64. fundur
 20. desember 2008.
eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara, 2. umræða.
stjfrv., 246. mál (réttindaávinnsla o.fl.). — Þskj. 363, nál. 425 og 430, brtt. 426 og 429.

[10:32]
Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti allsherjarnefndar vegna frumvarps til laga um breyting á lögum um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

Nefndin hefur fjallað um málið á fundum sínum og fengið til sín gesti.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á eftirlaunakjörum alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara í því skyni að koma á meira samræmi í lífeyrismálum ráðamanna og almennings. Í fyrsta lagi er lagt til að aldurslágmark alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara til töku eftirlauna verði hækkað úr 55 árum í 60 ár. Í öðru lagi er lagt til að réttindaávinnsla þeirra verði 2,375% fyrir hvert ár í embætti í stað 3% ávinnslu hjá alþingismönnum og 6% hjá ráðherrum og hæstaréttardómurum. Í þriðja lagi er lagt til að þessir hópar geti ekki notið samtímis eftirlauna og launa frá ríkinu og launagreiðslur komi að fullu til frádráttar eftirlaunum. Skerðingarregla gildandi laga gildir áfram um launagreiðslur vegna starfa hjá öðrum aðilum. Í fjórða lagi er lagt til að sérákvæði um eftirlaunakjör forsætisráðherra verði felld á brott þannig að um fyrrverandi forsætisráðherra gildi eftirleiðis sömu reglur og um aðra ráðherra. Loks er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að áunnin réttindi alþingismanna og ráðherra skerðist ekki. Þá er ráðgert að þær breytingar sem lagðar eru til á 15. gr. laganna gildi einungis um þá hæstaréttardómara sem skipaðir verða eftir fyrirhugaða gildistöku frumvarpsins.

Innan nefndarinnar komu fram sjónarmið um ýmsar frekari breytingar eða aðrar útfærslur á fyrirkomulagi eftirlauna þeirra sem undir þessi lög heyra og telur meiri hluti allsherjarnefndar að slík skoðun þurfi að eiga sér stað.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt eins og það liggur fyrir.

Ellert B. Schram skrifar undir álitið með fyrirvara.

Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér stendur Ágúst Ólafur Ágústsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Ellert B. Schram, með fyrirvara, Ólöf Nordal og Karl V. Matthíasson.



[10:35]
Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Að frumvarpinu standa sá sem hér er í ræðustól, hv. þm. Jón Magnússon og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir.

Meginmarkmið þessa frumvarps er að gera breytingar á núgildandi lögum er snúa að eftirlaunum forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Forsögu málsins má rekja til setningar laganna árið 2003 sem hafði í för með sér lögbindingu fjölmargra sérréttinda, sérstaklega til handa ráðherrum og hæstaréttardómurum. Er vandséð að það hafi tekist að öllu leyti að ná þessum markmiðum.

Minni hlutinn telur að málið hefði þarfnast mun meiri tíma í nefndinni svo unnt hefði verið að fara yfir það með fullnægjandi hætti og gulltryggja að frumvarpið næði tilgangi sínum.

Minni hlutinn telur mikilvægt að ekki gildi sérreglur fyrir forseta Íslands, ráðherra, alþingismenn og hæstaréttardómara hvað eftirlaun varðar. Það er mat minni hlutans að eðlilegast sé að þeir greiði sambærileg iðgjöld og njóti sömu réttinda og opinberir starfsmenn í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Slíkt fyrirkomulag er einfalt, auðskiljanlegt og gagnsætt auk þess að vera lýðræðislegt.

Minni hlutinn mun standa að breytingartillögum við frumvarpið sem byggðar eru á frumvarpi sem lagt hefur verið fram á Alþingi á þskj. 134 í 124. máli. Er vísað til þess um frekari rökstuðning. Hv. þm. Ögmundur Jónasson mun gera grein fyrir breytingartillögum.



[10:37]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum breytingar á lífeyriskjörum alþingismanna, forseta Íslands, ráðherra og hæstaréttardómara. Það hefur verið mikil umræða um þetta mál, talað um forréttindi o.s.frv. vegna þess að þetta er ógagnsætt. Verið er að veita ákveðin réttindi sem menn sjá ekki í fljótu bragði hvað þýða.

Undanfarið hafa verið mikil mótmæli gegn því ástandi sem ríkir, gegn ýmsu, það er reiði í fólki. Ég bind vonir við að út úr þessum mótmælum komi ákveðin gerjun, ákveðin krafa, ákveðin umræða sem muni leiða til breytinga á ýmsum þáttum í þjóðfélaginu sem gjarnan má breyta. Þar á meðal er gagnsæi, gagnsæi kjara, gagnsæi lífeyriskjara og upplýsingar um lífeyriskjör. Lífeyriskjör eru afskaplega mismunandi hér á landi. Í fyrsta lagi eru enn þá í gangi lífeyrisréttindi sem tengdust gömlu ríkisbönkunum og voru ótrúleg. Þá eru líka lífeyrisréttindi í einstökum fyrirtækjum sem voru ótrúleg, bílar til æviloka hjá sjálfseignarstofnunum o.s.frv. Það er ekki uppi á borðum, þetta veit enginn nema sá sem nýtur.

Svo eru alls konar sérkjör. Það er t.d. B-deildin hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins sem er með eftirmannsregluna. Þegar kennarar tvöfölduðust í launum vegna aðlögunarsamninganna hækkuðu lífeyrisþegar allt í einu líka tvöfalt vegna þess að þeir voru með eftirmannsregluna. Síðan erum við með A-deildina þar sem borgað er 15,5% iðgjald, þar sem ríkið borgar 11,5% iðgjald á móti 4% frá launþegunum á meðan það er 12% iðgjald hjá venjulegum lífeyrissjóði og réttindi mikið lakari sem því nemur. Þó er einn stór munur á þessum tveimur kerfum sem er að hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er ríkisábyrgð á réttindunum. Þeim verður ekki breytt. Það sem breytist er ef stjórnir sjóðanna tapa fjármagni sem þeim er falið til ráðstöfunar, t.d. á bankahruninu, hækkar iðgjald ríkisins, ekki launþeganna. Þá þarf að hækka iðgjald ríkisins á meðan engin bakábyrgð er hjá almennu sjóðunum. Hjá almennu lífeyrissjóðunum verða réttindin skert, frú forseti. Það er reginmunur á þessu.

Við erum reyndar núna að leggja til að þau vikmörk sem mega að vera á milli eigna- og skuldbindinga lífeyrissjóðanna skuli víkkuð í eitt ár úr 10% í 15% til að koma í veg fyrir skerðingu vegna bankahrunsins en skerðingin mun líklega koma engu að síður. Hún kemur bara ári seinna. Þetta er eiginlega ófær staða og það er meira að segja fólk sem vinnur hjá sama vinnuveitandanum sem er í öllum þessum þrem kerfum. Sumir í B-deildinni hafa stórhækkað í lífeyri og eru jafnvel með mjög há laun og mjög góð lífeyrisréttindi, þ.e. læknar, ráðuneytisstjórar o.s.frv. Svo eru aðrir sem eru í A-deildinni með ágætiseftirlaun og er ríkisábyrgð á því. En svo er líka fólk sem vinnur hjá ríkinu, aðallega í umönnunarstéttum, láglaunafólk sem er í Eflingu, fólk sem er með 200 þús. kr. á mánuði. Lífeyrir þeirra verður skertur á sama tíma og iðgjaldið inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins verður hækkað sem þýðir aukna skatta og skerðingu fyrir þetta sama fólk. Ef menn eru sáttir við svona jafnrétti er ég undrandi, frú forseti. Þetta er nefnilega ekki jafnrétti, þetta er ójafnrétti. Þetta er dulið, þetta er falið og það veit enginn af þessu.

Við erum hér með frumvarp um lífeyrisréttindi þingmanna. Þau eru aðlöguð að réttindum hjá ríkinu. Árið 1995 flutti ég frumvarp um að þingmenn væru með almenn réttindi eins og fólkið sem kýs þá, eins og 80% þjóðarinnar. Ég vil hafa það þannig að við upplifum sjálf hvernig er að verða skertur þegar eignin dugir ekki til, þegar áfall verður í ávöxtuninni. Það liggur ekkert fyrir við ætlum að fara út í svoleiðis og þær breytingartillögur sem hérna liggja fyrir ganga ekki út á það. Breytingartillögurnar frá hv. þingmönnum Vinstri grænna ganga út á að fara úr einu forréttindakerfinu yfir í annað. En réttindin verða tryggð, við getum alveg sofið róleg, það verður ekkert skert. Iðgjaldið verður hækkað á ríkið, frú forseti, ríkisframlagið verður hækkað. Telja menn þetta virkilega vera réttlæti á sama tíma og fólkið sem er í umönnunarstéttum, á sjúkrahúsum og elliheimilunum og út um allt er skert? Mér þykir það undarlegt. Það er undarlegt réttlæti þeirra manna sem halda slíku fram.

Til að varpa ljósi á þetta flyt ég breytingartillögu um að þingmenn geti valið sér lífeyrissjóð. Ég gæti valið almennan lífeyrissjóð, A-deildina eða hvaða lífeyrissjóð sem er. Þeir hv. þingmenn sem það velja fá launauppbót sem nemur þeim réttindamissi sem þeir verða fyrir, þeim réttindamissi sem felst í því að njóta ekki ríkisábyrgðar á réttindunum eins og 80% þjóðarinnar — það er þessi massi sem er að verða atvinnulaus núna. Þingmenn geti valið það og fá launauppbót. Þá kemur í ljós, frú forseti, hvers virði þessi réttindi eru. Þá kemur nákvæmlega í ljós hvers virði þau eru og ég mun ríða á vaðið þegar þessi breytingartillaga hefur verið samþykkt og óska eftir því að ganga í Lífeyrissjóð verslunarmanna þar sem ég á mestöll mín réttindi. Þau munu líklega verða skert þó að sá sjóður standi reyndar hvað best af öllum sjóðum vegna þess hve mikið er af ungu fólki í honum. Það eru aðrir sjóðir sem standa miklu verr, því miður, og hafa líka orðið fyrir áfalli.

Mér finnst það réttlætismál og það er krafa tímans um gagnsæi og upplýsingar að svona lagað sé gert þannig að ég skora á hv. þingmenn að samþykkja þessa tillögu. Hún er ekkert annað en heimild fyrir þingmenn til að fara út úr þessu forréttindakerfi sem þeir eru þvingaðir inn í með lögum. Ég er þvingaður inn í þetta með lögum. Ég skal greiða í þetta, ég skal njóta þessara réttinda. Ég skal hafa pikkföst réttindi þegar allur almenningur í landinu þarf að sætta sig við skerðingu, þá þarf ég ekki að sætta mig við skerðingu á þessum hluta lífeyrisréttinda minna. En þau réttindi sem ég aflaði mér á hinum frjálsa markaði áður en ég fór í þingstörfin skulu skert eins og allra hinna, 70–80% þjóðarinnar sem vinna á markaðnum og finna raunverulega fyrir þessu falli. En opinberir starfsmenn finna ekki fyrir því og þingmenn ekki heldur.



[10:45]
Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að fólkið í landinu býr við mismunandi réttindi. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega ófaglært verkafólk og lífeyrissjóði þeirra, eða ég skildi ræðu hans þannig, og bendir á það óréttlæti. Ég er algerlega sammála því. Allir landsmenn eiga að búa við jafnan lífeyrisrétt. En er þá ekki eðlilegt, hv. þm. Pétur Blöndal, að rétta hlut ófaglærðs fólks eða rétta hlut fólks sem eru sjóðfélagar í hinum almennu lífeyrissjóðum, sem ég kalla svo, að færa þau upp þannig að þau séu mannsæmandi en lúti ekki skerðingum eins og nú blasir við vegna efnahagsstefnu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokksins frá 1991? Ég spyr líka hv. þingmann: Hvernig megna breytingartillögur hans, sem ég veit að eru fluttar af góðum hug og með góðan tilgang, að rétta hlut þeirra sem verst eru settir í lífeyrissjóðakerfinu? Hvernig fer hv. þingmaður fram til að svara þeirri gagnrýni sem hann setur fram á misréttið? Hvað vill hann gera í þeim málum?



[10:47]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum núna að afgreiða fjárlög sem eru með mjög miklum halla vegna þeirra áfalla sem íslenska þjóðin hefur orðið fyrir, bankahruni, keðjuverkun, atvinnuleysi o.s.frv. Það er mjög mikill halli á ríkissjóði. Ef hann ætti að bæta lífeyrissjóðunum upp tap þeirra til að viðhalda réttindum þar yrði hann sennilega að bæta við nálægt 100 milljörðum. Nú veit ég ekki nákvæmlega hverju lífeyrissjóðirnir töpuðu en það sem hv. þingmaður segir er að ef við ætlum að rétta hlut almenningssjóðanna verðum við væntanlega að bæta þeim tapið af hruninu.

Ég sé ekki voðalega auðvelda leið til þess því að það mundi bara lenda á skattgreiðendum, þessu sama fólki og borgar í lífeyrissjóðina núna og verður brátt fjár vant þannig að það er engin lausn í því. Svo spyr hv. þingmaður hvernig ég sjái lausn í breytingartillögu minni. Hún er einmitt sú að sama dag og ég fer í Lífeyrissjóð verslunarmanna mun ég fá launahækkun sem því nemur, verðmæti réttindanna, og þá liggur það kristaltært fyrir hvers virði þessi réttindi eru, líka hjá opinberum starfsmönnum út um allt þjóðfélagið sem eru í A-deild og sérstaklega í B-deild. Þá munu menn ekki fimbulfamba alla daga um hve mikils virði þessi réttindi eru. Þá liggur það bara fyrir upp á krónu og aur og þá get ég verið með kjósendum mínum í Lífeyrissjóði verslunarmanna á meðan aðrir þingmenn eru í forréttindahópnum.



[10:49]
Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég kom í ræðustól vegna þess að hv. þingmaður notar sér það að benda á lök kjör sjóðfélaga í hinum almennu lífeyrissjóðum. Ég skil rökstuðning hans þannig að hann vilji leiðrétta kjör allra niður á við þannig að þeir sitji við borð sem ekki er sæmandi. (Gripið fram í.) Ég hygg að hv. þingmaður ætti að huga að því.

Ég spurði líka hvernig hann sjái fyrir sér leiðréttingu. Ég er ekki að tala um leiðréttingu í fjárlögum í ár en ég spurði hv. þingmann hvernig hann gæti séð það fyrir sér til framtíðar þannig að við getum leiðrétt þessi kjör svo að allir sitji við sama borð, leiðrétt kjör þeirra sem lakast eru settir í lífeyrissjóðakerfinu. Kjör sjóðfélaga sem lakast eru settir verði færð upp. Hvernig sér hv. þingmaður það fyrir sér? Á hugsanlega að taka allt þetta inn í almannatryggingakerfið? Almanntryggingakerfið og lífeyrissjóðakerfið hafa ekki starfað saman sem skyldi. Réttindi í lífeyrissjóðum hafa orðið til skerðinga á rétti í almannatryggingakerfinu og er þá hugsanlegt að snúa til baka? Er þetta kerfi jafnsterkt og af er látið miðað við það hrun sem orðið hefur hér?

Svo verð ég líka, frú forseti, að vekja athygli á því svo að því sé haldið til haga að alþingismenn taka hér á sig verulegar skerðingar á lífeyrisréttindum, skerðingar umfram réttindi þeirra fyrir ósómalögin 2003, svo að því sé haldið til haga. Ég er ekki staddur í ræðustól til að leggjast gegn því. Ég hygg að þingmenn þoli það en þessari staðreynd verður að halda til haga.



[10:51]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Öll velferðarkerfi og allar tryggingar eru greiddar af einhverjum og það er alltaf hinn vinnandi maður sem sér bæði um kynslóðina á undan sér og á eftir. Hann sér um uppeldi barnanna hvort sem hann gerir það með sköttum og kemur þeim á leikskóla og í grunnskóla eða hvort hann gerir það með beinni framfærslu. Það er í rauninni spurningin um dreifingu. Hann sér líka um kynslóðina á undan sér sem orðin er farlama og getur ekki unnið vegna elli. Hann sér líka um öryrkja. Svona er það.

Spurningin er hvað við ætlum að lesta hinn vinnandi mann mikið til að hafa góð kjör hjá hinum. Það er mjög mikilvægt að þau kjör séu sambærileg, að sumir séu ekki með mjög há réttindi í ellilífeyri og aðrir með lök réttindi. Ég hygg að ef þessi forréttindi opinberra starfsmanna, sérstaklega þingmanna og ráðherra, eru minnkuð og launin raunverulega sýnd, sé hægt að bæta kjör hinna sem verst eru settir. Reyndar er íslenska lífeyriskerfið alls ekki slæmt þó að það komi einstaka sinnum áföll eins og núna. Það er í rauninni tiltölulega gott miðað við alþjóðlegan samanburð. Þegar við höfum Tryggingastofnun undir sem net er það í rauninni tiltölulega gott. Ég hygg að þeir sem verst eru settir í íslenska lífeyrissjóðakerfinu eru ekki illa settir, alls ekki. En það sem er verst í þessu eru forréttindin sem sumir hafa komið upp. Ég vil benda á að þessi umræða á sér stað víðar í heiminum, t.d. í Bretlandi þar sem menn hafa komið sér upp forréttindalífeyri. Lífeyrir er nefnilega falinn, hann sést svo illa. Það er bara sá sem tekur á móti honum sem veit hvar hann er. Yfirleitt er hann ekki þekktur. Hérna í þjóðfélaginu er ótrúlegur fjöldi fólks sem hefur góðan lífeyri. Ég held að það hafi verið 800 manns árið 2005 sem höfðu meira en hálfa milljón á mánuði lífeyri samkvæmt könnun sem ég gerði.



[10:53]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að óska eftir því við forseta að þeir tveir ráðherrar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, sem mesta ábyrgð bera á þessu máli mæti og verði viðstaddir umræðuna. Mér finnst þá vanta til umræðunnar, sérstaklega í ljósi þess hver þátttaka eða aðkoma þeirra að málinu hefur verið.

Fyrir rúmum mánuði eða 22. nóvember héldu þessir tveir ráðherrar blaðamannafund og tilkynntu þær breytingar sem þeir höfðu komið sér saman um að yrðu gerðar á eftirlaunum alþingismanna o.fl. Mér finnst ekki úr vegi að þeir mæti til þingsins og geri grein fyrir sjónarmiðum sínum við þingið. Fyrst þingið er málsaðili sem þessir tveir ráðherrar töldu sig hafa stöðu til að taka ákvörðun fyrir og tilkynna það fjölmiðlum finnst mér að þeir eigi að sýna okkur þann sóma að mæta til þings og ræða við okkur um þetta mál.

Þetta mál sem hefur verið eitt það umdeildasta í íslenskum þjóðmálum undanfarin fimm ár á meira skilið en þeir sem mest hafa látið það til sín taka hverfi af vettvangi þegar það kemur til umræðu. Ég fer fram á að þeir komi til umræðunnar, virðulegi forseti, verði hér, taki þátt í henni og geri okkur grein fyrir sjónarmiðum sínum. Mér finnst það algert lágmark að þeir sem eru gerendur í málinu standi fyrir máli sínu gagnvart þeim m.a. sem það snýr að.

Ég minni á að þegar rædd var ný heildarlöggjöf um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins fyrir 12 árum, í desember 1996, var þáverandi fjármálaráðherra, Friðrik Sophusson, spurður um afstöðu sína til þess hvernig lífeyriskjörum alþingismanna og ráðherra ætti að vera háttað. Hann fór yfir það hver skoðun hans á því máli væri og sagði: Það er ekki mitt mál að flytja tillögur um lífeyrisréttindi alþingismanna. Ég lít svo á, sagði þáverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins, að það sé málefni forseta Alþingis að leiða starf um það hvernig menn kjósa að skipa þeim málum og bera fram tillögur um það. Það hefur breyst nú 12 árum síðar að það er ekki lengur afstaða forustumanna Sjálfstæðisflokksins að það sé viðfangsefni forseta Alþingis að leiða það starf og bera fram tillögur um hvernig skipa eigi málum á Alþingi varðandi alþingismenn sjálfa heldur hafa forustumenn ríkisstjórnarinnar tekið sér það vald í sínar hendur og tilkynna þinginu á blaðamannafundi hvernig þetta eigi að vera. Þeir mæta þó ekki til umræðunnar sjálfir nema tilkallaðir, boðaðir til umræðunnar eins og menn eru boðaðir til dómstóla. Þessir tveir ágætu ráðherrar voru hvergi sjáanlegir við 1. umr. málsins, ekki fremur en fuglinn fljúgandi.

Mér finnst í þessu fólgin óvirðing við þingið, lítilsvirðing við stjórnmálin sem umræðuvettvang og lítið gert úr Alþingi sjálfu með því að ætla því að taka við því sem að því er rétt og láta sér það lynda án þess að eiga einu sinni orðaskipti við þá sem að málinu standa og þeir komi upp í ræðustól til að fara yfir efnisatriðið með okkur til að útskýra hvers vegna þeir leggja þetta til. Ég tel það grundvallaratriði að menn manni sig upp í að gera slíkt. Ég tel að Alþingi eigi ekki að láta koma svona fram við sig og eigi ekki að þola það, hvorki þessum ráðherrum né öðrum, svona framkomu. Þetta er að mínu viti spegilmynd af þróuninni sem orðið hefur í íslenskum stjórnmálum á síðustu 12 árum frá því að varaformaður Sjálfstæðisflokksins stóð í þessum ræðustól og sagði: Það er ekki verkefni fjármálaráðherra að leggja fyrir þingið tillögur um lífeyrisréttindi alþingismanna. Það er verkefni forseta þingsins.

Þróunin þessi 12 ár eru foringjastjórnmálin, þróunin þar sem æ meira af pólitísku valdi hefur verið dregið í hendur á forustumönnum ríkisstjórnarflokkanna á hverjum tíma, þróun sem átti sér stað í tíð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar. En ég hélt að þessi þróun mundi breytast með nýju fólki og að nokkru leyti nýjum flokkum en enn sem komið er sé ég engin merki þess. Ég sé bara sömu foringjastjórnmálin í báðum ríkisstjórnarflokkunum um þessar mundir. Þeir tala við þingið alveg eins og Davíð Oddsson gerði og alveg eins og Halldór Ásgrímsson gerði. Ég sé engan mun á nema kannski helst þann að það eru meiri foringjastjórnmál í þessu máli en finna má í mörgum öðrum á umliðnum 12 árum. Þessari þróun verður þingið að snúa við og þingið snýr ekki við þessari þróun ef það lætur það viðgangast að búið sé þannig að því í kjörum langt undir því sem verið hefur og langt undir því sem það ágæta fólk sem nú situr á ráðherrabekkjunum býður því fólki sem það vill hafa í vinnu. Hvernig væri t.d. að hæstv. utanríkisráðherra upplýsti þingheim um hvaða laun ráðherrann greiðir sendiherranum sem hann réði um daginn?

Miðað við þær upplýsingar sem ég hef eru laun sendiherra um 627 þús. með 15–20 einingum ofan á, í heildina 750 þús. kr. á mánuði. Laun alþingismanna eru 560 þús. kr. plús — við skulum sjá til með það, virðulegi forseti. En ef þetta eru þau laun sem þessir ágætu ráðherrar bjóða fólki sem þeir vilja hafa í vinnu, hvort sem það eru sendiherrar eða skrifstofustjórar því að það er mjög svipað — ég er ekki að miða við hæst launaða eða æðsta embættisfólk ráðuneytanna, ég er ekki að miða við ráðuneytisstjóra heldur millifólk og þingmenn eru langt undir því. Ef þetta eru launin sem ráðherrarnir telja eðlilegt að greiða þessu fólki, þá spyr ég: Hvers vegna er ekki eðlilegt að greiða þingmönnum sambærileg laun? Hvar er viðmiðunin hjá þessum tveimur ágætu ráðherrum?

Nú kunna þeir að segja og það er nokkuð til í því að lífeyrisréttindin sem þingmenn hafa búið við eru betri en almennt gerist. Það er rétt og það má meta þau til verðs og til launa. En þá segi ég: Það sem er verið að gera hér er að verið er að færa lífeyrisréttindi alþingismanna niður í það sama og væntanlega er hjá þeim stéttum sem ég tók til viðmiðunar. Ég hef að vísu ekki kannað lífeyrisréttindi þeirra, ég geng út frá því að þeir séu í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Gott og vel. Ef við færum lífeyrisréttindi alþingismanna niður í það hljóta menn að ætla að hafa launakjör alþingismanna á sama stað og sendiherra og skrifstofustjóra í ráðuneytunum, um 700–750 þús. kr. Það hlýtur þá að vera viðmiðunin. Það er ekki bara hægt að lækka laun alþingismanna eða kjör þeirra og láta þá standa eftir með þriðjungi lakari launakjör en kjör meðalembættismanna hjá ríkinu. Ef meiningin er að þingmenn eigi að vera svona langt undir þessari viðmiðun sem má deila um hvort sé rétt, hvort ekki eigi að taka hærri viðmiðun, eru menn einfaldlega að vinna að því að brjóta niður þingið sem stofnun.

Það er ekkert annað sem vakir fyrir mönnum en að gera þingið veikara vegna þess að það dregur ekki að fólkið sem við þurfum að fá til þings ef það fólk sem við sjáum að er mikill fengur í að komist á þing getur fengið vinnu víðast hvar á miklu hærri launum og meðal annars hjá ráðherrunum sjálfum. Hverjir eiga að glíma við ráðherrana við þessar aðstæður? Sjá menn ekki hvað er verið að gera? Það er verið að veikja þingið, það er verið að veikja löggjafarvaldið, það er verið að styrkja ríkisstjórnina. Það er verið að styrkja framkvæmdarvaldið. Það er það sem verið er að gera, virðulegi forseti.

Ég hef engar sérstakar skoðanir eða áhuga á því að lífeyriskjör alþingismanna eigi að vera með tilteknum hætti, svona eða á hinn veginn. Mér er alveg sama þó að þau séu eins og gerist í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, það er ekki málið. Það sem ég segi er að heildarkjörin eiga að vera það góð að þau standist einhvern samanburð við viðmiðunarhópa sem menn taka til samanburðar. Þau eiga að vera hófleg en þau eiga að vera góð. Staðreyndin er sú að þau eru hvorugt og þau verða það örugglega ekki ef þessi breyting nær fram að ganga og ekkert annað gerist í framhaldinu. Halda menn að þessir ágætu ráðherrar muni nú í framhaldi af því þegar við höfum samþykkt að lækka launin okkar með frumvarpi hér áðan, fara í Landspítalann og lækka launin hjá læknunum sem eru með eina milljón og upp í tvær milljónir á mánuði? Ég læt mér ekki detta í hug að það hafist í gegn. Ég held að eftir þessa aðgerð verði það tiltölulega fámennur hópur opinberra starfsmanna sem munu lækka launin sín en alls ekki þeir sem eru hæst launaðir.

Ætla menn að lækka laun ráðuneytisstjóra um 10%, 15 eða 20%? Ég held að það verði allt í skötulíki og menn geta ekki lækkað samningsbundin laun, það sýnist mér vera alveg vonlaust mál. Ég á eftir að sjá hv. þm. Ögmund Jónasson standa upp og tala fyrir því að hálaunamenn lækki launin sín, séu þau laun á annað borð samningsbundin. Ég er þegar farinn að heyra hann segja að það eigi ekki að hreyfa við samningum og ég hugsa að flestir taki undir að það eigi ekki að hreyfa við samningum. En hver er þá ávinningurinn, virðulegi forseti, þegar menn hafa lækkað laun alþingismanna og eftirlaunaréttindi þeirra? Hvar standa menn með þingið í þessari stöðu? Jú, þeir sitja úti í sal og mæna á ráðherrana og bíða eftir því að þeir komist eitthvað áfram í pólitíkinni. Hvar verður þá staðfestan sem þarf að vera í hverju þingi af fólki með reynslu og þekkingu og kunnáttu og kjark til að standa á móti framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma og laga málin sem þarf að laga, stoppa málin sem þarf að stoppa? Hvað verður um það, virðulegi forseti?

Mér finnst að það hafi orðið mikil breyting á Alþingi á síðasta áratug og hún er ekki öll til bóta þó að fólkið allt sé gott. Þingið hefur veikst. Þingið hefur veikst mjög mikið og það er, held ég, eitt af því sem almenningur er að velta fyrir sér í kjölfar hruns bankanna og spyr: Hvað er það sem farið hefur á rangan veg á síðustu árum? Hvað er það sem þarf að breytast? Eitt af því sem fólk segir er: Það er þingið sjálft. Það vinnur ekki vinnuna sína. Það er nokkuð til í því. Við vinnum ekki alltaf vinnuna okkar. Við vinnum ekki vinnuna okkar þegar ráðherrar koma með mál sem gerð eru að lögum á sama sólarhring, daginn eftir eða á þriðja degi. Það höfum við svo oft brennt okkur á á undanförnum árum. Þó að aðstæður kunni oft að vera þannig að það verði að vinna hratt er vitað að þegar unnið er hratt er hætta á mistökum og þau hafa orðið. Stundum hafa ekki orðið mistök, stundum hafa menn ekki viljað vinna vinnuna sína. Hver ætlar að standa því upp og halda því fram að hv. allsherjarnefnd hafi unnið vinnuna sína í sambandi við þetta eftirlaunafrumvarp? Ég ætla ekki að segja að formaður nefndarinnar geti ekki unnið sitt verk. Ég veit að hann er góður þingmaður. En hann er í þeirri stöðu að honum er sagt: Þú átt að taka málið út í dag. Það er pólitísk niðurstaða forustumanna stjórnarflokkanna og menn eru í þeirri stöðu að þeir segja: Já, ég verð að gera það. Þannig er staðan, virðulegi forseti.

Í þessu eftirlaunamáli eru margar rangfærslur sem farið hefur verið með, þar á meðal hæstv. utanríkisráðherra sem hefur haft miklar skoðanir á þessu máli gegnum árin og sagði t.d. á landsfundi Samfylkingarinnar í aprílmánuði 2002, með leyfi forseta:

„Í árslok 2003 var friður rofinn í íslensku samfélagi með lagasetningu sem færði ráðamönnum ríkisins eftirlaun langt umfram það sem almennt gerist.“

Ég fór yfir málið í 1. umr. um það hvernig breytingin var gagnvart alþingismönnum. Hún færði þeim ekki eitt eða neitt, virðulegi forseti. Hún skerti eftirlaun alþingismanna, mismunandi mikið en hún skerti þau. Eftir þá lagabreytingu árið 2003 fá þingmenn minna en þurfa að borga meira fyrir það. Menn fá minna fyrir meira. Mér finnst ekki að forustumenn í stjórnmálum eigi að tala svona eins og ég hef vitnað til vegna þess að hér er ekki farið með rétt mál.

Síðan hefur verið mikil gagnrýni á að þingmenn og ráðherrar fyrrverandi geti tekið laun á sama tíma og þeir þiggja eftirlaun hjá ríkinu. Í þessu er líka mikið sagt sem ekki er rétt. Ég ætla að eyða síðustu mínútum mínum í að fara aðeins yfir það mál.

Ég vil minna á að í gildandi lögum sem sett voru 2003 voru einmitt sett ákvæði sem skerða eftirlaun hafi menn aðrar tekjur. Það var gert með þeim rökstuðningi að í þessum lögum væri verið að ákvarða eftirlaunarétt ráðherra og þingmanna sem var sambærilegur hvað ráðherra varðar við það sem ákveðið hafði verið löngu áður. Hann var lakari hjá þingmönnum en verið hafði en var þó betri en almennt gengur og gerist. Það er alveg rétt. Eftirlaun þeirra hafa verið betri en gengur og gerist og það er enginn feluleikur með það. En einmitt vegna þess var ákveðið að um þessa skekkju gilti það sem ekki gildir um aðra. Það gildir ekki um aðra að þegar menn eiga rétt á lífeyri skerðist hann vegna annarra tekna. Almenna reglan er sú að réttindaávinnslu njóta menn þegar þeir hafa tök á að taka út laun sín burt séð frá öðrum tekjum. Það er meginreglan í eftirlaunarétti. Frávikið varðandi alþingismenn, ráðherra og aðra sem undir þessi lög heyra vegna þess að þar er um að ræða betri réttindi. Í gildandi lögum er fjallað um þá sem nýta sér ákvæði um að hætta snemma og fara á eftirlaun 55 ára sem er það fyrsta sem mögulegt er sem reyndar enginn þingmaður getur nýtt sér nema hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Sá sem nýtir sér það og fer svo að vinna strax í öðru starfi, hvort sem er hjá ríkinu eða einhverjum öðrum, það skiptir engu máli, verður að þola skerðingu á áunnum eftirlaunum um 0,5% fyrir hvern mánuð sem vantar upp á 65 ára aldur. Nýti hann sér réttindin til hins ýtrasta, sá sem hættir á þingi 55 ára og fer beint í starf, skerðast eftirlaunin um 60%. Það er enginn sem fær full eftirlaun og full laun fyrir sitt starf. Í þessu hefur margt verið sagt sem ekki er rétt.

Meðalþingaldur er um 11 ár. Ég reiknaði að gamni mínu dæmið fyrir þingmann sem er búinn að sitja í 10 ár. Hann situr eitthvert árabil, hættir og fer að vinna önnur störf. Svo þegar hann er orðinn 65 ára á hann rétt á sínum eftirlaunum og þau eru samkvæmt þessu frumvarpi þá 23,75% eða 133 þús. kr.

Samkvæmt gildandi lögum getur hann fengið þessi eftirlaun eftir 65 ára aldur en samkvæmt þeim lögum sem núna eiga að taka gildi munu eftirlaunin sem hann fær skerðast um þau laun sem hann hefur. Sá sem er t.d. 68 ára, hefur setið á þingi í 10 ár, kannski fyrir 20 árum síðan er á launum og fær fyrir það 250 þús. kr. það er þá verið að taka af honum allan eftirlaunaréttinn? Hvaða réttlæti er í því, virðulegi forseti, að svipta menn þeim réttindum sem þeir hafa áunnið sér sem á við um flesta þingmenn? Það eru aðeins þeir sem setið hafa mjög lengi á þingi sem geta haldið eftir einhverjum hluta af eftirlaunum sínum.



[11:14]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að kynna breytingartillögur við frumvarp ríkisstjórnarinnar sem standa að auk mín hv. þingmenn Atli Gíslason, Jón Magnússon, Grétar Mar Jónsson, Siv Friðleifsdóttir og Eygló Harðardóttir. Tillögur okkar er að finna í sex liðum, í fyrsta lagi tillögu þess efnis að allir sem heyra undir lögin fari nú við áramótin yfir í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hún er lögum samkvæmt öllum þessum aðilum opin og ef svo færi að þetta yrði samþykkt þá mundu alþingismenn, ráðherrar, svokallaðir æðstu embættismenn og aðrir sem lögin taka til njóta sambærilegra lífeyriskjara og almennt gerist hjá starfsmönnum ríkisins.

Í öðru lagi er ákvæði þess efnis að þegar áunninn réttur verði eigi skertur. Þetta er í samræmi við frumvarp sem áður hefur komið fram hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur. Því hefur oft verið hreyft í umræðunni að rétt væri að skera alveg á slík áunnin réttindi og láta reyna á það hvort einhver vildi sækja réttinn fyrir dómstólum en niðurstaðan varð sú að fara þessa leið.

Í þriðja lagi er ákvæði þess efnis að taki menn lífeyrisréttindi samkvæmt gildandi lögum og koma til með að halda áunnum réttindum sínum, verði farið að okkar ráðum, hafi ekki heimild til að gegna öðru starfi og taka jafnframt óskertan lífeyri. En við förum aðra leið en ríkisstjórnarmeirihlutinn gerir í þessu efni vegna þess að ríkisstjórnin vill einvörðungu skerða laun þeirra sem eru í starfi hjá hinu opinbera eða félögum sem eru að meiri hluta í opinberri eign. Með öðrum orðum mun fyrrverandi þingmaður eða ráðherra sem fer til starfa hjá ríkinu sæta þessum frádrætti en gerist menn forstjórar hjá tryggingafélagi eða olíufélagi, bankastjórar (PHB: Eða stéttarfélagi.) eða stéttarfélagi eða gegna starfi hjúkrunarfræðings eða sjúkraliða eða hvað það nú er sem menn fara að starfa þá eru þeir lausir allra mála. Við viljum láta eitt yfir alla ganga (Utanrrh.: Ekki hjúkrunarfræðingar.) hvað þetta snertir. Ekki hjúkrunarfræðingur, jú. (Gripið fram í: Þeir fá óskert.) Nei. Ef viðkomandi er hjúkrunarfræðingur þá skal hann samkvæmt frumvarpi sem ríkisstjórnin stendur að ekki geta tekið eftirlaun á sama tíma og hann gegnir launuðu starfi hjá hinu opinbera, það gildir líka hjá hjúkrunarfræðingi. Það sem ég er að segja er að það sama eigi að gilda um fólk sem er starfandi á almennum vinnumarkaði. Samkvæmt ríkisstjórnarbreytingartillögunum er gerður þarna greinarmunur á. Greinarmunurinn er sá að samkvæmt tillögum meiri hlutans á því aðeins að skerða laun þeirra eða lífeyrisréttindi þeirra, lífeyrisgreiðslur þeirra sem fara að starfa að loknu þingstarfinu hjá hinu opinbera. Ef viðkomandi fer að starfa hjá fyrirtæki á markaði á þessi skerðing ekki að koma til. Þetta er munurinn. (KHG: Hún er í gildandi lögum.) Í gildandi lögum er þessi frádráttur ekki. (Gripið fram í: Jú, um ...) Við viljum láta eitt yfir alla ganga hvort sem þeir eru hjá ríki eða annars staðar. (Gripið fram í: Líka ...) Nú er það þannig að einstaklingur getur verið í starfi hjá hinu opinbera og jafnframt tekið eftirlaun. Síðan er hitt alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að taki hann lífeyrisgreiðslur fyrir 65 ára aldur — það er annað mál — þá sætir hann skerðingu um 0,5% fyrir hvern mánuð. Það er rétt og það er áfram. En ég er að vekja athygli á þessum mun sem gerður er á starfsmönnum hins opinbera annars vegar og starfsmönnum á almennum vinnumarkaði hins vegar. Við viljum ekki gera þennan greinarmun þarna á.

Síðan er í 4. og 5. lið breytingartillagna okkar felldur brott meginlagakaflinn og í 6. lið er ákvæði um gildistöku 1. janúar í stað 1. júlí í tillögum ríkisstjórnarinnar. Það er í rauninni alveg óskiljanleg ósvífni að mínu mati að ætla að hanga á þessu núna í hálft ár til viðbótar. Ríkisstjórnin eða oddvitar ríkisstjórnarflokkanna sem hér sitja, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra, formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hétu kjósendum því að tekið yrði á þessum málum. Margir trúðu því að Samfylkingin ætlaði að afnema lögin og færa þingmenn, ráðherra, svokallaða æðstu embættismenn og aðra sem lögin taka til inn í almennt kerfi opinberra starfsmanna. Menn trúðu því margir. Kjósendur trúðu því margir því það var látið í veðri vaka í aðdraganda síðustu kosninga. Nú eru þeir búnir að hanga á þessu allan þennan tíma og fyrir bragðið hækka eigin lífeyriskjör og lífeyrisréttindi vegna þess að á hverju ári hefur lífeyrisávinnsla ráðherra verið rúmlega 42 þús. kr. í stað 23.610 kr. ef þeir hefðu verið í A-deild lífeyrissjóðsins þannig að á hverju ári hafa þeir verið að hækka lífeyrisgreiðslur til sín sem nema rúmum 18 þús. kr. á mánuði hverjum með því að hanga á þessum sérréttindum og fara ekki inn í LSR. Nú á enn um sinn að fresta eigin kjaraskerðingu.

Ég vil víkja nokkrum orðum að því sem kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal sem var óskaplega æstur yfir ranglæti heimsins og því misrétti sem væri við lýði í lífeyriskerfinu almennt og horfði hann þá til opinbera kerfisins annars vegar og almenna kerfisins hins vegar. Hann vildi laga þetta — hvernig? Með því að færa lífeyriskerfið hjá opinberum starfsmönnum niður. Það var hans lausn.

Staðreyndin er sú að opinberir starfsmenn hafa lagt ofurkapp á að viðhalda og bæta lífeyrisréttindi sín. Það hefur orðið öllum launamarkaðnum mjög til góðs. Það er þannig núna til dæmis að starfsmenn hjá sveitarfélögum og hinu opinbera, gagnstætt því sem skilja mátti á málflutningi hv. þm. Péturs H. Blöndals, búa við sambærileg réttindi og opinberir starfsmenn gera. Það er greitt fyrir starfsmenn innan Starfsgreinasambandsins, þar á meðal Eflingar sem starfa hjá sveitarfélögunum og sama gildir um ríkið, 11,5% frá atvinnurekendahliðinni og 4% frá launamanninum. Það er sama upphæð, sama hlutfall og gerist hjá mönnum í BSRB og BHM. Þetta hefur verið fært til betri vegnar vegna þess að ekki tókst að skerða almenn lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Þess vegna hefur þetta orðið til þess að færa réttindi allra upp.

Hitt er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er enn ákveðinn munur á. Hann er sá að hjá opinberum starfsmönnum eru lífeyrisréttindin föst stærð en iðgjöldin eru breytileg stærð. Þessu er hægt að koma á í almenna lífeyriskerfinu líka ef vilji er til þess. Það er alveg hægt, ekki síst eftir að lífeyrissjóðirnir voru sameinaðir og taka nánast til alls launamarkaðar. Ef það væru samantekin ráð að halda réttinum sem fastri stærð en hafa launin og iðgjöldin breytileg þá yrði það veruleikinn fyrir alla. Ég vona að svo verði vegna þess að það skiptir miklu máli fyrir fólk sem komið er á lífeyrisaldur að geta gengið að föstum réttindum. Það er auðveldara þegar við erum vinnandi að aðlaga okkur breytingum. Um þetta hafa verið talsvert skiptar skoðanir innan verkalýðshreyfingarinnar. Ég hef verið ákafur talsmaður þess að standa vörð um lífeyrisréttinn og hafa þá kaupmátt launatekna breytilegan og það sé í laununum sem við tökum á okkur skerðingarnar og ávinninginn ef því er að skipta.

Kem ég þá að þeirri mismunun sem er fólgin í lífeyrisréttindum þingmanna annars vegar samkvæmt þeim breytingum sem hér liggja fyrir og annarra. Í fyrsta lagi er ávinnslan miklum mun meiri (Gripið fram í: Fimm á móti fjórum.) hjá þingmönnum en gerist hjá hinu opinbera annars staðar og á hinum almenna vinnumarkaði. Ávinnslan hjá þingmönnum kemur til með að verða 2,375% (Gripið fram í.) á ári. Í gömlu B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er þessi ávinnsla 2%. Þeim sjóði hefur nú verið lokað. Frá 1. janúar árið 1997 var honum lokað. Það fer engin nýráðning þar inn lengur. Þá var settur á laggirnar nýr sjóður eða ný deild innan LSR sem gengur undir nafninu A-deildin. Það er sjálfbær sjóður. Hann á að rísa undir þeim réttindum sem þar er að finna. (Gripið fram í.) Það er ákveðinn munur á tryggingu sem fólk hefur innan þessara sjóða. Hver er hann? Innan B-deildar lífeyrissjóðsins tekur fólk mið af launum eftirmanns í starfi, nýtur svokallaðrar eftirmannsreglu. Í þessu er fólgin mikil trygging, eins konar launavísitölubinding lífeyrisréttinda sem er mjög verðmæt því þó að það gerist eins og nú er, að við erum að verða vitni að núna, að neysluvísitalan hækkar langt umfram það sem launavísitalan gerir þá er það sem betur fer svo að þegar á heildina er litið og til mjög langs tíma hafa launakjörin verið að batna. Þess vegna eru fólgin í B-deildinni mjög mikil verðmæti. Þessara verðmæta njóta alþingismenn vegna þess að þeir verða áfram vísitölutryggðir að þessu leyti. Þeir taka áfram mið af eftirmanni í starfi. Um þá á ekki að gilda sama reglan, sama breytingin og var gerð gagnvart öðrum árið 1997 þegar allir voru færðir undir neysluvísitöluna.

Í A-deildinni er ávinnsla lífeyrisréttinda 1,9% núna. (Gripið fram í.) Hún er síðan færð upp samkvæmt neysluvísitölu. Í almennum lífeyrissjóðum á markaði er þessi ávinnsla minni, 1,4–1,6%, hygg ég að það sé. Þar er aftur viðmiðun í neysluvísitölu. Síðan eru margvísleg önnur ákvæði til ávinnings hjá alþingismönnum. Ég nefni til dæmis makabótarétt. Hann er 50% af áunnum réttindum til æviloka. Í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er það 50% til þriggja ára, 25% til tveggja ára og síðan búið nema viðkomandi eigi börn undir 22 ára aldri. Þá er ávinnslan áfram. Í þessu eru fólgin mikil verðmæti og ég vek athygli á að alþingismenn njóta einnig framreiknings örorkubóta.

Síðan er hitt sem er mjög stórt mál og hefur verið vikið að — mjög stórt mál og mjög verðmætt — að ef alþingismenn taka lífeyri fyrir 65 ára aldur eins og fram kom í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar þá verður skerðing um 0,5% á mánuði, 6% á ári, 30% ef þeir fara niður í þann aldur sem hann nefndi, sama og gerist hjá A-deild LSR. Það sama á við um það nema það er einn grundvallarmunur sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gleymdi að nefna. Hann er sá að þegar þingmaðurinn er kominn á 65 ára aldur þá gerist svolítið. Bingó! Þá er hann aftur kominn upp í 100%. En skerðingin hjá sjúkraliðanum og hjúkrunarfræðingnum og slökkviliðsmanninum er til æviloka. Halda menn að þetta kosti ekki neitt? Síðan komu menn hér — ég ætla einhvern tíma að fara ofan í saumana á þessum ræðum sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur flutt við þessa umræðu og þann samanburð sem hann gerði á réttindum þingmanna og réttindum sem eru innan A-deildar LSR þegar hann jafnaði síðan þessu 1% sem menn borga til viðbótar (KHG: Gerðu það bara strax.) inn í lífeyrissjóðinn — ég ætla að stúdera það — vegna þess að það gleymist í þessu að skoða hver iðgjöldin þyrftu að vera í reynd í alþingismannasjóðnum ef hann ætti að vera sjálfbær með öllum þessum umframréttindum, þessum sérréttindum, þessum forréttindum. Ég hef ekki nákvæma útreikninga á því. En ég staðhæfi að þau eru ekki undir 35%. Ég er sannfærður um það þannig að þetta 1% sem verið er að sveifla til og frá gerir afskaplega lítið í því samhengi.

Hæstv. forseti. Þegar allt er saman tekið — ég hef ekki nefnt alla þætti lífeyrisréttinda alþingismanna og svokallaðra æðstu embættismanna og þeirra sem lögin taka til — en þegar dæmið er gert upp er augljóst að við erum að tala um forréttindafrumvarp, forréttindaréttindi sem menn voru að æsa sig yfir að fólk úti í bæ, eins og það er kallað, leyfir sér að hafa skoðun á þegar almenningur er að horfa á þingið véla um sín eigin kjör og leyfa sér að álykta um það og þess vegna auglýsa um það. Það er þetta sem margir lögðu sig í líma við með hv. þm. Kristin H. Gunnarsson í fararbroddi sem hefur tekið að sér einhvers konar verkstjórn í vörnum ríkisstjórnarinnar og var að reyna að gera hér tortryggilegt við umræðuna í gær.

Hæstv. forseti. Við komum til með að greiða atkvæði um þær tillögur sem liggja fyrir annars vegar frá ríkisstjórninni og hins vegar frá stjórnarandstöðunni, frá sex stjórnarandstöðuþingmönnum og ég hygg að það sé fyrir meginþorra þeirra sem núna skipa stjórnarandstöðuna og ég hef grun um að í stjórnarliðinu vilji margir veita okkar hugmyndum og tillögum brautargengi. Það verður fróðlegt að sjá hvernig menn greiða atkvæði. Það verður mjög sýnilegt vegna þess að það verður óskað eftir nafnakalli við þessa atkvæðagreiðslu.

Aðeins í lokin um (Gripið fram í.) tillögu sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kynnti áðan um valfrelsi í lífeyrismálum. Hann hefur löngum talað fyrir því að einstaklingurinn hefði valfrelsi og að þeir væru ekki skipulagðir þannig á félagslegum grunni, á stéttarfélagslegum grunni. Ég segi, hæstv. forseti, og ég segi við þingheim: Ástæðan fyrir því að okkur hefur tekist að tryggja gott lífeyriskerfi á Íslandi, lífeyriskerfi sem nú á í erfiðleikum að sönnu, er sú að stéttarfélögin, þ.e. verkalýðshreyfingin hefur staðið þar að baki og stuðlað að því að hér hefur verið byggt upp öflugt félagslegt kerfi og ég vona að við berum gæfu til þess að standa vörð um það kerfi inn í framtíðina. En þá þurfum við líka að uppræta það mein (Forseti hringir.) sem sérréttindi þeirra sem hér eru inni óneitanlega eru.



[11:34]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að ég hafi verið æstur, það hefur komið fyrir fleiri, en hann segir að ég vilji færa réttindi opinberra starfsmanna niður. Nei, ég vil bara sýna þeim hvaða laun þeir hafa, það er munurinn, (ÖJ: Að hvað?) hvaða laun þeir hafa. Og ég ætla að spyrja hv. þingmann í fyrsta lagi: Mun hann samþykkja tillögu mína og leyfa mér að borga í lífeyrissjóð sem velflestir kjósendur mínir greiða til, með sömu réttindi þannig að ég fái að upplifa skerðinguna sem mun koma sem hv. þingmaður mun verða laus við?

Svo langar mig til að spyrja: Á reglan sem hann setur upp í 3. breytingartillögu sinni að gilda fyrir opinbera starfsmenn almennt og lífeyrissjóðakerfið almennt? Það gildir í öllu lífeyrissjóðakerfinu að fólk fer á eftirlaun og fær þau algerlega óháð því hvort það vinnur áfram eða ekki. Menn eiga rétt á þessu. Þeir eru búnir að borga fyrir þetta og þeir fá lífeyri, 67 ára eða hvað það nú er, 70 með hækkun þá, og þá eiga þeir rétt á þessum lífeyri og fá hann óháð tekjum. Ætlar hann að breyta þessu, hv. þingmaður, hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þar sem hann situr í stjórn, hjá öllum opinberum starfsmönnum, hjá öllum félagsmönnum stéttarfélaganna?

Síðan er þriðja spurningin. Hv. þingmaður situr í stjórn LSR og þá ætla ég að spyrja hann: Hvaða áfall dundi á LSR við bankafallið og hvað hefði þurft að skerða lífeyri mikið — hann hlýtur að vita það sem stjórnarmaður — ef reglur almennu sjóðanna hefðu gilt og hvað þarf að hækka iðgjaldið mikið hjá ríkinu vegna þessa áfalls sem lífeyrissjóðurinn varð fyrir undir hans stjórn? Svo væri gaman að heyra hver stjórnarlaunin eru.



[11:36]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að laun og réttindakerfi eiga að vera gagnsæ. Mér finnst það skipta miklu máli og ég er sammála honum um þetta. Kerfið sem alþingismönnum, ráðherrum — svokölluðum æðstu embættismönnum — er búið er mjög ógagnsætt, ég tek alveg undir það, það er það. Kerfið á að vera gagnsætt.

Varðandi einstaklingsbundið val á lífeyrissjóðum, ég er ekki fylgjandi því. Ég vil félagslega aðkomu að lífeyrissjóðunum, að stéttir eigi aðild að þeim lífeyrissjóðum sem þær hafa samið um sem stéttir, félagslegar einingar. Ég færi þau rök fyrir því, og hef gert það, að með því móti stöndum við best vörð um þetta kerfi. Það hefur reynst vel að hafa þann hátt á í stað þess að fara þá leið sem bankarnir og fjármálafyrirtæki hafa talað fyrir og hv. þingmaður gerir greinilega sjálfur, að þetta verði einfaldlega einstaklingsbundin kjör þar sem menn geti leitað hvert sem þeir vilji. Ég er fylgjandi hinni félagslegu aðkomu.

Varðandi þá spurningu hvort ég telji rétt að það eigi að skerða greiðslur úr lífeyrissjóðum séu menn í launaðri vinnu, nei, ég er því ekki fylgjandi, alls ekki. Hið sama gildir ekki um þá sem heyra undir þessi sérréttindi vegna þess að þeir eru ekki í neinum lífeyrissjóði í raun. Þetta er millifærslukerfi þar sem þeir að sönnu greiða inn í LSR. Ríkið greiðir hins vegar mismuninn og tryggir réttindi þessara aðila þannig að það er ekki saman að jafna. Það er ekki saman að jafna því sem gerist í almennum lífeyrissjóðum og því sem gerist (Forseti hringir.) hjá þessum hópi. Ég kem að öðrum svörum á eftir um skerðingar, launagreiðslur og annað slíkt.



[11:38]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá liggur það fyrir. Hv. þingmaður ætlar að neyða mig áfram í forréttindi. Hann ætlar ekki að leyfa mér að fara í þann lífeyrissjóð þar sem ég á mest réttindi, hann ætlar ekki að leyfa mér að fara í þann lífeyrissjóð þar sem flestir mínir kjósendur eru eða réttindi sem þeir hafa almennt. Hann ætlar að láta mig vera áfram í forréttindum. Ég þakka hv. þingmanni fyrir.

Síðan talaði hv. þingmaður um 2,375% en þeir sem kunna stærðfræði geta reiknað 1,9% sem eru hjá A-deildinni, 1,9% á ári, margfaldað með 5 sem er iðgjald þingmanna og deilt með 4 sem er iðgjald almennra sjóðfélaga í A-deildinni og þá fær hann út 2,375. Þetta er reyndar mjög illa skýrt í frumvarpinu, afskaplega illa, og er það ámælisvert, frú forseti. Það er heldur ekki skýrt í nefndaráliti allsherjarnefndar. En þetta er ósköp venjuleg stærðfræði. Það er það sem fólkið borgar, 4%, og þingmenn 5%. Það sem hv. þingmaður vill er að hafa iðgjaldið breytilegt hjá öllum lífeyrissjóðum en réttindin föst sem þýðir að það á að skerða kjör hins vinnandi manns þegar ávöxtun næst ekki því að það sem fyrirtækin borga fólkinu í hærra iðgjald í lífeyrissjóð gætu þau alveg eins borgað sem hærri laun til viðkomandi starfsmanna. Það sem gerist núna ef hv. þingmaður nær sínu fram er að stjórnir sjóðanna verða ábyrgðarlausar, það þarf ekki að skerða lífeyri, kjör allra sjóðsfélaga verða skert. Ég er ekki viss um að almenningur sé hrifinn af slíkri hugsun.



[11:41]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er svolítið erfitt að átta sig á hv. þingmanni stundum. Hann er höfundur að ýmsu skemmtilegu í umræðum um lífeyrissjóði og bankamál. Einu sinni var mikið talað um fé án hirðis. Við höfum fylgst með því að undanförnu hvernig hirðingjarnir hafa farið með féð. (PHB: Stjórnir lífeyrissjóðanna.)

Varðandi það áfall sem lífeyrissjóðirnir hafa orðið fyrir er það mjög mikið, en enginn veit hvað það er og verður í reynd. Menn tala um 15–25% en við skulum ekki gleyma því að þegar litið er á það áfall sem þessir sjóðir verða fyrir verður að horfa á það í réttu samhengi. Það verður að horfa á það í samhengi við bóluna sem orðið hefur vegna þess að menn miða þá iðulega við mjög hátt gengi bréfa sem síðan fellur, gengi sem var mjög óraunhæft. Fallið í prósentum talið verður þannig stærra en ella. (PHB: Hvað þarf að skerða hjá venjulegum lífeyrissjóði?) Ég er að segja að það er ekki vitað hvert áfallið verður, menn horfa ekki enn upp á skerðingu hjá lífeyrissjóðunum og við vonum að sjálfsögðu að svo verði ekki. Hvort á að vera breytileg stærð, kaupmáttur launa eða lífeyrisréttindin, er bara spurning, álitamál, hvar menn vilja standa í þessu efni. Ég hef viljað leggja áherslu á föst lífeyrisréttindi.

Varðandi launakjör hjá þeim sem sitja í stjórnum eins og hjá LSR hygg ég að launin hafi verið rúmar 60 þús. kr. og síðan álag fyrir stjórnarformennsku og varaformann stjórnar. Við getum séð á heimasíðu minni hvað þetta er í krónum og aurum talið. Ég hef alltaf gert grein fyrir því hvað mig varðar sérstaklega (Forseti hringir.) en hins vegar var tekin ákvörðun um það á síðasta stjórnarfundi að lækka þessar þóknanir og lækka laun efstu manna.



[11:43]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil rifja upp að grein var gerð fyrir skýrslu eða samantekt um stöðu þingmanna í ýmsum öðrum löndum þegar lögin voru sett árið 2003. Þar kemur m.a. fram að þjóðkjörnir fulltrúar búa oft við aðrar aðstæður í þessum efnum en almennir launþegar og það er greinilegt að í mörgum löndum hefur mönnum fundist eðlileg skipan mála að hafa eitthvert sérstakt kerfi fyrir þá sem búa við þá stöðu að þeir eru kosnir af almenningi. Það gildir ekki sama um þá og venjulega launþega eða sambærilegar stéttir. Það er ekkert óeðlilegt, virðulegi forseti, að menn geri það. Í Svíþjóð og Noregi er það t.d. þannig að þingmenn sem hafa setið í 12 ár á þeim þingum höfðu þá unnið sér inn full eftirlaunaréttindi. Það var a.m.k. svo þegar menn settu lögin árið 2003. Kerfið sem við tókum upp í lögunum 2003 hvað varðar eftirlaunarétt alþingismanna var nánast sniðið að því sem þá gilti í Þýskalandi. Ég held að menn fari ekkert út á torg og hrópi þar um að einhver spilling eða ósómi sé á ferðinni, eftirlaunaósómi í þessum löndum. Ég held að menn átti sig bara á því að þetta á sín rök og getur verið sanngjarnt kerfi ef hlutirnir eru ákvarðaðir með þeim hætti að það ofbjóði ekki mönnum hvað varðar heildarlaunakjör. Ég held að það sé ekki þannig á Íslandi. Launakjör alþingismanna eru mjög hófleg. Ef eitthvað er að eru þau sennilega of lök í samanburði við margar aðrar stéttir sem eðlilegt er að miða sig við.

Ég spyr hv. þingmann hvers vegna hann standi í þessum útifundahrópunum gagnvart eftirlaunakjörum alþingismanna árum saman með manni sem hefur 900 þús. kr. í laun á mánuði, (Forseti hringir.) forseta Alþýðusambands Íslands?



[11:45]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki ekki þær jarðtengingar sem þýska þingið hefur við þjóð sína og hvaða kröfur þar eru gerðar en hér eru gerðar ríkar kröfur af hálfu almennings, sem betur fer fyrir alþingismenn. Sú siðferðilega krafa er gerð á hendur þinginu að það fari varlega með vald sitt. Hér hafa alþingismenn tekið sér vald til að skammta sjálfum sér kjör, lífeyriskjör. Menn gengu lengra. Menn gengu á sínum tíma fram í því að skammta sér nokkuð sem hét starfskostnaður en var í reynd launahækkun. Á sama tíma og vald til launaákvarðana hafði verið sett til annars aðila náðu þeir sér í starfskostnað sem fyrst um sinn var ekki einu sinni ekki skattlagður þótt enginn kostnaður lægi þar að baki. Þannig var það fyrst en var breytt eftir mikil mótmæli úti í þjóðfélaginu. Við erum enn sem betur fer í tengslum við þjóð okkar sem gerir kröfur til okkar og vill að við förum vel með vald okkar. Það höfum við ekki gert hvað þetta snertir og alls ekki hvað áhrærir lífeyrisréttindin, forréttindin sem þingið og sérstaklega ráðherrarnir (Gripið fram í.) — við skulum ekki gleyma því að lögin eins og þau eru núna eru fyrst og fremst ráðherralög. En engu að síður hafa þingmenn líka búið sjálfum sér kjör sem eru umtalsvert umfram það sem almennt gerist hjá launafólki á Íslandi, á almennum markaði og hjá almennum starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga. Þessu á að breyta.



[11:47]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á móti eftirlaunaréttindum sem eru rífleg, eins og alltaf hefur verið tekið fram, kemur það að launakjörin eru lægri. Þegar launin og eftirlaunin eru metin í heild sinni kemur út sú stærð sem miðað er við í úrskurðum kjararáðs. Þessi staða alþingismanna er mjög hófleg og mér finnst að hv. þingmaður hafi árum saman gert mjög mikið af því að afhrópa kjör alþingismanna, slá sér upp á kostnað þeirra með upphrópunum í útifundastíl og reyndar staðið fyrir útifundum til að hrópa niður ákvarðanir um kjör alþingismanna. Það er engum öðrum til að dreifa til að setja löggjöf á Íslandi en alþingismönnum. Til þess eru þeir kosnir. Þess vegna er það verk þeirra að setja löggjöf um eigin stöðu og eigin kjör hvort sem þeir ákvarða þau sjálfir eða fela öðrum að gera það, eins og kjararáði.

Eitt dæmið um rangfærslur hv. þingmanns nefndi hann sjálfur áðan sem var starfskostnaður sem var ákveðinn fyrir nokkrum árum 40 þús. kr. á mánuði, sem þótti eftir athugun vera eðlileg fjárhæð miðað við þann starfskostnað sem þingið greiðir og þá fjárhæð sem mönnum sýndist þetta vera. Það var afhrópað og gert tortryggilegt og hv. þm. Ögmundur Jónasson gekk lengst fram í því með öðrum lýðskrumurum því að hv. þingmaður er algerlega í sérflokki í lýðskrumi og upphrópunum og sérstaklega gagnvart félögum sínum á þingi. Það þykir mér afar slæmt að menn leiki þann leik að reyna alltaf að slá sér upp á annarra kostnað. Ég ætla að biðja hv. þingmann að fara að hætta því. Hann gerði það síðast í gær með blaðaauglýsingu í Fréttablaðinu þar sem ósannindin voru borin fram til að reyna að blekkja þjóðina frá því sem ríkisstjórnin er þó að myndast við að gera. Ég er ekki alveg sáttur við það. En hv. þingmaður leggur sig fram við að reyna að afvegaleiða þjóðina frá því sem er verið að leggja til á Alþingi. (Gripið fram í.)



[11:49]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er sennilega alveg rétt hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að við göngum aldrei nógu langt í því að sýna samstarfsmönnum okkar og samherjum sanngirni. Ég efast ekki um að við getum lært mikið af hv. þingmanni í þeim efnum.

Ég var sannast sagna og er því fylgjandi að laun þingmanna séu ákveðin hér. Við getum t.d. gert það í sömu viku og við ákveðum bætur almannatrygginga til öryrkja og aldraðra. Þegar hv. þingmaður vísar í viðmið í samfélaginu og hvað sé eðlilegt og gott í þeim efnum þá horfir hann upp í forstjórana og talar um að ef þetta sé ekki uppi í einhverjum himinhæðum þá fáist ekki nógu gott fólk til starfa. Ég held að þessu sé öfugt farið. Því hærri laun því vitlausara fólk færðu inn. Ég er alveg sannfærður um að svo er. (Gripið fram í.) Það sem við eigum að horfa til (RR: Þvílík mannfyrirlitning.) — ég er að tala um þennan gráðuga hóp í samfélaginu sem við eigum ekki að fylla salinn með. (Gripið fram í.) Spurningin er sú hver á að vera okkar viðmiðunarhópur. Eigum við ekki að horfa til ljósmæðra? Eða slökkviliðsmanna? Eigum við ekki að horfa til þess fólks sem gegnir lykilstöðum í þjóðfélaginu og við viljum vera í tengslum við þannig að menn hér inni finni það af sjálfum sér hvað er réttlátt og hvað er ranglátt en þurfi ekki að slá því upp í einhverjum uppsláttarritum? Að menn séu í tengslum við launaþjóðina, við veruleikann í þjóðfélaginu. Þetta kallar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson lýðskrum. (Gripið fram í.)



[11:51]
Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm Ögmundi Jónassyni hvað það varðar að miklu máli skiptir að þingið sé í tengslum við þjóðina. Það má segja að á desemberdögum árið 2003 hafi þingið rofnað með ákveðnum hætti úr tengslum við þjóðina þegar rætt var um frumvarp, sem varð að lögum nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Þá var gengið allt of langt í því að ákveða sérkjör, einkum fyrir forseta Íslands, ráðherra og hæstaréttardómara. Það var ekki tekið svo sérstaklega á varðandi (KHG: Þú meinar forsætisráðherra.) — forsætisráðherra. Já, það er hárrétt athugasemd, og þar var eiginlega farið út fyrir öll mörk sem þjóðin gat sætt sig við.

Einhvern veginn snerist allt í umræðunni meira og minna um sérkjör alþingismanna — sem var ekki alls kostar rétt en það er einhvern veginn þannig sem umræðan hefur verið og þegar þjóðin telur að ákveðin grið séu rofin gagnvart sér gerir hún kröfu um ákveðna leiðréttingu. Með lögum nr. 141/2003 var farið út yfir öll eðlileg mörk, einkum hvað varðaði kjör ráðherra og þá einkum forsætisráðherra. Það er staðreyndin í málinu og við höfum glímt við afleiðingarnar af því frá þeim tíma. Spurningin er með hvaða hætti hægt er að koma á réttlæti sem fólkið í landinu sættir sig við.

Það liggur fyrir og er augljóst að almenningur er óánægður með hvernig launakjörum er háttað samkvæmt lögunum sem um ræðir og því hefur verið lofað af hálfu ríkisstjórnarinnar að gera raunhæfar breytingar sem hefur verið talað um að væru réttlátar breytingar. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er tvímælalaust mjög stórt skref í þá átt og ber að virða það sem þar er gert. Hitt er annað mál að skoðanir eru skiptar um hvort eigi að fara þessa leið eða hvort eigi að ganga lengra í átt til jöfnuðar og samræmingar hvað varðar lífeyriskjör og við sem stöndum að nefndaráliti minni hluta allsherjarnefndar, hv. þm. Atli Gíslason og Siv Friðleifsdóttir auk mín, gerum kröfu um að gengið sé lengra svo sem um ræðir í breytingartillögum sem fluttar eru af hv. þm. Ögmundi Jónassyni, Atla Gíslasyni, þeim sem hér stendur, Grétari Mar Jónssyni, Siv Friðleifsdóttur og Eygló Harðardóttur og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði ítarlega grein fyrir í máli sínu hér áðan.

Ég hef alltaf haft ákveðnar efasemdir um lífeyriskerfið sem við búum við. Ég hef alltaf haft efasemdir um að rétt væri að hafa þvingaðan sparnað jafnháan og raun ber vitni, að 12% af brúttó- eða heildarlaunum fólksins í landinu séu tekin í þvingaðan sparnað. En þetta er þvingaður sparnaður sem ríkisvaldið stendur fyrir og gerir kröfu til, skuldbindur fólki til að greiða hvort sem því líkar betur eða verr og þá er spurningin: Með hvaða hætti er þá tryggt að fólkið fái peningana sína til baka? Staðreyndin er sú að það er ekki tryggt. Miðað við kerfið sem við höfum í dag er það ekki tryggt vegna þess að þessu er deilt niður til mismunandi sjóðstjórna sem hafa töluverðar heimildir til að ráðstafa fjármunum eftir geðþótta eða ákveðnum fjárfestingarstefnum. Niðurstaðan er sú að í því ástandi sem orðið hefur hafa lífeyrissjóðirnir tapað gríðarlegum fjármunum og þá stöndum við frammi fyrir því að við höfum kerfi þar sem hver einstaklingur er samkvæmt lögum þvingaður af ríkisvaldinu til að leggja verulegan hluta af mögulegum ævisparnaði með ákveðnum hætti til lífeyrissjóða en hefur ekki tryggingu fyrir því að fá þann sparnað endurgreiddan. (Gripið fram í.) Það finnst mér verulegur galli á kerfinu sem við búum við.

Ég var mjög hrifinn af hugmynd hv. þm. Péturs Blöndals, sem hann kom fyrir margt löngu með, um að til væri lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn. Ég hefði talið að fyrst ríkið er á annað borð að krukka í þessi mál ætti að fara þá leið að vera með einn lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn og um væri að ræða meiri jöfnuð en um ræðir núna í lífeyriskerfinu þannig að fyrst verið er að skuldbinda fólk í þennan þvingaða sparnað tryggi ríkisvaldið fólki endurgreiðslu með sama hætti. Það hefði ég haldið að væri eðlilegt að fylgdist að en þannig er það ekki.

Við flutningsmenn breytingartillögunnar, sem liggur fyrir á þskj. 529, viljum fara í þá átt að alþingismenn, ráðherrar, hæstaréttardómarar og þingmenn fylgi og séu jafnsettir þeim sem greiða iðgjöld í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Við viljum afnema þau sérkjör sem um er að ræða og enn er gert ráð fyrir í frumvarpi til laga sem liggur fyrir á þskj. 363 frá hæstv. ríkisstjórn. Við viljum ganga lengra þannig að það liggi fyrir að sérréttindi alþingismanna og annarra embættismanna sem ég vék að séu afnumin og um það snýst þetta mál í dag. Við erum með frumvarp ríkisstjórnarinnar sem gerir ráð fyrir því að ganga í átt frá þeim ójöfnuði sem var settur með lögunum frá 2003 en fara þó ekki alla leið. Við sem flytjum breytingartillöguna, sem hér liggur fyrir og fyrsti flutningsmaður er hv. þm. Ögmundur Jónasson, leggjum hins vegar til að það verði gengið alla leið. Um það verða þingmenn að greiða atkvæði og um það snýst málið í dag, hvort við viljum afnema sérstök sérréttindi alþingismanna, ráðherra o.s.frv. og hafa þau með sama hætti og hjá almennum starfsmönnum ríkisins eða hvort við viljum halda ákveðnum sérréttindum áfram svo sem frumvarp ríkisstjórnarinnar byggir á.

Við jafnaðarmenn — hvað lífeyrisrétt snertir — í þessum þremur flokkum sem stöndum að þeim breytingartillögum sem hér eru viljum í raun afnema sérréttindi þingmanna, ráðherra, forseta Íslands og hæstaréttardómara og láta það sama ganga yfir þá og opinbera starfsmenn í landinu. (Gripið fram í.)



[12:00]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að tala um tímabært mál að mínu mati sem tekur aftur þau sérréttindi sem voru ákveðin fyrir fimm árum, 2003, sem lutu að þessum hópi og þess vegna fagna ég þessu frumvarpi og tel að hér séu tekin jákvæð skref. Ég vil líka minna þingmenn á að í umræðunni hafa menn verið að skamma Samfylkinguna allhressilega fyrir að hafa skoðun á þessu máli, jafnvel ýtt á eftir því. Hér hafa þingmenn talað fyrir því að Samfylkingin hafi ekki mátt benda á að breytinga væri þörf. Það hafa hv. þingmenn gert og mér finnst það afar sérkennilegt því að það er ekki síst Samfylkingin sem hefur sett þetta mál á dagskrá reglulega þau fimm ár sem þessi lög hafa verið í gildi. Það hafa ekki verið Vinstri grænir. Vinstri grænir hafa gargað á torgum en þeir hafa ekki lagt fram nein þingmál nema núna á síðustu metrunum til að breyta þessu. Það hefur Samfylkingin gert.

Þegar þessi ríkisstjórn var mynduð settum við sömuleiðis í stjórnarsáttmálann að það bæri að jafna þessi kjör. Þess vegna eru mikil öfugmæli að skammast út í Samfylkinguna sem er núna að ná í gegn í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn á sínu öðru ári í ríkisstjórn veigamiklum breytingum, ekki léttvægum breytingum heldur veigamiklum. Þess vegna er fagnaðarefni að þetta mál sé núna komið til þingsins og við séum að taka þau skref sem hér verða tekin. Ég vísa á bug allri þeirri gagnrýni að Samfylkingin hafi hangið á málinu eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson segir sem er núna í þessari umræðu búinn að gera popúlisma að listformi. (Gripið fram í: Popúlismi …) Samfylkingin hefur lagt fram þingmál, Samfylkingin hefur talað fyrir þessu máli og hlotið skömm í hattinn, m.a. frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, fyrir að tala um málið og það er mjög sérkennilegur málflutningur þegar við erum á öðru ári í ríkisstjórn að ná mjög veigamiklum jákvæðum breytingum.

Förum aðeins yfir breytingar sem Vinstri grænir hafa talað um sem örlítið skref og kattarþvott. Í frumvarpinu erum við að koma í veg fyrir tvöföldu greiðslurnar sem hafa verið gagnrýndar öll þessi ár og í rauninni göngum við lengra því að möguleiki á þeim var fyrir hendi árið 2003. Við göngum lengra núna þegar kemur að því að koma í veg fyrir að einstaklingur geti þegið á sama tíma eftirlaun frá ríkinu og laun frá ríkinu.

Í öðru lagi göngum við lengra í að skerða réttindaávinnslu þessara hópa. Við göngum lengra en var fyrir 2003. Þetta er mikilvægt að hafa í huga. Við erum að lækka réttindaávinnslu ráðherra úr 6% í 2,375% og þingmanna úr 3% í 2,375%. Réttindaávinnsla vissra þingmanna fyrir 2003 var meiri þannig að við erum að ganga enn þá lengra en var ákveðið með ólögunum 2003, ólögum sem formaður Vinstri grænna greiddi fyrir á þingi að kæmi á dagskrá þingsins. Við skulum ekki gleyma sögunni, eins illa og okkur kann að vera við hana. Svona var málið og það vita allir þingmenn, og þjóðin veit það að hinn háheilagi flokkur Vinstri grænir átti sinn flutningsmann að málinu og átti hlut að þessu máli þegar það kom fram í þinginu. Þetta vita þingmenn og annað er blekkingarleikur.

Í þriðja lagi erum við að afnema sérreglur sem lutu að forsætisráðherra en hann var í ólögunum 2003 settur í einhvern sérstakan klassa. Við erum að afnema það. Það er ekki lítið skref, hv. þm. Ögmundur Jónasson. Það er ekki kattarþvottur.

Í fjórða lagi hækkum við aldursmörkin og í fimmta lagi jöfnum við réttindaávinnslu milli þingmanna og ráðherra. Þetta eru breytingar sem skipta máli. Þjóðinni hafa sviðið þessi atriði í lögunum, gildandi lögum, og við erum að breyta því núna. Þess vegna er ekki rétt og sanngjarnt sem menn segja úti í samfélaginu, í fjölmiðlum, hv. þingmenn, að hér séu tekin örlítil skref og þetta sé kattarþvottur ríkisstjórnarinnar. Það er ekki rétt. Við erum að taka mikilvæg skref. Við erum að taka á þeim atriðum sem hafa hvað mest verið gagnrýnd og sviðið mest í réttlætiskennd þjóðarinnar. Höfum þetta í huga.

Fulltrúi forsætisráðuneytisins var spurður við meðferð málsins í allsherjarnefnd hvaða sérréttindi væru eiginlega eftir. Hann gat ekki nefnt nein sérstök sérréttindi. Og ef um er að ræða sérréttindi skulum við fá þau á borðið. Ég heyri hér að það er mismunandi skilningur milli þingmanna í stjórnarandstöðunni. Sumir telja að við göngum of skammt, aðrir telja að við göngum of langt. En við settum í nefndarálit — við erum ekki að loka þessari umræðu — að þessi mál ættu að koma enn frekar til skoðunar. Það er allt í lagi að taka þá umræðu, bera saman A-deildina og síðan þetta. Það er alveg (Gripið fram í.) rétt sem hv. þm. Pétur Blöndal segir, það er eins og menn hafi ekki áttað sig á einfaldri stærðfræði þegar þeir bera saman A-deildina og síðan það kerfi sem hér er. Reyndar er tekið fram í frumvarpinu að verði frumvarpið að lögum verði réttindaávinnsla alþingismanna og ráðherra í hlutfallslegu samræmi við réttindaávinnslu sjóðfélaga í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að teknu tilliti til hærri iðgjalda. (Gripið fram í: Af hverju …?) Þessi hópur, þingmenn og ráðherrar, greiðir 5%, fær 2,375% til baka. Einstaklingar í A-deildinni greiða 4%, fá 1,9%. Þetta er það sama. (Gripið fram í.) Menn borga meira og fá meira. Ég kvíði ekki þeirri umræðu hvort við eigum að ganga lengra og fara í A-deildina. Tökum þá umræðu. En þetta frumvarp sníður hins vegar þá agnúa sem hafa verið hvað mest gagnrýndir og umdeildir og það ætti að vera mikið fagnaðarefni, a.m.k. hv. þingmanna Vinstri grænna sem hafa gagnrýnt þessi lög. Ég átta mig ekki á Framsóknarflokknum vegna þess að hann studdi einmitt lögin 2003, ólíkt Samfylkingunni. Samfylkingin studdi ekki eftirlaunalögin þegar þau fóru hérna í gegn fyrir utan einn þingmann. (Gripið fram í: Hann lagði málið fram.) Já, já, eins og ég segi liggur okkar saga alveg fyrir. Ég er ekkert að fela hana en ég tek sérstaklega fram hvernig atkvæðagreiðslan var þegar lögin fóru í gegn. Við skulum hafa þetta allt uppi á borðinu. Við áttum flutningsmann á málinu, ég viðurkenni það alveg. Við áttum aðkomu að þessu máli alveg eins og vinstri grænir. En við höfum ekki farið í þann leik eins og vinstri grænir að þvo hendur okkar af aðkomunni. Það finnst mér ekki sanngjarnt. Ég held að hv. þingmenn Framsóknarflokksins séu alveg sammála því.

Þetta frumvarp er ekki kattarþvottur, er ekki örlítið skref. Það er ekki sett fram í þeim tilgangi að verja forréttindi og sérréttindi, heldur einmitt að skerða þau, minnka og taka í burtu. Ég minni líka á það að verði þetta frumvarp að lögum mun lífeyrissjóðsskuldbinding lækka gagnvart ráðherrum um 60%. Við erum hér að lækka lífeyrissjóðsskuldbindingu um 60% gagnvart ráðherrum. Það er ekki lítið skref, það er ekki kattarþvottur. Gagnvart þingmönnum er lækkunin 20% og í heild lækkar skuldbinding um 40% þannig að þetta eru ekki lítil skref sem við erum að taka. Við eigum að vera ánægð með að við séum að ná því í gegn að þær sérreglur sem voru settar 2003 heyri brátt sögunni til. Auðvitað átta ég mig alveg á því að það geta verið rök fyrir því að ganga alla leið, eins og menn segja, í A-deildina. Tökum alveg þá umræðu. Það er ekkert mál en þessi skref eru tímabær og hljóta að vera í samræmi við vilja flestra þingmanna.

Að lokum, virðulegi forseti, ítreka ég að þessari umræðu um lífeyrisréttindi eða jafnvel launamál þingmanna lýkur ekki í dag. Við tökum það sérstaklega fram í meirihlutaáliti allsherjarnefndar að skoðun á annarri útfærslu, öðrum breytingum, þurfi að eiga sér stað. Það er vinna sem við getum farið í. En það á ekki að koma í veg fyrir að við tökum í burtu þessi sérsniðnu ákvæði sem voru sett 2003 og særðu svo réttilega réttlætiskennd og sóma þjóðarinnar sem fólk horfði upp á, allar krúsindúllurnar sem virtust miða nánast að ákveðnum einstaklingum sem voru settar í þau lög á þeim tíma. En nú erum við að taka það skref fram á við að gera þetta sanngjarnara og henda út þessum sérkennilegu ákvæðum sem fóru í gegn rétt fyrir jól 2003.



[12:11]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að láta þess getið í andsvari mínu að mér finnst afar slæmt að við séum að reyna að koma þessu máli í gegnum þingið í einhverri tímapressu á næstsíðasta degi fyrir jólaleyfi eins og að er stefnt ef ég veit rétt um áætlanir forseta.

Ég vil spyrja hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson hvað hann álíti að gerist í kjararáði þegar lagt verður mat á 60% rýrnun lífeyrisréttinda ráðherra og 20% rýrnun lífeyrisréttinda þingmanna. Við samþykktum hér lög í gær, að vísu ekki með mínu samþykki vegna þess að ég átaldi vinnubrögðin um lækkun kjara alþingismanna … (Forseti hringir.) Það er að mörgu að hyggja í öllu þessu samhengi sem við erum að fást við núna á síðustu dögum þingsins. Ég tel að þetta séu óvönduð vinnubrögð sem við viðhöfum hér, hæstv. forseti.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill geta þess að ræðutíminn er ein mínúta í báðum umferðum þar sem eru fjórir andsvarendur.) (GAK: Það er ekki …)

(Forseti (ÁRJ): Já, það voru mistök og biðst forseti velvirðingar á því.)



[12:13]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningin sem hv. þingmaður beindi til mín, hafi ég heyrt hana rétt, var hvað ég héldi að kjararáð mundi gera eftir að við værum búin að skerða lífeyrisskuldbindingu um 40% í heild, 60% hjá ráðherrum, 20% hjá þingmönnum. Það er erfitt fyrir mig að segja. Þetta er góð spurning í ljósi þess að í 9. gr. laganna um kjararáð stendur, með leyfi forseta:

„Kjararáð skal meta og taka tillit til kvaða sem störfunum fylgja, svo og hlunninda og réttinda sem tengjast embætti og launum, svo sem lífeyrisréttinda og ráðningarkjara.“

Mér dettur ekki í hug að vera með einhverjar getgátur um hvað kjararáð gerir vegna þess að þetta er mat kjararáðs og það tekur tillit til alls konar þátta en þarna er sérstaklega minnst á að það á að taka tillit til lífeyrisréttinda og þetta getur að mínu mati hugsanlega haft áhrif á þá ákvörðun þegar að henni kemur.



[12:14]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er í raun og veru sammála svari hv. þingmanns. Þetta er m.a. afleiðingin af því sem við erum að fást hérna við. Ég bendi á það, hæstv. forseti, að þessum lögum er ekki ætlað að taka gildi fyrr en á miðju næsta ári og við erum ekki að vinna vel að þessum málum með því að reyna að keyra það í gegn í tímapressu. Við förum ekki yfir alla þætti málsins, afleiðingar þess eða hliðarverkanir. Við ræðum þetta ekki í samhengi við það sem við erum að fjalla um varðandi þá stöðu sem er í landinu ef menn halda að það sé umræðan sem eigi að taka hér.

Ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar að við þingmenn eigum að geta rætt opið um réttindi okkar, hvort sem það eru launakjör eða lífeyriskjör. Ég hef sagt það frá fyrstu tíð, frá því að þetta mál var samþykkt, að það mætti koma aftur inn í þing mín vegna (Forseti hringir.) hvenær sem væri en ég tæki ekki þátt í handahófsvinnubrögðum rétt fyrir jól eða rétt fyrir þinglok.



[12:15]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að æskilegt er að við tökum meiri tíma í umfjöllun um málin, mörg þeirra fara allt of hratt í gegn. Mér finnst hins vegar þetta mál liggja þannig fyrir að verið sé að taka á mjög þekktum atriðum, atriðum sem hafa verið rædd hérna í fimm ár. Menn hafa m.a. unnið lögfræðiálit til að skoða hvert svigrúm löggjafans er í þessum efnum. Ég styð því framgang málsins á þinginu, að við samþykkjum það í dag eða á allra næstu dögum. Þetta eru atriði sem mér finnst ekki þola mikla bið til viðbótar. Þarna er verið að taka á ákveðnum einföldum atriðum en þó mikilvægum. Þó að við stígum þessi skref hættum við ekki umfjöllun um lífeyriskjör og stöðu umræddra hópa. Ég fullyrði að sú umræða mun halda áfram á nýju ári. (Forseti hringir.) Hægt er að ímynda sér aðrar breytingar sem hugsanlega færa þennan hóp inn í A-deild þegar sú umræða á sér stað á vettvangi (Forseti hringir.) stjórnmálanna en sú umræða hefur ekki farið fram.



[12:16]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Athyglisvert var að fylgjast með ræðu varaformanns Samfylkingarinnar, hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar, um skrefið sem nú væri verið að stíga, þessa miklu baráttu sem háð hefði verið og áfangasigurinn sem nú væri að komast í höfn. Við hvern er verið að berjast? Er formaður Samfylkingarinnar að berjast við formann Sjálfstæðisflokksins? Það eru einkum þau sem hafa verið að véla um þetta. Hafa þau verið að takast á um málið? Ég óska eftir því að hv. þingmaður skýri þetta nánar fyrir okkur.

Ég vísa síðan í umsögn um 3. og 6. gr. frumvarpsins sem hv. þingmaður vísar til, að verði frumvarpið að lögum verði réttindaávinnsla alþingismanna og ráðherra í hlutfallslegu samræmi við réttindaávinnslu sjóðfélaga í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að teknu tilliti til hærri iðgjalda. Þetta held ég að sé alrangt. Ég held að það gleymist að taka tillit til margvíslegra réttinda sem ég rakti í ræðu minni. Ég vísa þar í makabótaréttinn, ég vísa þar í mismun á skerðingu fyrir 65 ára aldur (Forseti hringir.) og hvernig haldið er á málum eftir að þeim (Forseti hringir.) aldri er náð. Þetta eru mjög verðmæt réttindi.



[12:18]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson spyr: Hver er eiginlega barátta Samfylkingarinnar? Engum blöðum er um það að fletta að þingmenn Samfylkingarinnar og fleiri í samfélaginu hafa ítrekað tekið þetta mál upp á þessum vettvangi, á fundum og í fjölmiðlum og öðru slíku. Við höfum lagt fram þingmál, við höfum sýnt það í verki að við krefjumst breytinga.

Hvar eru þingmálin frá Vinstri grænum í þessu máli á undanförnum fimm árum? Ég veit að korteri fyrir þetta mál kom fram þingmál, en hvar eru öll þingmál Vinstri grænna á þessu sviði? Hvar er barátta Vinstri grænna á þessum vettvangi önnur en sú að garga á torgum eins og hv. þingmaður hefur gert að ævistarfi sínu? Hvar eru verkin þegar að því kemur að reyna að fá breytingar sem menn tala iðulega um á útifundunum og á flokksfundum? Árangur þeirrar baráttu hjá Vinstri grænum er afskaplega lítill, virðulegi forseti. (Forseti hringir.)

Við erum hér að stíga skref og mér finnst sérkennilegt að hv. þingmaður tali áfram um að þau mikilvægu skref séu „örlítil“, séu „kattarþvottur“, því að þau eru það ekki. Hann sýnir ekki sanngirni þegar hann kemur ítrekað í pontu (Forseti hringir.) og gerir lítið úr frumvarpi sem felur í sér þá (Forseti hringir.) mikilvægu þætti að jafna kjörin og afnema helstu agnúa (Forseti hringir.) af lögunum frá 2003.



[12:19]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill minna þingmenn á að virða ræðutíma.



[12:19]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta með virðinguna og að gera lítið úr fólki, gera lítið úr baráttu sem fjöldasamtök heyja, verkalýðshreyfingin, Öryrkjabandalagið, útifundirnir á Austurvelli — þar á meðal ég, sem hafi gert það að ævistarfi mínu að garga á torgum. Er verið að tala um forseta Alþýðusambands Íslands sem var hér nýlega á fundi? Er verið að tala um Öryrkjabandalag Íslands? Er verið að tala um fólk úti á Austurvelli, að það sé að garga á torgum þegar það mótmælir sérréttindum sem þingmenn hafa áskapað sjálfum sér?

Hæstv. forseti. Hvað um öll þessi frumvörp? Hvar er frumvarp okkar, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Það er í nefnd þar sem það hefur verið fryst eins og jafnan er gert með þingmál frá stjórnarandstöðunni. Samfylkingin er hins vegar í ríkisstjórn. (Forseti hringir.) Henni er í lófa lagið að koma málum fram og núna ætlar hún að viðhalda sérréttindum (Forseti hringir.) þingmönnum til handa í stað þess að fara með alla spyrðuna inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. (Forseti hringir.) Reyndar gefst okkur tækifæri til þess í atkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) síðar í dag að sýna hver raunverulegur (Forseti hringir.) hugur okkar er í þessu efni.



[12:21]
Forseti (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Forseti vill minna þingmenn á að virða ræðutímann.



[12:21]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég áttaði mig ekki á því að í hv. þingmanni birtist Alþýðusambandið, Öryrkjabandalagið, öll félagssamtök í landinu o.s.frv., sem réttilega hafa haft sterka skoðun á þessu máli. Ég er að gagnrýna framgöngu hv. þingmanns. Hann hefur löggjafarvald á þingi en hefur ekki ómakað sig að leggja fram eitt einasta þingmál á öllum þessum tíma til að nýta það vald til að afnema þessi óréttlátu kjör, sem hann iðulega nefnir svo, nema núna korteri fyrir málið sem kemur frá okkur.

Það er rétt að Samfylkingin er í ríkisstjórn og henni er í lófa lagið að gera breytingar. Þess vegna er þetta mál líka komið fram því að menn hafa náð samkomulagi milli stjórnarflokkanna um að stíga þessi stóru skref um að afnema sérstök ákvæði um forsætisráðherra, minnka réttindaáhersluna, lækka heildarskuldbindinguna um 40%, hækka aldursmörk og annað slíkt. (ÖJ: Af hverju ekki afnema sérréttindi?) Það eru verkin sem tala, hv. þingmaður, og þess vegna er þetta mál komið fram á öðru ári okkar í ríkisstjórn, það ætti að vera fagnaðarefni í huga hv. þingmanns en virðist ekki vera það.



[12:22]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ávarpaður fullu nafni, eins og forseti kynnti mig núna, þegar ég var ungur drengur, þegar móður minni þótti hún þurfa að taka í drenginn, að hann hefði hegðað sér illa. Ég vona að ekki hafi vakað fyrir forseta að veita mér stranga áminningu.

Mig langar að árétta það, í ljósi þess sem kom fram í ræðu hv. þingmanns, að árið 2003, fyrir fimm árum, voru ekki gerðar neinar þær breytingar á lífeyrisréttindum alþingismanna og ráðherra sem hann lét í veðri vaka. 6% réttindaávinnsla ráðherra var komin inn þá löngu áður, að mig minnir árið 1967, og var engin breyting á. Réttindaávinnsla alþingismanna var með tilteknum hætti og henni var breytt á þann veg að þeir sem höfðu verið skemur en 17 ár bjuggu við skert réttindi og þeir sem höfðu verið meðaltíma, þingmenn í 10 ár, fengu 10% minni réttindi en þeir höfðu fyrir breytinguna. Það var nú allur eftirlaunaósóminn, virðulegi forseti.



[12:23]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að 6% reglan átti við ráðherra fyrir 2003 en hins vegar var, eins og hv. þingmaður getur réttilega um, staðan mismunandi varðandi þingmennina. Það fór, eftir því sem mér sýnist, eftir því hversu lengi menn höfðu setið á þingi. Sumir greiddu 2%, aðrir 5% og enn annar hópurinn 3,3% og síðan voru önnur þrep, (Gripið fram í: Það fór eftir starfstíma á þinginu.) það fór eftir starfstíma á þinginu. Nú erum við að fara niður í 2,375%, samræma þetta. Við erum líka að samræma þetta milli ráðherra og þingmanna. Ég tel það afskaplega mikilvægt, það var auðvitað ekki fyrir 2003. Að því leyti erum við líka að ganga lengra.

En það kom margt inn sem við afnemum núna í eftirlaunaósómanum, eins og hv. þingmaður kýs að kalla það, margt sem við bökkum núna með. Ég nefni á lokasekúndunum sérreglur sem áttu við forsætisráðherrann sérstaklega. Þær eru komnar út ef frumvarpið verður að lögum.



[12:24]
Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það atriði sem kom inn 2003 og kveikti eldana var fyrst og fremst þetta sérstaka ákvæði varðandi forsætisráðherra. Margt annað kom inn í lögin þá og er ekki lagt til að það verði tekið út. Ég get talið upp sjö atriði sem þá komu ný inn í lögin en ekki er hróflað við að þessu sinni.

Það er meiri ósóminn sem á þá að sitja áfram, virðulegi forseti. En ég vil árétta það að varðandi alþingismennina voru eftirlaunakjörin skert árið 2003 og enn er lagt til að skerða þau árið 2008. Fyrir þann þingmann sem hafði setið í 10 ár er skerðingin orðin, frá því sem var fyrir 2003, úr 187 þús. kr. niður í 133 þús. eftir að þetta frumvarp verður að lögum. Það er um 30% skerðing, virðulegi forseti, og ég bið menn að vera ekki að tala á þeim nótum að þarna hafi menn verið að færa réttindi til alþingismanna. Það er hið gagnstæða, menn hafa verið að færa réttindi frá þeim.



[12:26]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það, ef ég skil hv. þingmann rétt, að margt sem sagt hefur verið um þá gríðarlegu kjaraaukningu þingmanna sem átti að eiga sér stað árið 2003 er ekki á rökum reist. Það miðast fyrst og fremst við bætt kjör ráðherra. Þess vegna eru þær breytingar sem finna má í frumvarpinu fyrst og fremst miðaðar við að taka þau réttindi til baka eða breyta þeim með einum eða öðrum hætti. En það er ljóst að við erum klárlega að skerða réttindi þingmanna í þessu frumvarpi. Við erum að lækka réttindaáhersluna úr 3% niður í rúmlega 2% og það er klárlega skerðing og það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að draga það fram í dagsljósið svo að menn viti hvað við erum að fara að samþykkja. Það skiptir líka miklu máli í mínum huga að þetta komist út í umræðuna því að hún vill oft verða fjörug þegar kemur að svona málum.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega umræðu í dag.



[12:27]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru mjög athyglisverðar umræður. Mig langar að spyrja hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson út í A-deildina af því að ég heyri að hv. þingmaður er að gæla við hana. Það kemur í ljós í nefndarálitinu að verið er að tala um að gera frekari breytingar eða útfærslur og að áfram þurfi að skoða málið. Það kom líka fram í ræðu hv. þingmanns.

Hv. þingmaður segir að sérreglurnar heyri sögunni til en það er ekki rétt. Áfram er sérregla í gildi fyrir þingmenn að hinu nýja frumvarpi ríkisstjórnarinnar samþykktu. Ég heyri að þingmanninn langar — ég ætla að túlka orð hans á þann veg að honum finnist eðlilegt að fara inn í A-deildina. Ég spyr þá: Af hverju stígum við ekki strax það skref að fara inn í A-deildina? Þá eru engar sérreglur fyrir okkur, þá erum við bara í A-deildinni og njótum þeirra réttinda sem þar eru og greiðum það iðgjald sem þar er krafist? Af hverju er þetta skref ekki stigið?



[12:28]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að ég sé að gæla við einhverja hugmynd og ég er kannski meira en að gæla við hana, ég er að segja að hún sé ekki útilokuð. Það er ekki útilokað að við gerum frekari breytingar á þessu og færum þennan hóp í A-deildina. Það getur vel verið að það skref verði stigið. Að sama skapi þurfum við að vita hvað það þýðir. Við þurfum að vita hver sérréttindin eru ef svo má segja ef einhver eru eftir. (Gripið fram í.) Eins og hv. þingmaður benti á þurfum við að vita nákvæmlega hvaða sérréttindi eru eftir. Hv. þingmaður sat í allsherjarnefnd þegar við fjölluðum um þetta mál og fulltrúi forsætisráðuneytisins gat raunar ekki bent á nein sérréttindi sem stæðu út af eftir samþykkt þessa frumvarps.

Út af frammíköllum hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar vil ég benda á að þau skref sem við stígum hér eru tiltölulega einföld. Menn annaðhvort styðja þau eða styðja þau ekki og þó að við viljum skoða málið enn frekar á það ekki að koma í veg fyrir að við stígum þau jákvæðu skref sem eru í frumvarpinu því að þau hafa svo sem verið til umræðu og gagnrýnd í þau fimm ár sem liðin eru frá því að þau lög voru sett.



[12:29]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir gott svar. Hv. þingmaður segir: Ég er ekki bara að gæla við A-deildina, ég vil virkilega að við skoðum það. Hv. þingmaður er þá á sömu skoðun og minni hlutinn sem hefur fært fram breytingartillögur við frumvarpið um að fara inn í A-deild LSR. Það væri þó eðlilegt ef menn eru sjálfum sér samkvæmir í stjórnarmeirihlutanum. Ég skal ekki segja hvað Sjálfstæðisflokkurinn vill en alla vega er hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar. Maður mundi ætla að þegar meiri tími gefst eftir áramót hljóti menn að fara í endurskoðun og þá meira en gæla við að fara í A-deild LSR, þá gerum við meira en það, þá bara gerum við það, förum inn í hana. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann telji að þetta séu vinnubrögð sem hann geti kvittað upp á — (Gripið fram í.) ég býst við því að meiri hlutinn ætli að þröngva þessu í gegn núna í dag. En getur hv. þingmaður fallist á að við förum strax í það eftir áramót að skoða málin aftur og fara inn í A-deildina?



[12:30]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að ég vilji skoða þá leið sem lýtur að því að færa þennan hóp í A-deildina er ég ekki með því að segja að ég ætli eftir hádegi að samþykkja tillögu minni hlutans. Ég vil fá að vita nákvæmlega hvað í henni felst.

Þingmenn hafa sagt hér að A-deildin sé einhver forréttindahópur. Dregin er upp mynd af A-deildinni sem forréttindahópi, ef borið er saman við aðila á almennum vinnumarkaði. Þessi umræða átti sér ekki stað á vettvangi allsherjarnefndar vegna þess að við vorum að ræða þær breytingar sem nú eru gerðar. Við eigum þá umræðu eftir, það veit hv. þingmaður. Það getur vel verið að það sé einhver galli við að færa þetta í A-deildina. Það getur vel verið að við þurfum að skoða þetta í stærra samhengi, í því samhengi að jafna almennt öll lífeyrisréttindi á markaði, líka milli opinberra starfsmanna og aðila á almenna vinnumarkaðinum. Það er umræða sem margir þekkja og hafa tekið þátt í í mörg ár. Þetta má allt skoða mín vegna og er spennandi umræða því að auðvitað á jöfnuðurinn að vera lykilatriði. Auðvitað eiga ekki að vera nein sérréttindi, ég átta mig alveg á því.

Ég stend ekki hér til að verja einhver sérréttindi. Ég mæli fyrir þessum málum (Forseti hringir.) vegna þess að við afnemum sérréttindi. Það er þess vegna sem ég vil gera það að lögum í dag vegna þess að við afnemum óréttlát sérréttindi. Ég skal taka umræðuna um A-deildina hvenær sem er, strax 2. janúar ef hv. þingmaður kýs svo. (Forseti hringir.) Sú umræða er einfaldlega eftir, það vitum við hv. þingmaður.