139. löggjafarþing — 23. fundur
 9. nóvember 2010.
viðaukasamningur um álbræðslu við Straumsvík, 1. umræða.
stjfrv., 122. mál (nýr samningur um orkusölu). — Þskj. 131.

[14:38]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um lagagildi viðaukasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og Alcan Holdings Switzerland Ltd. um álbræðslu við Straumsvík.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfestur verði samningur milli ríkisstjórnar Íslands og Alcans sem undirritaður var þann 13. október sl. og tengist áformum fyrirtækisins um stækkun og endurbyggingu álversins í Straumsvík. Um er að ræða áttunda viðauka við svokallaðan aðalsamning milli ríkisstjórnar Íslands og fyrirtækisins sem á rætur að rekja til ársins 1966 og fjallaði þá um byggingu og rekstur álbræðslu og annarra mannvirkja í Straumsvík.

Ástæðuna fyrir gerð þessa áttunda viðauka við aðalsamninginn má rekja til þess að 15. júní á þessu ári var undirritaður nýr samningur á milli Landsvirkjunar og Alcans á Íslandi um orkusölu til álversins í Straumsvík. Sá raforkusamningur er tvíþættur, annars vegar er verið að endursemja um verð á núverandi orkusölu til álversins og hins vegar er samið um afhendingu viðbótarorku upp á 75 megavött vegna áætlaðrar framleiðsluaukningar álversins.

Miðað er við að hinn nýi raforkusamningur komi alfarið í stað núgildandi raforkusamnings milli sömu aðila og að sá síðarnefndi falli brott. Núgildandi raforkusamningur á milli Landsvirkjunar og Alcans er frá 1966 með gildistíma til september 2014. Hann er fylgiskjal A, virðulegi forseti, við áðurnefndan aðalsamning frá 1966 og er í aðalsamningnum vísað sérstaklega til raforkusamningsins. Sú breyting verður á með tilkomu hins nýja raforkusamnings að hann er alfarið ótengdur þeim gamla. Með þessari leið aftengjum við gamla raforkusamninginn aðalsamningnum frá 1966 og verður þá þessi samningur á milli fyrirtækjanna alfarið á viðskiptalegum forsendum. Með vísan til þess er nauðsynlegt, til að tryggja og undirstrika að hinn nýi raforkusamningur sé með öllu ótengdur aðalsamningnum, að gera breytingar á aðalsamningnum, þ.e. að afnema áðurnefnt fylgiskjal A sem er gamli raforkusamningurinn og hreinsa þannig aðalsamninginn af öllum ákvæðum þar sem vísað er í gamla raforkusamninginn. Er með frumvarpi þessu því lagt til að staðfest verði slík breyting á aðalsamningnum frá 1966 með lögfestingu þessa áttunda viðauka þess efnis við hann. Er sú meðferð til samræmis við þá sjö viðauka sem áður höfðu verið gerðir við aðalsamninginn.

Virðulegi forseti. Góðu fréttirnar við þetta er sú fjárfesting sem búið er að tilkynna og þessi samningur og þetta frumvarp tengjast. Búið er að tilkynna um fjárfestingu vegna framleiðsluaukningar álversins í Straumsvík og nýrra og verðmætari afurða með breytingu á framleiðslulínunni sem nemur nærri 60 milljörðum kr. og kallar á 620 ársverk á framkvæmdatímanum og er verkefnið þegar farið af stað. Ætla má að framleiðsla og útflutningur muni aukast um tæplega 40 þúsund tonn auk þess sem afurðir álversins verða verðmætari.

Virðulegi forseti. Til að mæta orkuþörfinni fyrir þetta verkefni er Landsvirkjun að hefja framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun. Áætlanir gera ráð fyrir að heildarfjárfesting vegna Búðarhálsvirkjunar muni nema um 26 milljörðum kr. og að 600–700 ársverk skapist á byggingartíma. Samtals er því um að ræða 86 milljarða kr. fjárfestingu og um 1.300 ársverk á framkvæmdatímanum.

Virðulegi forseti. Þetta eru gríðarlega jákvæðar fréttir. Ég hef áður sagt í þessum sal að þetta sé stærsta erlenda fjárfesting sem hefur komið hingað inn á borð frá því að bankahrunið varð í október 2008. Það er því fagnaðarefni. Ég tel að hér sé á ferðinni verkefni sem verði ísbrjótur fyrir önnur verkefni vegna þess að það sýnir að Ísland nýtur trausts, að þar sé gott að fjárfesta og það sé góður fjárfestingarkostur.

Fyrirtækið hefur starfað í Straumsvík, eins og áður hefur komið fram, frá 1966. Þetta er mjög mikil viðurkenning fyrir rekstur fyrirtækisins eins og hann er nú og hefur verið á undanförnum árum og áratug vegna þess að það er án efa mikil samkeppni innan samsteypunnar um að fá til sín verkefni og fjárfestingar. Það er því fagnaðarefni fyrir fyrirtækið og íslenskt efnahagslíf og samfélag að samsteypan skuli leggja í risafjárfestingu á Íslandi á þessum tíma.

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í kostnaðarumsögn með frumvarpinu verður ekki séð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs en engu að síður er frumvarpið liður í að skapa verðmæti og fjölga störfum.

Að þessu sögðu mælist ég til þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og umfjöllunar hjá hv. iðnaðarnefnd.



[14:44]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var mikið ánægjuefni að hlusta á hæstv. ráðherra og ástæða til að óska ríkisstjórn og Alþingi til hamingju með að þessi samningur sé kominn í frumvarpsgerð eftir miklar deilur um framtíð þessa liðlega 44 ára gamla fyrirtækis sem hefur skapað íslensku þjóðinni gríðarleg verðmæti ásamt Búrfellsvirkjun frá því að þau tímamót urðu í atvinnuháttum okkar að álverið í Straumsvík var byggt sem varð til þess að breikka mjög grunninn undir íslenskri atvinnustarfsemi á þeim erfiðleikaáratug síldarbrests og ýmissa erfiðra atburða. Það er mjög ánægjulegt að þetta stóra mál sem, eins og ráðherra sagði, er upp á 60 milljarða kr. og 620 ársverk skuli loks í höfn og framtíð álversins í Straumsvík þannig tryggð í bili og að fyrirtækið stækki og auki framleiðslu sína um að ég held 45 þús. tonn á ári. Eins er mjög mikið ánægjuefni að raforkusamningurinn skuli alfarið ótengdur sveiflum á álmörkuðum sem gefur von um mun betra og stöðugra verðmæti af grundvallarfjárfestingum okkar í orkuvinnslunni þar sem stóru tækifæri okkar eru.

Síðastliðnar vikur höfum við þingmenn Suðurkjördæmis og sveitarstjórnarmenn þar fundað með fulltrúum frá HS Orku og Norðuráli. Norðurál er búið að fjármagna tvo fyrstu áfangana af uppbyggingu álvers í Helguvík en vantar örugga staðfestingu á því að fyrirtækið fái alla þá orku sem þarf frá HS Orku, OR og Landsvirkjun. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort Landsvirkjun og/eða Orkuveitan kæmu á næsta leiti tímabundið eða varanlega að raforkuöflun þannig að fyrstu áfangar álvers í Helguvík gætu farið af stað þar sem um væri að ræða þúsundir starfa (Forseti hringir.) á byggingartímanum.



[14:46]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við stjórnmálamenn eigum að tryggja starfsemi fyrir orkufyrirtækin þannig að þau geti skilað eigendum sínum sem allra mestum arði og sem mestum verðmætum af nýtingu auðlinda hér á landi. Ég er ekki á því að það sé endilega okkar verkefni að segja þeim fyrir verkum um hvernig og hvort þau eigi að semja við einstaka kaupendur.

Ég hef lýst því, vegna þess að það hefur komið til pólitískrar umræðu, að ég sæi sjálf ekkert því til fyrirstöðu að Landsvirkjun kæmi tímabundið inn í Helguvíkurverkefnið til að brúa bil vegna þess að menn þurfa að keyra álverið upp með ákveðnum hætti. Jarðvarminn er gríðarlega viðkvæmur eins og menn vita og þarf að auka hann í skrefum. Þess vegna hef ég ekki séð neitt því til fyrirstöðu að Landsvirkjun kæmi þar að tímabundið en allt er það að mínu mati háð viðskiptalegum samningum á milli þessara aðila. Það er svo sannarlega von mín að samningum á milli þeirra sem nú sitja við samningaborðið, þ.e. HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur við Norðurál, fari að ljúka þannig að þeirri óvissu verði eytt. Ég tel forsenduna fyrir því að menn fari að horfa fram á veginn í málinu vera þá að við fáum málið milli HS Orku og Norðuráls úr gerðardómi í Svíþjóð og Orkuveita Reykjavíkur og Norðurál fari að taka næstu skref við að ljúka samningagerð sín á milli. Þá sjáum við hvað verður með verkefnin.

Landsvirkjun og aðkoma hennar: Ég þekki ekki til þess að neinn veruleiki sé orðinn í þeim efnum en mín skoðun er að það sé ekki nein fyrirstaða þar á ferð, a.m.k. tímabundið.



[14:48]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna mjög þeim orðum hæstv. ráðherra að hún sjái ekkert því til fyrirstöðu að Landsvirkjun komi a.m.k. tímabundið að því að skaffa raforku til álversframkvæmda í Helguvík. Ég held að sú aðkoma Landsvirkjunar geti skipt sköpum til að það stóra, gríðarlega mikilvæga og langmikilvægasta einstaka fjárfestingarverkefni okkar Íslendinga nú um stundir fari af stað.

Samkvæmt upplýsingum frá fulltrúum HS Orku og Norðuráls á fundum okkar með þeim er málið komið í mjög góðan farveg samkomulags og sátta þar sem gerðardómsátökin eru vonandi að baki. Menn eru orðnir nokkuð bjartsýnir á að það rofi til og góðar fréttir berist á næstunni þannig að Norðurál geti farið af stað af fullum krafti, af því að það er búið að reisa kerskála og þarna eru tugir manna við störf, og menn geti farið að byggja fyrstu tvo áfangana á álverinu í Helguvík. Skipt getur sköpum að Landsvirkjun komi tímabundið að því svo að það gangi sem hraðast, sérstaklega á meðan Orkuveita Reykjavíkur lýkur fjármögnun síns þáttar í framkvæmdunum — orku sem hún mun framleiða á Hellisheiði og skaffa suður eftir í Helguvík upp á 90–100 megavött sem er um fjórðungur af raforkuþörf álversins fullbyggðs ef það verður þeir þrír áfangar sem um er rætt núna, 240 þús. tonn í stað fjögurra áfanga upp á 360 þús. tonn. Ég bind miklar vonir við þetta, er mun bjartsýnni eftir fundi okkar þingmanna með fulltrúum HS Orku og Norðuráls. Auðvitað byggist þetta allt á viðskiptalegum forsendum en aðkoma stjórnvalda getur á viðkvæmum augnablikum skipt sköpum. Þess vegna var sú pólitíska hvatning iðnaðarráðherra rétt áðan, að Landsvirkjun kæmi a.m.k. tímabundið að því að skaffa orku til álvers í Helguvík, mjög ánægjuleg. Ég hvet ráðherra eindregið til að fylgjast mjög vel með þessu og koma að þar sem þarf að brúa bil meðan verið er að (Forseti hringir.) fjármagna raforkuframleiðsluna að fullu.



[14:50]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna því að frumvarpið er komið fram og tel það mikilvægt framlag til að endurreisa íslenskt samfélag. Það má með sanni segja að við getum tekið undir orð hæstv. ráðherra þegar hún talaði um að álverið í Straumsvík væri traustur bakhjarl fyrir íslenskt samfélag, það hefur ekki bara verið bakhjarl fyrir okkur Hafnfirðinga heldur allt samfélagið.

Það er rammt að segja þegar við nýtum hóflega náttúruauðlindir okkar að við séum að ganga á framtíð Íslands. Það er síður en svo þannig. Við verðum að átta okkur á því að Írafossvirkjun, Ljósafossvirkjun og Búrfellsvirkjun eru allt saman virkjanir sem eru meira og minna afskrifaðar en þær mala gull fyrir okkur og framtíðarkynslóðir landsins. Þetta höfum við m.a. gert með því að fara í samstarf við öflug fyrirtæki eins og álverið í Straumsvík.

Það vakti athygli mína að hæstv. ráðherra talaði um að þetta væri væntanlega ísbrjótur fyrir önnur verkefni. Ég vona svo sannarlega að svo verði. Í ljósi þeirra frétta sem við fengum í dag af atvinnumálum á Suðurnesjum ber að fagna að ríkisstjórnin sé að vakna, sérstaklega eftir að heimamenn hafa sýnt frumkvæði í þá veru að vekja ríkisstjórnina til atvinnusköpunar á Suðurnesjum. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera? Hvernig ætlar hún að beita ísbrjótunum til að önnur verkefni fari af stað? Það væri ágætt að fá dæmi um það og vonandi verður það eitthvað fleira en að koma upp útibúum fyrir umboðsmann skuldara eða herminjasafni á Suðurnesjunum. Ég vil taka undir þau orð sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom inn á áðan varðandi atvinnutækifærin tengd Helguvík. Er ekki rétt að byrja á því að beita ísbrjótunum á sjálfa samstarfsmenn hv. þingmanns innan ríkisstjórnarinnar? Er ekki best að byrja þar í staðinn fyrir að reyna að (Forseti hringir.) bögglast í gegnum þetta án þess að vera með neitt fast í hendi?



[14:52]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðgerðir segja sína sögu og ég lít svo á að þegar stórt alþjóðlegt fyrirtæki eins og það sem hér um ræðir tekur endanlega ákvörðun á þessum tíma, þ.e. sumarið 2010, að koma hingað með 60 milljarða fjárfestingu þá séu það býsna skýr skilaboð um að hér sé staðan að verða þannig að óhætt sé að fjárfesta. Maður fær ekki skýrari skilaboð, virðulegi forseti. Sú efnahagsáætlun sem núverandi ríkisstjórn hefur unnið eftir fór af stað í samstarfi við hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur, þegar Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn fóru með ríkisstjórn landsins, og höfum við fylgt áætluninni sem lagt var upp með á þeim tíma að mestu leyti og er hún að skila sér í þeirri stóru fjárfestingu sem kemur núna. Þess vegna tala ég um ísbrjóta. Það er augljóst að fyrirtækið sem hefur starfað í alla þessa áratugi tekur ákvörðun um að vera hér áfram og festa enn frekar rætur. Það er það sem ég á við með ísbrjótum, virðulegi forseti. Ríkisstjórninni hefur tekist að skapa trúverðugt umhverfi fyrir svona fyrirtæki hér á landi.

Auðvitað má gera fjölmargt annað. Eitt af því, af því að hv. þingmaður spurði mig beint hvað ég væri að gera í þeim efnum, er að skapa aðstæður til að fá hingað fjölbreyttari flóru erlendra fjárfestinga en við höfum nokkurn tíma fengið. Það gerum við t.d. með lögunum sem samþykkt voru sl. vor um ívilnanir vegna nýfjárfestinga hér á landi og eru þær bæði innlendar og erlendar fjárfestingarnar sem þar um ræðir. Reglugerðin er klár og núna þurfum við að fara að formúlera (Forseti hringir.) pakkana þannig að við getum boðið fjárfesta velkomna til Íslands. Gott efnahagslíf og ívilnunarpakkarnir eru það sem mun á endanum (Forseti hringir.) skila erlendri fjárfestingu til landsins.



[14:55]
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það stendur ekki á okkur í stjórnarandstöðunni og það stendur ekki á okkur í Sjálfstæðisflokknum. Ég held hins vegar að hæstv. ráðherra verði að eiga þessa orðræðu við félaga sína við ríkisstjórnarborðið, sérstaklega þá sem koma frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Erlend fjárfesting hefur verið fæld frá landinu, því er verr og miður, hvort sem litið er til álversmála í Helguvík, gagnaversmála eða ef við lítum til ólíkra rekstrarforma í heilbrigðisrekstri. Við sjáum svart á hvítu að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa því miður leitt til þess að við höfum fælt erlenda fjárfestingu frá á þeim tímum sem við höfum hvað síst efni á því.

Ég tek undir að það þurfi að vera skýr pólitísk skilaboð þegar farið er af stað í svona fjárfestingarverkefni eins og með Landsvirkjun/Straumsvík. Ég saknaði þeirrar styrku pólitísku leiðsagnar af hálfu þáverandi bæjarstjórnar í Hafnarfirði þegar við Hafnfirðingar stóðum frammi fyrir því hvort styðja ætti stækkunina á álverinu í Straumsvík. Gott og vel, það er liðin saga. Þetta er rétt skref í áttina að auknum hagvexti.

Mér fannst hins vegar ekki koma nægilega skýrt fram hjá hæstv. ráðherra hvort hún vilji stuðla að atvinnuuppbyggingu í Helguvík í tengslum við álver. Ég vil fá það skýrt frá hæstv. ráðherra því að ég veit að hún er dugleg og ég veit að henni er annt um að koma á atvinnuuppbyggingu. Hún hefur talað þannig hér og víða annars staðar. Mér finnst helsta hindrunin, þar sem hún þarf virkilega að nota ísbrjótinn, vera samstarfsmenn hennar í samstarfsflokknum Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég vil fá ótvíræða yfirlýsingu frá hæstv. ráðherra: Styður hún ekki eindregið atvinnuuppbyggingu Suðurnesjamanna hvort sem hún er á sviði einkasjúkrahúss, á sviði álversuppbyggingar, gagnaversuppbyggingar eða til að mynda með því að laða að erlent fjármagn með því að nota aðstöðuna á flugvellinum eins og t.d. varðandi ECA-verkefnið?



[14:57]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fullyrðir að erlend fjárfesting hafi verið fæld frá landinu. Við skulum aðeins skoða hvers konar erlend fjárfesting hefur komið hingað til lands á undanförnum áratugum. Erlend fjárfesting hefur ekki skilað sér í mjög fjölbreyttum mæli til landsins hingað til þrátt fyrir að hér hafi verið mikið góðæri á einhverjum tímum. Við verðum að beina sjónum í rétta átt í þessu efni og horfast í augu við raunveruleikann. Hingað til hefur erlend fjárfesting sem við höfum fengið verið álbræðslur og síðan á tímabili bankastarfsemi en þá voru það aðallega íslensku bankarnir erlendis sem komu með fjármagn inn í landið. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Við þurfum beinlínis að skapa betri skilyrði en við höfum nokkurn tíma boðið upp á fyrir þá hreinu erlendu fjárfestingu sem við þurfum svo mjög á að halda. Hvernig gerum við það? Það hljótum við að gera með því að bjóða upp á viðskiptaumhverfi sem menn þekkja og þar með gjaldmiðil sem menn þekkja. Gjaldmiðillinn hefur verið mikil hindrun fyrir erlenda fjárfestingu. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd.

Ég legg áherslu á það við hv. þingmann að vonandi eigi ívilnunarpakkarnir sem við samþykktum sl. vor eftir að gera erlendar fjárfestingar fjölbreyttari en við höfum séð hingað til vegna þess að stöku fjárfestingarsamningar sem menn gerðu áður voru hreinlega of þunglamalegir fyrir minni fjárfesta til að þeir kæmu hingað. Varðandi Helguvík tel ég að undirritun mín á fjárfestingarsamningi vegna framkvæmdanna þar við Norðurál segi sína sögu. Ég held að það frumkvæði sem ég hef sýnt í að leiða deiluaðila að borðinu segi allt um hvort ég styðji þetta verkefni eða ekki. (Gripið fram í.) Ég held að ég hafi sýnt það í verki hver hugur minn er í því máli. (Forseti hringir.) Ég tel að við förum að sjá til lands í því efni og óvissunni verði eytt. Ég tek undir með hv. þingmanni Björgvini G. Sigurðssyni sem sagði áðan (Forseti hringir.) að vísbendingar væru um að við fengjum góðar fréttir innan tíðar.



[14:59]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Vísbendingar um jákvæða hluti, ef ég heyrði rétt, eða vísbendingar um breytingar í atvinnumálum heyrum við mjög oft hér á Alþingi, að þetta sé allt að koma og allt að gerast. Innblásnar ræður eru haldnar af stjórnarliðum um að nú sé þetta alveg að koma, fjárfestingin sé að fara af stað, (Gripið fram í.) það sé verið að skapa atvinnu, þetta sé allt að koma og allt að gerast.

Ég vil taka fram, frú forseti, áður en ég held áfram með þessa ræðu að ég ætla líka að vera á jákvæðu nótunum svo að það sé alveg á hreinu. Mig langar að velta því upp, af því að við erum að tala um mikla fjárfestingu sem skapar mörg störf meðan á framkvæmdatímanum stendur, að þetta er fjárfesting sem búið er að bíða lengi eftir. Í rauninni fóru stjórnendur Alcans þessa leið vegna þess að þeim var synjað um að byggja við og fara í aðrar breytingar sem þeir vildu fara í á framleiðslu sinni og fyrirtækinu. Þeir ágætu stjórnendur hugsuðu því málið upp á nýtt og fóru þessa leið með þetta glæsilega fyrirtæki.

Við hljótum að hafa áhyggjur af því að ekki skuli vera meira að gerast. Það sem ég vil meina, sem var túlkað og sagt að væri fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar, er að þarna sé einörð ákvörðun og afstaða stjórnenda þessa fyrirtækis að láta ekki deigan síga, bregðast við þeim vanda sem þeir stóðu frammi fyrir þegar þeir máttu ekki stækka verksmiðjuna með því að fara í innanhússbreytingar, ef ég má orða það þannig, sem kalla á aukna framleiðslu, störf á byggingartíma og vonandi um leið meiri gjaldeyri fyrir Ísland, sem er mjög jákvætt, … (Gripið fram í: Og varanleg störf.) og varanleg störf, að sjálfsögðu.

Það sem þessi framkvæmd gerir, frú forseti, er að tryggja fyrirtækið í rekstri og tryggja þau störf sem þar eru fyrir, það skiptir ekki síður máli. Ég fagna því mjög að þetta verði til þess að styrkja um leið atvinnu á höfuðborgarsvæðinu. Ég óska þess að við munum fljótlega sjá sama árangur varðandi atvinnuuppbyggingu á Bakka, suður með sjó og annars staðar þar sem unnið er að slíkum verkefnum. Það þarf að sjálfsögðu að hraða framkvæmdum við að afla orku, það er alveg ljóst. Uppi hafa verið alls konar kenningar um af hverju það gangi ekki eða gangi seint skulum við frekar orða það. Við vitum að erlendir bankar, sérstaklega í Evrópu, hafa dregið lappirnar út af þessu svokallaða Icesave-máli, það hefur komið fram. Það er algjörlega óþolandi að verið sé að nota slíkt mál til þess að kúga okkur, vil ég meina, og halda aftur af framþróun hér — væntanlega af hálfu þeirra Evrópusambandsríkja sem standa að þessu Icesave-samkomulagi, Breta og Hollendinga. Það er engin önnur ástæða fyrir þá að blanda þessu í málið.

Það eru 620 ársverk sem verða til á framkvæmdatíma, að því er fram kemur, og við Búðarhálsvirkjun, frú forseti, svo ég vitni beint, „að 600–700 ársverk skapist á byggingartíma“. Það er mjög mikilvægt að iðnaðarráðherra og iðnaðarráðuneytið beiti sér fyrir því að farið verði af stað í framkvæmdir í orkumálum, eins og ég nefndi áðan. Því langar mig að nota þetta tækifæri — hæstv. ráðherra þarf ekki að svara því akkúrat nú — til að skoða hvernig við getum hraðað orkuvinnslunni, þ.e. hvernig við getum virkjað meira. Ég er ekki að tala um einstakar virkjanir eða neitt slíkt. Ég er að velta því fyrir mér hvort við séum ekki örugglega að skoða mjög vandlega verkefnafjármögnun og eitthvað þess háttar þannig að við þurfum ekki endalaust að láta undan eða semja út af þeim hótunum sem á okkur dynja.

Það er líka mjög sérstakt, frú forseti, að hinn stjórnarflokkurinn skuli ekki blanda sér í þessa umræðu því að þetta er mjög mikilvæg umræða um atvinnuuppbyggingu á landinu. Við hljótum að auglýsa eftir því hvað Vinstri grænum finnst um þessa framkvæmd og aðrar á þessum nótum.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég vil þó mótmæla þeirri skoðun sem kom hér fram að það sé gjaldmiðillinn sem hafi staðið erlendri fjárfestingu fyrir þrifum. Við í iðnaðarnefnd höfum fengið bæði heimsóknir og upplýsingar um fjöldann allan af áhugaverðum aðilum sem hafa hug á að fjárfesta hér og ekki hefur staðið á blessuðum gjaldmiðlinum heldur allt öðrum hlutum sem margoft hafa komið fram.

Það er jákvætt og ánægjulegt að þetta sé að verða að veruleika. Ég hvet hæstv. iðnaðarráðherra til að beita sér af hörku fyrir því að önnur verkefni sem eru uppi á borði líti dagsins ljós.



[15:05]
Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál skuli vera komið til afgreiðslu þingsins og ég fagna þeirri stækkun og aukningu í framleiðslu sem verður í álverinu í Straumsvík, fyrirtæki sem hefur starfað um langa tíma með góðum árangri fyrir alla, land og þjóð og þá starfsmenn sem þar eru.

Það er oft fróðlegt að hlusta á gagnrýni andstæðinga orkufreks iðnaðar á Íslandi þegar þeir reyna að gera lítið úr álversiðnaðinum og snúa allri umræðu um orkufrekan iðnað og þann fjölbreytileika sem þar getur verið yfir í að ekki sé um annað að ræða en álver. Það er svo sannarlega, virðulegi forseti, mikil fjölbreytni þar á ferð. Það er mjög bagalegt þegar reynt er að drepa málum á dreif með því að gera áliðnaðinn að skítugum iðnaði, að einhverjum fyrirtækjum sem séu óheppileg í íslensku umhverfi eins mikilvæg og þau hafa verið fyrir uppbyggingu íslensks orkuiðnaðar og orkuframleiðslu og þann stóra þátt sem fyrirtækin eiga í því að íslensk heimili búa við lægsta orkuverð í heimi. Það er þessum fyrirtækjum fyrst og fremst að þakka. Búrfellsvirkjanir eru skuldlausar í dag, þær eru hrein eign þjóðarinnar og hafa verið borgaðar upp af orkusölu til álversins í Straumsvík.

Starfsánægja hjá fólki sem vinnur í áliðnaði er mjög mikil. Ég held að meðalstarfsaldur í álverinu í Straumsvík sé yfir 25 ár. Það segir sína sögu, virðulegi forseti, um hvað fólki líkar vel þar og hve gott það hefur það á þessum vinnustað. Meðaltekjur eru góðar, meðaltekjur í þessum iðnaði eru mun hærri en gengur og gerist í samfélaginu, verðmætasköpunin er gríðarlega mikil, fjölbreytni framleiðslunnar í Straumsvík er mjög mikil og nú á enn að auka á þá flóru. Mikið er hugsað um umhverfismál og hefur náðst gríðarlegur árangur í öllum umhverfismálum hjá fyrirtækinu sem og öðrum fyrirtækjum sem starfa í þessari grein á Íslandi. Mikil áhersla er lögð á öll heilbrigðis- og öryggismál starfsmanna, þau eru algjörlega til fyrirmyndar. Þess vegna er mjög bagalegt þegar andstæðingar orkufreks iðnaðar reyna alltaf að tala hann niður í skítinn, þennan mikilvæga iðnað fyrir íslenskt samfélag.

Þegar Kárahnjúkavirkjun var byggð komu hér andstæðingar orkufreks iðnaðar, reiknimeistarar þeirra, fram og sögðu okkur ítrekað að þessi framkvæmd mundi aldrei borga sig, Kárahnjúkavirkjun yrði myllusteinn um háls þjóðarinnar, yrði til þess að orkuverð á heimili og fyrirtæki í landinu mundi snarhækka. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, tilkynnti nú fyrir skömmu að ef Landsvirkjun mundi ekki fara í frekari framkvæmdir næstu tíu árin, ekki greiða arð á þessum tíu árum til eiganda síns, ríkisins, yrði Landsvirkjun skuldlaust félag eftir tíu ár — skuldlaust félag, virðulegi forseti, — og eftir það gæti það greitt arð til ríkissjóðs sem næmi 25 milljörðum á ári eða helmingi af rekstri Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þetta eru staðreyndir málsins og ég held að fólk ætti að horfa til þessa, sérstaklega andstæðingar orkufreks iðnaðar, andstæðingar þess að við virkjum frekar náttúruauðlindir í landinu til heilla fyrir þjóð.

Það er ánægjulegt að sjá að það eru þessi fyrirtæki sem sumir hafa haldið fram að mundu hlaupast undan merkjum í íslensku atvinnulífi ef á bátinn gæfi og það hefur gefið á bátinn hjá þessum fyrirtækjum með hótunum um breytt skattumhverfi og brot á samningum af hálfu ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma blása þessi fyrirtæki til sóknar í íslensku atvinnulífi. Þetta eru einu merkin um að blásið sé til sóknar í íslensku atvinnulífi. Það er ekki núverandi ríkisstjórn að þakka, virðulegi forseti, alls ekki. Hvernig var það með fyrstu skóflustunguna að stækkun verksmiðjunnar á Reyðarfirði í síðustu viku, framkvæmdir upp á marga milljarða, hvernig var með þá framkvæmd? (Gripið fram í.) Enginn fulltrúi ríkisstjórnarinnar var þar og það var hlálegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra koma í fjölmiðla og þakka sér þá stækkun. Mér er skapi næst að halda að þeim hafi ekki verið boðið, þeir hafi ekki verið látnir vita af þessum framkvæmdum til þess að þeir í þvældust ekki fyrir. Þessu var haldið leyndu fyrir hæstv. ríkisstjórn, ég held að það hafi verið mergurinn málsins.

Fjárfestingar komi aftur til Íslands og hér sé að verða eitt besta fjárfestingarumhverfi fyrir erlenda fjárfestingu, sagði hæstv. iðnaðarráðherra áðan í ræðustól. (Iðnrh.: Ég sagði ekki besta.) Fyrirgefið, ekki besta? (Iðnrh.: Ég sagði bara að hér væri orðið gott að fjárfesta.) Já, hér væri orðið gott að fjárfesta, hér stæði allt umhverfi til mikilla bóta gagnvart erlendri fjárfestingu sem væri grundvöllurinn að því að við næðum vopnum okkar aftur og hún yrði að veruleika.

Það er alveg magnað að hlusta á hæstv. iðnaðarráðherra og manni er næst að halda að hún sé ekki í tengslum við ríkisstjórnina og sjái ekki hvað er í gangi. Eða hvernig talaði þessi ríkisstjórn á fundi á Suðurnesjum í morgun þar sem verið var að ræða það mikla atvinnuleysi sem þar er, það gríðarmikla atvinnuleysi? Eina marktæka niðurstaðan af þeim fundi sem komið hefur fram í fjölmiðlum er að það á að opna þar herminjasafn. Ég vil óska herstöðvarandstæðingnum, hæstv. dómsmálaráðherra, alveg sérstaklega til hamingju með að opna herminjasafn á Suðurnesjum. Það verður mikil framlegð af þeirri framkvæmd. Hann ætlar sér kannski að verða safnstjóri í framtíðinni. Þetta er á sama tíma, virðulegi forseti, og verið er að skera niður í fjárlögum fyrir næsta ár allt fé til safna í landinu og alla safnastarfsemi. Þá kemur hæstv. ríkisstjórn fram með svona geggjaða hugmynd. Menn eru auðvitað að gera grín að þjóðinni, virðulegi forseti, þegar þeir haga sér svona.

Þegar hæstv. iðnaðarráðherra segir að hér sé að verða gott umhverfi fyrir erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi virðist hún ekki hafa fylgst með hvaða skilaboð koma stöðugt frá ríkisstjórnarborðinu til mögulegra erlendra fjárfesta. Eða er Magma-málið fallið til þess að laða erlenda fjárfesta til landsins? Hvað með skattamálið gagnvart gagnaverunum sem við fórum yfir áðan þar sem allt er í frosti, ekki verið að hefja framkvæmdir, ekki verið að efla starfsemina, samningar við viðskiptavini eru á borðinu og fjárfestar hanga enn um borð í skipinu, eins og það var orðað á fundi iðnaðarnefndar í morgun, þrátt fyrir að ríkisstjórnin standi í veginum? Ríkisstjórnin gengur ekki alla leið samkvæmt síðustu skilaboðum, hún er ekki að búa til það samkeppnisumhverfi fyrir þennan iðnað að hann geti þrifist hér. Samt sem áður var þetta hin helsta nýlunda sl. vetur í atvinnusköpun á Íslandi sem ríkisstjórnin horfir til. Það hefur legið fyrir í 18 mánuði hvernig umhverfi þessara fyrirtækja þarf að vera en málið er enn strand hjá ríkisstjórninni. Hvernig er með ECA-verkefnið, það þarfa verkefni um að reka viðhaldsstöð á Keflavíkurflugvelli og skaffa yfir 100 flugvirkjum vinnu auk fjölda annarra tæknimanna og skrifstofufólks? Það verða vel á annað hundrað störf sem verða til af því, mikil velta og mikil fjárfesting verður á Keflavíkurflugvelli í kringum verkefnið. Nei, það er stopp hjá ríkisstjórninni. Það var aumlegt að hlusta á hæstv. samgönguráðherra Ögmund Jónasson í viðtali við sjónvarpið í síðustu viku þar sem hann svaraði algjörlega út í hött þegar hann var spurður að því hvort hann væri fylgjandi eða mótfallinn verkefninu. Hann sagði að það væri verið að endurskipuleggja í ráðuneytinu með hagsmuni þjóðarinnar í huga. Þegar spurningin var ítrekuð: Ertu fylgjandi eða andvígur? Ja, við erum að fara yfir málin í ráðuneytinu, við erum að endurskipuleggja og forgangsraða í þágu Íslands. Þetta voru svörin sem voru gefin.

Það er hægt að tala upp fjárfestingu í heilbrigðisþjónustu. Það voru mikil áform um að taka eitt fullkomnasta og nýjasta sjúkrahús landsins sem er á Suðurnesjum og byggja þar upp heilbrigðisþjónustu sem mundi fá til sín erlenda sjúklinga sem kæmu hingað í aðgerðir. Þetta hefði orðið mikil efling fyrir heilbrigðisstéttirnar og heilbrigðisstarfsemi í landinu fyrir utan að vera gjaldeyris- og verðmætaskapandi atvinna. Þetta var stoppað og er í bremsu hjá ríkisstjórninni.

Þegar hæstv. iðnaðarráðherra kemur í ræðustól og segir: Þessi ríkisstjórn ætlar að laða að erlenda fjárfestingu, allt umhverfi hér er að verða mjög gott — þá er eins og hún sé ekki í sambandi. Ég veit ekki annað en að gerð hafi verið skýrsla hjá Fjárfestingarstofu um samkeppnishæfi Íslands á þessum vettvangi, skýrsla sem kom út nýlega. Þessi skýrsla var unnin af virtu hollensku endurskoðunarfyrirtæki og gerði samanburðarathugun á Íslandi, Svíþjóð, Möltu og ákveðnum svæðum í Belgíu. Þessi skýrsla gefur algjöra falleinkunn fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Rauði þráðurinn í gagnrýninni, þar sem við stóðum langverst að vígi, var pólitísk óvissa, að hér væri engin stefnumörkun, hér gætu erlendir fjárfestar ekki treyst því umhverfi sem væri til staðar og það væri eitt það versta sem hægt væri að hafa í farteskinu þegar verið væri að laða að erlenda fjárfesta. Annað var að við værum með löggjöf í umhverfismálum sem við værum ekki búin að forvinna til samanburðar við fyrrgreindar þjóðir þannig að greið leið væri fyrir atvinnustarfsemi inn í landið. Þetta var falleinkunn.

Á sama tíma kemur hæstv. iðnaðarráðherra, sem nákvæmlega þetta heyrir undir. Ég spyr: Hefur hún kynnt sér þessa skýrslu? Hefur hún lesið skýrsluna? Síðan í ofanálag, virðulegi forseti, koma fullyrðingar, sérstaklega vinstri grænna, um að það sé engin orka í landinu, það sé ekkert hægt tala um orkufrekan iðnað, það sé ekkert hægt að byggja upp í Helguvík, það sé ekkert hægt að byggja upp á Bakka við Húsavík — þessi mikilvægu skref sem við þurfum að stíga — það sé bara ekki hægt vegna þess að engin orka sé til í landinu. Hvaðan kemur þetta fólk og þessir falsspámenn? Þetta er ódrengilegt, virðulegi forseti, þetta er ódrengilegt gagnvart þjóðinni. Þetta er falsspámennska. Svona eiga stjórnmálamenn ekki að tala. Þeir eiga að halda sig við staðreyndir vegna þess að auðvitað er næg orka í landinu, auðvitað eru hér einhverjir áhugaverðustu virkjanamöguleikar í heiminum. Forustumenn margra þjóða úti um allan heim horfa hingað öfundaraugum á þá möguleika sem við eigum.

Það er núverandi ríkisstjórn sem situr á sér og heldur öllu í járngreipum. Það eru reyndar bara örfáir þingmenn og hæstv. ráðherrar vinstri stjórnarinnar úr Vinstri grænum sem halda þessu í heljargreipum. Ég er alveg sannfærður um að hæstv. iðnaðarráðherra hefur allt aðrar hugmyndir. Ef ég sæti með henni í ríkisstjórn væru málin með allt öðrum hætti. Þá værum við að vinna þetta af heilindum en ekki í þessum hráskinnaleik sem þjóðin verður vitni að og erlendir fjárfestar í hverri viku. Þetta gengur ekki lengur, virðulegi forseti. Þessu verður að breyta ef þjóðin á að ná vopnum sínum og ná þeim lífsgæðum sem við viljum stefna að.

Á sama tíma fagna ég þessum áfanga, hann er gríðarlega mikilvægur. Ég fagna því að þarna verður öflug framleiðsla, þarna skapast fjölmörg störf á uppbyggingartíma og til framtíðar og miklu verðmætari framleiðsla á útflutningsverðmætum sem við þurfum svo mjög á að halda. Ég óska öllum til hamingju með það.



[15:19]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru nokkur atriði í ræðu hv. þingmanns sem ég vildi koma inn á. Í fyrsta lagi heldur hann hér mikla stuðningsræðu með einni grein í landinu, áliðnaðinum. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þingmaður sagði þar en þegar hann gerir það á kostnað annarra greina get ég ekki setið undir því. Hv. þingmaður segir að eina greinin sem blásið hafi til sóknar sé áliðnaðurinn og tók tvö dæmi þar um. Það er alls ekki rétt. Hv. þingmaður lokar augunum fyrir því mikla starfi sem verið er að vinna um allt samfélag af þúsundum vinnandi handa þar sem til að mynda hafa verið sköpuð yfir á annað hundrað nýrra fyrirtækja síðastliðin tvö ár í tengslum við frumkvöðlasetur Nýsköpunarmiðstöðvar. Það hefur verið fjölgað um hundruð manna í störfum í tölvuleikjaiðnaðinum og í hverjum einasta mánuði er að fjölga verulega störfum á sviði umhverfis- og orkutækni. Þetta veit hv. þingmaður.

En í staðinn fyrir að vinna með okkur að því að byggja enn frekar undir þetta, og þetta er líka vegna þess að ríkisstjórnin hefur skapað umhverfi fyrir þessi fyrirtæki til að vaxa, kýs hv. þingmaður að loka augunum fyrir þessum staðreyndum og gera þar með lítið úr störfum þessa fólks.

Mér blöskrar líka þegar hv. þingmaður lokar augunum fyrir því sem er að gerast í ferðaþjónustunni. Þar eru góðir hlutir að gerast. Hv. þingmaður hampaði áliðnaðinum, og ég get tekið undir margt af því sem hann sagði, en ég bið hann um leið að gera það ekki á kostnað annarra. Þarna eru margir að leggja mikla vinnu í uppbyggingu samfélagsins.



[15:21]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stuðningsræða mín við áliðnaðinn á kostnað annarra greina? (Gripið fram í.) Ég veit ekki annað en ég hafi rætt hér um fjölmörg önnur verkefni og ég var fyrst og fremst að tala um erlenda fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Ég er ekki að gera lítið úr því mikla starfi sem fjölmörg fyrirtæki vinna hér og fjölmargar hendur vinna. Ég fagna því að sjálfsögðu. En atvinnuleysi segir sína sögu. Það er ekki nóg. Það er ekki nóg, virðulegi forseti, sem þar er gert.

Ég er ekki að fagna þessari erlendu fjárfestingu á kostnað annarra greina. Ég skal hampa öðrum þeim greinum. Ég taldi hér upp fjölmörg önnur verkefni sem eru á borði hæstv. ríkisstjórnar, eins og ECA-verkefnið, eins og Magma-málið, eins og sjúkrahúsmálið og hægt er að telja upp endalaust. Þetta eru verkefni sem við erum að tala fyrir, margt af þessu, og gagnaverið. Þetta eru fyrirtæki sem við erum að tala fyrir og erum að tala um hafa hér sem mesta fjölbreytni í orkufrekum iðnaði. Það er það sem við viljum, sjálfstæðismenn. Við viljum nýta auðlindirnar til þess.

Ég fagna því sem er verið að gera vel í öðrum atvinnugreinum innan lands. En það er skelfilegt að horfa til þess hvernig þessi ríkisstjórn er samt að fara með aðalatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn. Hann er á þessum tíma í algerri tilvistarkreppu, veit ekkert hvert stefnir, veit ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Hæstv. sjávarútvegsráðherra setti á fót sáttanefnd og lofaði þjóðinni, sjómönnum, smábátasjómönnum og öðrum sem í þessari grein starfa, því að farin yrði sáttaleið við greinina. Blekið er ekki þornað á þeim samningi þegar hann er farinn að brjóta það og setja allt í uppnám. Það er engin fjárfesting í íslenskum sjávarútvegi í dag. Það er ekkert að gerast þar, virðulegi forseti. Þar væri hægt að kveikja í (Forseti hringir.) þúsund störfum með því að segja það eitt að farin verði sú sáttaleið sem samkomulag náðist um og (Forseti hringir.) þannig að byggja upp. Þá færi fjárfestingin af stað á þeim vettvangi líka.



[15:23]
iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði jafnframt í ræðu sinni að sú er hér stæði væri ekki í sambandi ef hún teldi að ríkisstjórnin væri að stuðla að því að laða hingað erlenda fjárfestingu og síðan voru ýmis verkefni talin upp.

Virðulegi forseti. Skoði hv. þingmaður söguna og staðreyndir. Flokkur hans hefur verið í ríkisstjórn síðustu tvo áratugi. Hversu fjölbreytt var sú erlenda fjárfesting sem hingað kom á þeim tíma? Hún var býsna einhliða. Það var ein tegund fjárfestingar nánast sem talist getur. (Gripið fram í.)

Menn verða að horfast í augu við það að Ísland hefur því miður aldrei verið fjárfestingarkostur fyrir fjölbreytta erlenda fjárfestingu, því miður. Það er það umhverfi sem við erum að reyna að skapa núna og er að vekja allan þennan áhuga sem hv. þingmaður taldi réttilega upp hér áðan. En það er fyrst að gerast nú undanfarin ár.

Hv. þingmaður fjallaði jafnframt um hollensku skýrsluna og talaði um hina pólitísku áhættu. Það er alveg rétt. Ég fékk svo sannarlega kynningu á þessari skýrslu enda heyrir þetta undir mitt ráðuneyti og var óskað eftir þessari vinnu af okkar hálfu. Það sem þar kemur fram um hina pólitísku áhættu, ef hv. þingmaður les skýrsluna, er að pólitísk stefnumörkun hefur aldrei farið fram hér á landi hvað erlenda fjárfestingu varðar. Þess vegna vantar t.d. Fjárfestingarstofu sterkara pólitískt bakland og stefnumörkun í vinnu sinni þegar hún er að sækja fjárfestingu á erlenda grundu. Þetta hefur alltaf vantað. Þetta er ekki nýtt og við erum að hlusta á þessa skýrslu með því að fara í skýra og skarpa stefnumörkun á þessu sviði.

Hvað varðar samráðið við Suðurnesjamenn, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) ætti hv. þingmaður að hlusta á fólkið suður með sjó sem við töluðum við í morgun. Við erum að hefja mjög mikilvægt samráð um uppbyggingu atvinnu, um uppbyggingu og styrkingu innviða suður með sjó. (Forseti hringir.) Ég bið hv. þingmann að gera ekki lítið úr því vegna þess að þetta er samstarf við heimamenn og hann ætti að hlusta á þá einu sinni.



[15:25]
Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég segi nú ekki annað en: Mikil er trú þín, hæstv. iðnaðarráðherra, mikil er trú þín. Að fullyrða það hér að ekki hafi verið erlend fjárfesting í atvinnulífi, (Gripið fram í.) erlend fjárfesting hefur náttúrlega aukist alveg gríðarlega hér á landi á síðustu árum. (Gripið fram í.) Aðstæðurnar hafa verið að breytast mjög mikið. Það sem var forskot okkar, virðulegi forseti, gagnvart erlendum fyrirtækjum er að þau voru hér velkomin til viðræðu. Þau gátu treyst því að hér væri pólitísk stefna þó vissulega skuli ég taka undir það að það mætti vera stefnumótun til lengri tíma. Það er það sem við þurfum að vinna að. Ég skal vissulega taka undir það.

En hér var pólitískur stöðugleiki gagnvart erlendri fjárfestingu. Hér var pólitísk sátt í ríkisstjórnarflokkunum um það hvert skyldi stefna. Það var eitt af því sem aðilar gátu á þeim tíma treyst, sættu sig jafnvel við hærra orkuverð hér en annars staðar vegna þess að stöðugleikinn var fyrir hendi. Þessu er búið að henda fyrir róða af þessari ríkisstjórn, virðulegi forseti. Hér ríkir pólitískur óstöðugleiki. Það kemur klárlega fram í þeirri skýrslu sem vitnað hefur verið í. Það er pólitískur óstöðugleiki og stefnuleysi. Að koma síðan og fullyrða að það sé einhver skýr stefna við þetta ríkisstjórnarborð og þar sé talað skýrum rómi þegar verið er að fæla frá, með aðgerðum og aðgerðarleysi, fjölda fyrirtækja sem hafa mikinn áhuga á að byggja hér upp.

Það er ekki svo langt síðan að fulltrúar þeirra stofnana sem hafa með þessa kynningu að gera fyrir Ísland á erlendum vettvangi komu á fund iðnaðarnefndar. Það var samdóma álit allra þessara aðila á þeim tíma að tækifærin hefðu aldrei verið eins og nú. Áhuginn fyrir því að fjárfesta á Íslandi hefði aldrei verið eins mikill og nú. Vandamálið lægi í því að ekki væri hægt að gefa skýr svör. Ekki væri hægt að svara því hvenær menn gætu afhent orku. Engu hægt að svara um það hver yrðu næstu skref (Forseti hringir.) og það er að fæla hér frá, fyrirtækin fara annað eins og dæmin sanna.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til iðnn.