140. löggjafarþing — 46. fundur
 20. janúar 2012.
afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, frh. fyrri umræðu.
þáltill. BjarnB, 403. mál. — Þskj. 573, till. til rökst. dagskrár 709.

[20:00]
Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég tek til máls í annað skipti í þessari umræðu og hef til þess stuttan tíma þannig að ég mun takmarka mig við tiltölulega fáa þætti þó að margt í umræðunni hér í dag hafi gefið tilefni til svara. Ég ætlaði að árétta nokkra þætti sem varða það sem mér finnst að við eigum fyrst og fremst að takast á við hér í kvöld, það er einfaldlega það hvort eðlileg og venjubundin þingleg meðferð þessa máls eigi að halda áfram, eða hvort henni eigi að ljúka að lokinni þessari umræðu.

Hv. þingmenn þekkja mætavel hvernig hlutir ganga að jafnaði fyrir sig hér á Alþingi. Að jafnaði er það svo að þau mál sem tekin eru á dagskrá þingsins eru rædd við 1. umr. og ganga síðan, venjulega athugasemdalaust, til nefndar og 2. umr. að því búnu, það er hin venjubundna leið. Undanfarin ár, undanfarin fjögur ár, hefur það fyrirkomulag verið fyrir hendi að ekki er að jafnaði þörf á atkvæðagreiðslu um það hvort mál skuli ganga áfram. Það gerist sjálfkrafa samkvæmt tillögu forseta nema óskað sé eftir atkvæðagreiðslu um annað. Almennt er sem sagt gert ráð fyrir því að þegar mál eru tekin á dagskrá þingsins og rædd við 1. umr. eigi þau áframhaldandi framgang og framhaldslíf hér á þingi og fái umfjöllun í nefnd eftir mati þeirrar nefndar sem um málið á að fjalla.

Á þessari stundu, hæstv. forseti, er það kannski ekki meira sem ég sem stuðningsmaður þessarar tillögur er að biðja um en að málið fái að halda áfram, þ.e. að sú frávísunartillaga sem hér liggur fyrir frá fjórum hv. þingmönnum verði ekki samþykkt, vegna þess að með því móti væri klippt á hina venjubundnu meðferð og þau álitaefni sem að sönnu hafa komið upp í þessari umræðu, til dæmis um möguleika þingsins á að hafa afskipti af málinu á þessu stigi, sem hefur verið töluvert til umræðu hér í dag, og síðan hvort forsendur eru fyrir því að framfylgja tillögunni samkvæmt efni hennar, þ.e. að afturkalla ákæru á hendur Geir H. Haarde, hvort þær eru fyrir hendi.

Ég er í raun og veru, hæstv. forseti, ekki að biðja um annað sem stuðningsmaður þessarar tillögu en að þingið meðhöndli hana eins og langflest mál, nánast öll sem tekin eru hér til fyrri umr., til þess að það fái þá efnislegu umfjöllun sem það á skilið.

Þeir sem komið hafa hingað í ræðustól til að lýsa yfir stuðningi við frávísunartillöguna, tillögu hv. þingmanna Magnúsar Orra Schrams, Eyglóar Harðardóttur, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og Birgittu Jónsdóttur, hafa lýst yfir stuðningi við hana á ýmsum forsendum. Sumir eru þeirrar skoðunar, að því er virðist, að þingið sé að fara út fyrir valdheimildir sínar með því að taka þetta mál til afgreiðslu. Aðrir eru þeirrar skoðunar að það sé Alþingi svo sem mögulegt, en þeir styðji hins vegar ekki efni tillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar og telji þess vegna að henda eigi málinu út.

Ég vildi nota þetta tækifæri, þegar farið er að halla undir lok þessarar umræðu, og árétta þá skoðun mína að hér eru álitaefni uppi. Í þessari umræðu hafa verið færð rök fyrir tillögunni og gegn henni. Færð hafa verið rök fyrir því að Alþingi geti afturkallað ákæruna og færð hafa verið rök gegn því. Skoðum málið. Hendum tillögunni ekki út á þessari stundu. Samþykkjum ekki frávísunartillöguna heldur gefum okkur sjálfum, og þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar, tækifæri til að fjalla um það með vandaðri hætti en hægt er í umræðum hér í þingsal.



[20:06]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hélt ræðu fyrir stuttu um þetta mál og náði þá ekki alveg að klára allt það sem ég ætlaði að segja og ætla að bæta hér úr.

Í fyrsta lagi er ljóst að þetta eru pólitísk réttarhöld. Það hefur verið ljóst alveg frá upphafi, það þarf ekki annað en skoða umgjörðina að því máli til að sjá að þetta eru pólitísk réttarhöld. Þeir sem ákæra eru stjórnmálamenn. Þannig að það getur ekki annað verið en þeir ákæri út frá stjórnmálalegum sjónarmiðum. Þeir kjósa meira að segja dóminn, átta af 15 dómendum eru kosnir af Alþingi. Uppruni málsins er pólitískur og ferillinn er að einhverju leyti pólitískur líka. Fyrir utan það er það náttúrlega þannig vaxið, með bæði ákærða og allt málið í heild sinni, að verið er að fjalla um pólitískar ákvarðanir og pólitískar gerðir eða aðgerðaleysi. Í því felst að þetta eru pólitísk réttarhöld og verða það.

Ég tek því undir það sem hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sagði á vefsíðu sinni 2001. Þá þegar sá sú ágæta kona að lög um landsdóm væru úrelt og hefðu ekki fylgt þeirri framþróun sem orðið hefði í dóms- og réttarkerfinu. Þetta segir hún á vefsíðu sinni 2001. Ég legg til, herra forseti, að Alþingi taki sér tak og afnemi lögin um landsdóm svo að við lendum ekki í svona slysi aftur.

Ekki hefur mikið verið rætt um tillögu til rökstuddrar dagskrár — það þarf víst ekki samþykki Alþingis til að leggja slíka tillögu fram, og hefur það verið rætt hér nokkuð í dag. Ég ætla að koma inn á það.

Þar stendur, með leyfi herra forseta, í fyrsta liðnum:

„Alþingi fer með ákæruvald í málum vegna embættisbrota ráðherra. Ákvörðun þess sem fer með almennt ákæru- eða saksóknarvald um að fella niður ákæru verður að byggjast á málefnalegum rökum.“

Það er einmitt það sem menn hafa komið inn á. Sá sem tók ákvörðun, þ.e. Alþingi sjálft — af þeim hafa þó nokkuð margir bakkað frá þeirri ákvörðun. Þeir hafa jafnvel sagt að um sé að ræða mistök og nefni ég þar til sögunnar hv. þm. Atla Gíslason sem sagði að það hefðu verið mistök hjá sér að einn af fjórum var ákærður en ekki allir, hann hefði aldrei séð það þannig fyrir sér. Hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson er sömu skoðunar, að þarna hafi ýmislegt komið í ljós og hann mundi ekki greiða atkvæði með þessu núna.

Þannig að ákærandinn, Alþingi sjálft, hefur skipt um skoðun. Meiri hluti virðist vera fyrir því að ákæra ekki. Þegar svoleiðis gerist, sérstaklega þar sem um er að ræða pólitísk réttarhöld, er ekki seinna vænna að tala um að forsendur hafi breyst, þegar ákærandinn sjálfur skiptir um skoðun.

Svo hefur náttúrlega fjöldi mála sýnt að það sem hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, var ákærður fyrir hefur sýnt sig í öðrum löndum að hafa verið alger markleysa.

Írland gerði þau mistök að samþykkja kröfur á bankana sem hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra stóð þvert gegn. Það mun svo sýna sig að neyðarlögin — sem hann keyrði í gegn, fyrir utan það að hann stóð fyrir því að leggja fram frumvarp um rannsóknarnefnd Alþingis — sem Hæstiréttur hefur sýnt fram á að hafi átt rétt á sér, hafa afstýrt alveg gífurlegum hörmungum.

Ég er ekki viss, herra forseti, um að menn átti sig á því hvað það hefði þýtt að við hefðum ekki getað borgað lengur með kreditkortinu okkar. Með hverju hefðum við þá borgað? Ef greiðslukerfið hefði hrunið og við hefðum ekki haft neitt til að borga með, hvað hefðum við þá gert? Allur innflutningur hefði stöðvast á sama augnabliki. Ég lofa því. Enginn hefði farið að senda vörur eða annað til Íslands sem væri orðið gjaldþrota. Það hefði allt stöðvast. Eftir þrjár vikur eða fjórar hefði landbúnaðurinn stöðvast. Sjávarútvegurinn, að ná í fisk í soðið — menn geta ekki lengur róið með árum, það þarf alltaf olíu. Þannig að það hefði allt stöðvast.

Ég held að þegar fram í sækir og þegar aðrar þjóðir fara að skoða þetta — hversu mikið við erum við háð greiðslukerfum nútímans — muni það verða ljóst að það sem fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, gerði var afrek en ekki ástæða til að ákæra hann einan af öllum.

Svo vil ég taka undir það að það að ákæra hann og dæma leysir ekkert þann vanda (Forseti hringir.) sem tengist hruninu.



[20:11]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Það líður að lokum umræðunnar. Það eru tvö atriði sem ég vildi einkum koma að í þessari annarri ræðu minni. Fyrra atriðið snýr að því hvert málið ratar eftir að umræðu lýkur.

Nokkuð var tekist á um það í upphafi umræðunnar, eftir að ég hafði lagt til að saksóknarnefndin fengi tækifæri til að funda um málið milli umræðna, hvort það væri í samræmi við þingskapalög að vísa málinu þangað. Hugmynd mín, eins og ég kynnti hana, byggðist á því að saksóknarnefndin fengi tækifæri milli umræðna til að koma saman og ræða þingmálið. Ég lét þess getið í máli mínu að ekki væri um hefðbundna fastanefnd að ræða og þar af leiðandi væri ekki ástæða til að gera ráð fyrir því að fram yrði lagt nefndarálit af hennar hálfu. Það kann að vera að einhver líti svo á að ekki sé gert ráð fyrir þessu samkvæmt þingsköpum. Þeir kunna að hafa rétt fyrir sér, en það skiptir í sjálfu sér ekki máli vegna þess að hugmynd mín var í eðli sínu sú að við sammæltumst um að síðari umræðan færi ekki fram fyrr en saksóknarnefndin hefði að minnsta kosti fengið tíma til að koma saman.

Í skilningi þingskapalaganna mætti þannig líta á þessa tillögu mína sem tillögu um að málið gengi ekki til nefndar, ef svo má að orði komast, þar sem við værum þá í þeim skilningi alltaf að vísa til einhverra af fastanefndum þingsins. Aðalatriðið er að saksóknarnefndin fengi tækifæri í tíma og það væri tekið þar fyrir á dagskrá.

Að öðru leyti vænti ég þess, verði málinu á annað borð ekki vísað frá með því að hér verði samþykkt tillaga til rökstuddrar dagskrár, að það kunni að koma fram tillögur um það hér á eftir að málið fari í einhverja tiltekna fastanefnd, það kemur þá bara í ljós.

Ég vil hins vegar fjalla um annað atriði sem varðar hina títtnefndu tillögu til rökstuddrar dagskrár og þá röksemdafærslu sem henni fylgir, nefnilega það að ekki sé hægt að taka hér til meðferðar þá þingsályktunartillögu sem við erum að ræða nema henni fylgi það sem segir í skjalinu málefnaleg rök og að þetta leiði af grunnreglum stjórnsýslunnar að Alþingi sé á sama hátt bundið af sjónarmiðum um málefnalegar forsendur eins og á við í stjórnsýslunni. Staðreynd málsins er sú að við erum ekki að taka stjórnsýsluákvörðun hér. Það gilda allt aðrar reglur í stjórnsýslunni en um þá ákvörðun sem við erum hér að ræða. Það er grundvallarmunur á grunnreglum stjórnsýslunnar um þetta atriði og rekstri sakamáls. Þannig hafna ég því með öllu að þær reglur stjórnsýslunnar sem hér er vísað til eigi nokkurt erindi inn í umræðuna um það hvort þingið geti tekið ákvörðun um afturköllun ákærunnar.

Eftir að hafa hlýtt á fjölmargar ræður hér í dag vek ég athygli á því meginatriði að Alþingi fer með ákæruvaldið. Hvergi er kveðið á um það í lögum að Alþingi geti ekki afturkallað ákæru. Einungis hefur verið vísað til skrifa fræðimanna sem í flestum tilvikum eru orðin býsna gömul, miklu eldri en nýjustu breytingar á sakamálalögunum, sem menn eru þó sammála um að séu landsdómslögunum til fyllingar.

Þegar við lesum landsdómslögin og lög um meðferð sakamála, sem eru þeim til fyllingar, sjáum við ákvæði sem heimila einmitt að ákæruvaldið dragi málsókn til baka. Það er því ekki nóg með að ekki sé jákvætt ákvæði, eða við gætum sagt neikvætt ákvæði, í lögunum sem komi í veg fyrir að þingið geri þetta, heldur er beinlínis gert ráð fyrir því í lögunum sem eru landsdómslögunum til fyllingar, beinlínis gert ráð fyrir því. Það er enginn vafi, þegar lög eru túlkuð, að skýr lagatexti gengur framar fræðiritum. Það er enginn vafi í því efni.

Allt þetta leiðir til þess að það er alveg ótvírætt að þingið hefur enn fullt forræði yfir málinu. Ég vísa í því samhengi líka til þess sem landsdómur hefur nú þegar sagt. Landsdómur sagði í úrskurði sínum frá því í haust að málsforræðið væri ekki hjá saksóknara, hann gæti ekki breytt ákæruliðunum, hvorki bætt við þá né dregið úr, án þess að bera það undir þingið. Í því felst meðal annars að komi saksóknari inn til þingsins með hugmyndir um slíkt er það á valdi þingsins að taka afstöðu til þess af eða á, meðal annars gæti þingið neitað hugmyndum saksóknara um breytingar á ákæruliðum og falið honum að halda áfram með málið á þeim forsendum sem upphaflega var lagt af stað með.

Þetta sýnir að valdið er ótvírætt hér hjá þinginu til þess að taka ákvörðun eins og í öllum öðrum sakamálum, allt fram til þess að dómur er kveðinn upp, um hvað skuli gera með ákæruatriðin.

Ég tel því að það hafi komið ótvírætt fram í umræðunni í dag að þingið er til þess bært, með vísan til alls þess sem ég hef hér rakið, að taka þessa ákvörðun. Hafi menn verið í einhverjum vafa um að tilefni væri til að taka þessa umræðu hér í þingsal hljóta þeir að hafa sannfærst eftir að hafa hlustað á hverja ræðuna á fætur annarri hér í dag, meðal annars frá þingmönnum sem áttu sæti í þingmannanefndinni sem lagði til ákærurnar á sínum tíma. Ég vísa til dæmis til hv. þm. Atla Gíslasonar í því sambandi. Þegar hv. þm. Atli Gíslason hefur komið hingað og fært fram þau rök sem hann gerði, er í raun og veru búið að slá út af borðinu allar efasemdarraddir um að tilefni hafi verið til að koma fram með málið. Ekki er nóg með að Atli hafi leitt starfið sem fór fram í þingmannanefndinni, heldur var Atli þeirrar skoðunar á sínum tíma að ástæða væri til að ákæra fjóra ráðherra. Í hans máli komu fram nægjanleg rök sem ein og sér hefðu dugað til að leggja fram mál af þeim toga sem ég hef mælt fyrir hér í dag.

Það eru fleiri rök í málinu. Yfir þau þarf að fara. Það er langheppilegast að það verði gert í þingnefnd. Ég hef lagt til saksóknarnefndina. Við sjáum til hvernig meiri hluti þingsins vill að því verði fyrir komið milli umræðna. Ég vil nota lok ræðutímans til að vekja athygli á því að þetta þarf ekki að taka langan tíma. Ef ég man rétt tók það Alþingi einungis 17 almanaksdaga að taka tillögu um ákæru gegn fjórum ráðherrum á dagskrá til fyrri umr., til meðferðar í nefnd, til síðari umr. og til endanlegrar afgreiðslu hér í þinginu — 17 daga og fjórar ákærur voru undir í því máli, það var mun umfangsmeira verkefni en það sem við mundum fást við í nefnd og við síðari umræðu í þessu máli. Ég tel því eðlilegt að gera ráð fyrir því að síðari umræða í þessu máli gæti farið fram innan viku, kannski í síðasta lagi eftir 10 daga. Það eru engin rök til þess að meðferð málsins ætti að taka lengri tíma hér í þinginu ef sú nefnd sem fjallar um málið telur ástæðu til að koma aftur með það hér í þingið í byrjun næstu viku. Þá er ekkert því til fyrirstöðu af minni hálfu að halda síðari umræðu málsins þá (Forseti hringir.) og taka málið í kjölfarið til endanlegrar afgreiðslu.



[20:21]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Fyrir þremur árum brunnu í brjósti margra Íslendinga bæði sárindi og reiði en jafnframt vonir og væntingar. Vonir um að nú mundu hlutirnir breytast og okkur tækist að byggja upp betra og sanngjarnara samfélag.

„Hvað er þá orðið okkar starf? — Höfum við gengið til góðs?“

Ég er þeirrar skoðunar að við séum mjög langt frá því að hafa í raun og sann gert upp hrunið, lært af því, breytt og bætt það sem á hefur verið bent. Við erum enn að kafna í sömu gömlu vinnubrögðunum, áherslunum og nálguninni og á ýmsan hátt að endurreisa sama gamla pukrið, sömu valdaklækja-, hótana- og klíkupólitíkina og sama gamla fjármagnskerfið sem vinnur gegn almenningi, svo eitthvað sé nefnt.

Það þýðir ekki að ég hafi gefið upp trúna á íslenskt samfélag og möguleika þess til endurreisnar, langt í frá. Samfélagið er sem betur fer miklu fjölbreyttara og merkilegra en stjórnmálamenningin sem það býr við. Pólitíkin brást fyrir hrun og hún hefur brugðist eftir hrun. En ég efast ekki um að enn sé hægt að gera upp fortíðina með róttækum hætti sé fyrir því vilji, enn sé hægt að læra og byggja upp betra og opnara samfélag sem getur búið komandi kynslóðum uppbyggilegt umhverfi.

Eitt er hins vegar víst: Við getum ekki og megum ekki byggja uppgjör við óréttlæti fortíðar á því að hunsa grunngildi réttarríkisins og láta tilganginn helga meðalið.

Grunngildin eru meðal annars þau að okkur ber skylda til að gæta fyllsta jafnræðis milli hugsanlegra sakborninga og horfa til samhengis hlutanna. Hvorki stjórnmálaskoðanir, persónuleg tengsl né duttlungar mega ráða. Niðurstöður mega ekki vera tilviljanakenndar. Þær verða að vera í samræmi við yfirvegað mat og vilja ákærandans.

Nú er hávær krafa uppi um það víða í samfélaginu að það verði að leiða Geir Haarde til saka þar sem einhver verði einfaldlega að bera ábyrgð. Ég er sammála því að það eru ömurleg skilaboð út í samfélagið að enginn beri neina ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Þeim skilaboðum verðum við að breyta með því að taka til gagngerrar skoðunar hvernig fólk axlar ábyrgð í okkar samfélagi almennt. En það skiptir máli að við berum okkur rétt að, að við réttlætum ekki óréttlæti með nýju ranglæti.

Sagt er að það sé þess virði að láta einn mann ganga til dóms til að fá upplýsingar upp á borðið.

Ég tek undir að allt þarf upp á yfirborðið. Það er hægt að gera með öflugum hætti. Spurningin er hvort það sé það sem stjórnmálastéttin vill yfir höfuð. Eða hvort hún vilji helst að Geir Haarde leiði burt syndir stjórnmálanna. Svo mikið er víst að hvergi í réttarríki er það viðurkennd aðferðafræði að brjóta eigi jafnræðisreglu og taka einn einstakling út úr hópi hugsanlegra sakborninga eða leiða hann fyrir dóm til þess að fá upplýsingar upp á borð.

Annað sem tínt er til í röksemdum í málinu er að það sé bara jákvætt fyrir Geir Haarde að ganga þessa leið, því þá geti hann hreinsað sig af sökum með sýknun. Þetta viðhorf gengur einnig gegn frumskyldum ákæruvalds sem getur ekki tekið sér leyfi til að senda mann til dóms á slíkum forsendum.

Það er hins vegar fjarstæðukennt í mínum huga að telja að með sýknudómi sé úrskurður sögunnar kominn um að Geir Haarde hafi enga ábyrgð borið í aðdraganda hruns. Hann og margir fleiri hljóta að bera ábyrgð sem persónur og leikendur í þeirri atburðarás sem undan verður ekki vikist. Við stöndum hér og nú í leikhúsi þeirra persóna og leikenda.

Nú fyrir jólin var haft eftir þingmanni að ef fallið yrði frá ákæru á Geir Haarde jafngilti það því að setja rannsóknarskýrslu Alþingis í tætarann. Þessi ummæla segja í raun allt sem þarf um það hvernig þessi ákæra á hendur Geir Haarde er túlkuð, hvaða fölsku vonir og væntingar eru skapaðar hjá fólki með þessu landsdómsmáli. Hrun sem átti sér langan, fjölþættan og víðfeðman aðdraganda og orsakir er sett á einn mann. Ef þessi maður er ekki látinn svara til saka er sagt: Þá er ekki verið að horfast í augu við það sem hér gerðist.

Það er á vissan átt erfitt að lýsa því hversu mjög ég er ósammála þeirri nálgun, þessari sýn á það sem uppgjör heillar þjóðar krefst af okkur. Því er haldið fram að þetta sé uppgjör við stjórnmál hrunáranna. Þau sem kynna sér málið og ákærurnar sem eftir standa af sanngirni sjá að slík túlkun er sjónarspil. Ákæruliðirnir taka aðeins til átta mánaða og mjög afmarkaðra þátta í störfum eins manns. Ábyrgðin á því að gera Ísland að spilavíti, einkavæða auðlindir og fjármálakerfi, opna fyrir einkavinavæðingu, hún verður ekkert til umræðu við réttarhöldin í Þjóðmenningarhúsinu. Um þá stefnu og þá atburðarás verður ekkert rætt.

Mín sýn og nálgun á heiminn hrópar að eitthvað sé mikið að þegar kerfisbundið óréttlæti, kerfisbundið arðrán og kerfisbundin múgsefjun, kerfisbundið rotspillt alþjóðakerfi fjármagnsins og þeirra stjórnmála sem hún byggir á, eigi að fá einhvers konar syndaaflausn í einum manni. Þá verða hin raunverulegu viðfangsefni, hin raunverulegu vandamál og átakaefni að einhvers konar mistökum eða yfirsjón eins einstaklings. Uppgjörið við óréttlætið allt þarf að snúast um svo langtum meira og hefur meðal annars með rótgróna menningu og grundvallarviðhorf að gera nú í dag rétt eins og fyrir nokkrum árum síðan. Það hefur einnig með marga einstaklinga að gera, marga, en ekki bara einn.

Svo virðist sem lærdómurinn sem margir hafa kosið að draga af hruninu sé besta í falli að skapa ný formerki fyrir sömu vinnubrögðin. Menn tala um siðbót en stunda siðleysi.

Skýrsla þingmannanefndarinnar fjallar um nauðsyn breyttra og bættra vinnubragða til framtíðar. Staðreyndin sem við blasir er hins vegar sú að við höfum litlu sem engu breytt hvað varðar vinnubrögð okkar og nálgun á hin pólitísku viðfangsefni. Hvað skyldu ákærendur hér á Alþingi segja um okkar eigin vinnubrögð, skyldu þau standast skoðun? Ég ætla að hlífa okkur við að nefna dæmin en svar mitt er að þau standist ekki skoðun. Ég sé ekki í verki lærdóma okkar af hruninu.

Verst er þó hræsnin. Hún verður hrópandi augljós þegar málin eru skoðuð í sögulegu ljósi, þegar horft er til þess að ráðherra í núverandi ríkisstjórn sem jafnframt var ráðherra í hrunstjórninni berst með hótunum fyrir því að koma í veg fyrir að þessi tillaga fái eðlilega þinglega meðferð. Það er eins og allt sé nú gleymt.

Ég spyr: Er rétt að þurrka út úr sögulegri vitund okkar að núverandi forsætisráðherra var í ráðherranefnd um ríkisfjármál í ríkisstjórn Geirs Haardes í aðdraganda hrunsins — á þeim tíma sem ákært er fyrir? Aðrir samráðherrar hrunstjórnarinnar eru í núverandi ríkisstjórn. Enn aðrir eru í feitum embættum og við trúnaðarstörf, bæði hér á landi og erlendis í boði núverandi ríkisstjórnar. Það er siðlaust að mínu mati að leiða einn mann fyrir dóm á meðan aðrir þeir sem hlut eiga að máli gera það gott, jafnvel í boði sjálfs ákæruvaldsins. Eða eru jafnvel ákæruvaldið sjálft.

Í þeim pólitíska hráskinnaleik að afneita fortíðinni virðast sumir ekki kannast við það að hafa nokkurn tímann komið nálægt því að sitja í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. En því miður er það svo að Geir Haarde getur ekki borið í burtu syndir fortíðar Sjálfstæðisflokksins og hann getur heldur ekki borið í burtu pólitískar syndir fortíðar Framsóknarflokks og Samfylkingar. Slíkt uppgjör á ekki síður að snúast um stjórnmálastefnu, menningu, viðhorf, hjarðhegðun, vinnubrögð, nálgun og margt fleira. Staðreyndin er einnig sú að Geir Haarde getur ekki borið í burtu syndir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í núverandi ríkisstjórn eða með hvaða hætti við höfum gengið fram þvert á svo margt sem við sögðumst standa fyrir.

Við þurfum sem þjóð að gera bæði fortíð og nútíð upp en það er ekki sama hvernig við gerum það. Við getum litið til annarra þjóða þar sem vel hefur til tekist í þessum efnum. Ég get ekki litið á það sem sanngjarnt eða rétt að ganga fram með þeim hætti sem kom í ljós við atkvæðagreiðslu þessa máls strax í upphafi. Það er að mínu mati ósanngjarnt og rangt. Á ósanngirni og rangindum megum við ekki byggja uppgjör, hvað þá endurreisn til framtíðar.

Ég sé, forseti, að tími minn er nú útrunninn. Ég hef meira að segja og bið um að fara aftur á mælendaskrá til að ljúka ræðu minni.



[20:32]
Magnús M. Norðdahl (Sf):

Herra forseti. Eins og sumir aðrir þingmenn kem ég nú í fyrsta sinn að þessari umræðu um þetta mjög svo erfiða og flókna mál. Ég vil taka það fram í upphafi að ég taldi og tel enn að þrír fyrrverandi ráðherrar ættu að standa skil athafna sinna og athafnaleysis fyrir landsdómi. Ég tel að sú ákvörðun Alþingis að gera það ekki hafi verið röng. Ég tel hins vegar þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu ekki þingtæka.

Hv. þm. Birgir Ármannsson kallaði eftir því fyrr í dag að þeir þingmenn sem væru þeirrar skoðunar gerðu grein fyrir þeim rökum sem þeir telja styðja þá afstöðu. Og það ætla ég að gera.

Ég vil byrja á því að vitna í 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.“

Samkvæmt þessu ákvæði gildir sú almenna regla, og hefur gert lengi, að það eru stjórnvöld sem fara með ákæruvaldið í þessu landi. Frá þessari almennu reglu er undantekning í 14. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum.“

Síðan segir:

„Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.“

Stjórnarskráin sjálf geymir þannig sérstaka undantekningu frá áður tilvitnaðri 2. gr., um að ákæruvaldið sé almennt í höndum framkvæmdarvaldsins. Samkvæmt öllum venjulegum og almennum lögskýringarreglum ber að túlka slíkar undanþágur mjög þröngt.

Ég tel að ekki sé hægt að túlka þetta ákvæði 14. gr. svo rúmt að í því felist sjálfstætt ákæruvald sem með skuli fara með sama hætti og ákæruvaldið almennt í landinu, og þá meðal annars að í því geti falist heimild til handa Alþingi til að falla frá ákæru á hendur ráðherra.

Til þeirrar niðurstöðu hníga einnig fleiri rök, sérstaklega þau að stjórnarskráin sjálf geymir sérákvæði um það með hvaða hætti ákæra á hendur ráðherra skuli felld niður, en það er 29. gr. stjórnarskrárinnar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Forsetinn getur ákveðið, að saksókn fyrir afbrot skuli niður falla, ef ríkar ástæður eru til. Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka. Ráðherra getur hann þó eigi leyst undan saksókn né refsingu, sem landsdómur hefur dæmt, nema með samþykki Alþingis.“

Herra forseti. Þetta tilvitnaða ákvæði stjórnarskrár er sérákvæði um að framkvæmdarvaldið, með atbeina forseta, og að fengnu samþykki Alþingis, fari með vald til þess að fella niður ákæru á hendur ráðherra. Ég tel að þessu sérákvæði stjórnarskrár verði ekki rutt til hliðar með breytingum á almennri réttarfarslöggjöf eins og haldið er fram í greinargerð með þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu. Það er því skoðun mín að Alþingi hafi ekki heimild til að eiga sjálfstætt frumkvæði að því að fella niður saksókn á hendur ráðherra eða heimild til að fela saksóknara Alþingis að gera það. Það vald hvílir hjá framkvæmdarvaldinu og framkvæmdarvaldinu einu.

Hv. þm. Birgir Ármannsson óskaði efti því fyrr í umræðunni, eins og áður segir, að þeir sem væru þeirrar skoðunar að Alþingi væri að gera eitthvað sem það hefði ekki vald til að gera létu afstöðu sína uppi og rökstyddu. Það hef ég gert. Ég tel þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu ekki þingtæka. Þess vegna styð ég þá dagskrártillögu sem hv. þm. Magnús Orri Schram og fleiri hafa lagt fram.



[20:36]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að tala skýrt um skoðanir sínar í þessu efni. Ég get þó ekki tekið undir þau sjónarmið sem hann teflir fram til rökstuðnings máli sínu. Það sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni var að Alþingi gæti ekki átt frumkvæði að því að draga til baka ákæruna og að ákæruvaldið, eftir að niðurstaða þingsins lægi fyrir, væri farið yfir til framkvæmdarvaldsins. Þá vaknar sú spurning: Telur hv. þingmaður að það sé þá saksóknarans að kalla ákæruna til baka? Eða er ómögulegt að kalla ákæruna til baka?

Í þessu sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga það sem landsdómur sjálfur hefur nú þegar sagt um þessi efni. Landsdómur sagði í úrskurði sínum frá því í haust, með leyfi forseta:

„Sá sem Alþingi kýs til að sækja málið af sinni hálfu, eftir að það hefur tekið ákvörðun um að ákæra, hefur ekki forræði á því hvers efni ákæran er sem hann gefur út í málinu.“

Síðan segir í úrskurðinum í framhaldinu að hann geti hvorki takmarkað né aukið við ákæruatriðin.

Þannig að spurning mín snýr að því: Er það þá skilningur hv. þingmanns að það sé einungis um afturköllun ákærunnar í heild sinni sem saksóknari Alþingis hafi fullt forræði þar sem hann hefur komist að þeirri niðurstöðu að það hvíli ekki hjá þinginu?



[20:38]
Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er rétt, ég er þeirrar skoðunar að Alþingi hafi ekki frumkvæðisrétt í þessu máli.

Ég tel einnig að sú tilvitnun sem hv. þm. Bjarni Benediktsson fer með úr landsdómi, og á við um breytingar á efni kæru, viðbætur og annað sem lýtur að meðferð málsins, eigi ekki við um niðurfellingu saksóknar. Ekki sé hægt að nota þessa tilvitnun í niðurstöðu landsdóms til að rökstyðja að úr hendi framkvæmdarvaldsins skuli færa réttinn til að fella niður ákæru, eins og skýrt er tekið fram í 29. gr. stjórnarskrárinnar, til Alþingis aftur.



[20:39]
Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessi túlkun hv. þingmanns gengur á skjön við nýleg skrif prófessors Róberts Spanós sem telur að Alþingi geti einmitt haft þetta frumkvæði. En látum það liggja milli hluta hvort það er prófessorinn eða hv. þingmaður sem hefur rétt fyrir sér. Ef það er rétt hjá hv. þingmanni að saksóknari einn geti átt frumkvæðið, liggur það að minnsta kosti fyrir að hann getur ekki takmarkað ákæruatriðin nema leita fyrst til þingsins. Það gæti þá leitt til þeirrar niðurstöðu, ef við gæfum okkur, eins og á við í þessu máli, að mörg ákæruatriði séu undir í einu máli — segjum að þau væru tíu — að saksóknari Alþingis mætti fella niður níu af tíu ákæruatriðum, en hann mætti bara ekki fella niður öll. Það er þetta sem mér finnst ekki standast skoðun við þessa nálgun.

Ef menn eru þeirrar skoðunar að hægt sé að takmarka ákæruatriðin svo mjög að það standi nánast ekkert eftir af málinu, ríði það baggamuninn að það séu bara ekki öll atriðin sem tekin eru út. Þetta finnst mér málflutningur sem stenst ekki skoðun.



[20:40]
Magnús M. Norðdahl (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Eflaust má lengi takast á um það hvort heimilt er að draga til baka níu ákæruatriði af tíu, tvö af tíu o.s.frv. Það breytir í mínum huga ekki þeirri staðreynd að ákvæði stjórnarskrárinnar, um það hvernig með skuli fara, þegar í hlut á að falla frá saksókn — það sé ekki hægt með þeim lögskýringum sem hér hafa verið hafðar uppi að fara fram hjá því beina ákvæði.

Af því minnst var á ágæta grein prófessors Róberts Spanós í Fréttablaðinu 10. janúar síðastliðinn verð ég að segja eins og er að ég er ekki sammála þeirri greiningu sem prófessorinn gerir þar og halla mér frekar að þeim túlkunum sem eldri fræðimenn hafa haft á þessu, Ólafur Jóhannesson, Gunnar Schram og Bjarni Benediktsson, um að þetta sé ekki hægt.

Ég held að Róbert Spanó geri sig sekan, svo við förum í lögfræðilega þrætu um það, að beita túlkunum sínum svolítið rúmt á þær undantekningarreglur og þær sérreglur sem í stjórnarskránni eru. Hann segir til dæmis í grein sinni að Alþingi hafi eftir sem áður greinilega frumkvæði að slíkri afturköllun án atbeina forseta standi til þess meiri hluti. Rökin fyrir þessum skilningi séu einkum eftirfarandi, og hann fer síðan í gegnum þau. Engin af þeim finnst mér vera mjög sannfærandi. Það þarf að rökstyðja það mjög vel ef víkja á frá beinum ákvæðum stjórnarskrár og viðurkenndum túlkunum.



[20:42]
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Tíminn er naumur, en ég ætla að ljúka ræðu minni og spyrja: Hver er leiðin fram á við?

Hér gefst ekki tími til að velta því öllu við, en ein leið er að setja á stofn sannleiksnefnd sem taki meðal annars að sér ítarlegar og víðtækar opnar vitnaleiðslur, ekki bara ráðherra og þingmanna heldur embættismanna og fleiri sem að málum komu — nefnd sem sé ætlað að leiða í ljós allan sannleikann, en ekki yfirborð afmarkaðs tíma, afmarkaðra þátta sem varða störf aðeins eins manns. Lærdómurinn yrði þá vonandi vegvísir inn í nýja framtíð. Spurning er hins vegar hvort fólk sé yfir höfuð tilbúið til að læra nokkurn skapaðan hlut eða finnist meira um vert að finna sökudólg og hvítþvo eigin aðkomu.

Ég veit að margir hugsa mér þegjandi þörfina fyrir afstöðu mína. Heitingar og formælingar bera þess glöggt vitni, enda til mikils að vinna í hinum pólitíska skollaleik. Látið er að því liggja að ég sé komin í lið með hrunverjum og beri ábyrgð á því að uppgjör fari ekki fram.

Afstaða mín í þessu máli hefur reyndar ekkert breyst. Um það geta vitnað aðrir þingmenn sem ég talaði við strax að lokinni atkvæðagreiðslu þingsins í þessu máli og lýsti fullkominni vanþóknun minni á niðurstöðunni. Sú afstaða hefur ekkert breyst. Hún stendur. Ég tek ábyrgð mína sem ákæruvald alvarlega, burt séð frá öllum hótunum og svívirðingum.

Þegar Alþingi hafði allar forsendur til annars sýndi það grímulaust fram á að það hafði ekki burði til að takast á við mál af tagi sem hér er til umræðu. Niðurstaðan varð afmyndun á réttarríkinu. Ætlum við að breyta rétt, eða ætlum við að breiða yfir mistök með því að láta óátalið hvernig Alþingi hefur brotið gegn skyldum sínum sem ákæruvald? Á ósanngirni að afmá sporin?

Það að láta eins og ekkert hafi í skorist í þessu máli og hér hafi eðlilega verið búið um hnúta er merki um niðurlægingu þings frekar en endurreisn þjóðar. Ef við byggjum forsendur uppgjörsins á pólitískum hráskinnaleik, ef við byggjum forsendur uppgjörsins á því að vanvirða grundvallargildi sem ákæruvaldi í réttarríki ber frumskylda til að hafa í heiðri, þá nærum við ekki einungis falska tilfinningu um að uppgjör hafi farið fram heldur treystum stoðir stjórnmálamenningar sem ekkert lærði af hruninu.

Ég vil raunverulegt uppgjör sem skilar okkur betri stjórnmálum, betri starfsháttum, betri stefnu, betra samfélagi og betri framtíð. Ég bíð enn eftir tækifæri til að taka þátt í slíku uppgjöri.



[20:46]
Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það verður að segjast alveg eins og er að það er svolítið sérstakt að koma upp á eftir svona afbragðsræðu eins og hér var flutt af mikilli einlægni. Ég er þó ekki að segja að aðrir hafi ekki gert slíkt hið sama, flutt ræður sínar af einlægni, en hér var vel skrifuð ræða flutt af mikilli sannfæringu sem ég vona að þingmenn hafi tekið eftir.

Það sem maður veltir fyrir sér með þetta mál er hvort því sé beitt sem kallað hefur verið grímulausar hótanir eða þá að menn séu dregnir afsíðis og þeim bent á hvernig fyrir þeim gæti farið ef þeir gera ekki eins og foringinn segir eða flokksforustan og það sé til þess að ná einhverri niðurstöðu sem hugnast einhverjum, sem ég veit ekki alveg hverjir eru.

Ég hugsa líka til þess að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki látið sjá sig hér í þessari umræðu, ekki tekið til máls, ekki sagt eitt einasta orð um það hvað henni sem forustumanni í ríkisstjórninni finnst um þetta mál. Þó hefur verið kallað eftir því, á hana hefur verið deilt, forsætisráðherra gagnrýndur mjög fyrir framgöngu sína og ráðherra minntur á veru sína í ríkisstjórn frá 2007, í hrunstjórninni, ábyrgð forsætisráðherra í þeirri stjórn. Ég tek fram, herra forseti, að þótt ég gagnrýni hér forsætisráðherra og þá sem voru í ríkisstjórn bera aðrir ábyrgð og þar ekki síður framsóknarmenn og Framsóknarflokkurinn. Undan því skorumst við ekki á nokkurn hátt. Ég veit að þeir sem hafa talað hér fyrir hönd þeirra flokka, a.m.k. margra hverra, eru sama sinnis. Mér finnst helst vanta upp á það frá flokki forsætisráðherra að menn viðurkenni einhverja sök eða ábyrgð einhvers staðar. Ég veit þó að undan má skilja einhverja og hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, flutti hér mjög góða ræðu í dag sem var eftirtektarverð.

Herra forseti. Mér sýnist komið að leiðarlokum í þessari umræðu. Þá er mjög mikilvægt að þeir sem hugsanlega hafa verið beittir hótunum láti það ekki stjórna ákvörðun sinni heldur reyni að horfa til réttlætis og sanngirni. Þetta segi ég vegna þess að ég hef verið að velta fyrir mér orðum formanns eins samfylkingarfélags sem sagði, með leyfi forseta:

„Það yrði mjög alvarlegur trúnaðarbrestur sem hefði ófyrirséðar afleiðingar fyrir flokkinn. Í það minnsta mun það leiða til harkalegra átaka sem munu væntanlega endurspeglast í því þegar fólk verður valið á framboðslista með haustinu.“

Ég vona svo sannarlega að þingmenn sem þarna er átt við taki ekki mark á þessari hótun. Það er mjög óheppilegt þegar forustumenn í stjórnmálafélögum og flokkum stíga svona fram og beina ljósinu að vandanum, þ.e. upplýsa okkur um hvað býr að baki. Það eru hótanir. Nú er búið að hóta þingmönnum að þeir eigi á brattann að sækja í prófkjöri muni þeir ekki greiða atkvæði eins og ályktað hefur verið. Þetta er áhyggjuefni, en það er að sjálfsögðu þingmannanna að vinna úr þessu og bregðast við.

Ég vona hins vegar, herra forseti, svo sannarlega að þessi tillaga fái efnislega meðferð í þinginu. Ekki er nóg með að málið sé í sjálfu sér einstakt heldur hefur komið fram hjá allmörgum þingmönnum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslu hér þegar ákæra var samþykkt að þeir telji að með einhverjum hætti hafi verið haft rangt við og því þurfi að skoða málið frekar og leita leiða til þess jafnvel að bæta úr og gera betur.

Það hefur verið bent á fjölmörg álitaefni, bæði af þingmönnum, í blaðaskrifum, af lögmönnum og prófessorum við háskóla landsins eða sem starfa sjálfstætt. Á þetta þurfum við að hlusta því að það má ekki leika vafi á því í mínum huga að Alþingi hafi tekið rökrétta, sanngjarna og heiðarlega afstöðu þegar ákveðið var að kæra einn ráðherra fyrir, ég vil leyfa mér að segja margra ára yfirsjónir, mistök eða hvað við köllum það. Það er ekki sanngjarnt. Það er ekki rétt að (Forseti hringir.) við þingmenn stöndum í því hér.



[20:51]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan í dag hefur verið, held ég að megi fullyrða, að stærstum hluta málefnaleg og góð. Ég vek athygli á því, sem er umhugsunarvert, að ég held að enginn hafi treyst sér til að fullyrða, núna þremur árum eftir bankahrunið, að við séu komin á þann stað sem við viljum vera á. Ég hef ekki heyrt neinn halda því fram að þetta svokallaða uppgjör hafi verið þannig að fólk sé sátt við það eða líði vel með það. Hér er talað um það eins og sjálfsagðan hlut að hér séu viðhafðar hótanir til að sjá til þess að hv. þingmenn greiði atkvæði rétt.

Virðulegi forseti. Það er líka umhugsunarefni að það er varla fréttnæmt að hv. þingmenn séu beittir hótunum til þess að þeir greiði atkvæði rétt eða hagi sér eins og pólitískir foringjar vilja að þeir hagi sér. Alveg burt séð frá persónum og leikendum hvet ég alla hv. þingmenn til að hugsa þetta. Vilja menn hafa hlutina svona?

Allt sem við gerum skapar fordæmi og ég hvet menn til að hafa það í huga. Hér er komin tillaga um að vísa máli frá. Ef menn samþykkja slíka tillögu núna geta þeir auðvitað gert það í nánustu framtíð. Þá er komið fordæmi fyrir því að vinna þannig á hinu hv. Alþingi. Hvað þýðir það, virðulegi forseti, að vísa máli frá? Það þýðir einfaldlega að það fær ekki eðlilega þingmeðferð.

Ég vek athygli á því að hér greiddu 63 þingmenn atkvæði með tillögu sem gengur út á að styrkja löggjafarþingið, sjá til þess að hér yrði faglegri og betri vinna. Ég held að flestir hv. þingmenn hafi á einhverjum tímapunkti talað um mikilvægi þess að þannig skyldum við vinna. Það liggur alveg fyrir að við værum ekki að ræða þessa tillögu nema vegna þess að virðulegur forseti samþykkti og taldi hana vera þinglega og hefur án nokkurs vafa, eins og allir vita, ráðfært sig við þá starfsmenn þingsins sem best þekkja til hér. Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að við ætlum samt sem áður að vísa máli frá, koma í veg fyrir að það fái eðlilega, þinglega meðferð, hvað stoppar menn þá í að gera það í öðrum málum?

Átta menn sig á því hvert við erum komin ef menn koma með þau rök að málið sé svo arfavitlaust að við ætlum bara að vísa því frá þá? Ég get haldið hér langa ræðu um það hvað hæstv. ríkisstjórn hefur komið með mörg arfavitlaus mál. Það er hægt að færa fullgild rök fyrir því að þessi hæstv. ríkisstjórn hafi komið með fleiri arfavitlaus mál en nokkur önnur. Það er alveg hægt að fara málefnalega yfir það. (Gripið fram í.) Ég verð að viðurkenna að þó að mér finnist gott að hæstv. ráðherrar séu með kímnigáfu finnst mér þetta mál ekkert sniðugt. (Utanrrh.: … heilbrigðismálunum …?) Nei, hæstv. ráðherra, það mun ég aldrei gera. Ég var afskaplega stoltur af því, (Gripið fram í.) afskaplega stoltur af þeim verkum. En það er fullkomið aukaatriði í þessu.

Ég vona að það verði aldrei regla í þessu þingi að þegar menn eru ósáttir við pólitísk mál komi þeir hingað og segi: Við ætlum að vísa málinu frá. Það mun ekki fá eðlilega þinglega meðferð. Svo sannarlega hafa menn þó á öllum tímum þinglegan meiri hluta til að ganga þannig fram.

Ég hvet menn líka til að hugsa aðeins um þá röksemd sem hér hefur komið fram um að það sé hreinlega gott fyrir fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, að fara fyrir dóm af því að það sé svo gott tækifæri til þess að hreinsa sig. Ef það á við þann einstakling, þann Íslending, á það auðvitað við alla. Vilja menn búa í þjóðfélagi þar sem það þykir sjálfsagt og eðlilegt fyrir viðkomandi einstakling að vera sóttur til saka fyrir dómstólum til þess að hann geti hreinsað sig?

Ég trúi ekki öðru en að þegar menn hugsa það alla leið komist þeir að þeirri niðurstöðu að í þannig þjóðfélagi viljum við ekki búa.

Virðulegi forseti. Svo sannarlega er tortryggni enn þá í þjóðfélaginu. Ég held að flestir séu á því að hvorki hafi vinnubrögð breyst — ég tel að vísu að þeim hafi farið aftur, ég eyði stórum hluta af mínum tíma, eins og flestir þingmenn, í að reyna að fá upplýsingar sem ekki fást. Hér áttu menn að samþykkja Icesave-samkomulagið. Ég sat í þeirri hv. þingnefnd sem fékk fyrstu gestina og spurði fulltrúa hæstv. fjármálaráðherra á fundinum: Megum við fá að sjá samninginn? Ég mun aldrei gleyma svarinu:

Nei, að sjálfsögðu fáið þið ekki að sjá hann. Þetta eru samningar við þriðja aðila sem tengjast ykkur ekki.

Þegar ég gekk eftir því sagði fulltrúi hæstv. fjármálaráðherra á endanum að hugsanlega gæti Ríkisendurskoðun skoðað samninginn og túlkað hann ofan í þingmenn.

Virðulegi forseti. Ég mun aldrei gleyma þessum orðaskiptum. Og ég vek athygli á því að Icesave-samningurinn fór fyrst á internetið, síðan fengum við hv. þingmenn sem áttum að taka ákvörðun í þessu stóra máli að sjá hann. Þetta var í þessari röð.

Hér fór fram langstærsta einkavæðing Íslandssögunnar, á bönkunum, og þrátt fyrir síendurteknar fyrirspurnir um hluthafasamkomulagið sem hæstv. ríkisstjórn gerði er það enn ekki komið í ljós.

Í mars 2009 kom yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að nú væri vandræðum á fjármálamarkaði lokið, nú mundu ekki fleiri fjármálafyrirtæki lenda í vandræðum. Síðan hafa níu fjármálafyrirtæki farið á höfuðið. Það er alveg ljóst að hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki farið eftir lögum varðandi til dæmis sparisjóðina Byr og SpKef. Og enn eru ekki komnar fram upplýsingar í því máli, virðulegi forseti. Þó er ljóst að framganga hæstv. fjármálaráðherra hefur verið kostnaðarsöm fyrir skattgreiðendur.

Virðulegi forseti. Hér hefur margt verið sagt og farið mjög vel yfir efnisatriði þessa máls. Ég held að allir viti hvar ég stend í því. Það sem ég ætlaði þess vegna að gera í þessari stuttu ræðu var að hvetja menn til að hugsa um það hvaða afleiðingar gerðir okkar hér í dag hafa. Ef við sköpum það fordæmi að það sé sjálfsagt og eðlilegt að mál fái ekki hefðbundna þinglega meðferð vegna þess að við séum andsnúin því verður það alveg örugglega gert aftur. Ég trúi því að við viljum öll sjá hér betri vinnubrögð, við höfum öll sagt það. Ég held að við séum öll sammála um að við erum víðs fjarri því að hafa náð því markmiði en við getum gert vont ástand enn þá verra með því að samþykkja þessa frávísunartillögu.

Ég hvet okkur síðan til að fara málefnalega yfir það hvernig við getum unnið hér saman að því að efla traust í þjóðfélaginu. Mér finnast hugmyndir (Forseti hringir.) um sannleiksnefndir nokkuð sem við ættum að skoða mjög vel.