153. löggjafarþing — 28. fundur
 9. nóvember 2022.
heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni, fyrri umræða.
þáltill. VilÁ o.fl., 163. mál. — Þskj. 164.

[17:04]
Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég er mjög glaður að fá að mæla hér fyrir þingsályktunartillögu um heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni. Með mér eru aðrir 23 þingmenn úr öllum flokkum á Alþingi nema einum, það er enginn frá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði en við skulum sjá hvernig það fer í meðförum þingsins á málinu.

Ég vil bara byrja á að lesa tillöguna sjálfa sem er frekar stutt:

„Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra, í samstarfi við aðra ráðherra er málið snertir, að undirbúa og leggja til nauðsynlegar breytingar, hvort sem er á lögum, reglugerðum eða með öðrum hætti, sem heimila rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efnið sílósíbín í geðlækningaskyni og skapa skýra umgjörð fyrir sérhæfða meðferðaraðila um notkun efnisins í þeim tilgangi. Tillögur ráðherra liggi fyrir eigi síðar en á vorþingi 2023.“

Þarna er heilbrigðisráðherra með öðrum orðum falið að hafa samstarf um það að liðka fyrir þannig að hér á landi geti rannsóknir og tilraunir farið fram um notkun á þessu hugvíkkandi efni, sílósíbíni, sem er nú þegar komið í mjög mikla notkun hér á landi. Þetta efni er unnið úr virku efni úr vissum tegundum af sveppum og það hefur verið notað í þúsundir ára og virkni þess verið þekkt lengi. Um tíma var hætt að nota þetta efni en undanfarin ár hefur vitneskjan um áhrif efnisins á geðsjúkdóma og aðra fíknisjúkdóma og kvilla fengið aukna athygli og því hefur notkunin á þessu efni aukist mjög mikið. Það er augljóst að hér á landi hefur þessi notkun vaxið mikið með góðum árangri fyrir flesta þá sem hafa prófað það. Ég held því, og við flutningsmenn erum sammála um það, að það sé mikilvægt — þegar um er að ræða efni sem gefur góðar vísbendingar um árangur og fólk er farið að nýta sér, þó að það sé ólöglegt — að bregðast við, gera skýra umgjörð og fá að vita meira. Margir virtir háskólar, bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum, eru farnir að rannsaka virkni efnisins og annað slíkt, farnir að setja í það mikla fjármuni og tíma með flottum rannsakendum. Lyfjafyrirtækin eru líka farin að skoða þetta og búin að fara í gegnum annan fasa af rannsókn og eru að fara af stað með þriðja fasa af rannsóknum. Það væri náttúrlega frábært ef Ísland gæti tekið þátt í slíkri rannsókn, það gæti hjálpað okkur mikið. Það er þekkt að hér á landi sé gott að gera klínískar rannsóknir og rannsóknir á notkun efna og lyfja og öðru slíku, af því að samsetningin, smæð þjóðarinnar, nálægð fræðimanna og annað slíkt, er slík að það hefur gefið góða raun. Því setjum við markmiðið skýrt fram.

Markmið tillögunnar er að Ísland verði leiðandi í rannsóknum á gagnsemi hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni, en alþjóðlegar rannsóknir benda til þess að umrædd efni geti valdið straumhvörfum í meðhöndlun geðraskana. Markmið tillögunnar er jafnframt að rannsóknir og tilraunir með hugvíkkandi efni í geðlækningaskyni verði alfarið í höndum fagfólks í heilbrigðisþjónustu.

Það er einmitt eitt af markmiðunum með tillögunni að koma rannsóknunum af stað og gera þessa umgjörð svo að notkunin verði ekki sjálfsprottin heldur frekar undir handleiðslu fagfólks. Það er mjög mikilvægt af því að það geta verið alvarlegar aukaverkanir af þessu efni eins og öllum öðrum efnum sem eru notuð í geðlækningaskyni og því skiptir miklu máli að umgjörðin sé skýr og vitneskjan sé sem mest.

Hugvíkkandi efni á borð við sílósíbín, sem er virkt efni í um 250 mismunandi sveppategundum, falla í dag undir skilgreiningu á 1. mgr. 2. gr. laga um ávana- og fíkniefni og er varsla slíkra efna þar af leiðandi óheimil. Síðustu ár hefur rannsóknum á hugvíkkandi efnum, sér í lagi sílósíbíni, fleygt fram samhliða aukinni notkun efnanna. Bandarísk rannsókn, sem unnin var af hópi þarlendra fræðimanna, m.a. við Harvard-háskóla, og birt á National Library of Medicine árið 2021 bendir til þess að möguleikar sílósíbíns í geðlækningaskyni séu miklir, fordómar gagnvart notkun efnisins séu þó töluverðir og brýnt að vinna bug á þeim svo að unnt sé að stunda frekari og útbreiddari rannsóknir á efninu. Í Bandaríkjunum hafa stjórnvöld skilgreint sílósíbín sem ólöglegt ávana- og fíkniefni frá árinu 1971 en notkun efnisins var útbreidd vestanhafs á sjöunda áratugnum.

Rannsókn sem gerð var af fræðimönnum við læknadeild Johns Hopkins háskóla bendir til þess að hægt sé að draga verulega úr alvarlegum einkennum þunglyndis með notkun sílósíbíns. Rannsókn fræðimanna við New York háskóla bendir og til þess að notkun efnisins við meðferð vegna áfallastreituröskunar og annarrar úrvinnslu áfalla geti verið gagnleg. Þá benda niðurstöður klínískrar rannsóknar, sem greint var frá í JAMA, tímariti bandarísku læknasamtakanna, fyrr á þessu ári til að sílósíbín skili árangri við að hjálpa ofdrykkjufólki að draga úr áfengisneyslu eða hætta alfarið. Rannsóknir á notkun sílósíbíns við líknandi meðferð eða lífslokameðferð hafa einnig verið fyrirferðarmiklar á síðustu árum. Alls tóku 10 lönd og um 230 einstaklingar þátt í öðrum fasa rannsóknar breska lyfjafyrirtækisins COMPASS Pathways á meðferð við þrálátu þunglyndi með sílósíbíni, þeirra á meðal Bretland, Danmörk og Þýskaland. Fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að sílósíbín sé hvort tveggja öruggt og skilvirkt í geðlækningaskyni, að því gefnu að meðferð sé stýrt og fylgt eftir af sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki. Það skiptir mjög miklu máli og er ein af ástæðum þess að mikilvægt er að bregðast hratt við hér á landi til að tryggja að meðferðinni sé stýrt og fylgt eftir af sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki. Áætlað er að þriðji fasi sömu rannsókna hefjist veturinn 2022–2023 í a.m.k. 15 löndum og gert er ráð fyrir þátttöku allt að 700 einstaklinga. Ég kom inn á það áðan að það væri mikilvægt að Ísland gæti orðið þátttakandi þarna, og ég veit að það er í skoðun.

Í fréttaskýringaþætti Kveiks, sem sýndur var á Ríkisútvarpinu í febrúar 2022, var fjallað um þá möguleika sem felast í notkun sílósíbíns í geðlækningaskyni. Rætt var við dr. David Nutt, prófessor í taugageðlyfjafræði við Imperial-háskólann í Lundúnum, en Nutt hefur ásamt fleirum stundað leiðandi rannsóknir á notkun hugvíkkandi efna í geðlækningaskyni í tvo áratugi. Nutt telur notkun hugvíkkandi efna eiga eftir að bylta geðlækningum á næstu áratugum séu efnin notuð rétt. Þá bendir Nutt á að sílósíbín hafi verið notað árþúsundum saman og að fengin reynsla sýni að efnið sé öruggt til notkunar.

Í umfjöllun Kveiks var einnig rætt við Víði Sigrúnarson, geðlækni á sjúkrahúsinu Vogi, sem bendir á að sílósíbín sé ekki ávanabindandi og því sé hætta á að einstaklingar ánetjist efninu takmörkuð. Víðir segir efnið þó ekki hættulaust, sér í lagi ef þess er neytt samhliða annars konar efnum. Einstaklingar leiti þó ekki á Vog vegna neyslu sílósíbíns eingöngu. Þá varar Víðir við neyslu sílósíbíns án samráðs við fagfólk, enda geti efnið til að mynda leitt til þess að einstaklingar með undirliggjandi eða ógreinda geðsjúkdóma fari í geðrof við eða í kjölfar neyslu sílósíbíns. Það á náttúrlega einnig við um önnur lyf sem við erum að nota í geðlækningaskyni og öðru þannig að þetta skiptir allt máli.

Flutningsmenn tillögunnar telja brýnt að rannsóknir á notkun sílósíbíns í geðlækningaskyni verði alfarið framkvæmdar á vegum fagfólks og að kannað verði til þrautar hvort efnið geti valdið þeim straumhvörfum í geðlækningum sem ýmsir fræðimenn hafa boðað. Ávinningurinn gæti orðið verulegur, ekki síst á Íslandi þar sem um 60.000 einstaklingar glíma við geðræn vandamál. Geðlyfjanotkun á Íslandi hefur rúmlega tvöfaldast á síðustu 15 árum. Árið 2005 var 627 skömmtum af geðlyfjum ávísað á hverja 100.000 íbúa, en árið 2020 voru skammtarnir orðnir 1.317. Talið er að hefðbundin þunglyndislyf gagnist ekki í um þriðjungi tilfella. Þetta er líka eitt af því sem drífur okkur flutningsmenn áfram í þessu, þ.e. eftirvæntingin og þörfin og vonin um að hér sé eitthvað á ferðinni sem geti tekið okkur stórt skref áfram til að styðja við geðheilsu fólks.

Þörfin er mikil. Áskoranir eru miklar og því verðum við, þegar við fáum svona jákvæðar vísbendingar, að bregðast við og gera hvað við getum til að ná stórum skrefum fram á við. Við teljum að það sé mikilvægt hér á landi, bæði af því að Ísland getur hentað vel til svona rannsókna og framþróunar í þessu og líka vegna þess hve margir eru farnir að nota þetta hér á landi. Ég get upplýst það hér að eftir að málið kom fram hef ég fengið fjöldann allan af sögum frá einstaklingum sem lýsa árangri sínum vegna notkunar á sílósíbíni. Það eru einstaklingar sem eru að gera það án þess að efnið sé komið inn í heilbrigðiskerfið. Þeir sjá árangurinn og það sýnir okkur að þetta er að hjálpa fjölda fólks út úr kvillum og áskorunum sem önnur lyf dugðu ekki til og tengjast öllu því sem ég þuldi upp áðan, hvort sem það eru fíknisjúkdómar eða langt gengið þunglyndi eða önnur geðræn vandamál. Það hefur líka heyrst að þeir sem vita minna um efnið eru farnir að bjóða þjónustu sína sem getur verið hættulegt eins og hefur komið fram. Því skiptir miklu máli að ná hratt utan um þessa umgjörð, taka þessu opnum örmum, ekki vera hrædd við þessa umræðu.

Geðheilbrigðismál eru ein stærsta áskorunin okkar og eru eitt mikilvægasta mál sem við tökumst á við hér á Alþingi. Því fagna ég því hve margir þingmenn eru sammála um að vinna þessu máli lið. Ég trúi því að þverpólitískt getum við tekist á við þessi mál saman og náð árangri fyrir okkar samfélag. Ég vil þakka öllum hv. þingmönnum sem hafa lagt málinu lið og legg til að málið fari áfram til hv. velferðarnefndar sem ég trúi að vinni málið hratt og vel. Vonandi náum við að afgreiða málið fyrir jól en við gefum ráðherra tíma til vorþings 2023 til að vinna að þeim undirbúningi sem þarf til að koma þessu af stað. Notkunin er mikil, eftirvæntingin er mikil og því liggur okkur á.



[17:19]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Það er mikilvægt að við hugsum út fyrir boxið, eins og það er kallað, þegar kemur að geðheilsu fólks, hvernig má bæta hana. Það er athyglisvert að sjá að breið samstaða er innan þingsins um að skoða þessi mál. Mér þykir einmitt mjög athyglisvert að sjá hve mikilvægt er að þetta sé gert í gegnum fagfólk og í gegnum heilbrigðisgeirann í stað þess að fólk sé að gera þetta á eigin vegum. Það eru fleiri lyf og fleiri náttúrlegar lausnir eins og þessi sem fólk hefur verið að prófa í lækningaskyni. Við höfum séð mörg fylki Bandaríkjanna leyfa notkun kannabis í lækningaskyni. Það eru líka til rannsóknir á því hvernig hægt er að nýta sumt sem hingað til hefur kannski verið skilgreint sem fíkniefni. Þegar þessi efni eru tekin og rannsóknir gerðar í gegnum fagfólk kemur í ljós að hægt er að nýta eiginleika þessara efna. Við erum stundum of blind fyrir því að gera slíkt vegna þess að við höfum áður skilgreint þetta sem fíkniefni.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér, ef þessar rannsóknir og prófanir ganga vel, að hann verði opinn fyrir því að skoða fleiri slík efni.



[17:21]
Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, að sjálfsögðu er ég hlynntur því og ég held að það sé mikilvægt að við séum dugleg að rannsaka eiginleika sem flestra efna. Grunnrannsóknir eru mjög mikilvægar mjög víða í allri framþróun. Við eigum, sérstaklega með svona náttúruleg efni, að setja mikinn fókus á að rannsaka eiginleika þeirra og nýta sem best. Ég held að það sé mun betra en að nota mörg önnur efni. Ég tók þátt í því í hv. velferðarnefnd að breyta löggjöfinni varðandi hampinn og CBD-olíuna. Þar eigum við enn eftir að breyta löggjöfinni varðandi blómin eða virku efnin í hampinum o.fl., ég held að það sé mjög mikilvægt.

Ég vil þó taka fram að við erum að fjalla um sílósíbín hér og það kom fram í ræðu minni áðan að það er staðfest að það er ekki ávanabindandi efni þannig að það myndar ekki þessa fíkn. Það skiptir miklu máli og breytir leiknum töluvert hvað þetta efni varðar.



[17:23]
Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni fyrir svörin. Það er gott að við erum tilbúin að hugsa út fyrir boxið. Já, ávanabindandi; það er einmitt mjög mikilvægt að ekki sé verið að skapa fíkn með þessu. En það er hægt að rannsaka þessi mál.

Mig langaði í seinni spurningunni að nefna það sem kemur fram í greinargerðinni, þ.e. að sílósíbín er virka efnið í 250 mismunandi sveppategundum. Mig langaði því að spyrja hvort hv. þingmaður hafi vitneskju um það hvort skilyrði séu fyrir því á Íslandi að framleiða þetta efni í massavís, ef þetta gengur upp, hvort þetta sé kannski möguleg útflutningsvara í framtíðinni.



[17:24]
Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Já, ég held nefnilega og hef heyrt af því að á hausti, á þessum tíma, séu einmitt kjöraðstæður til þess, af því að þetta snýst um rakastig og birtu og annað slíkt. Ég veit líka að íslenskir garðyrkjubændur eru komnir mjög langt í því að þróa árstíðirnar og allt það fyrir sveppina og eru komnir langt í þeirri framleiðslu. Eins og ég kom inn á áðan er margt hentugt á Íslandi og ekki bara hvað rannsóknirnar varðar heldur erum við líka með mjög mikið land og mikla þekkingu í ræktun. Hvort sem við erum að tala um hamp, sveppi eða annað slíkt þá held ég að íslenskir bændur geti hjálpað okkur mikið í þessum efnum.



[17:25]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka framsögumanni þessa máls fyrir framsöguna. Ég er ekki meðflutningsmaður á því en ég hélt ég hefði tilkynnt að ég ætlaði að vera meðflutningsmaður. Ég verð að viðurkenna, eins og kemur fram í greinargerð eru fordómar gagnvart notkun efnisins, að kannski hef ég verið með slíka fordóma, ég veit það ekki, en ég hélt ég hefði orðið meðflutningsmaður. Ég vil taka fram að ég styð þetta mál. Það var talað um að hugsa út fyrir boxið. Ég las einmitt grein í Economist sem heitir „Thinking Outside The Box“ þar sem fjallað var um rannsóknir í taugalíffræði og þetta er mjög áhugavert svið.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Það eru 250 mismunandi sveppategundir sem innihalda sílósíbín. Vex einhver af þeim tegundum á Íslandi? Það kemur fram að varsla þessa efnis er óheimil, samkvæmt hinni hefðbundnu skilgreiningu í lögum um ávana- og fíkniefni frá 1974. En svo segir líka, eins og kom fram í máli framsögumanns áðan, að sílósíbín sé ekki ávanabindandi. Samt fellur það undir skilgreiningu laga um ávana- og fíkniefni. Þetta er ólöglegt efni á Íslandi, er það ekki? Ég er svolítið í vafa, en það kemur fram í greinargerð að þetta sé ólöglegt ávana- og fíkniefni í Bandaríkjunum og hefur verið frá 1971. Það væri gott að fá svar við þessari spurningu, hvort efnið sé ekki örugglega ólöglegt hér. Og ef efnið er ekki ávanabindandi, af hverju er það þá ólöglegt? Það er grundvöllur þess að efnið sé ólöglegt að það sé einmitt ávana- og fíkniefni.



[17:27]
Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Já, það skal upplýst hér í upphafi að það kemur mér á óvart að nafn hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar skuli ekki vera á listanum. Ég bað um að allur Flokkur fólksins yrði á málinu og þar á meðal Eyjólfur Ármannsson. Þetta er líklega einhver yfirsjón og vonandi náum við að leiðrétta það. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna. Ég legg það til hér, virðulegi forseti, að nafni hans verði bætt á málið fyrst við erum byrjuð að flytja það.

Ég tel mig geta fullyrt að töluvert af þessum sveppategundum vaxi hér, að hægt sé að vinna efnið úr sveppum sem vaxa hér á landi. En ég tek fram að ég er ekki sérfróður um málið enda ekki heilbrigðisstarfsmaður. Ég er aðallega að flytja þetta mál af tveimur ástæðum: út af því að þetta hjálpar mörgum og ég er maður frelsisins; ef það er eitthvað sem er að virka fyrir fólk þá á að rannsaka það úrræði og veita leyfi fyrir því. Ég taldi mjög mikilvægt að gera þessa umgjörð löglega og búa hana til.

En af hverju er efnið fellt undir lög um ávana- og fíkniefni? Það má rekja það aftur til ársins 1970–1971 í Bandaríkjunum. Það er ekki flóknara en svo að efnið hefur verið notað í um 3.000 ár en á svokölluðu hippatímabili í Bandaríkjunum var viss hópur farinn að misnota efnið. Þá var verið að taka á misnotkun fíkniefna yfir höfuð í Bandaríkjunum og þannig rataði þetta efni inn í þá löggjöf, undir ávana- og fíkniefnalöggjöfina, og var bannað og hefur svo komið hingað til lands samhliða því.



[17:30]
Forseti (Andrés Ingi Jónsson):
Bráðabirgðaútgáfa.

Forseti verður að hryggja hv. þingmenn með því að ekki er hægt að bæta við flutningsmönnum eftir að flutningsræða hefur verið haldin en afstöðu hv. þm. Eyjólfs Ármannssonar hefur verið komið á framfæri í ræðu og stuðningur hans við málið liggur því fyrir í þingtíðindum þó að ekki sjáist nafn hans á skjalinu sjálfu.



[17:30]
Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

[hlusta]

Virðulegur forseti. Hér hafa kannski orðið stórkostleg mistök en ég skrifa þetta dálítið á sjálfan mig vegna þess að ég var mjög hugsi fyrst þegar ég sá þessa tillögu. Ég held ég hafi ekki sagt já strax. En ég fór að skoða þetta nánar, sérstaklega eftir að hafa lesið þessa tímaritsgrein í lok október; ég tók mynd af greininni og hún var tekin þann 26. október.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Eru einhver sérstaklega góð skilyrði á Íslandi til þessara rannsókna og tilrauna með þetta hugvíkkandi efni, sílósíbín? Hann vex ekki í íslenskri náttúru, sveppurinn. Hvaða skilyrði eru sérstaklega til staðar á Íslandi til að stunda þessar rannsóknir? Ég efast ekki um að þetta eru flóknar rannsóknir og kosta mjög mikið.

Önnur spurning sem mig langar að beina til hv. þingmanns er: Hv. þingmaður nefndi að það væri hópur manna á Íslandi sem notar þetta lyf. Það er væntanlega ekki samkvæmt læknisráði. Er það þá bara samkvæmt almannaþekkingu á málinu og er það þá gert ólöglega? (Forseti hringir.) Þetta efni er óheimilt samkvæmt lögum? Er þá ekki verið að brjóta lögin eða hver er grundvöllurinn fyrir notkuninni á Íslandi?



[17:32]
Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Skilyrðin til að rækta sveppina skipta ekki öllu máli. Ég held að þau skilyrði yrðu alltaf búin til innan húss ef farið yrði í þessa framleiðslu, hvort sem er hér á landi eða annars staðar. Það sem er gott við Ísland, hvað varðar rannsóknir á þessu, er það hve fá og smá við erum, hve boðleiðir eru stuttar og hve stutt er á milli rannsóknaraðila og þeirra sem framkvæma rannsóknirnar. Ég held að mengið sem Ísland er sem rannsóknastofa sé mjög hagkvæmt og lyfjafyrirtæki hafa leitað hingað, t.d. varðandi lyf til að lækna lifrarbólgu o.fl.; þar var hægt að rannsaka heila þjóð og það eru slík skilyrði sem eru góð hér.

En jú, varsla þessa efnis er ólögleg en ekki neysla þess og þetta er sjálfsprottin þekking. En ég veit til þess að heilbrigðisstarfsmenn og geðlæknar eru að mæla með þessu og hafa að einhverju leyti aðstoðað við þetta, held ég.



[17:33]
Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmanni, hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni, fyrir að hafa farið vel yfir þessa þingsályktunartillögu. Auðvitað er það svo að við ræðum oft hér í þingsal þann vanda sem steðjar að varðandi geðheilbrigðismál í landinu og hann er víðtækur. Við höfum mörg úrræði, m.a. lyfjagjöf. Þegar fram koma vísbendingar um að tækifæri sé fólgið í því að rannsaka frekar efni eins og sílósíbín, til að skoða kosti þess að nota það í þessum tilgangi, fagna ég því að við séum að stíga hér skref til að auðvelda þá vegferð og tel það mikilvægt. Ég tek líka undir það með flutningsmanni að rannsóknir hér á landi, ekki bara á sílósíbíni heldur almennt, eru nokkuð hagfelldar. Það skiptir til að mynda máli við slíkar rannsóknir að fólk sé jákvætt fyrir þátttöku og að við séum með góðan hóp af vísindamönnum sem geti verið í alþjóðlegu samstarfi.

Spurning mín til flutningsmanns snýr kannski fyrst og fremst að því hvort hann taki ekki undir það með mér að hin faglega umgjörð og jarðvegurinn sem er hér á Íslandi til þess að vera leiðandi í rannsóknum á þessu sviði kalli jafnvel á það að í framhaldinu, þegar þessi vinna er búin, munum við áfram huga að því að reyna að styrkja rannsóknarumhverfið hér á landi, sérstaklega í ljósi þess að við erum hér með virt lyfjafyrirtæki sem hafa verið að hasla sér völl og horfa þá ekki síst, eins og nefnt hefur verið í þessari umræðu, til hins stóra heims í því tilliti, þ.e. að rannsóknirnar skili sér alla leið, ekki bara til okkar hér innan lands heldur ekki síst til fólks um allan heim sem glímir við heilbrigðisvandamál.



[17:35]
Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og tek heils hugar undir það með honum að þó að við séum kannski frekar smá, eða alla vega fámenn, hér á landi þá getum við leyft okkur að hugsa stórt í þessum málum sem og mörgum öðrum. Við eigum hér framúrskarandi heilbrigðisvísindafólk og við eigum öflug fyrirtæki, eins og t.d. DeCode eða Íslenska erfðagreiningu sem er hágæðafyrirtæki á sínu sviði. Ég veit að þessi fyrirtæki eru að horfa til rannsókna á sílósíbíni og eru að rannsaka mörg önnur efni. Við erum gott mengi, það er hægt að fá mjög mikinn fjölbreytileika og margar upplýsingar þar sem við getum tekið svo stórt hlutfall af heilli þjóð í rannsóknum af þessu tagi og nálægðin er mikil o.s.frv. Ég held því að við getum lagt mikið af mörkum fyrir heiminn með því að taka okkur stórt pláss í þessari umræðu og þessum rannsóknum. Það yrði tekið eftir því út um allan heim og það getur aðstoðað aðra en mun fyrst og fremst veita mörgum af þegnum okkar lausn sinna áskorana hvað varðar geðheilsu.



[17:37]
Jóhann Friðrik Friðriksson (F) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Herra forseti. Ég þakka fyrir mjög góða umræðu. Nú er það svo að rannsóknir á lyfjum taka langan tíma og það getur oft tekið fleiri ár að koma lyfi á markað. Nú virðist svo vera að neysla á þessu efni sé fyrir utan þann ramma sem þessi tillaga snýst einmitt um, að þetta fari inn í ramma, að þetta verði faglegt, að umgjörðin verði fagleg, ekki bara varðandi rannsóknir heldur ekki síður það sem kemur í kjölfarið. Það sem ég velti fyrir mér og langar að spyrja flutningsmann um er: Er ekki líklegt að við þurfum að hafa ákveðna væntingastjórnun í huga í framhaldinu ef vel gengur, bara í ljósi þess hve langan tíma rannsóknir taka? Þá velti ég fyrir mér, og spyr hv. þm. Vilhjálm Árnason, hvort það væri þá færi á því að veita einhvers konar tæki eða tól til að hraða slíkri þróun.



[17:38]
Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Á meðan rannsóknin stendur yfir miðast framkvæmdin við að hafa sem stærst þýði og það eru hundruð manna sem taka þátt í rannsókninni í hverju landi. Það gæti orðið mjög stórt hlutfall hér á landi þannig að ansi margir gætu fengið þjónustu á rannsóknartímanum af því að þriðja fasa rannsóknir eru að fara í gang. Margir stórir og virtir háskólar úti í heimi eru búnir að setja heilu deildirnar sínar í þetta og mikið fjármagn þannig að við erum komin vel á veg, við búum að því. Þetta hefur verið í gangi lengi þannig að ég held að við gætum óvenjusnemma séð árangur af því að styrkja umgjörðina í þessum rannsóknum og ég held að við eigum að grípa það tækifæri.



[17:40]
Tómas A. Tómasson (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn og kæra þjóð. Mér finnst þetta góð hugmynd. Ég þekki nokkra einstaklinga sem nú þegar eru að prófa sig áfram í sveppanotkun. Reyndar ekki samkvæmt lögum og reglum, en þetta er alla vega í gangi. Ég sé ekki að þeir hafi beðið skaða af. Ég segi: Undir eftirliti er alveg sjálfsagt að gera þessar tilraunir með þá sveppi sem hér er verið að ræða um því að það vantar alltaf ný meðul. Eftir umræðuna í dag um geðheilbrigðisvandann er ljóst að okkur veitir ekki af að finna eitthvað nýtt sem virkar.



[17:40]
Jakob Frímann Magnússon (Flf):
Bráðabirgðaútgáfa.

Virðulegi forseti. Ég vil þakka flutningsmanni þessarar tillögu fyrir að leggja þetta mál fram og koma því í umræðu. Ég er í hópi meðflutningsmanna og hef fulla trú á þessari vegferð. Ég þekki marga úr fremstu röð geðlækna á Íslandi sem hafa trú á þessari vegferð og sömuleiðis marga sem hafa glímt við andlega erfiðleika af einhverjum toga sem hafa hlotið gott af. En það þarf að gera þetta með vísindalegri ögun og mælistikum ef þetta á að verða framtíðarlyfseðill og koma að gagni. Þetta getur sannarlega orðið ábatasamt fyrir þá sem kæmu til með að hefja framleiðslu ef vel tekst til.

Það er rétt að minna á að um miðjan fimmta áratug síðustu aldar var einn fremsti vísindamaður heims í læknavísindum, Albert Hoffmann, sem Hoffmann-La Roche lyfjarisafyrirtækið er nefnt eftir, fyrir algjöra tilviljun kominn á svipaðar slóðir. Hann var að leita að meðali við augnbotnahrörnun og rambaði á svepp, myglaðan rúg, sem hann taldi að gæti gagnast. Sveppurinn rataði óvart í munnholið á honum, hann sleikti á sér puttana eftir að hann var búinn að skoða hann í smásjánni og fann fyrir áhrifum sem hann hafði ekki áður kynnst. Eftir að hafa tekið til við að rannsaka málið — þetta er í kjölfarið á því að það uppgötvaðist sveppur sem megnaði að bjarga hundruðum milljóna mannslífa, ég er að tala um pensilínefnið. Albert Hoffmann hélt því fram að þetta væri merkilegasta geðlyf sem hefði uppgötvast og hóf að rannsaka það með vísindalegum nálgunum. Hann taldi að þarna gæti verið efni sem gagnaðist við lækningar á margs konar geðvanda og fíknivanda, einnig hjónalífsvanda. En það varð þessum rannsóknum að fótakefli og til trafala að þetta efni, sem er auðvitað ekki nákvæmlega það sama og hér er verið að ræða um en náskylt, varð að einhvers konar tískuefni sem blandað var saman við hættuleg efni eins og amfetamín og rottueitur og markaðssett undir yfirskriftinni Ferðalagið, The Trip. Þessi eiturefni sem þarna var blandað saman til að búa til það sem kynnt var sem þetta stórhættulega efni varð til þess að Nixon-stjórnin taldi að þarna væru öfl hins illa að verki og lét stöðva allar rannsóknir af þessum toga sem verið var að vinna að á sjúkrahúsum og háskólum á þessum tíma. Þar með stöðvaðist ferlið og tiltrúin á þetta efni. Það var ekki sveppnum að kenna heldur efnunum sem blandað var saman við hann sem gáfu honum slæma ímynd og orðspor. En hreinræktuð íslensk vara, beint úr hreinni íslenskri náttúru með hreinu íslensku vatni, er efni sem ég held að við eigum að horfa til björtum augum og vonglöð um að þarna séum við að fara að feta nýja slóð. Ég veit að Geðhjálp og fleiri samtök horfa mjög til þessa og eins og fram hefur komið er þegar verið að neyta þessara efna, undir eftirliti en líka án eftirlits.

Ég vona að málið nái fram að ganga hér í þinginu og ég bind vonir við það þegar ég heyri svo jákvæða flutningsmenn úr meirihlutasamstarfinu sem vilja sjá þetta gerast. Ég vil enn og aftur þakka fyrir umræðuna og þakka flutningsmanni fyrir frumkvæðið í þessu og öðrum sem hér hafa tekið til máls. Áfram veginn, eins og Tommi segir.



Frumvarpið gengur til 2. umr. 

Frumvarpið gengur til velfn.